Breyttu skapinu þínu, breyttu lífinu. 30 daga áskorun!

Epíktet skrifaði fyrir um 2000 árum að ef við misstum stjórn á skapi okkar, eða værum í skapi sem við vildum ekki vera í, þá gætum við breytt því. Hann segir þannig frá aðferðinni sem hann beitti á sjálfan sig í Samræðum sínum: 

“Ef þú vilt ekki vera í slæmu skapi, þá skaltu venja þig af því, aldrei næra slæma skapið með neinu sem getur hjálpað því að vaxa. Umfram allt, haltu ró þinni, og teldu dagana sem þú hefur ekki misst stjórn á skapi þínu. Ég var vanur að missa stjórn á skapi mínu hvern einasta dag, og eftir það annan hvern dag, síðan þriðja hvern dag, síðan fjórða hvern. Ef þú getur haldið þessu áfram á sama hátt í þrjátíu daga, fagnaðu því með einhverjum hætti. Því fyrstu gerum við ávana veikari, og síðan er honum eytt algjörlega.”

Til þess að breyta okkar eigin skaplyndi, þurfum við fyrst að átta okkur á að það er hægt, og síðan átta okkur á hvað það er í okkar skapi sem við viljum breyta. Flest viljum við losna við óþægindin sem fylgja því að missa stjórn á skapi okkar, og þá er ágætt að þekkja þessa 30 daga aðferð. Sama aðferð á við þegar við venjum okkur á nýja hegðun eða af einhverri hegðun sem við viljum losa okkur við. Þetta er ekki auðvelt, heldur krefst sjálfsaga og þess að þessu sé fylgt samviskusamlega eftir í 30 daga. Þá getur gott að fá stuðning frá vinum og ættingjum, og skipuleggja sig vel, setja til dæmis áminningu í símann.

Tilfinningar koma og fara, og skapinu er stjórnað af tilfinningum okkar. Stundum eru þær svo sterkar að þær hrinda okkur um koll og stundum tökum við ekki einu sinni eftir þeim. Erum við alltaf meðvituð um hvort við séum reið, sorgmædd, ánægð, undrandi, eða einhvern veginn? 

Vitum við alltaf af hverju við höfum þær tilfinningar sem við höfum á hverri stundu? Áttum við okkur á því að yfirleitt er aðeins ein ríkjandi tilfinning á hverri stundu, og að við getum skipt henni út fyrir einhverja aðra? Til þess að skipta um tilfinningu þurfum við stundum að breyta til, fara út í göngutúr, kveikja á góðri tónlist, horfa á skemmtilega kvikmynd, skrifa niður hugsanir okkar. 

Eitthvað utanaðkomandi gæti pirrað okkur, eins og jarðskjálftar gera á hverjum degi í Grindavík, þar sem fólk er vakið á nóttunni af þungum drunum sem vaxa og enda svo í skjálfta. Við vitum að við getum ekki stjórnað jarðskjálftum, en við getum stjórnað hvernig við bregðumst við þeim. Það er ekkert endilega auðvelt, en það er það eina sem við getum gert, annað en að koma okkur burt af jarðskjálftasvæðinu.

Við getum stjórnað hvernig okkur líður, við getum vanið okkur á jarðskjálftana, við getum undirbúið okkur með því að bæta við þekkingu um hvað er að gerast, við getum haft nauðsynjar tilbúnar til að bruna í burt ef allt fer til andskotans, og ýmislegt fleira getum við gert til að stjórna okkar eigin áhyggjum. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband