The Manchurian Candidate (1962) ****


Í Kóreustríðinu árið 1952 er bandarísk herdeild svikin af leiðsögumanni sínum í hendur kommúnista. Með lyfjum og samráði rússneskra og kínverskra stjórnmálamanna, sálfræðinga og vísindamanna eru Bandaríkjamennirnir dáleiddir, allir sem einn. Kommúnistum gengur sérstaklega vel að dáleiða liðsforingja hópsins, Raymond Shaw (Laurence Harvey), sem hefur alla tíð verið illa liðinn af sínum mönnum og virðist alltaf geta fundið eitthvað að öllu og öllum. Í dáleiðslu myrðir hann tvo af undirmönnum sínum fyrir framan alla hina félagana, án þess að finna fyrir samviskubiti eða trega. Spurning hvort að það sé manngerðarinnar vegna eða þeirrar staðreyndar að hann er dáleiddur hermaður sem hefur vanist á að drepa.

Hermennirnir eru heilaþvegnir. Þeim er talin trú um að Raymond Shaw hafi einn síns liðs sigrast á óvinaherflokki andstæðinganna og bjargað þeim úr klóm óvinarins. Þeir eru forritaðir til að halda því fram að Raymond Shaw sé í miklu áliti meðal manna sinna, og nánast dýrkaður af þeim, á meðan andstæðan er hið sanna í málinu. Fyrir vikið fær Raymond heiðursorðu bandaríska þingsins, en hann trúir ekki að hann eigi hana skilið og heldur að móðir hans, Mrs. Iselin (Angela Lansbury) og stjúpi, öldungadeildarþingmaðurinn John Yerkes Iselin (James Gregory) hafi hagað málum þannig til að auka stjúpanum vinsældir fyrir komandi kosningar. Kenning hans reynist alls ekki svo galin.

Foringi í hópnum dáleidda, Bennett Marco (Frank Sinatra) fer að fá matraðir þar sem hann dreymir sig og hina í herflokknum á fundi með húsmæðrum í New Jersey, en jafnframt finnst honum að sömu manneskjur séu svarnir óvinir sem ætla að nota hermennina til illvirkja heima fyrir, sem leynivopn. Marco fer með málið til yfirmanna sinna sem halda í fyrstu að hann hafi einfaldlega verið undir of miklu álagi og taugar hans séu að gefa sig. Þegar hann kemst að því að hann er ekki einn um að fá þessar martraðir ákveður hann að leggja harðar að sér og komast að sannleikanum.

Á meðan eru óvinirnir að nota Raymond sem morðtæki, að honum óafvitandi, en þeir geta gefið honum skipun um að gera hvað sem er með því að sýna honum tíguldrottningu úr spilastokk. Þegar hann sér tíguldrottningu er hægt að gefa honum hvaða skipun sem er og hann framkvæmir skilyrðislaust það sem honum er sagt að gera. Ljóst er að áætluð fórnarlömb eru pólitískir óvinir einhverra leppa meðal heimamanna.

Marco fær tækifæri til að brjótast inn í harða skel Raymonds, og kemst að því að hann á sér ljúfa hlið og að það sé von um að brjóta dáleiðsluna á bak aftur án þess að skaða Raymond eða aðra í kringum hann, og afhjúpa um leið þá sem eru að nota hann, en Raymond er yfir sig hrifinn af Jocelyn Jordan, dóttur eins af pólitískum andstæðingum foreldra hans. Óvæntir atburðir og mannleg mistök verða ti að hleypa af stað keðjuverkun atburða sem ekkert fær stöðvað nema hetjudáðir þeirra sem þekkja til málsins.

Myndinni er vel leikstýrt af John Frankenheimer og standa þeir Frank Sinatra og Laurence Harvey sig afar vel í sínum hlutverkum. Einnig er Angela Lansbury mögnuð sem hin kaldrifjaða og framagjarna móðir. Myndin var endurgerð árið 2004 af Jonathan Demme, þar sem Denzel Washington, Meryl Streep og Liev Schreiber fóru með aðalhlutverkin. Sú mynd var langt frá þeirri klassík sem frumgerðin er.

Ég mæli eindregið með The Manchurian Candidate frá 1962. Betri skemmtun er erfitt að finna á DVD í dag.

 

The Manchurian Candidate var tilnefnd til tveggja Óskarsverðlauna árið 1963:

  • Besta leikkona í aukahlutverki: Angela Lansbury
  • Besta klipping og samskeyting atriða: Ferrist Webster

 

Stutt atriði úr The Manchurian Candidate:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Már Barðason

Aldeilis mögnuð mynd. Var svo lánsamur að sjá hana í bíó vestur í Kanada 1987 eða 88. Leikararnir eru allir frábærir, en Lansbury stendur þó upp úr. Áreiðanlega safaríkasta hlutverk hennar á ferlinum og hún kemur svo sannarlega þeim áhorfendum á óvart sem aldrei hafa séð hana nema í hlutverki Jessicu Fletcher.

Helgi Már Barðason, 6.11.2007 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband