Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
Ræða Davíðs Oddssonar á landsfundi 2009 og sú "stórfurðulega heimsmynd sem sá einkennilegi fýr hefur"
28.3.2009 | 23:49
Smelltu hérna til að sjá ræðu Davíðs.
Þar sem Don Hrannari barst fyrirspurn frá skjaldsveini sínum Sancho, ákvað hann að skella saman stuttum texta til að svara áskoruninni.
"Væri gaman ef eðalpenni eins og þú myndir kryfja ræða Davíðs Oddsonar frá landsfundi og mála upp stórfurðulega heimsmynd sem sá einkennilegi fýr hefur." (Sancho)
Ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti að eltast við ræðuna hans Davíðs, og telja hversu oft hann notar mælskulist í stað rökræðu. En ég nenni ekki að eltast við slíkt, frekar berst ég við vindmyllur.
Sjálfsagt væri betra að fá bókmenntarýni til að skoða snilldartextann sem Davíð flutti í dag, heldur en gagnrýni til að greina merkinguna á bakvið orðin og bera saman við heiminn eins og við teljum hann vera.
Davíð Oddson er gott skáld, og notar mikið myndmál. Ég held samt ekki að hann sé að varpa fram hans eigin ímyndaða heimi, heldur sýnist mér einfaldlega hans eigin skoðanir nánast drukkna og vera ansi óskýrar og margræðar innan um flokksfordóma. Þegar hann segir að sannleikurinn muni koma í ljós, þá er hann ekki að vísa í eigin ræðu, því að hún hefur með allt aðra hluti en sannleikann að gera. Þetta er flokksræða á áróðurstíl, greinilega skrifuð til að líma þá flokksmenn sem enn tolla í sjálfstæðisflokknum við þá hugsjón að flokkurinn sé heiðarlegur og hreinn, og hafi barist gegn hinum illu öflum sem komu þjóðinni á höfuðið með lævísum klækjum og valdníðslu, hann er að stappa stálinu í flokk sem hann veit að tapar í þessum kosningum, en er meira en líklegur til að komast aftur til valda í þeim næstu.
Í fáum orðum túlka ég ræðuna hans þannig: "sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað þessari orustu, en ekki stríðinu." Megi nú kalt vatn renna milli skinns og hörunds þeirra sem vilja.
Þar sem að Davíð talaði um sjálfan sig alltaf í þriðju persónu, setti hann sig fram sem persónu í sögu, sögu sem nær aftur til krossfestingar Krists, þar sem Davíð hinn óprúttni var hengdur við hlið tveimur heiðarlegum. Þetta er náttúrulega stórkostlega 'twisted' myndmál, sem minnir mig einna helst á togstreitu Svarthöfða sjálfs sem þurfti að gera upp við sig hvort hann ætti að drepa keisarann eða son sinn.
Málið er að myndmál er vandmeðfarið ef ætlunin er að tjá ákveðna meiningu, en í þessari ræðu talaði Davíð ekki aðeins undir rós, heldur þyrnirósarunna, hjó af nokkrar greinar og sló um sig með þyrnirósum svo að jafnvel flokksfélögum blæddi.
Ef þú ætlar að gefa hluti í skyn eða höfða til tilfinninga fólks, þá notarðu myndmál. Ef þú ætlar að segja skoðun þína, láta í ljós þekkingu þína eða jafnvel fræða fólk, þá er hætt við að ræðan verði sjálfsagt merkilegri, en mun áhugaverðari fyrir aðra en bókmenntafræðinga.
Þessi ræða höfðaði til tilfinninga viðstaddra, en Davíð lét einnig áhugaverða heimspekilega skoðun í ljós undir lokin, sem margir hafa kannski misst af vegna fyrri voðaskota: en það var að sannleikurinn væri seigari en afar vel skipulagðar blekkingar. Þessu get ég ekki annað en verið sammála, þar sem lygar og tilbúningur, sama hversu vel hannaðar þær eru, falla á endanum um sjálfar sig, sérstaklega ef fólk hættir að viðhalda lygunum og snýr sér að einhverju öðru. Þá liggur sannleikurinn í leyni bakvið lygastífluna og brýst fram við fyrsta tækifæri, þegar brestir koma í steypuna.
Ég er sammála Davíð um að upp komist svik um síðir, og ég hef trú á því að hann sé að einhverju leyti fórnarlamb í þessari atburðarás, en á erfitt með að trúa því hversu máttlaus hann virðist hafa verið gagnvart ofureflinu. Það er einfaldlega ekki sá Davíð sem maður kannast við.
Ég hef á tilfinningunni að Davíð reynist sannspár, og að hann muni komast ágætlega út úr sögulegri skoðun, en það breytir ekki því að litur ræðunnar var svo blár að hafið roðnar í samanburði.
Eina sterka hugmynd kveikti þó þessi skemmtilega ræða Davíðs - hún fékk mig til að spyrja hvort að Davíð hafi komist til valda fyrst og fremst vegna þess að hann er gott skáld, getur skrifað flottar ræður, er gífurlega hnyttinn í framsögu og skemmtilegur á að hlusta. Ég get vel skilið að þunglynd þjóð hafi fyrir áratugum kosið mann til valda á þessum forsendum, svona rétt til að gera heiminn aðeins skemmtilegri.
Vissulega hefði Ísland verið fölt ef ekki hefði verið fyrir Davíð Oddsson. Þakka ég honum fyrir skemmtunina, en það er ekki séns að ég muni gera tilraun til að dæma manninn út frá því sem hann hafði að segja við þessar aðstæður, ekki frekar en Henrik V þegar hann hvatti menn sína til dáða í frægu verki Shakespeare.
Málið er að Davíð er eiginlega Shakespeare og Henrik V í eina og sama manninum.
Athugið að höfundur rembist við að skrifa bloggið með myndmáli, enda er hér (vonandi) meira um gamansama pælingu að ræða en djúpan könnunarleiðangur inn í hugarheim Davíðs Oddssonar.
Myndir:
Don Quixote: Things to do in China when you are dying...
Krossfestingin: Crucifixion of Jesus by Spencer Williams
Svarthöfði og Láki geimgengill: STAR WARS: Injuries of Darth Vader
Skáldstrumpur: smurfs.com
Hvað er heimurinn? Kúla, heild, hugmynd, tákn eða sundruð veröld í tíma sem líður misjafnlega hægt eða hratt?
28.3.2009 | 12:03
Í gær sótti ég alþjóðlega ráðstefnu í Osló þar sem fræðimenn úr ýmsum fögum veltu fyrir sér eðli heimsins.
Það virðist ekki skipta máli úr hvaða fræðigrein viðkomandi kemur, alltaf er leitað til tveggja grundvallarhugtaka: tíma og rúms. Talað var um heimstíma annars vegar, og síðan hvernig fólk upplifir tímann á ólíkan hátt eftir ólíkum menningarsvæðum og störfum.
Til dæmis var rætt um það hvað tíminn virðist sífellt líða hraðar, og sérstaklega í samkeppnissamfélagi þar sem allir keppast um að vera fljótari en hinir til að ná tímans gæðum. En þegar spurt er hvað það er sem við stefnum á með öllum þessum hraða verður oft fátt um svör. Við trúum kannski að það sé einhver betri heimur, en er það virkilega raunin?
Hugsanlega kemur sú stund að þessi hraði leiðir okkur ekki í sjálfvirka þróun, heldur bara út í einhverja óreiðu og vitleysu, svona rétt eins og ávanabundin fíkn - og eina leiðin út úr slíkri óreiðu verður algjör endurhæfing og með því mun spretta sterk þörf fyrir trúarbrögð og æðri máttarvöld - því að þegar í óefni er komið og fólk getur ekki bjargað sér, þarf það að finna einhvern æðri tilgang.
Einnig veltu fræðimenn fyrir sér hvort að nútíminn væri liðinn og hvað gerðist þegar nútíminn væri á enda. Getur verið að við séum kannski á síðustu augnablikum nútímans, en 'nútíminn' þrátt fyrir orðið, er trú um að heimurinn sé á einhvern ákveðinn hátt akkúrat NÚNA.
Hvernig er þá þessi trú okkar um nútímann? Höfum við öll sömu trú? Hvernig er veruleikinn um heiminn óháð trú okkar og skoðunum?
Sum okkar þegar við reynum að teikna upp heiminn sjáum fyrir okkur jörðina sem hnött, aðrir sjá ennþá lengra út í geym og undir yfirborð jarðar, en hugtakið sem virðist vera ofaná er að jarðkúlan sé heimili okkar. Hvernig þessi jarðkúla er í raun og veru getur síðan verið erfitt vandamál að glíma við.
Það er nefnilega ekki nóg að fá gervihnattamynd af jörðinni, benda á hana og segja þessa bláu kúlu vera heiminn. Þegar aðrir menningarheimar eru skoðaðir, kemur í ljós að til dæmis ættbálkar í Pólinesíu trúa að hver einstaklingur fæðist innan í svona kúlu sem sköpuð er af móður viðkomandi, og að á leiðinni gegnum lífið bætist við nýjar og stærri kúlur sem hafa í för með sér réttindi og stöður í samfélaginu.
Enn önnur pæling barst að því að hugmynd okkar um heiminn væri að finna í þeim textum sem skrifaðir hafa verið um aldirnar og haft hvað mest áhrif á mannkynið. Með þessum hætti fer þá skilningur okkar á heiminum fram með táknrænum hætti, og í raun og veru væri heimurinn þá ekkert annað en táknmyndir sem spretta fram úr textum. Spurning hvort að kalla mætti það goðsagnir.
Enn ein pælingin fólst í spurningunni um mögulega heima, og aðgreiningunni á skáldheimum og mögulegum heimum, en skáldheimar eru búnir til með ákveðnum merkjum sem við skiljum, en hafa alltaf þann galla að vera endanlegir. Mögulegur heimur er hins vegar nær veruleikanum, því að við gerum okkur mynd af raunverulegum heimi, og með sífellt betri upplýsingum og sönnunargögnum komumst við nær því að gera okkur mynd af því sem heimurinn er í raun og verum.
Þær vangaveltur sem höfðu þó dýpstu áhrifin á mig var þegar rætt var um hvernig við sjáum heiminn gegnum hnattvæðinguna, þar sem léttvægar hugmyndir og hlutir flæða yfir veröldina nánast óhindrað, en strax og kemur að dýpri speki, guðfræði og raunverulegri menningu þjóða, þá verði strax til tregða. Mesta hindrunin felst hins vegar í landamærum heimsins, þar sem lokið er fyrir flæði fólks, þrátt fyrir að hugmyndir þeirra megi fljóta yfir landamærin nokkuð frjálst, hugsanlega á Internetinu.
Internetið virðist vera að búa til ákveðna trú um heiminn, vera hálfgert dogma, kenning um heiminn, nánast trúarbrögð (eða töfrabrögð) þar sem við sjáum ekki lengur landamæri heimsins heldur sjáum við stöðugt heildarmyndina og förum að trúa því að allir jarðarbúar séu jafnir.
Mætirðu hins vegar á staðinn þar sem fólk er að klifra rafmagns og gaddavírsgirðingar til að flýja eigið land og inn á "frjáls" landsvæði eins og Evrópu eða Bandaríkin, þá renna á þig tvær grímur. Það sem virðist nefnilega einkenna heiminn er ekki heild, eins og við höfum sterka tilhneigingu til að halda, heldur eru það sundranir sem sýna okkur hvernig heimurinn er.
Dæmi um slíka sundrun er að nú hafa verið háð stríð á þeirri forsendu að mannréttindi hafa verið brotin.
Í lok ráðstefnunnar var ég afar pirraður, enda hafði heimsmynd mín orðið fyrir miklum áhrifum. Ætlunin var að fara í mat eftir ráðstefnuna, en ég hafði enga lyst - ég hafði alltof mikið af hugans mat til að melta, og er enn að því. Fyrstu viðbrögð mín eftir ráðstefnuna voru að þetta hafði verið tómt rugl, en nú þegar þetta er allt að síast inn og ég að átta mig á alla þá undrun sem ég upplifði á þessum fáeinu klukkustundum, hefur gefið mér tilefni til að hugsa um heiminn út frá nýjum forsendum - og með því fararnesti ekki aðeins bætt sjálfan mig, heldur hugsanlega heiminn eitthvað með.
Því ef við reynum að bæta heiminn án þess að vita hvað heimurinn er, getum við þá virkilega vitað með vissu að við séum að bæta heiminn?
Eftir á að hyggja er ég afar sáttur við að hafa mætt á þessa ráðstefnu, enda finn að búið er að kveikja í mínum gömlu hugmyndum og nýjar að glæðast. Ég vil þakka þeim Helge Jordheim, Hartmut Rosa, Dorthe Gert Simonsen, Helen Kelly Holmes, Pia Lane, Ingjerd Hoem, Karen Gammelgaard, Kristin Asdal, Anne Eriksen og Katja Franko Aas fyrir að kveikja hjá mér þessar vangaveltur um heiminn.
Ég er sérstaklega þakklátur fyrir að sjá hversu grunna hugmynd ég hafði um heiminn og hversu langa ferð ég á enn fyrir höndum.
Svona sér McDonalds heiminn:
Myndir:
Jörðin frá tunglinu: Cosmos4Kids
Nútími Charlie Chaplin: The Jog
Landamæri: InfoWars
Eldspýtur: PhotoBucket
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Bloggum betur 3: Ekki láta hafnanir stoppa þig
27.3.2009 | 09:10
Ég trúi því að frjáls hugsun sé aðeins möguleg ef maður getur tjáð hana og gert það vel. Hvirfilvindarnir í hausnum, ótjáðir, eru einfaldlega nær því að vera draumar en hugsanir - því þeir gufa upp jafnskjótt og þeim er sleppt. Að frelsa hugsanir með lyklaborði eða penna gefur þeim nýtt líf, óháð því hvort að þær komist milli eyrna lesenda.
Flestir ef ekki allir þeir sem hafa unun af að skrifa þekkja höfnun. Höfnun er óþægileg tilfinning, og þýðir einfaldlega að einhver metur rituð orð þín ekki jafnmikið og þú gerir. Hugsanlega fundu orð þín ekki réttan lesanda eða þá að þau voru einfaldlega ekki nógu vel unnin. Það er þitt að meta.
Ef einhver segir að þú skrifir illa, þá skaltu spyrja hvað það er við skrif þín sem er slakt, og þú þarft að meta hvort að gagnrýnin sé gefin af heilum hug eða kannski af illkvittni eða öfund. En metirðu svo að gagnrýnin sé góð og gild, þá er spurning um næsta skref: annað hvort hættirðu að skrifa af því að þú skrifaðir eitthvað illa, eða þú bætir þig.
Rithöfundar sem eitthvað er spunnið í velja seinni kostinn. Þeir sem velja fyrri kostinn hafa gefist upp og verða því aldrei rithöfundar.
Tilvitnanir um hafnanir rithöfunda:
Jane Yolen: "Rithöfundur venst aldrei höfnunum. En ef hann hefur sent frá sér nógu mörg handrit verður sérhver höfnun lítilvægari. Lítilvægari? Að minnsta kosti minna særandi."
Isaac Asimov: "Ég sparka og öskra þegar ég fæ höfnun, og það er engin ástæða til að þú gerir það ekki til að láta þér líða aðeins betur. Samt, þegar þú ert búinn með spörkin og öskrin mæli ég með að þú snúir þér að því að endurskrifa og senda verkið aftur til útgáfu."
Dæmi um rithöfunda sem hefur verið hafnað:
Ray Bradbury sagði að hann ætti um 1000 höfnunarbréf eftir 30 ára feril.
Edgar Rice Burroughs var stöðugt hafnað þegar hann reyndi að selja framhaldssögur um Tarzan.
Stephen King var hafnað í fyrstu þegar hann reyndi að selja metsölubókina Carrie.
Dagbók Önnu Frank var hafnað 16 sinnum áður en hún var gefin út árið 1952.
John Kennedy Toole var hafnað svo oft fyrir bók sína Confederacy of Dunces, að hann framdi sjálfsvíg. Móðir hans barðist eftir dauða hans fyrir útgáfu sögunnar. Að lokum fékk bókin Pulitzer verðlaunin árið 1980.
Richard Bach var hafnað 140 sinnum áður en Jónatan Livingston mávur var gefin út.
Annað í sama dúr:
Bloggum betur 1: Ekki brjóta gegn lögmálum sem þú skilur ekki.
Bloggum betur 2: Skrifaðu alla daga - þannig lærirðu mest
Myndir:
Pylsubrauð hafnar pylsu: Wovel movers
Foundation eftir Isaac Asimov: But what these unobservant birds
Tarzan: Michael May's Adventureblog
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Gefið í skyn á mbl.is að Ögmundur sé göfugur, Geir Haarde sé ekki sannur Íslendingur og að 20% niðurfelling skulda heimila sé tóm steypa?
26.3.2009 | 09:44
Þegar Ögmundur Jónasson fórnar ráðherralaunum sínum er gefið í skyn að um göfugt fordæmi sé að ræða. Eða er kannski verið að gefa í skyn að jafna skuli laun allra landsmanna? Er Ögmundur með þessu að gefa í skyn að verði Vinstri Grænir kosnir til valda eftir næstu kosningar að laun almennings og auðmanna verði jöfnuð? Er þetta kannski kosningabrella sem hefur engin loforð í för með sér?
Þegar birtist í einni og sömu frétt að Geir Haarde sé að kveðja Alþingi og í sömu frétt að blindrahundur fái að koma sér fyrir í Alþingishúsinu, og sagt að Geir og hundurinn eigi það sameiginlegt að vera báðir af norskum ættum, þá er verið að gefa ýmislegt í skyn án þess að það sé sagt. Hugsanlega er verið að gefa í skyn að Geir sé ekki sannur Íslendingur, og að margt sé líkt með honum og blindrahundi - að hann hafi leitt þjóðina áfram einhverja fyrirfram ákveðna leið sem ekki var mörkuð af skynsemi, heldur þjálfun. Hugsanlega gefur þessi tenging ýmislegt annað áhugavert í skyn, sem í raun endurspeglar meira viðhorf eða fordóma þeim sem flytur fréttina en hlutlausar staðreyndir.
Þegar Jóhanna Sigurðardóttir segir að hugmyndin um 20% niðurfellingu skulda heimila sé eignartilfærsla frá einstaklingum til fyrirtækja, er gefið í skyn að það sama eigi við hugmyndina um 20% niðurfellinga skulda heimilanna. Sérstaklega er áhugavert hvernig hefur tekist að breyta hugmyndinni úr "niðurfellingu 20% af skuldum heimila" í "niðurfellingu 20% af skuldum heimila og fyrirtækja". Seinni hugmyndin er vissulega út í hött, nokkuð sem hvert mannsbarn sér, en að gefa í skyn að fyrri hugmyndin felist í þeirri seinni getur verið stórhættulegt, sérstaklega á augnabliki þar sem heimilin kalla á róttækar aðgerðir þeim til bjargar, en sjá hins vegar vatnsgreidda jakkalakka bjarga sviksamlegum fjármálastofnunum í staðinn (þarna gefur höfundur margt í misgáfulegt í skyn - [eða er þetta kannski ábyrgðarlaus ályktun?] - sem þarf að greina með gagnrýnni hugsun til að draga í sundur persónulegar skoðanir og það sem verið er að segja í raun og veru).
En þessi grein fjallar fyrst og fremst um hugmyndina eða hugtakið "að gefa eitthvað í skyn" og hvað það þýðir.
Gefið í skyn
Fullyrðing eða sönn setning sem leiðir af öðrum fullyrðingum eða sönnum setningum. Einn af mikilvægustu hæfileikum gagnrýns hugsuðar er að geta gert greinarmun á því sem fullyrðing eða aðstæður gefa í skyn og ábyrgðarlausum ályktunum. Gagnrýnir hugsuðir reyna að átta sig á takmörkunum eigin þekkingar og á því hvað þessi þekking gefur í skyn.
Gagnrýnir hugsuðir vanda orðaval sitt til að gefa í skyn það sem þeir geta réttlætt á áreiðanlegan hátt. Þeir kannast við að til staðar er ákveðin orðanotkun sem gefur eitthvað ákveðið í skyn.
Dæmi: Að segja eitthvað vera glæp er að gefa í skyn að athöfnin hafi verið framkvæmd með ráðnum hug og sé óréttlætanleg.
Myndir:
The World is Flat: Thomas L. Friedman
Ögmundur Jónasson: Alþingi
Geir Haarde: EU and Finland
Jóhanna Sigurðardóttir: MÍR.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Svona er Ísland í dag
22.3.2009 | 12:37
Þeir mættu undir styttu Jóns Sigurðssonar laugardaginn 21. mars, stundvíslega klukkan þrjú. En það voru engin mótmæli. Davíð hélt á skilti sem sagði "Helvít.is" en Steingrímur huldi andlit sinn með lambhúshettu, þannig ekki sást í neitt nema varir og augu.
"Hvar er Hörður Torfa?" sagði Steingrímur. "Hvar eru allir?"
"Ég veit ekki", sagði Davíð og tók upp farsímann. Hann hringdi í eitthvað númer. "Halló... mótmælafundurinn er ekki... ha? ekki í dag... ókei... takk... bless..."
Hann stakk símanum í vasann og yppti öxlum. "Enginn fundur í dag. Sjáumst!" Hann var fljótur að kveðja og gekk af stað.
"Bíddu," kallaði Steingrímur og hljóp á eftir honum. "Hvað er í gangi? Eru mótmælin hætt? Höfum við sigrað? Höfum við gefist upp?"
"Við höfum ekki sigrað," sagði Davíð.
"Við höfum þá gefist upp," sagði Steingrímur.
Davíð snéri sér að Steingrími og horfði blíðlega í augu hans. "Heldurðu virkilega að hlutirnir lagist að sjálfu sér? Heldurðu að Hörður Torfason sé eini maðurinn á Íslandi sem þurfi að fórna sér fyrir fjöldann? Heldurðu að Hörður Torfason geti barist einn áfram til eilífðar, þegar þjóðin sýnir honum ekki meiri stuðning en hún hefur gert síðustu vikurnar? Af hverju tekur þú ekki af þér grímuna og heldur mótmælafund sjálfur?"
Steingrímur leit undan ákveðnu augnaráði Davíðs. Davíð starði áfram á hann þar til Steingrímur svaraði. "Ég er ekki tilbúinn til að tapa öllu. Ert þú það?"
"Hvað ertu að bulla?" spurði Davíð.
"Ja," sagði Steingrímur. "Frændi minn. Hann sagði mér að taka af mér grímuna og berjast fyrir betra Íslandi undir eigin nafni. Nú er hann að flytja úr landi einmitt vegna þess að hann mótmælti grímulaus og birtist í sjónvarpinu. Hann var rekinn úr starfi stuttu síðar og flutti úr landi í janúar."
"Nú?"
"Sjálfselska, ofmetnaður og spilling er það eina sem gildir á Íslandi," sagði Steingrímur. "Þeir spilltu safnast í hópa og ráðast á þá sem skera sig úr og berjast fyrir betri heimi. Sjáðu hvernig hefur stanslaust verið ráðist á Hörð Torfa, og hann hefur svo gagnrýnt þá sem hafa viljað vernda sjálfa sig og fjölskyldur sínar með grímum, en þegar fólk ver sig ekki er það einfaldlega lagt í einelti þar til það flýr land. Þannig fækkar mótmælendum."
"Já, það er kannski eitthvað til í þessu," sagði Davíð. "Sjálfur þekki ég mann sem reyndi að hjálpa öðrum eftir efnahagshrunið í október með því að koma af stað og vera í ábyrgð yfir verkefni með sjálfum forseta Íslands, í þeirri barnslegu trú að hann gæti komið einhverju góðu til leiðar - en yfirmaður hans var ósáttur, hótaði honum uppsögn í nóvember og sagði honum upp í janúar. Sönn saga!"
"Þetta er grimmur heimur," sagði Davíð.
"Ekkert smá. Þessi maður er á leið úr landi með fjölskyldu sína," sagði Steingrímur.
"Honum var nær að leggja nafn sitt undir."
"Heldur betur var honum nær, hann taldi sig undir verndarvæng áhrifamikilla einstaklinga, en þegar á hólminn var komið, stóð hann einn og yfirgefinn uppi á hæð, reyndi að verjast höggum eins og Gísli Súrsson í denn, og féll loks í valinn eftir stuttan bardaga."
"Gísli hver?" spurði Davíð.
"Úr Íslendingasögunum, gleymdu því," sagði Steingrímur.
"Svona er Ísland í dag," sagði Davíð, tók lambhúshettu úr vasanum og dró yfir andlit sitt.
Mynd: China Daily
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eru Íslendingar ekki lengur þjóð?
18.3.2009 | 10:49
"Það er ekki sanngjarnt að setja þetta upp sem baráttu milli þeirra sem vilja sama húsnæðisverð (og virðast í þínum augum vera góða fólkið) og svo þeirra sem vilja braska með íbúðir (vonda liðið). Þetta snýst miklu frekar um að ganga ekki á þá sem eiga sparnað eða hafa ekki skuldsett sig um of til að borga undir þá sem skulda mikið. Það er lítið réttlæti í því. (Landið)
Ég er ánægður með samræðuna sem birtist í athugasemdum greinarinnar "Hvernig Samfylkingunni tókst að tapa mínu trausti", sérstaklega vakti þessi athugasemd áhuga minn, sem er svar við spurningu minni um hvort að hugsanlega séu ólíkir hagsmunir í húfi þegar kemur að lausn þess vanda sem snýr að skuldum íslenskra heimila.
Mér finnst áhugavert að setja þetta upp sem baráttu góðs og ills, en sjálfur sé ég þetta ekki þannig að tvö lið séu að berjast, annað gott og hitt illt, heldur að leikurinn sem slíkur geti endað með ósköpum ef við hugsum einungis út frá liðunum, en ekki útfrá framtíð leiksins sem slíks, þegar leikurinn er almannaheill. (Sem er reyndar langt frá því að vera léttvægur leikur í raun).
Mér þætti skynsamlegt að framkvæma 20% niðurskurð á skuldum heimila - og skil ekki alveg af hverju ýmsir fara að töfra fram tölur sem innihalda upphæðir tengdum fyrirtækjum. Það er allt annað mál.
Ég sé engan sem vonda eða góða aðilann í þessum málum, en hef hins vegar áttað mig á að fólk getur haft ólíkan hvata til að vera með eða á móti hugmyndum sem þessari. Þegar fólk skiptir sér í lið er hætta á að það tapi umhyggju fyrir öðrum sjónarmiðum en eigin. Annað hvort ertu með okkur eða á móti, eins og Bush sagði eða "Join us or die", eins og Svarthöfði sagði við Luke Skywalker.
Með eða á móti er ekkert val. Að sjá bæði sjónarhornin skýrt og sætta þau er hins vegar afar skynsamleg leið. Ráðamenn eiga ekki að skjóta hugmyndir í kaf vegna þess að þær koma frá "vitlausu" liði, heldur komast til botns í málinu, meta kalt og finna sanngjarnan flöt.
Ef hugarfarið sem leiddi þjóðina í gjaldþrot (staðreynd sem reyndar hefur ekki enn verið viðurkennd af öllum, hugsanlega vegna afneitunar, hugsanlega vegna þess að ég hef rangt fyrir mér) verður notað á þessi vandamál, þar sem fólk eða sérhagsmunahópar hugsa fyrst og fremst um hvernig það sjálft geti grætt á ástandinu og komið í veg fyrir að aðrir græði of mikið á því, þá erum við á villugötum og sjálfsagt glötuð.
Flestir hafa rétt fyrir sér út frá eigin sjónarmiðum, enda er leiðin til helvítis lögð með góðu malbiki, en séu þessi sjónarmið of þröng, og taka ekki til hagsmuna heildarinnar, tel ég að viðkomandi þurfa að kafa dýpra og sjá hlutina í víðara samhengi.
Þegar verið er að skipta verðmætum, þá virðist fólk hafa tilhneigingu til að verða gráðugt og gleyma náunganum. Svona eins og þegar þú kemur með of fáar pizzur í strákaafmæli og leyfir handalögmálum að ráða. Ef þú nálgast málið þannig, þá fáum við margar hendur upp á móti hverri annarri.
Ef við sjáum málið hins vegar sem björgunaraðgerð - eins og hrísgrjónum sem dreift er til nauðstaddra, sem reyndar er óhjákvæmilegt að einhverjir muni misnota og takast það sama hvaða ráðstafanir eru gerðar, þá verðum við að skilja að fórnarkostnaðurinn við björgunina lendir að einhverju marki á þeim sem telja sig stikkfrí og skuldlausa.
Það er enginn stikkfrí þegar þjóðin er í kreppu. Þeir sem halda það eru í afneitun. Kannski munu viðkomandi geta lifað lífinu eðlilega í nokkra mánuði til viðbótar, en það mun koma að skuldadögum þegar aðgerðirnar fara í gang innan fárra mánaða - og þá munu allir finna til og þegar fólk fer að finna til, þá fer það að skilja af hverju upp hafa risið samtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna, samtök einstaklinga sem sjá aðeins lengra fram í tímann og hafa áttað sig á ástandinu. Reyndar er aðalfundur samtakanna á fimmtudag þar sem kosið verður til stjórnar. Ég verð fjarri góðu gamni og ekki í stjórn, en styð samtökin heilshugar og tel að fleiri ættu að gera það, og í raun allir sem vilja styðja við heimilin í landinu.
Það verða allir að leggja hönd á plóg og hjálpa. Ef það er ekki gert, þá erum við einfaldlega ekki lengur þjóð, heldur tilviljanakenndir einstaklingar og hópar sem búa á sama landsvæði. Erum við hætt að vera þjóð eða höfum við kannski aldrei verið þjóð?
Hefur Íslendingurinn sem berst um í brjósti mínu aðeins verið rómantískt ljóð?
Í öll þau ár sem ég hef búið erlendis hef ég verið afar stoltur af uppruna mínum sem Íslendingur og gengið uppréttur með menningararfinn í hug sem og hjarta. Ég hef séð þetta sem raunveruleg gæði, andleg gæði, sem hafa komið mér heilum gegnum erfið tímabil - þar sem ég hef upplifað töluvert af fordómum, fellibyl og flóð, en fundið mótvægi og styrk gegn þessu í eigin hugrekki sem byggir á ást og stolti gagnvart eigin þjóð og þeirri trú að ákveðin gildi Íslendingsins sé hægt að yfirfæra á allan heiminn, þó að þau séu kannski ekki öll yfirfæranleg.
Mér hefur verið tekið vel víða um heim og ætíð gætt þess að verja orðspor þjóðar okkar hvert sem ég kem. Af þessum ástæðum hef ég verið sáttur við að tala erlendis með sterkum íslenskum hreim - og ekki gert markvissar tilraunir til að blanda mér algjörlega inn í hópa með því að þykjast vera eins og þeir.
Fátt er verðmætara en sterk þjóðerniskennd, og á sama tíma er fátt hættulegra en sterk þjóðernishyggja. Takið eftir muninum á þessu tvennu. Þjóðerniskennd er jákvæð tilfinning og jafnvel stolt yfir eigin uppruna, á meðan þjóðernishyggja er það sjónarmið að eigin þjóð sé réttmætari og betri en aðrar þjóðir. Í rammanum gott og illt, þá er þjóðerniskennd góð, enda byggir hún á þekkingu, en þjóðernishyggja ill, þar sem hún byggir á fáfræði.
Þegar sterkar tilfinningar þjóðerniskenndar vakna einungis við sigur í knattleikjum eða söngvakeppnum, þá er eitthvað að. Við ættum að finna til þjóðerniskenndar þegar við sjáum Íslendinga kalla á hjálp og gera eitthvað í málunum frekar en að snúa við þeim bakinu.
Á sama tíma og fram koma tölur um að fleiri en 40.000 heimili séu í alvarlegum vanda heyrum við fréttir um að þúsundir Íslendinga séu á leið í sólarlandaferð yfir páskana.
- Er ekki eitthvað bogið við þetta?
- Getur verið að efnishyggjunni hafi fylgt ormar sem nagað hafa þjóðerniskenndina í sundur, innanfrá?
- Verðum við ekki að grípa til vopna, og er ekki besta vopnið okkar gagnrýnin hugsun?
"Siðferði er ekki kenningin um hvernig við gerum sjálf okkur hamingjusöm, heldur hvernig við gerum okkur að fólki sem verðskuldar hamingju." Immanuel Kant, úr Gagnrýni heilbrigðrar skynsemi
Myndir:
Skjaldamerki Íslands: Wikipedia.org
Gott og illt: Philosophica.org
Svarthöfði: Ocean State Republican
Pizza: Fat Loss School
Þjóðernishyggja: Emory Libraries
Handbolti: sport.is
Youtube myndband: Snorri Valsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Hvernig Samfylkingunni tókst að tapa mínu trausti
17.3.2009 | 00:18
Útslagið gerðu viðtöl í Kastljósi og Silfri Egils 15. og 16. mars 2009.
Fyrir síðustu kosningar las ég vandlega stefnumál hvers flokks og tók þá ákvörðun að kjósa Samfylkinguna. Stefnurnar tók ég saman hér. Loforðin snerust um að setja heimilin í forgang, auka sanngirni í samfélaginu, og koma í veg fyrir sjálftökur og orðrétt:
"Það er þjóðarnauðsyn að bæta fyrir vanrækslusyndir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum. Samfylkingin berst fyrir auknum jöfnuði, jafnvægi í efnahagsmálum og félagslegum framförum."
Ég axla ábyrgð með því að hrópa yfir heiminn að ég kýs þennan flokk ekki aftur.
Í fyrsta lagi stóð Samfylkingin máttlaus hjá þegar hrunið reið yfir, og gerði í raun minna en ekkert gagn. Hápunkturinn í flokknum var þegar Björgvin G. Sigurðsson sagði af sér ráðherraembætti degi áður en ríkisstjórnin féll, og með þessari afsögn og því að afþakka laun næstu sex mánuði sem hann hafði rétt á, bjargaði hann eigin heiðri, þó að ekki hafi hann bjargað flokknum.
Í Samfylkingunni hef ég orðið var við undarlega tregðu við að taka af skarið og koma heimilum landsins til hjálpar. Við heyrum frasa eins og 'skjaldborg um heimilin' sem reynast síðan ekki hafa mikið innihald.
Ég vil reyndar þakka Samfylkingunni fyrir að hafa greitt leiðina fyrir útgreiðslu séreignarsparnaðar, hugmynd sem fyrrum samstarfsfélagi minn kom með í hádegismat og ég birti síðan hér á blogginu og sendi nafna mínum, aðstoðarmanni Jóhönnu þá félagsmálaráðherra - og fékk ágætar undirtektir.
Hér er sú færsla frá 3. nóvember 2008: Af hverju má ekki nota séreignalífeyrissparnað til að borga húsnæðislán?
Mér finnst leitt að þessar hugmyndir komi ekki frá fólkinu sem hefur verið kosið. Af hverju þurfa svona hugmyndir að koma frá fólki utan úr bæ? Af hverju spretta þær ekki upp í hugum þess fólks sem kosið hefur verið á þing og ráðið í embætti? Það skil ég ekki.
Ég var upptekinn við önnur störf en tók samt eftir að eitthvað undarlegt var á seyði í bönkunum þegar ég skrifaði greinina Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska? 25.3.2008
Það er eitthvað mikið að þegar maður út í bæ eins og ég sé þetta skýrt og greinilega en fólk með nákvæmar upplýsingar og við völd verður ekki var við neitt.
Ég hvatti fólk til að kjósa Samfylkinguna fyrir síðustu kosningar. Það geri ég ekki aftur.
Eftir að hafa heyrt Árna Pál Árnason gjamma innihaldslítið í Silfri Egils og Sigríði Ingadóttur rífast af hörku gegn skynsamlegri hugmyndi í Kastljósi kvöldsins, mun ég sjálfsagt mæla af hörku gegn því að fólk kjósi þennan flokk aftur. Að Samfylkingin standi fyrir lengingu í hengingarólinni með greiðsluaðlögunum er skammarlegt. Það skammarlegt að ég skammast mín fyrir að hafa kosið flokkinn í síðustu kosningum og lofa því að ég muni ekki kjósa hann aftur. Það hafa þessi tvö viðtöl sannfært mig um.
Þessi rök sem við höfum lengi séð fyrir að ekki skuli koma með heildarlausn af því að það hjálpi fólki sem er ekki komið í alvarlegan vanda núþegar er ljótur stimpill á flokk sem hefði getað átt sér fína framtíð.
Málið er að neyðarúrræðið er komið. Það er búið að fresta eignatöku á heimilum til ágúst næstkomandi. Næsta skref er að fólk fái til baka þá peninga sem var rænt. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hjá Framsóknarflokknum og Tryggvi Þór Herbertsson hjá Sjálfstæðisflokknum sjá þetta sem nauðsynlega réttlætisaðgerð - að það fólk sem átti sína fasteign fyrir hrun, eignist aftur í sinni fasteign og festist ekki við hana áratugi til viðbótar. Að Samfylkingarfólk sjái þetta augljósa mál ekki skýrum augum og slái upp í kringum það pólitísku ryki er óskiljanlegur afleikur hjá flokki sem var næstum búinn að bjarga andlitinu.
Það þarf að hlusta á það sem fólk hefur að segja, sérstaklega ef það eru hugmyndir um lausnir, án þess að falla í skotgrafir flokkspólitíkar.
Við höfum tvo kosti. Þeir eru einfaldir. Hvorugur fullkominn.
1) Framkvæmum aðgerðir fyrir þá sem eru verst staddir og látum þá sem eru illa staddir bíða eins og lömb sem fylgja blindum hirði þar til þau eru nálægt því að fjalla fram á bjargsbrún - þá skal þeim bjargað í réttri röð, þó að þeir séu 100.000 talsins ef þeir standast skilyrði sem sett eru fram.
2) Drögum til baka tapið sem fólk hefur orðið fyrir vegna árásar á gengi íslensku krónunnar og gífurlegar verðbólgu sem er á ábyrgð þeirri sem eiga lánin - til þess eins að mjólka hraðar úr spenum skuldara. Látum það sama ganga yfir alla. Ljóst er að einhverjir græða á þessu og það er vissulega ósanngjarnt - en getur einhver virkilega staðið við þá hugmynd að það sé mikilvægara að koma í veg fyrir að einhver græði pening á ástandinu, heldur en að gera fyrirbyggjandi aðgerðir til að bjarga heimilum tugi þúsunda mannvera?
Í augnablikinu er allt útlit fyrir að ég skili auðu í næstu kosningum og með því meina ég megna óánægju gagnvart því sem verið er að bjóða upp á, sem er sambærilegt við að ganga út af veitingastað ofbjóði þér verðið, framkoman eða maturinn. Eða allt þrennt.
Við þurfum að framkvæma flata aðgerð við fyrsta tækifæri og þurfum að gagnrýna af hörku þá sem standa í vegi fyrir slíkri framkvæmd með þeim rökum að þá græði einhverjir á ástandinu.
Björgunaraðgerðir kosta ákveðnar fórnir. Að koma í veg fyrir hamfarir er ennþá verra.
Umræddir sjónvarpsþættir:
Kastljós 16.3.2009
Silfur Egils 15.3.2009
Myndir:
Áttaviti: ABC Radio National
Snjóflóð: All About Snow
Maður út í bæ: Roaring 20 - Somethings
Maður á krossgötum: University of Westminster
Ógirnilegur réttur: Weight Loser Blog
(Til að fyrirbyggja misskilning, þá er ég ekki á leið í framboð og hef engan áhuga á að starfa á vettvangi stjórnmála).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
Sjö ráð til að ná og viðhalda völdum í nútímasamfélagi
15.3.2009 | 13:00
Í gærkvöldi tók ég þátt í prófkjörsveislu hjá ónefndum stjórnmálaflokki, en vinur minn náði fyrsta sæti, þannig að við duttum alveg herfilega í það og fórum svo niður í bæ á pöbbarölt. Við vorum átta saman til að byrja með, en eftir því sem leið á kvöldið týndust fleiri einstaklingar úr hópnum. Ég held ég hafi fengið staup á hverjum einasta bar í bænum og man reyndar ekkert eftir hvað gerðist á milli kl. 1 og 4, en þá var ég allt í einu sestur við hringlaga borð og fyrir framan mig var þessi ótrúlega sæta ungmey með fjarlæg og blá augu, húð hvíta sem pappír og blóðrauðar varir. Hún hallaði sér yfir borðið og kyssti mig.
"Um hvað vorum við að tala?" spurði ég þegar varir hennar og andlit fjarlægðust mig eins og gufa sem stígur hægt upp frá jörðu.
"Spillinguna. Eina leiðin til að ná völdum á Íslandi er með spillingu. Þú veist það. Ég veit það. Fólkið veit það. En enginn trúir því."
Rödd hennar var djúp og frekar gáfuleg, áherslurnar voru allar á réttu orðin, og mál hennar það skýrt að hún hefði getað verið sjónvarpsþula með undirbúna ræðu. Hún hélt áfram og ég horfði heillaður á hana.
"Með því að kíkja yfir prófkjörin og hvernig útlitið er fyrir framhald stjórnmála á Íslandi get ég ekki séð af hverju Vítisenglum er bannað að koma til landsins, nema þá að ógn hafi staðið að þeim sem ráðgjöfum fyrir nýjan stjórnmálaflokk. Ég erfitt með að sjá muninn Vítisenglum og íslenskum stjórnmálaflokkum."
"Vítisenglar eru mótorhjólagengi," sagði ég yfirvegaður. "Þeir eru, eins og Jack Nickolson sagði í Easy Rider, holdgerving frelsisins - því að allir eru til í að tala um frelsið eins og ekkert sé mikilvægara, en þegar manneskja er frjáls í raun og veru verða allir skíthræddir, því að frelsið þegar það er lifað táknar eitthvað allt annað og miklu meira en löghlíðin þjóð getur sætt sig við."
"Sérstaklega þegar þjóðin er gjörspillt," sagði hún. "Má ég sýna þér svolítið?" sagði hún og hallaði sér stríðnislega yfir borðið. Ég sötraði af bjórnum og kinkaði kolli.
Hún dró bækling fram úr Lacome veskinu sínu. Framan á því var mynd af krossi á hvolfi, þar sem frelsarinn sjálfur hékk öfugur á krossinum, en hælar hans höfðu verið negldir efst og höfuð hans snerti nánast jörðina. Hendur hans höfðu verið negldar fast við mjaðmir hans. Ég þurfti að míga.
Þegar ég kom aftur lá bæklingurinn opinn fyrir framan hana á borðinu. Fyrirsögnin var "Sjö ráð til að ná og viðhalda völdum í nútímasamfélagi".
"Ég nenni ekki að lesa innganginn, hann er alltof langur og fullur af innantómum skoðunum einhvers heimskingja. Hins vegar er nokkuð mikið vit í þessu."
"Lát heyra," sagði ég og ímyndaði mér hvernig hún liti út klæðalaus og í svefnherberginu mínu.
"Ráð eitt: Vertu gráðugur og sýndu græðgi." Hún leit upp eitt augnablik til að leggja áherslu á að þetta var fyrirsögn, og hélt svo áfram.
"Þetta geturðu gert með því að stela einhverju smáræði, skjóta undan peningum sem enginn tekur hvort eð er eftir að eigi að fara í eitthvað smáræði, eða þiggja smá aukalaun frá aðilum sem vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri og auka eigið frelsi."
"Þú meinar svona tæknileg mistök?" sagði ég og kveikti í Kúbuvindli. Hún hélt áfram að lesa.
"Ráð tvö: Hámaðu í þig á meðan tækifæri gefst og sýndu öðrum að þú getir það."
"Þetta geturðu gert með því að fara til dæmis á hádegishlaðborð. Þar geturðu safnað matarforða í magann til heillar viku með því að borða eins mikið og þú mögulega getur á stuttum tíma. Einnig er mikilvægt að þú eignir þér eins stórt hús og mögulegt er til að geyma eins marga hluti og þú getur keypt, og svo þarftu auðvitað stóran jeppa til að geyma allan matinn sem þú hefur étið á hádegishlaðborðinu."
"Þú meinar til dæmis með því að lána ofurlán á ofurvöxtum og borga lánveitanda síðan ofurlaun fyrir mögulega endurgreiðslu láns."
"Ég heyri að þú ert með þetta allt á hreinu," sagði hún.
"Ráð þrjú: Ræktaðu með þér leti og þunglyndi og sýndu öðrum hversu vonlausir hlutirnir eru."
"Þegar þú ert kominn í ófyrirsjáanlegan vanda eftir að hafa hámað í þig og stolið, þá þarftu að kunna þá list sem felst í að varpa þunga vandans yfir á einhverja aðra, enda nennirðu varla að leysa öll heimsins vanda sjálfur. Mundu að lita vandamálið sem dekkstu litum og dragðu upp þá þunglyndislegustu mynd sem þú getur hugsað þér, því fólk verður svo ánægt þegar það sér að hlutirnir eru ekki jafn ömurlegir og þú hélst í upphafi, og þú kemst upp með að gera ekki neinn skapaðan hlut í málinu."
"Ég skil," svaraði ég. "Þetta er svona eins og með fjölmiðlana. Þeir sýna stanslaust frá einhverjum drápum og hörmungum úti í heimi til að telja okkur hinum trú um hvað við höfum það gott hérna heima."
"Já, og okkur er jafnvel talið trú um að hlutirnir séu verri en þeir eru, til að við séum sátt við að hlutirnir hjá okkur séu ekki eins slæmir og þeir gætu verið."
"Djöfull eru þetta steiktar pælingar," sagði ég og tók djúpann smók. Helvíti mikið bragð af þessum Kúbuvindlum.
"Ráð fjögur: Ræktaðu með þér reiði og hatur og sýndu öðrum að það eru þeir sem gera heiminum ógagn með því að vera til."
"Þegar einhver reynir að skikka þig til hlýðni vegna þess að þú hagar þér ekki eftir settum reglum, þá skaltu opinberlega ásaka viðkomandi um árás gegn þér og öllu því sem þú stendur fyrir, og krefjast þess að viðkomandi sé refsað fyrir vikið - og ef þér verður ekki hlýtt - safna liði gegn honum. Enginn á að komast upp með að gagnrýna þig refsilaust. Einnig skaltu leggja rækt við hatur þitt á minnimáttarhópum í samfélaginu, því að líklegt er að þú komist upp með það, enda finna margir til með þér."
"Meinarðu að fordómar séu góðir vegna þess að þeir eru algengir, vinsælir og auðskiljanlegir?" sagði ég.
"Ég er ekki greinin," sagði hún. "En pældu í því. Það er auðveldara að tengjast fólki sem hefur sams konar fordóma, og betra að losa þig einfaldlega við þá sem gagnrýna. Þeir eyðileggja bara fyrir."
"Nákvæmlega. Þannig sameinuðust nasistar með fordómum gegn gyðingum, og síðan sameinuðust bandamenn á sams konar hátt með fordómum gegn nasistum. Þannig hefur hið vestræna samfélag sameinast gegn hryðjuverkum og einstaka löndum með fordómum gegn múslimum. Þannig hafa mótmælendur sameinast á Íslandi með fordómum gegn banka- og stjórnmálamönnum."
"Ég get ekki sagt að greining þín sé nákvæm, og kannski svolítið í hlutfalli við alkóhólsmagnið í blóðinu, en ég held þú sért samt á réttri leið. Á ég að lesa áfram?"
Ég kinkaði kolli og skálaði í botn við einhvern gaur sem ég kannaðist við á næsta borði.
"Ráð fimm: Ræktaðu með þér öfund og afbrýðisemi og sýndu öðrum að þeir beri að sýna þér tilhlýðilega virðingu."
"Þegar þú uppgötvar, til dæmis á vinnustað þínum, að einhver hefur óumdeilda hæfileika og getu sem vekja athygli og hugsanlega ógna þinni stöðu, finndu úrræði til að losna við viðkomandi úr umhverfinu. Leitaðu eftir veikleika í fari viðkomandi, gerðu hann augljósan fyrir aðra og blástu hann upp sem alvarlegan þröskuld í þínu starfi, til að viðkomandi verði rekinn. Þannig geturðu náð miklum árangri í öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur. Til dæmis ef þú ætlar þér mikinn árangur í knattspyrnu, og kemst að því að einhver er betri en þú í eigin liði, skaltu nota æfingar til að dúndra hann niður svo að hann geti ekki spilað í framtíðinni."
"Heyrðu, ég hef lent í þessu, en gat bara ekkert sannað," sagði ég.
"Til þess er leikurinn gerður," sagði hún. "Meirihluti fólks er alltof heiðarlegur til að trúa slíkri illsku upp á nokkurn mann, og þess vegna velur fólk einfaldlega ekki að trúa slíkri illsku."
"Þú meinar."
"Ég meina."
"Ráð sex: Vertu stoltur af því sem þú hefur gert, og líka því sem þú hefur ekki gert, en tekist að eigna þér."
"Þegar þú sérð að einhver hefur náð góðum árangri með ákveðið verkefni og ljóst að það muni hafa góð áhrif á nánasta umhverfi í langan tíma, og allir muni taka eftir því - reyndu að koma þeim sem unnu verkið og fengu hugmyndina að því í burtu, og gerðu allt sem í þínu valdi stendur til að eigna þér hana. Þú veist að það skiptir meira máli að eiga hugmynd en að gera hana að veruleika, sama þó að þú hafir stolið henni. Láttu alla vita hvað þú ert stórkostlega hæfileikarík manneskja og gerðu allt sem í þínu valdi stendur til að kveða niður efasemdaraddir um ágæti þitt."
"En er þetta ekki nákvæmlega það sem er viðtekið í fyrirtækjum á Íslandi í dag? Komi starfsmaður með hugmynd og framkvæmir hana, þá er hún ekki hugmynd starfsmannsins heldur fyrirtækisins."
"Jú, á ég að lesa síðasta ráðið?"
"Ráð sjö: Ræktaðu með þér girnd og losta á öðrum manneskjum, hvort sem þær eru af öðru kyni eða því sama.""Þú veist að mikilvægara er að elska marga heldur en að elska mikið, og þannig geturðu aflað þér traustra sambanda til að komast upp með 1-6 og hvatt fleiri til að fara þessar fínu leiðir að árangri. Því þú veist að ef þú ert sá eini sem telst spilltur, þá verður þú útskúfaður, en takist þér að koma þessum hugsunarhætti fyrir í sem flestum og jafnvel öllum þínum félögum, ef þér tekst að komast yfir bæði líkama þeirra og sál, þá færðu öflugan hóp í lið með þér sem ekkert afl getur stoppað."
"Eigum við að taka taxa saman?" sagði ég, stóð upp og rétti henni hönd mína. Hún stakk bæklingnum í veskið og strauk lófa minn með ísköldum fingrum sínum.
"Mundu að engum er treystandi," sagði hún. Við fórum saman út í rok og skafrenning. Hún var í frekar þunnum fötum, þannig að ég faðmaði hana þétt að mér. Samt fannst mér hún kaldari en veðrið sjálft. Við biðum í hálftíma eftir leigubíl og fórum heim til mín.
Við kysstumst og rifum af okkur fötin inni í stofu. Ég kveikti á I-Poddinum og setti á Random. Ég fer ekki nánar út í hvað gerðist næst, fyrir utan að nú er ég ógeðslega þunnur og aumur í vinstri handleggnum.
Það eru tvö för á úlnliðnum, eins og ég hafi skorið mig - tvisvar. Ég man ekki eftir því. Stúlkan er löngu farin. Hún skildi eftir miða á koddanum með símanúmeri og nafni: "Viktoría."
Ég las nafnið upphátt nokkrum sinnum og lokaði augunum. Ég get ekkert borðað eða drukkið, en mig svimar og langar í eitthvað. Veit bara ekki hvað. Á forsíðu mbl.is var mynd af Árna Johnsen undir fyrirsögninni: Ragnheiður Elín sigraði. Ég staulaðist inn á bað og ældi í klósettið.
Ég er búinn að draga fyrir alla glugga, og sit nú við tölvuna og blogga. Birti þetta kannski á eftir og fjarlægi svo þegar mér snýst hugur.
Myndir:
Blá augu: Deviant Art
Jack Nickolson í Easy Rider: jacknicolson.org
Græðgi: SHOWstudio.com
Ofát: Wikimedia Commons
Leti: Bloggsíða Sigþóru Guðmundsdóttur
Heift: Mikeyip.com
Öfund: FlatRock
Stolt: Magister Vir's Website
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Gran Torino (2008) ***1/2
14.3.2009 | 16:21
Ímyndaðu þér nafnlausa kúrekann í spaghettívestrum Sergio Leone, Will Munny úr Unforgiven og allar hinar hetjurnar sem Clint Eastwood hefur túlkað í vestrum, blandaðu þeim saman við Dirty Harry Callahan, hrærðu vel saman þannig að út komi ein persóna sem lifir í nútímanum á áttræðisaldri, en með öll gömlu persónueinkennin og útkoman verður Walt Kowalski í Gran Torino.
