Hvaða bresti í íslensku samfélagi afhjúpa atburðir haustsins 2008?

 

pallskula_1779986519

 

Þessarar spurningar og annarra spurði Páll Skúlason á framsögu sinni í kvöld, á fundi Félags áhugamanna um heimspeki, en þeir Ólafur Páll Jónsson héldu áhugaverð erindi og hvöttu til spurninga utan úr þéttsettnum sal heimspekinga, sem margir hverjir deildu afar áhugaverðum vangaveltum með hópnum. Björn Þorsteinsson stýrði fundinum á líflegan og skemmtilegan hátt. 

Í spurningunni er vísað til bankahrunsins og fjármálakreppunnar.

Það svar sem mér dettur helst í hug, án langrar umhugsunar, en samt með einhverri íhugun, tengist jafnvægisleysi í samfélaginu. Þetta jafnvægisleysi má sjálfsagt skýrast finna í tölum tengdum launum einstaklinga, en fáeinir Íslendingar hafa verið að fá laun á við tugi, hundruði eða jafnvel þúsundir íslenskra verkamanna. 

 

cv_slavery_04071

 

Íslenska þjóðin mun þurfa að borga laun þessarra fáu einstaklinga eftirá, í nafni fjármálahruns og kreppu. Þetta er kannski ofureinföldun á ástandinu, en hugsanlega kjarninn. Það er ómannúðlegt að manneskjur sem hafa vogað sér að kaupa íbúð á lánum sjái nú fram á að verða stórskuldug til æviloka, eða gjaldþrota.

En hvað olli þessu jafnvægisleysi?

Ég held að svarið felist í ofsatrú á árangri, hvernig hann var skilgreindur, hvaða leiðir voru farnar að honum og hvernig leiðirnar (eða kerfin) voru misnotaðar.

Það virðist vera hægt að réttlæta hvað sem er bara ef það tengist góðum árangri. Það er yfirleitt gott að ná árangri, en hins vegar getur árangur innbrotsþjófs verið góður fyrir hann sjálfan, illur fyrir þann sem tapar eigum sínum, og hann er svo sannarlega illur sem meginregla fyrir heildina. Það þykir jafnvel sjálfsagt að selja vel rekin fyrirtæki skili salan skammtímamarkmiðum fyrir eigendur, starfsmönnum engu og heildinni ekki neinu heldur.

Árangur er eitthvað sem við setjum okkur með markmiðagerð. Sama hvert markmiðið er, dæmum við árangur eftir því hversu nálægt því við komumst. Rétt eins og við dæmum nammi sem gott af því að það bragðast vel um stund, og annað nammi betra af því að það er svo miklu betra á bragðið en eitthvað annað nammi. Samt er nammi ekkert gott fyrir þig.

Til að ná enn betri árangri búum við svo til alls konar kerfi: vegakerfi, skólakerfi, flugumsjónarkerfi, bókhaldskerfi, símkerfi, og jafnvel kerfi um hvernig best er að hugsa. 

Smám saman förum við að treysta á kerfin, og höfum tilhneigingu til að trúa að þau séu góð í sjálfum sér einfaldlega vegna þess að þau skila margföldum árangri og virðast engan skaða. En svo gerist það að kerfin verða svo stór að enginn einn einstaklingur getur haldið utan um þau, og  hóp af einstaklingum þarf til þess að reka þau.

 

 

LA-Freeway-400
 

 

Vegakerfi eru dæmi um þetta. Eyðileggist partur af vegi og hætti eftirlitsaðilar að sinna honum er líklegra að slys geti átt sér stað. Verði bílhræ eftir slys ekki hirt upp er enn líklegra að það valdi frekari slystum. 

Til að einstaklingarnir geti unnið vel saman fyrir framgang kerfisins, þarf að búa til annað kerfi utan um starfsgrundvöll þeirra, þetta kerfi má líka kalla fyrirtæki eða stofnun. Þetta verður til þess að hópurinn verður þjónn kerfisins, á meðan kerfið er þjónn stærri heildar. Ef við töpum hins vegar sýn á það hver hefur valdið, og til hvers kerfið er, og hvort það skili einhverju góðu til heildarinnar, frekar en hópa eða einstaklinga, þá höfum við gefið kerfinu vald yfir okkur, vald sem getur reynst erfitt að stöðva.

Við vitum að mannleg hönd þarf að hlúa að kerfinu þannig að það virki vel. Hvað ef hin mannlega hönd ákveður að misnota aðstæður sínar og nota kerfið fyrir eigin hagsmuni eða hagsmuni ákveðins hóps, frekar en fyrir heildina? Þá er ljóst að kerfið spillist.

 

 


 

Ef ráðherra ákveður að hlíta ekki lögum og bera fyrir sig að vald hans eitt og sér réttlæti eigin lögbrot, þá erum við að tala um spillt kerfi.

Ef stjórnandi símkerfis ákveður að breyta símanúmerum hjá viðskiptavinum án þess að láta þá vita, og réttlætir það með valdi yfir símakerfinu, þá erum við líka að tala um spillt kerfi.

Ef kennari ákveður að gefa nemanda sem honum líkar vel háar einkunnir bara vegna þess að honum líkar vel við hann, þá erum við að tala um spillt kerfi.

Ef umferðaljós bilar og sýnir alltaf grænt, þá erum við með spillt kerfi.

Spillt kerfi eru ónothæf.

Því miður hafa birtingarmyndir spillingar birst í íslensku stjórnkerfi og í bankakerfinu nokkrum mánuðum fyrir hrun. Spillingin þýddi að kerfið var ónothæft og þar af leiðandi var hrun óumflýjanlegt. Þannig að brestirnir sem afhjúpaðir voru í íslensku samfélagi tengjast ofsatrú á kerfum, og ekki nóg með það, heldur trú á að spillt kerfi geti virkað. Sumir trúa þessu greinilega ennþá og banda frá sér öllum gagnrýnisröddum.

 

 

we-are-all-in-the-gutter-but-some-of-us-are-looking-at-the-stars-59682
 

 

Til að líta fram á bjartari tíma er ljóst að það þarf að laga þessi kerfi. Það þarf að hreinsa út allt það óhreina, það bilaða, spillinguna, og þegar það er frágengið og kerfið farið í gang aftur, þá þarf að hlúa að því og gæta þess að það vinni áfram, en með mannlegri umönnum og skýrum markmiðum, ekki aðeins fyrir einstaklinga eða hópa, heldur heildina.

Fyrir íslenskt samfélag er þessi heild það sem Páll Skúlason kallar almannaheill, ef ég skil hann rétt. Hvað almannaheill er nákvæmlega, það er önnur pæling.

Þú hefur kannski eigin svör við spurningunni? Ef svo er, væri áhugavert að heyra þau.

 

Myndir:

Páll Skúlason:  Ferðafélag Íslands

Þrældómur: What Haven't You Heard Lately?

Vegakerfi: I like

Brennandi hús má bíða: Blue Economics

Oscar Wilde tilvitnun: bestuff

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mama G

Sæll Hrannar, alltaf gaman að kíkja í heimsókn til þín, skemmtilega pælingar í gangi.

Ég tók samt eftir því að þú settir ofurlaun einstaklinga og fjármálahrunið í samhengi og að við séum að borga þessi laun eftir á út af því... jæja, þennan kafla skildi ég ekki alveg.

Fjármálakreppan er til komin vegna yfirgengilegs vöxt lána á undanförnum tveimur áratugum eða svo. Þessi lán voru að stórum hluta lán sem ekki voru tekin til að auka hagvöxt heldur til einkaneyslu.

Það er t.d. "gott" fyrir samfélagið þegar fyrirtæki tekur lán fyrir nýrri verksmiðju og að framleiðsla þeirrar verksmiðju stendur svo undir láninu síðar meir og skilar aukinni framleiðslu og frekari tekjum í þjóðarbúið.

Það er hins vegar ekkert gott við það að einstaklingar séu með mikið af "óþarfa" lánum, t.d. utanlandsferðir, raðgreiðslur, yfirdrætti, kreditkortaskuldir og þar fram eftir götunum því slík lán eru ekki að skapa neitt sem stendur undir afborgum lánanna heldur eykur bara kostnað í samfélaginu í heild.

Þessi "slæmu" lán hafa hrannast upp í hagkerfinu undanfarna 2 áratugi og það er aðallega þaðan sem ójafnvægið skapast og veldur því að allt hrynur og við upplifum kreppu, ekki beint það að einhver einstaklingur hafi fengið fleiri hundruð millur í laun og bónusa, án þess þó að ég sé eitthvað sérstaklega að mæla með eða gegn því eða draga í efa að það hafi tæplega haft góð áhrif á jafnvægi hagkerfisins.

Mama G, 8.1.2009 kl. 10:34

2 Smámynd: Ómar Ingi

Góður

Ómar Ingi, 8.1.2009 kl. 18:32

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Takk Ómar.

Sæl Mama G og takk fyrir innlitið. Ég get útskýrt betur. Ofurlaun eru að mínu mati ekki 1 eða 2 milljónir á mánuði, þó að það séu hörkugóð laun, heldur 10 milljónir eða meira. Ég beini skoti mínu að þeim sem höfðu gífurlegar tekjur af hagnaði þeim sem bankarnir sýndu.

Svona sé ég þetta fyrir mér:

1) Tuttugu og fimm ára hjón flytja til Íslands eftir nám erlendis. Þau vilja búa á Íslandi og komast að því að það er enginn leigumarkaður. Þau sjá sig tilneydd til að kaupa fasteign. Eina færa leiðin er að kaupa með 90% láni.

2) Þetta 90% lán er metið á 25 milljónir, sem er veðsetning, sem bankinn getur notað sem greiðslutryggingu. Ég veit ekki nákvæmlega hvað hægt var að fá há lán á móti 25 milljóna króna veðsetningu, en mér kæmi ekki á óvart þó að sú upphæð væri um 250 milljónir. 

3) Tekið er lán í botn, þessar 250 milljónir, og keyptar fyrir þær ýmsar fasteignir heima og erlendis. Kaupin á þessum eignum teljast til hagnaðs fyrir bankann, og þeim gróða er útdeilt reglulega í formi ofurlauna.

4) Þegar kemur að skuldadögum og ljóst er að fasteignirnar sem keyptar voru, voru hugsanlega ofmetnar, og nauðsynlegt er að borga af láninu, með vöxtum - sem reynist sérlega erfitt þegar lánsfjárkreppa sem nær um allan heim kemur inn í spilið, þá er ljóst að einhvers staðar þarf að ná í aur.

5) Tilvalið gæti verið að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir allt tiltækt lausafé í krónum, því að ljóst er að þegar bankarnir geta ekki lengur borgað af lánunum, þá mun íslenska hagkerfið hrynja og krónan sökkva. Þá verður gott að eiga evrur. Þetta var ekki spurning um hvort, heldur hvenær, og tákn voru á lofti.

Hugsanlega er mín sýn eitthvað brengluð, enda er ég ekki hagfræðingur. Ég býð hverjum sem er að útskýra hvar ég fer út af réttri leið. En þannig skil ég þetta, og væri bara þakklátur ef misskilningur verði lagfærður sé misskilningur til staðar á annað borð.

Hrannar Baldursson, 8.1.2009 kl. 19:40

4 Smámynd: Mama G

Sæll aftur Hrannar,

það er margt til í þessum pælingum hjá þér, en samt enn nokkrir punktar sem mér finnst óljósir, t.d.:

2) Þetta 90% lán er metið á 25 milljónir, sem er veðsetning, sem bankinn getur notað sem greiðslutryggingu. Ég veit ekki nákvæmlega hvað hægt var að fá há lán á móti 25 milljóna króna veðsetningu, en mér kæmi ekki á óvart þó að sú upphæð væri um 250 milljónir. 

Ókey, ertu að meina að bankinn sé þarna að fá mögulega 250M lán út á 25M veðsetningu? Ef svo er þá er það sennilega byggt á einhverjum misskilningi. Bankinn fær ca. sömu fjárhæð í lán á móti, jafnvel eitthvað minna en 25M þar sem hann er bundinn skilyrðum um ákveðið eigið fjár hlutfall.

Það sem bankinn græðir á er að láta kúnnann borga 5% vexti af húsnæðisláninu en nær að fjármagna sig á móti kannski á 3% (fer eftir mati á bankanum hvað hann getur fjármagnað sig á góðum kjörum, t.d. frá Moodys).

Það er svo þessi vaxtamunur sem bókast sem tekjur í bankanum. Gildir fyrir öll viðskipti sem banki gerir, gróðinn á að koma frá vaxtamismuni, þjónustugjöldum, þóknunum og jú, á Íslandi getur líka orðið til bókhaldslegur hagnaður vegna gengismismunar þar sem ekki er gert upp í EUR eða USD eða þess háttar myntum.

Já, og eitt að lokum. Hagnaður íslensku bankanna kom að litlu leyti frá einstaklingslánum, á að giska 20-25% voru tekjur af lánum til einstaklinga (ekki bara íbúðarlán, öll lán til einstaklinga).

En já, þetta spilar allt saman í heildarútkomuna, ofurlaunin meðtalin. Bónustengd laun bjóða alltaf hættunni heim um að beita öllum ráðum til að auka tekjur

Mama G, 9.1.2009 kl. 09:19

5 Smámynd: Héðinn Björnsson

Eftir þjóðarsáttarsamningana hætti Ísland að framleiða stjórnmálaleiðtoga. Þess vegna sitjum við uppi með flokka sem í sjálfu sér væru ekki svo slæmir ef eðlileg útskifting hefði orðið í þeim. Ég veit ekki nóg um hvað eiginlega gerðist í þessum samningum en það er óhugnarlegt að það virðist hafa gert landið afhuga stjórnmálum eða sameiginlegum baráttumálum. Hver fór að berjast fyrir sínum málum og nú kemur svo bersýnilega í ljós hve mikið við eigum undir hvort öðru. Við leyfðum einstaklingshyggjunni að keyra út í yfirgengilegar öfgar með þeim afleiðingum að nokkrir einstaklingar áttu allt og við hin fengum náðasamlegast að horfa á meðan þeir leystu til sín allt af verðmæti og drekktu okkur í skuldum. 

Við verðum að muna eftir að ríkidæmi er ekki til í einsemd. Við erum ekki ríkari en samfélagið sem við búum í ræður við. Haldið þið í alvörunni að það sé gott líf að búa í vörðu húsnæði eyðandi illa fengnu fé í lúxus vitandi að maður eigi ekki færi á að komast heim til Íslands af því öll þjóðin manns hati mann og vita að sökin er mans eigin? Ekki vildi ég skifta við Jón Ásgeir.

Við þurfum að læra það sem var Íslendingum eðlislægt fyrr á tíðum; að vinna að uppgangi samfélagsins í sameiningu. Ég hef 5 tíma á viku að gefa í samfélagsmálefni og hef valið mér vettvang. Hvað getur þú gert?

Héðinn Björnsson, 13.1.2009 kl. 23:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband