The Chronicles of Riddick (2004) ***

Fimm ár hafa liðið síðan örfáir ferðalangar voru til frásagnar eftir geimskipsbrotið í Pitch Black.

Riddick er enn á flótta undan mannaveiðurum, og loks komumst við að því hvers vegna hann er eftirlýstur og hvað það er sem gerir hann hættulegan. Leiðtogi hinna illu Dauðaganga (Colin Feore), The Necromongers, trúir því að þeim stafi hætta af aðeins einum manni, Riddick. Ástæðan er sú að spáð var fyrir endalokum hans fyrir hendi manns af Furian kynstofninum, en Riddick er sá eini sem lifir enn af þessum hópi, enda hafa Dauðagöngurnar gereytt öllum hinum.

Þarna er komin ástæðan fyrir því af hverju Riddick var fangi í Pitch Black og af hverju hann er enn á flótta í The Chronicles of Riddick. Til að gera langa sögu stutta, þá nær Riddick valdi á geimskipi mannaveiðarana og reynir að fá út úr þeim upplýsingar um það hverjir það eru sem vilja borga fyrir að ná honum. Þegar hann kemst loks að sannleikanum, og vinur hans sem komst lífs af úr fyrri myndinni er myrtur, ákveður hann að grípa til sinna ráða og taka á þessum Dauðagöngum, þó svo það gæti kostað hann lífið.

En Dauðagöngurnar eru illar í eðli sínu og eru því sífellt að pukra og leita eftir tækifærum fyrir sjálfar sig. Dame Vako (Thandie Newton) og eiginmaður hennar Vaako (Karl Urban) leggjast í plott sem eiginkona Macbeth hefði verið stolt af. Þau sjá loks tækifæri birtast sem gæti gefið þeim færi á að ná völdum þegar Riddick birtist, tilbúinn að drepa allt og alla, hvort sem viðkomandi er dauður fyrir eða ekki.

Áætlun Riddick til hefnda, að ana beint af augum og drepa alla sem koma of nálægt honum, gengur ekki upp. Hann er handsamaður, fyrst af Dauðagöngunum, en tekst að sleppa og er þá handsamaður aftur, nú af mannaveiðurum. Hann er fluttur í neðanjarðarfangelsi á plánetu sem hitnar upp í mörghundruð gráður þegar sólin skín. Málið er að hann ætlaði alltaf að láta ná sér og ætlaði að láta flytja sig á þessa plánetu til þess að hann gæti bjargað kærustunni sinni og flúið úr fangelsinu og af plánetunni með hana sér við hlið.

Tæknibrellurnar eru fínar, en Riddick er hreint frábær. Hann er þessi hallærislega flotta hetja, yfirfullur af sjálfstrausti og vöðvastæltur, en líka eitthvað svo týndur og einmana. The Chronicles of Riddick er skemmtileg vísindaskáldsaga þó svo að hún hafi ekki komist á topp 20 listann hjá mér.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var "kærastan" ekki bara stráka stelpan úr fyrri myndinni?

OLO (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 00:25

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Við hjónin erum algjörlega sammála þessu hjá þér. Þú ert nú snillingur að halda þessari síðu uppi, alltaf jafn gaman að lesa og fylgjast með.

Ásdís Sigurðardóttir, 2.11.2007 kl. 01:39

3 identicon

Mér fannst fyrri myndin algjör snilld en ég varð fyrir vonbrigðum með þessa.

Hún er ekkert hræðileg en ég bjóst við meiru. 

Gerða M (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband