Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009
Verður gróandi þjóðlíf með þverrandi tár?
31.12.2009 | 17:47
Ég vil óska lesendum mínum og bloggvinum, stjórn og stjórnarandstöðu, vinum og vandamönnum, nær og fjær, aðallega fjær, farsæls árs sem er að renna í garð.
Með von um að ár eins og það sem er að líða endurtaki sig ekki að minnsta kosti næstu þúsund árin.
Þegar þetta er skrifað hafa 50.252 skráð sig á InDefence listann til að skora á forseta Íslands að samþykkja ekki nauðasamninginn þar sem erlendur kröfuhafar fá aðgang að íslenskum skattpeningum til að borga skuldir útrásarvíkinga og banka sem fóru á hausinn.
Smelltu hér til að heimsækja vefsetur InDefence.
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár,
og þúsund ár dagur, ei meir;
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Íslands þúsund ár,
Íslands þúsund ár!
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Ó guð, ó guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
Íslands þúsund ár,
Íslands þúsund ár!
Voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
Íslands þúsund ár,
Íslands þúsund ár!
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.
Ljóð: Matthías Jochumsson
Mynd: Botanischen Institut
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Er Þráinn Trójuhestur Samfylkingarinnar?
31.12.2009 | 11:19
Nú er ljóst að einkavæðing bankanna var einungis til þess gerð að fámennur hópur eignaðist allar skattgreiðslur Íslendingar og nú hefur verið réttlætt að þeir fái skattpeninga sem arðgreiðslur. Eignir til fárra, skuldir til allra. Hljómar vel fyrir þennan fámenna hóp sem rúið hefur þjóðina.
Til að fullkomna fáránleikann, skrifaði Þráinn Bertelsson smásögu sem átti að réttlæta atkvæði hans til að samþykkja aðgang kröfuhafa bankanna að íslensku skattfé. Hroðaleg vinnubrögð hjá Þráni, sem og reyndar flestum öðrum þingmönnum á þessum skemmtistað sem þingsalur virðist vera, en skemmtileg saga, bara algjörlega óviðeigandi. Ég sé eftir að hafa ekki skilað inn auðu og hafa styrkt Borgarahreyfinguna með skrifum mínum, fyrst að þetta er útkoman. Reyndar hafði ég alltaf áhyggjur af framboði Þráins til þessarar hreyfingar, og grunaði jafnvel að hann gæti eyðilagt starfsemina innan frá og gerði grein fyrir því í grein minni Af hverju mun ég kjósa X-O?:
en ég á reyndar erfitt fyrir mér að sjá Þráin Bertelson á Alþingi að ræða ekki eitthvað mál sem kemur upp og er ekki tengt stefnumálum Borgarahreyfingarinnar. Hann er einfaldlega búinn að sýna í gegnum árin að sem listamaður kemur honum allt við og hefur ríka þörf fyrir að tjá sig. Samt er Borgarahreyfingin álitlegur kostur, þar sem að ég sé ekkert að því að stjórnmálamenn hafi skoðanir á hinu og þessu og komi þeim á framfæri, bara alls ekki með málþófi vinsamlegast.
Einnig skrifaði ég 14. ágúst 2009 í greininni "Eggið sem át hænuna" eða "egóið sem át okkur"? aðeins um þá veikleika sem ég hafði tekið eftir tengdum Þráni, veikleika sem virðast hafa orðið að veruleika:
Helsti veikleiki Þráins Bertelssonar er stórt egó, enda einn besti kvikmyndaleikstjóri Íslandssögunnar, birti eigin dagbók í Fréttablaðinu í marga mánuði og hefur skrifað bækur sem ganga út frá þessu egói sem meginforsendu: Ég ef mig skyldi kalla : seinþroskasaga og Einhvers konar ég. Þetta var gefið.
Andstæðingar Borgarahreyfingarinnar virðast hafa misnotað þennan veikleika miskunnarlaust með því að birta stanslausar fréttir um deilumál þessara einstaklinga, hvort sem að slíkt mætti kalla raunverulegar fréttir eða ekki. Þetta hlaut að enda með sprengingu, sem hlyti að spretta úr einhverjum mistökum sem einhver hefur gert og þannig væri hægt að gera viðkomandi að blóraböggli.
Allir þekkja framhaldið.
Því miður er þessi saga of mikil einföldun á ICESAVE málinu, notuð af kunnri mælskulist, sem er til þess eins gagnleg að sannfæra fólk um að viðkomandi hafi rétt fyrir sér, en ekki til að kanna eðli málsins og taka ákvörðun byggða á viðeigandi rökum.
Að líkja ICESAVE við draug sem einhver hræðist eða föðurland sem einhver hræðist er fyndið, en ofureinföldun. ICESAVE er raunverulegt vandamál sem ekki er hægt að bæla niður með vantrú á drauga eða peningaþvætti. Því miður.
Þetta eru röksemdir Þráins fyrir máli sínu, rök sem eru augljóslega engin rök heldur hreinn skáldskapur með ímynduðum sögupersónum, sem byggðar eru á erkitýpum og fordómum um einstaklinga í samfélaginu. Markmið þingmanna Borgarahreyfingarinnar getur varla verið sá að skrifa stílfagrar smásögur í púlti?
Í hreppsnefnd í afskekktri sveit norður við ysta haf urðu langar umræður um að eitthvað þyrfti að aðhafast vegna bújarðar sem hafði verið yfirgefin haustið áður og var viðskilnaðurinn slæmur. Það var mikið talað en lítið aðhafst.
Þessi jörð hafði verið í eigu hreppsins og notuð sem upprekstrarland fjár í almannaeigu uns nýr og atkvæðamikill hreppstjóri komst til valda í hreppsnefndinni og vildi selja eigur hreppsfélagsins, þar á meðal þessa jörð sem hentaði vel til fjárbúskapar.
Hreppstjórinn hafði sitt fram í þessu sem öðru og kaupandinn var sérvalinn úr vinahópi hreppstjórans. Hann hét Stórólfur. Nokkur kurr kom upp þegar það spurðist út að ætlunin væri að selja Stórólfi jörðina því að búskaparhættir hans voru umdeildir og hann hafði áður verið dreginn fyrir dóm fyrir óhefðbundna meðferð sína á fé og sérkennilega afstöðu sinna til búreikninga.
Hreppstjórinn og fylgismenn hans höfðu sitt fram og Stórólfur tók við búinu og gerði einkavin hreppstjórans að ráðsmanni sínum en láðist með öllu að greiða það lága verð sem upp var sett fyrir jörðina.
Líður svo fram um hríð og verður mönnum tíðrætt um ríkidæmi Stórólfs sem barst mjög á og skorti aldrei skotsilfur, enda gat hann sótt lausafé að vild í skiptum fyrir ástarbréf til hreppstjórans sem hafði flutt sig um set og var nú orðinn sparisjóðsstjóri sveitarinnar.
Nú harðnar í ári og menn hafa á því orð að ekki séu lengur tvö höfuð á hverri skepnu á búi Stórólfs, en það sem verra er að nú fara að berast kvartanir úr öðrum sýslum yfir því að fé Stórólfs sé haldið þar til beitar í leyfisleysi og húskarlar hans taki í sína umsjá sauðfjáreign bændafólks í fjarlægum byggðarlögum og setji engar tryggingar fyrir því að þeir geti skilað fénu til baka loðnu og lembdu.
Til að gera langa sögu stutta brestur nú á með harðan vetur og fjárfelli sem kemur harðast niður á þeim bændum sem höfðu trúað því að með mikilli stóriðju og tilheyrandi heimshlýnun hefðu búskaparhættir á Íslandi gjörbreyst til hins betra og fé gæti gengið sjálfala allan ársins hring og þyrfti ekki aðra umhirðu en rúningu og slátrun.
Milli jóla og nýárs þagnar loksins hreppsnefndin málglaða og tekst ferð á hendur að kanna viðskilnað Stórólfs. Það er áliðið kvölds þegar nefndarmenn paufast heim að bænum við daufa týru frá þrettánda tungli þessa óhappaárs.
Þegar þeir koma heim að bæjarhúsunum rekur sá sem fyrstur gengur upp skaðræðisóp því að út úr myrkrinu kemur flyksa og vefur hann ísköldum örmum. Á bæjarhlaðinu er háð tvísýn glíma og angistaróp bergmála í klettum út yfir hjarnbreiðuna.
Hluti hreppsnefndarmanna telur þann kost vænstan að leggja hæla á bak og flýja undan draugnum. Þeir skunda til byggða og segja þar móðir og másandi frá því að magnaður draugur gangi nú ljósum logum í sveitinni og muni engu eira og eyða allri byggð.
Fólk sem heyrir þessar tröllasögur verður felmtri slegið og uggandi um framtíðina þegar sveitin sér forystumenn sína og trúnaðarmenn froðufella af æsingi og skjálfa á beinunum af ótta.
Þá víkur sögu aftur heim á hlað. Nýi hreppstjórinn og oddvitinn ákveða að reyna að koma til bjargar. Eftir harðan atgang kemur í ljós að draugur sá sem hefur vafið örmum sínum að hálsi hreppsnefndarmannsins er engin afturganga heldur er þarna á ferðinni svonefnt föðurland, ullarnærbuxur síðar sem Stórólfur bóndi hefur skilið eftir hangandi á snúru og hafa nú fokið og skálmarnar vafist að hálsi hreppsnefndarmannsins sem er viti sínu fjær af ótta og alls ekki viðmælandi.
Við skulum skiljast hér við þessa þjóðsögu sem við öll þekkjum í einni eða annarri mynd úr þúsund ára sögu okkar. Fyrst er þó ekki úr vegi að draga einhvern lærdóm af sögunni.
Til dæmis að maður á ekki að selja einkavinum sínum eignir almennings. Og maður á að vera vandur að vinum.
Til dæmis að nýjar hreppsnefndir geta ekki kjaftað sig frá því að takast á við vandamál úr fortíðinni jafnvel þótt þær eigi ekki sök á þeim vanda.
Og til dæmis að hreppsnefndir eiga að leysa erfiðleika en ekki magna þá upp og allrasíst að hræða saklaust fólk með því að breyta skítugum nærbuxum eftir uppflosnaðan búskussa í mannskæðan draug.
Hvað svo sem líður sagnahefð okkar Íslendinga þá er kominn tími til að slá botn í þetta Icesave-mál að sinni og ganga óttalaus að því að slá marglofaðri skjaldborg um fjölskyldur og heimili. Nú er endurreisn efnahagslífsins komin af stað með tilheyrandi tugmilljarða afskriftum á skuldum banka og fjármálafyrirtækja. Nú er röðin komin að íbúum þessa lands, fólki af holdi og blóði, og tímabært að afskrifa eitthvað af þeirri skuldabyrði sem er að sliga almenning í landinu.
Kannski er eðlilegt að samviskubit vegna fortíðar brjótist fram í ótta við framtíðina framtíð sem kemur hvort sem við óttumst hana eða ekki. Ef við höfum gæfu til að mæta framtíðinni af kjarki og heiðarleika verður þjóð okkar langlíf í landinu.
Það er ljóst að egóið át Borgarahreyfinguna, enda var það í spilunum frá upphafi.
Ljóst að þegar nýr stjórnmálaflokkur er stofnaður, er gáfulegt að senda Trójuhest inn í félagið, koma honum til valda og sprengja síðan flokkinn innanfrá.
Það virðist hafa gengið upp í þetta skiptið.
R.I.P. Borgarahreyfing. Fyrir löngu. Ég veit. En þetta eru svik.
Til hamingju Ísland.
Nú eru þegnar landsins skyldugir til að greiða skuldir auðkýfinga og óreglumanna, því að þetta mál snýst ekki bara um ICESAVE, það er fordæmisgefandi um að þegar íslensk stórfyrirtæki fara á hausinn, þá sé það skylda þegnanna að borga skuldirnar, sama þó að fyrirtækið hafi verið rekið á þeim forsendum að mikil áhætta sé réttlætanleg vegna þess að ríkið er ekki ábyrgt.
Jæja. Ég er ekki bitur út af þessu. Þetta kemur mér ekkert við í sjálfu sér. Er fluttur úr landi og kem sjálfsagt ekki til baka úr þessu.
Þetta eru mín síðustu skrif um þessi mál á þessum vettvangi.
Nú skilja leiðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Stórt skref fyrir þjóðina... fram af kletti?
31.12.2009 | 00:10
Þetta er sorglegt mál.
Hvernig málið er afgreitt gagnrýni ég harkalega. Niðurstaðan er afar alvarleg mistök sem ganga algjörlega gegn ÖLLUM þeim kosningarloforðum sem VG og Samfylkin lofuðu fyrir hálfu ári. Ég velti fyrir mér hvort að þeir sem kusu þessa flokka sjái eftir sínum atkvæðum í dag.
Þetta er ekki það versta sem komið hefur fyrir þjóðina, segja sumir. Það er ekki eins og einhver hafi dáið. En það er eins og eitthvað hafi dáið. Þjóðarsálin kannski? Þetta er örugglega það versta sem þjóðin hefur gert sjálfri sér á minni ævi.
Í stað þess að nota tækifærið og fara í algjöra afeitrun, er dópistinn farinn að hjakka í sama farinu, ánægður með nýjasta fixið, og hugsar um allt annað en timburmennina sem bíða handan hornsins.
Mannlegir brestir eru að skapa aðstæður sem ekki verða teknar til baka.
Við erum dottin úr leik.
Kveð ég nú.
Alþingi samþykkti Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Hvort er ICESAVE smámál eða stórmál?
30.12.2009 | 00:28
Einkafyrirtækið Landsbankinn, sem keyptur var af einstaklingum fyrir lán sem tekið var hjá öðrum banka og aldrei greitt til baka, stofnaði lánaútibú í útlöndum og bauð hærri vexti á innistæður en nokkur annar banki í heiminum. Fólk lagði grunlaust inn sparifé sitt, sem virtist hverfa umsvifalaust í arðgreiðslur, bónusa, starfslokasamninga, kúlulán, kaup á öðrum fyrirtækjum og önnur dularfull umsvif skúffufyrirtækja sem langaði til að vera stór og helst miklu stærri en allir hinir. Þegar fólk vildi peninginn til baka, var búið að eyða honum. Úps!
Þá varð fólk afar reitt. Stappaði fótum. Setti upp skeifu. Barði í potta og pönnur.
Íslenska ríkið lofaði að greiða öllum íslenskum innistæðueigendum peninga sína til baka. Þá kröfðust erlendir innistæðueigendur að það sama skuli gilda fyrir þá. Það var samþykkt með hinum svokallaða ICESAVE samningi, sem gamall vinur fjármálaráðherra stóð að, en sumir fremstu ráðgjafar heims höfðu boðist til að styðja Íslendinga í þessari erfiðu samningagerð, en að sjálfsögðu var gamall pólitíkus og sendiherra sendur í þennan þrældóm og átti síðan að ganga frá honum þegjandi og hljóðalaust á Alþingi.
Ekki má gleyma hvaðan þessi peningur á að koma. Hann á að koma úr hinum miklu sjóðum sem felast í afborgunum á húsnæðis- og bílalánum, auk allra þeirra stórlána sem smærri fyrirtæki tóku, til að eiga eitthvað roð í stóru fyrirtækin sem tóku miklu stærri lán af því að þau þóttust vera miklu stærri og komust upp með það, en voru í raun ekki neitt neitt, og hafa því fengið skuldir sínar felldar niður, til að ekki tapaðist allur þessi mínus sem þegar er til staðar, eða ekki. Ruglandi? Segðu.
Það er ekki nóg með að skuldarar, sem er ljótt nafn yfir venjuleg fyrirtæki og heimili, en er hins vegar rétta orðið, því flestir sem hafa átt eitthvað, skulda í eignum sínum vegna þess hversu miklu dýrari þessar eignir voru en innkoman. Fólk sem hefur keypt sér fasteign og bíl er öruggur sjóður til framtíðar. Verra með fyrirtækin. Hægt er að rúlla þeim á hausinn og stofna nýtt undir nýrri kennitölu, en heimilin eru bundin við kennitölur einstaklinga, og þessar kennitölur eru hlekkir sem geta dregið viðkomandi alla leið til helvítis gegnum gíg Heklu, verði það nauðsynlegt.
En svo kemur í ljós að heimilin eru að sligast. Hvað er þá til ráðs. Jú, skerða þjónustu, byggja nýtt hátæknisjúkrahús, stofna fleiri nefndir og hækka skatta. Öll mál leyst!
Aftur að ICESAVE:
Stjórnarandstaðan mótmælti, og heilbrigðisráðherra ásamt þingflokksformanni VG krefjast þess að unnið verði lýðræðislega að málum. Sumarið fór í það að semja fyrirvara, þannig að mögulegt væri að samþykkja samninginn, en mikilvægasti fyrirvarinn var sá að Íslendingar gætu farið í mál vegna vafaatriða um samninginn. Þessu var hafnað og nú skal þvinga samningnum í gegn. Annars sko, yrði næstum heimsendir, eða með öðrum orðum, vinstri stjórnin myndi falla. Og hver sem ræður vill fella sjálfan sig?
Fengin var virt lögfræðistofa til að fara yfir öll þessi mál tengd ICESAVE og skilaði hún gögnum til þings og þjóðar sem áttu öll að birtast. Og öll gögnin voru birt, nema þau sem kæmu sér hugsanlega illa fyrir flokkana sem eru við stjórn. Þessi gögn fjalla um þá ráðgjöf sem íslenska ríkið fékk um mikilvægi þess að halda þeim fyrirvara inni að fara í mál við breska ríkið, vegna hinnar óréttlátu beitingu hryðjuverkalaganna.
Ég velti fyrir mér hvort að sektin sem breska ríkið gæti þurft að greiða Íslendingum vegna þessa alvarlega verknaðs, gæti verið margföld ICESAVE upphæð, komið Íslendingum út úr þessari kreppuklípu og gefið ný og óvænt sóknarfæri.
En nei, þó að við höfum þrjá ása á hendi í þessu pókerspili, köstum við þeim frá okkur fyrir laufatvist, hjartafimmu og spaðagosa. Svo hækkum við glottandi veðmálið og vitum að það er mikilvægara að sannfæra andstæðinginn um að trúa því sem við viljum að hann trúi, heldur en að byggja mál á staðreyndum, traustum rökum og skynsemi og heilbrigðum vinnubrögðum.
Ég ætla ekki að kalla þá sem falið hafa þessi gögn fyrir íslenskri þjóð og þingi landráðsmenn, en það er afar freistandi. Það er ekki hægt að réttlæta svona hulduleiki með því að segja málið vera smámál, og upplýsingarnar engu skipta, því miður. Ef rétt er, að þessar upplýsingar séu nýjar, og þær séu veigamiklar fyrir málið í heild sinni, þá þarf að endurskoða það frá grunni. Séu þetta hins vegar smávægilegar upplýsingar, og stjórnarandstaðan að hrópa þegar ekki er tilefni til, þá gerist stjórnarandstaðan sek um fals og pretti sem líka mega teljast til landráðs.
Þar sem mér finnst ekki lengur hægt að treysta þingmönnum þar sem þeir gera fátt annað en að ásaka hvern annan um lygar og ósannindi, fals og spillingu, fyllerí og hjarðmenningu, þá viðurkenni ég fúslega að ég veit ekki hvað er í gangi. Þetta er ruglingslegt mál, því almenningur veit ekki lengur hvað er satt og hvað er logið, og getur ekki treyst þingmönnum sínum til að segja satt.
Það er nógu alvarlegt til að leggja niður flokkapólitík um stund og koma á neyðarstjórn sem tekur á málunum af festu, sópar ekki rykinu undir teppi, þvingar fram ábyrgð á þær herðar sem tóku að sér ábyrgðina, sama hvort að þessi ábyrgð sé ráðherra eða bankamanna, og gefa skal virðingarverðast frat í alla fyrningu sem tengjast svikum og prettum sem valdið hafa því að bankar hafa hrunið og heimili skuldsett langt umfram það sem samið var um í upphafi.
Ég hef áhuga á að heyra hvað þú hefur að segja um þetta mál, lesandi góður, og býð þér vinsamlegast að kvitta fyrir lesturinn með stuttri athugasemd hér fyrir neðan, eða langri ef hugur þinn stendur þannig.
Uppnám á þingi vegna skjala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Samhugur þjóðarinnar eða samvinna tveggja stjórnmálaflokka?
29.12.2009 | 20:16
Hvort skiptir meira máli?
Ég er alveg ruglaður á þessu. Flokkaheill umfram almannaheill?
Ríkið mætti gefa frá sér völdin í hendur þjóðstjórnar. Það er enginn tími fyrir flokkadeilur eins og staðan er í dag.
Þér er velkomið að skrifa þína skoðun í athugasemdakerfið.
Átök innan Vinstri grænna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Júní 2009: ICESAVE: Er Ísland orðið að breskri nýlendu?
29.12.2009 | 11:51
ICESAVE: Er Ísland orðið að breskri nýlendu?
6.6.2009 | 14:11
Hvernig getur ríkisstjórn sem hefur umboð til 4 ára frestað vanda í 7 ár?
ICESAVE hefur verið leyst fyrir ríkisstjórnina, en ekki fyrir þjóðina. Þetta er afar djúpur greinarmunur.
Þessi ríkisstjórn mun ekki vera undir áhrifum frá erlendum kröfuhöfum vegna ICESAVE, en þjóðin sem er skuldbundin alla ævina og ævi barna og barnabarna í stað 4 ára mun þurfa að borga eftir 7 ár. Það má skilgreina þetta sem þrælkun þjóðarinnar til framtíðar.
Það er til fólk sem græðir á þessu. Mikið. Þetta fólk hefur enga ástæðu til að sýna Íslendingum mannúð. Þrælkun hefur alltaf verið stunduð í heiminum. Henni verður haldið áfram. Það er alltaf eftirspurn eftir þrælum. Heil þjóð og allar hennar eigur í vasa kröfuhafa. Hver hafnar slíku boði?
Vandanum er frestað. Sópað undir teppi.
Er það skynsamlegt?
Við vitum það ekki, og þess vegna er erfitt að mótmæla. Það er erfitt að verða reiður þegar þú hefur ekki hugmynd um hvort að a) þú skuldar mörg þúsund milljarða eða b) nokkur hundruð milljarða, þar sem eignir munu hugsanlega ganga upp í skuldirnar.
Eitt er að gleymast. Þessi peningur fór eitthvað. Einhverjir fengu þá að láni. Það eru þeir sem eiga að borga þá til baka.
Af hverju er þess ekki krafist?
Af hverju lendir skuld einkafyrirtækis á þjóð?
Þetta er í hnotskurn ástæða þess að ég er fluttur frá Íslandi. Skynsemi og gagnrýnni hugsun er einfaldlega ekki beitt við að leysa vandann, heldur fyrst og fremst pólitískum brögðum og farið baktjaldamakksleiðina. Hún dugar ágætlega til sjálfsblekkingar.
Eða: þjóðarblekkingar.
Bretar fagna Icesave-samningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Maí 2009: Don Hrannar skrifar frá Noregi: Heimsborgari eða heimborgari?
29.12.2009 | 08:57
Þessi grein fékk flestar athugasemdir í maí síðastliðnum, 30 talsins:
1. Don Hrannar skrifar frá Noregi: Heimsborgari eða heimborgari?
3.5.2009 | 11:44
Ég er feginn að vera kominn með fjölskyldu mína úr landi, þó að mikil óvissa bíði okkar. Við höfum ekki atvinnu, börnin ekki komin í skóla og við tölum varla tungumálið. Hins vegar eigum við góða vini að sem hafa veitt okkur húsaskjól og styðja okkur við atvinnuleit, með góðum ráðum fyrir börn okkar og framtíð.
Á þessum áratug hef ég tapað eignum í fellibyl, flóði og fjármálakreppu, starfað sem kennari í Mexíkó, Costa Rica, Ecuador og Íslandi, verið námsráðgjafi gegnum Netið fyrir framúrskarandi nemendur í Bandaríkjunum, kennslubókaráðgjafi í Puebla, fararstjóri Mexíkó og Kúbu, þýðandi, skákþjálfari, vefsíðustjóri, við hönnun rafræns kennsluefnis, upplýsingaöryggi, sem tæknihöfundur, verkefnastjóri í upplýsingatækni, þýtt stærðfræðivef yfir á spænsku, verið verkefnastjóri bjartsýni.is hjá forseta Íslands, verið formaður húsfélags og vefstjóri hjá Hagsmunasamtökum heimilanna í nokkra mánuði. Þar að auki tók ég upp hjá sjálfum mér rétt fyrir kosningar að styðja Borgarahreyfinguna með bloggskrifum rétt fyrir kosningar, og var sáttur við launin - fjórir gagnrýnir hugsuðir (vona ég) á þing. Einnig hef ég tekið þátt í skákmótum þegar tími hefur gefist til, skrifað um kvikmyndir, bloggað um ýmislegt sem mér hefur þótt skipta máli og sinnt fjölskyldunni.
Ég hef kynnst mörgu góðu fólki á leiðinni um heiminn og í störfum mínum, og kynnst því sem fylgir því að næla í heimsmeistaratitil. Ég hef ekki tekið hefðbundið sumarfrí sem felst í að liggja á sólarströnd og sötra bjór, en frá árinu 2000 hef ég heimsótt Mexíkó, Guatemala, Belize, Costa Rica, Ecuador, Kúbu, Bandaríkin, Danmörk, England, Spán, Tékkland, Þýskaland, Namibíu, Noreg, Ísland og hið ofursjálfstæða ríki Vestmannaeyjar. Í gær heimsótti ég svo Svíþjóð í fyrsta sinn.
Það má segja að ég sé að lifa lífinu, þó að mér líki samt best að sitja við tölvu inni í herbergi og skrifa, hvort sem ég blogga eða skrifa sögur.
Ég mun ná þeim markmiðum sem þarf til að fjölskylda mín fái að lifa mannsæmandi lífi við hófleg kjör, enda með góða menntun, mikla starfsorku, er heilsteyptur og heilbrigður, og vil láta gott af mér leiða, og fái ég tækifæri til þess, geri ég það.
Er ástæða til annars en bjartsýni?
Athugasemdir
ekki nokkur ástæða til annars en bjartsýni.. ekki veit ég hvað þú ert menntaður í en.. núna er sumarleifistími norðmanna að hefjast og þá vantar venjulega alltaf fólk í vinnu.. ég hef sjálfur tekið þá ákvörðun um að flytja af landi brott til noregs sem fyrst. þarf að ná samkomulagi við vinnuveitenda minn fyrst hér á landi..
Ef það er eitthvað sem þú þarfnast aðstoðar við í noregi þá skaltu ekki hika við að senda mér pm og ég mun hjálpa þér eftir bestu getu.
Óskar Þorkelsson, 3.5.2009 kl. 12:04
Satt segirðu, engin ástæða til annars en bjartsýni. Þegar einar dyr lokast opnast aðrar ef maður er tilbúinn. Og auðvitað er í mér taug sem öfundar þig af stóra skrefinu. Hér í 101 er annars sæmilegasta veður ...
Berglind Steinsdóttir, 3.5.2009 kl. 12:05
Til hamingju með að vera kominn til Noregs. Vonandi fáið þið góða vinnu sem fyrst. Hlakka til að lesa bloggin þín frá Noregi.
Guðríður Haraldsdóttir, 3.5.2009 kl. 12:06
Gangi þér sem allra allra best vinur vonandi eru bíóin í lagi þarna úti
Bestu kveðjur til Noregs
Ómar Ingi Friðleifsson , 3.5.2009 kl. 12:17
það er leitt að ástæður flutninganna skuli vera svona ömurlegar sem þær eru, en þú hefur nú þokkalega ferilskrá og ættir að komast að í vinnu fljótlega. tungumálið lærist ef maður vill, en best að umgangast þó ekki eingöngu íslendinga yfir daginn... veit það af eigin reynslu.
hef þá trú að þú eigir eftir að koma fjölskyldu þinni vel fyrir, þó það taki einhverja mánuði að komast á rétt ról.
gangi ykkur vel.
arnar valgeirsson, 3.5.2009 kl. 12:21
Það hljóta að vera mjög mörg tækifæri í Noregi fyrir duglegt fólk, tæpar fimm miljónir manna, efnahagur þarna er traustur og landið stórt.
Ég fór um daginn í vikufrí til Osló og það sem ég tók eftir nú sem aldrey fyrr í ferðalögum mínum erlendis að verðlag þar er tvöfalt á við hér; en meðallaunin eru margföld miðað við þá taxta sem svonefndir "verkalýðsleiðtogar" hér hafa samþykkt.
Þetta er gott land - gangi ykkur vel ! Og endilega halda áfram að blogga.
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 12:39
Sorglegt ef hæfileikafólki með unga fjölskyldu finnst flutningur af landi brott eina leiðin til að skapa sér mannsæmandi líf. Ég vona að svo hafi ekki verið í ykkar tilfelli.
Það væri gaman að heyra hvaða væntingar þið hafið; hvaða vandamálum þið þurfið að takast á við; hvernig ykkur gengur, svona almennt. Áreiðanlega finnst mörgum brottflutningur góður kostur, eins og málin standa, og þið gætuð gefið dýmætar upplýsingar um hvað honum fylgir.
Forvitin um hvers vegna þið völduð Noreg sem ykkar framtíðarland? Kannski er Noregur bara millilending?
Gangi ykkur allt í haginn.
Agla (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 13:19
Ég óska þér og fjölskyldu þinni alls hins besta í nýju landi Noregur er gott land, þar hef ég dvalið. Blessun fylgi störfum þínum.
Asdis Sig, 3.5.2009 kl. 13:40
Maður með þetta Curriculum vitae ætti ekki að vera í vandræðum með að finna vinnu í Norðvegi. Ég er alla vega bjartsýnn fyrir þína hönd. Megi gæfan fylgja þér og fjölskyldunni í ríkisveldi forfeðra okkar...
Sigurjón Vilhjálmsson, 3.5.2009 kl. 14:58
Við íslendigar erum svo heppnir að eiga gott vegabréf og geta flakkað um heiminn þveran og endilangan. Við getum líka sest að í því landi sem okkur fýsir hverju sinni, án þess að vara send til baka eða í flóttamannabúðir, eins og við rekum suður með sjó.
Gangi þér vel í Noregi með þig og þína, minn ágæti bloggvinur Hrannar. Noregur er fallegt og gott land og til hamingju með þá ákvörðun að hafa valið Noreg. Ef þverhausarnir, landar mínir vilja ekki vera áfram í samfélagi þjóðanna og ganga í ESB, þá kemur Noregur vel til greina sem heimaland.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 3.5.2009 kl. 15:58
Engin ástæða til annars Hrannar. Gangi þér og þínum vel í Noregi. Þetta er flott resumé og nossarar mega verið heppnir.
Megi mátturinn vera með þér félagi.
Guðmundur St Ragnarsson, 3.5.2009 kl. 17:03
Gangi þér vel vinur ... strax farinn að sakna þín ... Hver veit nema maður kíki á þig í heimsókn þegar þú ert búinn að koma þér fyrir.
kv. Svenni
Svenni Jons (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 19:34
Þér verður ekki skotaskuld úr þessu Don. Þeir éta þig Norðmenn þegar þeir komast að því hvað þú kannt fyrir þér. Rétti tíminn til að fara út. Gangi þér vel.
Guðmundur Pálsson, 3.5.2009 kl. 20:46
Gott að vita að þið eruð í góðum höndum.
Bestu kveðjur og vegni ykkur vel.
Tómas Ibsen Halldórsson, 3.5.2009 kl. 20:59
Leiðinlegt að hitta ekki á þig áður en þú lagðir í'ann. Við verðum í bandi vinur og vertu alveg viss um að þetta fer á besta veg. Þú ert nú einu sinni toppmaður.
Bestu kveðjur.
Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 21:10
Hólmfríður: Bara svona til að halda því til haga, þá er Noregur einmitt ekki í ESB...
Sigurjón Vilhjálmsson, 4.5.2009 kl. 00:47
Ég óska þér og fjölskyldu þinni góðs gengis í Noregi. Þú ert náttúrulega Heimsborgari.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 4.5.2009 kl. 00:47
Það er ekki annað en að sjá að þú sért fullur bjartsýni og eldmóðs. Þér eru örugglega allir vegir færir með þína reynslu í farteskinu. Það verður gaman að lesa bloggin frá Noregi. Gangi ykkur allt sem allra best
Anna, 4.5.2009 kl. 07:27
Gangi ykkur allt í haginn! Kemst þó hægt fari stendur einhversstaðar! Gamall kennari.
Þórdís Hrefna Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 09:39
Takk öll saman fyrir hvatninguna og góðar kveðjur. Ég hef verið upptekinn við að sækja um störf og því ekki getað svarað ykkur fyrr.
Óskar: Kærar þakkir. Það hefur mikið af fólki strax sýnt mikinn stuðning í Noregi. Ég er sannfærður að þetta muni ganga upp fyrr eða síðar.
Berglind: Maður er orðinn ansi vanur þessum stóru skrefum, og gott að vera ágætlega kunnugur í heiminum. Það er aldrei að vita hvað kemur út úr þessu á endanum. Örugglega eitthvað gott og skemmtilegt, og jafnvel eitthvað gagnlegt.
Guðríður: Þó að eitthvað sé að kreppa að í Noregi eins og heima, þá hef ég fulla trú á að þetta gangi upp. Maður þarf bara að koma sjálfum sér á framfæri.
Ómar Ingi: Ég viðurkenni manna fyrstur að aðgengi að góðum bíómyndum virðist ekki jafngott í Noregi og heima á Íslandi. Hef reyndar engan tíma til að glápa á kvikmyndir þessa dagana, en það kemur.
Arnar: "Það þarf alltaf einhvers konar krísu til að fólk flytji úr landi", sagði konan mín mér í morgun. Í okkar tilfelli hefur það alltaf verið satt.
Hákon: Verðlagið hér í Noregi er ekki bara tvöfalt. Það er stundum margfalt. Í gær fór ég út á bensínstöð og ætlaði að kaupa mér Coke Light, en hugsaði mig þrisvar um þegar ég hafði umreiknað verðið yfir í íslenskar krónur. Sakleysislegar 25 krónur norskar eru nefnilega 500 krónur íslenskar fyrir eina plastflösku af svartri og sykurlausri gervigleði.
Agla: Ef við erum hæfileikafólk, sem ég trúi að við séum, þá er það satt í okkar tilfelli. Ríkið er ekki að gera nóg fyrir fólk sem var að koma sér fyrir á miðjum þessum áratug, nýkomið heim annað hvort úr námi eða öðru. Ég er meira þessi frjálsa týpa og uni mér og mínum börnum engan veginn að sitja 'hugsanlega' í skuldafangelsi allt lífið. Ég vil ekki að líf mitt snúist endalaust um peninga og að geta borgað síðustu afborgun. Þess vegna er ég meira en sáttur við að flytja út. Við völdum Noreg einfaldlega vegna þess að þar eigum við bæði góða að og konuna mína hefur lengi langað að flytja hingað. Þar að auki er frekar auðvelt að hoppa frá Noregi út um allan heim, þannig að aldrei er að vita hvort þetta sé millilending eða ákvörðunarstaður.
Ásdís: Takk.
Sigurjón: Svarið sem ég fæ yfirleitt þegar fólk les mitt CV er 'Very interesting'. Það kitlar mig svolítið. Stundum held ég að ég sé aðeins of fjölhæfur.
Hólmfríður: Satt er það. Vegabréfið íslenska er ágætt, og án undantekninga hafa Norðmenn tekið mér vel þegar ég segi þeim af þjóðerni mínu, sýna umhyggju og spyrja um stöðuna heima. Ég hef hvergi rekist á neikvæða fordóma gagnvart okkur, bara jákvæða.
Guðmundur: Takk fyrir það.
Svenni: Þú veist að þú ert alltaf velkominn. Mi casa, su casa - mig vantar bara húsnæði. Þakka þér kærlega fyrir hjálpina heima. Góð vinátta eins og okkar er ómetanleg.
Guðmundur: Þetta er vonandi rétt hjá þér. Þetta er bara spurning um hver verður fyrstur til að uppgötva hvað ég hef upp á að bjóða. Erfitt að orða þetta á hógværann hátt.
Tómas: Takk.
Hafliði: Ég skrepp nú heim í þessum mánuði. Hef samband.
Jóna: Takk, ég rétt vona að maður geti kallað sig heimsborgara og staðið uppréttur undir þeim titli.
Billi: Takk
Anna: Takk. Matthew Lipman, einn af mínum eftirlætis kennurum, og kemst í hóp með þeim Páli Skúlasyni, Þorsteini Gylfasyni, Ástu Björk Sveinbjörnsdóttur og Nirði P. Njarðvík sem þeir lærimeistarar sem ég ber mesta virðingu fyrir, sagði mér einmitt eftir að þurfti að veita mér þær upplýsingar að ég fengi ekki námsstyrk í USA, og ég hafði samt ákveðið að halda áfram með námið á námslánum, að ég væri "Fountain of Optimism". Þegar ég hef upplifað erfiða tíma man ég enn eftir þessu góða augnabliki sem gefur mér ákveðinn innblástur. Og alltaf tekst mér að finna einhverjar leiðir - þó að þær leiði ekki allar til sigurs.
Þórdís: Gaman að sjá að þú sért að lesa bloggið. Ertu ennþá í FB? Kveðja frá gömlum starfsfélaga og fyrrum nemanda. Kærar þakkir fyrir kveðjuna.
Hrannar Baldursson, 4.5.2009 kl. 12:28
Gangi þér og þinni fjölskyldu vel. Ég held að þið hafið tekið rétta ákvörðun með að flytja til Noregs. Kannski á maður eftir að gera slíkt hið sama líka, hér heima er allt að sökkva meira og meira niður á við. Finnast engar lausnir hjá ,, nýju,, ríkisstjórninni nema að þrátta um ESB.
Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 4.5.2009 kl. 17:39
Ég var ad skoda kvikmyndavef thinn. Ég veit ekki hvort thú hefur séd thessa mynd en ég maeli med henni:
Ef thú hefur ekki séd myndina thá maeli ég med thví ad thú lesir ekki um hana ádur en thú sérd hana.
Thú getur nálgast myndina hér í Noregi:
Leigubílstjóri í Boston á staersta safn tómra C-11 tvottaefnispakka í heiminum (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 22:27
Reyndu nú ad komast sem fyrst útúr thví ad umreikna allt yfir í íslenskar krónur. Um leid og thad tekst, thá ertu hólpinn.
Gangi ykkur vel í Noregi.
Jóhann (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 06:42
Guðbjörg: Ég vona að ástandið fari nú að lagast heima.
Leigubílstjór: Ég hef ekki séð House of Games. Takk fyrir ábendinguna.
Jóhann: Jamm.
Þorsteinn: Hvernig gengur í Köben? Þakka óheillaóskina. Þörf á slíku líka.
Hrannar Baldursson, 6.5.2009 kl. 11:50
Hehe.. Það var lítið vinur minn. Það voru allir svo ofboðslega jákvæðir að það var ekkert annað í stöðunni en að vera með óheillaóskir
Ég er í námi hérna í Köben sem gengur vel, er að klára í sumar sem er klárlega ekki besti tíminn, svo er bara sjá til með framhaldið. Atvinnuhorfur hér í Köben eru ekkert spes en ég tel að það sé alltaf möguleiki að fá vinnu fyrir duglega menn. Plan B er eiginrekstur og Plan C er að róa á önnur mið til t.d. Kanada.
Ég tel mig verða að láta óskirnar óhreyfðar en bið þig í staðinn vel að lifa og njóta þess að vera laus úr skuldafangelsinu á Íslandi.
Bestu Kveðjur frá Köben
Þorsteinn
Þorsteinn (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 07:53
Maður fréttir allt síðastur greinilega.
Gangi þér rosalega vel þarna úti og tékkaðu svo á hentugum skákklúbb.
kv. Palli.
Páll Sig (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 00:36
Sæll Palli,
Er þegar farinn að kíkja eftir norskum skákklúbbum. Ég hlýt að finna einhvern við hæfi með haustinu.
Hrannar Baldursson, 14.5.2009 kl. 06:13
http://www.startsiden.no/hobby_og_fritid/spill_og_oppgaver/brettspill/sjakk/klubber/
skoðaðu þetta Hrannar.
Óskar Þorkelsson, 14.5.2009 kl. 12:23
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rökin fyrir ICESAVE?
29.12.2009 | 01:51
Á gangstéttinni undir ljósastaur sem logar ekki lengur liggur róni með brúnan bréfpoka vafinn um flösku. Í snjónum er gulur blettur. Þessa manneskju er að dreyma.
Ljóshærður þingmaður, Álfur út úr Arnarhóli, er að flytja þrumuræðu úr sjónvarpstæki sem stendur fyrir framan gríðarstóran spegil sem, steytir hnefa og hvessir brýnnar, og með þrumandi, en jafnframt svolítið skrækri rödd, segir hún í hljóðnema svo brakar í hátalarakerfi gamla miðbæjarins:
Við borgum ekkert í dag.
Við skulum fresta þessu. Framtíðin reddar málunum. Þá verðum við sjálfsagt ekki lengur við, heldur eitthvað allt annað. Fólk fattar aldrei hvað er í gangi fyrr en það er orðið of seint, og þegar það fattar það hafa aðalatriðin gleymst og víxlast með aukaatriðum sem enginn nennir hvort eð er að rifja upp, og þá verðum við stikkfrí, enda fyrnist ábyrgð okkar næstum áður en hún hefur verið tekin, eins og við höfum langflest ákveðið í sátt og samlyndi.
Næstu kynslóðir borga reikninginn. Þetta er ungt fólk, lifandi og á framtíðina fyrir sér. Sumir reyndar ekki fæddir enn. Samt betra að ókunnugt fólk í framtíðinni borgi þessar skuldir heldur en að maður fari að leggja þetta á sjálfan sig og vini sína.
Framtíðin er bara óljóst og þvælið hugtak. Núið er það eina sem til er. Framtíðin verður kannski aldrei. Hún varð aldrei fyrir mömmu. Hún heyrir fortíðinni til. Fólk í framtíðinni er jafn óraunverulegt og útlendingar sem maður hefur aldrei hitt. Milljarðar af framtíðarfólki á eftir að vera til löngu eftir að við verðum horfin héðan.
Kannski verður þessi svokallaða framtíð ekki einu sinni til? Það verður kannski ekkert ríkidæmi næstu áratugina, en hver kærir sig um slíkt? Við sáum hvað nýfrjálshyggjan gaf okkur: Agaleysi, svik og spillingu. Við bjóðum upp á framtíð þar sem agaleysi, svik og spilling verða framkvæmd undir nýjum formerkjum. Allt upp á borð, líka fæturnir. Skjaldborg um heimilin, svo þau sleppi ekki út. Þau verða að borga. Ekki ætla ég að gera það.
Róninn á gangstéttinni rumskar og ropar. Snýr sér svo á hina hliðina og hylur tættann frakka með pappakassa úr Bónus, en huggar sig við að hann er ekki einn, að pappakassabyggðin í kringum Arnarhól telji nú yfir fimmþúsund íbúa sem geta yljað hver öðrum með líkamshita. Síðan má borða snjóinn. Síðasti neysludagur 1. apríl 2027.
Hvað ætli 35.5 prósent skattur af engu sé há upphæð? heyrir róninn sjálfan sig hugsa og svífur svo aftur í draumalandið þar sem þögn er sama og samþykki, mótmæli sama og blóðug bylting, og vangaveltur sama og væl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvort er spilling meðvituð eða ómeðvituð?
28.12.2009 | 15:47
"Þessa síðustu daga hefur land okkar úrkynjast; mútur og spilling orðin daglegt brauð; börn hlíða ekki lengur foreldrum sínum; og heimsendir nálgast greinilega hratt."
-Assýrísk leirtafla, um 2800 fyrir Krist
Maður ákveður ekki einn daginn að verða spilltur. Spilltur maður er ekki eins og gulur blettur eftir hvolp á hvítum jökli. Jökullinn er hins vegar gulur og þessi óflekkaði er sá sem allir taka eftir.
Manneskjur sem hafa barist gegn eigin spillingu, taka á spillingu samfélagsins. Ef tekst að bjarga einni manneskju, sem er maður sjálfur, frá því að verða spillingu að bráð, þá er hálfur sigurinn unninn.
Kvikmyndin "Citizen Kane" fjallar um mann sem hefur feril sinn í fjölmiðlum með sannleikann að leiðarljósi. Smám saman hliðrar hann til sannleikanum þegar það hentar, og áður en varir hefur sjálft líf hans snúist í höndum hans og hann er orðinn að því sem hann vildi berjast gegn, manneskju sem er gegnsýrð af spillingu og þráir ekkert annað en að snúa aftur til sakleysis æskunnar.
En vandinn mikli er sá að spilling er ekki sleði sem hægt er að bakka þegar hann er lagður af stað niður snævi þakta og hála brekku, heldur eftir að hann hefur lagt af stað er mannlegum mætti nánast ómögulegt að stöðva hann, þó að hann sé ekki nema fyrirbæri í hans eigin brjósti, en slík barátta er erfið og sjálfsagt líkust þeim átökum sem vímuefnafíklar og áfengissjúklingar þurfa að standa í. Þeir þurfa að átta sig á því að eigin vilji er ekki nóg til að komast upp úr spillingarforinni, heldur þarf einbeittan vilja, vinnu og átök til að hreinsa sig. Og þó að takist að hreinsast einu sinni, er lítið mál að spillast á nýjan leik, hafi maður ekki þennan möguleika í huga og telji sjálfan sig kannski yfir mannlega veikleika hafinn.
Vandinn er sá að þegar maður hefur tekið þátt í spillingu, þá er maður spilltur. Því fylgir enginn stimpill, og einungis eigin samviska getur komið auga á þessa spillingu. Vandinn er sá að spilling getur verið svo þægileg að hún þaggar niður í samviskunni, jafnvel ævilangt, þar til á dánarbeðinu eins og í "Citizen Kane" þar sem barnsæskunnar er minnst í nafni sleðans Rosebud.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sönnun Dan Brown á tilvist Guðs í "The Lost Symbol"
28.12.2009 | 09:45
Ég er enginn sérstakur aðdáandi Dan Brown eða ævintýra hins aðgerðarlitla fræðimanns Robert Langdon, sem leysir málin með því að hugsa frekar en að berja fólk og skjóta. Eins og að hugsun getir verið áhugaverðari en framkvæmd?
Ég las á sínum tíma myndskreytta útgáfu af "The Da Vinci Code" og fannst plottið og persónugerðin heldur flöt, en hafði gaman af orðaleikjum, þrautum og pælingum um falda kóða í listaverkum Leonardo Da Vinci. Kvikmyndin var síðan allt í lagi.
Ég las ekki framhaldið "Angels and Demons" en sá kvikmyndina og fannst hún ansi þunnur þrettándi, hreint ömurleg satt að segja, fyrir utan eitt atriði.
Samt keypti ég mér "The Lost Symbol" og las hana.
Hún er mun betri en "The Da Vinci Code" að því leyti að persónusköpunin er afar góð, þó að persónuleikarnir séu sams konar týpur og í fyrri sögunum. Persónurnar eru dýpri og hafa aðeins meiri vigt en áður. Plottið er svo nánast nákvæmlega það sama og í hinum sögunum, illmenni hrindir af stað atburðum sem enginn getur leyst annar en Robert Langdon, með alfræðilegri þekkingu hans á táknum, list, og nú heimspeki og trúarritum.
Þar sem að ég hef menntað mig í heimspeki, fannst mér gaman að því hvernig Dan Brown fléttaði forsendum heimspekinnar og trúarbrögðum saman, og notfærði sér þann algenga misskilning að innihald heimspekinnar og trúarbragða skipti meira máli en sá sem ástundar heimspeki eða er leitandi í trú sinni.
Sagan gerist á einum sólarhringi í Washington D.C., þar sem Langdon hefur fengið boð frá kærum vini sínum, Peter Solomon, um að halda fyrirlestur í Smithsonian Museum, vegna forfalla fyrirlesara. Langdon flýgur umsvifalaust frá Boston til Washington, og renna á hann fleiri en þrjár grímur þegar hann uppgötvar að fyrirlestrasalurinn er tómur, og að hönd vinar hans finnst tattóveruð í gömlu herbergi.
Langdon áttar sig á að hann hefur verið plataður til Washington og að vinur hans er í vandræðum, hann vill því allt gera til að bjarga vini sínum. En CIA hefur komist á snoðir um hvað er í gangi og illvígur og afar klókur innri stjórnandi CIA, Sato að nafni, kemur á staðinn og ætlar að nota Langdon til að leysa gátuna.
Inn í söguna fléttist vísindakonan og systir Peter, Catherine Solomon, en hún hefur verið að rannsaka hugarorku og hvort hugurinn sé mælanlegt fyrirbæri, og hefur þegar aflað sannanna um að hugurinn hafi massa, og reiknað er með að rannsóknir hennar muni gjörbreyta heimspeki og vísindum eins og þau þekkjast í dag.
Illmennið Mal'akh notar alla leikendur eins og strengjabrúður til að ná fram sínum eigin markmiðum. Mal'akh er best byggða persóna þessarar sögu og er ástæða þess að hún er vel lestursins virði, en hann er svona hálfgerður útrásarvíkingur í trúarlegum og heimspekilegum skilningi.
Það að aðalatriði trúarbragða sé ekki innihaldið né Guð sem einhver ein alráð og algóð vera, heldur sameinaður hugur mannkyns, er hugmynd sem fellur nokkuð vel að mínum eigin pælingum um trúarbrögð.
Í raun má segja að Dan Brown hafi lagt fram eigin sönnun á tilvist Guðs í þessum reifara, sönnun sem gengur fullkomlega upp, með því að hagræða forsendum á merkingum Guðshugtaksins lítillega, meðal annars með því að tala um Guð í fleirtölu frekar en eintölu.
Ég hafði gaman af því að lesa þessa bók, og út á það gengur þetta, og er reyndar ekki frá því að hugmyndirnar sem hún hafi skilið eftir hjá mér séu vel þess virði að hafa kynnst þeim upp á nýtt og út frá sjónarhorni sögupersóna sem eru að berjast fyrir eigin lífi og sál.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Athugasemdir
Núna er bara að kjósa rétt eftir 4 ár og aftaka það með öllu að borga þessar skuldir, ég er brjálaður yfir þessu rugli. Ef ríki tekur eigur annarra eignarnámi þá fylgir með allur pakkinn svo ábyrgð okkar er enginn og svo ætlar Bretar að grenja í okkur að borga þær skuldir og eignir sem þeir tóku eignarnámi, halló Hafnafjörður ... maður tryggir ekki eftir á stendur einhverstaðar, þetta eru þeirra afglöp svo þeir geta étið það sem úti frýs og svo skulda þeir okkur ca 3200 milljarða fyrir að hafa rakkað þjóðina niður á alþjóðagrundvelli með setningu hryðjuverkalaga og það á herlaust land(þeir eru kannski ennþá hræddir við Landhelgisgæsluna eftir þorskastríðið?). Það er alger aumingjaháttur, getuleysisgangur og gunguháttur í þessari ríkisstjórn að draga ekki Bretland fyrir alþjóðlega dómstóla fyrir þann gjörning.
Sævarinn, 6.6.2009 kl. 14:35
mbl.is | 25.06.2007 | 15:20Breskir fiskkaupendur fagna ákvörðun um afnám útflutningsálags á fiski
,,Fréttavefurinn fishupdate.com sagði frá því í gær að fiskkaupendur í Hull og Grimby fagni nú mjög. Ástæða gleðinnar er sögð vera sú að Bretar hafi nú loks sannfært sjávarútvegsráðherra Íslands um að afnema 10% álag sem greitt hefur verið hér á landi vegna útflutnings á gámafiski. Verkalýðsfélag Akraness lýsir hinsvegar yfir miklum áhyggjum yfir ákvörðun sjávarútvegsráðherra og segir hana ekki bæta stöðu fiskvinnslufólks og sjómanna vegna niðurskurðar í aflaheimildum á þorski.
Sjávarútvegsráðherra fundar nú með forystumönnum verkalýðsfélaga víðsvegar um land og er ástæða fundahaldanna fyrirséður niðurskurður á aflaheimildum á þorski og áhrif þess á kaup og kjör launafólks. Forsvarsmenn Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Húsavíkur hitta Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, í dag. Lýsa verkalýðsforystumenn yfir áhyggjum sínum yfir áhrifum niðurskurðar aflaheimilda á kaup og kjör fiskvinnslufólks og sjómanna. Forkólfar Starfsgreinasambandsins funda líka með ráðherra í dag.
Verkalýðsfélag Akraness lýsir líka yfir áhyggjum sínum vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um að fella úr gildi 10% álag sem greitt hefur verið vegna útflutnings á gámafiski frá Íslandsmiðum. Segir í fréttatilkynningu frá verkalýðsfélaginu að svo mikið sé víst að þessi ákvörðun mun ekki bæta stöðu fiskvinnslufólks, því allt útlit er á því að við afnám á umræddu 10% álagi á gámafiski muni útflutningur á fiski aukast og mun það bætast ofaná þann niðurskurð sem fyrirhugaður er 1. september.
Fréttavefurinn Fishupdate.com greindi frá því í gær að fiskkaupendur í Hull og Grimsby fagna þessari ákvörðun íslenska sjávarútvegsráðherrans mjög,því nú verði auðveldara að kaupa íslenskan fisk. Á fréttavefnum kemur líka fram að hagsmunaaðilar í Bretlandi hafi þrýst á um þessa breytingu ásamt íslenskum fiskútflytjendum og eigendum íslenskra togara.''
Hér fyrir ofan má lesa frétt sem sýnir að það er ekki frétt að Bretar séu að fagna þegar íslenskir stjórnmálamenn gera samninga við þá Bretanna nú til dags. Þessi samningur að hliðra til fyrir þá í Englandi tryggir að við töpum miklum gjaldeyri sem hægt væri að nota til að borga skuldir okkar við útlönd sem dæmi. Þetta gerir það að verkum líka að atvinnuleysið verður meira og ræikið og sveitafélög verða af miklum tekjum eins og flestir vita þá er ríki og bær gjaldþrota(Heimsómagar)
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
B.N. (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 15:08
Hrannar, takk fyrir frábæran pistil!!! Sævarinn: Það er styttra í stjórnarskipti en fjögur ár. Það gæti þó verið að það verði ekki nýjar kosningar fyrr en þá... Vonandi verður Ísland enn þá sjálfstætt lýðveldi þá... og vonandi verður búið að hreinsa ærlega til í flokkakerfinu og helst leggja það af!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.6.2009 kl. 16:24
218 milljónir á dag í 15 ár kostaði þetta egótripp. Ásama tíma þarf að standa skil á annarri eins upphæð til AGS. Þetta er með framreiknuðum vöxtum, deilt á dagafjöldann. Líklegast er það svartara, því ekki er víst að það sé neitt stabílitet framundan í fjármálum.
Ég er líka á leiðinni til Noregs. Ætla að kreista það fram á haustið. Svo er ég farinn.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 17:02
Ég held ég elti þig til Noregs!!
Asdis Sig, 6.6.2009 kl. 18:28
Það er hætt við að það bresti á enn meiri landflótti en orðið er!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.6.2009 kl. 18:51
Óvissan sem felst í að vita fá ekki að vita er mun verri en að fá að vita sannleikann, sama hver hann er.
Hrannar Baldursson, 6.6.2009 kl. 18:53
... vegna leyndarinnar vaknar líka sterk tilfinning fyrir því að vilja ekki vera peð í þeim ljóta sannleika. Þyrfti að fela hann nema af því hann er ljótur?
Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.6.2009 kl. 19:17
Sannleikurinn bak við leyndina er að mínu mati sá að Bretar ætla sér að komast yfir veiðiheimildirnar í gegnum ESB inngöngu okkar ef vilji Samfylkingarinar sem dæmi nær fram að ganga á Alþingi. Þegar og ef við leyfum þessari þróun að eiga sér stað að við verðum aðilar að ESB munu Bretar segja takk fyrir Þorskastríðin í den eða ,,Sá hlær best sem síðast hlær''
Baldvin Nielsen Reykjanesbæ
B.N. (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 20:55
Það er ekki víst að vandi ríkisstjórnarinnar sé nema rétt að byrja því mikil undiralda er VG og óánægja innan VG gæti vellt þessarri ríkistjórn áður en kjörtímabilið er kemst sérlega langt. Ég efast stórlega um að hún lifi árið af.
Héðinn Björnsson, 6.6.2009 kl. 21:07
Ég hef heyrt þessa kenningu áður Baldvin og ég held að það sé ógnvænlega mikið til í henni. Pólítíkin lítur ekkert út fyrir að vera sandkassaleikur hún er það! Heimspólitíkin tekur því miður ekkert síður á sig þessa mynd... hvað eru t.d. stríð annað en viðbrögð barnalegra þjóðhöfðinga sem ætla sko að sýna hinum!!
Rakel Sigurgeirsdóttir, 6.6.2009 kl. 21:08
Flottur pistill og þörf orð. Engin gagnrýnin hugsun. Ekki horft til framtíðar og til aðstöðu barna okkar og barnabarna. Bara redda hlutunum svona einhvern veginn. Kannski.
Guðmundur St Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 22:26
annski vert að kíkja á Jóhannes Björn og sjá hvort það setur hlutina í samhengi. Sýnst við vera í nákvæmlega þessu ferli.
Smella hér
Jón Steinar Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 22:33
"ICESAVE hefur verið leyst fyrir ríkisstjórnina, en ekki fyrir þjóðina. Þetta er afar djúpur greinarmunur." Þarna liggur hundurinn grafinn. Frábær pistill.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.6.2009 kl. 03:53
Ríkisstjórnin verður löngu farin frá og Jóhanna sest í helgan stein þegar kemur að skuldadögum.
Sigurður Þórðarson, 7.6.2009 kl. 08:18