The In-Laws (1979) ***

TheInLaws01Þar sem að Alan Arkin hreppti Óskarsverðlaunin í ár fyrir besta leik í aukahlutverki, þótti mér tilvalið að kíkja á gamla mynd sem hafði hann í aðalhlutverki. Hann stóð sig ekkert síður í The In-Laws heldur en í Little Miss Sunshine.

Alan Arkin leikur tannlækni í New York sem gengið hefur gífurlega vel í vinnunni - hann lifir góðu lífi og vill einfaldlega lifa því áfram í öryggi og ró. Dóttir hans mun giftast í vikunni og hann hefur ekki enn hitt tilvonandi tengdaforeldra hennar. Í fyrsta sinn sem tengdafeðurnir hittast ná þeir einfaldlega alls ekki saman. Vincent segir einhverjar rugl sögur af flugum sem ræna börnum í S-Ameríku, og Sheldon fær nóg af þessari vitleysu og er fljótur að afgreiða kallinn sem klikkaðan.

Það sem Sheldon veit ekki er að Vincent tók þátt í ráni á mótum fyrir 500 dollara seðla, og hefur falið eitt af mótunum í kjallara hans, og ekki nóg með það, leigumorðingjar eru á eftir honum. Vincent ákveður að nota Sheldon til að laumast framhjá þessum krimmum, en það gengur ekki betur en svo að þeir átta sig strax á tengslunum, og þar með hefst mikill eltingarleikur sem endar í S-Ameríku.

TheInLaws03Alan Arkin leikur skynsaman mann sem leiddur er út í mjög erfiðar aðstæður, og tekst að finna hetjuna í sjálfum sér. Peter Falk er góður sem dularfulli ræninginn, sem hefur að sjálfsögðu hjarta úr gulli og nánast dásamar tilvonandi tengdaföður sonar síns. Þeir Falk og Arkin eru frábærir saman í þessari mynd, þeir eiga skemmtileg samtöl og samleik.

Þessi mynd er mun betri en endurgerðin frá 2003 með þeim Michael Douglas og Albert Brooks, og er vís til að tryggja ánægjulega stund við skjáinn.

The In-Laws hefur elst mjög vel. Kvikmyndatakan er flott. Persónurnar léttar og skemmtilegar, og allt er einfaldlega eins og það á að vera þegar um góða grínmynd er að ræða. Eini veikleiki myndarinnar er að hún er engan veginn trúverðug sem birtist skýrast í atriði þar sem þrír menn skjóta á þá félaga úr launsátri án þess að takast að hitta þá einu skoti, einfaldlega vegna þess að þeir hlupu í hringi.

Ekki er öll vitleysan eins, en þessi er skemmtilegri en þær flestar.

Smelltu hér til að lesa gagnrýni um fleiri kvikmyndir.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband