Hamingjan, best af öllu sköpunarverkinu?

Hamingja er ekki það sama og stundargleði eða ánægja, hún er dómur um hvernig við höfum það almennt í lífinu. Við sjáum fyrir okkur manneskju sem er yfirleitt ánægð með lífið og tilveruna, það virðist stundum geisla af henni, hún hefur jákvæð áhrif á aðrar manneskjur og virðist hafa góða stjórn á eigin lífi. Hinn ólánsami á hins vegar nóg með sjálfan sig, getur ekki hjálpað sjálfum sér, hvað þá öðrum, og stundum virðast þrumuský fylgja þeim hvert sem þeir fara.

Hamingja er samt ekkert endanlegt ástand. Manneskja sem hefur upplifað hamingjuna og verið í þannig ástandi lengi, getur upplifað atburði sem breyta viðhorfi hennar til lífsins, og hún getur misst stjórn á eigin farsæld, til dæmis með fíkn eða slæmum ávana. Ólánsama manneskjan getur snúið við blaði sínu með því að uppræta ósiði og taka stjórn á eigin lífi.

Hamingjan er ekki skrifuð í skýin eða þræði örlaganornanna, heldur er hún eitthvað sem við ræktum sjálf, með því að hlúa að okkar eigin lífi og annarra á farsælan hátt. Ýmsar siðfræðikenningar hafa ólíka sýn á hamingjuna og hvaða hlutverk hún ætti að gegna í lífi okkar.

Sumir telja að við öðlumst hamingju með því að uppfylla skyldur okkar, gera það sem við eigum að gera, en til þess þurfum við að átta okkur á hverjar þessar skyldur eru og við hvað er best að miða þær. Þó að þýskir hermenn í heimstyrjöldinni síðari sinntu skyldum sínum gagnvart eigin ríki, þá voru þær í mótsögn við æðri skyldur, skyldur sem eru meðfæddar sérhverri manneskju, skyldum gagnvart mannkyninu sjálfu. Spurningin verður þá hvort að uppfylling á skyldum okkar gagnvart mannkyninu gefi okkur hamingju.

Flest viljum við finna hamingjuna. Sumir virðast finna hana auðveldlega, aðrir með erfiðleikum eða alls ekki. Stundum er eins og sumir séu í eðli sínu hamingjusamir, en aðrir ganga gegnum lífið án hennar.

John Stuart Mill minntist á að hamingjan felst ekki í að leita hennar, heldur einbeita sér að einhverju öðru, til dæmis að bæta mannkynið, gleðja annað fólk, stunda listir eða stefna á eitthvað markmið. 

Kannski erum við líklegri til að finna hamingjuna þegar við leitum hennar ekki.


Bloggfærslur 16. mars 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband