Hvað eru draumar?

 

tibitanzl_drowning

 

Í fyrrinótt dreymdi mig að ég væri á gangi yfir brú með fulla appelsínugula poka og vinur minn gekk á eftir mér. Sjónarhornið var reyndar eins og frá mávi sem væri á flugi yfir, en undir brúnni baulaði kraftmikið fljót. Ég heyrði hróp og sneri mér við og sá þá að brúin hafði brotnað og vinur minn fallið í ána. Ég hljóp að handriðinu. Og sá vin minn öskra í örvæntingu og appelsínugula pokann belgjast út, en síðan hvarf hann hratt ofan í djúpið. Mig langaði að stökkva fram af brúnni og bjarga honum en gat ekki lengur séð hann og sá ekki betur en að þú myndi beljandi fljótið grípa mig með.

Áður en mér datt nokkuð í hug vaknaði ég.

Nú velti ég fyrir mér hvort að draumar þýði eitthvað. Og ef þeir þýða eitthvað, hvað þýða þeir?

Á síðunni draumur.is er til dæmis hægt að lesa hvað tákn í draumum eiga að merkja, en ég sé ekki betur en að merkingin sé frekar mótsagnakennd:

Það er álitið mikið gæfumerki að dreyma að maður sé að drukkna. Þó segja sumir að ef drukknunin er í sjó sé vissara að gæta sín á viðskiptalífinu, þú munir ekki ráða við hlutina. Ef þér þykir sem einhver bjargi þér, máttu reiða þig á að þínir nánustu eru þér hliðhollir. Að sjá einhvern annan drukkna er fyrir alvarlegum fréttum eða að þú lendir í vandræðalegri aðstöðu, gættu að öðrum táknum draumsins og þá sérstaklega nöfnum.

Hvernig túlkar maður þetta? Gæfumerki sem gefur til kynna að maður ráði ekki við hlutina, alvarlegar fréttir eða vandræðalegri aðstöðu? Þetta segir mér minna en draumurinn sjálfur.

Hvað eru annars draumar?

Ég hef heyrt þá kenningu að draumar séu skilaboð til manns sjálfs frá manni sjálfum. Gallinn er að ég hef ekki hugmynd um hvað ég hef haft áhuga á að segja sjálfum mér með þessum draumi.

Ég hef heyrt þá kenningu að suma dreymi fyrir atburðum. Dreymi um hluti sem eru að gerast einhvers staðar annars staðar, eða dreymi fyrir um eitthvað sem mun gerast. Ég veit varla hvað það þýðir. Þýðir það að maður væri þá einhvers konar spámaður sem sér inn í framtíðina, eða hugartengsl (ESP) við einhvern fjarlægan vin?

Draumar um framtíðina væru þá þess eðlis að maður man eftir drauminum þegar atburðurinn gerist í raun og veru, svona Deja-Vu, en ég hef upplifað það nokkrum sinnum, sem og flestir aðrir sem ég hef talað við um þetta fyrirbæri. Það er svona tilfinning sem maður fær um að atburður sem er að gerast hafi gerst áður og þú getir séð fyrir hvað mun gerast næst, og það gerist. Ég man skýrt eftir Deja-Vu upplifun sem ég hafði þegar ég var nítján ára gamall, á þríhjólaleigubíl í miðborg Bangkok, þar sem ég fór að versla mér gleraugu. Merkileg upplifum, bílar og hjól allt í kring á mikilli ferð, og næstum allir að pústra á bílflauturnar, og þarna voru þessi gríðarstóru ljóslogandi auglýsingaskilti, enda var þetta þegar myrkrið hafði skollið á.

ffccfda3778b6391227e069864a94024

Seinna sagði ég mínum ágæta ritlistarkennara, Nirði P. Njarðvík frá þessu, en ég ber mikla virðingu fyrir hvernig hann hefur lag á að segja nákvæmlega kjarnann í því sem hann meinar. Honum fannst frekar heimskulegt af mér að fara einsamall út í miðborg Bangkok, borg sem ég þekkti ekki neitt, að nóttu til að kaupa mér gleraugu. Ég get ekki annað en samþykkt þann dóm, en hvað get ég sagt? Sumir lifa lífinu á svona. Og ég fékk góð gleraugu. 

Aftur að draumum: getur verið að draumar séu ekkert annað en melting á því sem við höfum skynjað? Að allt sem við höfum séð lendi í þessari gríðarstóru hrærivél sem hugurinn er og sem varpar fram furðumyndum sem samansulli úr reynslu okkar?

Ég á góðan vin frá Simbabve. Við þekktumst þegar ég var við nám í Bandaríkjunum. Hún er eiginkona eins samleigjanda míns. Eitt sinn barst talið að draumum, og ég sagði henni frá draum þar sem ég hafði verið á flótta undan hoppandi háhýsi og síðan þegar blokkin lenti, dregið upp sverð og stokkið inn í aðaldyr þess, inn í lyftuna og ráðist á hnappaborðið með sverðinu þannig að lyftan skaust upp í gegnum þakið þannig að blokkin drapst. 

Þá minntist hún á að hún ólst uppi í þorpi þar sem var gamall og vitur seiðkarl. Hann hafði fundi með börnum þorpsins þar sem þau sátu í kringum varðeld og hann sagði þeim sögur. Eitt sinn hafði hann sagt börnunum frá merkingu drauma, að draumarnir segðu væru tákn um hugarástand, að í draumi gætirðu komist að því hvort þú sért hugrökk manneskja eða huglaus. Hann tók dæmi um ljón sem réðst á dreymanda, en slíkt var algengur draumur meðal barna í þessu þorpi, og hann sagði að það sem skipti mestu máli í þessum draumi væri hvort dreymandinn snerist gegn ljóninu og berðist við það eða héldi áfram á huglausum flótta undan því. Mikilvægt væri að takast á við vandann sem upp kemur í draumnum sjálfum, því þar væri til staðar persónulegt og sálrænt vandamál sem þyrfti að sigrast á til að þroskast.

Mér þótti þetta merkilegt.

Sem unglingur tók ég mig til og skrifaði niður drauma sem mig dreymdi. Fyrst mundi ég ekki draumana, en eftir um viku voru þeir farnir að standa ljóslifandi fyrir mér, og það sem meira var, mér tókst að stjórna dreymandanum. Af einhverjum ástæðum hætti ég þessu. Leit á þetta eins og marklausa iðju, enda fannst fólki þetta ansi asnalegt, að maður væri að grúska í eigin draumum eins og maður væri einhver merkileg vera.

Og jú. 

Við erum merkilegar verur. Hvert og eitt.

 

Myndir

Drukknun: Mocoloco.com

Bangkok: inewscatcher.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ofskynjanir?

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 12:35

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Oddur Ingi: Eru ofskynjanir ekki alveg jafn dularfullar og draumar?

Annar var ég að fá góðar fréttir af þér um nám í USA. Til hamingju með það. Vonandi grúskarðu aðeins í draumum og ofskynjunum í leiðinni og fræðir frænda um hver þessi ósköp eru. Ég gef ekki mikið fyrir þau svör að þetta séu ekkert annað en efnahræringar og sjálfvirk viðbrögð í heilanum.

Hrannar Baldursson, 24.5.2010 kl. 13:03

3 identicon

já ég er sammála þér að þetta sé ekki bara efnahræringar og svoleiðis, kannski bara blanda af því og okkar bældu löngunum í einum suðupotti? maður smyr sig

Oddur Ingi (IP-tala skráð) 24.5.2010 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband