Iron Man 2 (2010) ***1/2

 

iron-man-2-poster

"Iron Man 2" hefði getað verið ofurhlaðin steypa eins og "Spider-Man 3" eða "Batman and Robin". Þess í stað fáum við skemmtilega mynd með hressum leikurum. 

Tony Stark (Robert Downey Jr.) hefur uppljóstrað að hann og Járnkallinn séu eina og sama veran, og ekki nóg með það, heldur óaðskiljanleg eining. Bandaríski herinn sættir sig ekki við það og vill fá að kaupa tæknina sem Stark hefur þróað, en hann hafnar þeim og telur sjálfan sig vera það mikla hetju og sómamann að engin þörf sé á að dreifa ábyrgðinni. Hann hefur rangt fyrir sér.

Ivan Vanko (Mickey Rourke) á harma að hefnda og er engu síðri snillingur en Stark. Hann hannar svipur úr hreinni orku sem hann ætlar að nota til að losa heiminn við Tony Stark. Þegar það mistekst lendir Vanko bakvið lás og slá en er bjargað úr prísundinni af hinum misheppnaða auðjöfri Justin Hammer (Sam Rockwell), en hann þráir ekkert heitar en að finna upp eitthvað sem er flottara en allar uppfinningar Tony Stark.

Inn í fléttuna blandast ritarinn ómissandi Pepper Potts (Gwyneth Paltrow sýnir óvenju góðan leik og tekst að skapa skemmtilegan karakter), en Stark hækkar hana í tign og gerir hana að forseta Stark Enterprices. Einnig kemur til starfa ungur og dularfullur lögfræðingur að nafni Natalie Rushman (Scarlett Johansson) sem reynist ekki öll þar sem hún er séð. Einnig kemur til aðstoðar John Rhodes (Don Cheadle) sem stelur frá Stark brynju og kemur til hersins, en allt í góðri meiningu að sjálfsögðu, enda Rhodes og Stark bestu vinir. Einhvers staðar á bakvið plottið lurar svo hershöfðinginn dularfulli Nick Fury (Samuel L. Jackson)

Allir leikararnir skila framúrskarandi verki miðað við aðstæður, fyrir utan kannski Samuel L. Jackson, sem tekur hlutverk sitt ekki nógu alvarlega og reynir að vera fyndinn á meðan hann ætti að vera alvarlegri en gröfin. Robert Downey Jr. gerir Tony Stark hæfilega hrokafullan og upptekinn af sjálfum sér, Sam Rockwell er stórskemmtilegur sem hinn púkalegi Hammer, og Mickey Rourke stelur senunni með því einfaldlega að vera á skjánum í hlutverki þessa brjálaða rússneska vísindamanns. Scarlett Johansson er flott í bardagasenum sínum og laumar inn skemmtilegum húmor, sem og sjálfur leikstjóri myndarinnar Jon Favreau í litlu en mikilvægu hlutverki lífvarðar Stark.

Plottið er algjört aukaatriði. Það virkar samt einhvern veginn. Það sem er óvenjulegt við "Iron Man 2" er hvað persónurnar skipta miklu máli, hvernig sagan fjallar um þær frekar en heimsyfirráð og gjöreyðingu, sem verður að aukaatriði. Það er eiginlega það frumlegasta við þessa mynd. Loks er komin ofurhetjumynd þar sem að bjarga heiminum verður aukaatriði, og aðalmálið verður fyrst og fremst að hetjan bjargi sjálfum sér frá sjálfum sér, og heiminum í leiðinni. 

Þú skalt alls ekki fara alltof snemma út af sýningunni. Það er stutt atriði í lok myndarinnar sem var fullkomið fyrir nördinn í mér. Það voru allir farnir úr salnum nema ég, rétt eins og þegar ég sá "Iron Man" í Smárabíó um árið. Þetta atriði birtist eftir að ALLUR textinn hefur skrollað og öll tónlistin búin og var þess virði fyrir mig. Að minnsta kosti get ég sagst hafa séð þetta örstutta atriði sem gefur tilefni til enn meiri tilhlökkunar fyrir nána framtíð.

Ég skemmti mér vel á "Iron Man 2" og fannst gaman að skrifa um hana.

Ég bið ekki um meira.

 

E.S. Ég ætti kannski ekki að minnast á það, en það er búið að velja leikstjóra fyrir "Avangers", mynd sem á að tengja saman einhverjar af ofurhetjunum frá Marvel, en þar mun enginn annar en Josh Whedon taka við taumunum, sem loksins mun fá stóra tækifærið í Hollywood sem hann hefur verðskuldað í mörg ár.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Heiða Valbergsdóttir

Hlakka til að fara og sjá ræmuna, sérstaklega eftir að hafa lesið þessa gagnrýni :)

Kolbrún Heiða Valbergsdóttir, 6.5.2010 kl. 22:04

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góða skemmtun Kolbrún. Bið sérstaklega að heilsa þeim Láru og Jóni!

Hrannar Baldursson, 7.5.2010 kl. 08:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband