VANDAMÁLIÐ VIÐ VERÐTRYGGINGU: Af hverju einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki tapa á meðan bankarnir græða
3.8.2008 | 09:09
Þegar tekin voru 80-100% húsnæðislán árin 2004 og 2005 fengu viðskiptavinir pappíra í hendurnar með útreikningum á hvernig mánaðarlegar greiðslur færu fram. Lánið var á kjörunum 4.3% sem þótti nokkuð gott, en verðtryggt. Útskýringar fylgja um að lánið væri verðbólgutengt, og að verðbólguviðmið Seðlabanka Íslands væri um 2.5%. Þú gast fengið tvenns konar útreikninga í hendurnar. Annars vegar ef verðbólga yrði 1% og hins vegar ef hún yrði í versta falli 3.5%.
Þremur árum síðar er veruleikinn allt annar en viðskiptavinum var boðið af bankanum. Þeir eru að borga þessi 4.3% eins og áður, en í stað þess að borga 2.5% eins og gert var ráð fyrir vegna verðtryggingar eru þeir að borga 15.5%. Samanlagt er lánið því á ársgrundvelli með vextina 19.8%, í stað 6.8%. Þessir vextir bætast síðan við höfuðstólinn á 12 mánaða fresti lögum samkvæmt, þannig að höfuðstóllinn eftir árið í ár á eftir að verða óviðráðanlegur. Í dag eru ný og endurnýjuð húsnæðislán á 6.5% vöxtum sem þýðir að nýir viðskiptavinir þyrftu að borga 22% í vexti árlega af nýjum lánum. Engin furða að staðan sé hæg á húsnæðismarkaði í dag.
Þetta er einföld stærðfræði.
Viðskiptavinir hafa verið sviknir af þremur aðilum í þessu máli.
Fyrst af eigin viðskiptabanka fyrir að kynna tölur sem sérfræðingar þeirra höfðu bent á, og voru kolrangar.
Einnig af Seðlabanka Íslands fyrir að hækka stýrivexti upp í 15.5%, sem þýðir að þeir sem skulda þurfa að blæða meira en nokkurn tíma áður, á meðan þeir sem lánuðu maka krókinn sem aldrei fyrr. Niðurstöðurnar af þessu óréttlæti má finna í launum stjórnenda hjá bönkunum, þeir eru að hagnast gífurlega á breyttum stýrivöxtum, á meðan einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki eru að fara á hausinn.
Það finnst mér óréttlátt.
Í þriðja lagi finnst mér ég svikinn af ríkisstjórn Íslands, sem hefur nákvæmlega ekkert gert til að vernda fólkið í landinu gegn þeim ofurkláru fjármálaspekúlöntum sem stjórna hagkerfinu sjálfu úr tryggum stöðum innan bankanna. Þegar í ljós kom að árás var gerð á íslenska hagkerfið sagði Árni Mathiesen í Silfri Egils að ríkið myndi standa með bönkunum. Þegar hann var spurður um fólkið í landinu, endurtók hann að bankarnir yrðu studdir. En hvað ef það voru bankarnir sem réðust á íslenska hagkerfið? Á þá samt að styðja þá frekar en fólkið í landinu?
Það finnst mér rangt.
Í apríl síðastliðnum tilkynnti forstjóri Seðlabanka Íslands að árás hefði verið gerð á íslenska fjármálakerfið, sem þýddi að hækka þurfti stýrivexti - sem hefur mest áhrif á blæðingu lána í dag - en það sem gerðist í raun og veru var að bankarnir keyptu inn gífurlegt magn af erlendum gjaldeyri og hættu að lána hann, þeir segja til að fyrirbyggja sína stöðu vegna erfiðleika sem þeir sáu fyrir í náinni framtíð, en sannleikurinn er sá að bankar í dag eru fyrirtæki sem þurfa að sýna eigendum sínum hagnað, og farið var í aðgerðir til að tryggja hagnað við ársfjórðungsuppgjör. Áhrifin: þessi aðgerð bjó til erfiðleika sem þýddi að allt nema laun hefur hækkað um 30%, auk þess að afborgun af öllum lánum, bæði bíla og húsnæðislánum sem tekin hafa verið með verðtryggingu, hafa aukist mikið.
Þetta hefur verið aðal orsakavaldurinn í þeirri gjaldþrotahrinu sem er að skella á, auk þeirrar hagræðingar innan fyrirtækja sem veldur því að fyrirtæki hafa neyðst til að segja upp starfsfólki. Ekki skánar þetta þegar haft er í huga að það er einnig erfið staða víða um hinn vestræna heim vegna hækkandi olíuverðs, sem er hugsanlega hægt að rekja til meiri neyslu í Indlandi og Kína, eða spákaupmennsku hjá OPEC. Einnig hefur fall banka í Bandaríkjunum vegna gjaldfallinna húsnæðislána verið stór orsakavaldur.
Gífurleg lántaka bankanna í erlendri mynt olli gengisfellingu, en hún hafði þau áhrif að allar innkeyptar vörur hækkuðu, og Seðlabankinn sá sig tilneyddan til að hækka stýrivexti, til þess að bankarnir réðu við að greiða erlendar skuldir sínar - en þeir fengu að sjálfsögðu nauðsynlega aukningu tekna með hækkun stýrivaxta. Bankarnir hafa hætt útlánum um sinn, sem þýðir að fyrirtæki eiga ekki jafn auðvelt með að nálgast lausafé og áður, sem þýðir að spilaborgin fellur verði engu breytt.
Er efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra að rannsaka þetta mál?
Getur það verið satt, að bankarnir hafi tekið þessi gífurlega háu erlendu lán, og haldið þessum peningunum fyrir sig, og í stað þess að neyðast til að borga sjálfir af sínum eignum, hafi þeir leitað í vasa allra þeirra sem eiga þegar lán hjá þeim, með því að leika sér að íslenska hagkerfinu?
Hvernig stendur á því að bankarnir græða á meðan allir hinir tapa?
Ég er ekki nógu lögfróður til að vita hvort að okurlán upp á minnst 19.8% séu ólögleg eða ekki á Íslandi, en mér finnst að svo ætti að vera.
Málið er að hugsanlega er verið að okra á skuldurum innan ramma lagana, en alls ekki í anda þeirra. Þeir einu sem geta gert eitthvað í þessu máli, er ríkisstjórnin, en þeim er mikill vandi á höndum og í raun óleysanlegur. Því hugsum okkar að ríkisstjórnin gerði það sem er rétt: hún fellir allar verðtryggingar úr gildi. Umsvifalaust færu allir viðskiptabankarnir á hausinn og hagkerfið yrði með því lagt í rúst, og þar sem Ríkið hefur verið að taka erlend lán og lánað bönkunum, er hætta á að það sama kæmi fyrir íslensku þjóðina. Sá sem vogaði sér að snerta við þessum verðtryggingum yrði sjálfsagt samstundis stimplaður sem geðveikur kommúnisti. En hvað getur ríkisstjórnin gert í dag?
Að mínu mati er aðeins eitt sem ríkið getur gert. Ef hún ætlar að halda höfði og gefa Íslendingum von, verður hún að tilkynna að hún standi fyrst og fremst með fólkinu í landinu, en ekki fyrst og fremst með bönkunum. Við verðum að vinna saman. Ríkið verður að kalla á þjóðarsátt, það verður að finna leiðir til að gera Íslendingum mögulegt að búa áfram á Íslandi.
Eldri bloggfærslur mínar tengdar þessum málum:
- Var stærsta bankarán aldarinnar framið á Íslandi rétt fyrir páska? 25.3.2008 | 22:14
- Íslenskt réttlæti: Erum við að borga alltof mikið í skatta og af lánum vegna bankarána og skattsvika sem við botnum ekkert í? 12.4.2008 | 09:46
- Á íslenska þjóðin að redda bönkunum? 9.5.2008 | 22:46
- Til hvers þarf ríkið heimild til að taka allt að 500 milljarða króna erlent lán? 30.5.2008 | 07:47
- Getur verið að vörubílstjórar noti trukka en ríkið löggur á meðan hinn sanni sökudólgur glottir í kampinn? 24.4.2008 | 19:03
- Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir fólkið í landinu? 30.3.2008 | 19:36
- Dystópía eða veruleiki: Hvað ef Ísland verður gjaldþrota? 2.4.2008 | 08:48
- Hvar eru Geir H. Haarde, Árni M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson, Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á meðan neyðarástand ríkir á fjármálamarkaði? 1.8.2008 | 06:25
- Af hverju hlusta ráðamenn lýðræðisþjóðar ekki á lýðinn? 4.4.2008 | 08:57
- Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn vinsælasti og besti stjórnmálaflokkur Íslands í dag? 8.5.2008 | 22:14
- Af hverju eru Íslendingar svona fljótir að gleyma? 31.1.2008 | 19:17
- Bóndinn sem seldi nautgripina - dæmisaga um framtíðarblindu 9.10.2007 | 22:42
- Hvernig verður Ísland eftir 100 ár? 23.6.2008 | 13:30
- Af hverju er mikilvægt að sýna frumkvæði? 3.4.2008 | 22:48
- Gætir þú hugsað þér að búa í gámi? 26.3.2008 | 19:48
- Tollurinn: með okkur eða á móti? 8.2.2008 | 18:06
- Hvernig stendur á því að þegar heimsmarkaðsverð á olíu lækkar, krónan styrkist og hlutabréf erlendis hækka, berast engar fréttar af lækkandi bensínverði á Íslandi? 29.7.2008 | 22:39
- Af hverju er eldsneyti allt í einu orðið svona dýrt? 26.6.2008 | 00:15
- Hvað er ábyrgð? (30 tilvitnanir) 23.3.2008 | 13:24
Myndir:
Loanshark: Foreclosure Educationa and Strategy
Get a Loan Through Us: IBER-Mortgages
Lánsgleði: BuckMoon.com
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)