Hvernig bragðast Mexíkó í dag?

Í gærkvöldi lenti ég á Mexíkóflugvelli. Að horfa á ljósin í Mexíkóborg úr flugvél er svolítið magnað. Hvert sem þú lítur, hvert sem augað nær, þar blika gul ljós í bænum. Einstaka svört fjöll og fornir píramídar eru svartir blettir á borginni, og ekki í neikvæðri merkingu.

Ferðin til Mexíkó var löng og viðburðarlítil, um 28 klukkustundir í allt, fyrir utan að ég fékk loksins tækifæri og tíma til að lesa hluta af fyrstu Milleninum bókinni eftir Stieg Larsen. Byrjar sá lestur vel. Allar persónur ljóslifandi og spennandi. Þetta er ein af þessum bókum þar sem maður finnur ekki fyrir lestrinum sjálfum, heldur er allt í einu kominn það djúpt í söguna að maður getur ekki hætt. Svona bækur eru ekki á hverju strái.

Þar sem ég get ekki sofið í flugvélum og þori ekki að sofa á flugvöllum eftir að ég sofnaði fyrir nokkrum árum á San Jose flugvellinum í Costa Rica, þá var ansi slánalegur gaur sem steinsofnaði í hlýju rúmi þessa ágætu nótt.

Í morgun heimsótti ég útlendingaeftirlitið. Skriffinnskan er hroðaleg. Fyrst þarf maður að panta tíma. Síðan þarf maður að bíða í röð. Þá kemur að því að maður fær loks afgreiðslu. Í afgreiðslunni er farið yfir afrit af skjölum. Sé eitthvað skjal vitlaust er maður sendur í afritunarfyrirtæki á næstu hæð fyrir ofan. Þar þarf að bíða í röð eftir að panta afritun, síðan þarf að bíða í röð til að borga afritin og þar á eftir þarf að bíða í röð eftir að fá afritin í hendurnar. Þá liggur leiðin aftur í útlendingaeftirlitið, þar sem öryggisvörður hleypir manni í aðra röð fyrir þá sem hafa sótt afrit. Það eru nokkrir í þeirri röð. Í ljós kemur að fimm afrit eru ekki alveg í lagi og fimm sinnum þarf að ljósrita, endurtaka allar biðraðir, áður en skjölunin kemst í gegn. 

Virkar ágætlega hafirðu allan daginn í þetta. Það sem gerir þetta að ágætis lífsreynslu er að fólkið sem vinnur í útlendingaeftirlitinu er ljúft og gott, sýnir mikla kurteisi og góðan húmor á meðan beðið er í sal sem eftir því sem líður á daginn fyllist og síðan troðfyllist af fólki sem er að koma skjölum sínum í gegn. 

Margt er skemmtilega öðruvísi við Mexíkó. Þegar maður leggur bílnum, sama hvar það er, næstum því, heyrir maður í dómaraflautu og sér mann veifa rauðum klút. Þetta dómaraflaut kemur frá manni sem starfar sem bílastæðavörður. Hans hlutverk er að benda ökumönnum á laus stæði, hjálpa þeim að leggja bílnum með handaveifingum og látbragði, passa það að enginn óviðkomandi fikti við bílinn á meðan maður er í burtu, og hjálpar manni síðan út úr stæðinu með því að veifa öðrum bílum frá. Síðan tekur viðkomandi við launum sínum frá bílstjóranum, sem geta verið frá engu og sjálfsagt allt að tíu pesósar, en það er um 100 krónur íslenskar.

Á umferðarljósum stendur oft fólk sem selur alls konar vörur, eins og brúður eða sælgæti. Einn var að selja risastór stjörnuljós. Einnig sá ég í dag lítið barn betla pening ásamt móður sinni, og einfættan mann hoppa um á hækjum við umferðarljós og óska eftir ölmusu. 

Puebla, borgin sem ég heimsæki, er svolítið sérstök. Hún er ekkert sérstaklega falleg utan frá. Húsin eru múraðir kassar og göturnar frekar holóttar og illa við haldnar. Ofan á múrum umhverfis húsum standa glerbrot til að auka á friðhelgi einkalífsins. Innan í húsum og verslunum tekur allt önnur veröld við. Verslanir eru eins og það flottasta sem hægt er að finna í Bandaríkjunum, og vöruúrvalið margfalt það sem hægt er að vonast til í nokkurri verslun á Íslandi. Þarna eru bíóhús á hverju strái með tugi sala, og er hver einasti salur eins og íslenskir lúxussalir. Það er normið í Mexíkó.

Utanfrá virðist Mexíkó frekar hrjúft land og gróft, en innan í byggingum og í fólki finnurðu fullt af fegurð. Það er einhvers konar lífshamingja, þrátt fyrir að ekki líti allt út fyrir að vera auðvelt, þrátt fyrir orðróm og fréttir um eiturlyfjastríð, alltof mikla umferð, gífurlegan fjöldi af fólki frá ólíkum ættbálkum, sem hafa hverjir sína menningu og margir sín eigin tungumál.

Í kvöld fékk ég svo heimatilbúinn Mexíkóskan mat. Þú finnur ekki betri mat í þessum heimi. Það er eins og veitingahúsin nái aldrei þessum gæðum sem góður heimatilbúinn matur hefur. Hæfilega sterkt, og hæfilega sætt. 

Það eru fimm ár síðan ég heimsótti Mexikó síðast. Ekkert hefur breyst fyrir utan að vegum og byggingum hefur fjölgað töluvert. Fólk virðist almennt vera á sama stað í lífinu og fyrir fimm árum, það er eins og heimurinn hafi staðið í stað. Til samanburðar fannst mér Ísland gjörbreytast á þeim sex árum þegar ég bjó í Mexíkó, því þegar ég kom heim fannst mér allt vera öðruvísi. Það var eins og Íslendingurinn væri orðinn að allt öðru fyrirbæri en hann áður var. Breytingarnar voru það miklar að maður fann fyrir þeim. Allt í einu virtust flestir orðnir ríkir á Íslandi og sérfræðingar á hverju strái.

Þegar ég horfi á göturnar fylltar af flautandi bifreiðum, get ég ekki annað en fyllst ákveðnum söknuði, og velt fyrir mér hvernig þessi heimur væri ef bílar hættu allt í einu að vera til. Myndum við þá aftur ná sambandi við hestinn, og lífið verða mannlegra fyrir vikið, í stað þess að verða stöðugt vélrænni og straumlínulagaðri.

Stundum vildi ég óska þess að eiga hest sem ég gæti riðið á til vinnu, lagt á beit, og síðan riðið heim í söðli. Það er lítil hætta á því, enda hafa bílastæði yfirtekið næstum alla grasbletti í heiminum, þar sem hestur gæti sæll beðið eftir knapa sínum á meðan hinn síðarnefndi vinnur sína vinnu. 

Þetta er lítill hluti af Mexíkó í dag, eins og ég finn fyrir land og þjóð á mínu eigin skinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Datt inn á bloggið þitt.

Búinn að vera hérna í 5 mánuði og þetta hefur verið allt öðruvísi en ég bjóst við.

Hef ekkert nema gott um land og þjóða að segja.

Á eftir að kveðja landið með söknuði.

Aguila (IP-tala skráð) 18.12.2010 kl. 06:25

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Hrannar. Mér finnst þú lýsa Mexíkó afar vel. Hef samt aldrei komið út fyrir Evrópu. Fylgist alltaf með þér. Er alls ekki alltaf sammála þér varðandi Hrunið en samt eigum við margt sameiginlegt. Gleðileg jól.

Sæmundur Bjarnason, 18.12.2010 kl. 09:35

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Aguila: Já, Mexíkó er allt öðruvísi þjóðfélag en það sem maður kynnist í Evrópu.

Sæmundur: Þú tókst kannski eftir því, en ég ákvað að skrifa þessa grein í Sæmundarstíl. Það er allt í lagi að vera ósammála um suma hluti sem skipta máli, það þýðir líklega að forsendur okkar séu ólíkar. 

Hrannar Baldursson, 18.12.2010 kl. 15:23

4 Smámynd: Vendetta

Ég hef nokkrum sinnum verið í México, en ekki mjög lengi í einu. Ég kann mjög vel við Mexíkana og flestan mexíkanskan mat. Einnig heilast ég af mexíkanskri músík (með mariachis). Vonast eftir að hafa ráð á því að ferðast þangað aftur bráðum.

Vendetta, 18.12.2010 kl. 17:45

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Vendetta, ef þú vilt nota þessa endingu mexíkanska í stað mexíkóska, þá ættir þú líka að nota ameríkanska í stað ameríska. Um þetta var ég upplýst einu sinni þegar ég hringdi í Orðabók Háskólans, þar sem ég var að auglýsa mexíkóska afmælisveislu!

Mér finnst mexíkóskur matur góður, en hef ekki oft fengið orginal útgáfuna, eflaust oftar svona "Tex-Mex" ..

Hrannar - ég hef aldrei sofnað á bíó!

Jóhanna Magnúsdóttir, 25.12.2010 kl. 21:07

6 Smámynd: Vendetta

Jóhanna: Þeir sem segja amerískur ættu þá að sama skapi segja mexískur. Orðskrípin Mexíkói og mexíkóskur eru afkáraleg og ég neita að nota þau, sem og afbökuð landanöfn (hef skrifað þessa færslu um það eitt sinn). Mexíkani er rétt, þar eð á spænsku kalla þeir sig Mexicanos.

Ég þekki nokkra Mexíkana og eitt spurði ég þá hvað þeir vildu láta kalla sig og þeir sögðu: Mexíkanar. Þarna hefurðu það.

Svo að enn og aftur segi ég: Mér líkar mexíkanskur matur, mexíkönsk músík og mexíkanskar señoritas.

Vendetta, 25.12.2010 kl. 21:41

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þarna er ég sammála Vendettu. Mexíkanar kalla sig "mexicanos", en ekki "mexicois". Þetta er ein versta villa orðabókar Háskóla Íslands frá upphafi.

Hrannar Baldursson, 26.12.2010 kl. 02:12

8 Smámynd: Vendetta

Það er rétt, Hrannar. Þegar ég á sínum tíma forvitnaðist um hvernig svona villa gæti gerzt, þá var mér sagt að einhver náungi starfandi við orðabók Háskólans, sem vissi ekkert um neitt, hefði haldið því fram að Mexíkanar vildu ekki láta kalla sig neitt sem endar á -kanar því að Íslendingar kölluðu Bandaríkjamenn Kana. Ef hann hefur sagt þetta þá á hann ekkert erindi í háskólann og ætti að sinna skurðgreftri sem ekki krefst neinnar andlegrar virkni (með fullri virðingu fyrir skurðgröfurum og fjölskyldum þeirra).

Í raun er þessu þveröfugt farið. Mexíkanar sem ég hef talað við móðgast ef maður notar orðið Ameríkani (Americano) yfir Bandaríkjamenn og segja þá: "Við erum líka Ameríkanar" ("Somos también americanos, nosotros"). Sem er alveg rétt, þar eð Bandaríkin eru ekki öll Ameríka, heldur aðeins hluti af Norður-Ameríku. Á sama hátt og sambandsríkið ESB er ekki öll Evrópa.

Bandaríkin á spænsku heita Estados Unidos (skammastafað EEUU) og rétt heiti á Bandaríkjamanni er ekki americano, heldur estadounidense. Það er langt og óþjált orð og þess vegna nota Mexikanar alltaf orðið gringo, sem getur verið niðrandi.

Þess ber að geta, að opinbert nafn Mexikó er Estados Unidos de México (Mexíkönsku bandaríkin). Það vita ekki allir, að México er sambandsríki eins og USA með sjálfstjórnarhéruðum. Hvað flatarmál varðar er minnsta héraðið/ríkið, Mexikóborg (Cuidad de México) og er borgin mjög oft kölluð D.F. (Distrito Federal) í daglegu tali.

En hvað sem því líður:

¡Viva México!

¡La libertad o la muerte!

¡Confusión a nuestros enemigos!

Vendetta, 26.12.2010 kl. 13:23

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Allt hárrétt hjá þér, Vendetta.

Reyndar hafa borgir í Mexíkó líka svolítið merkileg nöfn. Til dæmis borgin þar sem ég er staddur núna, oftast kölluð Puebla, heitir í raun:

"Heroica Puebla de Zaragoze"

Þar sem helsta vígið gegn Frökkum þegar þeir gerðu innrás í Mexíkó var í þessari borg. En hún er einnig þekkt sem 

"Puebla de los Ángeles" 

Þar sem sögur fara af því hvernig englar fluttu kirkjubjöllur sem enginn mannlegur máttur réð við að flytja upp í kirkjuturn í miðbæ borgarinnar.

Það er margt spennandi við Mexíkó. Til dæmis tók ég þátt í samræðu í jólaboði í gær, þar sem sagt frá frá fornum píramída sem uppgötvaðist um daginn þegar verið var að leggja hraðbraut gegnum frumskóg. Ákveðið var að verja hinn forna píramída og breyta áætlunum. 

Þetta er bara svo magnað land. :)

Hrannar Baldursson, 26.12.2010 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband