Stunda bloggarar nornaveiðar?

 


 

Lýður Guðmundsson, forstjóri Exista, hélt fram í áhugaverðu Kastljósviðtali miðvikudaginn 26. ágúst að hann væri fórnarlamb nornaveiða, og að nafnlausir bloggarar stjórnuðu þjóðfélagsumræðunni á afar ósanngjarnan hátt.

Merkileg skoðun, og í fyrstu finnst manni þetta ósennilegt, en þegar maður hugsar svo til mála sem hafa komið upp, eins og til dæmis um týndan hund á Akureyri sem talinn var af, en var bara týndur, leiddi til mikilla ofsókna gagnvart ungum dreng sem talinn var hafa drepið hundinn.

Þannig að vald bloggsins getur vissulega verið mikið, og áhugavert að velta fyrir sér hvort að bloggheimar séu orðnir að álíka valdi og heimur stýrðra fjölmiðla. Stýrðir fjölmiðlar hafa hjá fræðimönnum yfirleitt verið flokkaðir undir fjórða valdið, en síðustu ár hefur heimur fjölmiðla gjörbreyst, þannig að nú geta allir tjáð sig um málefni líðandi stundar, og komið sínum skoðunum og hugmyndum á framfæri. Þetta hefur leitt til mikilla breytinga hjá dagblöðum víða um veröld, sem leggja sífellt meiri áherslu á netþátt fjölmiðlunar, heldur en eingöngu hið prentaða orð eða sjónvarpsmiðlun.

 

 

Nú má hugsanlega skipta þessu valdi upp. Sjónvarp,útvarp og dagblöð hafa lengstum farið með þetta vald til umráða, og stjórnað umræðunni eftir því hver á hvaða fjölmiðil. Til að mynda hefur verið rætt um að eigendur Baugs stjórni umræðunni gegnum Stöð 2, Bylgjuna og Fréttablaðið, og að aðrir eigendur stjórni öðrum fjölmiðlum, og með slíkri eignaraðild getað stýrt þjóðfélagsumræðunni og skoðun fólks.

Bloggið er hins vegar allt öðruvísi skepna. Hún er algjörlega stjórnlaus og ótamin. Sumir blogga undir nafni, aðrir ekki. Yfirleitt tek ég lítið mark á nafnlausu bloggi, en gef mér meiri tíma til að velta fyrir mér bloggi sem höfundar skrifa undir og taka ábyrgð á. Slíkt blogg hefur að mínu mati verið sýnilegra í umræðunni um Hrunið og vangaveltum um bankarán innanfrá, sem síðan hefur verið stutt af röddum innan úr stofnunum og víða úr þjóðfélaginu, þannig að grundvöllur hefur oft reynst á bakvið gruninn sem birtist í skrifum bloggara.

Það að enginn stjórni lengur þjóðfélagsumræðunni annar en lýður landsins (trommusláttur), og að bloggið þróist í að vera marktækt sem stór hluti af hinu 4. valdi, er vissulega merkilegt rannsóknarefni, og hugsanlega satt, en að gera mikið úr valdi nafnlausra bloggara finnst mér samt vafasamt. Reyndar má vel vera að slíkir bloggarar hrópi hátt og að fámennur hópur taki mark á þeim, en ég hef enga trú á að þeir stjórni umræðunni, frekar en manneskja á Austurvelli með skilaboð á kröfuspjaldi stjórnar ákvörðunum inni á Alþingi.

Nornaveiðar eru hins vegar áhugavert fyrirbæri. Jóhanna af Örk var fórnarlamb þeirra og hún brennd á báli. Þær voru stundaðar á Íslandi fyrr á öldum, og konur sem taldar voru til norna teknar af lífi. Það sama má segja um þá sem taldir voru kommúnistar í Bandaríkjunum á hinu svokallaða McCarthy tímabili, en þá voru menn settir á svarta lista fyrir pólitískar skoðanir sínar og þeim komið úr landi sem ekki höfðu ríkisborgararétt í Bandaríkjunum og voru með vafasamar pólitískar skoðanir. Þannig stunduðu nasistar veiðar á Gyðingum fyrir það eitt að hafa ákveðna trúarskoðun og sýna samstöðu.

Nornaveiðar eiga það sameiginlegt að það er raunverulegt afl að baki þeim, og að þær svipti einstaklinga frelsi á einn eða annan hátt, sem telst flokkast sem norn. Nornin á Íslandi í dag er hinn svokallaði útrásarvíkingur, sem hefur að mati þjóðfélagsumræðunnar farið geyst, verið óábyrgur í framsækni sinni og sýnt óreiðu þar sem óreiða má ekki vera til staðar. Upphafsmaður þessara nornaveiða, ef nornaveiðar má kalla, af virðingu við allt það fólk sem hefur verið fórnarlömb raunverulegra nornaveiða, var Davíð Oddsson, þegar hann sagði að þjóðin ætti ekki að borga skuldir óreiðumanna. 

 


 

Það sem sameinar útrásarvíkingana er:

  • Mikill veraldlegur auður og lúxuslíf
  • Lítil samfélagsleg eða siðferðileg vitund
  • Gífurlegar skuldir sem falla á íslenska framtíð

Sé þessum skilyrðum náð, getur viðkomandi talist útrásarvíkingur og réttilega má segja að viðkomandi eigi inni hjá þjóðinni lítið annað en afar mikla réttláta reiði, sem vissulega getur sprungið út í grimmd einhverra einstaklinga gagnvart útrásarvíkingunum.

Lýður minntist á að eigendur bankanna hafi verið sakaðir um bankarán, en bendir á að engin lög hafi endilega verið brotin. Það er nákvæmlega þetta sem tryllir óstöðugan, að hægt sé að fremja bankarán löglega og gera eigin þjóð gjaldþrota án þess einu sinni að skammast sín fyrir það, og ætlast síðan til þess að þjóðin borgi viðkomandi skaðabætur fyrir skaðann sem viðkomandi hefur hugsanlega valdið sjálfur með glæfralegu framferði.

Það er ekki verið að stunda nornaveiðar gagnvart útrásarvíkingum. Fólk er hins vegar byrjað að taka réttlætið í eigin hendur, þar sem því finnst réttlætinu ekki fullnægt af ríkisvaldinu, og sé það staðreyndin, þá er það vissulega áhyggjumál og þýðir að ríkisvaldið ætti að leggja meira á sig og flýta málsmeðferð, ekki aðeins til að tryggja eigin tilvist, heldur til að vernda bæði þjóðina og útrásarvíkingana. Útrásarvíkingar munu sjálfsagt ekki getað gengið öruggir um íslensk stræti fyrr en réttvísin hefur tekið á þeirra málum og dæmt þá af réttsýni.

 


 

Dómstóll götunnar er aldrei réttlætanlegur, en dómstóll götunnar er ekki það sama og nornaveiðar, þar sem að nornaveiðar eru skipulagðar ofsóknir af hendi fyrsta valds þjóðarinnar, áður var það kannski Kirkjan, en nú er það Ríkið sem fer með slíkt vald. Bloggarar stunda fyrst og fremst skoðanaskipti og upplýsingamiðlun, jafnvel áróður, og sem slíkir fara þeir ekki með nægilegt vald til að stunda nornaveiðar.

Ef Ríkið aftur á móti tæki þá ákvörðun að loka alla auðmenn inni og frysta allar eigur þeirra, þá værum við að tala um allt annað mál.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju taka menn minna mark á nafnlausu bloggi? Er það ekki innihaldið sem skiptir máli? Eru Íslendingasögurnar lélegar af því höfundur er óþekktur? Þjóðlögin? Eru leynilegar kosningar ómarktækar?

Er ekki mannsandinn og menningin meira og minna nafnlaus?

marat (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 09:53

2 identicon

Aðeins á sveitaskerinu íslandi eru menn að abbast út í nafnlaus blogg, við erum á sveitasímastiginu.

Reyndar var ég með smá "nornaveiðar", krækti í eina meinta norn og var bannaður fyrir :)

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 10:41

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góð athugasemd.

Nafnleysið getur verið misnotað til að koma fram villandi eða röngum upplýsingum. Nafnleysið eru í raun upplýsingar sem enginn getur rakið til höfundar, og þar af leiðandi verða slíkar upplýsingar aldrei notaðar sem heimild.

Slíkt blogg gufar einfaldlega upp og verður marklaust, hvort sem manni líkar betur eða verr, held ég.

Mannsandinn og menningin er alls ekki nafnlaus, heldur byggja á nafngreindum einstaklingum. Það er múgurinn sem er nafnlaus, en hann er líkari skrímsli en anda.

Held ég...

Hrannar Baldursson, 31.8.2009 kl. 10:43

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

DoctorE: Jú, sjáendur hefðu sjálfsagt flokkast sem nornir á miðöldum. Varstu bannaður vegna skoðana þinna eða vegna þess hvernig þú komst þeim á framfæri?

Hrannar Baldursson, 31.8.2009 kl. 10:45

5 identicon

Nafn, eða ekki nafn skiptir nákvæmlega engu máli.

 Fólk á að geta lesið innihaldið, án þess að meta það út frá hver skrifar það.

En það er greinilega að éta þessa menn lifandi  að geta ekki keypt bloggið, og stjórnað því.

 Fjölmiðlar á íslandi eru handónýt áróðursverkfæri útrásarvíkinga, og eina aðhaldið sem þeir fá í dag, og hið opinbera er frá bloggurum.

Það er bara ísköld staðreynd, en afar óþægileg fyrir marga.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 10:45

6 identicon

Það var þetta með samfélags- og siðferðisvitundina.

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur átt blómaskeið s.l. hálfan áratug eða svo. Kostað af FL Group / Stoðum.

Hugmyndir um að byggja tónlistarhús hafa verið að velkjast í kerfinu áratugum saman þangað til Björgúlfur tók það upp á sína arma.

Bygging barnaspítala hringsins var að hluta fjármögnuð af DeCode. 

Næstum hvert einasta íþróttafélag á landinu var á spenanum hjá Kaupþingi.

Næstum allir menningarviðburðir voru kostaðir af einhverri grúppu á tímabilinu 2005 - 2008. 

Svo mætti lengi telja. 

Við verðum greinilega að breyta skilgreiningunni á útrásarvíkingi eitthvað...

Grímur (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 11:08

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

Grímur: samfélagsvitund er eitt, siðferðisvitund er annað.

Hrannar Baldursson, 31.8.2009 kl. 11:17

8 identicon

Góður pistill. Nafnlausir bloggarar nota frakkari stíl. Ég hef svo sem ekki lokað eða gramist nafnleysið. Til er einn flokkurinn enn, nafnkenndir sem sóðast í athugasemdum annarra en blogga ekki. Blogg þeirra stendur autt. Það er óværa að fá heimsókn frá slíkum líkt og ég fékk í gær. Þessi samantekt er fróðleg einkum þeim sem síðar munu skoða þetta fyrirbæri, bloggið.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 11:55

9 identicon

Ég var bannaður vegna þess að geðsjúkdómar eru svo mikið tabú á íslandi.
Mér skilst að stór hluti þjóðarinnar gangi fyrir geðlyfjum.. en að segja að einhver sé geðsjúkur, þá verður allt vitlaust... þó svo að um 100% sannleika sé um að ræða... þó svo að meintur geðsjúklingur hafi sjálfur komið sér í kastljósið.. og gat alveg átt von á að margir/flestir myndu segja að þarna væri geðsjúklingur á ferð.

Norski forsætisráðherran er geðsjúkur, hann kom fram og sagðist vera geðsjúkur.
Slíkt myndi aldrei ganga upp á íslandi, þar sem fordómar gegn geðsjúkum rísa í hæstu hæðir.
Ég var bara heiðarlegur... það voru fordómar gegn geðsjúkum sem fékk mbl til að loka á mig.

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 12:23

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

DoctorE: Reyndar held ég að geðsjúkdómagreining, jafnt sem önnur sjúkdómagreining, sé trúnaðarmál á milli læknis og sjúklings.

Það er eins og stundum sé beinlínis rangt að vera heiðarlegur, sem gerir strax ansi flókið að hafa sannleikann sem meginviðmið.

Það er hins vegar spurning hvort að þú hafir vitað að viðkomandi manneskja hafi verið greind geðveik, og hvort að upplýsa megi um slíkt á opinberum vettvangi án samþykkis viðkomandi.

Þetta er flókið... sérstaklega þegar hinir geðveiku eru byrjaðir að misnota sér aðstöðu sína og hafa geðveikisleg áhrif á samfélagið.

Hrannar Baldursson, 31.8.2009 kl. 12:31

11 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Þjóðin var að vakna, eftir langan dvala. En það kemur ekki á óvart að sumum bregði við og vilji svæfa hana hið snarasta. Það er erfiðara að athafna sig undir smásjá...

Hins vegar þótti mér miður hvað Þóra átti erfitt með Lýð í umræddu viðtali. Hann snéri henni svoleiðis um fingur sér að hún varð eiginlega sammála öllu sem hann sagði... Ég var með kjánahroll dauðans allt viðtalið. Ég hefði viljað sjá Sigmar tak'ann..

Aðalheiður Ámundadóttir, 31.8.2009 kl. 15:53

12 Smámynd: Hrannar Baldursson

Aðalheiður: Mér fannst hún standa sig ágætlega, spyrja opinna spurninga, vera með staðreyndir á hreinu. Það er varla hægt að búast við meiru.

Hrannar Baldursson, 31.8.2009 kl. 16:03

13 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Góður pistill Hrannar,

Hef haldið því fram að bloggið sé rödd "sófasamfélagsins" sem alltaf hefur verið til og stundað umræður, rökræður, ofstopa og allt þar á milli, innan veggja heimila, en þegar sófafólkið stóð upp og hugðist malda í móinn hér áður fyrr, mætti þeim  ósýnilegur veggur umburðarlyndis, og svona-er-þetta-bara-sættu-þig-við-það viðhorfum.

Bloggasamfélagið er álíka bylting og sjónvarpið var á sínum tíma, í þjóðfélags og stjórnmálaumræðu.

Stórkostlegt tækifæri fyrir stjórnmálamenn að skynja þjóðarsálina.

Þess vegna má vel færa rök fyrir því að bloggið sé nokkurs konar 6th sense eða sjötta valdið. 

Nafnlaus blogg, valda engu hugarangri, ef almennir mannasiðir og háttvísi er ástundað.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 31.8.2009 kl. 17:00

14 Smámynd: Hrannar Baldursson

Jenný: Örugglega rétt hjá þér að nú séu sófamálin og hádegisverðarspjallið inn á bloggið. Þegar ég hugsa um nafnlausa bloggið, þá veldur það mér heldur engu hugarangri, ég get einfaldlega ekki tekið mark á því, hugsanlega vegna þjálfunar minnar í rökfræði og gagnrýnni hugsun, en mikilvægur þáttur í gagnrýnni hugsun er að velta fyrir sér áreiðanleika upplýsinga.

Hrannar Baldursson, 31.8.2009 kl. 19:13

15 identicon

Nú ertu að tala út úr korti kallinn.
Ef þú ert að ganga fram af björgum og nafnlaus maður kallar: Halló passaðu þig, þú ert að ganga fram af bjargbrún...

En svona í alvöru, menn geta vel spjallað saman og rökrætt um allt á milli himins og jarðar án þess að vita hvað viðmnælendur heita.
Persónulega hef ég verið á spjallborðum um heim allan frá því að slíkir möguleikar fóru að bjóðast, ég hef ekki minnstu hugmynd um hvað flest það fólk sem ég tala við heitir, veit bara að það býr á jörðinni með mér... eða líklega býr það hér líka.
Ég er á vísindaforums.. alsskonar forums... og það bara spáir ekki nokkur maður í þessu

DoctorE (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 20:23

16 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er meira en upplýsingar um eitthvað sem geta komið fram á nafnlausu bloggi. Þar geta líka komið fram pælingar. Fyrir t.d. heimspekilegri athugasemd þarf ekki að geta heimilda. Þær eru annars eðlis. Margt annað kemur til greina. Nafnlaust blogg getur innihald fullkomlega markverða hugsun þó það sé nafnlaust.

Sigurður Þór Guðjónsson, 31.8.2009 kl. 21:21

17 Smámynd: Hrannar Baldursson

DoctorE og Sigurður Þór: Það má bara vel vera að það sé heilmikið til í þessu hjá ykkur. Ég er tilbúinn að bakka aðeins og segja að gagnrýnar pælingar sem byggja reyndar á réttum upplýsingum geta verið mikils virði þrátt fyrir nafnleysi. Hins vegar felst ákveðin hætta í nafnleysinu, þar sem menn geta farið of geyst. Aftur á móti er líka hætta í að gefa upp nafn, þar sem að þá dregur viðkomandi hugsanlega úr því sem þarf að segja, og kveður kannski ekki nógu skýrt að orði. Ég er tilbúinn að endurskoða hug minn um þetta atriði, enda færið þið ágæt rök fyrir ykkar máli. Og vissulega get ég haft rangt fyrir mér, eins og allir aðrir, er meðvitaður um það - og tel að þarna hafi vantað svolítið upp á góða skoðunarmyndun hjá mér. Takk fyrir ábendinguna!

Hrannar Baldursson, 31.8.2009 kl. 21:54

18 Smámynd: Sævar Einarsson

Ef enginn væri nafnaleyndin væru öll stórkostlegustu spillingarmál heimsins ennþá ofan í skúffu, svo einfalt er það, nafnaleynd er nauðsynleg hvar sem er og hvenær sem er.

Sævar Einarsson, 31.8.2009 kl. 22:38

19 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það sem stendur eftir er að Lýður Guðmundsson hefur þá hugsanlega haft rétt fyrir sér með að nafnlausir bloggarar séu að stjórna þjóðfélagsumræðunni. Afar áhugavert. Ég hef lært töluvert á þessari bloggfærslu. Kærar þakkir.

Hrannar Baldursson, 1.9.2009 kl. 06:19

20 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ef nafnleysi er svona mikilvægt fyrir lýðræðislega umræðu þá er það enn alvarlegra að Mbl. is skipar þeim meðvitað og mjög ákveðið skör lægra en öðrum bloggurum. Á Moggablogginu eru þeir nánast ósýnilegir ef þeir gefa ekki upp nafn sitt sem ábyrgðarmanns opinberlega. En Mbl. is veit alltaf nöfnin þó þeir séu nafnlausir. Ég held að það sé fráleitt að nafnlausir bloggarar stjórni ekki þjóðfélagsumræðunni. Það gera fjölmiðlar, stjórnmálaflokkar og bloggarar einhvern veginn í sameiningu. Flestir blogga undir nafni og langflestir mikið lesnir bloggarar. Það er erfitt að nefna einn einasta nafnlausan bloggara sem er vel þekktur eftir að Mengelu leið. Margar athugasemdir eru samt nafnlausar og þegar þær safnast saman geta þær mótað blæinn í  bloggumræðunni.

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.9.2009 kl. 14:04

21 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þessu orði ''ekki'' er ofaukið á sínum stað, það á að vera: sé fráleitt að nafnlausir bloggarar stjórni þjóðfélagsumræðunni. Pirrandi að gera svona villur!

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.9.2009 kl. 14:06

22 identicon

Um heim allan fer fram mikil frelsisbarátta með nafnlausum bloggum.. ekki síst í löndum íslam.
Erlendis er mönnum ráðlagt að nota ekki nafn, sérstaklega ef talað eru um viðkvæm mál eins og trúmál.
Nafnlausir bloggarar hafa komið upp um mikla spillingu um allan heim, það er eitthvað sem flestir hefðu ekki getað nema undir nafnleynd.

MBL er að hindra málfrelsi og annað þegar þeir sýna ekki þá sem eru "nafnlausir" á sínum síðum.... mbl hefur kennitölur og alles, þeim er í lófa lagt að ná til þeirra sem hér blogga.
Ég hef heldur ekki tekið eftir því að nafnlausir bloggarar séu eitthvað verri en aðrir bloggarar hér... bara sorry.
Mbl flaggar líka mörgum miður kræsilegum bloggurum á sinni forsíðu, mönnum sem vilja hindra mannréttindi einstakra hópa.. og bera fyrir sgi biblíu og annað rugl.

Mbl er auðvitað frjálst að setja sínar reglur eins og þeir vilja, en klárlega eru þessar reglur ekkert nema óreglur og vitleysa.
Ef mbl vill verða partur af nýju íslandi þá ber þeim að endurskoða þessar reglur... ef þeir gera það ekki þá er bara hægt að taka það sem að þeir vilji ekki vera partur af nýju íslandi

Peace

DoctorE (IP-tala skráð) 1.9.2009 kl. 14:22

23 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það kom e.t.v. eitt markvert út úr þessu viðtali við Lýð eftir allt saman!

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.9.2009 kl. 22:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband