Að rækta eigin garð

girl-535251_1920

Menntakerfi, trúarbrögð og lög eru gerð til þess að vernda fólk frá hverju öðru og leiða það til þekkingar, visku, gæsku, réttlætis, fegurðar, sköpunar, og fjölda dygða sem birtast okkur á ólíkan hátt í lífinu. 

En það eru alltaf einhverjir sem brjóta gegn þessum dyggðugu leiðum, vilja ekki ganga menntaveginn, vilja ekki trúa eins og aðrir, sjá hlutina í öðru ljósi, vilja lifa lífinu á sinn hátt. Aðeins sumir þeirra brjóta gegn öðru fólki, aðrir gera engum mein. Það getur stundum verið erfitt að greina á milli hver er hvað.

Þegar við erum stjórnlaus og áttavillt, förum okkar eigin leiðir, en vitum samt ekkert endilega hvert við viljum fara, þá virðist það tilviljun háð hvort við völdum sjálfum okkur og öðrum skaða. 

Ef við höfum góða sjálfstjórn og mörkum okkur átt í lífinu, þá virðumst við eiga auðveldara með að ná góðum árangri í nánast hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur. Það er þannig okkar val hvort við verðum farsæl eða ekki þó að vissulega geti slys, sjúkdómar og hamfarir truflað og jafnvel rústað þessari för okkar.

Við getum lifað dyggðugu lífi eða ekki. Hugsanlega vitum við ekki að þetta val sé til staðar, en engu að síður er það þarna. Sá sem velur að fara ekki leið dygðarinnar mun lifa lífinu eftir tilfinningu og tilviljunarkenndum skoðunum, líf viðkomandi er líklegt til að fara bara eitthvað. Það er í sjálfu sér lítið um það að segja. Það er kannski vont fyrir viðkomandi til lengri tíma, en ekkert óeðlilegt við það. 

Svo er það hin leiðin, að mennta sig, vera góð fyrirmynd fyrir aðra, og vísvitandi stefna á hið dyggðuga líf, jafnvel taka trú. Það er líka eðlilegt, því við höfum þennan náttúrulega eiginleika að geta lært, geta treyst, geta hugsað sjálfstætt, geta mótað hvert við viljum fara.

En það að rækta ekki dygðina getur leitt til að það verður auðvelt að blekkja þig með samsæriskenningum og lygum, þú verður kannski trúgjarn á sumt og efast um annað, og byggir þessa trúgirni og þessar efasemdir á tilfinningum frekar en rökum. Það er auðveldara að afvegaleiða þig ef þú veist ekki hvert þú ert að fara. Sá sem ræktar ekki dygðina er líklegur til að vera þrjóskur og standa á sínu gegnum þykkt og þunnt, óháð rökum eða betri hugmyndum. Það er huggun harmi gegn.

Sá sem ræktar dygðina aftur á móti hefur vopn í farteski sínu sem gerir það erfiðara en ekki ómögulegt að láta blekkja sig með lygum og blekkingum, því að sá sem hefur ræktað dygðina, hefur leitað hennar, hefur velt fyrir sér hvernig heimurinn er, hvernig hugtök passa saman, hefur skoðað söguna, kynnt sér eðli heimsins og mannfólksins, hlustar og lærir stöðugt og veit að náminu lýkur aldrei enda höfum við séð að forverar okkar sem höfðu minna af áreiðanlegum upplýsingum heldur en við höfum í dag eru líklegri til að hafa haft rangt fyrir sér þegar þá vantaði þessar upplýsingar. Þó að við vitum meira en forverar okkar eigum við samt langt í land.

 

Mynd: Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband