Tekst vel smurðum áróðursvélum að brytja niður fylgi Besta flokksins á síðustu metrunum?

Mikill titringur sem Jóni Gnarr og hans kátu mönnum hefur tekist að koma í gang. Það merkilegasta við þetta allt saman er hvað vinsældir hans bæði pirra og gleðja. Það er hugsanlega enn kaldara á toppnum í stjórnmálum heldur en í listaheiminum.

Það er áberandi hvernig fjórflokkarnir eru fastir í skotgröfum, fyrir utan kannski Sjálfstæðisflokk, sem hefur ekki verið að skjóta eiturpílum að hinum, heldur verið með mun sterkari og vandaðri áróðursbrögð og markaðssetningu. Þeir ná langt á því. Einnig hefði ég getað svarið að þegar ég hlusta á Hönnu Birnu, að hún talar nákvæmlega eins og Þorgerður Katrín. Mér finnst það frekar skondið. Aðrir flokkar eru sífellt að deila á hina flokkana og það stelur frá þeim orku.

Dagur ræðir um atvinnumálin sem aðalmálefni, en þar sem hann er varaformaður flokks sem er í ríkisstjórn og sem einnig hefur Félagsmálaráðuneytið á sínu borði, finnst mér að hann ætti frekar að berjast fyrir því að koma hinum stórskaðlega Árna Páli úr ráðherrastól og setjast sjálfur í hann. Þar held ég að Dagur gerði mikið gagn. Hann er réttur maður á röngum stað í borgarpólitík.

Sóley Tómasdóttir er svolítið spes. Hún fattar ekki að með stöðugum árásum á Sjálfstæðisflokk græðir hún aðeins einhver hatursatkvæði. Á sama hátt getur hún grætt atkvæði með því að ráðast á klám og annað slíkt.

Einar Skúlason er drengur góður, en virðist hafa lítið til málanna að leggja.

Baldvin hjá Reykjavíkurflokknum er töffari sem ætti að fá góð verkefni hjá þeim sem sigrar í þessum kosningum.

Ólafur F. fer með slíku offorsi gegn Framsóknarflokki að það er með ólíkindum. Framsóknarflokkurinn er eins og vængbrotinn fugl í dag, og ég einfaldlega vorkenni honum þegar læknirinn fer að reita af honum fjaðrirnar. 

Helga Þórðardóttir, hjá Frjálslyndum, virðist vilja þjóða samfélagi sínu á einhvern hátt. Virðingarvert. 

Mér líst vel á það sem Jón Gnarr hefur verið að segja um samvinnu, ef hann meinar það, að mikið af góðu fólki sé innan sérhvers stjórnmálaflokks, og hann sé tilbúinn að vinna með því fólki sem sýnir áhuga á að leggja hönd á plóg (vinna vinnuna sína) og fyrir heill borgarbúa.

Ætti ég heima í Reykjavík gæti ég ekki kosið annað en Besta flokkinn. Hins vegar finnst mér afar áhugavert að sjá hvað áróðursmaskínur Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru öflugar, og viss um að þeim hafi tekist að sannfæra fullt af fólki sem er óákveðið.

Besti flokkurinn er ennþá sá fyndnasti. En hann hefur skotið sig í fótinn með því að allt í einu eru farnar að heyrast skynsamar raddir innan hans sem hafa töluvert merkilegt að segja. Ég efast um að fólk sé jafn tilbúið fyrir skynsemi og fyrir húmor.


mbl.is VG útilokar samstarf við Sjálfstæðisflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Úr aðgerðaáætlun Besta flokksins: 

"Gerum listir að grunnþætti í skólastarfi líkt og aðrar þjóðir eru að gera og í samræmi við tillögur UNESCO; Vegvísir til listfræðslu. Tökum forystu á því sviði"

Verð að viðurkenna að þessi hugmyndafræði og fleira hjá Besta flokknum heillar.  Þetta er svo sannarlega ekki eintómt grín.

Ég er tilbúin fyrir húmor + skynsemi. 

Jóhanna Magnúsdóttir, 29.5.2010 kl. 10:30

2 Smámynd: SeeingRed

Gnarr fór á kostum að venju í sjónvarpinu í gær og hans nálgun dró skýrt fram hversu fastir dindlar fjórflokkanna eru fastir í gömlum hártogunum og puttabendingum, óbærilegt að hlusta á morfíslegt þrefið úr gamalkunnum skotgröfum. Hanna Birna virkar á barmi taugaáfalls í hvert skipti sem hún opnar munninn og fulltrúar Framsóknar og Frjálslyndra ullu óbærilegri syfju þegar þeir reyndu að tjá sig, Sóley Tómasar jafn þreytandi og venjulega eins og við var að búast. Nokkuð ljóst að Besti Flokkurinn er að fara að rúlla þessum kosningum verðskuldað upp og Jón Gnarr vonandi næsti borgarstjóri...allt betra en taugahrúgan Hanna Birna.

SeeingRed, 29.5.2010 kl. 12:47

3 identicon

Það er kannski ekki endilega grínið og mikið fygli besta flokksins sem vekur athygli mína, heldur miklu frekar það að þegar fram kemur framboð sem byggir á heiðarleika og skynsemi að þá köllum við það grínframboð!

Ef kosningaloforð þeirra eru skoðuð þá kemur eiginlega í ljós að öll hin framboðin séu mun meira grín en Besti flokkurinn. Ef málefni Besta flokksins eru skoðuð með opnu hugarfari þá kemur í ljós að þau eiga öll sterka tengingu í stjórnmálin á mjög skemmtilegan og gagnrýnin hátt. Í stað þess að hafa skoðað tenginguna höfum við hins vegar einblínt á að um grín sé að ræða án þess að það skipti nokkru máli. Heiðarleiki er grín!

Kristbjörn H. Björnsson (IP-tala skráð) 29.5.2010 kl. 14:47

4 Smámynd: SeeingRed

Það hefur löngum þótt kjánalegt að vera heiðarlegur og vera hreinskilinn í pólitík og ekki líklegt til árángurs við að brölta upp á toppinn. Ég vil gjarnan heiðarlegann og óspilltan mann í borgarstjóraembættið og Gnarr er kjörin til starfans, einlægni og heiðarleiki í stjórnmálum er eitthvað sem ekki ætti að hlægja að, heldur fagna.

Mér líst vel á hvernig málin eru að þróast í rétta átt og fagna almennu ofnæmi fyrir fyrirgreiðslupólítíkusum og frasafroðusnökkum fjórflokaana.

SeeingRed, 29.5.2010 kl. 15:07

5 Smámynd: ThoR-E

SeeingRed:

Vissulega er Besti-Flokkurinn heillandi hugmynd og koma ferskir inn í borgarmálin.

En þú getur ekki sagt að Jón Gnarr hafi staðið sig vel í sjónvarpinu í gær, eins og t.d Kastljósinu. Sérstaklega ekki ef þú horfðir á þáttinn.

ThoR-E, 29.5.2010 kl. 19:40

6 Smámynd: SeeingRed

Vissulega ekki hans besta stund, en stundum er betra að segja lítið og og glotta og leyfa hinum að opinbera sig með þrætubókarbulllina sjálfum.

SeeingRed, 29.5.2010 kl. 22:44

7 Smámynd: ThoR-E

Það er reyndar mikið til í því.

Held t.d að Ólafur F, hafi séð til þess að hann fær ekki nema 2-3 atkvæði, vegna frammistöðuna í Kastljósinu.

ThoR-E, 29.5.2010 kl. 22:46

8 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ólafur F. hefur ekki gert sjálfum sér mikinn greiða á síðustu metrunum og vissulega nokkuð til í því hjá Kristbirni að litið skuli á heiðarlegt og hreinskilið framboð sem grín.

Hrannar Baldursson, 30.5.2010 kl. 06:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband