Hvað er svona merkilegt við réttlæti?

 12%20angry%20men
"Hvort viltu efnislegan eða siðferðilegan úrskurð?"

 

Réttlát dómgreind byggir á siðfræði, skynsemi, náttúrulögmálum, trúarbrögðum eða jöfnuði, en ætti sjálfsagt að byggja á sameiningu allra þessara þátta. Þegar brotið er gegn viðteknum reglum, snýst réttlæti um að rétta hið ranga með sanngirni og réttsýni.

Hér er heimfærð dæmisaga um réttlæti. Túlki hver sem vill.

 

Heimfærð dæmisaga:

Tvær þingkonur komu til forsætisráðerra og gengu fyrir hana. Önnur konan sagði: "Með leyfi, herra minn! Ég og kona þessi búum í sömu íbúð, og ég eignaðist barn í íbúðinni. Þremur dögum síðar eignaðist hún líka barn. Hún tók á móti mínu barni, en ég tók við hennar. Við vorum tvær saman og enginn annar hjá okkur í húsinu."

"Ég skil," sagði forsætisráðherra og klóraði hökuna.

Konan hélt áfram: "Þá dó sonur hennar um nóttina, af því að hún hafði lagst ofan á hann. Hún vaknaði um miðja nótt og tók son minn frá mér á meðan ég svaf. Hún lagði hann að brjósti sér en dauða soninn sinn lagði hún að brjósti mér."

"Skelfilegt að heyra þetta," sagði forsætisráðherra.

"Þegar ég vaknaði um morguninn og ætlaði að gefa syni mínum brjóst, sá ég að hann var dauður! Ég skoðaði hann betur og sá þá að þetta var ekki sonur minn."

Hin konan sagði: "Nei, það er minn sonur sem er lifandi. Þinn sonur er dauður."

Sú fyrri sagði: "Nei, það er þinn sonur sem er dauður, en minn sonur sem er lifandi."

Þannig þráttuðu þær fyrir framan forsætisráðherra langa stund. Hún fylgdist með bakvið sín þykku gleraugu, hlustaði og hugsaði vandlega.

Þá sagði hún: "Önnur segir: ,Minn sonur er lifandi og þinn sonur er dauður.' Hin segir: ,Nei, þinn sonur er dauður, en minn sonur er lifandi.'"

Forsætisráðherra tók upp símann og hringdi í aðstoðarmann sinn: "Viltu koma hingað á skrifstofuna? Mig vantar hárbeittan kjöthníf." Konurnar litu báðar undrandi á forsætisráðherra, en sögðu ekkert. Aðstoðarmaðurinn mætti á staðinn 10 mínútum síðar, með þennan líka stóra og þunga, en jafnframt hárbeitta kjöthníf. Aðstoðarmaðurinn var í rándýrum jakkafötum, vel rakaður og ilmaði af Boss rakspíra, en virtist þó ekki stíga í vitið.

Hann sagði skælbrosandi: "Mættur!"

Forsætisráðherra sagði við aðstoðarmann sinn: "Skerðu barnið í sundur og gefðu hvorri konunni sinn helming." 

Aðstoðarmaðurinn sagði, "Já, ráðherra", og steig að barninu, lyfti hnífnum og bjó sig undir að skera í maga þess. Barnið brosti til hans og hló.  Konurnar vissu ekki hvort þær ættu að taka þetta alvarlega, en báðar störðu þær vantrúaðar á forsætisráðherra og aðstoðarmann hans.

Þá stóð konan á fætur sem átti barnið, rétti fram báðar hendur og hrópaði, því að ást hennar til barnsins brann í brjósti hennar: "Gefðu henni barnið, ekki drepa það!"

Hin sagði og veifaði frá sér: "Þið eruð að grínast. Ekki glæta að þið meinið þetta. Skerið það bara í sundur!"

Þá svaraði forsætisráðherra: "Gefðu hinni konunni barnið. Hún er skjaldborg þess."

Og öll veröldin las næsta dag á Netinu um dóminn, sem forsætisráðherra hafði dæmt. Öll athugasemdakerfi fylltust af athugasemdum. Mikið var hneykslast á hvernig hún fór langt út fyrir valdsvið sitt, og að réttast væri að kæra hana til landsdóms. En sumir héldu að hún væri gædd djúpri dómgreind til þess að útkljá erfið mál, og ætti mikla virðingu skilið fyrir visku sína.

 

Heimildir:

Skilgreining á Wikipedia höfð til hliðsjónar

Konungabók Biblíunnar, 3. kafli.

 

Mynd:

Henry Fonda í hinu afar snjalla réttarhaldsdrama 12 Angry Men


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Þú talar eins og út úr mínu hjarta!

Ég held því fram að án þess að nota hjartað verði enginn dómur réttlátur.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 7.1.2012 kl. 16:13

2 identicon

Mér persónulega finnst auðvelt að taka afstöðu í þessu máli því það liggur í augum uppi, alla vega mínum, að sá aðili sem á að njóta réttlætisins í þessu dæmi er barnið.

Þess vegna komst forsætisráðherrann í dæminu að réttri niðurstöðu og á virðingu skilið fyrir að fundið leiðina til þess með svona skjótum og afgerandi hætti.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 7.1.2012 kl. 16:19

3 identicon

Á forsætisráðherrann virðingu skilið fyrir að fyriskipa morð á litlu barni? Mér finnst nú frekar að það ætti að senda hana beint í steininn og þá með sem fylgja henni að málum og bera "virðingu" fyrir svona barnamorðingja. Þeir eru þá ekkert betri sjálfir.

Það hefði vel verið hægt að komast að réttlátri niðurstöðu fyrir barnið án þess að grípa til fyrirskipana um morð á því auk þess sem það er augljóst að forsætisráðherra fór langt út fyrir valdsvið sitt í þessu dæmi og verður aldrei aftur treyst til að koma nærri opinberri stjórnsýslu eftir þetta.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 7.1.2012 kl. 16:46

4 identicon

Sammála síðasta manni.

Þarna sýnir Samsspillingin sitt rétta andlit. Í stað þess að láta málið fara rétta og löglega leið til þar til bærra stofnana og embætta sem Alþingi hefur falið að taka á svona málum tekur höfuðpaur Samspillingarinnar sig til og úrskurðar bara eftir eigin höfði án nokkurs samráðs við aðra.

Það er ekkert skrítið að það hrikti í stjórnarheimilinu um þessar mundir og að fólkið í landinu sé búið að fá nóg af þessu dæmalausa valdabrölti meints forsætisráðherra sem eins og áður hugsar eingöngu um að halda fast í stólinn.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 7.1.2012 kl. 17:24

5 Smámynd: Rebekka

Bergur, af hverju gefurðu tvö mismunandi svör? Fyrst segirðu að forsætisráðherrann eigi virðingu skilið, en í næsta innleggi gagnrýnirðu forsætisráðherrann... 

BUSTED! 

Ég hefði frekar pantað DNA-próf fyrir barnið og báðar konurnar.  En "því miður" er ég ekki forsætisráðherra...  :(

Heyrðannars Hrannar, fyrst þú segir að réttlát dómgreind byggi m.a. á trúarbrögðum, meinarðu þá að hún byggi á öllum trúarbrögðum í einu, eða bara þeim sem eru ríkjandi á hverju svæði fyrir sig?   Einnig, ef sameina á alla þessa þætti,  hverjir þeirra ættu að hafa úrslitavald ef tveir (eða fleiri) skarast á.  T.d. ef siðferðið segir að það sé rangt að hóta að skera börn í tvennt undir nokkrum kringumstæðum, en trúarbrögð segja það í góðu lagi, hvernig er þá hægt að sameina þessar tvær andstæðu skoðanir til að fá út "réttláta dómgreind"?

Rebekka, 7.1.2012 kl. 17:27

6 Smámynd: Rebekka

Err ókei...  Bergur þú ert að tala við sjálfan þig hérna...  Þú sendir inn enn eitt innleggið á meðan ég var að skrifa mitt.  Ef þú ætlar að fara í sokkabrúðuleik, þá hjálpar að skrifa undir nokkrum mismunandi fölskum nöfnum, en ekki alltaf undir eigin nafni.

*screenshot*

Rebekka, 7.1.2012 kl. 17:28

7 Smámynd: Hrannar Baldursson

"Heyrðannars Hrannar, fyrst þú segir að réttlát dómgreind byggi m.a. á trúarbrögðum, meinarðu þá að hún byggi á öllum trúarbrögðum í einu, eða bara þeim sem eru ríkjandi á hverju svæði fyrir sig?" Rebekka

Öllum trúarbrögðum sem eiga við um hvert mál í einu. 

Hrannar Baldursson, 7.1.2012 kl. 17:51

8 identicon

Ég er ekki að tala við sjálfan mig, Rebekka. Ég var bara að velta málinu fyrir mér frá öðrum sjónarhornum en ég hef sjálfur og setti hér inn í gamni mínu tvö þeirra sem ég kom auga á og hefði getað sett inn fleiri.

Fyrsta innleggið er mín raunverulega afstaða.

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 7.1.2012 kl. 17:56

9 identicon

Rebekka, þú spyrð:

"ef sameina á alla þessa þætti, hverjir þeirra ættu að hafa úrslitavald ef tveir (eða fleiri) skarast á. T.d. ef siðferðið segir að það sé rangt að hóta að skera börn í tvennt undir nokkrum kringumstæðum, en trúarbrögð segja það í góðu lagi, hvernig er þá hægt að sameina þessar tvær andstæðu skoðanir til að fá út "réttláta dómgreind"?"

Áhugaverð spurning. Hvernig myndir þú svara henni sjálf?

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 7.1.2012 kl. 18:05

10 Smámynd: Hrannar Baldursson

Tek undir með Bergi, þetta er áhugaverð spurning og sjálfsagt ekki auðvelt að svara með einhverju einu regluverki. Þetta er margbrotinn heimur.

Hrannar Baldursson, 7.1.2012 kl. 18:36

11 identicon

Þetta eru einhverjir villimenn.. ekki forsætisráðherra, gaurinn með hnífinn er örugglega galdrapresturinn

DoctorE (IP-tala skráð) 7.1.2012 kl. 18:41

12 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Mér finnst þetta auðveld spurning! (Nr.9)

Auðvitað spyr maður hjartað og það má vel spyrja Jesús.

Við myndum segja að ekki megi skera né neitt í þá veru. 

Jesús sagði að maður ætti ekki að gera öðrum það sem maður vill ekki að sér sjálfum væri gert . Enginn vill láta skera sig í tvennt, það er morgunljóst. Því á enginn að gera það við nokkurn mann.

Það er því ekki nein þörf á að gera þetta að einhverju vandamáli. Ef trúin eða einhver bókstafur einhvers staðar segir þetta leyfilegt, þá hefur sú trú eða sá bókstafur ekki neitt vægi, eftir mínu áliti.

Einfalt og sársaukalaust eins og ég sé það.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 8.1.2012 kl. 01:41

13 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sigurður: Málið flækist þegar í ákvörðunina blandast manneskja sem hefur andúð á siðferði tengdu trúarbrögðum. Þetta er ekkert vandamál fyrir manneskju sem hefur skýr viðmið, en þegar viðmiðin verða ólík, þá verða hlutirnir svolítið erfiðari.

Hugsaðu þér ef þú værir að tefla hraðskák og þyrftir að ræða við fimm manns til að ákveða besta leikinn hverju sinni, og sumir þeirra telja sig vita miklu betur, þó að þeir geri það ekki, og sumir telja sig vita minna, þó þeir geri það.

Nema ákveðið væri hver tefldi sem fulltrúi hópsins, myndirðu sjálfsagt falla á tíma, og það er ekki öruggt að besti hraðskákmaðurinn yrði valinn til verksins, heldur kannski sá sem er hvatastur og leikur hraðast, eða sá sem hefur dýpstu þekkinguna. 

Hrannar Baldursson, 8.1.2012 kl. 08:44

14 Smámynd: Sigurður Alfreð Herlufsen

Hrannar, nú ertu komin inn á okkar sérsvið!

Þá vil ég bæta við annarri reynslu. Ég spila brids og þar eru tveir menn í samvinnu. Það gerir mál strax miklu flóknara. Ég lendi oft í því að makker minn veit þetta allt miklu betur og þá koma árekstrar. Við þær aðstæður hugsa ég til skákarinnar. Þar sit ég einn og tek afleiðingum af mínum yfirsjónum. Það þykir mér miklu auðveldara, að tala við sjálfan mig um góðan eða slæman árangur við skákborðið.

Við bridsborðið deilir maður ætíð árangrinum með meðspilara sínum.

Varðandi þitt dæmi um marga menn sem koma að ákvarðanatöku við skákborðið, þá vil ég heldur hafa það þannig að hver skákmaður standi einn og óstuddur. Njóti þess einn ef vel gengur og tekur afleiðingunum einn ef illa gengur.

Varðandi svo siðferðislegar spurningar, þá á maður einnig að standa einn og hugsa um hvað sé rétt og hvað rangt. Ekki láta einhvern bókstaf eða manneskju (eða flokk, eða kirkju, eða hvaða hópmennsku sem er) rugla sig í ríminu.

Fyrir mér er kirkjan vettvangur til að njóta yndislegrar tónlistar og fallegra hugvekja. Þangað leita ég til að vera þátttakandi í kirkjulegum athöfnum. Ef talað er til mín og ég finn ekki sannleikann í orðunum, þá held ég mig auðvitað við minn eigin sannleik.

Svo einfalt er það.

Sigurður Alfreð Herlufsen, 8.1.2012 kl. 11:56

15 Smámynd: Rebekka

Ég myndi einfaldlega stroka trúarbrögð af listanum sem Hrannar taldi upp.  Allt - bókstaflega allt - siðferði sem finnst í trúarbrögðum kemur frá siðferði og skynsemi manna.  Þetta sjáum við glögglega af því að trúarbrögðin breytast eftir því sem siðferðiskennd samfélagsins breytist.  Þessar breytingar valda því að kaflar í trúarritum sem áður voru góðir og gildir eru hundsaðir af meirihlutanum eða einfaldlega endurtúlkaðir til þess að falla betur að nútímasiðferði.

Þess vegna eru trúarbrögð óþörf á þessum lista.  Allt sem við þurfum fyrir réttláta dómgreind finnst í hinum sviðunum.

Rebekka, 8.1.2012 kl. 13:53

16 identicon

Rebekka, Ég get alveg verið sammála því að best væri að trúarbrögð kæmu ekkert að málum þegar skera þarf úr um rétt eða rangt, frekar en önnur afstaða sem e.t.v. skuldbindur menn fyrirfram og er fyrirfram skoðanamyndandi.

Hins vegar held ég að það sé óskhyggja að svo geti orðið því þá yrði að gera kröfu til þess að þeir sem kæmu að málum þegar kveða skal upp réttláta niðurstöðu væru ekki undir neinum áhrifum frá neinum trúarbrögðum eða öðru því sem gæti haft áhrif á dómgreind þeirra. Ég held að það sé ekki hægt að gera slíka kröfu því jafnvel þótt trúarbrögðin væru skorin frá, þá er til hellingur af öðrum "afstöðum" og fyrirframskoðunum sem einhverjir myndu alltaf segja að lituðu hug dómarans.

Aðalatriði málsins er réttlætiskennd hvers og eins. Hún er ekki sú sama hjá öllum frekar en afstaðan til aðferðarinnar sem notuð er til að kveða upp úrskurði í málum.

Í hugleiðingum þínum um hvað þú hefðir gert í málinu, þ.e. að þú hefðir látið fara fram DNA-rannsókn, kemur einungis fram að þú hefðir notað aðra aðferð en forsætisráðherrann til að ná fram niðurstöðu. Ég hefði heldur ekki farið þessa leið, enda ekki með það hugmyndaflug sem þarf til að láta mér detta hún í hug.

Hins vegar segir réttlætiskennd mín mér að niðurstaðan hafi verið sú rétta og réttlátasta, burtséð frá aðferðinni.

Hvað segir þín réttlætiskennd þér um niðurstöðuna í þessari dæmisögu? Var hún réttlát eða ekki réttlát að þínu mati?

Og ef niðurstaðan er sú réttlátasta, hvaða máli skiptir þá aðferðin?

Bergur Ísleifsson (IP-tala skráð) 8.1.2012 kl. 16:38

17 Smámynd: Hrannar Baldursson

Bergur: sammála í einu og öllu.

Hvað ef það var sú sem ekki var móðirin sem sýndi ást sína á barninu? Hvað ef DNA niðurstaðan hefði komið barninu til konu sem vildi það ekki?

Bara vangaveltur.

Hrannar Baldursson, 8.1.2012 kl. 16:52

18 identicon

Gaman að sjá myndina af Henry Fonda í “12 Angry Men”, ein af mínum uppáhalds kvikmyndum. Leikstjórinn Sidney Lumet og ekkert dónalegt “cast”; Henry Fonda, Lee J. Cobb, Martin Balsam, Ed Begley, Jack Klugman, E.G. Marshall etc.

Snillingurinn Lee J. Cobb var í hlutverki Willi Loman’s í frumflutningi verksins “Death of a Salesmen” í Philadelphia, þá aðeins 35 ára gamall. Algjör snilld og Arthur Miller öðlaðist heimsfrægð í einni svipan. Leikstjórinn í Philadelphia var sjáfur meistarinn, Elia Kazan.

“Sölumaður deyr” fjallar að vísu um sjálfsblekkingu og veikgeðja manneskjur, en einnig um óréttlæti í mannlegum samskiptum og samfélaginu.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.1.2012 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband