Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Skráðu þig í Hagsmunasamtök heimilanna

Þörf er á fleiri þátttakendum í Hagsmunasamtök heimilanna. Ef þú vilt að einhverju leyti hjálpa til við að móta aðgerðir og berjast fyrir hag heimila í landinu, til dæmis með baráttunni gegn verðtryggingu og mannúðarleysi fjármálastofnana, með þátttöku í tillögum til lagabreytinga á Alþingi, geturðu gert það með því að hvetja vini þína til þátttöku. Málefnið er gott, og þegar eru um 2000 manns skráðir í samtökin, en við vitum að fleiri eiga erindi í þau.

Þessi samtök eru algjörlega óháð pólitískum öflum, og stjórnmálamönnum eða þeim sem eru í framboði, er til dæmis ekki leyft að vera í stjórn hjá okkur í samræmi við lög samtakanna.

Ég vil hvetja þig, kæri félagi til að vera með, og hvetja félaga þína til að vera með. Þannig getum við komið á skriðu sem berst fyrir réttlátum kjörum heimilanna í landinu.

Hver vill það ekki?

 
 
 
 
Sjá nánar ályktun frá Hagsmunasamtökum heimilanna:
 
Hagsmunasamtök heimilanna hafa náð að valda verulegum þrýstingi og fortölum á stjórnvöld í þá tvo mánuði sem liðnir eru frá stofnun. Fátt gerist nú orðið varðandi lagasmíð og annað sem snertir heimilin án þess að samtökin séu spurð álits. Við teljum þó að helsta stefnumálið hafi ekki náð fram þ.e. að leiðrétta þá hækkun á húsnæðislánum sem hefur orðið vegna slælegrar hagstjórnar og fjármálaglæfra lánastofnana. Við leitum eftir frekari stuðningi frá heimilunum með skráningu í samtökin. Ef þú ert ekki nú þegar skráð/ur í samtökin biðjum við þig að skrá þig sem fyrst.

http://skraning.heimilin.is

Einnig biðjum við alla að safna eftir bestu getu félagsmönnum úr hópi vina og fjölskyldu. Áfram sendið þennan póst en eftirfarandi er hlekkur á heimasíðu Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem fólk getur kynnt sér stefnumálin og kröfurnar. Þær eru í hnotskurn eftirfarandi:

  • Lagabreytinga til að verja heimilin í núverandi efnahagsástandi, jafna áhættu milli lánveitenda og lántakenda og veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði.
  • Almennra leiðréttinga á íbúðalánum heimilanna, bæði í íslenskri og erlendri mynt. Bent er á að lenging lána leysir ekki vandann heldur frestar honum og lengir því aðeins í hengingarólinni.
  • Skilyrðislausrar stöðvunar fjárnáma og uppboða á íbúðarhúsnæði einstaklinga þar til ofangreindar kröfur hafa verið uppfylltar.
 
Með kveðju,
 
Hagsmunasamtök heimilanna
 

Bloggum betur 1: Ekki brjóta gegn lögmálum sem þú skilur ekki.

 

bird+breaking+the+rules

Það er eins og sumir hafi tilhneigingu til að vaða stjórnlaust áfram í þeirri blindu trú að hegðun þeirra sé stjórnað af einhverri ómeðvitaðri snilld sem viðkomandi býr yfir. Sjálfur er ég engin undantekning.

Fyrst þegar ég skrifaði smásögu ætlaði ég að brjóta gegn öllum lögmálum smásögunnar og sýna heiminum að betri rithöfundur hafi ekki fæðst á jarðkringlunni. Ein af snilldunum fólst í því að sleppa algjörlega greinarskilum. Önnur þeirra var að sleppa öllum hástöfum og sú þriðja að sleppa punktum. Hvílík snilld!

Þegar vinur minn las söguna síðan yfir og minntist á að óþægilegt væri að lesa verkið, runnu á mig tvær grímur, en lærdómurinn síaðist samt hægt inn. Eftir fjölmörg sambærileg mistök fór ég að átta mig.

Ég fattaði nefnilega ekki að þegar maður skrifar er maður að stofna til samskipta við aðra manneskju, í þessu tilviki þig, manneskju sem ég veit ekki hver er en verð einhvern veginn að ímynda mér til að samskiptin heppnist. Og það að þú verðir að gera mig þér í hugarlund flækir málið ennþá meira, sérstaklega ef ég ákveð að skrifa út frá sjónarhorni sem er ekki mitt eigið, og fyrir lesanda sem er einhver annar en þú.

Allir geta skrifað endalaust og dúllerað með orð, en þeir sem geta skrifað og haldið athygli lesandans, og í leiðinni sagt eitthvað sem skiptir máli, er skemmtilegt að lesa og er fróðlegt - eru ekki einfaldlega með einhvern meðfæddan hæfileika sem hellist yfir þá á augnablikum undraverðrar uppljómunnar. 

Það að skrifa vel er erfið vinna. Vinna sem tekur tíma og krefst þess að höfundi þyki vænt um að vera langt í burtu frá öðru fólki, en samt á dularfullan hátt afar nálægt því. Ritgáfan kemur ekki af sjálfu sér. Það er í mörg horn að líta og alltaf hægt að bæta sérhvern texta. Þennan líka.

Þegar maður hefur náð valdi á einu stílbrigði, uppgötvar maður annað sem þarf að laga. Til dæmis veit ég að þessi grein er alltof löng og ekki nógu hnitmiðuð, en geri ekkert í því - og held að ég verði með tíð og tíma að hemja þessa ógurlegu ritgleði sem mér býr í brjósti til að setja saman hnitmiðaðri texta. Gallinn er bara sá að ég hef ekki tíma til þess. Það er nefnilega margfalt erfiðara og tímafrekara að koma hugmynd á framfæri í stuttum texta en löngum. 

Dæmi um lögmál: notaðu greinarskil til að auðvelda lesendum lestur.

Viskusteypa: Lögmál betri bloggskrifa er ekki hægt að telja á fingri annarar handar nema höndin sé á milli tveggja spegla og þú teljir fingurnar aðeins hinumegin.

 

 

 

Mynd: On the Wine Trail in Italy


Eru fréttir og áreiti síðustu daga úr takti við tímann og tilheyra þar af leiðandi súrrealisma?

Það er svo margt sem mér finnst snúið og súrt eða súrrealískt þessa dagana.

Fréttirnar um blysgöngu til að þrýsta á formannsframboð Jóhönnu Sigurðardóttir, þar sem að skipuleggjandinn ætlaði að selja blys á vægu verði, voru beinlínis súrar. Enginn mætti fyrir utan skipuleggjandann, þrjá kvikmyndatökumenn og tvo ljósmyndara! Tölum um dramatíseringu. Sjá hér.
bilde?Site=XZ&Date=20090311&Category=FRETTIR01&ArtNo=122609953&Ref=AR&NoBorder

Fyrirsagnir úr kosningabaráttu fyrir prófkjör einstaklinga sem hitta engan veginn í mark og hvernig kandídatar virðast almennt vera algjörlega úr tengslum við þjóðina sem stefnir hraðbyr á erfiðustu krepputíma Íslandssögunnar. Slagorð sem áttu við fyrir tveimur árum virka sjálfsagt í dag fyrst allir eru að nota þau, en er þetta ekki kjánalegt?

 

1107_surrealism_04

 

Málþóf stjórnmálamanna og rifrildi um leikreglur á Alþingi meðan þjóðin þarf lífsnauðsynlega á samvinnu að halda. Allt í einu eru kommar orðnir kapítalistar og kapítalistar kommar. Snúið og súrt.

Hvernig talað er um hagkerfi eins og um eilífðarvél væri að ræða. Eilífðarvélar eru til í vísindaskáldsögum og ná þá yfirleitt valdi yfir mannfólkinu. Kannski kominn sé tími til að hringja í Neo og fá hann til að ýta á RESTART?

neo.matrix

Að maður sem kastar skó framhjá Bush fyrrum Bandaríkjaforseta fær þriggja ára fangelsisdóm fyrir mótmæli sín, á meðan Íslendingar fá ævilangt skuldafangelsi hvort sem þeir mótmæla eða ekki.

Þessi mynd í fréttinni um Last House on the Left finnst mér snúin, en hún ætti frekar við um The Exorcist.

Að íslenska hagkerfið er farið algjörlega á hausinn, en samt getur þúsund manns leyft sér að fara í golfferðir erlendis og enn fleiri í þægilegt frí yfir páskana á meðan fjöldi fólks þarf að flýja land af illri nauðsyn.


Þetta eru súrir tímar.

 

sour-lemon-eating-225_tcm18-94143

 


mbl.is Enginn mætti í blysförina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minning: Þorvaldur Ólafsson (1921-2009)

valdiafi.jpgAfi minn, Þorvaldur Ólafsson, lést á Grund Landakotsspítala föstudagsmorguninn 27. febrúar. Þá var ég staddur á ráðstefnu um barnaheimspeki, en eftir að hafa fengið símtalið frá móður minni fór ég rakleitt til fjölskyldunnar og hætti við allar aðrar fyrirætlanir þá helgi. Við sem höfðum verið hjá honum síðustu dagana fundum flest til gífurlegrar þreytu eftir að hann féll frá, enda tekur andlát af völdum krabbameins mikið á alla aðstandendur, sérstaklega þegar kærleikurinn er jafn ríkur og gagnvart Valda.

Ég skrifaði minningargrein í Morgunblaðið, en þegar kom að sendingu komst ég að því að hún mátti aðeins vera 3000 slög, en mín grein var margfalt lengri. Því klippti ég hana niður og var hún birt í mjög stuttri útgáfu í dag.

Bloggið gefur mér hins vegar færi á að birta greinina alla:

Þorvaldur Ólafsson var sterkur maður. Þrátt fyrir að hafa fengið hjartaáföll og stíflaðar æðar, auk sykursýki á háu stigi, varð loks lungnakrabbamein honum að bana. Þrátt fyrir öll þessi ár og öll þessi veikindi heyrði ég hann aldrei kvarta, heldur lýsti hann stöðugt yfir þakklæti fyrir að eiga sterka og góða fjölskyldu að. Við dánarbeð hans komust færri að en vildu. Slík var gæfa hans.

Sigríður Guðbrandsdóttir og Þorvaldur Ólafsson, 1997

Stóra ástin í lífi afa var amma mín, Sigríður Guðbrandsdóttir, en þau voru saman öllum stundum síðan ég man fyrst eftir þeim til dagsins þegar hún varð bráðkvödd úr þessum heimi, alltof ung, árið 1998.

Amma var mikill fagurkeri, þekkti ótal ljóð utanað, las mikið af góðum skáldsögum og gat rætt heimspekileg málefni löngum stundum. Á meðan fróðleikurinn flæddi um varir ömmu, sat afi oftast nálægt og lagði við hlustir og gaf henni eins hlýtt augnaráð og hægt er að hugsa sér frá þessum ljósbláu augum.  Hans þátttaka í samræðunum snerust yfirleitt að upplýsingum um staðreyndir og fólk sem þurfti að leiðrétta, til að umræðan yrði sem nákvæmust. Það skipti gífurlegu máli þegar vitnað var í manneskju að tilvitnunin var rétt og að gerð væri einhver grein fyrir þeim sem hafði farið með orðin.

Fyrir utan það að vera alltaf með ömmu, auk þess að Oddur bróðir hans bjó heima hjá þeim í fjölda ára, var afi líka svolítill einfari. Hann átti sér tvo hella sem hann gat horfið í tímunum saman. Annar þeirra var bílskúrinn, en hann var gífurlega flinkur vélvirki, og ef einhver bíll í fjölskyldunni bilaði, þá reddaði hann málunum. Ekkert annað kom til greina. Hann rak líka sitt eigið fyrirtæki og sérhæfði sig í að flytja inn aukahluti í þýskar dráttarvélar og önnur landbúnaðartæki. Fórst það honum afar vel, og vann hann við þetta þar til sjónin var orðin of döpur til að hann gæti lengur lesið.

Þegar ég hugsa aftur þá ber hugurinn mig til Korpúlfsstaða, þar sem við ræktuðum kartöflugarða. Þar man ég eftir afa sem af miklum dugnaði setti niður kartöflur að vori og gróf þær upp að hausti. Síðan var kartöflunum komið fyrir í kaldri kompu heima hjá afa og ömmu, sem fjölskyldan sótti síðan smám saman yfir árið.

Hrannar Baldursson, Sigríður Guðbrandsdóttir og Þorvaldur Ólafsson, 1989

Öll fjölskyldan tók virkan þátt í þessari ræktun, og var það í fjölda ára viðburður að fara í kartöflutínslu. Sjálfur kunni ég ekki að meta það sem ungur drengur að grafa holur og setja niður gamlar kartöflur og rífa þær svo upp. Mér fannst skorta fjölbreytni í starfið og leyddist það afar mikið, þó að mér hafi þótt afar vænt um allt það góða fólk sem ætíð tók virkan þátt í þessu starfi, þá læddist ég oft í burtu og lagðist á árbakka Korpu og reyndi að sjá þar bregða fyrir fiskum, stakk fingri í ána eða óð út í hana, og naut þess að finna þrýstinginn frá ánni dynja á Nokia stígvélunum.

Einhverju sinni sem oftar skutlaði afi mér heim af skákmóti, og við sátum saman við heimili mitt og ræddum um fortíðina. Hann hafði ekki dulið það þegar ég valdi að læra heimspeki við Háskóla Íslands að hann varð fyrir ákveðnum vonbrigðum, en hann hélt ég myndi fara í verkfræði, lögfræði eða viðskiptafræði  - fög sem gerðu meira gagn. Hins vegar þegar ég útskýrði fyrir honum þá djúpstæðu þörf sem ég hafði til að skilja heiminn okkar aðeins betur þar sem að á sérhverju andartaki var eitthvað sem kom mér á óvart, og þá sérstaklega sú furða sem fylgdi þeirri vitneskju minni að ég væri hugsandi vera og að ef ég ræktaði það ekki gæti ég hugsanlega hætt að vera hugsandi vera. Því vildi ég leggja rækt við það að vera slík hugsandi vera, því að mér líkaði það, og vildi fyrir alla muni finna leiðir til að halda áfram að vera eins og ég var, en kannski aðeins dýpri.

Þegar ég útskýrði þetta fyrir honum þetta kvöld í bílnum, læddist yfir andlit hans vingjarnlegt bros, og hann trúði mér fyrir því að hann hafði alltaf langað til að vera kennari – en þar sem að lífið tók óvænta stefnu, með tilurð móður minnar, hafði hann ákveðið að fara arðvænlegri leið og gerðist vélstjóri á sjó. Hann tjáði mér að hann bæri virðingu fyrir mínu vali þó að hann hafi ekkert botnað í því, enda er ekki allt fólk mótað í sama formi þó að okkur finnst að við ættum að vera það.

Oddur Ólafsson, Sigríður Guðbrandsdóttir og Þorvaldur Ólafsson á Staðarbakka

Sjómennskan var rík í þessum Eyjapeyja sem meðal annars sigldi um heimshöfin á meðan seinni heimstyrjöldin stóð yfir. Hann sagði frá því að eitt sinn stöðvaði þá þýskur kafbátur, og hann átti þá von á að það væri síðasta sjóferð þeirrar áhafnar. En ekki fór svo.

Þegar ég kom í heimsókn frá Mexíkó árið 2004 veiktist afi alvarlega, og höfðu hans veikindi töluverð áhrif á þá ákvörðun mína að koma heim til Íslands með fjölskyldu mína. Alltaf þegar við kvöddumst og ég hélt eitthvað út í heim sagðist hann halda að þetta væri í síðasta skiptið sem við myndum sjást. En alltaf kom ég aftur í fang hans og hlýju.

Það var gott að vera hjá honum síðustu daga ævi hans. Fyrir rúmri viku sat ég hjá honum eina nótt og við ræddum þá vel saman. Hann sagði mér frá hvernig hann hefði fengið tíðar heimsóknir frá Siggu ömmu, margoft eftir andlát hennar, þar sem að hún hafði oft hlúið að honum þegar hann var einn og hafði liðið illa. Hann sagði frá hvernig hann hafði séð systur sína sem dó ung í æsku, og hversu erfitt það hafði verið þegar hann sem ungur drengur var sendur í fóstur og fjölskyldu hans sundrað þegar móðir hans lést. Hann sagði frá hversu þakklátur hann var að eiga svona góða fjölskyldu, að hvert einasta barn, barnabarn og barnabarnabarn voru heilbrigðar og heilsteyptar manneskjur.

Og hann talaði sérstaklega um hvað hann var heppinn að eiga fjögur yndisleg börn sem öll gættu hans eins og sjáaldur augna sinna eftir að Sigga amma dó, og studdu hann af mikilli tryggð gegnum erfið veikindi.

Afi fékk mikinn og góðan félagsskap um helgar þegar hann horfði á leiki með Manchester United, en undirritaður tók nú aldrei þátt í svoleiðis vegna almenns áhugaleysis á knattspyrnu. Reyndar heimsótti ég hann afar sjaldan þar sem ég var oft með hugann við aðra tímafreka hluti, nokkuð sem ég sé eftir, en dvaldi hins vegar mikið með honum síðustu daga lífs hans.

Eftir að Oddur bróðir hans veiktist alvarlega og leiðir þeirra bræðra skyldu að miklu leiti, fyllti ungur maður vel í það mikla skarð sem Oddur hafði skilið eftir og var traustur vinur afa í gegnum veikindi hans. Hann vék varla frá dánarbeði afa, þó að hann hafi loks þurft þess vegna þreytu. Vinátta hans við afa var djúp, enda fékk hann ómetanlega leiðsögn gegnum erfiða tíma hjá afa og ömmu, sem stóðu eins og klettur við bak Valda frænda.

Ég kveð nú saman þau afa og ömmu og þakka þeim kærlega allar þær góðu stundir sem ekki aðeins ég, heldur fjölskyldan öll átti með þeim, alla jóladagana á Staðarbakkanum og brúðkaup okkar Angeles á heimili þeirra fáeinum mánuðum áður en amma féll frá.

 

Kveðja
Sál mín fylgir þér,
unz hún nær þér að lokum
í skýjum uppi.
Að við séum að skilja,
ástin mín, þar skjátlast þér.


Fúkajabó Kíóvara (908-930), þýð. Helgi Hálfdánarson


Hertóku Auðlendingar Ísland?

Um daginn fór ég út í banka. Ég ætlaði að fara í Glitni en Glitnir var horfinn. Í hans stað var Íslandsbanki. Ég leit fyrst á klukkuna og sá að hún var tvö. Svo kíkti ég á dagsetninguna í farsímanum og sá að árið var 2009. Ég hefði svarið að mér fannst árið 2005 rétt runnið upp, og mér varð hugsað til þess hvað ég myndi gera vitandi það sem ég veit í dag. Jú, ég myndi selja íbúðina og bílinn og flytja úr landi.

Inni í bankanum var löng röð. Ég tók mér númerið 143 en verið var að afgreiða 82. Þar sem það var troðið út úr dyrum ákvað ég að fara í gönguferð kringum húsið. En ég komst ekki langt. Fyrir utan bankann stóð gamli landafræðikennarinn minn, Skúli Ingibergs, og var að kveikja sér í rettu. Ég lét sem ég sæi hann ekki, en það var of seint. Augu okkar höfðu mæst. 

"Blessaður Þorfinnur," sagði hann. "Manstu eftir mér?"

"Gunnar heiti ég," laug ég upp í opið geðið á honum. Hann hafði ekki verið í neinu uppáhaldi hjá mér þó að hann hafi sagt svolítið skemmtilega frá hugmyndum sínum um heiminn. Málið er að í huga hans eru allir Asíubúar gulir, allir Ameríkanar rauðir, allir Afríkubúir svartir, allir Evrópupúar hvítir og restin brún. Ég veit ekki af hverju ég stoppaði þarna hjá honum, kannski af einhverri falskri kurteisi, kannski vegna þess að ég nennti ekki að ganga í kringum húsið og kannski bara af gamalli hlýðni, en hann hafði ansi oft tekið mig upp að töflu fyrir framan bekkinn og yfirheyrt mig. Ég hafði reynt að komast undan þessu nokkrum sinnum, en einhvern veginn tókst honum að fá mig til að hlýða sér.

"Veistu hvað," sagði Skúli og lagði hönd á öxl mína. Það var svolítið sérkennilegur glampi í augum hans, bakvið móðu á þykkum gleraugum, sem sagði að ég yrði að hlusta á hann. "Það búa ekki bara Íslendingar á Íslandi."

Ég kinkaði kolli. Auðvitað vissi ég af miklum innflutningi vinnuafls síðustu árin.

"Ég er ekki að tala um innflytjendur frá öðrum löndum, ég er að tala um þá sem eiga Ísland, Auðlendinga."

"Nú?" spurði ég. "Hvað eru þeir á litinn?"

Hann hunsaði þessa snjöllu spurningu. "Fyrir rúmum 65 árum losnuðu Íslendingar undan höftum og einoki Danaveldis. Þeir töldu sig hafa öðlast sjálfstæði, en gerðu sér ekki grein fyrir því að sjálfstæðið var ekki í höndum allra Íslendinga, heldur aðeins þeirra sem gátu tekið við af einokunarvél Dana, keyrt hana áfram á sama hátt og kallað hana sjálfstætt þjóðfélag."

Ég kíkti inn í banka, verið var að afgreiða 87. Hann hélt áfram. Ég hafði aldrei heyrt hann tala í þessum tón. Það var eins og smitandi áhugi hans á málefninu hefði dýpkað rödd hans og yngt hann um einhver ár. Af gömlum vana lét ég eins og ég væri ekki að hlusta, en innst inni fannst mér þetta svolítið áhugavert.

"Fáir virðast hafa gert sér grein fyrir því að það var ekki íslenska þjóðin sem hafði öðlast sjálfstæði, heldur aðeins þeir sem áttu atvinnutæki og auð. Til að viðhalda blekkingunni hefur fáeinum óbreyttum borgurum verið hleypt inn í hópinn, svona rétt til að viðhalda stofninum."

"Kynbætur?" spurði ég. Hann lét mig ekki trufla sig og hélt óhikað áfram.

"Þeir fáu sem trúðu að þetta ástand væri óréttlátt var ekki einu sinni úthrópað eða fangelsað á Íslandi eins og í Bandaríkjunum, heldur yppti 'venjulega' fólkið bara öxlum og hugsaði með sér: "Kommúnisti" - eins og það útskýrði allar þær skoðanir sem stóðu gegn straumnum."

"Kommúnismi er náttúrulega af hinu illa," sagði ég, en mig minnti að Skúli hafi einhvern tíma sagt þetta í tíma."

"Af hinu illa, rétt eins og heimska, bara verri - því kommúnisminn er stýrð heimska, svona rétt eins og frjálshyggja er stýrð tómhyggja án gagnrýnnar hugsunar."

Þarna var ég farinn að ranghvolfa augunum held ég, því hann greip fastar í öxlina á mér, sogaði að sér djúpum smók, blés framan í mig lungnakrabba og hélt áfram.

"Nú er komið í ljós að á Íslandi býr ekki ein þjóð, heldur tvær. Önnur þeirra er Ísland, þessi sem viðheldur menningu og tungumáli, menntun og andans gæðum, en hin er Auðland - sem er samansett af Auðlendingum, en þeim þykir fínt að nota Íslendinga til vinnu. Auðlendingar kalla sig Íslendinga, tala sama mál, birtast í sömu sjónvarpstækjum og um þá leikur guðlegur ljómi sem segir: 'Þú getur aldrei snert mig'."

Akkúrat. Og ég heiti Mikki mús.

"Auðlendingar eru þeir sem tóku við danska kerfinu og hafa spólað yfir Íslendinga viðstöðulaust í 65 ár, en það var ekki fyrr en 6. október 2008 að blekkingavefurinn fraus og hefur frá þeim degi smám saman verið að bresta."

"Þú ert að tala um hrunið? Daginn sem bankarnir hrundu, er það ekki?"

Skúli kinkaði kolli óþolinmóður, eins og allir ættu að vera með þessa dagsetningu á hreinu - það er ekki eins og þetta hafi verið 11. september.

"Það hefur komið í ljós að Auðlendingar eiga ekki bara bankana, heldur þurfa þeir ekki að bera ábyrgð á þeim því að Íslendingar gera það, einnig kemur í ljós að Auðlendingar eiga fjölmörg fyrirtæki, samt ekki öll og sum þeirra eru ekkert annað en upphæðir og kennitölur á pappír á eyðieyjum með stöku pálmatré, og í ljós kemur að Auðlendingar hafa blandað sér í hóp íslenskra stjórnmálamanna og villt á sér heimildir - þóst vera Íslendingar að verja þjóð sína, en eru í raun Auðlendingar, en gæti ekki verið meira sama um þá íslensku - svo framarlega sem hún heldur áfram að dæla blóðpeningum í kerfið."

"Skil ég þig rétt," sagði ég. "Ertu að segja að til séu tvær þjóðir á Íslandi, ekki tvær stéttir?"

"Hver er munurinn á þjóð og stétt? Þetta eru ólíkir hópar sem hafa að markmiði að traðka á öðrum hópum hafi þeir vald til þess. Rétt eins og þegar einstaklingur nær yfirburðum yfir öðrum einstaklingi, þá er tilhneigingin einmitt að gorta yfir óförum hins og hreykja sér sem hæst af eigin snilli."

Ég leit inn í bankann. 103 stóð á skiltinu. 

"Heyrðu, Skúli, það er komið að mér."

"Ég heiti ekki Skúli," sagði hann og starði á mig. 


S.O.S. INTERPOL - Ræsum út víkingasveit fjársvika strax!

 

interpol_logo

 

Sú frétt að Kaupþing hafi lánað stærstu eigendum sínum og tengdum aðilum tæplega 500 milljarða króna kallar á tafarlausa alþjóðlega rannsókn. Góðu fréttirnar eru þær að INTERPOL getur hjálpað.

Mig grunar að þetta sé ekkert einsdæmi og að svipaða hluti verði hægt að finna hjá Landsbanka og Glitni - nokkuð sem ætti að vera löngu komið í harða rannsókn.

Ég spyr: Hefur saksóknari efnahagsglæpa eða efnahagsbrotadeild ríkislögreglunnar haft samband við INTERPOL, eða þarf að rétta þeim blóði drifna peysu heimila og fyrirtækja til að þeir sjái hversu alvarlegt málið er?

Þetta mál á heima undir fjármálaglæpi INTERPOL, en þessi texti kemur þaðan og passar 100% við ástandið sem Íslendingar eru að upplifa.

 

070709_interpol_hmed_430a.hmedium

 

Ef við getum sýnt fram á með INTERPOL að við séum ekki fjárglæfrafólk upp til hópa, heldur fórnarlömb fjársvikara, getum við fengið aðrar þjóðir virkar í lið með okkur til að berjast gegn kreppunni.

Ef við lítum á kreppuna sem slys, er hætta á sjálfsvorkunn og eymd. Ef við lítum á kreppuna sem glæp, er mikil von um endurreisn og að réttlætiskennd vakni með fólki, ekki aðeins íslensku þjóðinni - sem virðist að miklu ana áfram eins og uppvakningar og ekki átta sig á hvað margir úr þeirra samfélagi þjást hvern einasta dag vegna þessa ástands, heldur einnig í alþjóðasamfélaginu.

Hugarfarsbreyting verður að eiga sér stað. Kreppan er ekki slys eins og hún var á 3. og 4. áratug 20. aldar, heldur er hún stórfelldur glæpur. Þetta er tvennt ólíkt. Ef verslun eða heimili þitt brennur vegna gáleysis, situr eigandinn eftir ráðlaus - viti hann hins vegar að einhver lagði eld að heimilinu mun hann ekki leita sér hvíldar fyrr en viðkomanda hefur verið komið fyrir á öruggum stað - fjarri eldspýtum.

 

 

Málið er að við höldum að skipið hafi strandað. Það er ekki rétt, það hefur rétt rekist á sker, og áhöfnin sem því olli er ennþá um borð í leit að næsta skeri. Við getum ekki byrjað björgunarstörfin fyrr en við höfum upprætt rót vandans. Það á eftir að hjóla í það vandamál, og það þarf að gera strax. 

Fyrst úrræðið er þegar til, INTERPOL, af hverju ekki að byrja opinbert ferli með þeim, þar sem þeir hjálpa okkur að leita uppi og stöðva þá sem rændu af íslensku þjóðinni og vinaþjóðum hennar upphæðum sem við getum varla ímyndað okkur vegna stærðar þeirra?

Það er allt annað hugarfar ef við skiptum úr því hugarfari að vera þjóð minnimáttarkenndar sem gerði fáránleg mistök, heldur en þjóð sem leitar réttar síns af styrk og yfirvegun.

Hvort á það að vera?

 

Fjármálaglæpadeild INTERPOL

Margvísleg áhrif fjárhagslegra svika, ekki aðeins gegn einstaklingum og fyrirtækjum, heldur einnig gegn hagkerfum þjóða, vaxa hratt á alþjóðavísu.

Ef látið afskiptalaust, geta svik leitt til fjárhagslegs hruns fólks og fyrirtækja, sem og skaðað hagkerfið alvarlega. 

Sveit fjármálaglæpa hjá INTERPOL hefur tekið að sér að berjast gegn þessari alþjóðlegu hreyfingu innan verkefnis sem er sérstaklega hannað til að berjast gegn alvarlegum svikafyrirbærum.

Verkefnið er hannað í kringum stýringarhugtak INTERPOL með að veita aðstoð við rannsókn á alþjóðlegu og svæðisbundnu stigi sem og með skipulögðum stuðningi með samfélagi lögregluyfirvalda.

Verkefnið reynir einnig að fræða almenning um áhætturnar sem fylgja svikum og ólíkum aðferðum til að fyrirbyggja þau í náinni samvinnu við fyrirtæki með því að nota viðeigandi tæki og ráðstafanir.

(Þýðing: HB)

 

Financial crime

The adverse impact of financial fraud, not only on individuals and the commercial sector but even on national economic systems, is increasing rapidly worldwide.

Left unchecked, fraud could lead to the financial ruin of people and commercial enterprises as well as seriously damage economic systems.

The Financial Crime unit of INTERPOL has taken up the challenge of fighting this global scourge within the framework of a project designed to combat significant fraud phenomena.

The project is designed around the concept of a Coordination role for INTERPOL in providing assistance to investigations on international and regional levels as well as strategic support to the Law Enforcement community.

The project also seeks to inform the public about the risks of fraud and different prevention methods in close co-operation with the commercial sector by employing suitable tools and platforms.


mbl.is 500 milljarðar til eigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri að endurræsa hagkerfið? (myndband)

Kærar þakkir til Gunnars Tómassonar hagfræðings fyrir að benda mér á myndbandið sem kveikti þessa færslu.

Útskýring Michael Hudson á efnahagsvanda heimsins:
 

 

Ég er kominn á þá skoðun að það þurfi enn róttækari aðgerðir en að fella niður verðbætur eða endurgreiða fólki skömmina sem hefur verið lagt á það síðan í janúar 2008. Það þarf að fella niður allar skuldir, núllstilla hagkerfið og afnema verðtryggingu auk hárra vaxta.

Þetta var hægt að gera í Babílón fyrir 4000 árum og er hægt í dag. Kíkið á myndbandið með hagfræðingnum Michael Hudson sem útskýrir ágætlega hvers vegna þetta er nauðsynlegt.

Rökin eru í sjálfu sér einföld: Þrælkun er af hinu illa. Núverandi kerfi býr til þræla úr fólki. Við þurfum að afnema þá þætti í kerfinu sem gerir fólk að þrælum.

Þetta væri óþægilegt fyrir þá sem eru ekki í þrælkun, og jafnvel fyrir þrælana líka, því þeir átta sig ekki á eigin ástandi og flestir óttast slíkar róttækar breytingar, enda hafa slíkar aðgerðir ekki beinlínis tekist með sóma síðustu hundrað árin, því að í stað þess að virða alla, virðast ávallt einhverjir hópar ná völdum sem vilja að sumir séu jafnari en aðrir.

Það þarf að slá grasið, jafna völlinn, og byrja upp á nýtt. Ekki bara á Íslandi, heldur um allan heim. Ef ekki verður brugðist við kreppunni með endurræsingu mun hún stöðugt dýpka. Málin munu ekki reddast að sjálfu sér.

Einföld útskýring á Hruninu:

 

 

 

Þetta væri gert með því að:

  • Ríkið yfirtæki allar lánastofnanir og bannaði okurvexti (allt yfir 8% í heildarvexti - t.d. eru eðlilegir yfirdráttarvextir í dag okurvextir, yfir 20%)
  • Skuldir heimila gagnvart nauðsynjum felldar niður (1 stk. húsnæði, 1 stk. bifreið) - á hvert heimili

Í dag er staðan þannig að skuldir heimila eru notaðar sem lífæð bankakerfisins og aðal innkoma stofnana sem voru gjaldþrota fyrir hálfu ári. Væru skuldir heimila felldar niður og heildarvextir gerðir að hámarki 8% myndi sá óhugnaður gerast að ofurlaun féllu sjálfkrafa niður og þær afætur sem hafa verið að hagnast á neyð skuldara þyrftu að skapa raunveruleg verðmæti.

Ég trúi því að hagkerfið okkar virki, rétt eins og stýrikerfi í tölvum. Þegar óskiljanlegar villur fara að poppa upp í Windows stýrikerfinu - þá er lausnin oft sú að endurræsa vélina - og þá mun hún ganga ágætlega um stund. Öll kerfi eru einfaldlega þess eðlis að þær eru ekki eilífðarvélar og það er afar óraunsætt að hugsa sér fjármálakerfið sem ósnertanlega eilífðarvél, því að þá er það vélin sem nær völdum yfir fólkinu - en ekki fólkið sem heldur valdi sínu yfir sjálfu sér.

Vélmenni spilar á fiðlu:


mbl.is Ástæðulaust að bíða með afnám verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndband: "Áfram Ísland!" Spaugstofunnar

Heimili á Íslandi eru á vonarvöl: sífellt slæmar fréttir, uppsagnir, lánin rjúka upp, fólk borið án miskunnar út af heimilum og gjaldþrotahryna virðist rétt handan við hornið.

Spaugstofan tekur skemmtilega á þessu með því að færa Queen lagið "We Will Rock You" í nýjan búning. Ég segi ekki að þarna fari meistaraverk, en textinn er vel heppnaður og mér finnst lagið grípa tíðarandann og örvæntinguna nokkuð vel með svolítið svörtum húmor.



Vonandi taka RÚV og Spaugstofan því ekki illa að ég skuli hafa klippt þetta aðeins til og sent inn á YouTube.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband