Réðist múgurinn snaróður og öskrandi gegn Obama eða voru þessi "svokölluð" mótmæli fyrirsögn í æsifréttastíl?

grandhoteloslo.jpg

Ég var á staðnum.

Ef það kallast mótmæli þegar um 20 manns halda á kröfuspjöldum og mótmæla stríði, en þúsundir hrópa af einhvers konar fögnuði til að bjóða gest velkominn og samfagna honum, "Obama, Obama, Obama!" og unglingsstúlkur skrækja þegar fyrst hann og síðan Will Smith birtast stundarkorn, þá má fullyrða að búsáhaldabyltingin hafi verið svo blóðug að helmingur íslensku þjóðarinnar lét lífið á Austurvelli. Þetta var meira eins og 17. júní, jólastemmning eða slíkt, heldur en pirruð mótmæli.

Fréttin segir: 

Þúsundir manna gengu um götur Óslóarborgar í mótmælaskyni við stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Afganistan eftir að Barack Obama Bandaríkjaforseti tók við friðarverðlaunum Nóbels. 

Mótmælendur gengu fylktu liði með kyndla um götur borgarinnar, en göngunni lauk fyrir framan hótelið þar sem Obama gistir.

Þetta var í mínum huga svokallaður samstöðu- og fagnaðarfundur. Þeir sem segja annað eru að slá ryki í augu fólks, enda með eitthvað allt annað í huga en að segja sannleikann. Hagræðing sannleikans kemur yfirleitt sumum vel sem duglegir eru að næla sér í athygli fjölmiðla. Kannski það sé lögmál? Flest fólk var brosandi með friðarkyndla, en örfáar hræður tróðu sér fremst með kröfuspjöld til að mótmæla fjölgun hermanna í Afganistan.

Konan mín kom á staðinn aðeins á undan mér og varð vitni að kveðju hans heilagleika, og sagði hún mér með stjörnurnar í augunum, hvernig hann hafði kinkað vinsamlega kolli til þeirra sem héldu á kröfuspjöldunum og síðan lotið höfði í virðingarskyni. Þessi maður hafði fullkomna stjórn á fjöldanum. 

Ég mætti á staðinn nokkrum mínútum síðar til að samfagna manninum ásamt dóttur minni. Hún var yfir sig ánægð þegar hún sá Obama bregða fyrir í nokkrar sekúndur úr glugga hótelsins og veifa til mannfjöldans, sem skrækti af fögnuði. Þeir fáu sem höfðu kröfuspjöld í hendi hlupu strax að átt að skrækjunum, en samkvæmt dóttur minni var hann örugglega ekki lengur en fjórar sekúndur bakvið sína skotheldu rúðu. Ég missti af því að sjá þennan merkilega svip bregða fyrir eitt augnablik, en er samt ekkert að fara yfir um vegna þess missis. Hins vegar þótti mér gaman að sýna manninum samstöðu, en hann og starfsfólk hans hafa lyft Grettistaki með því að lagfæra málstað þjóðar sem lá í rúst eftir að W. fór frá eftir 8 ár í valdastól og tókst að gera Bandaríkin að óvinsælasta ríki heims.

Þegar rapparinn og Hollywoodstjarnan svokallaða Will Smith steig út úr hótelinu voru skrækirnir ekkert minni. Þetta minnti mig töluvert á augnablik sem ég upplifði í London fyrir nokkrum árum, þegar Sylvester Stallone og félagar gengu um rautt teppi til að frumsýna "Rocky Balboa". Svipað tóbak.

Mér þótti merkilegt að vera umkringdur að minnsta kosti hundrað manna lögreglu- og hermannaliði með öflugar vélbyssur og merkilegt að sjá votta fyrir svokölluðum leyniskyttum í turnum og hótelgluggum. Ef þetta voru ekki raunverulegar leyniskyttur, þá var ímyndunarafl mitt að minnsta kosti nógu öflugt til að fylla þessa lífsreynslu. Einnig voru þó nokkrir sköllóttir menn í svörtum síðfrökkum á sveimi, og varð mér þá allt í einu hugsað til hversu lélegar "Matrix Reloaded" og "Matrix Revolutions" voru í samanburði við upprunalegu myndina, en ég þóttist viss um að þetta væru þrautþjálfaðir öryggisverðir á vegum CIA, enda stökk þeim ekki bros á vör og voru byggðir eins og Arnold áður en hann varð ríkisstjóri.

 

Mynd: HB


mbl.is Mótmælaganga í Ósló
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bara týpiskt bull í fréttamönnum sem skilja kannski tungumálið takmarkað og geta í eyðurnar!

Sigrún (IP-tala skráð) 10.12.2009 kl. 22:10

2 Smámynd: Eygló

Takk Hrannar, fyrir skemmtilega frásögn.

Voru ekki fréttir af "Uppreisninni og Byltingunni" hér, sama marki brenndar? Jú, án efa.

Eftir þann fréttaflutning horfi ég alltaf, full tortryggni, á "blóðug mótmæli" í ýmsum löndum. Reyni að sjá hvort myndavélin sé ekki höfð svo nálægt að öruggt sé að ekki sjáist að "mannfjöldinn" er kannski 10-15 manns.
Hef verið alltof trúgjörn á fréttir undanfarið og er örugglega í mörgum tilvikum enn.

Eygló, 12.12.2009 kl. 18:56

3 Smámynd: Ómar Ingi

Góður

Ómar Ingi, 14.12.2009 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband