Hvaðan kemur öll þessi grimmd? (Myndband)

Ég hef verið að hugsa.

Síðustu árin hafa margir bloggtímar farið í að greina hið íslenska ástand. Á þessu bloggi, snemma árs 2008, grunaði mig að verið væri að stela úr bönkum innanfrá og að slík hegðun gæti ekki endað öðruvísi en með ósköpum. 

Það gerðist.

Svo hélt tíminn áfram að líða. 

Enn heldur ránið áfram þó að allar viðvörunarbjöllur séu löngu farnar í gang, löggan mætt á svæðið, jafnvel búið að rýma bankana og hugsanlega selja þá aftur í hendur þeirra sem rændu þeim upphaflega. Það getur enginn vitað vegna bankaleyndar.

Í síðustu færslu rökstuddi ég að samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu á kommúnisma, þá er Ísland kommúnistaríki í dag. Sagan hefur sýnt okkur að kommúnismi er ekki vænlegur kostur til lengri tíma, því að manneskjur finna öryggi í eignum. Til dæmis húseignum. En kommúnismi reynir að svipta fólk slíkum eignum. Ekki á einum degi, heldur yfir lengri tíma. Það er ekki þægilegt ástand, enda brýtur það gegn þeirri grunnþörf manneskjunnar, að þurfa að eiga sér samastað, að eiga sér heimili.

Við skilgreinum okkur að vissu marki út frá eigum okkar. Séu þessar eigur minningar, metum við þær mikils. Allt sem tengir okkur við minningar okkar er okkur dýrmætt, því að í námunda við ákveðnar eigur vakna minningarnar aftur til lífsins, og við líka. Það er ómannúðlegt að svipta manneskju minningum sínum. Það er ómannúðlegt að svipta fjölskyldu heimili sínu. Sama hver stökkbreytt skuldin er í peningum talin, þá getur hún aldrei verið hærri en virðingin sem okkur er skylt að bera fyrir heiðarlegum manneskjum og heimilum þeirra.

Samt er manneskjan svo skrítin. Fólk getur verið grimmt við náunga sinn. Sérstaklega ef þeim er sagt að sýna grimmd af einhverjum sem hefur völd. Valdboðið er magnað fyrirbæri. Ef Steingrímur J. Sigfússon eða Jóhanna Sigurðardóttir, valdamestu manneskjur Íslands í dag, skipuðu almenningi að vera grimm og vond við annað fólk, þá má gera ráð fyrir að um 65% myndi hlíða skipuninni, sama hversu hryllilegar afleiðingar hún gæti haft fyrir hinn aðilann. 

Þú trúir mér kannski ekki? Hugsaðu um fólkið sem er að berjast gegn stökkbreyttum skuldum. Hugsaðu um fólkið sem hefur neyðst til að yfirgefa land sitt. Hugsaðu um fjölskyldurnar sem hafa sundrast. Og væri þér skipað að sína þessu fólki grimmd og miskunnarleysi, myndir þú gera það?

Þú hristir kannski höfuðið og segir jafnvel "aldrei nokkurn tíma í lífinu", en hin kalda staðreynd er sú að hægt er að fá meirihluta fólks til að gera óhugnanlega hluti.

Tilraun var gerð á 6. áratug 20. aldar, kennd við Milgram, þar sem ósköp venjulegri manneskju var gert að spyrja óséðan aðila í klefa spurninga. Ef svörin voru röng, gaf spyrjandinn svaranda raflost. Svarandinn sýndi skýr viðbrögð um sársauka á móti, sífellt af meiri þjáningu eftir því sem hann svaraði fleiri spurningum vitlaust, því styrkur rafstuðsins var sífellt aukinn milli spurninga, af spyrjandanum.

Ef spyrjandinn fékk bakþanka, þá var honum skipað að halda áfram. Spyrjandinn vissi ekki að sá sem sat fyrir svörum var leikari sem fékk í raun ekki raflost, heldur þóttist fá það. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að um 65% þátttakenda héldu áfram að kvelja manneskjuna með spurningum og raflosti sem gat dregið hina óséðu manneskju til dauða. Aðeins vegna þess að henni var sagt að gera þetta.

Mig grunar að þetta skýri af hverju fólk við heldur áfram að kvelja samlanda sína án þess að skilja afleiðingar gjörða sinna.

  1. Erum við svoleiðis í dag?
  2. Ert þú þannig mannvera?
  3. Hvernig getur þú vitað hvað þú myndir gera?
  4. Hvernig getur þú vitað hvað þú ert að gera öðrum með því að lifa lífinu eins og þú gerir í dag?
  5. Ef þú vissir að líferni þitt skaðaði annað fólk, myndirðu hætta því?
  6. Ef einhver segði þér að hafa ekki áhyggjur af þessu, myndirðu ekki frekar hlusta á þann sem segir þér ekki að hafa áhyggjur, heldur en þessa skjálfandi rödd sem við köllum samvisku?
  7. Hvernig liði þér ef þú værir sviptur lifibrauði þínu og heimili, og sæir þau viðbrögð meirihluta almennings að þetta sé bara allt í lagi á meðan þau sjálf eru örugg?






« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Þetta eru alvarlegar hugrenningar,  en þó svo sannar.  Ég vil trúa þér fyrir því að ég treysti mér ekki til að horfa á YouTube sendingar þínar. Hef ekki nógu sterkar taugar til þess !

Þá má spyrja: "Er það gott eða slæmt"?  Á maður að hafa sterkar taugar og geta setið af sér allann sársauka borgara landsins?

Ég vona og bið að þjóðin nái sér upp. Þetta ástand sem nú er ráðandi (stjórnvöld meðtalin) getur aðeins sökkt okkur dýpra en þörf er á, miðað við aðstæður.

Þakka þér fyrir þín innlegg í þessu samhengi.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 5.11.2010 kl. 12:24

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk Sigurður,

Þér er alveg óhætt að fylgjast með YouTube myndböndunum. Þar er rætt um vísindalega rannsókn, og niðurstöðurnar mjög óhugnalegar, en það er engan óhugnað að finna í myndbandinu sjálfu.

Hrannar Baldursson, 5.11.2010 kl. 12:45

3 Smámynd: Ómar Geirsson

"Af því að pabbi sagði það", svona útskýrðu við pabbapólitík Heimdellinga þegar ég var í skóla í den.

Núna trúir fólk að það séu ekki aðrir valkostir, að aðrir yrðu verri.  Og til að réttlæta grimmdina, þá segir það að þetta hljóti að vera því að kenna, sjálfsskaparvíti, óráðssía.

Ég hef lengi staldrað við það hatur sem fólk hefur á þeim sem geta sjálfum sér um kennt, þeim sem sannarlega voru ekki skynsamir í aðdraganda Hrunsins.

Hvernig þekkir fólk til aðstæðna til að geta dæmt.  Kannski voru tekjur nægar fyrir Hrun, eða fólk var blekkt af fagurgala um síbatnandi kjör?? Eða kannski????

Hvað veit ég.  

Ég veit að þetta fólk á börn.  Eiga þau að þjást vegna óráðsíu foreldranna???  Á að tyfta börn misgjörðarmanna eins og gert er í Norður Kóreu ef glæpur þinn er pólitísks eðlis???

Talskona Hjálparstofnunar kirkjunnar lýsti því stolt yfir að óráðsíufólk fengi ekki aðstoð hjá stofnuninni.  Samt kenna samtök hennar sig við manninn sem bað fólk um að kasta fyrsta grjótinu ef það væri betra.  Og sagði síðan söguna af Miskunnsama Samverjanum.

Hrannar, þarfar spurningar hjá þér.  Ég persónulega hef velt þessu mikið fyrir mér.  Þjóð mín hefur á vissan hátt sett niður hjá mér þegar ég áttaði mig á að rökheimur rasisma og mannfyrirlitningar, eitthvað sem síðast grasseraði í Þýskalandi fjórða áratugarins, er meginforsenda réttlætingar vinstrimanna fyrir stuðningi þeirra við Óbermi AGS.

Ármann Jakobsson lýsir þessum hugmyndaheimi vel í frægri grein sem fór víða í gær og fyrradag, hann sem átti ekki jeppa, hann fyrirleit fólkið sem átti jeppa og mótmælti.  Hann vildi meina að mótmælendur yrðu að uppfylla tvenn skilyrði, að þeir ættu ekki jeppa, og þeir mættu ekki mótmæla stjórn félagshyggjumanna, því hún vildi svo vel.

En hægri menn hafa þekkta sögu illvirkja, til dæmis herforingjastjórnir Grikkja og Spánar.

Hann hefði gott af því að lesa pistil þinn, og þegja, þar til hann skilur þá hugsun sem að baki liggur.

Það er ljótt að vera vondur við annað fólk, líka jeppaeigendur og bruðlara.

Allir í neyð eiga samúð okkar skilið, allir.

Þetta kallast að vera manneskja.

Kveðja að austan.,

Ómar Geirsson, 5.11.2010 kl. 15:45

4 Smámynd: Óskar Arnórsson

Góður pistill hjá þér Hrannar! Þú kemur alltaf með svo áhugaverða punkta ú daglega lífinnu. Þarna kemur þessi Milgram með vísindalega niðurstöðu á máli sem hefur, er og verður stórt vandamál.

Þú spyrð hvaðan öll grimmd komi? Það er ósköp einfalt og léttsvarað. Hún kemur frá fólki í öllum stéttum samfélagsins í ýmsu formi. Frá bankamanninum eða smiðnum, prestinum eða pípulagningarmanninum. Þingmanninum eða smábófanum sem situr í steininum.

Grimmd er hreinn barnaskapur og vanþroski. Konan í tilrauninni sem engum hótaði og engin gat orðið hræddur við, fylgdi fyrirmælunum og smáhló af og til.

Börn fæðast grimm og eru svo mótuð af foreldrum, skóla og samfélagi. Ef illa tekst til, þá þroskast þau ekki eðllega, verða tilfinningalega vanþroska og geta samt sem áður komist til hæstu metorða. 

Það er nefnilega ekkert ólöglegt við það að vera grimmur. Það er ekkert ólöglegt að vera illa gefin, vanþroska eða bara heimskur. Allir hafa sama rétt. 

Ég er sannfærður um að samfélagsuppbygginginn eins og hún er í dag, reglur og lög dagsins í dag, mórallinn og kennslan í skólanum, þjálfar fólk upp í að verða "alveg sama" um aðra.

Þessum barnaskap og súper vanþroska, verður bara eitt með þekkingu og kennslu.... 

Óskar Arnórsson, 5.11.2010 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband