Hvert væri gaman og áhugavert að ferðast?

Tyrkland2022
Mynd tekin í Istanbúl snemma árs 2022.

“Sú manneskja sem þú ert skiptir meira máli en staðurinn sem þú ferðast til; af þessari ástæðu ættum við ekki að binda huga okkar við einhvern einn stað. Lifðu í þessari trú: ‘Ég er ekki fædd(ur) í einu horni alheimsins; heimurinn allur er landið mitt.-’” Seneca

Ég elska að ferðast og hef komið víða við. Samt er heimurinn svo stór og margir staðir sem mér þætti vænt um að heimsækja, þó ekki á flótta undan veðri og vindum á Íslandi, heldur til að kynnast þessum stóra og fallega heimi aðeins betur.

Með hverju tungumáli sem við lærum áttum við okkur betur á hvernig fólk um víða veröld hugsar og veltir fyrir sér hlutunum. Það er mjög áhugavert að velta fyrir sér muninum á hvernig maður er þegar maður hugsar á einu tungumáli eða nokkrum. Mér skilst að stundum slæðist íslensk orð með þegar ég ræði við fólk á ensku. Bara gaman að því, en tungumálið er ein af leiðum til að ferðast án þess að færa sig úr stað.

Á síðasta ári kom ég víða við. Var strandaglópur í Istanbúl en þar var allt ófært út af snjókomu, ók um Bandaríkin og stoppaði þar í tvær vikur til að ræða heimspeki með þarlendum ungmennum, kom við í vinnuferðum og fríum á Spáni, Ítalíu, Frakklandi, Englandi, Eistlandi, Póllandi, Austurríki og Noregi, og stoppaði á flugvöllum í Danmörku og Svíþjóð. Einnig fór ég ásamt samstarfsfélögum mínum upp á fjölda fella á Suðurnesjum og loks fórum við í virkilega erfiða göngu á Grænahrygg. Allt var þetta gaman.

Mér fannst frekar stórkostlegt að ganga um götur Istanbúl í hundslappadrífu, innan um forna turna og musteri - þar sem menn voru að steikja hnetur í litlum vagni en var greinilega ískalt. Ég fór meira að segja í snjókast við sænskan vin minn, báðir komnir yfir fimmtugt, en leið eins og krökkum á fyrsta snjódegi ársins. Í það minnsta leið mér þannig. Einnig var stórmerkileg upplifun að ganga um Grand Bazaar í snjókomu. Vinalegir sölumenn buðu upp á te, og sæti inni í verslunum að skoða tyrknesk teppi, handklæði og viskustykki. Auðvitað fór taskan full heim.

Mig langar að ferðast meira en þarf þess ekki. Það væri gaman að fara annað en í stuttar sólarstrandarferðir þar sem maður hellir í sig bjór og tekur tásumyndir. Það væri gaman að kynnast því hvernig fólk lifir í þessum heimi við ólíkar aðstæður en við þekkjum frá degi til dags á Íslandi. 

Í fréttinni sem kveikti þessar vangaveltur er talað um hvernig hjón fóru á fjarlægan stað, Bora bora, syntu þar í sjónum með hvölum, höfrungum, hákörlum. Sigldu um og nutu lífsins. Þetta er merki um fólk sem er ánægt í eigin skinni, þau eru ekki að ferðast til að losna undan einhverju böli, heldur ferðast til að upplifa meira af undrum heimsins sem við erum öll hluti af. 

Nú langar mig að leita mér að fleiri ferðalögum, þó að vissulega séu nokkrar ferðir á dagskránni innan skamms á þessu ári. Mér finnst reyndar líka gott að vera heima, gefa mér tíma með bókunum mínum og kynnast út frá þeirra sjónarhorni heiminum ennþá betur, út frá því hvernig aðrir hafa hugsað og skrifað síðustu aldirnar. Jafnvel þetta blogg er skemmtilegt ferðalag í mínum huga.

 


mbl.is Með eyjuna á heilanum í yfir áratug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband