Góður vilji: takmarkalaus uppspretta hins góða í heiminum

„Það er ekkert hægt að hugsa sér í heiminum né utan hans sem talist getur verið gott án takmarkana, annað en góður vilji.” - Immanuel Kant, Grunnur að frumspeki siðferðinnar.

Ég oft velt fyrir mér hvernig maður getur þekkt muninn á því sem er gott og illt annars vegar, eða algjörlega hlutlaust hins vegar, og ég er á því að Kant hafi slegið naglann á höfuðið þegar hann sagði að ekkert annað en góður vilji væri gott takmarkalaust. 

Annað er að ég held að hið góða, illa og hlutlausa sé ekki eitthvað sem liggi í hlutum, atburðum, öðrum manneskjum, guðlegum verum eða skröttum, heldur eitthvað sem við höfum í huga okkar, sem við ákveðum sjálf út frá því hvernig við skiljum heiminn og sjálf okkur.

Siðfræði er stórkostleg fræðigrein. Hún fjallar um að rannsaka nákvæmlega þetta, hvað er hið góða, hún getur reyndar líka skoðað fleiri hluti eins og hið rétta og hamingjuna, en hið góða er í stórum fókus. Hvernig áttum við okkur á hvað er gott og hvað er ekki gott, og hvað er hvorugt? 

Veltum fyrir okkur hlutum eins og sanngirni, réttlæti og umhyggju? Finnst þér gott að fólk sé sanngjarnt, réttlátt og umhyggjusamt? Ef svarið er já, þá veistu eitthvað um það hvað er gott, og þín leið til að vera góð manneskju að einhverju leyti er að æfa þig í að vera sanngjörn, réttlát og umhyggjusöm manneskja.

Hefurðu velt fyrir þér hvernig vilji þinn hefur áhrif á annað fólk? Hvernig það hefur góð áhrif á annað fólk ef þú ert sanngjörn, réttlát og umhyggjusöm manneskja, og hvernig heimurinn væri öðruvísi ef þú væri ósanngjörn, ranglát og kærulaus manneskja? Ég mæli með að horfa á kvikmyndina “It’s a Wonderful World” til að fá skemmtilegt dæmi um þetta. Hugsaðu um muninn á manneskju sem hjálpar öðrum og þeirri sem skaðar aðra. Sjáum við þar muninn á góðu og illu, eða er hið góða aðeins það þegar við högum okkur í samræmi við það sem hjálpar öðrum og ill ef við högum okkur í samræmi við það sem skaðar aðra? Þurfum við þá kannski að velta fyrir okkur hvernig hegðun og hugsunarháttur hjálpar, og hvernig hegðun og hugsunarháttur skaðar? Góður vilji þarf samt alls ekki að hugsa einungis um aðra, hann leitar jafnvægis á milli sjálfs sín og annarra.

Einnig getum við skoðað tilfinningar okkar. Sjáum við að við höfum samúð með öðru fólki, að við leitum skilnings á aðstöðu annarra, að við sýnum kærleika í verki? Eða erum við bara hrædd, fúl og eigingjörn? Getum við stjórnað því hvernig okkur líður? Getur verið að góður vilji sé áttaviti að góðri líðan?

Það getur verið gott að hlusta á hvað aðrir segja, fá umsagnir um hvernig við högum okkur, jafnvel hvernig við hugsum, tölum eða skrifum. Ég veit að minn eigin hugur fer stundum eigin leiðir, líka í þessum hugrenningum sem ég leyfi mér að birta á blogginu, og mér finnst ég vera svolítið nakinn fyrir framan alþjóð, að birta hugsanir sem ég hef ekki grandskoðað, heldur renna aðeins létt um huga minn og í orð; en ég finn samt að það gerir mér gott, og ef það gerir mér gott, þá held ég að það gæti gert einhverjum öðrum gott ef ég birti þessar pælingar.

Já, annars er það nokkuð viðeigandi að velta fyrir sér hvernig góður vilji er rót alls hins góða í þessum heimi, sérstaklega núna þegar jólin eru að renna í garð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband