Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
Geðhvörf er alvarlegur geðrænn vandi sem fólk ber ekki utan á sér. Sumir geta jafnvel þakkað árangri í starfi fyrir þann kraft sem virðist geisla af viðkomandi á meðan hann er í örlyndishlið geðhvarfa. Vandinn við geðhvörf er margbrotinn. Annars vegar getur fólk talið að slíkar skapsveiflur séu bar eðlilegur hluti af tilverunni og áttar sig ekki á vandanum sem liggur að baki, en í henni getur falist mikil sjálfseyðingarhvöt, sem beinist einnig að öðru fólki í nánasta umhverfi. Fólk með geðhvörf þarf hjálp. Fólk sem umgengst fólk með geðhvörf þarf líka hjálp. Ég tek fram að ég er ekki sérfræðingur í þessum fræðum, en hlýt að geta dregið ályktanir útfrá eigin rannsóknum og heilbrigðri skynsemi, sem vissulega má gagnrýna.
Í síðasta mánuði lenti ég í klónum á einstaklingi sem ég tel að þjáist af geðhvörfum. Á ensku er þessi gerð geðveiki kölluð Bi-Polar Disorder. Ég vissi að eitthvað var að en áttaði mig ekki á hvað það var, og sú staðreynd hefur truflað mig töluvert.
Nú hef ég skráð niður ýmsar kenningar um hvað olli þessu slæma sambandi, og komist að því að þó margt hafi verið til í mínum kenningum, og þær hafi staðist gagnrýni, þá fóru þær ekki nógu djúpt. Þegar ég fór síðan að kanna sambandið á milli þessara hugmynda minna, áttaði ég mig á að viðkomandi einstaklingur þjáist hugsanlega af geðsjúkdómi.
Þannig að ég setti af stað persónulega rannsókn sem leiddi mig að hugtökum eins og marglyndi, maníu, jaðarpersónuleikaröskun (Borderline personality disorder), og fannst ég stöðugt vera að nálgast kjarna málsins þar til ég fann skilgreiningar og lýsingar á geðhvörfum.
Í rannsóknum mínum komst ég að því að ástand eins og er í íslensku þjóðfélagi í dag, með aukinni streitu vegna efnahagsástandsins, virkar það eins og kveikjuþráður fyrir fólk með geðhvörf - og eftir því sem ástandið er alvarlegra, því styttri er kveikjuþráðurinn.
Ef þú lendir í sambandi við manneskju sem þjáist af geðhvörfum, hvort sem um maka, samstarfsfélaga, vini, eða því sem er enn alvarlegra og getur haft bein áhrif á líf þitt og afkomu: embættismanni, yfirmanni eða kennara, þá verður þú að gera eitthvað í málunum, en kreppunnar vegna, er ólíklegt að þú getir það.
Ég er það heppinn að vera endanlega laus við þessa manneskju úr mínu lífi, en hef vissulega áhyggjur af þeim sem þurfa enn að umgangast hana, og ljóst að þetta fólk þarf að forðast eins og heitan eldinn að styggja viðkomandi, því ef að slík vera er styggð - getur hún tekið upp á því að ráðast á allt og alla sem verða í hennar vegi og grýti steinum út úr glerhúsinu þar til hún telur að lausn hafi verið fundin - alls staðar annars staðar en mögulega í eigin ranni - og róast þar til sannleikurinn kemur í ljós, fyrr eða síðar
Ef þér finnst sumt fólk vera farið að haga sér undarlega þessa síðustu daga, skráðu niður það sem þér þykir undarlegt, rannsakaðu það og myndaðu þér skýra og fordómalausa skoðun, áður en það er of seint að gera eitthvað í málinu. Ef þú hefur rökstuddan grun, leitaðu þá aðstoðar sérfræðinga, sem geta þá vonandi komið viðkomandi eða þér til aðstoðar reynist grunur þinn á rökum reistur.
Athugaðu að á geðhvörfum eru tvær hliðar, önnur þeirra mun sýnilegri en hin. Örlyndi er sýnilegt á meðan hin hliðin, þunglyndið, er yfirleitt vel falið.
Af heimasíðu Geðhjálpar:
Talið er að um 1% þjóðarinnar séu með geðhvörf (Bi-Polar). Geðhvörf kallast það þegar manneskja sveiflast milli oflætis og þunglyndis, geðhæðar og geðlægðar. Langur tími getur liðið á milli geðsveifla og á þeim tímabilum er einstaklingurinn heill á geði. Ef sjúklingur er án meðferðar má búast við 7-15 stórum sveiflum um ævina. Sumir veikjast þó aðeins einu sinni. Framgangur geðhvarfa er einstaklingsbundinn og er því erfitt að alhæfa um hversu mörgum geðsveiflum fólk má búast við, hve lengi þær standa yfir og hve langur tími líður á milli þeirra. Fyrsta geðsveiflan kemur oft í kjölfar aukins álags eða áfalls.
Lengi hefur verið talið að geðhvörf séu algengari hjá skapandi fólki með frjótt ímyndunarafl og margir af ástsælustu listamönnum heimsins eru taldir hafa þjáðst af geðhvörfum, t.d. Virginia Woolf, Sylvia Plath og Sting,
Helstu einkenni örlyndis eru:
- Hækkað geðslag, minnkuð svefnþörf og hraðar hugsanir
- Aukin líkamleg og andleg vellíðan
- Óþol gagnvart áreiti
- Oft stutt skil á milli gleði og reiði, ánægju og æsings
- Oft yfirþyrmandi framkoma
- Háar hugmyndir og góð færni í að sannfæra aðra
- Minnkuð færni í að hlusta á aðra
- Minnkuð dómgreind - óskýr skil á milli eigin hugarheims og raunveruleika
Á persona.is eru undirflokkar geðhvarfa skilgreindir nokkuð vel. Athugaðu endilega hvort að þú kannist við einkennin.
Skilgreining á maníu af doktor.is:
Á hinum manísku tímabilum er sjúkdómsmyndin gjörólík, nú er mikil hreyfiþörf og lífskraftur. Mikilvægustu einkenni maníu eru:
- ört geð, árásargirni og ergelsi
- aukin orka og virkni
- málgleði, röddin er kröftugri en vanalega, hratt tal
- minnkuð svefnþörf
- ógagnrýnin hegðun, hvatvís.
What is Bipolar Disorder?
Myndir:
Throwing Stones in the Glass House
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Óskarsverðlaunin 2009 - Úrslit og innskot frá Mickey Rourke
23.2.2009 | 19:16
Winslet sýndi framúrskarandi leik í Revolutionary Road og mjög góðan í The Reader, en mér fannst Angelina Jolie samt slá henni við í Changeling - en alls ekki ef skoðuð er frammistaða hennar í Wanted.
Besti leikari í aukahlutverki
Viltu vinna milljarð? sigraði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Óskarsverðlaunaspá 2009
21.2.2009 | 19:55
Enn er komið að stóru stundinni þar sem gæði og vinsældir takast á í baráttu um verðlaun. Þar sem að bæði mat á gæðum og vinsældir eru frekar huglæg hugtök er vonlaust að segja til um hver fær hvaða verðlaun. Manni finnst að þetta ættu að vera gæðaverðlaun fyrir kvikmyndagerð, en þar sem að fólk er afar ólíkt, með afar ólíkan smekk og fordóma, auk samúðar eða andúðar með ólíku fólki, þá blandast breyskleiki fólks töluvert inn í valið.
Það er bæði helsti kostur og galli Óskarsverðlaunanna að kjósendur eru fólk sem er viðurkenndur hluti af akademíunni, fólk sem hefur atvinnu af kvikmyndagerð og hefur náð góðum árangri. Ég gæti flokkað mína spá eftir ímynduðum vinsældum, gæðum eða hverju sem er, hins vegar ætla ég aðeins að fylgja einu viðmiði í minni spá: þau áhrif sem viðkomandi hafði á mig, og fyrst og fremst mín eigin tilfinning fyrir gæðum viðkomandi fyrirbæris.
Besta kvikmyndin
The Curious Case of Benjamin Button
Frost / Nixon
Milk
The Reader
Slumdog Millionaire
Þetta er auðvelt. Þar sem að mér þótti hvorki Benjamin Button né Milk sérstaklega góðar myndir, og þó að mér hafi þótt Frost / Nixon og The Reader mjög góðar, þá er aðeins ein frábær mynd í þessum flokki, og það er Slumdog Millionaire.
Besta kvikmyndin: Slumdog Millionaire fjallar um mann í leit að konunni sem hann elskar, en henni er haldið nauðugri af indverskum mafíósa. Eina leiðin sem hann sér til að bjarga henni er með að brjótast úr sárri fátækt og verða bæði frægur og vellauðugur. Því tekur hann þátt í spurningakeppninni "Viltu vinna milljarð?" Leikstýrð af Danny Boyle, sem ég fyrirgef fyrir hina ömurlegu Sunshine.
Besti leikari í aðalhlutverki
Richard Jenkins í The Visitor
Frank Langella í Frost / Nixon
Sean Penn í Milk
Brad Pitt í The Curious Case of Benjamin Button
Mickey Rourke í The Wrestler
Ég hef ekki enn séð The Visitor og get því ekki dæmt um það hlutverk, og þótti ekki mikið til Sean Penn koma í Milk, þó að hann hafi vissulega staðið sig ágætlega. Frank Langella er frábær í Frost / Nixon, og Brad Pitt mjög góður sem Benjamin Button, þó að tæknibrellurnar hafi truflað mig svolítið við áhorfið - en langbesti leikurinn í ár, og hugsanlega allra tíma var hjá Mickey Rourke í The Wrestler.
Besti leikari í aðalhlutverki: Mickey Rourke í The Wrestler þar sem Rourke leikur fjölbragðaglímukappa sem kominn er yfir sitt besta skeið. Hann pumpar sig þó ennþá upp af sterum og leggur sig allan í glímuna. Vandinn er sá að Rourke er kominn í 21. öldina en hann telur sig ennþá vera einhvers konar ósigrandi Herkúles á 9. áratug 20. aldarinnar. Þegar hann fær hjartaáfall og sér fram á líf án glímu verður hann að taka ákvörðun upp á líf og dauða - hvort að lífið sé þess virði að lifa því án þess sem þú elskar mest. Leikstýrð af Darren Arronofsky.
Besta leikkona í aðalhlutverki
Anne Hathaway í Rachel Getting Married
Angelina Jolie í Changeling
Melissa Leo í Frozen River
Meryl Streep í Doubt
Kate Winslet í The Reader
Ég hef hvorki séð Rachel Getting Married né Frozen River, en hinar þrjár hef ég séð. Meryl Streep var mjög góð í Doubt - þó að hún hafi verið enn skemmtilegri í Mamma Mia! Angelina Jolie var óaðfinnanleg í Changeling og Kate Winslet mjög góð í The Reader. Af þessum þremur hlutverkum fannst mér Angelina Jolie best, en samt tel ég að Kate Winslet vinni, og þá einnig verka leiks hennar í Revolutionary Road, þar sem hún var að mínu mati enn betri heldur en í The Reader. En eins og ég sagði, þá ætla ég að byggja spá mína á eigin tilfinningu frekar en trú, þannig að Angelina Jolie fær verðlaunin samkvæmt því.
Besta leikkona í aðalhlutverki: Angelina Jolie í Changeling þar sem Jolie leikur móður í Los Angeles á 3. áratug 20. aldar. Sonur hennar hverfur einn góðan veðurdag og lögreglan finnur annan dreng sem hún telur sannað að sé sonur Jolie. Þrátt fyrir að Jolie geti sannað að drengurinn sé ekki sonur hennar með því að sýna fram á tannlæknaskýrslur, ólíka hæð, og framburð kennara, kemur lögreglan henni fyrir á geðveikrahæli þar sem að gagnrýni hennar er orðin óþægileg. Á meðan tapast mikilvægur tími til að bjarga syni hennar, hugsanlega úr höndum fjöldamorðingja. Leikstýrð af Clint Eastwood.
Besti leikari í aukahlutverki
Josh Brolin í Milk
Robert Downey Jr. í Tropic Thunder
Philip Seymour Hoffman í Doubt
Heath Ledger í The Dark Knight
Michael Shannon í Revolutionary Road
Ég veit að Heath Ledger tekur þetta. Annað er óhugsandi. Enda var hann frábær sem Jókerinn í The Dark Knight, þrátt fyrir ákveðna galla í lykilatriði myndarinnar þegar hann rétti Harvey Dent byssu. Josh Brolin sýndi nú enga stórmerkilega hluti í Milk, en hann hefur sjálfsagt fengið þessa tilnefningu vegna stórkostlegrar túlkunar sinnar á George W. Bush í W. Hann vinnur ekki en á tilnefningu skilið vegna hinnar myndarinnar. Robert Downey Jr. var frábær í ár bæði sem Iron Man og ástralski leikarinn sem leikur blökkumann í Tropic Thunder. Reyndar átti Tom Cruise líka frábært smáhlutverk í sömu mynd sem hefði alveg eins mátt fá tilnefningu. Philip Seymour Hoffman var frábær í Doubt sem kaþólskur prestur grunaður um að hafa misnotað dreng, en allra bestur fannst mér þó Michael Shannon í Revolutionary Road.
Besti leikari í aukahlutverki: Michael Shannon í Revolutionary Road þar sem hann leikur fyrrverandi snilling í stærðfræði sem hefur verið lokaður inni á geðsjúkraheimili og fengið svo mörg raflost að öll hans stærðfræðikunnátta er farin. Hins vegar sker hann sig í gegnum lygar og blekkingar eins og hárbeittur hnífur og sjálfsagt betri mannþekkjari en sjálfur Sherlock Holmes. Frábær karakter sem allir telja geðveikan, en reynist samt vera sá eini sem sér hlutina eins og þeir eru.
Besta leikkona í aukahlutverki
Amy Adams í Doubt
Penélope Cruz í Vicky Christina Barcelona
Viola Davis í Doubt
Taraji P. Henson í The Curious Case of Benjamin Button
Marisa Tomei í The Wrestler
Ég hef ekki séð Vicky Christina Barcelona, en sá ekkert framúrskarandi við Amy Adams í Doubt eða Taraji P. Henson í Benjamin Button. Hins vegar fannst mér Marisa Tomei mjög góð í The Wrestler, og Viola Davis afar eftirminnileg í Doubt. Ég held að Viola Davis hafi búið til kröftugasta karakterinn af þeim sem ég hef séð, og vona að hún taki þetta.
Besta leikkona í aukahlutverki: Viola Davis í Doubt þar sem hún leikur móður drengs sem á sér litla von um framtíð án menntunar, en hún er tilbúin til að sætta sig við ef prestur hefur misnotað son hennar, en hún telur það meira virði að drengurinn komist áfram í lífinu en verði stoppaður vegna slíkra mála. Davis varpar upp mynd af hrikalegu ástandi og þeim fórnum sem sumir þurfa að færa til að komast áfram í lífinu.
Önnur verðlaun vona ég að fari þannig:
Besta frumsamda handrit
In Bruges er stórskemmtileg saga um tvo leigumorðingja sem fara í frí til Belgíu eftir morð sem fór ekki eftir áætlun. Með þeim tekst mikil vinátta sem fær aukið flækjustig þegar annar þeirra fær skipun um að myrða hinn.Besta aðlagaða handrit
Doubt má vinna þessi verðlaun, sérstaklega vegna þess hversu vel er farið með viðkvæm hugtök eins og efa og fullvissu og hvernig þau spila meginhlutverk í margbrotinni sögu, sem þó hefur frekar einfalda atburðarás.Besta teiknimyndin
Bolt fannst mér besta teiknimynd ársins. Hún var fyndin, saklaus og skemmtileg. Ég veit að ég er í minnihluta hérna og 99% öruggt að WALL-E taki verðlaunin, enda fjallar hún um miklu meira en bara vélmenni - en framtíð alls mannkyns er í húfi vegna illrar meðferðar okkar á umhverfinu.
Besta leikstjórn
Danny Boyle fyrir Slumdog Millionaire. Það er einfaldlega við hæfi þar sem það er án vafa besta myndin og fyrst og fremst Boyle að þakka.
Besta kvikmyndatakan
Hérna má The Dark Knight sigra, enda afar vel kvikmynduð mynd sem nýtir sér Chicago borg til hins ýtrasta og gerir úr henni magnaða útgáfu af Gotham borg. The Dark Knight er uppfullt af gífurlega flottum atriðum sem hrein unun er að fylgjast með.
Besta klippingin
Þarna eru þrjár framúrskarandi vel klipptar mynd: The Dark Knight, Frost / Nixon og Slumdog Millionaire. Mér finnst Slumdog Millionaire best klippt af þessum þremur, enda afar flókið ferli að taka sögu sem gerist á þremur ólíkum tímaskeiðum og við afar ólíkar aðstæður og gera úr henni heilstæða og vel skiljanlega mynd.
Besta sviðsmyndin
The Dark Knight má taka þessi verðlaun, þó að The Curious Case of Benjamin Button hljóti að gera ansi sterkt tilkall til þessara verðlauna.
Bestu búningar
Ég skil ekki alveg hvað Milk er að keppa um bestu búningana - mér sýnist flestir leikaranna einfaldlega hafa tekið einhver klæði út úr skápnum - þarna hefði The Dark Knight eða Iron Man vera með í keppni, en af þeim sem keppa myndi ég taka Revolutionary Road, enda stíllinn á fötunum í þeirri mynd með því flottasta sem sést á tjaldinu, og spilar stóra rullu í að sýna firringu aðalpersónanna, sem vilja ekki falla í fjöldann en gera það samt.
Besta föðrun
The Dark Knight má taka þetta fyrir snilldarförðunina á Heath Ledger, sem passaði snilldarlega við persónuna, auk Tvíféss, sem var mátulega hryllilegur. Benjamin Button fannst mér ekki nógu góð í förðunardeildinni vegna þess hversu meðvitaður maður var um að maður væri að horfa á tölvugrafík, og Hellboy II: The Golden Army - þó að hún hafi verið ógeðslega flott, þá er ekki beinlínis hægt að segja að förðunin hafi verið eitthvað frumlegri heldur en í fyrri myndinni. Þannig að Dark Knight er það heillin.
Besta kvikmyndatónlist
Ég játa að tónlistin er ekki mín sterkasta hlið, en mér finnst tónlistin úr WALL-E eftirminnilegust.
Besta lagið
Down to Earth úr WALL-E, - enda man ég ekki eftir lögunum úr Slumdog Millionaire - var of upptekinn við að fylgjast með frábærri kvikmynd.
Besta hljóð
The Dark Knight tekur þetta léttilega.
Besta hljóðblöndun
Iron Man má eiga þessi verðlaun, enda hreint frábærar hljóðbrellur sem fá mann til að trúa að maðurinn að járnmaðurinn sé um tonn að þyngd og úr efni sterkara en stáli.
Bestu tæknibrellur
Þarna hefði ég gefið Hellboy II tækifæri, en þar sem sú mynd er ekki í boði, þá er það Iron Man sem má taka þessi verðlaun, enda trúði ég að járnmaðurinn gæti flogið og tekist á við orrustuþotur í háloftunum. Tæknibrellumynd ársins. Engin spurning.
Besta erlenda myndin
Ég hef ekki séð neina þeirra, en vona samt að Entre les murs taki þetta, enda víst afar frumleg kvikmynd um samband nemenda og kennara, og þar sem ég er kennari að mennt er ég svolítið veikur fyrir slíkum kvikmyndum.
Besta heimildamyndin
Ég hef aðeins séð eina þeirra sem tilnefnd eru, Man on Wire, sem vissulega er góð, en ef það er einhver sem ég hefði sérstaklega áhuga á að sjá er það Encounters at the End of the World þar sem Werner Herzog fylgist með vísindamönnum og lífinu á Antartíku.
Besta stutta heimildamyndin
Ég veit ekki nóg um neina af þessum til að kveða upp dóm, þannig að: ugla sat á kvisti, átti börn og missti, einn tveir þrír og það varst þú: The Conscience of Nhem En.
Besta stutta teiknimyndin
Presto er náttúrulega frábær. Ég hef ekki séð aðrar.
Besta stuttmyndin
Spielzeugland held ég að taki þetta einfaldlega vegna þess að hún er um þýskan dreng í seinni heimstyrjöldinni sem heldur að allir gyðingarnir sé á leið til Leikfangalands. Seinni heimstyrjöldin er yfirleitt sigursæl í þessum flokki.
Kvikmyndir | Breytt 22.2.2009 kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Milk (2008) **1/2
20.2.2009 | 16:58
Milk er því miður meiri formúlumynd en það frumlega stórvirki sem hefur verið talað upp síðustu vikurnar fyrir Óskarsverðlaunahátíðina. Mikið hefur verið rætt um snilld Sean Penn, en fyrir þá sem hafa séð I Am Sam (2001) þar sem hann leikur hinn þroskahefta Sam í baráttu um forræði yfir dóttur sinni, og All The King's Men (2006) þar sem hann leikur pólitíkusinn Willie Stark, þá erum við í raun ekki að sjá neitt nýtt, heldur í raun blöndu af þessum tveimur hlutverkum, þar sem að Harvey hefur hægan málróm Sam og pólitíska útgeislun Willie Stark.
Samkynhneigðir í Milk hafa flestir frekar hægan talandi og annarlegt látbragð, sem er einfaldlega klisjukennd staðalímynd af samkynhneigðu fólki. Ég á bágt með að trúa því að kynhneigð fólks spili svona stóra rullu í látbragði þess. En kannski hef ég rangt fyrir mér.
Harvey Milk (Sean Penn) hefur verið lokaður í skáp eigin kynhneigðar áratugum saman og ákveður loks að sprengja sig út úr skápnum með því að berjast fyrir því að rödd samkynhneigðra fái að heyrast í bandarísku samfélagi. Hann velur að flytja til San Francisco ásamt elskhuga sínum Scott Smith (James Franco) þar sem að umburðarlyndi gagnvart samkynhneigðum á að vera meira en annars staðar, en þó ekki nógu mikið til að þessi ákveðni hópur fólks geti gengið óáreitt um götur borgarinnar.
Sagt er frá hvernig Harvey Milk með mikilli þrautseigju og persónulegum fórnum fær fyrstu kosningu í sögu Bandaríkjanna sem samkynhneigður einstaklingur, og þau djúpstæðu áhrif sem hann hefur á samfélagið í kringum sig, og þá einkum á hans helsta samstarfsfélaga Dan White (Josh Brolin) sem Milk telur vera einn af þeim, mann með bældar kynhneigðir.
Það má segja að Milk sé blanda af þemum sem birst hafa áður í myndum eins og American Beauty, Brokeback Mountain og Malcolm X. Allar þessar myndir eiga það sameiginlegt að þær fjalla á opinskáan hátt um viðkvæm baráttumál minnihlutahópa.
Málið er að Milk er miklu meira mynd um málefni heldur en snilldar kvikmyndagerð, það er einfaldlega vitað að viðurkenning á samkynhneigð er eitt af vinsælustu baráttumálunum í Hollywood þessa dagana og það er einkum þess vegna sem myndin nýtur svo mikils umtals og slíkrar athygli.
Ég verð að játa, að þó að mér hafi ekki þótt The Dark Knight besta mynd allra tíma, þá finnst mér hún eiga meira erindi á Óskarsverðlaunahátíð en Milk. En svona er sýndarheimur Hollywood. Þetta snýst um vinsældir og pólitík, rétt eins og Eurovision.
Milk er þrátt fyrir lengd sína ekki beinlínis leiðinleg eða langdregin. Mér fannst hún bara ekkert spes. Ævisögur og ádeiluefni hafa hins vegar alltaf þótt efnilegt verðlaunafóður. Spurning hvort að svo verði á ár.
Doubt (2008) ***1/2
19.2.2009 | 17:53
Doubt er vel skrifað drama byggt á samnefndu leikriti eftir John Patrick Shanley, sem einnig skrifar handrit og leikstýrir verkinu.
Árið er 1964, staðurinn kaþólskur skóli í Bronx hverfi New York borgar. Systir Aloysius Beauvier (Meryl Streep) er af gamla skólanum. Hún krefst skilyrðislegrar hlýðni nemenda og er ströng sem járnhamar. Sé eitthvað úr lagi hjá einhverjum nemanda hellir hún sér yfir viðkomandi með ógnarkrafti. Hún gerir skýran greinarmun á prestum og nunnum, og vill sem minnst samskipti hafa við prestana.
Faðir Brendan Flynn (Philip Seymour Hoffman) hefur áhuga á að bjóða nýja tíma velkomna í hina fornu stofnun, og vill að andrúmsloftið sé fullt af kærleik og hlýju. Systur Aloysius líst ekkert alltof vel á þetta, þar sem að hennar reynsla hefur sýnt að strangur agi í upphafi leiði til betri árangurs en að byrja með hlýju og sveiganleika, þar sem að slíkt gefur aðeins færi á misnotkun aðstæðna, sem sumir grípa. Þannig að systir Aloysius er fyrirfram afar tortryggin út í föður Flynn og þær hugmyndir sem hann stendur fyrir.
Systir James (Amy Adams) er nýr kennari við skólann, afar græn á bakvið eyrun. Hún vill gera allt sem hún hugsanlega getur til að vera systur Aloysius þóknanleg, og þegar hún verður var við óvenjulega hegðun eins drengs í skólastofunni, og tengir þessa hegðun við föður Flynn, og gerir þau mistök að segja systur Aloysius frá grunsemdum sínum, sem eru annars ekkert meira en sakleysislegar grunsemdir, - stekkur systir Aloysius á þær eins og heilagan sannleik og leggur sig eftir því að koma föður Flynn frá störfum fyrir að hafa misnotað drenginn.
Hvort að faðir Flynn sé sekur eða saklaus skiptir engu máli, því að trúin á sekt hans er svo sterk að hún verður að veruleika, svona rétt eins og trúarbrögðin sjálf. Móðir drengsins , Mrs. Miller (Viola Davis) á áhrifaríkt viðtal við systur Aloysius, sem gefur sterklega í skyn að faðir Flynn hafi aðeins sýnt kærleik í anda Krists, og ekkert meira - en það virðist samt vera of mikið af því góða fyrir suma.
Leikur þeirra Streep og Hoffman er framúrskarandi eins og við má búast af þeim tveimur, og aðrir leikarar halda vel í við þau. Handritið er afar vel skrifað, en ef einhver galli er á myndinni, þá er hann kannski helst sá að mér fannst leikararnir vera búnir að æfa sig alltof vel fyrir hlutverkin, þannig að ég hafði á tilfinningunni að ég væri að horfa á leikverk á sviði, frekar en kvikmynd. Sumum gæti þó þótt það kostur.
Sem fyrrverandi kennari við kaþólska skóla, get ég vottað fyrir að þemun sem tengjast agamálum og því hvernig er að vera kennari í framandi umhverfi hljóma ansi kunnuglega.
Óhætt að mæla með kvikmynd sem vekur upp pælingar um staðsetningu efa og trúar í skoðanamyndum þegar eina rétta leiðin að sannleikanum er með sönnunargögnum og gagnrýnni hugsun. Afar áhugaverðar pælingar sem vakna við þessa kvikmynd. Nokkrar spurningar:
- Er slæmt að efast um eigin trú?
- Á efinn sér eitthvað rúm í trúarbrögðum?
- Hvaða upplýsingar þarf til að gera skoðun að trú?
- Hvaða upplýsingar þarf til að gera trú að þekkingu?
- Felst kærleikur í ströngum aga?
- Felst kærleikur í hlýju og umburðarlyndi?
- Hvort er betra fyrir nemendur: strangur agi eða hlýja?
- Er fullvissa alltaf sjálfsblekking?
Eru Íslendingar hamingjusamir, en bara áhyggjufullir í augnablikinu?
18.2.2009 | 11:38
Mér finnst afar áhugavert þegar rannsökuð eru hugtök sem eru eðli síns vegna ekki rannsakanleg, og hljóta á endanum að vera skoðanir, annað hvort vel rökstuddar eða ekki. En Eric Weiner rökstyður sitt mál, og því sjálfsagt að velta fyrir sér hugmyndum hans.
Samkvæmt Eric Weiner eru þetta einkenni hamingju:
"Hlý, umhyggjusöm sambönd; mikið traust; sterkar fjölskyldur."
Í eldri grein skilgreinir Eric Weiner þetta sem megineinkenni hamingjunnar. Eftir bankahrunið heldur hann sig við þá fullyrðingu að Ísland sé hamingjusöm þjóð, og að það sé vegna þess að grunngildin séu ennþá til staðar, en hann heldur að Ísland sé einfaldlega á öðru stigi en áður, að nú séu Íslendingar kannski áhyggjufullir, en það sé eðlilegt miðað við aðstæður og hefur engin áhrif á hamingjuna sjálfa. Hann segir að Íslendingar hafi mikið til að byggja á, sé ævafornt samfélag með ríka menningu, list og áfengisneyslu.
Mér finnst sérlega áhugavert að hann skuli taka til andleg gæði og síðan áfengisneyslu sem hornsteina hamingjunnar, sem þýðir þá hugsanlega að ef fólk detti ekki í það stöku sinnum eigi það ekki séns á klakanum.
"Hamingjan er meira en bara peningar, það felst hamingja í mistökum."
Eric heldur því fram að Íslendingar séu enn hamingjusamir, þrátt fyrir bankahrunið - við séum bara áhyggjufull eins og er. Hann telur að hamingjan felist ekki í efnahagslegum gæðum, heldur fyrst og fremst í siðferðilegum og andlegum gæðum. Ég er í kjarnanum sammála því, en held samt að hann reikni þetta svolítið vitlaust, en efnahagsleg gæði eru efnisleg gæði, svona rétt eins og nammi og áfengi, og því hefur áfengisneysla ekkert með hamingju að gera frekar en peningar.
Þó að sum okkar séu miklar skepnur, að einelti grasseri í skólum og atvinnulífi, að fólk sé að missa heimili sín og skilnuðum fjölgar, þá erum við samt hamingjusöm af því að við vitum einfaldlega betur hvað það er sem við viljum ekki og getum dottið í það með góða bók undir höndum og Bubba á fóninum. Hljómar þetta ekki eins og útúrsnúningur?
9 einkenni Íslendingsins
Til að vera sanngjarn, þó bendir Eric Weiner á 9 einkenni sem gerir Íslendinga að hamingjusamri þjóð:
Áfengi: Íslendingar detta í það um helgar en drykkja á virkum dögum er merki um vandamál.
Kuldi: Kuldans vegna verður fólk að standa saman.
Skák: Íslendingar björguðu Bobby Fischer og hafa yfirleitt gaman af skák.
Mjög samheldin fjölskylda: Á eyju með aðeins 300.000 manns eru allir skildir hverjum öðrum, og ekkert eðlilegra en að á förnum vegi rekist fólk á ættingja sína.
Fagurfræðilegur smekkur: Íslendingar borða ekkert ljótt eins og humar eða þorsk, heldur selja það til Bandaríkjanna, en borða samt hákarl sem vekur upp spurningar um þroskaðan smekk, sem útskýrir þó drykkjuna.
Álfar: Margir Íslendingar trúa á álfa. Síðast þegar Bandaríkjamenn trúðu á álfa voru þeir hamingjusamir. Þeir voru börn, en hamingjusöm börn.
Sköpunargáfa: Allir á Íslandi eru tónlistarmenn, skáld eða rithöfundar í leit að hinn miklu íslensku skáldsögu. Dæmi um fagurfræði þeirra finnast í matnum og svo er Björk auðvitað íslensk.
Endursköpun: Í Bandaríkjunum, ef þú gerist bankamaður, verðurðu alltaf bankamaður. Á Íslandi er meiri sveigjanleiki og hægt er að skipta um starf án margra ára menntun, enda vita Íslendingar að málin reddast.
Stíll: Íslendingar hafa náttúrulegan stíl.
Húsráð til að redda sér hamingju samkvæmt Weiner:
Fáðu þér súkkulaði, súran hákarl og áfengi, og skrifaðu ljóð. Tefldu síðan. Á eftir skaltu þvo klósettið þitt, því ef þú verður ekki ánægður verður næsti notandi þess það. (Álfarnir að sjálfsögðu!)
Þá eru hugmyndir Eric Weiners um hamingju Íslendinga skýrar. Næsta spurning er hvort að þær séu réttar. Ég þekki mína eigin afstöðu ágætlega, en hvað um þig?
Hver er þín skoðun?
Er Íslendingar hamingjusamir, en bara áhyggjufullir í augnablikinu?
Heimildir og myndir:
Happiness Index' Bucks Financial Woes
Eric Weiner: Why Iceland is STILL happy
Happiness is Not 'One Size Fits All'
Segir Íslendinga enn hamingjusama | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hannes Sigmarsson hef ég þekkt alla mína ævi, og get vottað að þar fer strangheiðarlegur einstaklingur sem hefur sín mál á hreinu. Hann hefur verið aðgengilegur allan sólarhringinn í fjölmörg ár fyrir íbúa Fjarðarbyggðar (þarna erum við ekki að tala um eitt hverfi, heldur nokkur bæjarfélög), og í sumarfríum sínum fer hann ekki til sólarstranda - nei, hann fer til starfa á sjúkrahúsum á Norðurlöndum þar sem hann sækir sér aukna þekkingu. Hann er gífurlega metnaðarfullur sem læknir og veit að það er hans skylda að viðhalda stöðugt þekkingu sinni.
Síðustu tíu árin hafa íbúar Fjarðarbyggðar notið þess öryggis sem fylgir því að hafa aðgengi að lækni nótt sem nýtan dag. Þegar hann fær útköll er hann alltaf reiðubúinn til að mæta á staðinn, nokkuð sem allir vita á Austfjörðum, og að sjálfsögðu útbýr hann reikninga fyrir tímann sem fer í þessa aukavinnu.
Að slíkt vinnulag skuli vera gagnrýnivert sýnir okkur einfaldlega að eitthvað mikið er að í okkar samfélagi.
Þegar manneskja er mikið veik og hringt er í lækni, hvort er betra - að læknirinn leggi strax af stað, eða segi að vegna sparnaðar komist hann ekki fyrr en næsta morgun eða þarnæsta dag, að það fari eftir hversu mikið verður að gera á heilsugæslunni? Eða í næstu viku á eftir?
Auðvitað er eina rétta ákvörðun læknis meti hann aðstæður þannig að fara á staðinn og sinna sjúklingnum.
Hannes er þekktur fyrir að leggja mikið á sig fyrir skjólstæðinga sína, en þetta mál snýst um að þetta mikla framlag hans sé óvenjulegt, að læknar séu yfirleitt ekki svona aðgengilegir, ósérhlífnir og duglegir. Hvernig væri frekar að heiðra slíkan mann en að gera tilraun til að leggja orðspor hans og sálarheill fjölskyldu hans að veði með því að vega að honum í fjölmiðlum?
Þarna er ég hræddur um að sá sem ásakar hljóti að hafa skotið sig í fótinn. Ætli hann þurfi læknishjálp?
Önnur blogg um þetta mál:
Björn Grétar Sveinsson: eitraðar ásakanir "forstjóra"
Allir sem til þekkja störf Hannesar vita að þær ærumeiðingar og ásakanir sem hann er sakaður um er í besta tilfelli þvættingur : Við erum svo sannarlega mörg sem munum slá skjaldborg um okkar góðu lækna til að verjast þessu árásum á heiðalega menn.
Björn S. Lárusson (B.Lár): Sérkennilegur "fjárdráttur"
"Mál Hannesar Sigmarssonar læknis á Eskifirði er mjög sérstakt. Stuðningsyfirlýsingar frá starfsfólki Hulduhlíðar, dvalarheimilis aldraðra á Eskifirði og skrif íbúa vitna um það. Einar Rafn framkvæmdastjóri HSA hefur ekki verið vinsælasti maðurinn á Austfjörðum en Hannes er aftur á móti mjög dáður læknir af flestum í sínu héraði. Hann vann myrkrana á milli og var ætíð boðinn og búinn þegar aðstoð þurfti fyrir starfsmenn við byggingu álversins"
Starfsfólk Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Hulduhlíðar á Eskifirði: Lýsa stuðningi við Hannes
Við starfsfólk Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Hulduhlíðar á Eskifirði lýsum yfir eindregnum stuðningi við Hannes Sigmarsson, yfirlækni Heilsugæslu Fjarðabyggðar og undrumst þá aðför sem að honum er gerð vegna hollustu hans við sjúklinga í Fjarðabyggð.
Vel liðinn og góður maður
Hannes er vel liðinn og Austfirðingar eru slegnir yfir þessari árás þennan farsæla og góða mann. Manni finnst nú eins og verið sé að skjóta fyrst og spyrja svo með birtingu þessara ásakana, segir einn íbúi á Eskifirði sem dv.is hafði samband við. Hann segist ekki útiloka það að safnað verði undirskriftum Hannesi til stuðnings. Slíkt sé andrúmsloftið þar fyrir austan.
Maður heyrir bara í fréttum að hann sé grunaður um fjárdrátt og málið sé komið í rannsókn hjá lögreglu. Almenningur veit náttúrulega ekkert um þá hlið mála, hvað hann á nákvæmlega að hafa gert af sér. En þetta er ekki allt með felldu þegar svona er sett í fjölmiðla og menn nánast teknir af lífi. Þarna er einhver að fara fram úr sér held ég, segir heimildarmaður DV að austan.
Yfirlæknir við Heilsugæslu Fjarðabyggðar leystur frá störfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Til að lesa alla greinina, smellið á "Hugleiðingar lögmanns"
Það er einfaldlega þannig að þegar aðilar eru í viðvarandi viðskiptasambandi (lánasamningur til langs tíma er t.d. slíkt viðskiptasamband), þá hvílir gagnkvæm tillits- og trúnaðarskylda á aðilum. Þannig getur annar aðilinn skapað sér bótaskyldu gagnvart viðsemjanda sínum ef hann bregst þeirri skyldu og það leiðir til tjóns gagnaðilans. Nákvæmlega þessi staða er uppi hér á landi nú, gömlu bankarnir hafa algerlega brugðist skyldum sínum í þessu efni og það hefur leitt til gríðarlegs tjóns fyrir viðsemjendur þeirra. Þetta verður ennþá augljósara í því ljósi að bankarnir eru ráðandi aðili í þessu samningssambandi, bæði í krafti stærðar sinnar og sérfræðikunnáttu, en það er almenn lögskýringarregla í málum af þessum toga að sá sem kemur fram sem sérfræðingur og ráðandi aðili í samninssambandi, þarf að svara ríkari skyldum um tillit við viðsemjanda sinn. Öll löggjöf varðandi neytendasjónarmið og neytendavernd er m.a. byggð á þessum sjónarmiðum.
Þessu til viðbótar má einnig velta fyrir sér stöðu aðila í samningssambandinu útfrá ákvæðum samningalaga, en þar er að finna ákvæði um forsendubrest og atvik sem leitt geta til þess að samningi sé vikið til hliðar að hluta eða öllu leyti, sem einnig geta almennt fastlega komið til greina í réttarsambandi skuldara og lánveitenda hér á landi í dag.
Í ljósi ofanritaðs tel ég algerlega fráleitt að nýju bankarnir innheimti að fullu skuldaviðurkenningar gömlu bankanna, enda liggur fyrir að sá grunnur sem samningur aðila byggði á hefur verið eyðilagður með aðgerðum gömlu bankanna, æðstu stjórnenda þeirra og eigenda. Vegna þessa tel ég að nýju bankarnir hafi ekki lagalegan rétt til að krefjast fullrar greiðslu allra þeirra krafna sem þeir halda nú á, enda geta þeir ekki öðlast betri rétt en sá sem þeir leiða rétt sinn frá. Ég hvet því alla þá sem nú er verið að biðja um að skrifa uppá ný skuldaskjöl að gera það með fyrirvara ef þeir vilja láta reyna á mál sín fyrir dómstólum, enda kunna menn að glata eða a.m.k. minnka mótbárurétt sinn með því að gera ekki fyrirvara um slíkt í nýjum skulda- eða skuldbreytingaskjölum.
Og...
En hvaða leiðir á að fara til að minnka skuldir?
Við því er ekkert eitt rétt svar og ljóst er að hver sú leið sem verður valin mun verða umdeild. Það er hins vegar úr ýmsu að moða og nauðsynlegt að velta nú þegar upp sem flestum möguleikum í þessu efni, einfaldlega til að við fljótum ekki sofandi að feigðarósi. Ein af þeim leiðum sem mér hefur dottið í hug er að byrja á því að taka á vandamálunum með gengistryggðu lánin og stöðva ógnarhjól verðtryggingarinnar, en þessa tvo þætti má telja stærstu dómínokubbana í því ferli sem við er að etja, auk lækkandi eignaverðs í landinu. Þar sem gömlu bankarnir og eigendur þeirra hafa orðið uppvísir að því að ráðast gegn gengi krónunnar og viðskiptamönnum sínum nánast allt árið 2008, kæmi að mínu áliti til greina að alþingi setti lög sem heimiluðu skuldurum lána í erlendri mynt að skuldbreyta þeim í krónur miðað við gengisvísitölu krónunnar áður en þessar grímulausu árásir hófust. Þannig yrðu lánin verðsett miðað við þá gengisvísitölu (130-150 stig), framreiknuð til dagsins í dag miðað við vísitölu neysluverðs til að gæta jafnræðis við þá sem skulda í krónum og afnema síðan með lögum vísitöluna til næstu 6 eða 12 mánaða á meðan menn taka afstöðu til þess hverja framtíðarskipan á að gera í þeim efnum. Verðtrygging er ekkert náttúrulögmál, enda var henni komið á með svolölluðum Ólafslögum,
nr. 13/1979. Fyrir þann tíma höfðu íslendingar lifað ágætu lífi (eins og aðrar þjóðir) án verðtryggingar. Með þessu yrði blásið nýrri von í brjóst almennings og fyrirtækja og skapaður raunhæfru grundvöllur til að halda áfram að skapa verðmæti í efnahagskerfinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
The Wrestler (2008) ****
13.2.2009 | 09:39
Manstu eftir Taxi Driver (1976) og hvernig Robert DeNiro sló í gegn sem Travis Brickle? Misstir þú af Taxi Driver í bíó? Mickey Rourke jafnar þann stórleik og gerir enn betur í The Wrestler. Þú verður að sjá þessa í bíó.
Öðru hverju eru gerðar kvikmyndir með svo eftirminnilegum persónum að þær festast í huga manns og verða nánast að staðalímynd. The Wrestler er ein af þessum myndum. Frammistaða Mickey Rourke er svo frammúrskarandi og eftirminnileg að þetta er nánast eindæmi í sögunni. Ekki er verra að áhugaverðum minnum er bætt inn hér og þar og gefið í skyn að sagan sé hliðstæða af píslarsögu Krists.
Randy 'The Ram' Robinson er á síðasta snúningi sem fjölbragðaglímukappi. Hann elskar íþróttina og allt það sem hún stendur fyrir, en einhvern veginn er hinn brjálaði 8. áratugur liðinn með sínu þungarokki og brjálæði, og 9. áratugurinn einnig farinn hjá og sá 10. nánast á enda. Aldurinn hefur læðst aftur af kappanum og er orðinn hans skæðasti óvinur. The Wrestler fjallar um hvernig þessi glímukappi öðlast ódauðleika.
Þegar Randy fær hjartaáfall eftir sérlega blóðuga glímu, rennur upp fyrir honum ljós, að kannski, hugsanlega, sé eitthvað meira í lífinu en fjölbragðaglima og rokk og ról. Hann hefur ekkert samband við dóttur sína, lifir í fátækt og uppgötvar smám saman að hann er furðuvera í þessum heimi sem passar hvergi annars staðar en í hringnum. Nánasta samband hans við aðra manneskju er við Pam Cassidy (Marisa Tomei), nektardansmær á pöbb sem lítur fyrst og fremst á hann sem kúnna, þó að hann sjálfur sjái það góða í henni.
Randy fær starf í matvöruverslun við að afgreiða kjötvörur, en hjarta hans, þó að það sé á síðasta snúning, finnur ekki takt sem hentar honum. Hann uppgötvar að líf hans er einskis virði ef hann leggur sig ekki allan í það sem hann hefur alltaf lifað fyrir, fjölbragðaglímuna. Það er hans stolt, hans líf. Hann ákveður þrátt fyrir hjartaáfallið að þjálfa sig upp fyrir eina lokaglímu.
Saga fórnarlambsins Randy Hrúts er mikil þjáningarsaga, en ákvarðanirnar sem hann tekur eru allar af einurð og stefna allar að því að gera hans eina draum að veruleika - að verða goðsögn og setja mark sitt á heiminn, á hans eigin hátt, sama hvað það kostar og sama þó að það þýði fórn á eins og einum hrúti. Það má vel vera að draumur hans sé barnalegur og ekki í tengslum við veruleikann, en þessi Don Quixote nútímans hefur samt eitthvað til að bera sem gerir hann mun merkilegri en veruleikann sjálfan.
Mickey Rourke hlýtur að fá Óskarinn fyrir þennan magnaða leik. Annað er óhugsandi. Ég man ekki til þess að hafa séð nokkurn leikara setja jafn mikinn kraft í eitt hlutverk, jafnt í hringnum við glímu sem og utan hans. Reyndar er leikur Robert DeNiro í Taxi Driver sambærilegur. Þar sem að fjölmörg hlutverk hafa verið verðug til Óskarsverðlauna, þá gengur Rourke mun lengra heldur en að vera verðugur - hann býr til tragíska og heillandi persónu sem hefur gífurlega mikið að segja um okkar samtíma, þó að hann átti sig engan veginn á honum sjálfur.
Darren Aronofsky sýnir afbragðs leikstjórn þar sem öll áherslan er á sögunni og persónunum, og lítil sem engin á kvikmyndatækninni - þó að hún sé vissulega til staðar. Hann hefur góða tilfinningu fyrir hvernig hægt er að nota kvikmyndatöku til að fylgja eftir góðum leik. Hann á tvær aðrar gífurlega áhugaverðar myndir að baki, stærðfræðiþrillerinn Pi (1998) þar sem hugtakið Pi ógnar sálarheill stærðfræðings, verðbréfamarkaðnum og virðist tengjast heilagri ritningu gyðinga. Requiem for a Dream (2000) fjallaði um afleiðingar vímuefnaneyslu og ætti að vera skylduáhorf fyrir alla þá sem halda að eitthvað sé heillandi við slíka neyslu. Það tók hann fjölmörg ár að gera hina frekar mislukkuðu The Fountain (2006) en meðal þess sem tafði gerð þá myndar er að Brad Pitt hætti við að leika aðalhlutverkið og tók þess í stað aðalhlutverkið í Troy (2004).
Það verður áhugavert að fylgjast með hvað Aronofsky gerir við RoboCop (2010), en hann var reyndar upphaflega orðaður við Batman Begins, sem Christoper Nolan gerði í staðinn, með mikilli lukku. Án vafa einn áhugaverðast leikstjóri nútímans og ein besta frammistaða allra tíma í kvikmynd.
Hvar er réttlætið í þessu?
12.2.2009 | 13:53
Saklaust fólk fangar á eigin heimilum en þrjótarnir frjálsir í leit að nýjum tækifærum.
Verðtrygging er tæki sem hefur verið misnotað. Í dag virðist hún notuð til að fjármagna nýja banka og eigendur verðtryggða skulda, á meðan fólk eins og Rakel Sölvadóttir þarf að borga þennan pening nánast beint inn á reikninga þeirra sem vilja fá sitt.
Stóra spurningin er hins vegar hvort að yfir 20% vextir af láni sem átti aldrei samkvæmt ráðgjöf í bönkum að fara yfir 8% sé réttlætanleg til innheimtu. Forsendur húsnæðislána hafa algjörlega brostið og því þarf að gera eitthvað í málunum strax.
Í dag eru málin þannig að viljir þú borga af höfuðstól láns þarf að borga 2% uppgreiðslugjald aukalega, en fólk er að borga minnst 20% í ársvexti af sínum húsnæðislánum - og leggjast þessir vextir ofan á höfuðstól um áramót - sem þýðir að venjulegt fólk sem hefur tekið húsnæðislán til að eiga þak yfir höfuðið er ekki bara fangar í eigin húsnæði, það styttist í að það drukkni í skuldum sem yfirfærast á ættingja þeirra og ábyrgðarmenn takist ekki að finna úrræði.
Hagsmunasamtök heimilanna
Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna í þessum málum, sem haldið er uppi af fólki í sjálfboðavinnu, eru skynsamlegar og beinast að rót vandans. Því fleiri sem bætast í samtökin, því líklegra er að hlustað verði á þau af alvöru.
Það verður opinn fundur hjá samtökunum í kvöld kl. 20:00 að Borgartúni 3, og öllum velkomið að mæta. Dagskráin í kvöld er þannig:
- Þór Saari, hagfræðingur, mun hafa framsögu um nauðsynlegar bráðaðgerðir í efnahags- og atvinnumálum.
- Lilja Skaptadóttir heldur erindi um lýðræð.
- Fyrstu tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um aðgerðir vegna kreppunnar verða kynntar.
Þú getur skráð þig í samtökin, án skuldbindinga, með því að smella hér.
Föst í of lítilli íbúð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)