5 mínútur til að bjarga því sem bjargað verður

hrannar._Create_a_very_imaginative_picture_of_a_road_breaking_a_5075450f-0c05-48ee-9d5d-0046312d966e

Nauðsynlegustu eigurnar sóttar

Dagurinn í dag er dagurinn sem ég fann að ég var háður yfirvaldi meira en oftast áður, og minnti mig svolítið á dag fyrir rúmum 20 árum í Mexíkó þegar hermaður bankaði upp á heima hjá mér, rétti mér sveðju og skipaði mér að höggva tré í sundur sem fallið höfðu á göturnar eftir fellibyl.

Um hádegisleytið hafði konan mín símasamband en ég var í vinnu og lét mig vita að opnast hefði tækifæri fyrir okkur til að sækja nauðsynlega hluti á heimili okkar í Grindavík, og að það yrði hleypt inn á okkar svæði klukkan 13:00. Ég lauk kennslu fimm mínútum áður en henni átti að ljúka, kvaddi nemendur mína, sem vissu reyndar að ég hafði verið að bíða eftir slíku símtali, og rauk svo á dyr, upp í bíl og leiðin lá til Grindavíkur, nú gegnum Hafnarfjörð og Krýsuvík, enda allar styttri leiðir ófærar þar sem vegir eru farnir í sundur. 

Ég hitti konuna mína í Hafnarfirði og við fórum á tveimur bílum, lentum í gríðarlegri bílaröð sem silaðist afar hægt áfram. Loks komum við að gatnamótum þar sem einn lögreglumaður sagði okkur að við hefðum sjö mínútur til að fara inn og út af heimili okkar, til að finna og taka með okkur allt það nauðsynlega sem við þurfum á meðan neyðarlögin standa yfir. Næsti lögreglumaður sagði að við hefðum fimm mínútur og að við ættum að keyra að Fagradalsfjalli og leggja þar.

Þegar við komum að Fagradalsfjalli, stoppaði ég hjá Björgunarsveitarmönnum og spurði þá hvernig staðan væri, og þeir sögðu okkur að keyra rakleitt í bæinn og upp að húsinu, að opið væri inn í bæinn til kl. 16:00 en þá þyrftum við að fara aftur út úr bænum. 

Við höfðum skrifað niður Excel lista í tveimur litum yfir forgangsatriði til að klára, og okkur tókst að klára þá og koma okkur svo út úr bænum á góðum tíma. Við náðum ekki bara öllu sem var á listanum, heldur nokkrum munum til. 

En það sem mér fannst sérstakt yfir daginn var hvernig yfirvöldin voru ekki samkvæm sjálfum sér, eins og upplýsingar væru jafn kvikar og hraunflæðið undir Grindavíkurbæ, og ég áttaði mig á að undirbúningur okkar með Excel listanum og innsæið, og það að drífa okkur í verkið, það var nákvæmlega það sem skilaði mestu.

Við vorum staðföst þó að upplýsingarnar voru á reiki.

Út frá því velti ég fyrir mér hvers konar upplýsingar það eru, eða ákvarðanir, sem við ættum að fallast á, án gagnrýnnar hugsunar, og fékk nokkur svör við þeirri spurningu eftir frekar stutta umhugsun. 

Við þurfum ekki að biðja yfirvöld um leyfi eða heimild þegar við veljum liti til að mála málverk, heldur veljum við aðeins þá liti sem okkur líst best á þá stundina, og út frá hugmynd okkar um það sem okkur langar að mála. Kannski verður okkar eigin hugmynd þá yfirvaldið og heimildin í þessu tilfelli.

Eins þegar við ákveðum hvaða tónlist við hlustum á. Við gætum látið Spotify velja tónlistina fyrir okkur, en ég heyrði af manni um daginn sem sagðist viljandi forðast það að láta Spotify velja fyrir sig, því hann vildi ekki trúa því að hann væri algjörlega fyrirsjáanlegur þegar kæmi að tónlistarsmekk, og hann vildi uppgötva eftirlætis tónlist sína sjálfur.

Eftir að hafa orðið að flóttamanni í eigin landi þá kann ég ekkert meira að meta en tvennt: að hafa öruggt þak yfir höfuðið og ræða við vingjarnlegt fólk. Þegar ég fór í Smáralind í gær að leita mér eftir fötum, því þau sem ég var í voru orðin svolítið þreytt eftir flóttann, þá kom mér skemmtilega á óvart hversu vel sumir starfsmenn verslana tóku á móti okkur. Í Dressman var okkur boðið upp á 30% fyrir það eitt að vera í neyð, Símaveski.is gáfu Grindvíkingum hleðslutæki, og síðan hefur fjöldinn allur af fyrirtækjum fylgt í kjölfarið og boðið upp á afslætti fyrir okkur. Velvildaróskum rignir yfir okkur, ekki aðeins frá íslenskum vinum og kunningjum, heldur einnig frá vinum úr öllum heimshornum. 

Á þessum dögum fáum við að sjá það besta í fólki, og ég er þakklátur fyrir það, en óska þess jafnframt að þessi hlið væri sýnileg í orði okkar og verkum alla daga ársins.Það að kunna að meta slíkt þarfnast að sjálfsögðu engrar heimildar eða yfirvalds annars en skilnings okkar og samvisku á hvað það er sem er gott.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband