Meðmæli: I am Sam (2001) ***1/2
18.5.2007 | 23:09
Sam Dawson (Sean Penn) er þroskaskertur og hefur alla tíð verið með snert af einhverfu. Heimilislaus kona svaf hjá honum, eignaðist stúlku og lét sig svo hverfa.
Sam elur upp dóttur sína, Lucy Diamond Dawson (Dakota Fanning) með takmarkaðri aðstoð þroskaskertra vina og nágrannkonunnar Annie Cassell (Dianne Wiest) sem þjáist af víðáttufælni. Sam annast barnið eins vel og honum er fært, og ver með henni öllum sínum frístundum. Hún er líf hans og hann elskar hana eins og best verður lýst í fögrum ástarsöngvum.
Kvöld nokkurt leitar vændiskona á Sam, en hann í gæsku sinni talar við hana og er tilbúinn að hjálpa til; en er þá handsamaður og færður á lögreglustöð fyrir ósæmilega hegðun á almannafæri (en ekki án þess að lögregluþjónn káfi á honum fyrst og setur í handjárn). Á lögreglustöðinni vekur Sam athygli barndaverndunarfulltrúans Margaret Calgrove (Loretta Devine), sem ákveður upp á sitt einsdæmi að fylgjast með honum og uppeldi dóttur hans.
Ósköpin dynja yfir þegar Sam heldur afmælisveislu fyrir dóttur sína, - hann er búinn að leigja handa henni loftkastala, bjóða bekkjarfélögum hennar og bíður eftir að hún birtist í dyrunum til að fagna henni óvænt. Þá kemur óvæntur gestur. Það er barnaverndarfulltrúinn Calgrove, sem Sam í sinni góðmennsku býður inn. Þegar Lucy Diamond kemur loks heim, talar einn bekkjarfélagi hennar illa um hana, og Sam leggur hönd á öxl hans til að ræða málin, en faðir drengsins hendir Sam frá stráksa og skipar honum að snerta ekki drenginn. Í sömu mynd kemur Lucy Diamond inn, allir hrópa 'Surprise' og óknyttadrengurinn segir fyrir framan alla að Lucy hafi sagst vera ættleidd; sem kemur Sam í mikið uppnám.
Vegna þessarar uppákomu er Lucy Diamond tekin frá Sam. Örvinglaður án hennar leitar hann hjálpar til vina sinna, og þrátt fyrir að rökhugsun þeirra sé svolítið brengluð detta þeir niður á bestu hugmyndina í stöðunni, að hann leiti sér lögfræðihjálpar.
Sam finnur lögfræðinginn Rita Harrison Williams (Michelle Pfeiffer) sem hann ber fyrirfram mikið traust til þar sem að hún ber eitt nafna bítilsins George; en Sam grefur upp alla þá visku sem hann þarf á að halda úr smiðju Bítlanna. Það útskýrir meðal annars nafn dóttur hans.
Lögfræðingurinn Rita er hins vegar upptekin við sinn eigin frama; það upptekin að hún hefur ekki tíma fyrir fólk sem borgar ekki, hvort sem það er Sam, sonur hennar eða eiginmaður. Hún er að vinna í lífsgæðakapphlaupinu en hefur hrasað í lífinu sjálfu. Myndin fjallar svo um það hvernig þessir ólíku einstaklingar hjálpa hvoru öðru við að púsla saman lífi hvort annars.
I am Sam fjallar um fordóma gagnvart þroskaskertum, og jafnframt fordóma þroskaskertra gagnvart öðrum, og hversu erfitt getur verið að sætta þessa tvo aðskildu heima. Þegar Lucy fæðist og vex úr grasi, og greind hennar eykst hratt og örugglega, og skýst framúr föður hennar í greind, þýðir það samt alls ekki að þau eigi illa saman. Hann er faðir hennar og gefur henni það mikilvægasta sem foreldri getur gefið barni sínu; ást og nærveru. Þurfa börn meira frá foreldrum sínum? Er algengt að þau fái það?
Leikur Sean Penn er stórfenglegur. Ég trúði því að hann væri Sam, - hver einasta hreyfing og látbragð segir að hann sé Sam, því trúi ég þegar Sean Penn segir: "I am Sam" að hann sé Sam. Michelle Pfeiffer er aftur á móti í klisjukenndara hlutverki, og maður á bágt með að trúa hennar breytingum - þær eru ekki jafn eðlilegar og trúverðugar og það sem Sam gengur í gegnum; einnig er Dakota Fanning stórgóð. Einnig er skemmtilegt hvernig Bítlalögum í nýstárlegum flutningi er skeytt inn í myndina á vel völdum stöðum.
Myndin er hreint afbragð, stýrir framhjá allri væmni, tekur traust á vandamálinu - hvað gerir foreldri þegar stjórnvöld taka barnið - og það af vafasömum ástæðum? Hvernig getur varnarlaus manneskja varið sig? Hver getur metið hvað er börnum betra en ást?
Áhugavert er hvernig þroskaskertu einstaklingarnir virðast vera greindarskertir í hugsun, en snillingar á tilfinningasviðinu, en hinir 'heilbrigðu' aftur á móti virðast vera sneiddir tilfinningagreind, þrátt fyrir töluverða, en samt takmarkaða og afvegaleidda gagnrýna hugsun, fyrir utan Randy Carpenter (Laura Dern) sem hefur mikinn áhuga á að ættleiða Lucy Diamond.
Að lokum, viskukorn frá Sam, um ástina og af hverju faðir og dóttir sem elska hvort annað eiga að vera saman: " OK, remember when Paul McCarthney wrote the song "Michelle" and then he only wrote the first part, Annie said. And then he gave that part to John Lennon, and he wrote the part that said, "I love you, I love you, I love you." And Annie said that it wouldn't have been the same song without that... and that's why the whole world cried when the Beatles broke up on April 10, 1970."
Bloggvina mín benti mér á þessa mynd. Ég labbaði út á leigu en hún var bara til á spólu, en þar sem ég vil sjá myndir í widescreen fór ég alla leið í James Bönd vídeóleiguna, en þeir áttu eintak af henni þar. Í þakklætisskyni set ég inn myndskeið úr myndinni við gamalt og gott Bítlalag You've Got to Hide Your Love Away.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20 bestu bíólögin: 15. sæti, "Supercalifragilisticexpialidocious" - Mary Poppins, 1964
18.5.2007 | 20:25
Ég hef gaman af að búa til lista. Það voru engar vísindalegar aðferðir notaðar af minni hálfu við að búa hann til. Aftur á móti studdist ég við AFI listann um 100 bestu lögin úr Hollywood kvikmyndum og valdi mér þau 20 sem mér finnst skemmtilegust. Fór þó ekki algjörlega eftir þessum lista. Svo leitaði ég að þeim á YouTube og ætla að láta myndband fylgja með öllum færslunum. Oftast gefa lögin viðkomandi kvikmynd aukið gildi, og stundum er jafnvel munað eftir kvikmyndinni fyrir það eitt að viðkomandi lag var í henni.
Jæja, látum þetta flakka. Ég stefni á að klára þetta á 20 dögum. Eitt lag á dag, þar til kemur að númer eitt. Gaman væri að fá athugasemdir um valið og uppástungur sem mér hefur ekki dottið í hug að setja þarna inn. Svona listi hefur takmarkað gildi, aðallega skemmtigildi fyrir þann sem býr hann til, og bara gaman ef fleiri geta notið hans.
15. sæti, "Supercalifragilisticexpialidocious" - Mary Poppins, 1964
16. sæti, Puttin' On The Ritz - Young Frankenstein, 1974
17. sæti, Footloose - Footloose, 1984
18. sæti, Hakuna Matata - The Lion King, 1994,
19. sæti: Rawhyde úr Blues Brothers, 1980
20. sæti: Old Time Rock and Roll úr Risky Business, 1983
Supercalifragilisticexpialidocious er eitt af þessum orðum sem mér hefur aldrei tekist að bera almennilega fram, þrátt fyrir miklar og strangar æfingar. Þetta orð kemur fram í Mary Poppins, en sú mynd fjallar að mínu mati fyrst og fremst um það hvernig fólk getur týnt sér algjörlega í amstri hversdagsins, og fundið að til eru töfrar sem byggja á samveru og ást fjölskyldumeðlima.
Supercalifragilisticexpialidocious er týpískt töfraorð (mikið er ég ánægður að þurfa ekki að segja þetta og nota bara copy/paste í staðinn) sem kemur fólki einfaldlega í gott skap.
Kvikmyndir | Breytt 19.5.2007 kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)