Færsluflokkur: Heimspeki
Hvernig greinum við góða manneskju frá vondri manneskju?
14.1.2012 | 11:06
Þetta er spurning sem leitar á mig þennan ágæta laugardag. Það er létt snjólag yfir bænum og friðsemdin er mikil. Önnur vinnuvika ársins hefur liðið hratt og nauðsynlegt að setjast niður, velta hlutunum fyrir sér, og ímynda sér augnablik þar sem tíminn stendur í stað. Slíkt augnablik finn ég þegar ég sest niður og skrifa vangaveltur mínar.
Ein tilraun til að svara þessari spurningu, um hvernig við greinum góða manneskju frá illri, kemur úr Biblíunni. Ég tek það fram að ég álít Biblíuna ekkert heilagri en aðrar bækur, en hef fundið í henni töluvert af visku frá fyrri kynslóðum sem ég tek til mín. Þó að brot úr þessari góðu bók séu afar góð, þá eru ekki allir ávextir hennar jafn góðir. Það er nefnilega svo auðvelt að túlka og mistúlka orð að það er tilviljun ein hvort afleiðingarnar verði góðar eða vondar. Ætli það fari ekki mest eftir því hversu vel gefin eða vel viljuð manneskja les ritið.
Þar af leiðandi, samkvæmt hennar eigin skilgreiningu á hinu "góða tré", er mögulegt að túlka Biblíuna ekki sem góða bók og ætti því helst að kasta á bálköst, en orðrétt segir í Matteusarguðspjalli 7:15-20:
"Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá."
Nú er reyndar hægt að deila um það hvort að svona málsgreinar og síðan prestar sem hafa jafnvel misþyrmt börnum séu ávextir Biblíunnar, en ef við látum að sem svo sé, þá má túlka það sem svo að Biblían hefur gefið af sér vonda ávexti og sé þar af leiðandi lítils virði.
Reyndar tek ég hvorki Biblíunni né öðrum bókum það bókstaflega að ég fari í einu og öllu eftir því sem þar er sagt, né trúi ég að þessi málsgrein sé að eilífu sönn, heldur reyni að átta mig á hvað verið er að meina, og velti fyrir mér hvort þetta eigi á einhvern hátt við mitt eigið líf og aðstæður.
Í þessu tilfelli sýnist mér viskan eiga vel við um manneskjur, en ekki fyrirbæri eins og bækur eða stofnanir.
Til eru manneskjur sem halda því fram að trú sé af hinu illa. Aðrir telja trú vera af hinu góða. Enn aðrir vilja ekki alhæfa um þessu mál. Ekki ætla ég að deila um slíkar alhæfingar, enda virðist merking þeirra innantóm.
Ágætt kínverskt spakmæli skilgreinir trú sem vilja í samræmi við samvisku og visku heimsins.
Spurningar sem vakna:
- Hvað er góð manneskja?
- Getur manneskja verið góð án þess að trúa á hið góða?
- Er nóg að gera hið rétta samkvæmt lögum og reglum til að vera góð manneskja?
- Getur manneskja sem alltaf hlítir lögum og reglum verið ill manneskja?
- Hvernig þekkjum við muninn á hinu góða og hinu rétta?
- Hvers konar trú hefur alltaf góðar afleiðingar?
- Hvers konar trú hefur stundum góðar afleiðingar og stundum vondar?
- Hvers konar trú hefur alltaf vondar afleiðingar?
- Er öll trú sem útilokar önnur sjónarmið á heiminum af hinu illa?
- Er allt það trúleysi sem útilokar öll önnur sjónarmið af hinu illa?
- Er það satt að ef manneskja framkvæmir illvirki eða framleiðir vondan hlut, að sú manneskja sé þá annað hvort ekki góð í sjálfri sér eða vinni ekki vel?
- Ætli það sé annars sami hluturinn: að vera góð manneskja og vinna vel?
- Er hægt að alhæfa eitthvað um trú?
- Er bara hægt að alhæfa um túlkun ákveðinnar manneskju sem lifir í samræmi við ákveðna trú?
- Hvað er gott?
- Hvað er hið góða?
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (39)
Er hægt að tendra ljós í myrkri sál?
8.1.2012 | 20:41
"Maður sem ákveður að lifa fyrir sál sína er eins og maður sem kveikir á lampa í myrku húsi. Myrkrið hverfur samstundis. Standir þú við ákvörðun þína mun sál þín skína þessari birtu."
- Búddha
Hvernig kveikjum við svona ljós?
Hvernig vitum við hvenær það er myrkur í sál okkar?
Er sálin til eða kannski bara stunduð kulnuð?
Er sálin eitthvað sem býr í einstaklingi eða mannkyninu öllu?
Deilum við sál með dýrum og plöntum?
Er kannski ekki hægt að tala um sál nema tilvist hennar hafi fyrst verið sönnuð með notkun mælitækja og rökhugsunar?
Mynd:
E+Co Energy Through Enterprise
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 18:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
Hvað er svona merkilegt við réttlæti?
7.1.2012 | 11:39
"Hvort viltu efnislegan eða siðferðilegan úrskurð?"
Réttlát dómgreind byggir á siðfræði, skynsemi, náttúrulögmálum, trúarbrögðum eða jöfnuði, en ætti sjálfsagt að byggja á sameiningu allra þessara þátta. Þegar brotið er gegn viðteknum reglum, snýst réttlæti um að rétta hið ranga með sanngirni og réttsýni.
Hér er heimfærð dæmisaga um réttlæti. Túlki hver sem vill.
Heimfærð dæmisaga:
Tvær þingkonur komu til forsætisráðerra og gengu fyrir hana. Önnur konan sagði: "Með leyfi, herra minn! Ég og kona þessi búum í sömu íbúð, og ég eignaðist barn í íbúðinni. Þremur dögum síðar eignaðist hún líka barn. Hún tók á móti mínu barni, en ég tók við hennar. Við vorum tvær saman og enginn annar hjá okkur í húsinu."
"Ég skil," sagði forsætisráðherra og klóraði hökuna.
Konan hélt áfram: "Þá dó sonur hennar um nóttina, af því að hún hafði lagst ofan á hann. Hún vaknaði um miðja nótt og tók son minn frá mér á meðan ég svaf. Hún lagði hann að brjósti sér en dauða soninn sinn lagði hún að brjósti mér."
"Skelfilegt að heyra þetta," sagði forsætisráðherra.
"Þegar ég vaknaði um morguninn og ætlaði að gefa syni mínum brjóst, sá ég að hann var dauður! Ég skoðaði hann betur og sá þá að þetta var ekki sonur minn."
Hin konan sagði: "Nei, það er minn sonur sem er lifandi. Þinn sonur er dauður."
Sú fyrri sagði: "Nei, það er þinn sonur sem er dauður, en minn sonur sem er lifandi."
Þannig þráttuðu þær fyrir framan forsætisráðherra langa stund. Hún fylgdist með bakvið sín þykku gleraugu, hlustaði og hugsaði vandlega.
Þá sagði hún: "Önnur segir: ,Minn sonur er lifandi og þinn sonur er dauður.' Hin segir: ,Nei, þinn sonur er dauður, en minn sonur er lifandi.'"
Forsætisráðherra tók upp símann og hringdi í aðstoðarmann sinn: "Viltu koma hingað á skrifstofuna? Mig vantar hárbeittan kjöthníf." Konurnar litu báðar undrandi á forsætisráðherra, en sögðu ekkert. Aðstoðarmaðurinn mætti á staðinn 10 mínútum síðar, með þennan líka stóra og þunga, en jafnframt hárbeitta kjöthníf. Aðstoðarmaðurinn var í rándýrum jakkafötum, vel rakaður og ilmaði af Boss rakspíra, en virtist þó ekki stíga í vitið.
Hann sagði skælbrosandi: "Mættur!"
Forsætisráðherra sagði við aðstoðarmann sinn: "Skerðu barnið í sundur og gefðu hvorri konunni sinn helming."
Aðstoðarmaðurinn sagði, "Já, ráðherra", og steig að barninu, lyfti hnífnum og bjó sig undir að skera í maga þess. Barnið brosti til hans og hló. Konurnar vissu ekki hvort þær ættu að taka þetta alvarlega, en báðar störðu þær vantrúaðar á forsætisráðherra og aðstoðarmann hans.
Þá stóð konan á fætur sem átti barnið, rétti fram báðar hendur og hrópaði, því að ást hennar til barnsins brann í brjósti hennar: "Gefðu henni barnið, ekki drepa það!"
Hin sagði og veifaði frá sér: "Þið eruð að grínast. Ekki glæta að þið meinið þetta. Skerið það bara í sundur!"
Þá svaraði forsætisráðherra: "Gefðu hinni konunni barnið. Hún er skjaldborg þess."
Og öll veröldin las næsta dag á Netinu um dóminn, sem forsætisráðherra hafði dæmt. Öll athugasemdakerfi fylltust af athugasemdum. Mikið var hneykslast á hvernig hún fór langt út fyrir valdsvið sitt, og að réttast væri að kæra hana til landsdóms. En sumir héldu að hún væri gædd djúpri dómgreind til þess að útkljá erfið mál, og ætti mikla virðingu skilið fyrir visku sína.
Heimildir:
Skilgreining á Wikipedia höfð til hliðsjónar
Konungabók Biblíunnar, 3. kafli.
Mynd:
Henry Fonda í hinu afar snjalla réttarhaldsdrama 12 Angry Men
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
1. Ræða úr Metropolis (1927)
25.12.2011 | 23:18
"Komið, byggjum turn sem nær til stjarnanna! Og efst á turninn munum við rita orðin: Mikill er heimurinn og Skapari hans! Og mikill er Maðurinn! En hugarnir sem fundu upp Babelturninn gátu ekki byggt hann. Verkið var of mikið. Þannig að þeir réðu hendur til starfsins. En hendurnar sem byggðu Babelturninn vissu ekkert um draum heilans sem hafði fundið hann upp. BABEL! BABEL! BABEL! Eins manns lofsöngur verður annars manns böl. Fólk talaði sama tungumálið, en gat ekki skilið hvert annað. HÖFUÐ og HENDUR þurfa tengilið. TENGILIÐURINN MILLI HÖFUÐS OG HANDA VERÐUR AÐ VERA HJARTAÐ!"
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gleðilega hátíð!
23.12.2011 | 20:58
Gagnrýni getur verið erfitt að meðtaka, en fátt er jafn hressandi og spennandi í daglegu starfi en þegar hugmynd sem þú telur vera góða, er gagnrýnd og tætt sundur og saman þannig að úr verður meistarastykki.
Til þess þarf einlægni og hollustu við sannleikann.
Með ósk um að hið íslenska þing, fjölmiðlar og þjóð læri slíkan hugsunarhátt, beiti honum og byggi upp betra samfélag.
Gleðilega hátíð!
Mynd: BloggingTips
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvað einkennir þá sem sem beita ekki gagnrýnni hugsun?
18.12.2011 | 10:02
Ég hef því miður orðið var við það viðhorf að það sé einskis virði að hlusta á gagnrýnisraddir, að þeir sem gagnrýni vilji bara finna höggstað á þeim sem verið er að gagnrýna. Þetta viðhorf hefur því miður lengi loðað við stjórnmál, ekki bara á Íslandi heldur um víða veröld, og það er ekki gott, því fátt er betra í lýðræðislegu samfélagi en að hlustað sé og hugsað sé um gagnrýni á yfirvegaðan hátt.
Mér þykir leiðinlegt þegar ég heyri gagnrýni sem ég veit að ekki er hlustað á, því þar fara glötuð tækifæri út í buskann. Þar sem að ég hef atvinnu af gagnrýnni hugsun og sé skýrt og greinilega hvernig fyrirtæki mitt stórgræðir á að beita slíkum hugsunarhætti, þykir mér afar sorglegt að líta heim til Íslands og sjá fólk í mikilvægum stjórnunarstöðum sem áhrif hafa á land og þjóð, hunsa gagnrýna hugsun algjörlega, og falla frekar í forarpytt þægilega viðmótsins, um að "ég" og "við" höfum rétt fyrir okkur en "þú" og "hinir" hafi alltaf rangt fyrir sér.
Það er ýmislegt sem einkennir þann sem ekki er reiðubúinn að hlusta á gagnrýni. Viðkomandi skortir þá líklega það sem kallast beitingu á "gagnrýnni hugsun", en gagnrýnin hugsun snýst einmitt um að velta hlutunum fyrir sér frá ólíkum sjónarhornum, finna ný sjónarmið, og hlusta á þær hugmyndir sem fram koma um markmið, vandamál, lausnir, hugsa djúpt og vítt um hlutina, af nákvæmni, greina það sem skiptir máli frá því sem ekki skiptir máli, sýna auðmýkt, og fleira.
Ein leið til að velta fyrir sér beitingu á gagnrýnni hugsun, er að velta fyrir sér manngerðinni sem beitir ekki gagnrýnni hugsun. Skortur á beitingu gagnrýnnar hugsun getur verið ríkur hjá jafnvel greindasta fólki, þá jafnan fólki sem telur sig vita betur eða hefur tekið afstöðu og ákveðið að standa við hana sama hvað tautar og raular, og vinnur út frá slíkri forsendu. Slík þrjóska er einn af verstu óvinum gagnrýnnar hugsunar, en sá allra versti er sjálfsagt þegar beitingu gagnrýnnar hugsunar er afnumin með ofbeldi. Annað eins hefur gerst og gerist enn í dag. Ofbeldi tekur á sig mörg form.
Þeir sem beita gagnrýnni hugsun meina ekkert illt, þó að stundum haldi sá sem fyrir gagnrýninni verður að sú sé raunin, en það verður að vera hægt að gera greinarmun á raunverulegri og uppbyggilegri gagnrýni annars vegar, og áróðri eða niðurrifi hins vegar. Þessi grein fjallar svolítið um það.
Þegar kemur að því að greina hvers konar hugsunarháttur ræður ríkjum hjá viðkomandi manneskju, eða þér persónulega, þegar kemur að beitingu gagnrýnnar hugsunar, þá er um þrjá möguleika að ræða:
- Beitir ekki gagnrýnni hugsun
- Beitir slakri gagnrýnni hugsun
- Beitir sterkri gagnrýnni hugsun
Mig langar að velta fyrir mér þessum þremur ólíku manngerðum og benda á hugsunarhætti sem einkenna þá. Í þessum pistli ætla ég einungis að velta fyrir mér manngerðinni sem beitir ekki gagnrýnni hugsun.
1. Sá sem beitir ekki gagnrýnni hugsun
Þetta er manneskja sem auðvelt er að sannfæra um nánast hvað sem er, bara að einhver ánægjutilfinning fylgi sannfæringunni er nóg til að viðkomandi fallist á málstaðinn. Yfirleitt eru þetta sjónarmið sem auðvelt er að aðhyllast því að flestir félagar manns eru á svipaðri skoðun, eða vegna þess að einhver mælandi kemur vel fyrir eða virkar sannfærandi. Slík manneskja lepur sem sannleika það sem birtist í fréttamiðlum, það sem kemur frá yfirvöldum, það sem félagarnir halda fram. Þessum hugsunarhætti fylgja óhjákvæmilega fordómar og skortur á vilja til að rökstyðja eigin sannfæringu með öðru en tilfinningarökum eða beita rökvillum eins og þær séu ásættanlegar, og gera sér ekki grein fyrir að munur sé á því sem er sannfærandi og því sem er satt.
Sá sem beitir ekki gagnrýnni hugsun er líklegur til að blanda geði við fólk sem er þægilegt að umgangast og hefur sambærileg viðhorf. Slíkt fólk gagnrýnir ekki, heldur einbeitir sér að því að njóta stundarinnar, njóta þess að vera í góðra vina hópi, nenna ekki að hugsa hlutina í botn þar sem aðrir gera það hvort eð er.
Hópur fólks sem beitir ekki gagnrýnni hugsun er yfirleitt fjandsamlegur gagnvart þeim sem beita gagnrýnni hugsun. Þeir lifa eftir ákveðnum lífstíl sem hentar þeirra tíðaranda og er líklegur til vinsælda. Viðhorf hópsins má ekki gagnrýna. Þau eru viðtekinn sannleikur. Eins og trú. Sá sem vogar sér að gagnrýna þessi viðhorf er líklegur til að vera kallaður nöfnum, kenndur við heimsku eða hræsni. Þá er sá sem beitir ekki gagnrýnni hugsun til að reiðast séu grundvallarhugmyndir hans og hópsins hans gagnrýndar, og stundum leiðir þessi reiði til ofbeldis. Þetta ofbeldi getur tekið á sig margar myndir, birst í einelti, útskúfun, áhugaleysi og jafnvel líkamlegri árás, jafnvel morði.
Eina leiðin til að hafa áhrif á skoðanir viðkomandi er með blekkingum, með áróðri, að koma inn nýrri vinsælli hugmynd sem getur þótt skemmtilegri eða þægilegri en fyrri hugmyndirnar. Þannig er sífellt hægt að sannfæra þann sem ekki beitir gagnrýnni hugsun með því að beita öflugri markaðstækni. Öflug markaðstækni er hins vegar dýr og til að sannfæra þá sem ekki beita gagnrýnni hugsun, er mikilvægt að hafa bestu markaðstæknina og bestu auglýsingaherferðina á bakvið sig. Hafi stjórnmálaafl einungis gagnrýnisrödd til að koma sér á framfæri, en engan pening til að kaupa sér samkeppnishæfa markaðssetningu, er hún dæmd til að ná ekki til fólks.
Það virðist því miður vera þannig að alltof fáir nenni að hugsa gagnrýnið, enda tekur góð gagnrýnin hugsun tíma og kostar vinnu, sem ekki allir eru tilbúnir að taka á sig, hugsanlega vegna annarra skuldbindinga eða áhugamála, og svo skortir einnig hugsanlega þekkingu á því hvernig gagnrýnin hugsun virkar. Gagnrýnin hugsun er nefnilega lærð, áunnin, óþægileg, og kemur ekki að sjálfu sér.
Taktu eftir að fyrir þann sem beitir ekki gagnrýnni hugsun skiptir "Sannleikurinn" engu máli, heldur aðeins það sem viðkomandi velur að trúa. Vonandi áttar þú þig á því, lesandi góður, að manneskja sem beitir ekki gagnrýnni hugsun getur verið stórhættuleg. Slíkar manneskjur eru líklegri til að taka ákvarðanir sem eru slæmar fyrir þær sjálfar og aðrar manneskjur sem umgangast hana. Slíkar manneskjur geta jafnvel komist til pólitískra valda, og þar sem þær beita ekki gagnrýnni hugsun, geta afleiðingar vanhugsaðra gjörða þeirra verið stórskaðlegar.
Að beita ekki gagnrýnni hugsun er algengasta forsendan fyrir fordómum, ofbeldi, uppþotum og stríði.
Hvernig getur þú komist að því hvort þú sért slík manneskja, sem beitir ekki gagnrýnni hugsun? Reyndar er ólíklegt að þú værir að lesa þessa grein ef þú hefur enga gagnrýna hugsun, en hér eru nokkrar spurningar sem David Peterson, frá Foothill College, mælir með að þú veltir fyrir þér:
1. Trúir þú yfirleitt því sama og félagar þínir? Veltu fyrir þér skoðunum þínum um stjórnmál, trúarbrögð, fóstureyðingar og önnur erfið mál. Ef þú sérð að skoðanir þínar eru einfaldlega þær sömu og félaga þinna, þá er það vísbending um að þú beitir ekki gagnrýnni hugsun.
2. Spurðu þig af hverju þú trúir því sem þú trúir. Geturðu rökstutt svör þín? Eru rökin sem þú notar raunveruleg rök, eða endurtekur þú bara hluti sem þú hefur heyrt annað fólk segja? Hljómi "rök" þín eins og upptökur frá einhverjum öðrum, þá beitirðu líklega ekki gagnrýnni hugsun.
3. Hvernig bregstu við þegar fólk er þér ósammála? Finnst þér það pirrandi? Reiðistu? Flokkar þú viðkomandi sem "öfgamann", "hræsnara", "illgjarnan" eða "heimskan"? Svarir þú einhverri af þessum spurningum játandi, þá beitirðu líklega ekki gagnrýnni hugsun.
4. Hvað veistu um skoðanir sem eru öndverðar þínum eigin skoðunum? Veldu þér hvaða umræðuefni sem er og reyndu að finna heilbrigð rök sem styðja skoðun andstæðingsins. Ef þú finnur ekkert annað en asnaleg "rök", þá beitirðu líklega ekki gagnrýnni hugsun.
Ég gæti nefnt dæmi um fólk sem ég tel ekki beita gagnrýnni hugsun, en það hefur sjálfsagt lítið að segja, fyrir vikið væru þessi skrif einfaldlega dæmd sem þáttur í að grafa undan viðkomandi. Því getur verið betra að sleppa því að nefna dæmi.
Heimildir og myndir:
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Undrast þú fálætið þegar kemur að vanda heimila landsins?
12.12.2011 | 20:32
Í dag hlustaði ég á Reykjavík síðdegis gegnum netið. Þorgeir Ástvaldsson ræddi þar við hagfræðinginn Guðmund Ólafsson. Þorgeir velti fyrir sér álæti ráðamanna vegna hins stóra vanda heimila landsins, skattpíningu ríkisins, launalækkanir, aðgerðarleysi vegna lánavanda, hugsunarleysi, hroka og mikinn atgervisflótta frá Íslandi.
Af stóuspekingum í Grikklandi hinu forna var fálæti álitn dygð. Það þótti af hinu góða að tengja sig ekki um of við eignir eða manneskjur. Betra væri að lifa lífinu tilfinningalaus heldur en með hinar truflandi langanir og þrár sem sífellt naga okkur innanfrá. Betra væri að elska ekki en að elska. Betra væri að lifa lífinu leiðinlega en í einhverju fjöri. Betra væri að hugsa um vini, vandamenn og eignir sem tímabundið lán en eitthvað sem við eigum. Í dag kannast fólk sjálfsagt betur við þessa speki þegar hún er tengd við Jedi riddara úr Star Wars heiminum eða þegar hugsað er til dýrlinga eða munka. Reyndar er stóuspekin einnig tengd við þrælslund, þar sem upphafsmaður hennar, gríski þrællinn Epíktet sem rifinn hafði verið frá fjölskyldu sinni í Grikklandi til Rómar og sá þau aldrei aftur, beitti þessum hugsunarhætti til að gera sitt óbærilega líf bærilegra.
Þessi speki birtist einnig í kvikmyndinni "Hurricane" með Denzel Washington, um hnefaleikakappa sem dæmdur er saklaus í fangelsi fyrir morð, en persónan í myndinni tekur á dómnum, fyrst reiður, en síðan af stóískri ró, þegar hann áttar sig á að aðrar leiðir til að lifa lífinu í fangelsi leiða til óbærilegrar þjáningar.
Fálæti er hugsanlega dygð þegar kemur að slíkri speki. Hins vegar þegar enginn grundvöllur er fyrir fálæti, annar en einhvers konar geðþótti, þá umturnast fálætið í löst. Sá löstur er tengdur við það að standa á sama um annað fólk. Sumum þykir það jafnvel svalt. Og kalla það jafnvel svalt að vera sama um allt og alla.
Á tímum víkinga þótti fálæti ekki töff. Ef einhver gerði þér eitthvað var það hreinlega skylda þín að svara fyrir þig. Kristnin breytti þessu hugarfari víða um heim, þannig að ef einhver gerði þér eitthvað, þá varð það að andlegri skyldu mannsins að sýna kærleik og fyrirgefa; í stað þess að reiðast og hefna. Það er ekki fyrr en á ofanverðri 20. öld og fyrstu árum 21. aldarinnar að fálætið virðist ógna samfélagslegu jafnvægi. Þetta fálæti var þekkt í fari hefðarfólks fyrir byltingarnar sem steyptu hefðarkerfunum af stóli víða um heim.
Ég vil taka undir með undrun Þorgeirs Ástvaldssonar um fálætið gagnvart stórum vanda heimila landsins. En ég hef líka stigið næsta skref, velt þessu fálæti aðeins fyrir mér, og vonast til að þessar pælingar verði til að þoka í það minnsta sjálfum mér, og vonandi þér, lesandi góður, í átt að svari um þetta furðulega fálæti gagnvart þeim sem standa höllum fæti, í þjóðfélaginu og í heiminum.
Myndir:
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hefur sá sigrað sem deyr með hæstu upphæðina á bankabókinni?
10.12.2011 | 09:04
Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér siðferði þeirra sem virðast geta svikið og prettað, grætt gríðarlegar upphæðir á skömmum tíma, og sett sig síðan á stall sem prins veraldarinnar, með bros á vör og hrokafullt augnaráð, bara vegna þess að þeim hefur tekist að eignast peninga?
Hugsanlega mun það sem við höfum gert öðrum, fyrr eða síðar lenda á okkur sjálfum, og þá sjálfsagt með öðrum hætti en við reiknum með.
Manneskja sem er miskunnarlaus og grimm gagnvart öðrum, þarf að lifa með miskunnarleysi sínu og grimmd alla ævi. Það er engin fyrirgefning möguleg gagnvart manni sjálfum. Sama hvað viðkomandi hreykir sér hátt af því að komast upp með glæpi sína, og sama hversu vel viðkomandi tekst að réttlæta glæpi sína gagnvart dómstólum, þá verður viðkomandi að lifa með ákvörðunum sínum og gjörðum, allt til dauðadags. Ranglát manneskja verður aldrei heilsteypt manneskja.
Hryllilegasta fangelsið er manns eigin hugur. Brjótirðu gegn almennu siðferði, brýturðu gegn þeim möguleika að þú getir verið heilsteypt manneskja í þessu lífi. Og ekki gera ráð fyrir fleiri lífum, því samkvæmt flestum trúarkenningum, ef ekki öllum, þá mun ranglát manneskja lenda á verri stað eftir þetta líf.
Trúa virkilega einhverjir því að sá sem deyr með hæstu upphæðina á bankabókinni, sé sá sem hefur sigrað?
Kíktu aðeins á viðskiptaloforðin hérna fyrir neðan og veltu síðan fyrir þér hvernig þeim er snúið upp í andstöðu sína með mállýsku og réttlætingum sem fá ekki staðist heilbrigða skynsemi.
Kenningin:
- Hagaðu þeir gagnvart öðrum eins og þú vonar að aðrir hagi sér gagnvart þér.
- Þú skalt bera virðingu fyrir öðru starfsólki og líta á það sem jafningja.
- Stattu við gerða samninga.
- Taktu einungis ákvarðanir sem væru álitnar viðeigandi af hlutlausum hópi starfsfélaga þinna.
- Stjórnandi ætti alltaf að spyrja sig: "Þætti mér þægilegt að útskýra þessa framkvæmd í sjónvarpi eða á forsíðu dagblaðs?
- Ef stjórnandi hefur slæma tilfinningu um ákvörðun, þá er líklega ástæða til að efast. Ef ákvörðunin virðist ekki traust, væri réttast að fresta henni. Best væri að leita ráða hjá traustverðugri manneskju áður en ákvörðunin er endanlega tekin.
- Fyrirtæki þurfa að gæta sín á að fara ekki út í vafasama starfsemi sem gæti leitt til enn vafasamari starfsemi síðar. Dæmi: tilleiðusamningar sem gefa af sér mikla bónusa til starfsmanna í banka.
- Væri barn, móðir þín eða stofnandi fyrirtækisins sáttur við ákvörðun sem verið er að taka? Gætirðu útskýrt fyrir þeim ákvörðunina með orðum og hugtökum sem þau skilja?
- Aldrei framleiða eða selja vöru sem getur valdið öðrum skaða.
- Meðalið helgar tilganginn.
Alltof oft veruleikinn:
- Sýndu að þú ert miklu betri en aðrir með því að eignast sem mest af peningum og eignum.
- Starfsfólk eru skóflur.
- Stattu við þá samninga sem henta, komist þú upp með það lagatæknilega.
- Taktu ákvarðanir og stattu við þær, sama hverjar þær eru. Æfðu þig í rökræðulist og framsetningu til að geta réttlætt hvað sem er.
- Stjórnandi ætti alltaf að spyrja sig: "Hver getur samið og flutt fyrir mig réttlætingu fyrir þessari framkvæmd í sjónvarpi eða á forsíðu dagblaðs?"
- Ef stjórnandi hefur slæma tilfinningu um ákvörðun, betra að drekka sig fullan og gleyma öllum efasemdum. Tíminn læknar öll sár hvort eð er. Er það'ikki?
- Fyrirtæki fara út í þá starfsemi sem gefur mestan arð yfir sem skemmstan tíma. Hverjum er ekki sama hvað er gert, svo framarlega sem maður græðir?
- Væri ríkasti maður í heimi, Jóakim aðalönd eða Ebenezer Scrooge, sáttur við ákvörðun sem verið er að taka? Gætirðu réttlætt fyrir þeim ákvörðunina með orðum sem þau skilja?
- Framleiddu og seldu það sem selst. Siðferði er bara fyrir aumingja.
- Tilgangurinn helgar meðalið.
Heimildir:
Lauslega þýddar kenningar úr ebeni, European Business Ethics Network Ireland
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Spurning brjálæðingsins: "Hvað er þetta Guð sem við drápum?"
13.11.2011 | 09:37
Inngangur
Þessi texti á við þegar spilling virðist hafa fest rætur í íslenskri jörð, og eftir standa tómar kirkjur mammons; bankar og ein harpa sem grafhýsi og minningar um það sem áður var, eða áður virtist vera. Á tímum mesta brjálæðisins, sem hugsanlega er nákvæmlega núna, hrópa einstakir bloggarar dæmdir sem rugludallar og brjálæðingar, þeir kvarta yfir ranglæti, blindni og svefnpurrkuhætti samlanda sinna og fararstjóra.
Öll þau margbreytilegu stórvirki mannsins sem hafa leitt yfir okkur hörmungar vegna oftúlkunar, heimsku og græðgi, þau geta verið túlkuð sem samnefnari yfir Guð; öll þau kerfi sem vaxa okkur yfir höfuð og stjórna okkur, jafnvel sjálft lýðræðið, markaðshagkerfið, trúarbrögð, fjölmiðlar og Internetið. Við verðum að sjá sjálf okkur sem manneskjur án kerfa, og við þurfum að átta okkur á hvernig kerfin stjórna okkur og hversu lítil áhrif við höfum á þessi kerfi.
Við þurfum hugtök eins og réttlæti og ranglæti þegar kerfin vaða stjórnlaus yfir líf samtímamanna okkar, og það er þá sem stjórnendur þjóða og heims þurfa að taka í taumana og stýra þessum risavöxnu kerfum í aðrar áttir en yfir fólkið. Því miður sitja í dag við stýrið manneskjur sem vita ekki hvert skal halda, hlusta ekki á farþega sína sem vara við öskrandi fólkinu sem verið er að valta yfir, og stýra bara til vinstri eða hægri í nokkur ár, sama hvað aðstæður segja, án umhyggju.
Það er hin sanna geðveiki.
---
Brjálæðingurinn og dauði Guðs, eftir Friedrich Nietzsche
Hefur þú heyrt um brjálæðinginn sem á björtum morgni kveikti á lampa og hljóp um markaðstorgið hrópandi viðstöðulaust: "Ég leita Guðs! Ég leita Guðs! Þar sem margir trúlausir voru á staðnum, höfðu þeir gaman af. Af hverju! Er hann týndur? sagði einn. Hefur hann villst eins og barn? sagði annar. Eða hefur hann farið í felur? Er hann hræddur við okkur? Sigldi hann burt? Hefur hann flutt úr landi? Fólkið hrópaði spurningar sínar hlæjandi, öll í einum klið. Hinn geðveiki maður stökk inn í miðju þeirra og stakk þau með augnaráði sínu.
"Hvert hefur Guð farið?" hrópaði hann. "Ég skal segja ykkur! Við höfum drepið hann, - þið og ég! Við erum öll morðingjar hans! En hvernig fórum við að því? Hvernig tókst okkur að drekka allt hafið? Hver gaf okkur svampinn til að afmá allan sjóndeildarhringinn? Hvað gerðum við þegar við aftengdum þessa jörð frá sólinni? Hvert stefnir hún núna? Hvert stefnum við? Burt frá öllum sólum? Þjótum við ekki viðstöðulaust? Til baka, til hliðar, áfram, í allar áttir? Er ennþá fyrir ofan og neðan? Ráfum við ekki, eins og gegnum endalaust ekkert? Andar ekki tómt rúm ofan í hálsmál okkar? Hefur ekki kólnað? Myrkvar ekki að nóttu, sífellt dimmar og dimmar? Þurfum við ekki að kveikja á lömpum að morgni? Heyrum við ekki lætin í gröfurunum sem eru að jarða Guð? Finnum við ekki dauninn af hinni guðlegu rotnun?"
"Því jafnvel Guðir rotna! Guð er dauður! Guð verður áfram dauður! Og við höfum drepið hann! Hvernig getum við huggað okkur, mestu morðingja allra morðingja? Því heilagasta og máttugasta sem heimurinn hefur til þessa höndlað, hefur blætt út undan hníf okkar, - hver mun þverra blóðið af höndum okkar? Með hvers konar vökva getum við hreinsað okkur? Hvaða fórnir, hvaða helgu leiki eigum við að skipuleggja? Er stærð þessa glæps ekki of mikil fyrir okkur? Þurfum við ekki sjálf að gerast Guðir, til þess eins að virðast þess verðug? Það hefur aldrei átt sér stað meiri viðburður, - og vegna hans, munu allir þeir sem fæðast eftir okkar dag tilheyra æðri sögu en allri sögu samanlagt til okkar dags!"
Hér þagnaði brjálæðingurinn og leit aftur á áheyrendur sína; þeir höfðu þagnað og horfðu gáttaðir á hann. Loks kastaði hann lampa sínum í jörðina þannig að hann brotnaði í mola og ljósið slökknaði.
"Ég kem of snemma," sagði hann þá, "Ég er ekki á réttum tíma. Þessi merki viðburður er ennþá á leiðinni, og á ferðalagi, - hann hefur ekki enn náð eyrum manna. Eldingar og þrumur þurfa tíma, ljós stjarnanna þarf tíma, athafnir þurfa tíma, jafnvel eftir að þær hafa verið framkvæmdar, til að vera séðar og heyrðar. Þessi gjörð er ennþá fjarlægri þeim en fjarlægustu stjörnur, og samt hafa þeir framkvæmt hana!"
Síðan er sagt að brjálæðingurinn hafi ratað inn í ólíkar kirkjur á þessum sama degi, og þar tónað Requiem aeternam deo.* Þegar hann var leiddur út og beðinn að útskýra sitt mál, svaraði hann alltaf eins: "Hvað eru þessar kirkjur nú, ef þær eru ekki grafhýsi og minnisvarðar um Guð?"
* Requiem aeternam deo (eilífð hvíld fyrir Guð)
---
Þýðing: Hrannar Baldursson úr "Yndisvisku" Friedrich Nietzsche.
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Leiða góðar fyrirætlanir okkur til helvítis?
28.10.2011 | 06:00
Ég hef ferðast mikið um heiminn. Á þessu ári heimsótt 13 ólík lönd. Alls staðar hitti ég fjöldan allan af góðu fólki. Hef aldrei hitt manneskju sem ég get álitið illa. Kannski afvegaleidda, en ekki illa. Við vitum af miklum minnihluta sem stundar glæpi og eru einhvers konar hrottar. En að er ekki mikið af slíku fólki. Held ég.
Þegar við lítum hins vegar á stóru myndina, kerfin sem þetta góða fólk um allan heim hefur búið til, sjáum við kerfi sem er gríðarlega stórt, flókið og ranglátt fyrir suma, en réttlátt í augum annarra - virðist fara eftir aðstöðu. Það er eins og þetta kerfi sé orðið að ríkjandi heimsmynd, einhvers konar trúarbrögðum. Ef einhver verður útundan í þessu kerfi, lendir undir því og kemst ekki af vegna þess, er fólk sem hefur það gott líklegt til að yppta öxlum og kalla hina ólánsama.
Hagkerfið er kerfi sem á að veita öllum farboða. Stjórnkerfið á að tryggja sanngjarna skiptingu auðs. Þetta á að virka. En af einhverjum ástæðum virkar þetta ekki fullkomlega og það veldur reiði fólks. Þeir sem halda um stýrið virðast flestir halda að kafbáturinn sé á réttri siglingu, þrátt fyrir rauð ljós úti um allt. Það er eins og mælikvarðar á vandamál séu teknir úr sambandi og aðeins litið á þá mæla sem sýna að allt sé í lagi einhvers staðar. Það er ekki góð stjórnun. Slíkur kafbátur er ekki líklegur til að komast á leiðarenda. Svona stjórnun tíðkast hins vegar um allan heim, af góðu fólki, sem telur sig vita en veit ekki betur.
Eitt vandamálið er hvað við erum orðin mörg. Þegar elstu þingmenn Íslendinga hófu störf sín á þingi var mannkynið helmingi minna en það er í dag. Þá voru rándýr símtöl, telefax eða bréfasendingar helsti samskiptamiðillinn. Sjónvarp var tiltölulega nýlegt fyrirbæri og ekkert Internet sem gat fætt fólk á upplýsingum, þannig að það gat áttað sig á með sæmilega virkri gagnrýnni hugsun, að ekki er allt sem sýnist. Áður var fjallað um slík mál í blaðagreinum, tímaritum eða bókum, sem ekki hver sem var gat birt. Í dag breiðast mikilvægar upplýsingar út sem eldur í sinu gegnum samskiptasíður á Netinu. Þessar upplýsingar eru samt ekki alltaf réttar, og sífellt mikilvægara að vera gagnrýninn á hvaðan upplýsingarnar koma, hvernig þær eru settar fram og í hvaða tilgangi. Samt er haldið í gömlu kerfin sem hönnuð voru fyrir allt annan heim. Það er geggjun!
Vandamálið virðist ekki bara felast í kerfunum sem við sköpum, heldur hvernig þeim er beitt. Kerfin verða til af því að einhver vitringurinn eða sérfræðingur heldur að það sé góð hugmynd til að leysa ákveðin vandamál. Kerfin virka yfirleitt vel í fyrstu, og sérstaklega gagnvart viðkomandi vandamáli. En síðan líður tíminn og aðstæður breytast. Ný vandamál koma fram á sjónarsviðið. Og einhvern veginn heldur fólk að hægt sé að beita sama gamla kerfinu til að laga þessi nýju vandamál. Áttar sig ekki á að þegar forsendur breytast, breytist eðli vandans. Í stað þess að leysa vandamál, fer kerfið að skapa ný vandamál, sem loks verða óviðráðanleg og skrímsli hefur orðið til.
Verðtryggingin er eitt slíkt lítið skrímsli sem skapað var til að tryggja jafnvægi í lána- og launamálum. Síðan var lögum breytt þannig að hún passaði aðeins við lánamál, ekki lengur laun. Þannig verður verðtrygging að skrímsli fyrir þá sem afla sér tekna með launum, en hagkvæm fyrir þá sem þegar eiga fjármuni og lána þá. Þetta verðtryggingarskrímsli skapar gjá milli fólks. Það lendir í sitthvoru liðinu eftir því hvort það þjáist eða græðir. Sagan sýnir okkur að þeir ríku og voldugu sigra alltaf, nema í einstökum undantekningartilfellum, eins og þegar algjör bylting á sér stað og hinir þjáðu verða það margir og sameinast gegn hinum voldugu, að eitthvað verður að breytast.
Það eru ekki venjulegar manneskjur sem búa til kreppur og styrjaldir, heldur eru það þessi gígantísku kerfi sem fólk býr til og taka yfir. Þessi kerfi geta verið í formi trúarbragða, stjórnmálahugmynda, hagfræðikrúsidúlla, eða annað. Við verðum að passa okkur á að heilbrigð skynsemi og gagnrýnin hugsun verði nægileg mótbára gegn þessum kerfum.
Skynsemi og gagnrýnin hugsun er aldrei nóg þegar þeir sem stjórna kerfunum telja allt vera í himnalagi og nenna ekki að hlusta á "svartsýnisraus", einelti eða andúð, sem einatt eru þau nöfn sem gagnrýnni hugsun er gefið sé hún ekki þóknanleg þeim sem kerfinu stjórna.
Heimspeki | Breytt 16.12.2014 kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)