Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Gleðilegt nýtt ár

clock-complex

Ég vil óska þér góðs árs og þakka bloggsamskipting á því liðna.

Til að sigrast á vandamálum þarf að þekkja þau, skilja þau og vinna sig svo út úr þeim með dugnaði og samviskusemi. Fyrsta og erfiðasta skrefið getur verið að losna við þá valdastétt sem lokar leiðum í stað þess að opna þær, og þá sem enn eru að hirða eigur þeirra sem minna mega sín, án minnsta samviskubits.

Með von um bjartari tíð.


Tron: Legacy (2010) ***

tron-legacy-pos353

Tron: Legacy hefur allt sem 11 ára drengur getur þráð: tölvuleiki, mótorhjól, leikföng, flugvélar, heilmyndir (holograms), bardagaatriði, klónað illmenni, hálfgerðan Obi-Wan, og ekki einn einasta koss.

Tron: Legacy er sjálfstætt framhald af Tron (1982) og eiga það sameiginlegt að Jeff Bridges leikur aðalhlutverkið í þeim báðum. Fyrri myndin er þekkt fyrir að vera fyrsta kvikmyndin til að nota tölvugerðar tæknibrellur, en sú síðari verður seint þekkt fyrir slíkan frumleika. Hins vegar er sú nýja mun meiri skemmtun og flæðir betur en sú fyrri. Tron er barn síns tíma, en Tron: Legacy er bara barn.

Sagan hefst á dularfullu hvarfi Kevin Flynn (Jeff Bridges) árið 1985. Hann skilur eftir sig soninn Sam (Garrett Hedlund) sem áður hafði misst móður sína, en hann er alinn upp af afa sínum og ömmu. Kevin Flynn hafði verið með nýjan tölvuleikjaheim í vinnslu, þar sem spilarar gætu bókstaflega farið inn í leikjaheiminn og spilað eins og þeir væru staddir í veruleikanum. Til að hanna heiminn fer Kevin Flynn inn í þennan blessaða tölvuheim og strandar þar þegar tvífari hans Clu (Jeff Bridges) gerir uppreisn og yfirbugar hann. Ástæða uppreisnar Clu er að saman ætluðu þeir að byggja fullkominn heim, en Kevin Flynn uppgötvar að hugmynd hans um fullkomleika gekk ekki upp þegar í ljós kom að ófullkomnar verur urðu til af sjálfu sér í þessum heimi. 

Clu var hannaður til að skapa fullkominn heim, og þess vegna verður hann að eyða öllu sem ekki passar inn í hann. Hann áttar sig ekki á að enginn heimur getur orðið fullkominn sem inniheldur skort á umburðarlyndi.

Einnig hafði Kevin Flynn búið til Tron (Bruce Boxleitner) sem hefur það verkefni að vernda notendur tölvuleiksins, en Clu hefur tekist að endurforrita Tron þannig að hann er ekkert annað en öflugt verkfæri í höndum hans.

Þetta er baksagan. Kevin Flynn hefur verið lokaður inni í þessum tölvuleikjaheimi í 25 ár þegar sonur hans slysast í heimsókn, og lendir í miklum hremmingum þar sem hann er strax sendur í bardaga upp á líf og dauða þar sem forrit kasta diskum hvert í annað og aka um á stafrænum ljóshjólum í afar flottu atriði. 

Hinir tveir heimar myndarinnar eru veruleikinn og tölvuleikjaheimurinn. Veruleikinn er í tvívídd, eins og venjuleg bíómynd, en tölvuleikjaheimurinn er í þrívídd. Því miður er þrívíddin ekki jafn mögnuð og hún hefði getað verið og jafnast engan veginn á við notkun tækninnar í Avatar. Þrívíddin virkar frekar flöt. 

Myndin er vel leikin, sérstaklega af Bridges, sem eftir 25 ár í tölvuleikjaheimi hefur öðlast slíka stóíska ró að hann jafnast á við Obi-Wan Kenobi úr Star Wars, auk þess að hann notar nokkurs konar Jedi hugarbrellur og getur haft áhrif á umhverfið með því einu að snerta það. Hann er líka flottur sem Clu, en hann hefur verið yngdur og tölvuteiknaður upp á nýtt og virkar þannig svolítið gervilegur, sem passar reyndar fullkomlega.

Garrett Hedlund er fínn í hlutverki Sam, þó að hann hafi engan veginn stjörnusjarma á við Bridges. Quorra (Olivia Wilde) er eini alvöru samherji Sam og Kevins í þessum tölvuleikjaheimi og markmið þeirra beggja verður að vernda hana fyrir fullkomnunaráráttu Clu, og finna leið út úr þessum lokaða heimi.

Þrátt fyrir skemmtilegar brellur og hressilega mynd er sagan frekar klisjukennd og hægt er að sjá endinn fyrir nánast frá upphafi, en það á bara við um gagnrýnendur og eldri áhorfendur. 

Tron: Legacy er hins vegar fullkomin fyrir 11 ára pjakka, enda hafa 11 ára pjakkar aðrar hugmyndir um fullkomleika en sjóaðir gagnrýnendur.


Bæn

a-prayer-for-times-like-these

Ég bið um að málefnaleg umræða, skynsamleg gagnrýnin hugsun og umhyggja verði höfuðatriði fyrir íslenska stjórnmálamenn á nýju ári og um alla framtíð.

Ég bið um að fólk læri að gera greinarmun á innantómum frasaklisjum sem höfða til tilfinninga og dýpra mati sem byggir á raunverulegri þekkingu, skilningi og greiningu á samfélagslegum áhrifum.

Ég bið um að þeir sem vita ekki hvað þeir eru að gera í íslenskri pólitík hverfi þaðan, að þeir átti sig á að verk þeirra gera lítið annað en að skaða íslenska þjóð. Og ef til of mikils er ætlast, að viðkomandi í það minnsta umturni hugsunarhætti sínum. Fílabeinsturnar mega falla. Þetta á við um stjórnmálamenn óháð flokki og hagsmunum.

Ég bið um að við lærum eitthvað af reynslunni, þó að sagan segi okkur að staðreyndin sé sú að við lærum ekkert af henni.

Bið ég um mikið?


Gleðileg jól

Ég vil óska lesendum síðunnar, sem og landsmönnum öllum, á Íslandi og erlendis, gleðilegra jóla.

blue_christmas


The Social Network (2010) 0: Hefurðu nokkurn tíma sofnað í bíó?

Í gærkvöldi fór ég á "The Social Network" og átti í vandræðum með að halda mér vakandi. Þar sem ég hef mikinn áhuga á kvikmyndum velti ég fyrir mér hvort að myndin hafi verið svona léleg eða ég svona syfjaður. 

Ég var nokkur ferskur þegar myndin byrjaði, en þá byrjaði það sem kalla má endalaust blaður þar sem hausar á kvikmyndatjaldinu kepptust um að segja eitthvað snjallt. Persónurnar í myndinni þótti mér svo óáhugaverðar að ég byrjaði að líta í kringum mig og velta fyrir mér hvort aðrar manneskjur í salnum væru ekki áhugaverðari. 

Ég reyndi þó.

En sofnaði. Svo vaknaði ég. Enn var sami tónninn á skjánum. Ég sofnaði aftur, og aftur.

Þessi upplifun var eins og leiðinlegur draumur. Flestir mínir eigin draumar eru skemmtilegri.

Sjálfsagt hefur verið einhver djúp pæling og hugmyndir á bakvið söguna, kvikmyndatökuna, handritið og leikinn, en mér tókst ekki að finna neitt af viti í þessu.

Reyndar má vel vera að ástæðan fyrir að mér fannst ekkert til þessarar myndar koma að ég þjáðist af ferðaþreytu og almennri syfju. Svo er sjálfsagt ekkert að marka þennan dóm því ég reikna með að hafa sofið um 70% af sýningartímanum.

Ég hef einu sinni áður sofnað í bíó. Það var þegar ég sá bíómynd um máv með tónlist eftir Neil Diamond, "Jonathan Livingstone Seagull". Þá mynd leigði ég mörgum árum síðar og reyndi að horfa á hana aftur, en réð ekki við mig og sofnaði aftur.

Ætli megi ekki segja að ég hafi upplifað "The Social Network" eins og mávagarg yfir fiskimiðum. 


Hvernig bragðast Mexíkó í dag?

Í gærkvöldi lenti ég á Mexíkóflugvelli. Að horfa á ljósin í Mexíkóborg úr flugvél er svolítið magnað. Hvert sem þú lítur, hvert sem augað nær, þar blika gul ljós í bænum. Einstaka svört fjöll og fornir píramídar eru svartir blettir á borginni, og ekki í neikvæðri merkingu.

Ferðin til Mexíkó var löng og viðburðarlítil, um 28 klukkustundir í allt, fyrir utan að ég fékk loksins tækifæri og tíma til að lesa hluta af fyrstu Milleninum bókinni eftir Stieg Larsen. Byrjar sá lestur vel. Allar persónur ljóslifandi og spennandi. Þetta er ein af þessum bókum þar sem maður finnur ekki fyrir lestrinum sjálfum, heldur er allt í einu kominn það djúpt í söguna að maður getur ekki hætt. Svona bækur eru ekki á hverju strái.

Þar sem ég get ekki sofið í flugvélum og þori ekki að sofa á flugvöllum eftir að ég sofnaði fyrir nokkrum árum á San Jose flugvellinum í Costa Rica, þá var ansi slánalegur gaur sem steinsofnaði í hlýju rúmi þessa ágætu nótt.

Í morgun heimsótti ég útlendingaeftirlitið. Skriffinnskan er hroðaleg. Fyrst þarf maður að panta tíma. Síðan þarf maður að bíða í röð. Þá kemur að því að maður fær loks afgreiðslu. Í afgreiðslunni er farið yfir afrit af skjölum. Sé eitthvað skjal vitlaust er maður sendur í afritunarfyrirtæki á næstu hæð fyrir ofan. Þar þarf að bíða í röð eftir að panta afritun, síðan þarf að bíða í röð til að borga afritin og þar á eftir þarf að bíða í röð eftir að fá afritin í hendurnar. Þá liggur leiðin aftur í útlendingaeftirlitið, þar sem öryggisvörður hleypir manni í aðra röð fyrir þá sem hafa sótt afrit. Það eru nokkrir í þeirri röð. Í ljós kemur að fimm afrit eru ekki alveg í lagi og fimm sinnum þarf að ljósrita, endurtaka allar biðraðir, áður en skjölunin kemst í gegn. 

Virkar ágætlega hafirðu allan daginn í þetta. Það sem gerir þetta að ágætis lífsreynslu er að fólkið sem vinnur í útlendingaeftirlitinu er ljúft og gott, sýnir mikla kurteisi og góðan húmor á meðan beðið er í sal sem eftir því sem líður á daginn fyllist og síðan troðfyllist af fólki sem er að koma skjölum sínum í gegn. 

Margt er skemmtilega öðruvísi við Mexíkó. Þegar maður leggur bílnum, sama hvar það er, næstum því, heyrir maður í dómaraflautu og sér mann veifa rauðum klút. Þetta dómaraflaut kemur frá manni sem starfar sem bílastæðavörður. Hans hlutverk er að benda ökumönnum á laus stæði, hjálpa þeim að leggja bílnum með handaveifingum og látbragði, passa það að enginn óviðkomandi fikti við bílinn á meðan maður er í burtu, og hjálpar manni síðan út úr stæðinu með því að veifa öðrum bílum frá. Síðan tekur viðkomandi við launum sínum frá bílstjóranum, sem geta verið frá engu og sjálfsagt allt að tíu pesósar, en það er um 100 krónur íslenskar.

Á umferðarljósum stendur oft fólk sem selur alls konar vörur, eins og brúður eða sælgæti. Einn var að selja risastór stjörnuljós. Einnig sá ég í dag lítið barn betla pening ásamt móður sinni, og einfættan mann hoppa um á hækjum við umferðarljós og óska eftir ölmusu. 

Puebla, borgin sem ég heimsæki, er svolítið sérstök. Hún er ekkert sérstaklega falleg utan frá. Húsin eru múraðir kassar og göturnar frekar holóttar og illa við haldnar. Ofan á múrum umhverfis húsum standa glerbrot til að auka á friðhelgi einkalífsins. Innan í húsum og verslunum tekur allt önnur veröld við. Verslanir eru eins og það flottasta sem hægt er að finna í Bandaríkjunum, og vöruúrvalið margfalt það sem hægt er að vonast til í nokkurri verslun á Íslandi. Þarna eru bíóhús á hverju strái með tugi sala, og er hver einasti salur eins og íslenskir lúxussalir. Það er normið í Mexíkó.

Utanfrá virðist Mexíkó frekar hrjúft land og gróft, en innan í byggingum og í fólki finnurðu fullt af fegurð. Það er einhvers konar lífshamingja, þrátt fyrir að ekki líti allt út fyrir að vera auðvelt, þrátt fyrir orðróm og fréttir um eiturlyfjastríð, alltof mikla umferð, gífurlegan fjöldi af fólki frá ólíkum ættbálkum, sem hafa hverjir sína menningu og margir sín eigin tungumál.

Í kvöld fékk ég svo heimatilbúinn Mexíkóskan mat. Þú finnur ekki betri mat í þessum heimi. Það er eins og veitingahúsin nái aldrei þessum gæðum sem góður heimatilbúinn matur hefur. Hæfilega sterkt, og hæfilega sætt. 

Það eru fimm ár síðan ég heimsótti Mexikó síðast. Ekkert hefur breyst fyrir utan að vegum og byggingum hefur fjölgað töluvert. Fólk virðist almennt vera á sama stað í lífinu og fyrir fimm árum, það er eins og heimurinn hafi staðið í stað. Til samanburðar fannst mér Ísland gjörbreytast á þeim sex árum þegar ég bjó í Mexíkó, því þegar ég kom heim fannst mér allt vera öðruvísi. Það var eins og Íslendingurinn væri orðinn að allt öðru fyrirbæri en hann áður var. Breytingarnar voru það miklar að maður fann fyrir þeim. Allt í einu virtust flestir orðnir ríkir á Íslandi og sérfræðingar á hverju strái.

Þegar ég horfi á göturnar fylltar af flautandi bifreiðum, get ég ekki annað en fyllst ákveðnum söknuði, og velt fyrir mér hvernig þessi heimur væri ef bílar hættu allt í einu að vera til. Myndum við þá aftur ná sambandi við hestinn, og lífið verða mannlegra fyrir vikið, í stað þess að verða stöðugt vélrænni og straumlínulagaðri.

Stundum vildi ég óska þess að eiga hest sem ég gæti riðið á til vinnu, lagt á beit, og síðan riðið heim í söðli. Það er lítil hætta á því, enda hafa bílastæði yfirtekið næstum alla grasbletti í heiminum, þar sem hestur gæti sæll beðið eftir knapa sínum á meðan hinn síðarnefndi vinnur sína vinnu. 

Þetta er lítill hluti af Mexíkó í dag, eins og ég finn fyrir land og þjóð á mínu eigin skinni.


Surtur frændi

Drengur fékk hús úr legókubbum í jólagjöf. Hann setti það saman á tveimur klukkutímum. Stúlka fékk dúkkuhús. Drengur og stúlka elskuðu nýju húsin sín.

Þá kom í heimsókn Surtur frændi. Hann var kallaður Surtur því hann var alltaf í svörtum skóm og hafði alltaf skóbón í vasanum, því samkvæmt honum var ekkert mikilvægara við manneskju en skórnir hennar. Hann sá húsin. Brosandi spurði hann Dreng og Stúlku hvort þau vildu ekki stærri og flottari hús. Þau sögðu nei, þau voru meira en ánægð með það sem þau höfðu.

Surtur tók samt húsin og stakk þeim ofan í poka. Svo rauk hann á dyr. Drengur og Stúlka skældu í pabba og mömmu. Fyrst trúðu þau þessu ekki. Héldu að börnin væru að ljúga. En börnin tóku fram potta og pönnur, lömdu þær og grenjuðu hástöfum þar til loksins var hlustað á þau.

"Hvar eiga legókallarnir mínir að sofa?" spurði Drengur.

