Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
Af hverju hrósa fáir olíufélögunum þegar bensínið lækkar, en eru fljótir að kvarta þegar bensínið hækkar?
22.8.2008 | 19:26
Þó að íslenska landsliðið eigi svo sannarlega hrós dagsins, þá koma olíufélögin í humátt á eftir með góðri lækkun á bensínverði.
Fólk getur verið fljótt að kvarta þegar bensínið hækkar, en það er frekar hljóðlátt þegar verðið lækkar, rétt eins og þegar heimsmarkaðsverð eða gengi hækkar er bensínið fljótt að hækka, og þegar heimsmarkaðsverð eða gengi lækkar tekur breytingin aðeins meiri tíma.
Ætli þetta sé bara spurning um áhuga?
Eldsneytisverð lækkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Já!
22.8.2008 | 13:48
36:30
Þeir eiga þetta sannarlega skilið!
Hugarfarið hárrétt.
Baráttan frábær.
Já!
Íslendingar í úrslitaleikinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ég vil taka það skýrt fram að í þeim myndböndum sem eru sýnd á þessari síðu sést ekki þegar Bolt gefur hið umdeilda fokkmerki, en einu merkin um það birtast í texta fréttarinnar, og umtali frá ólíkum fréttastofum um meinta finguruppréttingu.
Hegðun hins kaldhæðna Usain Bolt sem er þekktur fyrir að grínast með fréttamenn á svipuðum nótum og Silvía Nótt, hefur verið mikið í umfjöllun, en áður en hann kom í mark byrjaði hann að fagna og hægði á sér og eftir að hafa brunað á heimsmetshraða yfir 100 m línu hljóp hann í hring með fána Jamaíka án þess að klappa andstæðingum sínum á bakið og gaf svo sjónvarpsmyndavél fokkmerki með löngutöng (nokkuð sem ég hef ekki séð sjálfur þar sem ég finn hvergi myndbönd um hlaupið). Bolt á líka 22 ára afmæli í dag.
Þetta blessaða fokkmerki getur nú þýtt ýmislegt.
Var Bolt að sýna heiminum vanvirðingu eða var hann einfaldlega að segja:
"Djöfull hleyp ég andskoti hratt, þið getið aldrei náð mér helvítin ykkar?"
eða
"Farið öll til helvítis. Ég get þetta einn án hjálpar. Þið eruð ekkert. Ég er allt."
eða
"Djöfull er þetta gaman! Ég ætla sko að detta í það á eftir."
eða
"Úff! Erfitt hlaup maður."
eða
"Þið náið mér aldrei, ligga ligga lá."
eða
"Nú kemst ég loksins á séns."
eða
"Látið mig vera."
eða
"Ég má haga mér eins og mér sýnist. Ég hef hlaupið hraðar en nokkur manneskja á jarðríki hefur áður gert og mun hugsanlega nokkurn tíma gera. Ég er konungur heimsins. Jú-hú!"
eða einfaldlega það sem hann sagði:
"Ég er númer eitt!"
Hvernig er hægt að tala um að einhver ákveðin hegðun sé viðeigandi fyrir mann sem hefur alla sína ævi barist fyrir því að vera svolítið öðruvísi.
Megi hann njóta sigursins sama hvernig hann hagar sér eftir á.
Eitt merki getur þýtt svo margt.
Hegðun getur verið misskilin sem hroki vegna hleypidóma.
Til hamingju með sigurinn ThunderBolt! Og til hamingju með 22 ára afmælið!
- Er hegðun Bolt hneykslanleg eða óíþróttamannsleg?
- Ætti að ávíta hann fyrir þetta?
- Eða er þetta allt í lagi?
Hvað finnst þér?
Sjálfum er mér slétt sama, þar sem að Bolt virðist bara vera svolítið kjánalegur, en finnst líka að allir eigi rétt á að vera svolitlir kjánar og skrýtnir, ef það er það sem þeir vilja. Það gefur lífinu meiri lit og fólkinu tjáningarfrelsi.
Yfirleitt finnur maður svona merkisatburði strax á Youtube, en það virðist vera búið að þurrka út öll myndbönd sem sýna þetta hlaup.
Samt tókst mér að finna myndbandið með 200 m sigri hans, á frönsku:
og myndbandið sem sýnir 100 m hlaupið.
Óánægðir með hegðun Bolt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Er pólitísk spilling búin að skjóta rótum á Íslandi?
21.8.2008 | 22:44
Í tilefni umræðu dagsins og þess að íslensk stjórnmál virðast sífellt sökkva dýpra í svað vafasamra ákvarðana ákvað ég að þýða ansi góða skilgreiningu á hugtakinu pólitískri spillingu úr alfræðiritinu Britannica. Ef við hugsum um rætur spillingar á yfirvegaðan hátt getum við betur áttað okkur á hvað er að gerast. Þekking og skilningur er fyrsta skrefið í átt að lausn.
Það að aðrir stjórnmálamenn hafi verið að gera sömu hluti réttlætir ekki neitt. Því að eitt vanhugsað og illt verk réttlætir ekki önnur vanhugsuð og ill verk. Það skiptir engu máli hvaða persóna á í hlut, spilling er alltaf spilling, og er aldrei framkvæmd af einhverri einni manneskju, heldur hópnum sem leyfir henni að festa rætur.
Hér kemur skilgreining á spillingu frá Encyclopedia Britannica:
Óviðeigandi og yfirleitt ólögleg hegðun ætluð til að tryggja eigin hag eða annarra.
Myndir spillingar birtast til dæmis í mútum, fjárkúgun, og misnotkun á upplýsingum innanfrá. Spilling skýtur rótum þegar samfélagið sýnir andvaraleysi eða skort á kröfum um að heilbrigðum ferlum sé fylgt eftir. Í samfélögum þar sem hefð er fyrir gjöfum, verður oft erfitt að greina á milli viðeigandi og óviðeigandi gjafa.
Spilling tengist oft skipulegri glæpastarfsemi.
Ég stóðst ekki mátið og ákvað að grípa í eina af mínum eftirlætis tilvitnunarbókum og þýða nokkrar góðar um spillingu:
Í samfélagi þar sem spilling er almenn getur frelsið ekki lifað lengi. (Edmund Burke 1729-1797)
Spilling er eins og snjóbolti, þegar hún byrjar að rúlla getur hún ekki annað en stækkað. (C.C. Colton 1780-1832)
Seldu ekki dygð til að græða, né frelsi til að auka völdin. (Benjamin Franklin 1706-1790)
Spilling stigmagnast. (Juvenal 60-127)
Allt þetta fólk hefur verðmiða. (Sir Robert Walpole 1676-1745)
Fáir hafa næga dygð til að standast hæsta boð. (George Washington 1732-1799)
Spilling er aldrei framkvæmd af einstaklingi. Hún felur alltaf í sér hóp af fólki sem er tengt saman af einni grundvallarreglu: að skiptast á greiðum. Þessi sameinaða spilling er byggð á hefðbundnu siðgæði, vel treystum vináttuböndum og tækifærum sem birtast. Hún gerir glæpum fært að eiga sér stað án refsingar og aðaleinkenni hennar er óþolandi hroki. (Roberto da Matta 1936- )
Við þurfum að gæta okkar, hugsa gagnrýnið um hvert siðferði okkar þjóðar er að fara, og uppræta þessa tryggðabönd spillingar sem koma í stað góðra og fagmannlegra starfshátta. Það sorglega er að þeir sem eru við völd munu ekki uppræta þetta, og líkast til ekki heldur þeir sem munu komast til valda, því þeir halda að svona sé þetta bara og þeim líkar það kannski bara ágætlega því þetta hentar best þeim sem eru við völd hverju sinni.
Það þarf manneskju eða flokk með ansi breitt bak til að vinna gegn slíkum ófögnuði, sem má kannski helst líkja við Trójuhest, sem smyglar sér inn í fólk sem vill vel og hertekur það síðan af því að það fer að meta falska vináttu meira en það sem er almennt gott eða fjöldanum til heilla.
Dæmi nú hver fyrir sig.
Myndir:
Sökkvandi Legokall: hue - for the love of color
Peningar undir borðið: Sox first
Snjóbolti: Freelancer Fire
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Ólafur Stefánsson: Við hleypum engum neikvæðum hugsunum að. Það er annaðhvort sigur eða BLEEP!
20.8.2008 | 08:34
Það var gaman að fylgjast með lokamínútum leiksins, en spennan var óbærileg og ómetanlegt þegar Björgvin Páll Gústavsson varði hvert skotið á fætur öðru og Alexander Petterson, Guðjón Valur Sigurðsson og Snorri Steinn Guðjónsson skáru sig í gegnum pólsku vörnina eins og hnífur gegnum volga smjörklípu.
Það allra besta við íslenska liðið finnst mér hið góða hugarfar sem birtist í fyrsta leik þeirra gegn Þjóðverja. Þeim hefur tekist að halda í það, og gera sitt allra besta til að hugsa um hvern leik sem æfingaleik fyrir þann næsta. Þannig halda þeir ró sinni, en maður veit að sigurviljinn er þeim í brjósti borinn þannig að það er engin þörf til að hamra alltaf á mikilvægi þess að sigra. Við vitum það öll.
Næsti æfingaleikur verður annað hvort við Suður Kóreu eða Spán. Það verður spennandi að fylgjast með þeim leik, og óskandi að íslenska landsliðið taki honum einfaldlega sem æfingaleik fyrir næsta leik á eftir, sama hvort að það verður um 1. sætið eða 3. sætið.
Mér fannst einstaklega gaman að hlusta á Ólaf Stefánsson segja frá hugarfarinu eftir leikinn, þar sem hann tók skýrt fram að þeir hleyptu engum neikvæðum hugsunum að. Og notaði orðið BLEEP í stað þess að minnast á þann möguleika að hægt væri að tapa.
Það er ljóst að íslenska þjóðin getur lært heilmikið af strákunum okkar, og þeim til heiðurs ætla ég ekki að hleypa neinum neikvæðum hugsunum að í dag, - ekkert frekar en aðra daga.
Ísland í undanúrslit á ÓL | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Er Gísli Marteinn að sýna okkur starfslýsingu borgarfulltrúa sjálfstæðisflokksins með námsskreppi sínu til Skotlands?
18.8.2008 | 22:26
Á meðan sumir stjórnmálamenn í Reykjavík berjast fyrir heiðri sínum og orðspori með kjafti og klóm skreppur Gísli Marteinn erlendis í nám á launum og tekur fjölskylduna með. Hann hefur reyndar hætt í einhverjum nefndum, en mun fylgjast með á Netinu og skreppa heim til að sitja fundi.
Þá veit maður um hvað starf borgarfulltrúa snúast. Sitja á fundi á tveggja vikna fresti, auk þess að vera í síma- og netsambandi. Ég gæti meira að segja unnið svona starf. Fyrst það fer enginn tími í þetta ætti maður kannski að skella sér í pólitík í aukavinnu.
Reyndar skil ég vel að Gísli Marteinn hafi viljað flýja farsann í borginni. Að sjálfsögðu væri eðlilegast að maðurinn tæki sér leyfi við eðlilegar aðstæður, en þar sem aðstæður eru ekki eðlilegar í borginni og flestir stjórnmálamenn sem þar starfa í vondum málum, var þetta kannski bara besti leikurinn í stöðunni?
Hvað finnst þér?
Óviðeigandi tilvitnun úr The Dark Knight: Lt. James Gordon:
Because he's the hero Gotham deserves, but not the one it needs right now...and so we'll hunt him, because he can take it. Because he's not a hero. He's a silent guardian, a watchful protector...a dark knight.
Mamma Mia! (2008) ***1/2
17.8.2008 | 13:44
Mamma Mia! er afar vel heppnuð söngvamynd fyrir þá sem hafa gaman af léttu gríni, vel gerðum farsa í forngrískum stíl og ABBA tónlist. Ég er opinn fyrir þessu öllu og skemmti mér því konunglega í bíó.
Sumir gagnrýnendur hafa hakkað Mamma Mia! í sig fyrir að hafa frekar asnalegt plott og vera alltof full af gleði, og fyrir að persónur byrji bara allt í einu að syngja upp úr þurru. En þannig eru söngleikir.
Mamma Mia! minnir mikið á Grease (1978) annan söngleik með afar þunnum söguþræði en skemmtilegri tónlist frá Bee Gees og eftirminnilegum söngatriðum. Hún minnir líka svolítið á Across theUniverse (2007) með tónlist Bítlanna en sú mynd hafði þó frá aðeins fleiru að segja. Hún vakti líka upp góðar minningar um Stuðmannamyndina Með allt á hreinu (1982)
Meryl Streep leikur aðalhlutverkið og kemur enn einu sinni á óvart, en hún syngur sín lög á frábæran hátt. Pierce Brosnan syngur líka ágætlega en er svolítið skondinn í framan á meðan hann syngur, hann rembist svo hrykalega. Julie Walters og Christine Baranski eru mjög fyndnar, og þeir Stellan Skarsgaard og Colin Firth traustir í sínum hlutverkum. Amanda Seyfried er álíka heillandi í Mamma Mia! og Olviia Newton-John var í Grease.
Sagan er frekar einföld en með djúpa undirtóna sem passa fullkomlega við tónlistina og sönginn. Sophie (Amanda Seyfried) ætlar að giftast Sky (Dominic Cooper), en þau búa á afskekktri grískri eyju ásamt móður hennar, hóteleigandanum Donnu (Meryl Streep). Sophie veit ekki hver faðir hennar er, en hefur komist yfir dagbók móður sinnar og tekist að komast yfir þrjú nöfn fyrir hennar hugsanlega föður, það eru Bill Anderson (Stellan Skarsgaard), Sam Carmichael (Pierce Brosnan) og Harry Bright (Colin Firth), en hún bíður þeim öllum í brúðkaupið og reiknar með að hún muni átta sig strax á hver faðir hennar er.
Málin flækjast þegar hún áttar sig á að hún getur ekki greint hver þeirra er hinn eini sanni.
Stórskemmtileg skemmtun sem enginn má missa af í bíó, nema viðkomandi hafi einhvers konar óþol gagnvart léttri skemmtun og ABBA tónlist.
Æsispennandi jafntefli Íslendinga og Dana 32:32
16.8.2008 | 14:23
Ég er bókstaflega stjarfur og skjálfandi eftir æsispennandi lokamínútur. Það var beinlínis öskrað með okkar mönnum í stofunni heima. Snorri Steinn Guðjónsson jafnaði úr víti á síðustu sekúndu og kemur þannig Íslendingum í 8 liða úrslit á Ólympíuleikunum.
Sænsku dómararnir sýndu furðulega dómgæslu á báða bóga. Gáfu Loga Geirssyni rautt spjald fyrir litlar sakir og hentu leikmönnum beggja liða stöðugt út af þrátt fyrir prúðmannlegan leik. Þeim tókst samt ekki að gjöreyðileggja leikinn, þó að ég hefði viljað sjá betri dómgæslu.
Rosaleg spenna og frábær skemmtun!
Takk fyrir þetta strákarnir okkar!
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hörkuspennandi leikur í gangi - íslenska liðið byrjar afar stressað og illa en endar fyrri hálfleikinn snilldarlega
16.8.2008 | 13:34
Hugarfarið sem virst hefur vera í góðu lagi til þessa hjá íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum virðist ekki alveg vera jafn gott í dag og áður, en vonandi hressast þeir í leikhléinu.
En leikurinn er spennandi og gaman verður að fylgjast með seinni hálfleik. Aðal spurningin er hvort að íslenska liðið smelli saman og vörnin fari að virka eins og hún hefur gert í fyrri leikjum - ef það gerist erum við í góðum gír.
Jæja, hálfleikurinn búinn og leikurinn byrjaður aftur. Yfir og út!
Áfram Ísland!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Var borgarstjórinn peð sem mátti fórna?
16.8.2008 | 09:43
Skákskýring
Það er ljóst að einhverjir innan sjálfstæðisflokksins í Reykjavík kunna að plotta á bak við tjöldin eða eins og við skákmennirnir orðum það: þeir kunna aðeins meira en mannganginn. Gísli Marteinn Baldursson hreinsar hendur sínar og fer úr landi í nám nokkrum dögum áður en Ólafi F. er sagt upp störfum. Sjálfsagt heldur hann einhverri virðingu eftir fyrir næstu kjörtímabil með því að þykjast ekki hafa verið með í mótinu. Í stað viðurkenningar fyrir heilindi fær Ólafur háðung fyrir "hálfindi". Hann missir sætið á sama hátt og hann vann það. Sá sem berst með sverði fellur með sverði.
Þjóðin öll virðist halda að þetta snúist allt um persónu Ólafs F. Magnússonar, enda hefur hann ekki komið vel fyrir í sjónvarpi, á erfitt með að vera gagnrýninn á eigin gerðir og telur sig hafa verið að gera góða hluti. Hann greip bara tækifærið þegar það gafst til að ná fram sínum sjónarmiðum, sem var lagalega rétt, en siðferðilega vafasamt þar sem atkvæði hans voru of fá til að réttlæta þvílík völd.
Byrjunin
Þetta er vissulega skrípaleikur, en hann varð ekki til af sjálfu sér. Þetta ber með sér þau merki að hafa verið vel undirbúin leikflétta af sjálfstæðismönnum, og hugsanlega einhverjum framsóknarmönnum. Rifjum aðeins upp söguna.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var einn óvinsælasti borgarstjóri Reykjavíkur frá upphafi þegar í ljós kom að hann ætlaði að selja hlut Reykjavíkur í Orkuveitunni í hendur einkaaðila, og málið komst upp á afar klaufalegan hátt. Vilhjálmur var staðinn að ósannindum og orðspor hans hlaut mikla hnekki, það mikla að fulltrúi sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Björn Ingi Hrafnsson, ákvað að hrinda atburðarrás í gang sem enn sér ekki fyrir endan á. Þetta sá enginn fyrir og margir fóru að tala um að Björn Ingi hefði stungið þá í bakið, á meðan ljóst virðist vera að hann hafi unnið af heilindum. Guðjón Ólafur Jónsson gagnrýndi síðan opinberlega Björn Inga fyrir alltof mikil fatakaup, sem varð til þess að hann þurfti að segja af sér.
Sjálfstæðismenn vissu að sá sem sviki tjarnarkvartettinn væri fyrirfram dauðadæmdur í pólitík, sem er jafneinfalt að skilja og að hrókur er dýrmætari en biskup, sama hver það er og hvað hann gerir. Hann yrði að háðung og spotti það sem eftir er. Ólafur F. Magnússon beit á agnið og fékk þess í stað borgarstjórasætið. Allir nema hann sáu óréttlætið og spillinguna, og því upplifir Ólafur F. óánægju fólks sem skipulagt einelti.
Og hann hefur rétt fyrir sér, Ólafur F. hefur verið beittur einelti á sama hátt og þúsundir Íslendinga, eineltishópurinn er hins vegar erfiðari í hans tilviki, þar sem nánast öll íslenska þjóðin virðist meðvirk í eineltinu, og gerir einfaldlega grín að honum fyrir að halda þessu fram, sem er einmitt eitt af einkennum eineltis, að ekki er tekið mark á fórnarlambinu. Það vill oft gleymast að í eineltismálum er eins og í öðrum deilum: sökin liggur ekki bara hjá þeim sem veldur eineltinu. Ef svo væri, væri miklu sjálfsagt auðveldara að koma auga á slík mál og meiri vilji til að leysa þau. Í einelti er fórnarlambið nefnilega oft líka gerandi í öðrum eineltismálum.
Miðtaflið
Ólafur byrjar sína tíð sem borgarstjóri með því að kaupa tvo ónýta kofa fyrir 500 milljónir. Nú ætti að hlakka í fólki. Hvernig gæti maðurinn nokkurn tíma náð sér á strik eftir svona hrikaleg mistök og slaka dómgreind?
En síðan leikur Ólafur F. afar góðan leik. Hann ræður Jakob Frímann Magnússon sem miðborgarstjóra og fær sérfræðinga til að hjálpa honum að bjarga ímyndinni, og það er að virka. Borgarstjórinn þykir vera að gera ágæta hluti. Þá tekur hann þá ákvörðun að víkja úr starfi manneskju sem hann gat ekki treyst. Hann rökstuddi ákvörðun sína, en ekki var hlustað á hann.
Þetta mál var magnað upp þannig að það fór að snúast um persónu Ólafs F. og endaði með því að hann rauk reiður úr sjónvarpssal eftir viðtal þar sem gert var úr því að koma honum úr jafnvægi. Þjóðin öll tók eftir þessu og almenningsálitið var greinilega gegn Ólafi F., enda gat enginn gleymt hvernig hann komst upphaflega til valda. Nú þurfti bara að magna upp þessar óánægjuraddir þar til hljómgrunnurinn yrði það mikill að hægt væri að skipta um skipstjóra í brúnni. Rétti tíminn til að gera svona lagað er þegar stórviðburðir eins og Ólympíuleikarnir eru í gangi, og sérstaklega þegar íslenska landsliðið í handbolta er að standa sig vel. Þá nennir enginn að velta sér upp úr valdabrölti pólitíkusa.
Endataflið
Nú hefur Óskar Bergsson tekið við hlutverki Ólafs F., en munurinn er sá að Óskar er í hlutverki bjargvættar sem sameinar og bjargar borginni frá tilburðum einræðisherra.
Nú geta fulltrúar sjálfstæðisflokksins einbeitt sér aftur að því hvernig þeir ætla að selja Orkuveituna úr höndum Reykjavíkur. (og hagnast aðeins á sölunni í leiðinni?)
Ég vil taka það fram að ég er ekki flokksbundinn og lít ekkert endilega á þetta sem ofurplottaða samsæriskenningu, heldur sýnist mér þetta vera sagan á bakvið atburðina sem eru að gerast, og fólki finnst eðlilega erfitt að átta sig á þeim. Ég tel mig einfaldlega skilja hvað er í gangi, og í stað þess að nota orðin harmleik eða skrípaleik, vil ég reyna að skilja hvatirnar sem liggja að baki því sem gert hefur verið.
Ég er ekki að halda því fram að sjálfstæðisflokkurinn sé einhver snilldar skákmeistari, þeir eru bara aðeins betri en hinir sem eru greinilega ekkert annað en viðvaningar og byrjendur í pólitískri skák, og einfaldlega ekki nógu góðir til að tefla einfaldlega besta leiknum. Þess í stað þurfa þeir að sparka í andstæðinginn undir borðið, reyna að færa kalla til á borðinu á meðan andstæðingurinn er að fylgjast með Ólympíuleikunum á risaskjá og þykjast vita hvað þeir eru að gera, á meðan sannleikurinn er sá að þeir eru lítið skárri en þeir sem tapa skákinni.
Um pólitíska skák almennt
Marínó G. Njálsson skrifaði annars ágætis grein 8.8.8 um hvernig pólitíkusar um allan heim misnota sér stórviðburði eins og Ólympíuleikana til að komast upp með vafasama hluti: Er verið að notfæra sér að heimsbyggðin er að horfa á Ólympíuleikana?
Myndir:
Niccolo Machiavelli:Religion and Secrecy in the Bush Administration
Skák: John C Fremont Library District Weblog
Orkuveitan áfram í útrás | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.8.2008 kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)