Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

The Curious Case of Benjamin Button (2008) **1/2

The Curious Case of Benjamin Button er vel leikin af Brad Pitt og Cate Blanchett, en í stað þess að rannsaka af dýpt merkinguna á bakvið líf sem gengur afturábak, festist kvikmyndin í frekar innantómu melódrama um samband tveggja einstaklinga, sem þroskast í ólíkar áttir.

Það væri hægt að vinna mígrút úr hugmyndum upp úr sögu um mann sem yngist í stað þess að eldast, og hægt væri að fókusa á tímabil í hans lífi frekar en að segja söguna frá fæðingu í hárri elli og dauða í æsku. Það er frekar lítið heillandi við þá nálgun. Brad Pitt og tölvubrellur sýna stórleik sem Benjamin Button, en söguna vantar bara ákveðið drama.

Það að segja ævi manneskju á þremur klukkustundum, sama þó að ævin líði afturábak, krefst mun meira en það sem við fáum út úr þessari kvikmynd.

Þegar eiginkona Thomas Button (Jason Flemyng) deyr við fæðingu sonar þeirra, Benjamin (Brad Pitt), bregst Thomas illa við þegar hann sér krumpað og afar ljótt barn og þrífur það með sér og hleypur niður á árbakka til að drekkja því. Lögreglumaður verður var við hann, þannig að hann hleypur inn í húsasund og skilur Benjamin eftir á tröppunum, vafinn inn í teppi og með átján dollara innan á sér.

Queenie (Taraj P. Henson) finnur barnið, tekur það að sér og elur upp á heimili fyrir aldraða. Barninu er spáður skjótur dauði, en Queenie ákveður að sinna barninu til dauðadags, eins og hún hefur sinnt fjölmörgum öldruðum. Hins vegar kemur í ljós að barnið deyr ekki, heldur yngist með hverju árinu.

Gamla fólkið kennir Benjamin ýmsar ágætis listir og lífsviðhorf, og þar kynnist hann loks Daisy (Elle Fanning (7 ára), Madison Beaty (10 ára), Cate Blanchett) og þau verða fljótt góðir vinir. Það er svo mörgum árum seinn að þau hittast á miðri leið, þar sem hún eldist eðlilega og hann yngist, að ástin blossar.

Vandamálið er að hann heldur áfram að yngjast og hún að eldast, þannig að aðskilnaður er óhjákvæmilegur, sérstaklega þegar í ljós kemur að það er komið barn í spilið.

Þetta hefði getað verið ansi spennandi og skemmtileg mynd, en það hefur mistekist að gera þessa góðu hugmynd að einhverju dýpra og betra en bara góðri hugmynd. Hafirðu sér sýnishornið hér að neðan, hefurðu nánast séð myndina.

The Curious Case of Benjamin Button er því miður ekki nógu athyglisverð til að halda fullri athygli og áhuga yfir henni í 166 mínútur. Og þó að Brad Pitt sé góður í aðalhlutverkinu, þá er maður alltaf meðvitaður um að þetta er hann með tölvubrellum, en ekki sjálfstæð og djúp persóna.Nú hefur þessi kvikmynd fengið 13 tilnefningar til Óskarsverðlauna, og fjórar í stærstu flokkunum. Hún ætti aðeins að fá verðlaun fyrir förðun að mínu mati.

  • Besta kvikmyndin
  • Besti aðalleikari: Brad Pitt
  • Besta aukaleikkona: Taraji P. Henson
  • Besti leikstjóri: David Fincher

Er verðtryggingin 30 ára gamalt rugl? Gunnar Tómasson hagfræðingur í Silfri Egils 1. febrúar 2009

Afar áhugavert viðtal við Gunnar Tómasson hagfræðing þar sem hann fjallar á afar gagnrýninn hátt um verðtryggingu og innbyggðan veikleika í hagkerfinu sem hann rekur aftur til 3. áratugar 20. aldar.

Ég vil hvetja lesendur mína sem áhyggjur hafa af stöðu heimila á Íslandi í dag að skrá sig í samtökin, og hvetja vini sína og félaga til að gera það sama. Þessi samtök eru byggð á traustum grunni og berjast fyrir þeim sem minnst mega sín: venjulegu fólki sem vill búa á Íslandi án þess að lifa í ánauð næstu áratugina.

Ég klippti þessi myndbönd úr Silfri Egils og setti inn á YouTube til að gera viðtalið aðgengilegra fyrir almenning, og stefni á að gera meira af þessu í náinni framtíð þegar málið snýr að hagsmunum fyrir heimilin í landinu.

Skráðu þig í Hagsmunasamtök heimilanna með því að smella hér.

1. hluti af 3:

 

2. hluti af 3:

 

3. hluti af 3:

 
 
Heimildir: 
 
 

Hvað er þekkingarfræði?

Ég hef haldið áfram þróun á heimspekihandbók, þar sem upplýsingar um heimspeki eru að verða til, en ég held í þá veiku von að þetta framtak muni gagnast sérstaklega við fræðslu í gagnrýnni hugsun - nokkru sem virðist skorta sérstaklega meðal jámanna í stjórnmálaheiminum. Smám saman stækkar vefurinn og verður áhugafólki um heimspeki gagnlegt uppflettirit. 

Ég vil taka það sérstaklega fram hversu sorglegt mér þykir að heimspeki sé ekki kennslugrein í grunnskólum og framhaldsskólum landsins, en með ástundun heimspeki, sem er móðir allra vísinda og að sögn guðfræðinga þerna guðfræðinnar, hefur fólk tækifæri til að kynnast betur eigin hugmyndum og annarra, og hefur kost á því að sjá hversu margbrotnar skoðanir okkar eru, og hversu djúpstæður eða grunnur ágreiningur um mikilvæg málefni getur verið.

 

Þekkingarfræði

Þekkingarfræði (Enska: epistemology, Gríska: episteme = þekking, logos = fræði) spyr hvort að við getum þekkt heiminn og sjálf okkur, og ef að við getum það, hvernig förum við að því? Þarna skiptast heimspekingar oft í tvær fylkingar, í þá sem telja þekkingu sprottna úr reynslu mikilvægari en þá sem sprottin er úr lögmálum hugans, og hina sem telja þekkingu frekar spretta úr lögmálum hugans en reynslu. Dæmi um lögmál hugans er þekking um hinn fullkomna hring, að 2+2 séu alltaf 4, og að piparsveinar séu alltaf ógiftir, en þekking úr reynslu væri hins vegar yfirfærsla af áreiti sem skynfæri okkar taka við. Það er kannski erfitt að skipta þessu svona upp í tvær ólíkar fylkingar, en þegar við spyrjum hvað sönn þekking sé og hvernig við fáum hana, flækist málið, sérstaklega þegar farið er að spyrja um hvernig heimurinn raunverulega er, hvað gerist eftir að við deyjum, hvað sálir séu, og hvort eilífð sé möguleg. Mig grunar að heimspekingur verði að vera á tánum þegar hann hugsi um ólíka hluti, og að það fari eftir viðfangsefni hvað á best við, eða hvort að bæði sé rétt. Það er vissulega hægt að deila um þessi mál til eilífðarnóns, sérstaklega ef tveir einstaklingar eru á ólíkri skoðun, en það er einmitt eitt af því sem heillar við heimspekina - hún gefur okkur alltaf færi á að kafa dýpra án þess að festa okkur við eina hugmynd.

Rannsóknir þekkingarfræðinnar skiptast í þrjár greinar:

  1. Skilgreining þekkingar
  2. Öflun þekkingar
  3. Efasemdir um þekkingu (efahyggja)

 

Stöðluð skilgreining á þekkingu

Þekking er réttlætanleg og sönn trú.

Til að þekkja eitthvað verðum við að trúa því og það sem maður trúir verður að vera satt. Ástæður trúarinnar verða að vera réttlætanlegar út frá einhverjum stöðlum, þar sem að maður getur ekki ákveðið allt í einu að trúa einhverju að þar af leiðandi verði viðkomandi satt. Þannig að skilgreining þekkingarfræðinnar skiptist í þrjár megin rannsóknir, um:

  • Réttlæting
  • Sannleikur
  • Trú

 

Öflun þekkingar

Hefðbundnar rannsóknir á hvaðan þekking kemur skiptist í tvo ólíka skóla, en svo einkennilega vill til að þeir virðast ekki samræmanlegir, þar sem að annar þeirra telur þekkingu koma úr hugsun, en hinn úr reynslu.

  • Hughyggja (rationalist school) er sú trú að einstaklingur öðlist þekkingu fyrst og fremst með notkun rökhugsunar.
  • Raunhyggja (empirist school) er sú trú að einstaklingur öðlist þekkingu fyrst og fremst gegnum skynfæri sín.

Heilbrigðast er að sjá hughyggju og raunhyggju sem samvirkandi þætti í sama ferlinu. Ef þú hugsar um það hvernig hugmyndir verða til, geturðu séð í hendi þér að það skiptir í raun ekki máli hvar hugmyndin kviknar, hvort það er vegna einhvers sem þú hefur séð, dreymt eða hugsað. Hins vegar þegar ný hugmynd er komin upp, þá þarf fyrst að velta henni fyrir sér, og þá eru bestu tækin til þess gagnrýnin hugsun og stærðfræði, sem taka á mótun hugmyndarinnar, þannig að fyrst aðgreinum við hana frá öðrum hugmyndum, síðan reynum við að skilja hana, og þar á eftir tengja hana við aðrar hugmyndir. Tengingin við aðrar hugmyndir getur verið huglæg eða raunlæg, sem hefur þá áhrif á næstu skref hennar. Verði hugmyndin áfram huglæg er sjálfsagt hægt að greina hana betur, skilja betur forsendur hennar og samband við önnur hugtök; en verði hún raunlæg er hún komin út fyrir hið huglæga og hægt að rannsaka út af fyrir sig með skynfærum og tækjum sem bæta skynjun okkar, eins og smásjár, sjónaukar, og slíkt. En það allra besta fyrir hverja hugmynd er samþætting kenningar og veruleika - þannig að báðir þættir lifi áfram. Þannig verður til sífellt öflugri þekking.

Ætli það séu ekki fyrst og fremst mannlegar takmarkanir sem valda heiftarlegum aðgreiningi á hughyggju og raunhyggju, þar sem sumir sjá meira gildi í hugmyndum, en aðrir í nýtingu, á meðan hvort tveggja í samvinnu er orðið að öflugu tæki til hugmyndaþróunar og þekkingaröflunar.

 

Efahyggja

Efahyggja er ómissandi hluti þekkingarfræði. Þar sem efasemdir vakna um örugga þekkingu, þar þarf réttlætingin fyrir trúnni að vera því öflugri. Skorti efasemdir eða sé bannað að efast um viðkomandi trú, þá er ekki um þekkingu að ræða, heldur trúarbrögð.

Efinn er prófsteinn á þekkingu, spyr þráðbeint og kafar í hjarta hverrar trúar. Ekki má gleyma því að efahyggjan á fyrst og fremst við um mannlega þekkingu, og hefur ekkert umboð þegar kemur að trúarbrögðum, þar sem trúarbrögð fjalla ekki um þekkingu, heldur er um enn margbrotnara fyrirbæri að ræða sem tengist meira lífsspeki, gildum og trú sem krefst ekki formlegrar réttlætingar.

 

Athugið að eftirfarandi myndband er töluverð einföldun á þekkingarfræði, en samt skemmtilegur inngangspunktur í fræðin.

 

 


Hannes Hólmsteinn ásakar ríkisstjórn um valdarán í Wall Street Journal

 


 

 

Þannig hljómar texti Hannesar Hólmsteins á bloggi hans Vinstrisveifla á Íslandi:

Ég skrifaði grein í Wall Street Journal í dag um stjórnarskiptin á Íslandi. Þar benti ég á, að hin nýja stjórn er minnihlutastjórn, sem komst til valda í skjóli ofbeldis, eftir götuóeirðir. Þrátt fyrir svo hæpið umboð ætlar hún að ráðast á sjálfstæði Seðlabankans og reka Davíð Oddsson, sem ekkert hefur til saka unnið annað en vara nánast einn Íslendinga við hinum öra vexti bankana fyrir hrunið, jafnt opinberlega og í einkasamtölum. Fjármálaeftirlitið var fært frá Seðlabankanum 1998, svo að Davíð varð að láta sér nægja viðvaranir, ekki athafnir.

Ég hef tvennt við þetta að athuga, annars vegar þá hugmynd að götuóeirðir hafi átt sér stað á Íslandi, þar sem mér þykir heldur strangt tekið til orða, og vil í því sambandi skoða aðeins betur merkingu óeirða.

Hitt er uppsögn Davíðs Oddssonar, sem vissulega varaði við örum vexti bankanna fyrir hrunið, en starfar í umboði sitjandi forsætisráðherra, og þar sem forsætisráðherra treystir ekki sitjandi Seðlabankastjóra er ósköp eðlilegt að hún vilji leysa hann frá störfum. Málið er að þetta snýst ekki um Davíð Oddsson, heldur um að uppstokkunar hefur verið krafist í öllu kerfinu, óháð einstaklingum eða flokkstengslum. 

Málið er semsagt lagt þannig upp að ríkisstjórnin rændi völdum, og með þessum völdum er verið að reka Davíð Oddsson, sem er vinur greinarhöfundar. Þannig að ef hægt er að viðurkenna þær forsendur að um valdarán hafi verið að ráða, þá hefur forsætisráðherra ekki alvöru vald, heldur stolið vald, og því ætti uppsögnin ekki að vera tekin gild.

Til að komast að sannleikanum í þessu máli, hvort að ríkisstjórnin hafi tekið völdin með götuóeirðum, langar mig að bera saman hugtakið 'óeirðir' og það sem gerðist í raun og veru.

Það sem gerðist: Fjöldi manns safnaðist saman og kastaði mjólk og skyri í lögreglumenn, og þar að auki kastaði einhver múrsteini í lögregluþjón sem slasaðist alvarlega. Fjölmargar rúður voru brotnar og brennur kveiktar hér og þar um bæinn. Til allrar hamingju hefur enginn verið drepinn.

 

 

 

 

Hvað eru óeirðir?

Samkvæmt Encyclopedia Britannica eru óeirðir: 

Ofbeldisfull árás gegn opinberri reglu unnin af þremur eða fleiri manneskjum. Eins og ólögleg hópmyndun, eru óeirðir ólögleg hópmyndun fólks í ólöglegum tilgangi. Öfugt við ólöglega hópmyndun, samt sem áður, eru óeirðir ofbeldisfullar. Hugtakið er augsýnileg vítt og nær utan um blóðug átök verkfallsbrjóta og fólks með kröfuspjöld til hegðunar glæpagengja.

Samkvæmt þessari skilgreiningu voru mótmælin í miðbæ Reykjavíkur ekki óeirðir, þar sem að ofbeldisverk voru undantekning frekar en regla.

Ég hafna þessari grein Hannesar Hólmsteins algjörlega, og hafna því að ríkisstjórnin hafi tekið sér völd í skjóli ofbeldis og götuóeirða, enda var ofbeldi aðeins beitt í undantekningu af einum eða tveimur einstaklingi, í hópi mörg þúsund manns. Það er kraftaverki líkast að enginn var drepinn og hversu fáir meiddust miðað við tilefni mótmælanna.

Niðurstaða mín er sú að það voru engar óeirðir á Íslandi, enda er megineinkenni óeirða ofbeldisfullur verknaður, en þar sem ofbeldisverk heyrðu til undantekninga frekar en reglu, þá hlýtur þessi grein að falla um sjálfa sig.

Það eru hreinar getgátur sem eiga sér enga stoð í veruleikanum að Jóhanna Sigurðardóttir vilji víkja bankastjórum Seðlabankans vegna persónulegrar óvildar, - hvert barn sér í hendi sér að þetta er leið til að vinna Íslandi traust á nýjan leik, óháð persónulegum ríg, enda er þessi ákvörðun studd af mjög traustu baklandi Jóhönnu, og ekki hægt að slá upp sem persónulegri árás. Slík ásökun er afar ósanngjörn miðað við það sem á undan er gengið.

Leitt er að skrifað sé á svo óvandaðan hátt af Íslendingi í áhrifaríkan erlendan fjölmiðil. Grein Hannesar í Wall Street Journal má lesa hér.

 

 

 

 

Til að skýrt sé að ég hef ekkert á móti Davíð Oddssyni sjálfur vísa ég í greinar sem ég skrifaði um mótmælin gegn honum í haust sem leið, og þetta eru greinar sem ég get staðið við enn í dag:

9. október 2008: Á að reka Davíð Oddsson, leggja hann í einelti og ásaka hann um ófarir bankanna?

18. október 2008: Má ég vinsamlegast mótmæla mótmælunum gegn Davíð Oddssyni?


Hvað er gagnrýnin hugsun? (Með myndböndum)

 


 

Hugmyndinni um gagnrýna hugsun er ósjaldan varpað fram í umræðu heimspekinga, en hún er leit að kjarna hvers máls fyrir sig, að geta greint á milli vel og illra framsettra hugmynda og skilja hvers vegna, að finna hið sanna í hverju máli. Formleg gagnrýnin hugsun er heil fræðigrein út af fyrir sig, þar sem rýnt er í rökvillur, mælskulist, áreiðanleika heimilda, forsendur málsaðila, og margt fleira.

En stundum gleymist að gagnrýnin hugsun krefst meira en þess eins að kryfja mál á gagnrýninn hátt. Góð gagnrýnin hugsun þarf einnig á sköpunargáfu og frumleika að halda, sem og umhyggju fyrir viðfangsefninu og þeim sem að því koma.

Til dæmis, þegar verið er að rannsaka forsendur fóstureyðinga, þá er ekki nóg að deila um hvort að fóstureyðingar séu réttar eða rangar og rökstyðja með tilvísun í trúarbrögð, tilfinningar og læknavísindi, það þarf einnig að hlusta á rök fólksins sjálfs sem ákveður að framkvæma fóstureyðingar, og jafnvel þó að það telji það stýra gegn grundvallarskoðunum þeirra. Hvernig getur staðið á því að fólk sem trúir að fóstureyðingar séu í eðli sínu rangar, gangist undir þær?

Eina skýringin sem ég sé fyrir mér er að eitthvað annað siðferðilegt mál hljóti að vega þyngra í huga þessa fólks, sem tengist hugsanlega þeirri ábyrgð að framfleyta og koma barni til manns við þær forsendur sem viðkomandi upplifir.

Málið er að upplifun og reynsla fólks af lífinu er oft gjörólík hugmyndum heimspekinga, stjórnmálafræðinga og trúarbragðaleiðtoga um tilveruna - og að oft sé stórt bil á milli þess hvernig heimurinn er og hvernig hann ætti að vera, og jafnvel getur vel verið að heimurinn ætti alls ekki að vera eins og meirihlutinn hugsanlega telur að hann ætti að vera - hugsanlega gæti manneskjan sem hefur ábyrgðina haft eigin hugmyndir um hvernig heimurinn ætti að vera og því tekið ákvarðanir byggðar á þeim grunni.

Af þessum sökum er afar mikilvægt að umhyggja fyrir manneskjum við ólíkar aðstæður séu til staðar, í stað þess að gagnrýni falli í kerfi þar sem hlutleysi er krafist. Hver segir að gagnrýnin hugsun þurfi að vera hlutlaus? Af hverju má gagnrýnin hugsun ekki taka mið af aðstæðum, og þeir sem meta málin dæma samkvæmt bæði rökum og tilfinningum, enda um heilsteyptar manneskjur að ræða?

Gagnrýnin hugsun er oft svarið við spurningunni: "Hvað er heimspeki?" En kjarni gagnrýnnar hugsunar felst í því að hún kryfur sjálfa sig og er vel lýst með orðunum: "Hugsun um hugsun".

Staðlar fyrir gagnrýna hugsun samkvæmt Richard Paul:

  1. Skýr hugsun
  2. Nákvæmni
  3. Samræmi
  4. Mikilvægi
  5. Dýpt
  6. Víðsýni
  7. Rökrétt

Nákvæmni óskar til dæmis eftir tölulegum niðurstöðum. Ef einhver segir að það sé heitt, viljum við vita í samræmi við aðstæður hversu heitt er.

Nákvæmni er ekki það sama og samræmi, þar sem að nákvæmar upplýsingar um einstaka þætti gætu verið notaðar til að villa um og flækja málin, og þannig sýnt eitthvað annað en skýrt samræmi upplýsinganna við veruleikann.

Upplýsingar gætu verið nákvæmar og í samræmi við veruleikann, en ef þær upplýsingar sem eru gefnar upp eru ekki mikilvægar, þá fellur málið um sjálft sig.

Flóknar spurningar krefjast djúpra svara - sé svarið einfaldara en spurningin, þá er það einfaldlega rangt.

Hugsunin þarf ekki aðeins að kafa djúpt, heldur einnig vera víðsýn og forðast þannig að þrengja málefnið við eina hlið, heldur reyna að sjá minnst tvær hliðar hvers máls og helst þær allar.

Hver einasta mikilvæg hugsun og skoðun þarf einnig að fylgja lögmálum rökhugsunar, og halda þó að spurt sé vítt og djúpt út í forsendur svarsins.

Spurningar til að auka nákvæmni, sérstaklega áhrifaríkt þegar viðmælandi er óskýr og fer í hringi:

  • Gætirðu útskýrt betur?
  • Gætirðu lýst betur?
  • Gætirðu gefið dæmi?

Áhugavert efni: Staðlar gagnrýnnar hugsunar, 1. hluti með Richard Paul og 2. hluti

 

Staðlar Gagnrýnnar hugsunar, 1. hluti




Staðlar Gagnrýnnar hugsunar, 2. hluti


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband