Aðeins um rasisma og gagnrýna hugsun

Rasismi er eitt af þessum erfiðu fyrirbærum sem við vitum að er illt í sjálfu sér. Það er fordómur sem segir að sumar manneskjur séu verri en aðrar og að sumar manneskjur séu betri en aðrar. Óháð kynþáttum, þjóðernum, trúarbrögðum, kyni, skoðunum eða skólun erum við öll nokkuð jöfn. Við getum öll lært, þau ungu hraðar en þau gömlu þar sem “leirinn” í hausnum þeirra er mýkri og auðveldara að hnoða, en með einbeittri þjálfun getur nánast hver sem er æft sig til að gera nánast hvað sem er. 

Við erum öll jöfn efnislega og siðferðilega vitum við að manneskjur ættu allar að vera jafnar, óháð hvaðan þær eru, hverju þær trúa, hvers kyns þær eru. Það eru augljós sannindi sem er ágætlega lýst í Mannréttindayfirlýsingu sameinuðu þjóðanna:

Sérhver manneskja er borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveður á um mannréttindi sem allir eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Þetta eru þín mannréttindi. Kynntu þér þau. Leggðu þitt af mörkum til að efla virðingu fyrir mannréttindum – þínum eigin og annarra.

Almennt hugsum við um rasisma sem fyrirbæri í hugum okkar, að við dæmum einhverja sem verri en okkur sjálf, en ekkert endilega að einhverjir séu betri. En þegar við trúum að konungar, drottningar, prinsar, prinsessur, jarlar eða greifar sé betri manneskjur en aðrar erum við kannski að fordæma út frá rasisma? 

Rasistinn er manneskja föst í ákveðinni heimsmynd, trú um að heimurinn sé á ákveðinn hátt, þar sem sumir eru betri eða verri en aðrir, einfaldlega vegna þess hverra manna viðkomandi er. Hann er ekki líklegur til að velta fyrir sér hvaðan skoðanir hans koma, hvort þær hafi síast óvart inn í hugann og trúna, heldur hefur hann samþykkt þessa trú sem sanna og leyfir ekki eigin hugsunum að gagnrýna og efast um gildi þessarar trúar. Veikleiki rasistans er skortur á gagnrýnni hugsun, en styrkleikur hans óbilandi trú sem er viðhaldið af þrjósku. 

Þeir sem hugsa gagnrýnið geta orðið fyrir því að dæma annað fólk fljótfærnislega á röngum forsendum, til dæmis vegna rasisma eða annarra fordóma sem einhvern veginn hafa fest rætur í huga hennar, en slík manneskja getur leiðrétt eigin skoðanir með því að hugsa um þær og stilla sig af, og með því að hlusta á ábendingar annarra sem hugsanlega hafa skoðanir á skoðunum hennar.


Bloggfærslur 9. mars 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband