Gefið í skyn á mbl.is að Ögmundur sé göfugur, Geir Haarde sé ekki sannur Íslendingur og að 20% niðurfelling skulda heimila sé tóm steypa?

 

630-220

 

Þegar Ögmundur Jónasson fórnar ráðherralaunum sínum er gefið í skyn að um göfugt fordæmi sé að ræða. Eða er kannski verið að gefa í skyn að jafna skuli laun allra landsmanna? Er Ögmundur með þessu að gefa í skyn að verði Vinstri Grænir kosnir til valda eftir næstu kosningar að laun almennings og auðmanna verði jöfnuð? Er þetta kannski kosningabrella sem hefur engin loforð í för með sér?

 


 

Þegar birtist í einni og sömu frétt að Geir Haarde sé að kveðja Alþingi og í sömu frétt að blindrahundur fái að koma sér fyrir í Alþingishúsinu, og sagt að Geir og hundurinn eigi það sameiginlegt að vera báðir af norskum ættum, þá er verið að gefa ýmislegt í skyn án þess að það sé sagt. Hugsanlega er verið að gefa í skyn að Geir sé ekki sannur Íslendingur, og að margt sé líkt með honum og blindrahundi - að hann hafi leitt þjóðina áfram einhverja fyrirfram ákveðna leið sem ekki var mörkuð af skynsemi, heldur þjálfun. Hugsanlega gefur þessi tenging ýmislegt annað áhugavert í skyn, sem í raun endurspeglar meira viðhorf eða fordóma þeim sem flytur fréttina en hlutlausar staðreyndir.

 


 

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir segir að hugmyndin um 20% niðurfellingu skulda heimila sé eignartilfærsla frá einstaklingum til fyrirtækja, er gefið í skyn að það sama eigi við hugmyndina um 20% niðurfellinga skulda heimilanna. Sérstaklega er áhugavert hvernig hefur tekist að breyta hugmyndinni úr "niðurfellingu 20% af skuldum heimila" í "niðurfellingu 20% af skuldum heimila og fyrirtækja". Seinni hugmyndin er vissulega út í hött, nokkuð sem hvert mannsbarn sér, en að gefa í skyn að fyrri hugmyndin felist í þeirri seinni getur verið stórhættulegt, sérstaklega á augnabliki þar sem heimilin kalla á róttækar aðgerðir þeim til bjargar, en sjá hins vegar vatnsgreidda jakkalakka bjarga sviksamlegum fjármálastofnunum í staðinn (þarna gefur höfundur margt í misgáfulegt í skyn - [eða er þetta kannski ábyrgðarlaus ályktun?] - sem þarf að greina með gagnrýnni hugsun til að draga í sundur persónulegar skoðanir og það sem verið er að segja í raun og veru).

En þessi grein fjallar fyrst og fremst um hugmyndina eða hugtakið "að gefa eitthvað í skyn" og hvað það þýðir.

the_world_is_flat

Gefið í skyn

Fullyrðing eða sönn setning sem leiðir af öðrum fullyrðingum eða sönnum setningum. Einn af mikilvægustu hæfileikum gagnrýns hugsuðar er að geta gert greinarmun á því sem fullyrðing eða aðstæður gefa í skyn og ábyrgðarlausum ályktunum. Gagnrýnir hugsuðir reyna að átta sig á takmörkunum eigin þekkingar og á því hvað þessi þekking gefur í skyn.

Gagnrýnir hugsuðir vanda orðaval sitt til að gefa í skyn það sem þeir geta réttlætt á áreiðanlegan hátt. Þeir kannast við að til staðar er ákveðin orðanotkun sem gefur eitthvað ákveðið í skyn.

Dæmi: Að segja eitthvað vera glæp er að gefa í skyn að athöfnin hafi verið framkvæmd með ráðnum hug og sé óréttlætanleg.

 

Myndir: 

The World is Flat: Thomas L. Friedman

Ögmundur Jónasson: Alþingi

Geir Haarde: EU and Finland

Jóhanna Sigurðardóttir: MÍR.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Jón

Ég skil ekki alveg Jóhönnukaflann. Jóhanna segir að niðurfelling af skuldum heimila og fyrirtækja sé eignatilfærsla til fyrirtækja, eins og kemur fram í fréttinni: "Skuldir fyrirtækjanna eru margfaldar á við skuldir einstaklinga og því færu útgjöld ríkisins vegan þessa fyrst og fremst til fyrirtækja. Skatturinn yrði hinsvegar greiddur af launþegum".

Glöggir menn muna að upprunalega hugmynd Framsóknarmanna átti við um skuldir heimila og fyrirtækja. Seinni tíma hugmyndir hafa verið að láta þetta eingögnu gilda fyrir heimilin. Enginn flokkur hefur þó mér vitandi lagt það til ennþá, bara "fólk utan úr bæ", og því hefur öll umræðan á þingi verið um heimili og fyrirtæki þó "fólk utan úr bæ" hafi meiri áhuga á að ræða bara heimilin.

Einar Jón, 26.3.2009 kl. 10:23

2 Smámynd: Einar Jón

Hrikalegt torf er þetta hjá mér - ég vona að punkturinn hafi komist til skila...

Einar Jón, 26.3.2009 kl. 10:25

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Þú kemur þessu vel til skila og þetta er hárrétt hjá þér. Glöggir menn taka eftir þessum greinarmun, og ég sjálfur er ekki gleggri en það að ég missti af þessum greinarmun í upphafi, enda um margt annað að hugsa því miður, en finnst að mætti gjarnan ræða þetta meira út frá stöðu heimila.

Hrannar Baldursson, 26.3.2009 kl. 10:34

4 identicon

Ertu ekki að rugla saman gagnrýnum hugsuðum og varkárum hugsuðum? Það kann vissulega að fara saman en það er þó ekkert samasemmerki þar á milli.

Ásgeir H Ingólfsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 14:24

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Ögmundur er mikill heiðursmaður sem allir mættu taka sér til fyrirmyndar. Hann hefur ekki tekið laun sem formaður BSRB meðan hann hefur setið á Alþingi. Ögmundur lítur á störf sín sem þjónustu sem er mjög óvnejulegt á þessum tímum þegar gróðahyggjan reis sem hæst og hefur dregið þjóðfélagið niður í svaðið.

Oft hefi eg rætt við Ögmund og þá forystumenn VG. Nú eru þeir mjög uppteknir að moka flórinn eftir allan subbuskapinn sem einkavæðinginn og frjálshyggjan skilur eftir sig. Það er margt verk léttara en það. Víða leynast meira að segja tímasprengjur sem skildar hafa verið eftir af fyrri stjórn.

Svona er pólitíkin!

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 26.3.2009 kl. 16:11

6 Smámynd: Ómar Ingi

Las fyrirsögnina af hratt og líkar hún betur hehe

Gefið í skyn á mbl.is að Ögmundur sé öfugur.

Ómar Ingi, 26.3.2009 kl. 17:00

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ásgeir: Allir gagnrýnir hugsuðir eru varkárir , en ekki allir varkárir hugsuðir eru gagnrýnir.

Guðjón: Ég get tekið undir þetta hjá þér. Ögmundur virðist afar mikill prinsippmaður, en ég hef samt ákveðnar efasemdir um að slíkur heiðarleiki og göfugmennska muni þrífast til lengdar í íslenskum stjórnmálum. Önnur meðöl eru vinsælli.

Ómar: Ég hef verið í krampakasti síðan ég las þetta hjá þér.

Hrannar Baldursson, 26.3.2009 kl. 19:00

8 identicon

hvað er sanngjarnt við að fella niður 20% af skuldum heimila... sjálfur tók ég mér ekki 100% lán til að kaupa hús, ferðalán eða tölvulán eða neitt annað af þessu sem var í boði... á það svo að bitna á mér að aðrir gerðu það???

ef þessi 20% verða felld niður af skuldugum heimilum skal verðlauna þeim sem ekki tóku sér lán til kaupa á einhvern hátt... ekki bara verðlauna þeim sem tóku áhættu...

BFM (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 21:28

9 identicon

Hvað fær Ögmundur fyrir stjórnarsetu í Lífeyrissóði opinbera starfsmanna?( Í laun og sporslur)

Ingi (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband