Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
Charlie Wilson's War (2007) ***
31.5.2008 | 22:46
Öldungardeildarþingmaður fyrir Texas, Charlie Wilson (Tom Hanks) sem starfað hefur í sex kjörtímabil án þess að gera nokkurn skapaðan hlut af viti annað en að drekka viskí, sniffa kókaín og vera með fjölmörgum kvenmönnum, fær allt í einu samvisku eftir að Joanne Herring (Julia Roberts) biður hann að skreppa til Afganistan og kíkja á ástandið þar. Hann fer þangað ásamt aðstoðarkonu sinni Bonnie Bach (Amy Adams) og eru þau bæði djúpt snortin.
Árið er 1980 og rússneski herinn stráfellir Afgana með öflugum þyrlum, en Afganir hafa rétt gamaldags riffla til að verja sig. Þegar Wilson sér börn illa farin eftir jarðsprengjur, og hungursneyð og hörmungar á svæðinu, ákveður hann að gera eitthvað í málinu, einfaldlega vegna þess að hann þolir ekki að sjá einhvern beittan óréttlæti.
Hann fær til liðs við sig CIA njósnarann og snillinginn Gust Avrakotos (Philip Seymor Hoffmann), sem er með allt á hreinu um alla og segir nákvæmlega það sem honum sýnist við hvern sem er, og er alltaf með á hreinu hver er að hlusta.
Charlie Wilson veit hvað þarf að gera. Afgana vantar vopn og þjálfun til að geta varið sig gegn skrímslum eins og herþyrlum, herþotum og skriðdrekum. Á nokkrum árum tekst honum að breyta fjáröflun til Afganistan úr 5 milljónum í 1 milljarð, og með þessu flæma sovéska herinn frá Afganistan.
Á endanum vantar hann ekki nema eina milljón til að stofna skóla sem fræða á Afgana um hvernig Bandaríkjamenn tóku þátt í að bjarga þjóðinni frá Rússum, en sú fjárútnefning er felld, og þar sem Afganir vissu ekki um aðild Bandaríkjamanna í frelsisbaráttu þeirra og fengu enga fræðslu um hana, var grundvöllur gerður fyrir því að vel þjálfaðir hermenn gerðust hryðjuverkamenn sem árið 2001 réðust á tvíburaturnana í New York.
Það er magnað að skoða þessa hluti í þessu samhengi, og áhugavert að spyrja hvort að þessi eina milljón í skólabyggingu hefði breytt einhverju um framtíð þessara tveggja þjóða. Hefðu talibanar þá ekki komist til valda? Hefði ekki verið gerð árás á Bandaríkin? Væri ekki stríð í Írak enn í fullum gangi?
Handritið er vel skrifað og Philip Seymor Hoffmann er sérstaklega skemmtilegur sem hinn ófyrirleitni njósnari. Helsti gallinn felst helst í leik Julia Roberts, sem er óvenju stíf og ótrúverðug í sínu hlutverki. Þar að auki vantar algjörlega dramatík í söguna, en það er eins og enginn sé nokkurn tíma að berjast fyrir einhverju sem skiptir þá sjálfa persónulega máli, nokkuð sem mér finnst frekar ótrúverðugt miðað við manngerðirnar sem eiga í hlut. Einnig eru Bandaríkin máluð sem bjargvættur í alþjóðasamfélaginu, þrátt fyrir að hafa töluvert af skapgerðargöllum og nautnahyggju í farteskinu.
Áhugaverð kvikmynd en engin snilld.
Leikstjóri: Mike Nichols
Einkunn: 7
---
Myndir: Rottentomatoes.com
Kvikmyndir | Breytt 1.6.2008 kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Svarið virðist einfalt: ef bankarnir lenda í vandræðum, verður þetta lán tekið til að "hjálpa" þeim. Nú er spurningin sú: hversu alvarleg þarf staða bankana að vera til að þetta lán verði tekið. Ég er hræddur um að viðmiðin séu huglæg og pólitísk og þar af leiðandi vonlaust að rökstyðja eða þræta gegn þessu.
Íslensku einkabankarnir eru þar af leiðandi tryggðir af íslensku þjóðinni, en hugmyndin með sölu bankanna var einmitt að losna undan nákvæmlega þessari skuldbindingu.
Þetta þýðir að alþingi metur fjármálamarkaðinn sem grundvöll íslenska hagkerfisins. En lítið hagkerfi eins og okkar er engan veginn öruggt gagnvart spákaupmennsku. Það verða einhverjir fljótir að finna leiðir til að eigna sér eitthvað af þessum 500 milljörðum, rétt eins og einhverjir urðu fljótir að finna sér leiðir til að hagnast á hækkuðu húsnæðisverði vegna 100% lána bankanna um árið.
Þegar svona heimild er til staðar þá er afar líklegt að hún verði notuð, reyndar held ég að líkurnar séu 99.99%. Það mun enginn mannlegur máttur geta komið í veg fyrir að þetta lán verði fengið, því að þá þarf að berjast gegn því náttúruvaldi sem virðist ráða mestu á Íslandi síðustu misserin: græðgi.
Hvort sem að það verður nauðsynlegt eða ekki, og miðað við það sem á undan er gengið, er ég viss um að aðstæður verði skapaðar til að þetta lán verði tekið, því að þetta er tækifæri fyrir suma til að græða miklu meira og lagfæra hagnaðarskortinn sem orðið hefur á fyrsta ársfjórðungi 2008.
Þetta lán getur orðið þjóðinni dýrt, sérstaklega ef bönkunum er ekki treystandi, en bönkunum virðist stýrt af græðgi og græðgi er ekki treystandi til neins annars en að eigna sér sem mest, og því held ég að þjóðin sjálf þurfi að blæða.
Ég vildi frekar sjá alþingi gera róttæka hluti til að hjálpa venjulegu fólki sem lifir ekki í neinum lúxus við að minnka skuldir sínar, því að aðstæður eru þannig að sama hvað borgað er af skuldum til íslensku bankanna, hækkar höfuðstóllinn stöðugt vegna verðtryggingar.
Með þessu er í raun verið að gera áætlun um enn frekari skuldsetningu á íslensk heimili lægri stétta og millistétta, nema vel sé haldið utan um málið. Eftir síðustu mánuði hef ég einfaldlega ekki trú á að vel verði haldið á spöðunum.
Vonandi hef ég rangt fyrir mér.
Þingi frestað fram í september | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull (2008) **1/2
24.5.2008 | 20:41
Töffarinn Mutt Williams (Shia LaBeouf) leitar til Indiana Jones með bréf sem hann botnar ekkert í, en móðir hans, Marion Ravenwood (Karen Allen) hefur verið handsömuð af kommúnistum og er haldið einhvers staðar í Perú, ásamt fornleifafræðingnum vitskerta Harold Oxley (John Hurt). Gamall félagi Indy, Mac (Ray Winstone) slæst í hópinn en virðist hafa meiri áhuga á gróða en fornum munum.
Indiana Jones (Harrison Ford) er farinn að kenna til aldur síns en heldur samt ævintýrum sínum ótrauður áfram. Í þetta sinn er hann í kapphlaupi við kommúnista í leit að hinni gullnu borg sem leynist einhvers staðar í frumskógum Amazon, þar sem að hauskúpa úr kristal gegnir lykilhlutverki. Reyndar á Indy frekar erfitt með að finna sér samastað, þar sem að bandaríska ríkið er ekkert skárra en hið rússneska undir ofsóknum McCarthy og félaga.
Helsti óvinur Indy og félaga er Irina Spalko (Cate Blanchett), KGB njósnari sem þráir ekkert heitar en að geta stjórnað hugsunum annarra og gera alla í heiminum að kommúnistum. Helsti aðstoðarmaður hennar er Dovchenko (Igor Jijikine) og hið besta fóður fyrir hnefahögg Dr. Jones.
Ólíkt Raiders of the Lost Ark (1981) og Indiana Jones and the Last Crusade (1989) átti ég bágt með að trúa á innistæðu hnefahöggva og hetjudáða Indy, og þar að auki eru hætturnar og ævintýrin sem hetjurnar lenda í svo ýktar að maður hefur alltaf á tilfinningunni að maður sé að horfa á teiknimynd. Það sem sárvantar er góður leikur. Harrison Ford og Karen Allen hafa því miður ekki upp á mikinn ferskleika að bjóða, og hinn fíni Ray Winstone leikur frekar klisjukennt hlutverk. Það eru helst Cate Blanchett, John Hurt og Shia LaBeouf sem standa upp úr fyrir leik, enda tekst þeim að gefa persónum sínum frumlega vídd þrátt fyrir frekar þunnt handrit.
Það sem gerði Raiders of the Lost Ark að klassík var hvernig frumlegum persónum var fléttað skemmtilega inn í æsispennandi atburðarrás, þar sem maður gat engan vegin séð fyrir hvað myndi gerast næst. Maður hafði hugann við síðasta atriði á meðan maður horfði á það næsta. Þannig eiga myndir að vera. Indiana Jones and the Temple of Doom (1984) gerði ósköp lítið annað en að pirra vegna frekar leiðinlegrar aðalleikkonu og slakri sögu, en ágætis hasaratriðum. Það sem gerði Indiana Jones and the Last Crusade góða var skemmtilegur samleikur þeirra Harrison Ford og Sean Connery, á meðan þemað var hæfilega djúpt.
Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull er eins og smurð vél. Maður veit því miður nokkurn veginn gerist næst, enda söguþráðurinn afar klisjukenndur og ofhlaðinn, og ljóst er að atriðin og tæknibrellurnar eru komnar í aðalhlutverk, en persónurnar sitja eftir í aukahlutverkum, aðallega vegna þess að leikararnir og leikstjórinn eru komnir yfir sitt besta. Það sem mér finnst allra verst er að ekki hefur tekist að viðhalda persónueinkennum grafarræningjans Indiana Jones, sem allt í einu er orðinn miklu göfugri en hann hafði áður verið og ekki lengur jafn slægur.
Ég verð að viðurkenna að af stórsumarmyndunum tveimur sem komið hafa út, að Iron Man (2008) er mun betri skemmtun, enda byggist hún meira á góðum leik og áhugaverðum persónum, þar sem tæknibrellur leika aukahlutverk og gera það óaðfinnanlega. En bara vegna þess að þetta er Indiana Jones og Steven Spielberg, er myndin skylduáhorf fyrir alla sem hafa áhuga á kvikmyndum. Afurðin er því miður líkari hamborgara frá MacDonalds en ferskri villubráð frá Afríku.
Leikstjóri: Steven Spielberg
Einkunn: 6
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Indiana Jones and the Last Crusade (1989) ***
22.5.2008 | 21:24
Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull er frumsýnd á Íslandi í dag, og því við hæfi að skrifa nokkur orð um framhaldsmynd númer tvö. Fyrri framhaldsmyndin var ekki nógu skemmtileg til að ég nenni að horfa á hana aftur.
Indiana Jones and the Last Crusade hefst á stuttmynd um ævintýri hetjunnar á unglingsárum, en þar fer River Phoenix heitinn með hlutverk hetjunnar. Tónninn er léttur og hraðinn mikill.
Indy er í reiðtúr með skátafélögum sínum um Miklagljúfur en þar rekst hann óprúttna náungi sem hafa fundið Coronada krossinn, 500 ára forngrip sem Indy ákveður að eigi heima á safni. Hann stelur forngripnum af gaurunum og leggur á æsilegan flótta, þar sem í ljós kemur af hverju hann er hræddur við snáka, hvernig hann fann svipuna sína og örið á hökunni, og síðast en ekki síst hvernig hann fékk hattinn góða. Gaurarnir ná hins vegar krossinum af honum.
Nokkrum árum síðar nær Indy krossinum aftur einhvers staðar úti á reginhafi, sprengir skip í tætlur og sleppur einn lifandi úr sjónum.
Þegar heim er komið og hann aftur farinn að fræða háskólanemendur um fornleifafræði berast honum þær fregnir frá auðkýfingnum Walter Donovan (Julian Glover) að faðir hans, Prófessor Henry Jones (Sean Connery) hefur horfið við leit að hinum heilaga kaleik. Áður en Henry hvarf sendi hann Indy dagbók sína í pósti. Indy notar hana til að finna gröf riddara í Feneyjum, sem hefur að geyma nánari upplýsingar um staðsetningu hins heilaga kaleiks.
Riddarasögur segja að sá sem drekkur úr hinum heilaga kaleik öðlist eilíft líf. Það vekur áhuga nasista, sem sjá fyrir sér her sem getur lifað að eilífu og fengið sár sín læknað með vatni úr hinum heilaga kaleik. Indy hefur tvo trygga aðstoðarmenn og vini með í för, þá Marcus Brody (Denholm Eliot) og Sallah (John Rhys-Davies), og eina svikula vinkonu, Dr. Elsa Schneider (Alison Doody). Indy þarf að frelsa föður sinn úr höndum nasista og vera á undan þeim í að hirða hinn heilaga kaleik úr höndum miðaldariddara.
Þó að Last Crusade sé fín kvikmynd, þá kemst hún ekki í hálfkvist á við Raiders of the Lost Ark, sem var mun betur uppbyggð með knöppum og frumlegum frásagnastíl Það eru vissulega flott atriði í Last Crusade, en þau virka samt bara sem atriði, og það er vissulega húmor, en hann virkar oft frekar tilgerðarlega. Frumkraftur upprunalegu myndarinnar er einfaldlega ekki lengur til staðar, þar sem húmorinn var notaður til að létta aðeins á spennunni. Í Last Crusade er spennan ekki mikil, enda tónninn það léttur að maður veit að ekkert hræðilegt getur komið fyrir. Í Raiders of the Lost Ark hafði maður hins vegar á tilfinningunni að hvað sem er gæti gerst, og hvað sem er komið fyrir hvern sem er.
Ég ætla ekki að skrifa sérstaklega um mynd númer tvö í bálknum, Indiana Jones and the Temple of Doom, enda get ég ekki mælt með henni, þrátt fyrir að í henni séu nokkur flott atriði. Sem heild heldur sú mynd ekki vatni, og kenni ég þar mest um pirrandi leik Kate Capshaw og frekar stefnulausri leikstjórn Spielberg og slöku handriti. Samt er Harrison Ford mjög góður í þeirri mynd, sem og hinum tveimur.
Leikstjóri: Steven Spielberg
Einkunn: 8
Hvernig seturðu upp þína eigin netverslun fyrir lítinn pening?
20.5.2008 | 18:57
Ég hef skrifað nokkrar greinar um hvernig hægt er að nota LunarPages til að kaupa eigið lén, gríðarlega stórt geymslusvæði og setja upp bloggkerfi og vefumsjónarkerfi fyrir aðeins um kr. 370,- á mánuði, SAMTALS!
Það hefur tekið mig töluverðan tíma að finna út hvernig maður setur upp netverslun, en mér hefur loks tekist að finna kerfi sem ég er sáttur við. Fyrst prófaði ég öll kerfin sem Lunarpages býður upp á á Fantastico kerfinu, en líkaði ekkert sérstaklega við þau. Því fór ég að skoða önnur Open Source netverslunarkerfi, en lenti oftast í vandræðum með svæðismál, það er að segja, það var ekki auðvelt að íslenska síðurnar, og láta þær virka fyrir íslenskra þarfir.
Loks komst ég heilan hring og setti upp Cubecart, sem er valkostur hjá Lunarpages, og viti menn. Þetta gekk upp.
Skráðu þig inn á CPanel síðuna þína og smelltu á Fantastico af stjórnborðinu.
Næst velurðu Cubecart af Fantastico listanum.
Næst birtist lýsing á því hvað Cubecart er, en í stuttu máli er kerfinu lýst sem öflugri verslunarkörfu sem inniheldur óteljandi efnisflokka og vörur, margar greiðsluleiðir (það þarf að greiða fyrir sumar þeirra, en það er hægt að komast hjá því), niðurhalanlegar vörur.
Hægt er að nota Cubecart eins og maður vill, en það skilyrði fylgir að auglýsa þarf kerfið ef sú leið er valin. Það er hins vegar hægt að kaupa sig undan því.
Veldu New Installation.
Farðu yfir skilmálana og hakaðu við að þú samþykkir þá, til að halda áfram. Smelltu á Continue.
Næst þarftu að setja upp gagnagrunn. Þú þarft að taka fram í hvaða möppu innan vefþjóns þíns þú vilt geyma verslunina. Eðlilegt er að setja upp heitið "verslun" eða eitthvað sem lýsir versluninni vel. Ekki nota íslenska stafi í þessu heiti. Ég gef verslun minni heitið 'bokabuð'. Settu inn notandanafn vefstjóra, lykilorð, tölvupóst og fullt nafn. Ég mæli með að þú búir þér til flókið lykilorð og skiptir um það reglulega vegna upplýsingaöryggis. Smelltu síðan á Install CubeCart.
Næsti gluggi býður þér að klára uppsetninguna. Til þess, smelltu á Finish Installation.
Upp kemur gluggi með upplýsingum um notandanafn og aðgangsorð, og vefsljóð fyrir stjórnanda og notendur. Tvö aðskilin vefsvæði hafa semsagt verið sett upp, eitt fyrir verslunarrekendur og hitt fyrir notendur. Ég mæli með að þú sendir sjálfum þér (eða sjálfri þér) þessar upplýsingar í tölvupósti, og smellir síðan á svæðin til að skoða þau betur.
Verslunin lítur svona út áður en byrjað er að krukka í þýðingu og setja inn vörur og vöruflokka:
Þegar þú opnar admin svæðið þarftu hins vegar að gefa upp notandanafn og aðgangsorð.
Eftir að hafa slegið inn rétt aðgangsorð opnast nýr heimur: heimur netverslunareigandans.
Meira um stillingar netverslunarinnar í næstu færslu.
Til að geta gert allt þetta, kauptu þér lén og kerfi á LunarPages.
Upplýsingatækni á vefnum
Kafli 1: Veistu hvernig þú kaupir eigið lén og vefsvæði fyrir kr. 370 á mánuði?
Kafli 2: Hvernig notarðu Fantastico til að skapa vefsíður?
Kafli 3: Hvernig seturðu upp hágæða vefumsjónarkerfi á 5 mínútum?
Kafli 4: Hvernig popparðu upp Joomla vefsíðu og gerir hana nothæfa?
Kafli 5: Hvernig seturðu upp þitt eigið bloggkerfi?
Kafli 6: Kauptu þér ódýrt .com eða .net vefsvæði og settu upp faglegan vef á stuttum tíma!
Kafli 7: Hvernig seturðu upp þína eigin vefverslun fyrir lítinn pening?
Eini kostnaðurinn felst í að smella á LunarPages til að kaupa lén, geymslupláss upp á 1,5 terrabæt, hraða nettengingu frá vefþjóninum, auk aðgangs að CPanel og Fantastico fyrir kr. 370,- á mánuði, miðað við eins eða tveggja ára plön.
Indiana Jones and the Raiders of the Lost Ark (1981) ****
18.5.2008 | 19:40
Í tilefni þess að Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull verður frumsýnd í dag, gagnrýni ég Raiders of the Lost Ark, fyrsta ævintýri Indiana Jones á hvíta tjaldinu.
Fornleifafræðingurinn Indiana Jones (Harrison Ford) er stundakennari við fornleifafræði í háskóla. Hann hefur samt frekar lítinn tíma og áhuga til kennslu. Mestur hans tími fer þó í að stela menningararfleifðum annarra þjóða og koma þeim á bandarísk söfn, en hann telur það vera göfugt starf. Þegar hann er í fornleifagripaleit er hann alltaf með hatt, svipu og skammbyssu innan handar.
Hann stundar að stela vel vörðum forngripum, sem helst er lífshættulegt að nálgast. Þrátt fyrir að vera þjófur menningararfleifða hefur Indy hjartað á réttum stað, sérstaklega þegar kemur að því að velja sér stöðu á milli góðs og ills.
Helstu keppinautar hans er hinn franski Dr. Rene Belloq (Paul Freeman), en hann á það til að láta Jones um skítverkið og hirða svo af honum gripina þegar honum hefur tekist að komast í gegnum lífshættulegar þrautir og erfiðleika. Belloq er sniðugur samningamaður og fær ætíð stóra hópa í lið með sér, á meðan Jones er eins og smákrimmi sem fær sér smákrimma sér til aðstoðar, sem er síðan alls ekki treystandi.
Indiana Jones er afar fundvís og fer létt með að leysa hvaða þrautir sem er, og hann er snillingur að komast lífs af, sama hversu mikilfenglegt vandamál hann fæst við.
Eftir að hafa tapað fyrir Belloq enn einu sinni í æsilegu byrjunaratriði þar sem að Indiana Jones er svikinn af aðstoðarmanni sínum Satipo (Alfred Molina), reynir að stela fornum grip og er eltur af risastórri kúlu og síðan indíanaættbálk, og hann kominn í skólastofuna þar sem hann fræðir nemendur um muninn á staðreyndum og sannleika, fær hann og hans traustasti vinur Dr. Marcus Brody (Denholm Elliot) heimsókn frá bandarísku leyniþjónustunni.
Lærifaðir Indiana Jones, Dr. Abner Ravenwood, hefur fundið hina fornu borg Tanis, þar sem sáttmálaörk Móses er geymd. Fara sögur af því að örkin geymi mátt Guðs og enginn geti sigrast á þeim sem stjórnar henni. Þar sem að árið er 1936 og stutt í síðari heimstyrjöldina, eru nasistar á höttunum eftir örkinni þar sem að þeir vilja að sjálfsögðu sigra heiminn fljótt og örugglega. Þeir eru þegar byrjaðir að grafa upp Tanis og hafa fundið kortaherbergi sem á að geta vísað á sáttmálsörkina, en til þess að finna hana þarf að hafa ákveðinn hlut í höndunum sem notar sólarljós til að vísa á réttan stað.
Þennan hlut á Marion Ravenwood (Keren Allen), gömul kærasta Indiana Jones og dóttir Abner Ravenwood. Hún á heima í Nepal þar sem hún rekur krá. Indy heimsækir hana og í humátt á eftir honum koma nasistar, sem brenna niður krána. Þannig að Indiana Jones fer ásamt Marion til Egyptalands, þar sem þau ælta að stela örkinni saman, ásamt góðum vini þeirra Sallah (John Rhys-Davies).
Indiana Jones, Marion og Sallah hefja nú afar spennandi kapphlaup við nasista um að finna örkina og koma henni undan. Nasistarnir hafa fengið Belloq til liðs við sig, en leiðtogar nasista eru hinn kvalarlostafulli SS maður Arnold Toht (Ronald Lacey) og Dietrich hershöfðingi (Wolf Kahler).
Nokkur af best útfærðu atriðum kvikmyndasögunnar er að finna í Raiders of the Lost Ark. Byrjunaratriðið er snilldarverk, sem og eltingarleikur þar sem Indiana Jones fer ríðanda á hesti og ræðst einsamall á bílalest nasista. Einnig er þarna að finna eitt besta slagsmálaatriði kvikmyndasögunnar, þar sem Indy slæst við risastóran nasista á meðan Marion er læst inni í flugvél, en umhverfið er fullt af bensíni, eld og nasistum. Einnig er að finna í þessu eitt fyndnasta ekki-bardagaatriði sögunnar, þar sem að Indy þarf að takast á við mjög svo vígalegan mann með stórt sverð.
Raiders of the Lost Ark er ein skemmtilegast ævintýramynd sem gerð hefur verið. Hver einasti rammi er skemmtilega leystur, og framvindan er snörp og spennandi. Spielberg tekst alltaf að finna áhugavert sjónarhorn, og svo er ekki verra að hinn fámáli Indiana Jones segir setningar sem auðvelt er að muna loks þegar hann hefur eitthvað að segja. Tónlistin eftir John Williams er einnig mögnuð og grípandi.
Leikstjóri: Steven Spielberg
Einkunn: 10
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hin mörgu andlit Robert Downey Jr.
18.5.2008 | 15:58
Myndir segja meira en þúsund orð.
Back to School (1986)
Chaplin (1992)
Handtekinn (1999)
A Scanner Darkly (2005)
Iron Man (2008)
Tropic Thunder (2008)
Forsmekkur fyrir Tropic Thunder:
Iron Man (2008) ****
17.5.2008 | 03:08
Glaumgosinn, milljarðamæringurinn og vopnasölumaðurinn Tony Stark (Robert Downey Jr.) fer til Afganistan að sýna nýjustu uppfinningu sína, sprengju sem kallast Jerico og getur valdið gífarlegum skaða á miklu svæði. Ráðist er á bílalest hans og allir samfylgdarmenn drepnir, en hann handsamaður af hryðjuverkamönnum. Hann fær í sig fjölda sprengjubrota, og sum þeirra festast það djúpt í líkama hans að ekki er hægt að ná þeim út.
Með Tony í haldi er vísindamaðurinn Yinsen (Shaun Toub) sem hannar rafsegulapparat sem hindrar sprengjubrotin frá því að renna í hjarta Tony og kemur þannig tímabundið í veg fyrir dauða hans. Hryðjuverkamennirnir heimta að Tony smíði handa þeim öfluga sprengju, sem hann samþykkir að gera, en í stað þess að smíða sprengjuna smíðar hann utan á sig tölvustýrða brynju sem hann notar til flótta. Það var lítið mál fyrir hann að fá alla aukahluti sem hann þarfnast, því að hryðjuverkamennirnir eru með miklar vopnabirgðir frá fyrirtæki hans.
Þegar heim er komið er fyrsta verk Tony Stark að tilkynna á blaðamannafundi að Stark Industries sé hætt vopnaframleiðslu. Hann hefur ákveðið að snúa við blaðinu og vill í stað þess að taka þátt í biluðum stríðsleikjum, reyna að koma einhverju góðu til leiðar. Þessi tilkynning fellur í grýttan jarðveg hjá hans bestu félögum. Besti vinur hans, Jim Rhodes (Terrence Howard) sem er yfirmaður í vopnaþróun bandaríska hersins hættir að tala við hann. Aðstoðarmaður hans, Pepper Potts (Gwyneth Paltrow) hefur hug á að segja starfi sínu lausu. Og félagi hans til 30 ára, sem stofnaði Stark Industries ásamt föður hans, Obadiah Stane (Jeff Bridges) tekur fréttunum það illa að hann fær stjórn fyrirtækisins til að hunsa Tony.
Tony tekur til við að uppfæra brynjuna, þróar búnað til að geta flogið og skotið höggbylgjum, auk ýmissa aukatækja. Hann gerir margar spaugilegar tilraunir þar til hann er sáttur við tækið, og setur sér síðan að nýta þetta nýja vopn til góðs. En það er svikari í innsta hring, sem hefur meiri áhuga á að sjá Tony dauðan en lifandi. Þar að auki hefur dularfull leyniþjónusta aukinn áhuga á starfsemi hans.
Það er semsagt nóg að gerast í Iron Man, mikið drama, mikið grín og mikið fjör. Tæknibrellurnar eru hreint afbragð og þjóna sögunni afar vel. Robert Downey Jr. sýnir og sannar enn einu sinni hversu magnaður snillingur hann er, en hann gerir Iron Man að trúverðugri persónu sem maður fær djúpa samúð með. Gwyneth Paltrow er einnig góð í sínu hlutverki, Jeff Bridges hreint afbragð sem hinn gamli samstarfsfélagi, en Terrence Howard fannst mér óvenju stirður, sem fylgir reyndar kannski hermannahlutverkinu.
Ég get ekki séð hvernig Iron Man hefði getað verið betri mynd, miðað við efni og aðstæður, og því gef ég henni hæstu einkunn. Reyndar er töluvert ofbeldi í myndinni og hefur það raunveruleikablæ, þrátt fyrir að sagan sé byggð á teiknimyndasögupersónu. Ég held að Iron Man muni koma flestum sem gefa henni tækifæri skemmtilega á óvart. Þó að hún sé frá sömu framleiðendum og Spider-Man og Hulk, er hún allt annars eðlis. Það eru engir ofurkraftar til staðar, heldur bara snilldar uppfinningamenn sem nota nútímatækni á nýjan hátt.
Vísindaskáldskapurinn sem felst í sögunni er í raun orkulind brynjunnar, en það á að vera ný uppfinning frá Stark Industries sem getur geymt gífurlegt magn orku í litlu plássi.
Ekki fara heim þó að þú haldir að myndin sé búin. Á sýningunni sem ég var á voru aðeins þrjár manneskjur eftir í salnum þegar umrætt atriði birtist, með engum smáleikara. Það er ekki nóg með að við fáum allt þetta, því að í lok myndarinnar er áhorfandanum komið skemmtilega á óvart, og sérstaklega ef þú bíður þangað til allur texti um kvikmyndagerðarmenn hefur skriðið upp skjáinn í rúmar fimm mínútur, þá fáum við ansi góðan bita sem gerir ekkert annað en fá mig til að hlakka til næstu fimm ára í kvikmyndasögunni.
Iron Man er ein af bestu ofurhetjumyndum sem gerðar hafa verið, og er í sama klassa og Batman Begins (2005), Spider-Man (2002) og X-Men (2000).
Leikstjóri: Jon Favreau
Einkunn: 9
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 09:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Er Guð til?
12.5.2008 | 22:01
Áður en hægt er að svara spurningu um hvort að eitthvað eða einhver sé til eða ekki, er mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir hvað það er sem við spyrjum hvort sé til eða ekki.
Þegar ég spyr hvort að stólar séu til þarf ég ekki annað en setjast á stól til að vera sannfærður um tilvist hans. Þegar ég spyr hvort að hundar séu til þarf ég ekki annað en klóra hundi bakvið eyrað til að sannfærast um að hann sé til. Þegar ég spyr hvort að vinur minn sé til, þarf ég ekki annað en að hringja í hann og hann svara til að ég sé sannfærður um tilvist hans.
Til hafa verið margir stólar, hundar og manneskjur handan minnar reynslu. Ég efast ekki um það. Hins vegar vandast málið þegar kemur að nákvæmari þekkingu þar sem þarf að auðkenna ákveðinn stól, hund eða manneskju.
Stólum sem hefur verið hent og þeim eytt, hundar og manneskjur sem hafa dáið og orðnar eru að mold, hvernig get ég vitað að þær hafi verið til? Ég get vitað að Shakespeare var til af því að hann skrifaði Hamlet, ég á erfiðara með að greina hunda og stóla sem horfið hafa í tímans fljót.
Ég get vitað að forfeður mínir hafa verið til, og er ég einhvers konar sönnun þess, þó að þessi þekking risti reyndar ekkert alltof djúpt. Ég hef til dæmis ekki hugmynd um hvaða skoðanir langafar mínir og langömmur mínar höfðu á tilvist guðs.
Þegar þekking okkar tengd reynslu reynist svo skammvinn sem reyndin er, leitum við annarra leiða til að njörva hana niður. Við skrifum sögur um atburði og fólk sem við viljum muna eftir. Best skrifuðu sögurnar njóta virðingar og fólk reynir að læra þær, á meðan þær verr skrifuðu, sem eru hugsanlega nákvæmari og sannari hverfa í gleymskufljót tímans.
Skrifaðar hafa verið sögur um merkar manneskjur sem mörg okkar hafa aldrei hitt: móður Teresu, Jesús, Múhameð, Búdda, Sókrates og þannig má lengi telja. Það er auðvelt að efast um tilvist þeirra, en kannski erfiðast að efast um tilvist móður Teresu, þar sem að hún er nýfallin frá. Hins vegar er hægt að efast um að sögurnar um þetta fólk séu sannar, rétt eins og hægt er að efast um að sagan um Hamlet hafi verið sönn í frásögn Shakespeare. Var þessi danski prins, Hamlet, einhvern tíma til?
Hvernig stendur annars á því að við þekkjum miklu betur sögupersónu heldur en raunverulegar persónur sem til voru á 16. öld? Af hverju eru sögupersónurnar meira lifandi í okkar augum? Er það vegna þess að þær voru hannaðar fyrir ímyndunaraflið, frekar en fyrir minnið, og þess vegna er okkur auðveldara að sjá þær fyrir okkur?
Og hvað um Guð? Ég veit varla hvað 'Guð' þýðir, annað en að hann hafi skapað himinn og jörð á sjö dögum, og að efast megi um hvort að sjö dagar fyrir Guð sé það sama og sjö dagar fyrir manneskju, þar sem að einn dagur fyrir Guð er sem þúsund ár fyrir manneskjur. Ef Guð er veran sem olli því að heimur okkar varð til, þá er allt eins hægt að segja að náttúrulögmálin og Guð séu eitt og hið sama.
Spurningin verður þó sú hvort að Guð hafi valdið náttúrulögmálunum eða náttúrulögmálin valdið Guði. Þar sem að Guð skapaði allt hlýtur hann að hafa skapað náttúrulögmálin og látið síðan náttúrulögmálin sjá um sig sjálf. En ef þetta er rétt, er Guð vera sem hefur vilja?
Ef Guð hefur vilja, hver getur hann þá verið annar en að láta náttúrulögmálin ráða ferðinni, rétt eins og hefur verið raunin síðan elstu menn muna? Getur virkilega verið að Guð líti á suma menn með vanþóknun og aðra með velþóknun, og að þeir sem þóknast honum fari til himnaríkis en þeir sem gera það ekki fari til helvítis?
Ef þetta er satt, þá finnst mér þetta heldur ósanngjarn leikur, sem ég neita að taka þátt í. Ég hef engan áhuga á að þóknast einum eða neinum, heldur hef ég djúpan áhuga fyrir því að gera það sem er rétt og láta gott af mér leiða í þessu lífi.
Af hverju vil ég gera það sem er rétt og láta gott af mér leiða, ef mér er sama um himnaríki og helvíti?
Málið er að ég trúi því að hamingja sé góð. Og þá á ég ekki við bara hamingju fyrir mig eða mína, heldur fyrir alla. Því fleiri manneskjur sem eru hamingjusamar í heiminum, því betra verður að lifa í þessum heimi, og því líklegra að mín eigin börn verði hamingjusöm og börn þeirra.
Málið er að ég virði verk forfeðra minna. Þeir hafa lifað og dáið, en alltaf skilið eftir sig mannveru sem síðan skilar af sér öðrum mannverum. Forfeður mínir hafa alið börn sín upp í þeirri von að eitthvað rætist úr þeim, að þau vaxi úr grasi og verði eitthvað. Þannig ræktum við fjölskyldu okkar eins og tré, við gróðursetjum það og hlúum að því þar til það er nógu sterkt til að þola hvaða veður sem er. Og þó að við föllum frá heldur tréð áfram að vaxa og vonandi dafna.
Við munum öll deyja. Börn okkar munu fara sömu leið. Svo og börn þeirra. Það sem börn okkar taka með sér inn í lífið er sú viska sem við getum fengið þeim, og hjálpað þeim að rækta með sér. Þau læra af þessari visku, og kenna hana sínum börnum á sinn hátt. Þessi viska getur haft áhrif á samferðarfélaga þeirra og hjálpað til við að leggja veginn að hamingjunni.
Við gefum þessar örsmáu agnir vonar með börnum okkur, vonar um að við séum að rækta eitthvað sem mun gefa eitthvað gott af sér með tíð og tíma. Við sættum okkur mörg við að við höfum ekki hugmynd um hvað þetta góða er, sem við vonum að verði til, en það kæmi mér ekki á óvart þó að margir freistuðust til að kalla það Guð.
Er Guð til?
Út frá þessum pælingum get ég ekki sagt annað en að spurningin sé í sjálfri sér röng, þar sem að við getum aldrei vitað neitt um veru sem við getum ekkert vitað um, og þar af leiðandi er ómögulegt að staðfesta eða ekki um tilvist hennar.
Aftur á móti getum við trúað því að Guð sé til, og byggt þá trú á þeim hugmyndum sem við ræktum með okkur um hann, hana eða það. Þessar hugmyndir sem við ræktum um Guð eru hugsanlega eina vísbendingin sem við fáum nokkurn tíma um tilvist Guðs.
Er Guð til?
Svari ég játandi er ég að fullyrða að ég viti hvað Guð er. Svari ég neitandi er ég einnig að fullyrða að ég viti hvað Guð er. Því maður getur hvorki játað né hafnað öðru en því sem maður skilur. Þar af leiðandi sætti ég mig við óvissusvarið, að ég veit ekki hvort að Guð sé til eða ekki, því að ég veit ekki í fullri hreinskilni hvað Guð er.
Ég veit að fólk hefur ólíkar kenningar um hvað og hver Guð er, og fjöldi trúarbragða hefur sprottið upp til að svara þeirri spurningu. Hins vegar er ég sáttur við að vita að ég viti ekki svarið, en samt hef ég áhuga á að vita það - ég held það se´bara ofan mannlegum skilningi, og þegar við færum eitthvað sem er ofan mannlegum skilningi í mannlegan skilning verður ekkert úr annað en tómur misskilningur og ósætti þar sem okkur virðist eðlislægt að vera ósátt við að vera ósammála, og sumir fyllast jafnvel heift við slíkar aðstæður.
Svarið mitt í dag er einmitt svar sem að mætti teljast til veikleika, vegna þess að svar sem þetta vekur grunsemdir um vanþekkingu og leti, en það er svarið: "Ég veit það ekki."
Málið er að þetta er svarið sem að hvergi má nota, því að með svari eins og "Ég veit það ekki" er hægt að hanka okkur á vanþekkingu, fella okkur á prófum og fullyrða að við séum vanhæf.
"Ég veit það ekki," getur aftur á móti, að mínu mati verið fullgilt og gott svar eftir vel grundaða íhugun, en ég skil líka vel að fólk vogi sér ekki að svara nokkurri spurningu á þennan hátt, því að við höfum verið vanin á að svara frekar því sem við höldum heldur en að viðurkenna að við vitum ekki þegar við vitum ekki eða getum ekki vitað.
Aftur á móti er ég fyllilega sáttur við að fólk fylgi sinni sannfæringu og veit ég vel að þó ég telji mig ekki vita sannleikann í þessu máli, getur vel verið að einhverjir aðrir viti betur. Ég er einfaldlega ekki tilbúinn að samþykkja hvaða trúarskoðun sem er, og veit að rök duga skammt þegar trú er annars vegar. Trúarsannfæring er nefnilega dularfull og ógreinanleg mannlegum skilningi, en það þýðir samt engan veginn að hún sé án gildis eða gæða.
R.E.M. Tapandi trúarbrögðum mínum:
Þessar pælingar eru algerlega rót- og stefnulausar. Þeim er ætlað að vera það. Þeim er einfaldlega ætlað að vekja með eigin vitund pælingar um hluti sem ég hef ekki áður velt fyrir mér, og með þessu róti vonast ég til að spurningar vakni sem hugur minn tekur til við að svara, hvort sem að ég verði meðvitaður um það ferli eða ekki. Sundum velti ég fyrir mér hvernig mikilvægustu ákvarðanir okkar eru teknar: með rökum eða í draumi, reistar á tilfinningu eða innsæi? Hvaða ferli er það sem fær okkur til að taka góðar ákvarðanir? Er þetta ferli alltaf meðvitað, eða þurfum við að leyfa upplýsingum að sjóða innan með okkur, sem síðan endurspeglast í athöfnum okkar og orði?
Vonandi hafa fleiri en ég sjálfur gaman af þessu skipulagslausa hugarróti mínu.
Heimspeki | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Alger
10.5.2008 | 23:16
Hvað er það að vera algerlega maður sjálfur? Hvernig veistu hvaða eiginleikar eru sannarlega þínir og einskis annars? Eru öll sjálf í þessum heimi algerlega aðskilin frá hverju öðru, eða erum við öll samofin í vef þekkingar og samskipta, og verðum aldrei algerlega aðskilin?
Hið algera eru allir þeir hlutir og allar þær hugmyndir sem við getum hugsað okkur og þekkt. Vel getur verið að veruleikinn hafi eitthvað að geyma handan okkar þekkingar, eða handan hinnar algeru þekkingar mannkyns.
Ég hef heyrt barn segja við annað barn: "Þú ert alger asni."
Merkingin er skýr, en samt er einhver greinarmunur á því að kalla einhvern 'asna' og að kalla viðkomandi 'algeran asna'. Málið er að alger asni felur í sér að viðkomandi hafi alla hugsanlega eiginleika asna, á meðan sá sem kallaður er asni hefur hugsanlega eitthvað í fari sínu sem einkennir asna.
Felst merkingin í 'alger asni' um skilning þeirra einstaklinga sem eiga þessi orðaskipti, sem er hugsanlega ekki eins í huga þeirra beggja, þar sem þeir hafa sjálfsagt misjafnlega mikla þekkingu á ösnum, eða hvort að viðmiðið sé öll sú þekking sem mannkynið hefur safnað saman um asna.
Það sama á við þegar einhver manneskja er kölluð 'alger draumur', 'alger sveppur' eða einfaldlega 'alger'.
Hvernig tökum við þátt í hinu algera? Getur ein manneskja öðlast alla þá þekkingu sem mannkynið hefur öðlast í framþróun aldanna, eða er slík þekking ómöguleg einni manneskju?
Er hið algera alltaf nauðsynlegt og skilyrðislaust, eða er hið nauðsynlega og skilyrðislausa alltaf algert?
Hvort er 'ég' algert fyrirbæri, eða bara hluti af einhverju margfalt stærra fyrirbæri? Hvernig er þitt 'ég' öðruvísi en mitt 'ég'? Eru þessi 'ég' okkar kannski eins?
Er tungumálið alger vefur sem tengir saman alla okkar þekkingu og vitund? Getur verið að hið algera sé tengt tungumálinu, þannig að hið algera fyrir þann sem skilur aðeins íslensku sé annað en fyrir þann sem skilur aðeins kínversku eða aðeins spænsku? Getur þá verið að með aukinni þekkingu á eigin tungumáli og öðrum málum, að hið algera vaxi þannig með okkur?
Nú get ég hugsað jafnt og flæðandi á íslensku, ensku og spænsku; en hef samt ólíka tilfinningu fyrir sjálfum mér eftir því á hvaða tungumáli ég hugsa. Þegar ég hugsa á íslensku finnst mér ég stöðugt þurfa að velta fyrir mér beygingum og því hvort ég beiti málfari rétt, á meðan slíkar pælingar eru mér fjarri þegar ég hugsa á ensku - sem mér finnst í raun mun auðveldari leið til að hugsa rökrétt um hlutina. Og svo er það spænskan, en þar finnst mér ég breytast í meiri tilfinningaveru en þegar ég hugsa á annað hvort íslensku eða ensku - það er eins og heimurinn taki á sig ólíka liti eftir því hugtakasafni sem maður notar til að átta sig á honum.
Hið algera getur ekki verið Guð, því að Guð er hugtak handan mannlegrar þekkingar, held ég. Hið algera er varla manns eigið sjálf, heldur hugsanlega öll sú vitund sem við komumst í snertingu við og er okkur á einhvern hátt sameiginleg.
Hið algera er óháð öllu öðru, því það einfaldlega er í sjálfu sér. En ef það er óháð öllu öðru, getur hið algera þá breyst? Ef eitthvað getur ekki breyst, er það þá ekki háð hinu óbreytanlega? Og ef það getur breyst, er það ekki breytingum háð?
Getur eitthvað mögulega verið algerlega óháð öllu öðru? Er einhver eining möguleg í þessum heimi sem að tengist ekki einhverju öðru á einhvern hátt?
Getur nærvera eða fjarvera verið alger?
Hvað er hið algera?
Þessar pælingar eru algerlega rót- og stefnulausar. Þeim er ætlað að vera það. Þeim er einfaldlega ætlað að vekja með eigin vitund pælingar um hluti sem ég hef ekki áður velt fyrir mér, og með þessu róti vonast ég til að spurningar vakni sem hugur minn tekur til við að svara, hvort sem að ég verði meðvitaður um það ferli eða ekki. Sundum velti ég fyrir mér hvernig mikilvægustu ákvarðanir okkar eru teknar: með rökum eða í draumi, reistar á tilfinningu eða innsæi? Hvaða ferli er það sem fær okkur til að taka góðar ákvarðanir? Er þetta ferli alltaf meðvitað, eða þurfum við að leyfa upplýsingum að sjóða innan með okkur, sem síðan endurspeglast í athöfnum okkar og orði?
Vonandi hafa fleiri en ég sjálfur gaman af þessu skipulagslausa hugarróti mínu.
Algerir byrjendur - David Bowie:
Heimspeki | Breytt 11.5.2008 kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)