"Hvar eiga dúkkurnar mínar að baka?" spurði Stúlka.

Pabbi hringdi í Surt frænda og spurði hvað hann meinti með að taka hús barnanna með sér. 

"Hafðu engar áhyggjur," svaraði Surtur. "Þau fá húsin til baka, sjöfalt."

Pabbi sagði börnunum að allt yrði í lagi. Þetta myndi reddast. En ekkert gat huggað þau. Gráturinn jókst, og þau vældu daginn út og inn.

Mamma hringdi í Surt og spurði hvað hann ætlaði að gera við húsin, og svaraði Surtur frændi, "Ég hef hugsað mér að gefa fátækum börnum þessi hús. Þegar ég sá hvað þau glöddu mikið ykkar börn, gat ég ekki annað en séð fyrir mér hamingjuna í augum barna sem ekki eiga neitt."

"Viltu vinsamlegast skila þessum húsum strax. Þú hefur engan rétt til að taka þau og engan rétt til að gefa þau."

"Kærðu mig bara. Hver heldurðu að taki afstöðu gegn manni sem gefur fátækum, sem lofar að gefa meira til baka en hann tekur, manni sem spurði áður en hann tók? Manni sem er í fægðum skóm?"

Mamma hringdi næst í lögregluna. Þar var henni sagt að þetta mál væri tekið alvarlega, en að fyrst yrði hún að gefa skýrslu og koma með sönnunargögn sem sýndu ótvírætt að umræddur Surtur hafi stolið húsunum. 

Mamma og pabbi fóru niður á lögreglustöð og gáfu skýrslu. 

Viku seinna fengu þau bréf frá rannsóknarlögreglunni sem sagði að Surtur hefði tjáð þeim að hann hefði gert þetta með þeirra vitund, og þar sem þau vissu af þessu, þá gæti lögreglan ekkert gert. Þar að auki kom Surtur afar vel fyrir og var í gljáfægðum skóm.

Mamma og pabbi sögðu Dreng og Stúlku frá þessu, en börnin gátu ekki lengur grátið og þess í stað tóku þau djúp andvörp öðru hverju.

Smám saman hjaðnaði yfir sárin. Tíminn leið og kom að næstu jólum. Árið hafði verið dapurt fyrir börnin. Þau höfðu ekki geð í sér til að læra í skólanum yfir vorið og komu sér sífellt í vandræði. Svo kom sumar sem leið alltof fljótt og næsta skólaár skall á með meiri hraða en áður. Þá voru kennarar betur undirbúnir fyrir þessi börn og höfðu undirbúið sérstök úrræði fyrir þau.

Á aðfangadag hringdi dyrabjallan. Drengur fór til dyra. Þar stóð Surtur. Drengur tók andköf. Surtur gaf honum tvo stóra pakka, klappaði honum á kollinn og sagði "gleðileg jól" áður en hann tók til fótanna svo að glampaði á iljar hans.

Drengur gekk klökkur inn í stofu og setti pakkana á gólfið. 

"Hvað er að?" spurði mamma. 

"Ég veit það ekki, en eitthvað vont," sagði Drengur og setti pakkana undir jólatréð. 

Eftir mat voru pakkarnir opnaðir og þegar kom að pökkum Surts voru þeir settir til hliðar, enda voru þeir stórir og flottir. Umbúðirnar glansandi rauðar og gylltar með glimmer. 

Í augum barnanna glampaði von um að nú fengju þau loksins húsin sín aftur. 

Drengur og Stúlka opnuðu pakka sína samtímis. Inni í pökkunum voru kassar. Á kassana höfðu verið límdar myndir af höll í Indlandi og kastala í Skotlandi. Innan í kössunum voru ekki hús, heldur litir og A4 arkir.

Á gulum miða stóð:

"Notið ímyndunaraflið. Teiknið húsin sem ykkur langar í."

Drengur og Stúlka litu á foreldra sína, lögðu frá sér pakkana, fóru inn í herbergi sín og lokuðu hljóðlega á eftir sér.

Mamma og pabbi settust niður við eldhúsborðið. Þau sátu þar þögul um stund.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband