Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
300 (2007) ****
19.3.2007 | 19:08
Þrátt fyrir að boðskapur kvikmyndarinnar 300 styðji stríðsrekstur og sýni dýrð í drápum - boðskapur sem ég er innilega ósammála, get ég ekki þráttað fyrir hversu kraftmikil og vel gerð hún er. Þó að hún sé byggð á sögulegum staðreyndum, gerir hún engar tilraunir til að þykjast vera raunsæ eða sagnfræðilega nákvæm. Það verður einfaldlega að taka henni á eigin forsendum. 300 er meira byggð á grafískri skáldsögu en sögulegu raunsæi.
Hómerskviðurnar eru enn jafngóðar þó að þær hafi hvatt til stríðsbrölts, og það sama get ég sagt um 300. Samt get ég ekki annað en spurt hvort að svona kvikmynd, sem er ekki aðeins frábærlega gerð en nær einnig gífurlegum vinsældum; hvort að hún hvetji ungmenni til að styðja stríðsbrask og valdi þannig enn frekari hörmungum í heiminum? Ég óttast að 300 verði notuð sem áróðurstól í stríðinu gegn hryðjuverkum, og til að gera meira úr mismuni á arabaheiminum og þeim vestræna.
Tæknilega stendur 300 samhliða og jafnvel aðeins framar en Lord of the Rings þríleikurinn, en bardagasenurnar eru einfaldlega stórkostlega gerðar. Hver einasti rammi er listaverk. Reyndar eru nokkrar afskræmdar persónur í myndinni ekkert sérlega vel hannaðar, en maður er tilbúinn til að líta framhjá því þegar margt annað er jafngott og raun ber vitni.
300 fjallar um konunginn Leonidas (Gerard Butler) sem stendur frammi fyrir því að þurfa að verja Spörtu, allt Grikkland og jafnvel Evrópu gegn innrás Persa. Hún gerist um 480 fyrir Krist og fjallar um þekkta sögulega orustu við Thermopylae. Þó að kvikmyndin fari nokkuð frjálslega með staðreyndir þá tapar hún engu af sínu skemmtanagildi fyrir vikið, enda er stefnt meira að hinu ljóðræna en raunsæja.
Leonidas tekur þá ákvörðun að leggjast gegn Persum án samþykkis þingsins, en þar eru sumir stjórnmálamenn spilltir og hefðu ekkert á móti því þó að konungurinn og hermennirnir hans 300 færust. Hin fagra og öfluga drottning Gorgo (Lena Headey) berst á stjórnmálasviðinu heima fyrir á meðan eiginmaður hennar leggur í bardagann mikla. Samband þeirra hjóna er hjartað í sögunni og það sem hvetur Leonidas áfram í baráttu sinni við milljónaher Persanna.
Leonidas fer fyrir 300 mönnum sem verja skulu Spörtu. Persar eru leiddir til orrustu af konungi sem telur sig vera guð, Xerxes (Rodrigo Santaro). Hver einasti af þessum 300 Spartverjum er í laginu eins og Ólympíuhetja og allir eru þeir stríðsmenn að atvinnu. Þeirra hlutverk í lífinu er að berjast.
300 er kvikmyndin sem Troy átti að vera. Hver einasti Spartverji er eins og Akkíles. Bardagaatriðin eru flest eins og klippt út úr Iljónskviðju Hómers, og persónurnar í samræmi við það. Sögumaðurinn Dilios (David Wenham) minnir á Ódysseif en Leonidas er Agamemnon og Akkíles samsteyptur í eina persónu. Gerald Butler er sérstaklega sterkur í aðalhlutverkinu sem hinn staðfasti konungur. Hann minnti mig töluvert á ungan Sean Connery eins og hann birtist upphaflega í Bond myndunum. Ég spái því að hann nái langt í Hollywood.
Frank Miller, einn virtasti höfundur myndskreyttra skáldsagna (eða það sem oft er kallað á niðrandi hátt: teiknimyndasögur) skrifaði upphaflegu söguna, en leikstjórinn á mikinn heiður skilinn fyrir að fylgja henni eftir, nánast ramma fyrir ramma, í handritinu sem hann skrifaði eftir bókinni, og fyrir að vera sannarlega trúr upphaflegu verki Frank Miller. Eftir að hafa séð 300, þá er ljóst að næsti Lucas, Spielberg eða Jackson er kominn fram á sjónarsviðið. Maður sem getur gert það sem flestir leikstjórar til þessa hafa aðeins þráð að geta. Næsta mynd Zack Znyder verður The Watchmen, en hún er eftir myndskreyttri skáldsögu Alan Moore. Menn hafa sagt að ekki sé hægt að kvikmynda The Watchmen, en eftir að hafa séð 300 hef ég fulla trú á að Znyder ráði við þetta ómögulega verkefni.
Eina kvikmyndin sem ég hafði áður séð eftir Snyder var Dawn of the Dead, en hún fjallar um vonlausa baráttu fárra einstaklinga gegn uppvakningum; en ég var sérlega hrifinn af hversu góðum tökum hann náði á þeirri mynd.
300 er gerð og markaðssett af miklu hugrekki og snilld. Hver myndi þora að kalla rándýra kvikmynd '300'? Ég mæli sterklega með 300, sem gefur öðrum góðum sandalamyndum eins og El Cid, Ben-Hur og The Gladiator ekkert eftir.
Stórmyndir: Brazil (1985) ****
18.3.2007 | 13:04
Brazil er merkileg mynd fyrir fleiri sakir en að hún er frumleg, fyndin og djúp. Leikstjóri kvikmyndarinnar lenti í hálfgerðu stríði við Universal Studios, þá sem höfðu útgáfuréttinn fyrir kvikmyndina í Bandaríkjunum. Þeir höfðu ekki trú á að hún höfðaði til almennings og kröfðust á þeim forsendum að hún yrði stytt úr tveimur klukkustundum og 22 mínútm í tvær klukkustundir og fimm mínútur. Þessar kröfur framleiðslufyrirtækisins voru álíka absúrd og söguþráður kvikmyndarinnar, þar sem að allt þarf að vera eftir bókinni.
En Terry Gilliam gat engan veginn sætt sig við slíkan niðurskurð. Í stað þess að gefa eftir hélt hann út í herferð sem enginn gat sigrað. Á endanum var Brazil gefin út og sýnd í leikstjóraútgáfunni um allan heim þar sem að hún fékk stórgóðar viðtökur, nema í Bandaríkjunum þar sem hún var sýnd sundurklippt, með gleðilegri endi og án samþykkis leikstjórans.
Brazil fjallar um sams konar stríð, þar sem tæknilegt vandamál verður til þess að allt fer í háaloft. Fluga dettur ofan í prentara og verður til þess að stafur í nafni einstaklings kemur vitlaust út úr kerfinu. Orsökin: rangur maður er hafður að rangri sök. Saklaus maður er handtekinn og drepinn í yfirheyrslu, enda eru upplýsingar sem pyntararnir vilja ekki til.
Sam Lowry (Jonathan Price) vinnur fyrir aðra ríkisstofnun. Hans metnaður í lífinu er að láta engan taka eftir sér og sigla þannig lygnan sjó. En hann kemst að þessum hörmulegu mistökum og býðst til að fara með ávísun til ekkju hins saklausa manns. Á heimili hennar sér hann andlit Jill Layton (Kim Greist) á hæðinni fyrir ofan, andlit sem hafði birst honum stöðugt í draumi. Markmið hans í lífinu verður að finna Jill og vinna hjarta hennar.
Umhverfi myndarinnar er svolítið merkilegt. Veruleikinn sem Sam býr í er allur kassalaga. Vírar og túbur flækjast út um allt. Það er eins og að borgin sé einfaldlega eitt stórt kerfi, eins og risastór tölva. Hann upplifir sig einmitt sem hluta af stórri vél sem tryggir að 'kerfið' virki, og hann vill helst að það virki án þess að þurfa að gera nokkuð sjálfur.
Harry Tuttle (Robert DeNIro) er sjálfstæður verktaki í heimi þar sem að sjálfstæðir verktakar eru bannaðir. Ef eitthvað er ekki í lagi á Ríkið að redda málunum. Allt annað er lögbrot. Harry þessi þykir vera ógn við Ríkið, enda má ekki una einstaklingsframtakinu. Þegar Harry birtist er hann alltaf í sérsveitarbúning, vopnaður og tilbúinn í bardaga. Hann verður sá maður sem Sam lítur upp til í leit sinni að merkingu í lífinu.
Samfélag þeirra er eins og ef nasistar hefðu sigrað í seinni heimstyrjöldinni. Mannúð og einstaklingurinn skiptir engu máli, en það að kerfið virki skiptir öllu. Það er algjört aukaatriði hvort að það virki rétt. Það sem skiptir öllu er að það virki einhvern veginn. Stjórnendur og lögreglumenn eru klæddir eins og nasistar í seinni heimstyrjöldinni, og reyndar er öll fatatíska myndarinnar tengd því sem var í gangi á fjórða áratug 20. aldar.
Þetta varð til þess að ég fékk ákveðinn skilning á heiti myndarinnar - sem flestum finnst óskiljanlegt, þar sem að einu tengslin við Brasilíu er lagstúfur sem er tákn fyrir mögulegan betri heim. Árið 1979 kom út kvikmyndin The Boys from Brazil, sem fjallar um tilraun til að endurskapa Adolf Hitler með klónun. Mér datt í hug hvort að titillin væri vísun í þessa mynd, þar sem að stjórnendur, og sérstaklega yfirmaður Sam, M. Kurtzmann (Ian Holm) sem er stífur kall með stutt yfirvaraskegg og með gífurlegt ofsóknarbrjálæði.
Þegar Sam hefur sett sér að vinna ást Jill, ákveður hann að þiggja stöðuhækkun og gerast starfsmaður Upplýsingaöflunar ríkisins, sem honum hafði verið boðið vegna mikilla pólitískra tengsla móður hans Ida Lowry (Katherine Helmond), eldri konu sem þráir ekkert meira en að yngjast með lýtaaðgerðum.
Sam fær aðgang að frekari upplýsingum um Jill. Hann finnur nafn hennar í skrám upplýsingaöflunar. Ríkið ætlar að handtaka hana og yfirheyra. Hún þykir hættuleg vegna þess að hún er að spyrja óþægilegra spurninga um saklausa manninn sem bjó á hæðinni fyrir neðan hana, var handtekinn og drepinn.
Sam finnur hana í anddyri byggingarinnar þar sem hann vinnur, en þá er hún umkringd fjölda vopnaðra manna. Honum tekst að komu henni út, enda yfirmaður allra þessara vopnuðu manna og þau leggja á flótta. Hún veit ekki það sem hann veit, og telur hann einfaldlega vera snargeggjaðan, sem hann reyndar er að vissu marki.
Brazil er margbrotin mynd með snúnum söguþráði. Hugmyndirnar sem birtast í henni eru oft krefjandi og svo furðulegar að maður á erfitt með að ná samhenginu; þannig að maður stendur eftir með fullt af spurningum, en getur lítið annað gert en að túlka merkingu myndarinnar á eigin hátt. Einhvern veginn tekst Gilliam að láta þetta furðuverk smella saman á endanum.
Ég hef tvisvar áður séð Brazil, og í bæði skiptin sá ég klipptu útgáfuna og áttaði mig engan veginn á hvað reynt var að segja með henni. Í þessari mun betri endanlegu útgáfu eru skilaboðin kannski ekki skýr, en sagan er heilsteypt og áhrifarík. Myndmálið er glæsilegt og gaman að upplifa svona undarlega kvikmynd stöku sinnum; sem er svo sannarlega Gillíamsleg, enda hefur hann leikstýrt jafn furðulegum stórmyndum og Monthy Python and the Holy Grail, Monty Python's Meaning of Life, Time Bandits, 12 Monkeys og fleiri góðum.
Ég mæli sterklega með Brazil, og eins og góður vinur minn minntist á þegar við horfðum á hana saman, í gamansömum tón, að hún ætti að vera skylduáhorf fyrir ríkisstarfsmenn.
3. Óskarsverðlaunin: All Quiet on the Western Front (1930) ****
17.3.2007 | 13:05
Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. All Quiet on the Western Front frá 1930 er sú þriðja í röðinni.
All Quiet on the Western Front fjallar um hóp bekkjarfélaga í þýskum framhaldsskóla fyrir unglingsdrengi sem skrá sig í herinn við upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar. Kennari þeirra rekur stanslausan áróður um dýrðleika og hetjudáðir á vígvellinum, og drengirnir hrífast allir með.
Þegar drengirnir komast út á vígvöllinn byrja þeir fljótt að týna bæði lífi og geðheilsu. Þeir sem berjast áfram komast að því að áróður kennarans var ekkert annað en tómar blekkingar í málskrúði sem erfitt er fyrir áhrifagjarna drengi að standast.
Paul Bäumer (Lew Ayres) er leiðtogi bekkjarins. Hann leiðir félaga sína út í stríðið en kemst síðan að því hversu illilega hann og vinir hans voru blekktir þegar hann sér þá falla hvern á eftir öðrum. Þegar hann stendur svo einn eftir eignast hann góðan vin í reynsluboltanum Kat (Louis Wolheim).
Paul strandar í skotgröf með óvinahermanni og stingur hann á hol. En óvinurinn er lengi að deyja. Þá áttar Paul sig á að óvinurinn er bara manneskja rétt eins og hann. Þegar það rennur upp fyrir honum þráir hann ekkert frekar en að bjarga lífi mannsins sem hann reyndi að drepa.
Hann áttar sig á gildi þess að vera lifandi og þeirri hörmung að stríð snýst aðeins um það eitt að fjarlægja þetta eilífðargildi. Þegar Paul kemst heim í frí og upplifir aftur hversdagslífið, sér hann að ekki verður aftur snúið. Stríðið hafði drepið hann, þó að líkaminn hafi sloppið frá byssukúlum, rýtingum og sprengjum. Gamli kennarinn hans óskar eftir því að Paul flytji erindi fyrir nýja bekkinn hans, um dýrð stríðsins og hversu mikið það hefði gefið honum og þjóðinni.
Paul flytur ekki fyrirlesturinn sem vonast var eftir og hrökklast út úr gamla skólanum og aftur í fremstu víglínu, en nú með það á bakinu að fólkið hans heima lítur á hann sem heigul og nánast föðurlandssvikara fyrir að viðurkenna ekki dýrð og fagnaðarerindi stríðsins. Lokaatriðið er myndrænt og áhrifamikið. Það situr sjálfsagt greipt í mínum huga það sem eftir er ævinnar.
Það er óhætt að mæla með þessari frábæru kvikmynd. Þýskir nasistar bönnuðu bókina á þeim forsendum að hún veikti undirstöður hersins með því að kenna mannúð og vera gagnrýnin á stríðsrekstur sem slíkan. Fyrir það eitt verðskuldar All Quiet on the Western Front, hvort sem um bókina eða kvikmyndina er að ræða, þá athygli sem hún hefur hlotið.
Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:
Wings (1928) ****
The Broadway Melody (1929) *1/2
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hinar dauðu frá Juárez og 'indjánar'
16.3.2007 | 00:06
Þetta skrifaði ég eftir að hafa lesið greinina sem Salvör skrifaði: "Hvíta gullið í Mexíkó".
Las Muertas de Juárez
Ég bjó mörg ár í Mexíkó en kom aldrei til Juarez borgar. Aftur á móti hef ég heyrt mikið af fólki í Mexíkó tala um hvað svæðið við landamæri Bandaríkjanna sé hættulegt og að þeir sem rétt skreppi yfir landamærin frá Bandaríkjunum fái mjög skakka mynd af Mexíkó. Frá bandarískum vinum mínum sem ekið hafa yfir landamærin hef ég einmitt heyrt að þeim þyki Mexíkó einmitt ekki heillandi, enda hafi þeir bara rétt skotist yfir landamærin og verið fljótir að koma sér til baka.
Mikið er rætt um konurnar frá Juarez í Mexíkó, þá í fjölmiðlum, af stjórnmálamönnum, fræðimönnum og í umræðum framhaldsskólanema, og tel ég að megin ástæðan fyrir því hvað lítið er gert í þessu máli sé tengt vanmætti fólks gagnvart þessum illu öflum sem standa að morðunum og þeirri miklu hættu sem fylgir því að vinna á þessu svæði. Venjulegt fólk verður einfaldlega ráðalaust þegar slíkir hlutir gerast. Lögreglan er líka venjulegt fólk og menn ekkert endilega tilbúnir til að leggja líf sitt í hættu þegar þeir vita ekki einu sinni hver óvinurinn er. Mikið hefur verið spurt um hvað valdi þessum glæpum, en ein trúverðug kenning snýst um að þarna séu glæpahringir að verki sem meðal annars þrífast á því að selja ofbeldisfullt klám og barnaklám, og dreifa því um allan heim.
Upplýsingar um þessa glæpi eru mjög óljósar og ólíkar upplýsingaveitur gefa upp ólíkar tölur. Opinberar upplýsingar eru gjörólíkar þeim sem maður heyrir stöðugt í umræðunni, þar sem haldið er fram að spilling sé meðal stjórnvalda og að þeir ljúgi til um tölurnar. Þarf öfluga rannsóknarblaðamennsku til að hið sanna komi í ljós. En ég treysti mér ekki til að afhjúpa hvað er satt með þeim upplýsingum sem ég hef, þar sem að áreiðanleika þeirra er auðveldlega hægt að draga í efa.
Enginn er þó í vafa um að þúsundir stúlkna og kvenna hverfi sporlaust, og finnist síðan aftur á lífi. Hvort að fjöldi þeirra sem eru myrtar skipti tugum eða hundruðum finnst mér ekki aðalatriðið, heldur að komið verði í veg fyrir að ein einasta manneskja til viðbótar þurfi að verða fórnarlamb þessara sálarlausu kvikinda. Það er bara meira en að segja það.
Indjánar
Um þessa málsgrein: "Ég skil ekki alveg hver er kallaður indjáni og hver ekki á þessum slóðum, ég held helst að þeir sem eru fátækir og nýkomnir úr sveitinni á mölina séu kallaðir indjánar. Þeir sem hafa staðfest sig í borginni og klæða sig og klippa hár sitt að sið borgarbúa eru ekki indjánar." (Salvör)
Innfæddir einstaklingar í Mexíkó vilja alls ekki vera kallaðir 'indjánar', það þykir niðrandi hugtak og móðgandi; rétt eins og 'niggari'. Orðið sem notað er yfir innfædda í Mexíkó er 'indijenas', sem er skyldara hugtakinu 'innfæddur' en 'indjáni'. 'Indjáni' er hugtakið sem Cortes og hans menn notuðu yfir fólkið í Mexíkó þegar þeir komu fyrst á staðinn, enda héldu þeir að þeir væru komnir til Indlands.
Ekki má gleyma stórfengleikanum sem má finna í Mexíkó. Þarna eru fornir pýramídar, magnaðir neðanjarðarhellar, frumskógar, fjalllendi, fossar og fljót; hallir, klaustur og borgir frá kólóníutímanum, ljúffengur matur, vingjarnlegt og gestrisið fólk, fyrsta flokks baðstrendur; og reyndar líka hættur og glæpir; sem eru þó sjálfsagt hlutfallslega í samræmi við það sem gengur og gerist annars staðar í heiminum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Af hverju banna 'þeir' eða ritskoða skoðanir og þekkingu?
14.3.2007 | 22:35
Í pistli um ritskoðun leiddu hugleiðingarnar mig út í pælingar um bókabrennur og eyðileggingu á gögnum til að vinna málstað stjórnenda fylgi. Þá hugsaði ég með mér að ritskoðun og bann á ákveðnum upplýsingum væri sami hluturinn. En eftir nánari umhugsun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki.
Ritskoðun sýnist mér vera lævís leið til að útiloka ákveðnar upplýsingar. Klipptar eru senur úr kvikmyndum eða blaðsíður úr bókum, eða efninu jafnvel breytt aðeins til að hagræða sannleikanum.
Bönn á kvikmyndum og bókum er hins vegar allt annar handleggur. Íranskir stjórnmálamenn fullyrða að 300 sé árás Hollywood á íranska ríkið. Eins fáránlegt og þetta hljómar, þá festist þetta í hausnum á mér og sama hvað ég hristi mig til náði ég ekki að losa mig við þá hugmynd að bönn á listaverkum hljóti að vera mikilvæg vísbending um stöðu viðkomandi ríkis í heiminum og mannkynssögunni. Þegar þjóð fer að banna einhver svona hugverk þá fer sírena í gang. Til dæmis hef ég á tilfinningunni að kommúnistaríki, fasistar og nasistar; sem ganga út frá einni hugmyndafræði - hneigist til harðstjórnar og þeirri kröfu að stjórnendum sé fylgt skilyrðislaust af lýðnum - og að það sé þetta fólk, þegar það kemst til valda - sem bannar listaverk af ólíkum ástæðum.
Nú vil ég renna yfir lista af bókum sem hafa lent á bannlista víða um heim og í mannkynssögunni, og ég velti því fyrir mér hvort að þessi fullyrðing sé sönn: að eitthvað alvarlegt sé að þjóðfélagi sem sér sig knúið til að banna listaverk eða hugverk af einhverju tagi. Ég held nefnilega að eitthvað alvarlegt sé að þjóðfélagi þegar kaffæra þarf andstæðar skoðanir. Helstu óvinir lyga, blekkinga og ritskoðunar á þekkingu eru gagnrýnin hugsun, mannúð, pólitísk ranghugsun, tjáningarfrelsi og trúfrelsi.
Ég vil taka það fram að mér finnst fullkomlega eðlilegt að banna allt það klám sem hefur sannarlega orðið til með kynferðislegu ofbeldi. Aftur á móti getur sönnunarbyrðin verið frekar erfið í slíkum málum. Og þá tel ég að verið sé að hefta tjáningarfrelsið á réttlætanlegan hátt, þar sem að ofbeldi er aldrei réttlætanlegt sem frumorsök.
Mér sýnist megin ástæðan fyrir banni á bækur felast í að viðkomandi rit hvetur til gagnrýnnar hugsunar á tímapunkti þegar stjórnvöld eru viðkvæm fyrir slíku.
Hér er listi yfir nokkrar bannaðar bækur, og ég reyni að tilgreina ástæðu og óvin stjórnvalda sem verið er að bregðast við. Með dýpri greiningu er sjálfsagt hægt að túlka heilmikið út úr þessum lista.
Ég vil taka það fram að þessi listi er nánast afrit af samskonar lista á Wikipedia.
| ||||
Bók | Höfundur | Bókmenntategund | Ástæða | Óvinur ríkisins |
The Age of Reason | Thomas Paine | Heimspekitexti | Bannaður á Bretlandi fyrir guðlast á 18. öld. | Gagnrýnin hugsun. |
All Quiet on the Western Front | Erich Maria Remarque | Skáldsaga um hörmungar og heimsku stríðs. | Bönnuð af þýskum nasistum fyrir að vera mannskemmandi og móðgandi fyrir þýska herinn. | Mannúð og gagnrýnin hugsun. |
Animal Farm | George Orwell | Pólitísk skáldsaga | Bönnuð í Malasíu af trúarlegum ástæðum.
| Veit ekki. |
| Trúarbragðarit | Bönnuð í Saudi Arabíu fyrir að vera ekki af múslimatrú. | Gagnrýnin hugsun. | |
Biko | Donald Woods | Ævisaga | Bönnuð í S-Afríku fyrir gagnrýni á aðskilnaðarstefnuna og hvíta ríkisstjórn. | Gagnrýnin hugsun og umburðarlyndi. |
Black Beauty | Anna Sewell | Skáldsaga | Bönnuð í S-Afríku fyrir að nota orðið svartur í titlinum. | Pólitísk ranghugsun. |
Beautiful Retard | Matthew Hansen | Skáldsaga | Bönnuð í Bandaríkjunum vegna óþægilegs titils. | Pólitísk ranghugsun. |
The Blue Lotus | Hergé | Teiknimyndasaga (Tinnabók) | Bönnuð í Kína þar sem að hún sýndi kínverska þjóðernisflokknum stuðning. | Pólitísk ranghugsun. |
The Book of One Thousand and One Nights |
| Smásögusafn | Bönnuð í mörgum löndum þar sem múslimar stjórna. | Veit ekki. |
The Communist Manifesto | Karl Marx | Ritgerð um hagfræði | Bönnuð í löndum andsnúnum kommúnisma þegar rauða ógnin var í hámarki. | Gagnrýnin hugsun. |
Boris Pasternak | Skáldsaga | Bönnuð í Sovétríkjunum til ársins 1988 fyrir gagnrýni á Bolsévíkaflokkinn. | Gagnrýnin hugsun. | |
Ernest Hemingway | Skáldsaga | Bönnuð á valdatíma Franco á Spáni. | Veit ekki. | |
Paul M. Handley | Ævisaga | Bönnuð í Tælandi fyrir gagnrýni á konunginn, Bhumibol Adulyadej. | Tjáningarfrelsi. | |
The Kingdom of God Is Within You | Leo Tolstoy | Ritgerð um trúarbrögð | Bönnuð af rússneska keisaraveldinu fyrir kristið og anarkískt innihald. | Gagnrýnin hugsun. |
D. H. Lawrence | Erótísk skáldsaga | Tímabundið bönnuð í Bandaríkjunum og á Bretlandi þar sem að hún braut þágildandi lög um klám. Einnig bönnuð í Ástralíu. | Tjáningarfrelsi. | |
Lolita | Vladimir Nabokov | Erótísk skáldsaga | Bönnuð í Íran og Saudi Arabíu fyrir að innihalda lýsingu á barnaníðingi. | Tjáningarfrelsi. |
Richard Condon | Pólitísk skáldsaga | Bönnuð í kommúnistaríkjum af pólitískum ástæðum. | Gagnrýnin hugsun. | |
Mein Kampf | Adolf Hitler | Pólitísk hugmyndafræði | Að eiga og selja þetta rit er lögbrot í Þýskalandi og Ausurríki vegna laga gegn nasisma. | Tjáningarfrelsi. |
George Orwell | Pólitísk skáldsaga | Bönnuð í Sovétríkjunum af pólitískum ástæðum. | Gagnrýnin hugsun. | |
Aleksandr Solzhenitsyn | Skáldsaga | Bönnuð í Sovétríkjunum af pólitískum ástæðum. Höfundur gerður útlægur. | Gagnrýnin hugsun. | |
Philip Nitschke and Fiona Stewart | Leiðbeiningar um líknardráp | Bönnuð í Ástralíu af pólitískum og siðferðilegum ástæðum. | Veit ekki. | |
Mao Zedong | Safn | Bönnuð í S-Víetnam. | Veit ekki. | |
Thomas Paine | Pólitísk ritgerð | Bönnuð í Bretlandi fyrir að styðja frönsku byltinguna. Bönnuð í keisaraveldi Rússa af sömu ástæðum. | Gagnrýnin hugsun. | |
Salman Rushdie | Skáldsaga | Bönnuð á Indlandi og þjóðum sem stjórnaðar eru af múslimum fyrir guðlast. Bókabúðir neituðu að selja bókina af ótta við hefndaraðgerðir. Ayatollah Ruhollah Khomeini gaf yfirlýsingu um að Salman Rushdie væri réttdræpur. | Trúfrelsi. | |
James Joyce | Skáldsaga | Tímabundið bönnuð í Bandaríkjunum fyrir kynferðislegt innihald. | Tjáningarfrelsi. | |
Uncle Tom's Cabin | Harriet Beecher Stowe | Skáldsaga | Bönnuð í Suðurríkjum Bandaríkjanna og rússneska keisaraveldinu. | Tjáningarfrelsi. |
Yevgeny Zamyatin | Vísindaskáldsaga | Bönnuð í Sovétríkjunum af pólitískum ástæðum. | Pólitísk ranghugsun. | |
The Wealth of Nations | Adam Smith | Hagfræðiritgerð | Bönnuð í Bretlandi og Frakklandi fyrir að gagnrýna kaupauðgisstefnuna. Bönnuð í kommúnistaríkjum fyrir kapítalískt innihald. | Gagnrýnin hugsun. |
The Well of Loneliness | Radclyffe Hall | Skáldsaga | Bönnuð í Bretlandi fyrir að innihalda efni um lesbíur. | Tjáningarfrelsi. |
Winds of Change | Reza Pahlavi | Stjórnmálaspeki | Bönnuð í Íran af pólitískum ástæðum. | Gagnrýnin hugsun. |
Adolf Hitler | Handrit | Að eiga eða selja þetta handrit er lögbrot í Þýskalandi og Austurríki vegna laga gegn nasisma. | Tjáningarfrelsi. |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Ritskoðun: réttlætanlegt stjórntæki?
13.3.2007 | 20:29
Ritskoðun er þegar upplýsingar eru fjarlægðar eða þeim haldið frá almenningi af einhverjum sem hefur stjórnunarvald; og þá til að halda fólki óupplýstu um ákveðin atriði sem henta stjórnvaldinu ekki.
Samkvæmt Alfræðinetbókinni Wikipedia eru fimm gerðir af upplýsingum ritskoðaðar:
- Siðferðilegar - (t.d. klám)
- Herfræðilegar - (t.d. innrásin í Írak)
- Stjórnmálalegar - (t.d. útilokun andstæðra skoðanna á bloggsíðum)
- Trúarbragðalegar - (t.d. bókabrennur á ritum annarra trúarbragða)
- Rekstrarlegar - (t.d. þagnarskylda starfsmanna)
Ritskoðun á sér stað þegar persóna sem hefur völd yfir ákveðnu umdæmi vill hafa áhrif á þekkingu þeirra sem lúta valdsvæði hennar, með því að loka á raddir sem annað hvort eru óþægilegar eða ósammála hennar eigin skoðunum. Hvaða máli skiptir hvort að einhver ein manneskja ritskoði aðra?
Ritskoðun hefur lengi tíðkast og eitt öfgafyllsta dæmi slíkrar hegðunar eru bókabrennur. Þeir sem leggja stund á bókabrennur og hvetja til þeirra virðast hafa eitthvað að óttast. Oftar en ekki tengjast þessar bækur trúarbrögðum, stjórnmálum og vísindum á einhvern hátt. Ég ætla ekki að telja upp allar þær bækur sem brenndar hafa verið á báli, en ég hef áhuga á að upplýsa um nokkrar þeirra:
Harry Potter bækurnar voru brenndar víða um Bandaríkin fyrir fáum árum síðan þar sem að þær þóttu stríða gegn kenningum kristninnar, þar sem að nornir og galdrakarlar voru aðalhetjur bókanna og gátu verið góðu gæjarnir. Í hugarheimi sumra geta nornir eða galdrakarlar ekki verið af hinu góða, og því þykir betra að útrýma slíkum mögulegum hugarheimi en að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn.
Árið 1624 lét páfi brenna þýðingar Martin Luthers á Biblíunni.
Árið 1562 lét Diego de Landa, biskup yfir Yucatan, brenna helgar bækur Maya. Einnig lögðu Kirkjunnar menn fjölmargar fornar borgir og pýramída í rúst sem pössuðu ekki við þeirra heimsmynd.
Öll ritskoðun stefnir að einu ákveðnu marki. Að útiloka skoðanir eða þekkingu sem viðkomandi hentar ekki, þekkingu eða skoðun sem passar ekki inn í þeirra eigin heimsmynd - það getur nefnilega verið ansi óþægilegt og pirrandi ef maður hefur rangt fyrir sér í einhverju máli og einhver valdalaus gaur steypir hugmyndunum með rökhugsun einni saman.
Það má hugsa sér stjórnmálaafl sem kæmist til valda á Íslandi sem vildi banna almenningi aðgang og persónuleg not af Internetinu, og hægt væri að réttlæta þetta bann með því að segjast vera að vernda almenning og börn okkar gegn einelti, klámi, spilafýkn og öðru illu sem blómstrar á Internetinu.
Nokkrar spurningar í lokin:
- Hvort er ritskoðun réttlætanleg sem verndun eða óréttlætanleg sem kúgun?
- Er málið kannski ekki svona svart og hvítt?
- Er sum ritskoðun kannski réttlætanlega á meðann önnur er það ekki?
- Og ef svo er, hvernig getum við greint réttlætanlega ritskoðun frá óréttlætanlegri?
2. Óskarsverðlaunin: The Broadway Melody (1929) *1/2
11.3.2007 | 16:44
Ég hef ákveðið að horfa á allar myndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. The Broadway Melody frá 1929 er mynd númer tvö í röðinni.
Ég get vel skilið af hverju The Broadway Melody var vinsæl og þótti góð árið 1929. Hún er meðal fyrstu myndanna sem nýttu talsetningu, dansa og sönga vel, auk dramatíkur. Hún á heiður skilinn fyrir að vera fyrsta dans- og söngvamyndin; en almennt er litið á hana sem slökustu af öllum þeim kvikmyndum sem hafa fengið Óskarsverðlaun sem besta mynd ársins.
Málið er að dansarnir og söngvarnir hafa elst mjög mikið, og manni hreinlega leiðist við að fylgjast með þeim árið 2007. Dramað er ekki heldur neitt sérlega gott miðað við það besta í þeim geira, en sjálfsagt þótti það brúklegt árið 1929. Anita Page og Bessie Love skila sínum hlutverkum vel.
Tvær systur ætla að leggja New York að fótum sér með söngvum og dönsum. Tengiliður þeirra í borginni er Eddie Kearns (Charles King), sem hefur áhuga á að koma atriði þeirra inn í sýningu sem hann er að setja upp. Hank Mahoney (Bessie Love) er trúlofuð Eddie, en þegar hann hittir Queenie Mahoney (Anita Page) fellur hann fyrir henni. Dramað snýst um að sætta þau innri átök sem eiga sér stað hjá þessum þremenningum. Hank er snaggaraleg, hæfileikarík og bráðgáfuð stúlka sem fljót er að stökkva upp á nef sér, en Queenie er aftur á móti gullfalleg ljóska sem bræðir hjarta hvers manns.
The Broadway Melody fjallar fyrst og fremst um harðan heim skemmtanalífsins á öðrum áratug 20. aldarinnar, hvernig frægð og frami geta stíað bestu vinum í sundur, hversu hverful ástin getur verið í þessum glansmyndaheimi, og hvernig hæfileikar þýða ekkert endilega glimrandi velgengni þegar vantar upp á persónutöfrana. Það er nokkuð um glæsilegar sviðsmyndir og ljóst að reynt er að endurvekja í kvikmyndum þá tilfinningu sem Florenz Ziegfeld tókst að skapa með dans- og söngleikjum sínum í Broadway leikhúsum. Þó að ekki hafi tekist neitt stórkostlega vel í þessari atrennu, þá leggur The Broadway Melody mikilvægan grunn sem nauðsynlegt var að leggja til að hægt væri síðar að búa til söngvamyndir eins og The Sound of Music, My Fair Lady, The Fiddler On The Roof, Mary Poppins, Molin Rouge og núna síðast Dreamgirls.
Því miður get ég ekki mælt með The Broadway Melody sem góðri skemmtun fyrir hvern sem er. Aftur á móti er hún áhugaverð í ljósi sögulegs mikilvægis hennar. Ef maður gæti sett sig í spor manneskju sem sá þessa mynd árið 1929, gæti maður ímyndað sér að þeirri manneskju gæti hafa þótt myndin frábær - en ég get engan veginn gert það - er bara ég sjálfur hérna árið 2007 og finnst myndin einfaldlega ekki góð.
Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:
Wings (1928) ****
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt 19.5.2007 kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stórmyndir: Pan's Labyrinth (El Laberinto del Fauno) (2006) ****
9.3.2007 | 18:08
Pan's Labyrinth kemur svolítið aftan að manni ef maður veit ekki fyrirfram um hvað hún fjallar. Áður en ég sá myndina hélt ég að hún væri ævintýri líkt Lísu í Undralandi. Þó að hún gefi Lísu ekkert eftir þegar kemur að ímyndunarafli, sköpunargáfu og áhugaverðum aðstæðum, þá er þessi mynd alls ekki ætluð börnum og inniheldur mörg atriði sem gætu verið erfið fyrir viðkvæma einstaklinga.
Faðir Ofeliu (Ivana Baquero) hefur fallið í seinni heimstyrjöldinni, en hann var klæðskeri Vidal kafteins (Sergi López), en hann tekur móður Ofeliu, Carmen Vidal (Ariadna Gil) upp á arma sína, kvænist henni og barnar. Í upphafi myndar eru mæðgurnar á leið að herstöð Vidal kafteins, en hann er kafteinn meðal spænskra fasista árið 1944. Markmið þeirra er að útrýma uppreisnarmönnum sem leynast í grenndinnni.
Ofelia verður var við undarlegar verur í skóginum og reynir að segja þeim fullorðnu að hún hafi fundið álf. Allir blása á sögu hennar og telja hana einfaldlega vera búna að lesa yfir sig af ævintýrum. Hún villist inn í völundarhús þar sem hún finnur brunn. Neðst í brunninum er forn vera sem gefur henni þrjú verkefni sem hún þarf að leysa, en samkvæmt honum er sál fornrar prinsessu læst í líkama hennar, og vilji hún sleppa úr prísundunni verður hún að leysa þessar þrautir með visku og vönduðu vali.
Það sem er frábært við þessa kvikmynd:
- Leikur
- Tæknibrellur
- Myndataka
- Hljóðsetning
- Saga
- Spenna
- Dýpt
- Sköpunargleði
- Merking
Vidal kafteinn er upptekinn af nákvæmni og stundvísi. Hann passar upp á að úr sem ætti ekki að virka, gangi, er duglegur að pússa skóna sína og drepur þá sem passa ekki inn í hans sýn á lífið og tilveruna. Ofelia lendir strax í mikilli hættu þegar hún kynnist hinum nýja stjúpföður sínum, enda er hún draumórabarn, en stjúpi hennar lifir fyrir að útrýma draumum.
Uppreisnarmennirnir reynast vera venjulegar manneskjur sem berjast fyrir því að geta lifað sínu lífi án ógnarvalds fasismans hangandi yfir sér; þar sem að þeir hátt settu geta drepið almenna borgara eða misþyrmt þeim án þess að þurfa réttlætingar við. Ofelia uppgötvar mikilvægi þess að styðja uppreisnarmennina í baráttunni við stjúpföður sinn, og verður þetta til þess að barnið og stjúpinn berjast við hvort annað upp á líf og dauða.
Fantasían fléttast skemmtilega inn í atburðarrás sem virðist sönn og raunveruleg, og ekki nóg með það, heldur tekst leikstjóranum Guillermo del Toro að flétta fantasíuna það vel inn í veruleikann að á endanum er ekki auðvelt að gera greinarmun á hvað er hvað.
Þetta er frábær kvikmynd sem ég mæli eindregið með fyrir þá sem áhuga hafa á góðri frásögutækni og sögum sem skilja mikið eftir sig. Það er einfaldlega ótrúlegt að sami leikstjóri skuli hafa gert b-myndirnar Hellboy og Blade 2, en ljóst er að hann hefur lagt sig allan fram við gerð Pan's Labyrinth, sem minnir reyndar mikið á mynd hans frá 2001, El Espinazo del Diablo, eða Hryggur djöfulsins .
Vidal er eitt eftirminnilegasta illmenni kvikmyndasögunnar. Bara til þess að sjá gaur sem jafnast á við þá Hannibal Lecter og Svarthöfða, er það hrein skylda fyrir kvikmyndaáhugamenn að sjá þessa mynd. Ekki skemmir fyrir að hún var tilnefnd til sex Óskarsverðlauna, og mér að óvörum var hún ekki valin besta erlendi kvikmyndin fyrir árið 2006.
Frábær mynd og stórgóð skemmtun.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hvernig tengist klám kynferðislegu ofbeldi?
7.3.2007 | 21:29
Þessi grein mun ekki snúa að furðu minni á manneskju sem á í vandræðum með að rökstyðja sitt mál eins og í fyrri grein minni "Klám er kynferðislegt ofbeldi!", heldur að velta aðeins fyrir mér hugtakinu sem flestir virðast vera sammála um að misskilja: hvað er klám?
Í fyrstu vil ég segja hvað mér dettur fyrst í hug þegar minnst er á klám: en það er miðlun á kynferðislegum athöfnum fólks með beinskeyttum hætti, án nokkurrar tengingar við list eða skáldskap.
Það er nokkuð ljóst að fólk skilur hugtakið klám á ólíkan hátt. Þannig að ég ákvað að leita mér frekari upplýsinga um hugtakið og fann nokkrar skilgreiningar sem hjálpa okkur áleiðis.
Í nokkuð góðri rannsóknarritgerð, Pornography and Sexual Violence, leitar Robert Jensen frá Háskóla Texasfylkis í Austin svara við spurningunni hvort að klám sé kynferðislegt ofbeldi. Hann er fljótur að sjá að spurningin eins og hún stendur er merkingarlaus, og því spyr hann hvort að orsakasamband sé á milli kláms og nauðgunar. Svarið er að sjálfsögðu neikvætt, því að ekki allir einstaklingar sem neyta kláms eða búa það til valda nauðgunum.
En þá kemur að áhugaverðri spurningu: kyndir klám undir hvötum og samfélagsmunstri sem valdið getur kynferðislegu ofbeldi? Þetta er spurning sem verðugt er að rannsaka. Er það mögulegt að fólk (aðallega karlmenn) sem nota klám verði fyrir slíkum áhrifum af kláminu að það hvetji þá til að nauðga? Það tel ég alls ekki ósennilegt, en þá erum við í raun komin út í málefni sem tengist umhverfismengun meira en ofbeldi; fyrirbæri sem mætti kannski frekar kalla siðferðismengun, sem er reyndar nokkuð sem mætti hugsa sér að berjast gegn.
Önnur spurning sem Jensen spyr og mér þykir áhugaverð er sú hvort að klám sé ávallt niðurlægjandi fyrir þá sem taka þátt í því, og jafnvel fyrir neytendur þess líka? Um þetta svar má deila, en ekki má gleyma því að fjöldi fólks velur að taka þátt í gerð klámefnis; og fyrst að þetta er þeirra val, þýðir það þá að sú niðurlæging sem fylgir, ef hún gerir það á annað borð, sé marktæk fyrir farsæld þeirra eða hamingju í lífinu? Það er frekar erfitt að svara þessari spurningu vel, því hver veit sína ævi fyrr en öll er? Hugsanlega gerum við okkur aldrei grein fyrir því hvort við höfum lifað farsælu eða hamingjusömu lífi; og hvort að einhvers konar þátttaka í klámi útiloki þessa farsæld eða hamingju, þarf einhvern miklu trúaðri einstaklingur en ég að svara. Reyndar er hugsanlega hægt að nota rök mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem berst gegn öllu því sem brýtur gegn mannvirðingunni, en mannvirðingin í skilningi mannréttinda er grundvallarhugtak sem verður að virða til þess að mannréttindi verði möguleg.
En nú að skilgreiningu á klámi, en í ritgerð Jensen kemur þetta fram: "Í mörgum rannsóknum um áhrif kláms eru þrír flokkar af klámi skilgreindir: mjög ofbeldisfullt; ekki ofbeldisfullt en niðurlægjandi; og kynferðislega afdráttarlaust en hvorki ofbeldisfullt né niðurlægjandi."
Samkvæmt þessu er ljóst að kynjafræðingar þeir sem rannsaka klám eru sammála þeirri fullyrðingu að ekki allt klám sé kynferðislega ofbeldi, þar sem að það getur sýnt kynferðislega afdráttarlausar athafnir án þess að vera ofbeldisfullt eða niðurlægjandi. Þetta er sú tegund kláms sem ég er tilbúinn að sýna umburðarlyndi. Aftur á móti þegar klámið snýst um að sýna fram á yfirráð karlsins yfir konunni, eða þvingunar gagnvart henni; þá er ég ósáttur og vil gera eitthvað í málinu.
Aftur á móti getur verið erfitt að greina hvort að klám sem sýnir konur á niðurlægjandi hátt sé leikið eða gert af alvöru. En það klám sem ég er sammála um að mætta gera algjörlega útlægt úr okkar samfélagi er það þegar fram kemur raunverulegt ofbeldi gagnvart öðrum aðilanum, en þá verður aftur til vandamálið um greiningu á hvort að um leik eða veruleika sé að ræða. Er réttlætanlegt að banna það að leikin séu kynferðislega afdráttarlaus atriði sem eru niðurlægjandi og ofbeldisfull, og virðast engum öðrum tilgangi þjóna en fullnægja einhverjum annarlegum kenndum? Eða skal banna aðeins það klám sem sannarlega felur í sér ofbeldi og niðurlægingu á fórnarlömbum sem ekki eru að leika? Augljóslega er þetta viðkvæmt mál, en þessar spurningar geta vonandi varpað einhverju ljósi á málið.
Að lokum vil ég vitna í skilgreiningu frá hóp sem kallar sig 'Ottawa konur berjast gegn klámi', og finna má á kanadísku síðunni Sexual Violence Facts en þar birtist þessi skilgreining á klámi sem ég á erfiðara með að samþykkja: "Klám er efni í orðum eða myndum sem stendur fyrir eða lýsir kynferðislegri hegðun sem er niðurlægjandi eða hrottafengin gagnvart einum eða fleiri meðlimum, þar sem ofbeldi er oft beitt á slíkan hátt að það styður niðurlægingu sem skemmtun eða til að selja vörur. Klám, bæði innihald og tilgangur, er dýrkun á ofbeldi gegn konum, sem sýnir sem eðlilegan hlut notkun valds, niðurlægingar og hrotta sem leiðir til karlkyns kynferðislegrar fullnægingar."
Ég er ekki sammála þessari skilgreiningu á klámi, þar sem að hún nær aðeins yfir einn þátt hugtaksins, en get vel skilið af hverju fólk vill berjast gegn þessu; enda gengur þessi tegund kláms sjálfsagt þvert á siðferðisvitund hvers heilvita manns og getur hugsanlega slævt slíka siðferðisvitund til óvits fari viðkomandi að neyta þessa efnis - og þannig hvatt óvandaðri einstaklinga til kynferðisglæpa.
Sjálfur á ég ekki erfitt með að taka undir að klám sem annað hvort niðurlægir eða sýnir ofbeldi gegn minnimáttar á meðan kynferðislega afdráttarlausar athafnir fara fram, sé ógeðslegt; og fyrir sjálfan mig hef ég fyrir löngu tekið þá ákvörðun að horfa aldrei á slíkt efni. En hvort að það skuli bannað öllum er önnur spurning og flóknari; og þá hvort að gerður skuli greinarmunur á milli leikins eða alvöru kláms.
Þetta eru erfiðar spurningar sem ætti ekki að gera lítið úr með upphrópunum eða háðsglósum.
Heimildir og áhrif:
Pornography and Sexual Violence (2004) eftir Robert Jensen
Silfur Egils, 4.3.2007
Klámkvöld í kvöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Eiður Smári og Liverpool sigruðu!
6.3.2007 | 22:09
Þessi leikur hefði ekki getað endað betur. Okkar maður fær tækifæri og nýtir það vel, og vinnur leikinn fyrir Barcelona, en það dugar ekki til að stoppa mína menn frá því að komast í 8 liða úrslitin, á frekar mögru ári fyrir Liverpool.
Vonandi verða þjálfarar Barca gagnrýndir eitthvað fyrir að nota Eið Smára alltof lítið, því að sjálfsögðu er hann bestur!
Gaman að þessu!
Sigurmark Eiðs Smára ekki nóg fyrir Barcelona | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)