Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
Johnny Dangerously (1984) ***
6.3.2007 | 17:57
Michael Keaton skaust upp á stjörnuhimininn með þessari kvikmynd. Hann leikur Johnny Dangerously, glæpamann í New York sem er gífurlega drjúgur með sig. Ef þú hefur gaman af svona karakter og litríkum aukapersónum, þá muntu hafa mjög gaman af þessari mynd. Aftur á móti hef ég heyrt að auðvelt sé að láta ofsagleðina sem birtist í nánast hverju einasta atriði fara í taugarnar á sér. Þannig er Johnny Dangerously eins og gott áramótaskaup. Annað hvort finnst þér það frábært eða þolir það ekki.
Johnny er dreginn út á glæpabrautina til að eiga fyrir aðgerðum sem móðir hans þarf að fara í. Einnig er hann í glæpum til að fjármagna lögfræðinám bróður síns, en hann reiknar ekki með að bróðir hans snúist gegn honum þegar laganámi lýkur.
Fyrst þegar ég sá Johnny Dangerously sem unglingur þótti mér hún frábær. Í dag finnst mér hún ennþá góð. Það sem mér fannst óbærilega fyndið sem unglingur kom sérstaklega frá tveimur persónum, Roman Moroni (Richard Dimitri), snarklikkuðum bófa sem er í eilífu stríði við gengið sem Johnny hefur gengið í og Danny Vermin (Joe Piscopo) illmenni sem nýtur þess að láta aðra þjást og gerst hefur meðlimur í gengi Johnny, og þráir ekkert heitar en að steypa Johnny af stalli.
Sagan hefst á þriðja áratug tuttugustu aldar og gerir sitt besta til að ýkja sakleysi tíðarandans. Ofbeldisfullum árásum er tekið létt og að mestu látið eins og byssukúlur og sprengjur geti ekki drepið fólk, rétt eins og í teiknimyndasögum. Persónurnar gætu reyndar verið dregnar upp úr sögum eins og um Tinna, Sval og Val, eða Lukku Láka; svo ýktar eru þær.
Af öðrum aukaleikurum sem gefa myndinni skemmtilegan blæ eru Peter Boyle sem mafíuforinginn Jocko Dundee, en hann tekur Johnny í vinnu fyrir glæpagengið frá barnsaldri. Griffin Dunne er góður sem Tommy Kelly, bróðir Johnny og metnaðarfullur starfsmaður saksóknara, sem allir bófar vilja drepa, nema Johnny að sjálfsögðu, og Danny DeVito sem gjörspillti saksóknarinn Burr. Dom DeLuise er einnig skondinn í smáhlutverki sem páfinn.
Það er ekkert tekið alvarlega í þessari mynd, nema þá kannski mikilvægi fjölskyldunnar, og má segja að boðskapur myndarinnar sé sá að ekkert skuli vera fjölskylduböndum yfirsterkara, og þá alls ekki atvinna, réttlæti eða glæpir, né mafíufjölskyldan.
Stórskemmtileg grínmynd sem enginn húmoristi ætti að láta fram hjá sér fara.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Stórmyndir: Gattaca (1997) ****
5.3.2007 | 20:58
Gattaca er ein besta vísindakvikmynd sem gerð hefur verið. Hún gerist í ekkert alltof fjarlægðri framtíð þar sem fæðingum flestra barna er stýrt með breytingum á genum þeirra.
Aðalhetja myndarinnar, Vincent Freeman, er fæddur eftir náttúrulegt samband. Við fæðingu er honum spáð dauða áður en hann nær þrítugsaldri vegna hjartagalla og skapgerðarbrests. Foreldrar hans ákveða að eignast annan son - erfðastilltan, sem er að þeirra mati verðugri arftaki.
Vincent sættir sig ekki við að örlög hans séu ráðin í tilraunaglösum og setur sér að láta draum sinn rætast, að verða geimfari og komast af þessari ofstjórnuðu plánetu. Leiðin út í geiminn er ekki vandalaus, en Vincent neyðist til að taka sér annað auðkenni og lifa lífi annars manns, fyrrum íþróttahetjunnar Jerome Eugene Morrow, sem varð fatlaður eftir umferðarslys. Það gefur honum möguleika á að komast í ferðina sem hann þráir.
Morð er framið og verður Vincent einn af hinum grunuðu, sem magnar enn frekar vandamálin, og ekki nóg með það, einn af lögreglumönnunum grunar að hann sé ekki með allt sitt á hreinu og ákveður að kafa ofan í fortíð hans.
Í raun fjallar kvikmyndin um þann fasmisma sem gæti breiðst út í þjóðfélagi ef stjórnað væri í anda líffræðilegrar nauðhyggju. Umfram allt fjallar myndin um mikilvægi frelsis til að taka ákvarðanir um eigin líf og gerðir, þrátt fyrir að það geti strítt gegn almennri siðferðiskennd og lifa með þeim. Einnig fjallar hún um vináttu, réttlæti, bróðerni, ást og umburðarlyndi.
Ethan Hawke og Uma Thurman leika vel en Jude Law á stórleik. Mæli sterklega með henni. Sagan er traust og skilur mikið eftir sig.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt 9.3.2007 kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
"Klám er kynferðislegt ofbeldi!"
4.3.2007 | 23:40
Tvær tilvitnanir í grein Sóleyjar Tómasdóttur sem skrifuð var eftir þátttöku hennar í Silfri Egils (4.3.2007).
"Ræddum um klám. Það var hrikalega erfitt, sérstaklega þar sem hin órjúfanlegu tengsl milli ofbeldis, kláms og vændis virðast vera ofar skilningi fólks." Sóley Tómasdóttir
"Verst af öllu finnst mér þegar andmælendur mínir ætlast til þess að ég skilgreini hvað klám sé. Að ég eigi að bera ábyrgð á lagasetningum stjórnvalda og segja til um hvað sé refsivert og hvað ekki. Ég tek ekki þátt í slíku. Raunar held ég að 210. grein Almennra hegningarlaga eigi fáa sína líka, þar er tekið fram að framleiðsla, innflutningur og dreifing kláms sé refsiverð, en hvergi skilgreint hvað klám sé í raun og veru." Sóley Tómasdóttir
Ekki langar mig til að upphrópa að þetta séu öfgar og fasismi, en vissulega tel ég að þessar skoðanir séu svolítið afvegaleiddar og þurfi smá aðstoð skynsamlegrar rökhugsunar.
Mig grunar að viðmælendur Sóleyjar (andmælendur í hennar huga) hafi einfaldlega viljað heyra hvernig hún skilji hugtakið 'klám', ekki hvernig ætti að eða skuli skilgreina hugtakið samkvæmt lögum. Þarna er mikill munur á. Mér heyrist á umræðunni að fólk sé einmitt að skilja þetta hugtak á mjög ólíkan hátt, og þegar mikið er rætt um fyrirbæri sem enginn veit hvað er en allir hafa skoðun á, er hætta á að misskilningur aukist frekar en hitt. Ég hafði sjálfur á tilfinningunni að Sóley væri að meina eitthvað allt annað en ég sjálfur álít vera klám.
Sóley sagði í Silfri Egils að allt klám sé kynferðislegt ofbeldi, sem mér þykir mjög vafasöm fullyrðing. Það þarf ekki nema eitt dæmi um framleiðslu á klámi þar sem allir sem þátt taka gera það af fúsum og frjálsum vilja til að hnekkja þessari fullyrðingu, og þessar manneskjur eru til. Það rétta er að sumt klám felur í sér kynferðislegt ofbeldi, eða í þeim tilfellum þegar manneskjur eru nauðugar látnar taka þátt í þessum athöfnum. Hvort að 32%, 47%, 85% séu réttu hlutföllin um hversu mikið af klámi feli í sér kynferðislegt ofbeldi, er ómögulegt að segja, og mætti sjálfsagt rannsaka. En að þetta sé satt um 100% tilfella er einfaldlega útilokað. Þannig að ekki er hægt að segja að klám sé það sama og kynferðislegt ofbeldi, sama hversu sterk sannfæring viðkomandi fyrir því getur verið. Ljóst er samt að allt kynferðislegt ofbeldi er glæpur, hvort sem það er unnið gegn konum eða körlum, og ber að taka hart á slíku.
Það er eitt sem mér finnst sorglegt við þessa umræðu alla, og það er hvernig hugtakið feminismi hefur verið dreginn inn í hana, og það hljómar eins og að þeir sem eru feministar séu sjálfkrafa allir á móti klámi, þó að svo sé ekki. Það rétta er að það er einungis tiltekinn hópur innan feminismahreyfingarinnar sem gengur svona langt, og aðrir feministar sem álykta að þar sem ákveðinn hópur karla og kvenna framleiðir klám og hefur viðskipti af því af fúsum og frjálsum vilja, þá er ekki verið að gera lítið úr sjálfsvirðingu viðkomandi einstaklinga, eða allra kvenna eða allra karla. Semsagt: ekki allir feministar (sem geta bæði verið karlar og konur) trúa því að allt klám sé kynferðislegt ofbeldi.
Það sem mig grunar að Sóley hafi verið að hugsa, en ekki komið orðum almennilega að, enda var henni mikið niðri fyrir (NOTA BENE: þetta er aðeins túlkun mín og vel getur verið að hún sé ósammála henni), er að klám geti haft þannig áhrif á þjóðfélagið sem heild að kynferðislegt ofbeldi útbreiðist með meiri hraða ef enginn stingur niður fæti og segir: "hingað og ekki lengra". Þetta gæti verið spurning um að setja ákveðin takmörk fyrir því sem við getum sætt okkur við; en þó að ég haldi að sú umræða gæti verið mjög gagnleg, er hún alls ekki viðeigandi í sambandi við þessa klámráðstefnu sem olli fjaðrafokinu mikla.
Það er vissulega í lagi að láta í sér heyra ef manni finnst vegið að eigin siðferðiskennd, en að alhæfa um að allir hafi sams konar siðferðiskennd til að bera eða byggi siðferði sitt á sama grunni er af og frá; og hvað þá að setja reglur sem byggja á slíkum pitti. Slíkt regluhús myndi fljótt sökkva.
Hafrún Kristjánsdóttir skrifar áhugaverða gagnrýni um skrif Sóleyjar og þátttöku hennar í Silfri Egils í grein sinni, Enn af feministum (4.3.2007) .
Til að öðlast yfirgripsmeiri þekkingu á hugtakinu 'klám' getur verið gagnlegt að skoða hugtakið í alfræðiorðabók netheimsins, Wikipedia, en þar eru til að mynda áhugaverð fyrir þessa umræðu greinin Anti-pornography movement. Vil ég vitna aðeins í hluta þeirrar greinar sem fjallar um gagnrýni feminista á andstöðu gegn klámi. Afsakið að hún fylgi hér óþýdd:
"Other feminists are against censorship; some describe themselves as sex-positive feminists and criticize anti-pornography activism. They take a wide range of views towards existing pornography: some view the growth of pornography as a crucial part of the sexual revolution and they say has contributed to women's liberation; others view the existing pornography industry as misogynist and rife with exploitation, but hold that pornography could be and sometimes is feminist, and propose to reform or radically alter the pornography industry rather than opposing it wholesale. They typically oppose the theory of anti-pornography feminism -- which they accuse of selective handling of evidence, and sometimes of being prudish or as intolerant of sexual difference -- and also the political practice of anti-pornography feminism -- which is characterized as censorship and accuse of complicity with conservative defenses of the oppressive sexual status quo. Notable advocates of the position include sociologist Laura Kipnis, columnist and editor Susie Bright, essayist and therapist Patrick Califia and porn actress and writer Nina Hartley."
Titill greinarinnar: "Klám er kynferðislegt ofbeldi!" er bein tilvitnun í fullyrðingu Sóleyjar Tómasdóttur úr Silfri Egils 4.3.2007.
Vísindi og fræði | Breytt 5.3.2007 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
1. Óskarsverðlaunin: Wings (1927) ****
4.3.2007 | 02:05
Fyrir nokkrum vikum tók ég mig til og byrjaði að horfa á kvikmyndir sem höfðu unnið til Óskarsverðlauna sem besta kvikmynd viðkomandi árs. Mér hefur ekki tekist að finna þær allar, en þær sem ég hef haft upp á og náð að horfa á mun ég skrifa um hér á blogginu. Ég reyni að horfa á eina í hverri viku, innan um aðrar myndir og sjónvarpsþætti sem maður kíkir á. Ég stefni á að sunnudagskvöldin verði Óskarsverðlaunakvöld hjá mér.
Þó að besta myndin vinni ekki alltaf sem besta myndin á þessu stærsta uppgjöri kvikmyndaiðnaðarins á hverju ári, þá eru sigurvegararnir yfirleitt gott dæmi um tíðaranda og þróun kvikmyndatækninnar. Það væri gaman að komast yfir allar myndir sem hafa verið tilnefndar til Óskarsverðlauna frá upphafi, en slíkt verk getur tekið ansi mörg ár og einnig efast ég um að allar þessar myndir hafi verið varðveittar. En fyrsta skrefið er að kíkja á stóru sigurvegarana, sem er nú ærið verkefni, enda hafa 79 Óskarsverðlaunahátíðir verið haldnar þegar þetta er skrifað.
Fyrsta kvikmyndin sem vann til Óskarsverðlauna var Wings, gerð árið 1927, stríðsmynd sem gerist í fyrri heimstyrjöldinni og er áhrifaríkari en flestar síðari tíma stríðsmyndir. Til að mynda fölnar Pearl Harbour (2001) í samanburði, en söguþráður beggja er keimlíkur.
Wings er einfaldlega stórfengleg mynd. Fyrirfram hélt ég að mér myndi leiðast áhorfið, þar sem að hún er ekki bara í svart-hvítu, heldur hljóðlaus með öllu, fyrir utan stutt tónverk í kynningunni.
Það sem kom mér helst á óvart er vel skrifuð sagan, myndræn og framúrskarandi framsetning, frábær kvikmyndataka, óaðfinnanlegur leikur og hjartað á réttum stað.
Wings fjallar um tvo unga menn, þá Jack Powell (Charles 'Buddy' Rogers) og David Armstrong (Richard Arlen). David á auðuga foreldra, er rólegur og hugulsamur. En Jack aftur á móti vill lifa hratt, hann er ungur eldhugi sem áttar sig engan veginn á því sem hann hefur og sækist alltaf eftir einhverju sem er handan við hornið; og til að kóróna allt saman er hann ástfanginn af Mary Preston (Clara Bow) sem er ástfangin af David, og David elskar hana.
Jack og David sinna kallinu þegar heimstyrjöldin skellur á og fara báðir í flugherinn. Í búðunum hitta þeir meðal annars Cadet White (Gary Cooper) sem gefur þeim góð ráð og kemur þeim hæfilega á jörðina áður en bardagarnir hefjast. Þeir Jack og Davið þola illa hvorn annan til að byrja með en verða fljótt mestu mátar, og vinátta þeirra dýpkar með ævintýrunum sem þeir lenda í; þar til að samband þeirra leiðir af sér einn magnaðasta endi kvikmyndasögunnar.
Ég get ekki annað en mælt sterklega með Wings fyrir alla þá sem gaman hafa af góðum kvikmyndum, og þá er ég ekki bara að tala um kvikmyndaunnendur. Wings er fyrir alla þá sem nenna að horfa á hljóðlausa og svarthvíta kvikmynd, og eru tilbúnir að skemmta sér eftirminnilega. Þrátt fyrir hljóð- og litaleysi hefur hún staðist tímans tönn og er klassík eins og klassískar myndir gerast bestar, það er að segja: henni hefur tekist að viðhalda skemmtanagildi sínu í öll þessi ár.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt 19.5.2007 kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Til hamingju Hellir!
3.3.2007 | 23:22
Íslandsmóti skákfélaga, síðari hluta eins helsta skákmóts ársins á Íslandi lauk í dag með sigri Taflfélagsins Hellis. Hellismönnum óska ég til hamingju með sigurinn.
Mitt lið, K.R. féll úr 2. deild. Ég tefdli aðeins 2 skákir af 7 fyrir mitt lið og fékk hálfan vinning, en tefldi á 1. borði fyrir a-sveit. Í seinni umferð dagsins tapaði ég fyrir Björgvini Jónssyni alþjóðlegum meistara eftir slæman afleik snemma í byrjun, en í fyrri skákinni náði ég jafntefli gegn sterkum sænskum stórmeistara, Tiger Hillarp Persson (2557 FIDE stig). Ég vissi það ekki fyrir skákina en Tiger er sérfræðingur í byrjunni sem við tefldum og gaf meira að segja út bók um hana sem fær afbragðsdóma á amazon.com: Tiger's Modern. Ef eitthvað er, hefði ég átt að vinna þessa skák, en meistarinn varðist af mikilli færni.
Skákina okkar er hægt að skoða með því að smella hérna.
Hellir vann Íslandsmót skákfélaga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt 4.3.2007 kl. 01:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
The In-Laws (1979) ***
3.3.2007 | 22:10
Þar sem að Alan Arkin hreppti Óskarsverðlaunin í ár fyrir besta leik í aukahlutverki, þótti mér tilvalið að kíkja á gamla mynd sem hafði hann í aðalhlutverki. Hann stóð sig ekkert síður í The In-Laws heldur en í Little Miss Sunshine.
Alan Arkin leikur tannlækni í New York sem gengið hefur gífurlega vel í vinnunni - hann lifir góðu lífi og vill einfaldlega lifa því áfram í öryggi og ró. Dóttir hans mun giftast í vikunni og hann hefur ekki enn hitt tilvonandi tengdaforeldra hennar. Í fyrsta sinn sem tengdafeðurnir hittast ná þeir einfaldlega alls ekki saman. Vincent segir einhverjar rugl sögur af flugum sem ræna börnum í S-Ameríku, og Sheldon fær nóg af þessari vitleysu og er fljótur að afgreiða kallinn sem klikkaðan.
Það sem Sheldon veit ekki er að Vincent tók þátt í ráni á mótum fyrir 500 dollara seðla, og hefur falið eitt af mótunum í kjallara hans, og ekki nóg með það, leigumorðingjar eru á eftir honum. Vincent ákveður að nota Sheldon til að laumast framhjá þessum krimmum, en það gengur ekki betur en svo að þeir átta sig strax á tengslunum, og þar með hefst mikill eltingarleikur sem endar í S-Ameríku.
Alan Arkin leikur skynsaman mann sem leiddur er út í mjög erfiðar aðstæður, og tekst að finna hetjuna í sjálfum sér. Peter Falk er góður sem dularfulli ræninginn, sem hefur að sjálfsögðu hjarta úr gulli og nánast dásamar tilvonandi tengdaföður sonar síns. Þeir Falk og Arkin eru frábærir saman í þessari mynd, þeir eiga skemmtileg samtöl og samleik.
Þessi mynd er mun betri en endurgerðin frá 2003 með þeim Michael Douglas og Albert Brooks, og er vís til að tryggja ánægjulega stund við skjáinn.
The In-Laws hefur elst mjög vel. Kvikmyndatakan er flott. Persónurnar léttar og skemmtilegar, og allt er einfaldlega eins og það á að vera þegar um góða grínmynd er að ræða. Eini veikleiki myndarinnar er að hún er engan veginn trúverðug sem birtist skýrast í atriði þar sem þrír menn skjóta á þá félaga úr launsátri án þess að takast að hitta þá einu skoti, einfaldlega vegna þess að þeir hlupu í hringi.
Ekki er öll vitleysan eins, en þessi er skemmtilegri en þær flestar.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Raging Bull (1980) ****
1.3.2007 | 21:20
- Robert DeNiro þyngdi sig um tæp 30 kíló fyrir hlutverkið.
- Margir gagnrýnendur fullyrða að myndin hefði átt að vinna Óskarinn árið 1980 í staðinn fyrir Ordinary People.
- Martin Scorcese hefði átt að taka Óskarinn sem besti leikstjórinn, en Robert Redford tók gripinn það árið, einmitt fyrir Ordinary People.
Ég er sammála þessum gagnrýnendum og skil reyndar vel af hverju Scorcese var verðlaunaður sem besti leikstjórinn fyrir The Departed þrátt fyrir að hún hafi ekki verið besta kvikmynd ársins 2006, en mig grunar að myndir eins og Raging Bull og Taxi Driver, sem eru í raun klassískar, hafi gefið honum byr undir báða vængi, og held að hann hefði unnið að lokum með nánast hvaða mynd sem er, það var nóg að hún minnti á fyrri frægð.
Raging Bull fjallar um boxarann Jake LaMotta á 4. og 5. áratugum 20. aldarinnar, en hann var fullur af þrá til að sanna sig fyrir öllum heiminum og með þessari sjálfselsku tókst honum að fylla sig slíkri heift að ekkert gat hamið hann, hvorki í hringnum, einkalífinu né í eigin hugarheimi.
Jake LaMotta átti aðeins einn vin, bróður sinn, sem hann lagði nánast í einelti. Einnig fór hann illa með bæði fyrri eiginkonu sína og þá síðari. Hann var fullur kvenfyrirlitningar og hroka, og með ofsóknarbrjálæði af verstu gerð. Hann gat ekki litið af konunni sinni án þess að trúa því að hún svæfi með einhverjum öðrum.
Kannski hefði myndin betur mátt heita: "Raging Bully," því þannig hagaði Jake LaMotta sér, í það minnsta samkvæmt túlkun Robert DeNiro. Leikur DeNiro er reyndar hrein snilld. Hann verður að Jake LaMotta, óútreiknanlegur og stórhættulegur öllum þeim sem koma nálægt honum. Maður hefur stöðugt á tilfinningunni að hann sé til að kýla næsta mann í rot sem hann grunar um einhverja græsku. Þannig lifir hann lífinu og eyðileggur það fyrir sjálfum sér.
Þessi skortur á fyrirhyggju og þessi endalausa heift draga hann smám saman í svaðið, og á endanum er hann ekkert annað en skopmynd af sjálfum sér. Raging Bull minnir að mörgu leyti á Óþelló eftir William Shakespeare, sögu um mann sem eyðileggur allt sem hann elskar vegna afbrýðisemi og óttanum yfir að tapa því. Þannig harmleikur er líf Jake LaMotta, sem minnir okkur á að slíkar sögur endurtaka sig sí og æ.
Þessi heift og afbrýðisemi, og hvernig þau leika mannsálina sem er þeim haldin, er kjarninn í Raging Bull, sem ég get ekki annað en kallað hreina snilld. Það er ekki einn veikur hlekkur í allri myndinni - allir leikarar standa sig stórvel, kvikmyndatakan er mögnuð, bardagarnir eru vel gerðir. Hún er öll góð.
Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.
Kvikmyndir | Breytt 9.3.2007 kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)