Gran Torino er sérlega vel heppnaður nútímavestri um gamlan og fordómafullan kúreka sem í stað þess að ríða um á hestum, notar mest ruggustól, pallbíl og Gran Torino glæsibifreið. Hann þarf ekki að leita upp vandamálin, því að þau koma til hans með breyttu samfélagi. Í gömlu vestrunum riðu hetjur um héruð og björguðu fólki sem lentu í vanda vegna glæpaklíka eða stórkaupmanna. Í nútímanum þarftu ekki að fara út fyrir eigin lóð til að takast á við spillingu í samfélaginu og glæpaklíkur.
Walt Kowalski (Clint Eastwood) hefur misst eiginkonu sína og sér fram á rólega ellidaga á veröndinni með bjór í hendi. Samfélagið hefur breyst. Gömlu nágrannarnir hafa fallið frá og nýir komnir í staðinn, af Hmong ættum - sem er ættbálkur frá Suður Kína.
Þegar glæpaklíka reynir að fá nágranna Kowalski, hinn hógværa Thao (Bee Vang) til að ganga í gengið og plata hann til að stela Gran Torino bifreið Kowalskis, fer aðeins að hitna í kolunum. Kowalski tekst að koma í veg fyrir ránið en kynnist þess í stað Thao, og ákveður að kenna honum að meta það sem er einhvers virði í lífinu.
Að sjálfsögðu flokkar Cowalski Hmung fólkið sem asíubúa og tengir það við alla þá fordóma sem söfnuðust saman við þátttöku hans í Kóreustríðinu. Þegar hann uppgötvar að nágrannarnir eru ágætis fólk, verður hann jafnt sem nágrannar hans frekar undrandi.
Kowalski upplifir sín eigin börn og barnabörn sem afskræmingu þeirra gilda sem hann hefur barist fyrir alla sína ævi, og það kemur honum á óvart að hann finnur meira af þessum gildum hjá nágrönnum sínum en eigin fjölskyldu.
Þegar nágrannarnir og Sue Vang Lor (Ahney Her), systir Thao, stúlka sem Kowalski kann sérlega vel við, verða fyrir fólskulegri stórskota- og líkamsárás gengisins, ákveður hann að taka til eigin ráða, finnur gömlu skammbyssurnar og tekur til við að hreinsa þær.
Gran Torino er meistaralega upp byggð og vel sögð saga. Frásagnarstíllinn er ekki skreyttur með miklum tæknibrellum eða skrautlegum klippingum, heldur er undirstaðan í traustu handriti, góðri leikstjórn og rafmögnuðum leik Clint Eastwood í hugsanlega síðasta hlutverki ferilsins. Ef sú verður raunin, get ég ekki hugsað mér betri útgöngu en Gran Torino.Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggum betur 2: Skrifaðu alla daga - þannig lærirðu mest
14.3.2009 | 10:44
Því meira sem þú skrifar, því betur skrifarðu. Þegar þú lærir að hjóla þarftu fyrst að læra að halda jafnvægi. Það sama á við um ritun - tungumálið er þyngdaraflið, hugmyndirnar eru stýrið og verkið sjálft er eins og að knýja hjólið áfram.
Þegar ég þjálfaði nemendur mína í skák við Salaskóla hvatti ég þau til taflmennsku alla daga, og í stað fyrirlestra kom ég inn undirbúnum upplýsingum inn í skákirnar þeirra sjálfra - þannig voru þau líka fljótari að meðtaka þemun. Á æfingum hvatti ég þau til að tala mikið saman og benda á áhugaverða hluti og reyna að greina þá þegar þeir komu upp í þeirra eigin skákum.
Á endanum varð þessi hópur heimsmeistarar, og þegar heim var komið var ég gagnrýndur harkalega fyrir þessa aðferð mína til þjálfunar - þar sem að hún var allt öðruvísi en það sem er viðtekið í dag - aðrir skákþjálfarar og forsprakkar í skákhreyfingunni gagnrýndu mína kennslu með því að segja nemendum mínum að þær væru ekki í lagi, sem er að mínu mati ekki rétt leið til gagnrýni - og með þessu voru eyðilagðar forsendur áframhaldandi þjálfunar minnar með þessum hópi. Og hef ég með öllu hætt skákþjálfun eftir þetta og vikið fyrir þeim aðferðum sem virka ekki en eru þægilegri, eins og alltof títt er um í heiminum.
Þegar við stöndum frammi fyrir tveimur leiðum til að vinna vinnu okkar, léttri leið og erfiðri - þá velja alltof margir léttu leiðina, þar sem að erfiða leiðin virðist einfaldlega vera tímafrekari, útheimta meiri orku og ekki nauðsynleg til að uppfylla skilyrði til launa. Samt hef ég gert það að reglu fyrir sjálfan mig að fara nánast alltaf erfiðu leiðina, nokkuð sem mætir því miður oft skilningsleysi.
Það er ekki bara reynslan sem segir mér að þú lærir mest af því að gera hlutina, heilbrigð skynsemi segir það sama og einnig þau pragmatísku fræði sem ég hef tileinkað mér gegnum árin.
Sjálfsagt er hægt að skrifa daglega án þess að bæta sig, sérstaklega þegar maður heldur að eigin skrif séu fullkomin, en forsenda þess að geta bætt sig er að maður verður að hafa í huga að enginn er fullkominn og alltaf eru til staðar tækifæri til að bæta sig. Þess vegna er mikilvægt að hugsa líka um það hvernig maður skrifar og fylgjast vel með gagnrýni, en passa sig þó á að það taki ekki allan tímann.
Stundum festist ég í handbókum og fræðibókum um ritun, heimspeki, bókmenntir, skák og fleira, og læri heilmikið um viðkomandi efni, en þessi þekking verður einskis virði og fellur í gleymsku ef maður nýtir hana ekki. Þekkingu af einu sviði er hægt að yfirfæra á annað, en ég gerði tilraunir með það fyrir nokkrum árum að beita heimspekilegum uppgötvunum mínum á taflmennsku mína, með góðum árangri.
Mikil taflmennska og aukin nákvæmni hjálpuðu mér síðan að aga úthald og vakandi hug við kennslu og heimspekilegar samræður. Þessa þekkingu og viðhorf til starfsins, hef ég einnig yfirfært yfir á það sem ég skrifa, bæði á blogginu sem og annars staðar.
Ný þekking skilar sér ekki strax, heldur síast hún inn í hæfileika með tíð og tíma, sérstaklega ef maður hefur virkan áhuga á að halda áfram.
Ímyndaðu þér mann sem er sérfræðingur í knattspyrnu og hefur séð alla bestu leiki sem spilaðir hafa verið í heiminum. Samt kann hann ekki að spila knattspyrnu sjálfur. Á knattspyrnuvelli væri hann eins og belja á svelli. Þannig er einnig farið með lesendur og rithöfunda. Þó að þú sért afburðar lesandi og með einstakan ritskilning, þýðir það ekki að þú kunnir að koma frá þér góðum texta. Og jafnvel þó að þú kunnir að skrifa tæknilegan texta, þýðir það ekki að þú kunnir að skrifa skáldlegan texta.
Sá sem er of stór til að læra meira um eigin störf, er ekki líklegur til að stækka meira. (Óþekktur)
Myndir:
Ritun: Tech Gossips
Heimsmeistarar Salaskóla: Don Hrannar: Íslendingar heimsmeistarar í grunnskólaskák!
Sjón og hugsun: A Timeline of American Thought
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)