Hvernig tapar maður sjálfum sér?

consumes-3664792_1920

Danski heimspekingurinn Søren Kierkegaard skrifaði um það hvernig það að tapa sjálfum sér gerist hægt og hljótt, þannig að jafnvel enginn tekur eftir því, hvorki aðrir né maður sjálfur. Hins vegar ef maður tapaði veraldlegri hlutum, eins og til dæmis hálfri milljón króna, handleggnum eða símanum, þá gerist það með látum, það fer leit í gang og fólk gefst ekki upp fyrr en sökudólgur er fundinn.

En að tapa sjálfum sér, að hætta að vera sú manneskja sem maður er, að breytast í eitthvað annað, það er ekkert endilega eitthvað sem aðrir taka eftir né maður sjálfur. Þegar fjölskyldumeðlimur eða vinur sér þig er hann ekki að horfa inn í sál þína, heldur hefur einhverjar minningar sem hann tengir við, tengir við útlit þitt, rödd þína, hegðun þína þá og nú, tengir við hvað þú hefur að segja. En ef þú ert ekki lengur til staðar, það er ekki eitthvað sem flestir taka eftir. Tækir þú eftir því ef þú tapar þér?

Það er hægt að tapa sjálfum sér á ýmsan hátt, til dæmis í veikindum. Alzheimer sjúklingar byrja oft á að tapa hugtökum og orðum, og smám saman hverfur skammtímaminnið. Loks virðist vera eins og þau sjálf hafi verið þurrkuð út úr heiminum, en aðeins skelin standi eftir, án manneskjunnar sem byggði hana. Til eru alls konar sjúkdómar sem herja á minnið, ekki bara Alzheimer.

Sams konar hlutir geta gerst ef fólk breytir sér með hegðun sinni, til dæmis með misnotkun fíkniefna og áfengis, stera og hormónalyfja, geðlyfja og verkjalyfja. Hugsanlega getur fólk líka tapað sér með slæmri hegðun eða með því að gera ekki neitt.  Það er eitthvað sem gerist, áhrif lyfjanna eða ávanans verða sterkari sjálfsins. Þegar það gerist getur vel verið að viðkomandi tapi sjálfum sér.

Það sama getur gerst við mikinn sársauka og veikindi.Eftir því sem sársaukinn og veikindin eru alvarlegri, því erfiðara verður fyrir manneskjuna að viðhalda sjálfri sér, að vera hún sjálf, óháð veikindum sínum. Sársaukinn og veikindin geta yfirtekið allt annað.

Þetta getur gerst þegar fólk einangrast frá öðrum, verður huldufólk í lifanda lífi, ákveður að vera bara heima hjá sér og hafa samskipti við sem fæsta. Samskiptin við aðra er nefnilega ein af þeim leiðum sem við förum til að viðhalda eigin sjálfi. 

Spurningin er þó hvort að hægt sé að spyrna við þessu, hvort við getum viðhaldið okkar eigin sjálfi með því að viðhalda heilbrigðum huga. Hvort að við gætum gert hugann sterkari en öll þau utanaðkomandi áhrif sem geta bugað hann.

Þegar við sofnum hverfum inn í heim þar sem við virðumst hvergi vera, þó að við vitum að líkaminn sé bara í hvíldarstöðu. En á meðan við sofnum töpum við okkur tímabundið. Ég velti stundum fyrir mér hvort að dauðinn sé á þennan hátt líkur svefninum, að þegar við deyjum sé það eins og að sofna. Munurinn er sá að við vöknum ekki aftur, að minnsta kosti ekki á þann hátt sem við erum vön. Enginn veit hvað gæti tekið við, gæti sjálfið lifað dauða líkamans af? Ef svo, hvað yrði um það? Gæti það ímyndað sér einhverja eilífðartilvist og tapað sér í heimi sem hún skapar sjálf? Og væri þá sá heimur mótaður eftir heimspeki viðkomandi á meðan hann eða hún lifði lífinu?

Trúarbrögðin tala um sálina. Að hún gæti farið til himna eða helvítis, eða á stað sem kallast Limbó sem er á milli tilvisvarstiga, að við gætum endurfæðst sem hlutur, skordýr, dýr eða manneskja, eða færum á einhvern annan stað þar sem líkar sálir safnast saman og njóta lífsins eftir lífið. Hugsanlega tekur ekkert við, en þá vaknar spurningin hvað ‘ekkert’ getur verið því það er eitthvað sem við getum ekki upplifað. Þarf sjálfið á líkamanum að halda til að vera áfram til, eða verðum við bara til og höldum áfram að vera til óháð líkamanum, eða hættum við einhvern veginn að vera til?

Hverfum við bara hljótt út í myrkrið?

 

Mynd: Pixabay


Bloggfærslur 22. apríl 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband