Færsluflokkur: Heimspeki

Er ekkert til sem ferðast hraðar en ljósið?

e-flcn-ltspd-782711

Áhugaverð sú tilhneiging að telja eina kenningu vera rétta þegar önnur kenning stenst ekki. Það rétta er að innan vísindalegrar þekkingar, eða mælanlegrar skynjunar á fiseindum, getur engin eind ferðast hraðar en ljósið. Það þýðir ekki að sú eind geti ekki verið til sem fer hraðar en ljósið.

Afsönnun einnar tilgátu sannar ekki algildi annarrar tilgátu.

Tökum sem dæmi sál mannsins. Kynslóð eftir kynslóð hafa fjölmargar þjóðir trúað að sálir séu til, og að þær lifi lengur en líkaminn. Sumir telja sálina fara til himna eða helvítis eftir lífið, sumir telja sálina fá aðgang að Nirvana, sumir telja sálina flytjast efnislega úr einni lífveru í aðra. Að sjálfsögðu hefur engin þessara kenninga verið sönnuð, því samkvæmt vísindalegri þekkingu, sem er þekking á öllu því sem hefur verið staðfest að við getum skynjað, enda sálin ekki mælanleg á neinn áþreifanlegan hátt. 

Við getum ekki bragðað, lyktað, snert, séð eða heyrt sálina með mælanlegum hætti. Það útilokar hins vegar ekki tilvist sálarinnar. Rétt eins og þegar við slökkvum ljós í herbergi og það verður niðdimmt, þá þýðir það ekki að allir litir úr herberginu hverfi, enda birtast þeir mér þegar ljósið kviknar á ný.

Sú hugmynd er til úr íslenskri nýjaldarspeki, að á meðan við sofum, þá fara sálir okkar til annarra pláneta, og að við skynjum líf annarra manneskja enda taki sál okkar þátt í þeirra lífi. Frá sjónarhorni vísinda er þetta fjarstæðukennd hugmynd, enda hefur sálin aldrei verið mælanleg og er ekki til. Frá sjónarhorni frumspeki er þetta hins vegar mögulegt, þar sem möguleikar eru ekki bundnir við þá þekkingu sem við höfum á heiminum, heldur því hvernig heimurinn er, var eða getur orðið óháð því hvernig við upplifum hann.

Önnur, kannski aðeins jarðbundnari hugmynd, en sú um tilvist sálarinnar, getur verið hugmyndin um tilvist hugsana. Engin vísindaleg tæki hafa gripið nákvæmlega hvað hugsun er efnislega. Það er hægt að smækka hugsun niður í efnislegar kenningar um rafeindir og taugaboð í heilanum, og útskýra að fólk hugsi ólíkt vegna námsvenja, líkamlegra afbrigða, eða ólíkrar menningar.

Ef þú ert að lesa þetta, og þú dregur ályktun, þá ertu að hugsa og hugsun þína þekkir þú. Samt er ekki til eitt einasta vísindalega mælitæki sem getur sýnt fram á tilvist þessarar hugsunar þinnar. Þýðir það að þessi hugsun sé ekki til, eða þýðir það að hugsun þín falli ekki inn í mælistikur vísindanna? Hugsaðu þér, kannski er hugsun þín efnisleg, og kannski verður hún einhvern tíma mælanleg af vísindum - kannski ekki - en það hefur ekkert að segja um tilvist hennar, heldur aðeins um mælanleika hennar innan ramma vísindalegrar þekkingar nútímans.

Getur verið að hugsanir ferðist hraðar en ljósið?


mbl.is Einstein hafði rétt fyrir sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaðan koma kreppur?

Hugsaðu þér hóp 10 krakka sem panta sér eina pizzu. Flestir vilja skipta pizzunni jafnt á milli sín. Hins vegar er einn í hópnum sem er ekki sáttur við að fá bara litla sneið. Hann vill meira. Miklu meira. Og hann sér að hann getur ekki stolið sér stærri sneið fyrir framan allan hópinn. Svo hann læðist í veski móður sinnar, og notar kreditkort hennar til að panta 10 pizzur í viðbót. Koma pizzurnar allar og enginn spyr hvaðan peningurinn kom, en allir eru mettir og glaðir. Enginn hefur áhyggjur af skuldadögum. Þetta reddast einhvern veginn. Hugsaðu þér nú að þessir 10 krakkar séu bankar.


Söngvari með rödd?

Ég hef verið að velta fyrir mér tengslum mannréttindabrota í Bakú og röddum söngvara í Eurovision söngkeppninni. Rödd snýst nefnilega ekki bara um umgjörð; hversu fallega þú galar og hversu vel þú skreytir þig og sprellar uppi á sviði, heldur fyrst og fremst um hvað þú hefur að segja og hvort þú notir rödd þína til að tjá það sem þarf að tjá, af hugrekki, auðmýkt, samkennd, heiðarleika, festu og sanngirni. Í keppni gærdagsins tjáði aðeins einn keppandi sig þannig. Hún hafði rödd. Og hún vann.


Hver skilur íslenskt réttlæti?

Fólk sem veldur öðrum miklum skaða, hvort sem er vegna ofbeldis, vanrækslu eða fjárhagsklækja þarf ekki að svara til saka, nema að forminu til. Sé glæpurinn nógu stór er engum refsað. Hafi viðkomandi framið smærri glæp og viðurkennt það er viðkomandi sleppt, kannski til að hann geti framið stærri glæpi?
 
Fyrrverandi forsætisráðherra sem fundinn var sekur um vanrækslu í embætti, er ekki látinn svara til saka, en refsing í slíku máli, þó hún væri ekki nema vika í skilorðsbundnu fangelsi, væri skárri en engin refsing. Að sætta sig við refsingu krefst ákveðinnar auðmýktar. Að refsa ekki, gefur þau skilaboð að brotið var smávægilegt og skipti þannig engu máli. Þannig geta klókir stjórnmálatæknar snúið út úr málinu þannig að út lítur að allir hafi unnið, á meðan raunin er að allir hafa tapað.
 
Aumingjar sem tóku húsnæðislán fyrir þaki yfir höfuðið hafa fengið margfalt þyngri refsingu fyrir að brjóta engin lög. Og hætti þeir að taka út refsingu sína, er þeim gert að fara út á götu með allt sitt hafurtask. Og mega þeir bara bíta í það súra, enda hafa viðkomandi engin áhrif á þjóðfélagsmyndina, eru bara almúgaþrælar.
 
Ekki fyrirmenni eins og þeir sem brjóta lögin. 
 
Það eru jafnvel harðari viðurlög fyrir að blogga um sum fyrirmennin. Fyrir að segja satt en geta ekki sannað réttarfarslega að orðin sem eru notuð séu tæknilega nákvæm.
 
Fyrirgefning og samúð eru falleg og kristileg hugtök, en ég skil ekki íslenskt réttlæti.

Alltof gott aprílgabb?

Að gefnu tilefni vil ég taka það sérstaklega fram að síðasta færsla mín, "Atlaga að tjáningarfrelsinu!" var aprílgabb.

Admin á skákhorni Íslendinga hefur aldrei fjarlægt færslu frá mér, né bannað mig, enda er hegðun mín yfirleitt ágæt nema á 1. apríl. Þá leyfi ég mér ýmislegt sem ég leyfi mér ekki dags daglega.

Nú fór það svo að æsilegar umræður hafa hafist um málfrelsi á Skákhorninu, sem getur verið spennandi að fylgjast með, enda íslenskir skákmenn með líflegri karakterum á þessari jarðkringlu. Þessar umræður sem hafa orðið frekar heitar má sjá hérna.

Verð að leggja höfuðið í bleyti. Hef aðeins 363 daga til að plana næsta gabb. Whistling


Atlaga að tjáningarfrelsinu!

censorship_xlarge
 
Á Íslandi erum við ekki lengur frjáls til að segja skoðanir okkar. Séu skrif okkar birt í fjölmiðlum eða bloggsíðum, getur þeim verið breytt í pólitískum tilgangi, þannig að meining þín verður öndverð því sem að stendur skrifað. Þetta hef ég upplifað á eigin skinni.
 
Smelltu hérna til að sjá grein sem ég skrifaði á Skákhornið í morgun, umræðuvettvang íslenskra skákmanna i meira en áratug, og reyndi að ræða málin, en umsjónarmaður fjarlægði nánast samstundis öll ummæli sem gátu virst gagnrýnin á störf íslenska skáksambandsins, enda skilst mér að mafía útrásarvíkinga hafi safnast þar saman í stjórn. Samt reyndi ég að gæta orða minna!
 
Tilefnið er að fjölda ummæla hefur verið breytt af umsjónarmanni. Fyrst hélt ég að þetta væri eitthvað grín, en svo þegar hann byrjaði að breyta mínum skrifum til að hljóma pólitískt rétt, og síðan með því að loka aðgangi mínum, var mér ofboðið.
 
Það væri óskandi að menn tækju upp kyndilinn og skráðu sig inn á þetta Skákhorn, sem áður var líflegt og skemmtilegt, fullt af áhugasömum ritsnillingum, og mótmæltu svona kommúniskum aðferðum.
 
Skráning á skákhornið er hér.
 
Vil benda þeim sem hafa áhuga á sjálfa stjórnarskrána, en þar segir:
 
     73. gr. verður svohljóðandi:
 
     Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
 
     Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
 
     Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

"Hvað er hamingja, herra Hitchcock?"

 

"Skýr sjóndeildarhringur - þegar ekkert þvælist fyrir þér, þegar aðeins hlutir sem eru skapandi og ekki eyðileggjandi bíða þín... Ég þoli ekki rifrildi, ég þoli ekki tilfinningar milli fólks - Ég tel hatur vera orkueyðslu, algjörlega gegn framleiðslu. Ég er mjög næmur - hvasst orð, sagt af manneskju í bræði, ef hún stendur mér nærri, hvílir á mér í marga daga. Ég veit að við erum aðeins mannleg, við upplifum þessar ólíku tilfinningar, köllum þær neikvæðar tilfinningar, en þegar þær hafa verið fjarlægðar og þú getur litið fram á veginn og vegurinn framundan er auður,  og nú ætlar þú að skapa eitthvað - þá tel ég mig eins hamingjusaman og ég vil nokkurn tíma vera."


Af hverju drepur maður mann?

lumet-12angryment

 

"Hvenær drepur maður mann?" spurði höfuðskáld okkar. Við mættum einnig spyrja þessarar spurningar í dag þegar samfélagsmein virðast ætla fólk lifandi að drepa. Getur verið að efnahagslegur þrýstingur, grimmd og skilningsleysi jafnist á við fólskulegar líkamsárásir? Ein gerð árásar ræðst að grundvallarstoðum manneskjunnar í samfélaginu, hin að líkamanum. Hvort tveggja er alvarlegt. Hvort er alvarlegra? Varla stendur okkur á sama?

 

Af hverju drepur maður mann?

Ágæt vefsíða um hversdagssálarfræði svarar þessari spurningu ágætlega. Þar er þvi haldið fram að drápshvötin stafi af átta ólíkum ástæðum:

  1. Fjandskap (innræti)
  2. Bældum persónuleika
  3. Hefnigirni
  4. Upplifun fórnarlambs
  5. Þráhyggju
  6. Ofsóknarbrjálæði
  7. Geðveiki
  8. Illmennsku og reiði

Í síðustu viku heimsótti ég Ísland. Þá ræddi ég við fjölda fólks og spurði marga hvernig fólki litist á ástandið í þjóðfélaginu. Flestir voru frekar myrkir í máli og sögðu það sama. Að ástandið væri slæmt. Allir virtust eiga vini og fjölskyldumeðlimi í fjárhagslegum kröggum. Og margir furðuðu sig á að ekki væri þegar búið að sjóða upp úr. Það hlyti að gerast bráðlega. Þá spurði ég hvað þau hefðu að segja um jákvæðar fréttir frá stjórnvöldum, að allt væri á uppleið og full ástæða til bjartsýni. Svörin voru einatt á þá vegu að þarna væri um að ræða áróður, lygar og bull, sem gerðu bara illt verra.

Ég get alveg trúað því að soðið hafi upp úr hjá einum einstaklingi á mánudaginn var vegna upplifunar viðkomandi á ástandinu, þegar hann réðst á forstjóra lögmannsstofu með eggvopni, og að verði ekki tappað af þrýstingnum sem kraumar undir niðri, er ég hræddur um að þetta geti verið fyrsta af mörgum samskonar málum. Því hafi þetta gerst einu sinni, er mikil hætta á að þetta gerist aftur. Það er einfaldlega fastur liður í áhættumati að spyrja spurningarinnar: "hefur viðkomandi ógn orðið að veruleika á síðasta hálfi ári?" Sé svarið játandi, þá hækkar áhættustuðullinn töluvert og skynsamt fólk sér að eitthvað verður að gera í málinu. Hvort rétt sé að bregðast við með vörnum, eða fara forvarnarleiðina, er nokkuð augljóst atriði fyrir suma, en vefst sjálfsagt fyrir mörgum þeim sem á valdasprotum halda.

Mig grunar að mikill fjöldi Íslendinga upplifi bælingu, og finnist þeir vera fórnarlömb mafíu glæpamanna sem villtu á sér heimildir sem heiðarlegir bankamenn, stjórnmálamenn og útrásarvíkingar fyrir Hrun. Slíkt veldur ólgu sem getur sprungið við ólíkar aðstæður. Þegar einhver er bældur, vill hann geta tjáð sig. Þegar einhver upplifir sig sem fórnarlamb, vill viðkomandi geta kennt einherjum um, og jafnvel hefnt sín. Þannig er bara mannlegt eðli. Sama hvert þjóðernið er. Íslendingar eru líka manneskjur.

Afneitun á ástandinu mun ekkert bæta. 

 

Aðeins um umræðuhefðina á Íslandi: 

 "Höfuðmein pólitískrar umræðu á Íslandi manna á meðal í netheimum er ekki hið svokallaða skítkast – heldur hitt að menn lesa ekki það sem skrifað er og heyra ekki það sem sagt er heldur leyfa sér að lesa milli línanna og ímynda sér hvað liggur að baki orðunum og láta svo eins og þeir hafi lesið eða heyrt sína eigin túlkun." (Pétur Tyrfingsson)

Pólitísk umræða á Íslandi er lítið annað en gjamm og gól. Þetta sjáum við í útsendingum frá Alþingi þar sem þingmenn keppast við að hrópa niður ræðumenn úr öðrum flokkum. Einnig birtist þetta fyrirbæri í umræðuþættinum misvirta Silfri Egils, sífellt þegar stjórnmálamönnum er ætlað að ræða saman. Stundum tekst Agli að halda uppi skynsamlegum samræðum, og þá eru stjórnmálamenn yfirleitt fjarverandi. Þó með undantekningum.

Grundvöllur gagnrýnnar hugsunar er að skilja ekki aðeins eigin málstað, heldur einnig ólík sjónarmið um sama viðfangsefni, óháð því hver er á móti hverjum eða hvaða hagsmunir flækjast inn í málið.

Málsmetandi menn í samfélaginu hafa vogað sér að hafa þá skoðun, og sagt hana, að óánægjan í samfélaginu sé orðin það alvarleg að hún sé farin að brjótast út í ofbeldisverkum. Mér sýnist þeir hafa rétt fyrir sér. Þegar manneskja ræðst á aðra manneskju til að drepa hana, þá hlýtur viðkomandi að hafa ástæðu til, sama hvort viðkomandi eigi við sálræn vandamál að stríða eða ekki. Það er alltaf einhver ástæða, sama hversu klikkuð hún getur verið. Skoðaðu listann ofar í greininni og lestu yfir vefsíðuna sem vísað er í og kynntu þér af hverju fólk drepur fólk.

Í þessu tilfelli hafði skuld láglaunamanns upp á ellefu þúsund krónur stökkbreyst og orðið að áttatíu þúsund króna skuld. Með samningaumleitunum gat skuldin lækkað í fimmtíu þúsund krónur. Þetta getur hæglega verið dropi sem fyllir mælinn hjá manneskju sem hefur átt fjárhagslega erfitt. Það er fátt sem reynir jafnt á sálarlífið og þurfa stöðugt að hafa áhyggjur af því að geta séð fyrir grundvallarþörfum. Ekki veit ég hvort það var tilfellið í þessu dæmi, en get ímyndað mér að það sé ekki fjarri sannleikanum. 

Ég vil taka það sterklega fram, svo það fari ekki framhjá neinum, ég fordæmi alla glæpi, jafnt ofbeldisglæpi á líkamlega sem og fjárhagslega sviðinu. Það er ekkert sem réttlætir morðtilraun, en ég get vel skilið forsendurnar að baki slíku, enda sæmilega lesinn í bókmenntum og hef horft á bíómyndir. Einnig bendi ég þeim sem vilja öðlast frekari skilning á hvernig menn geta drepið menn, að lesa um heimstyrjaldirnar tvær, glæpasögur eftir Arnald, Larsson eða Nesbö, kíkja yfir gögn í réttarmálum, horfa á kvikmyndina "12 Angry Men", eða jafnvel "The Godfather" eða "Goodfellas". Hlustaðu á frásagnir Kúrda sem komust lífs af eftir tilraunir Íraka til þjóðarmorðs. Og þú getur öðlast einhvern skilning á fyrirbærinu, en sjálfsagt aldrei endanlegan. Mörg sambærileg og fróðleg dæmi má finna í Biblíunni, Kóraninum, goðafræði og öðrum bókmenntum.

Manneskja reynir að drepa aðra manneskju þegar hin manneskjan ógnar tilveru viðkomandi á einhvern hátt og af einhverjum ástæðum, annað hvort raunverulegum eða ímynduðum. 

 

Tengiliðir:

Everydaypsychology.com

Grein Péturs Tyrfingssonar

Mynd úr 12 Angry Men


Ísland í dag, séð utan úr heimi

absurd-life-pictures87

Hann bloggar: "Heyrðu, ég elska þig."

Þau svara: "Þessi öfgafullu hatursummæli verða kærð til siðanefndar háskólans, bæjarstjórnar Akureyrar og Zuckerberg. Í fyrsta lagi vegna þess að þú sýnir augljóst hatur gegn vantrúarfólki með því að tala um ást. Ást er ekki til! Hvílíkar öfgar! Í öðru lagi vegna þess að þú hefur mögulega einhven tíma talað við börn, perrinn þinn. Og í þriðja lagi vegna þess að ást hefur ekkert með kvenréttindabaráttuna að gera."


Er í lagi að reka fólk fyrir skoðanir sínar?

censorship1

 

Grunnskólakennari á Akureyri bloggar um trúmál og samkynhneigð. Hann heldur því fram á bloggi sínu að samkynhneigð sé synd. Synd er trúarlegt hugtak sem þýðir að eitthvað verk sé illt í augum Guðs. Syndir drepa sálina eða eitthvað slíkt. Þetta er túlkað sem hatursfull árás á samkynhneigða. Spurning reyndar hvort að það sé túlkunin sem er hatursfull í þessu máli.

Nú verður allt vitlaust vegna þess að maðurinn sem segir þessa hluti er grunnskólakennari, og fólk á erfitt með að ímynda sér að hann geti verið góður, gildur og heill kennari fyrst hann lætur hafa eftir sér slíkar skoðanir. Fólk veltir fyrir sér hvort að trúgjörnum lífsviðhorfum barna standi ógn af manninum. Ekki fylgir sögunni hvaða fög hann kennir, en reikna má með að hann kenni flest fög, en það er eðli grunnskólakennarans.

Grunnskólakennarar eru bara fólk. Þeir hafa gjörólíkar skoðanir um ýmis mál, sumir tjá sig um þessar skoðanir undir dulnefni, aðrir undir eigin nafni. Sumir tjá ekki sínar skoðanir fyrir utan skólastofuna, og sumir tjá þær innan hennar. Sumar virðast þessar skoðanir vera heilbrigðar, sumar öfgakenndar, sumar snarruglaðar. Kennari tjáir skoðun sem meirihluti bæjarfélags dæmir ruglaða og jafnvel hættulega, og fær því ekki að stunda vinnu sína áfram, er sendur í sex mánaða frí á fullum launum, sem reyndar mætti túlka sem verðlaun þegar um jafn erfitt og flókið starf og grunnskólakennslu er að ræða, nokkuð sem sendir svolítið einkennileg skilaboð út í samfélagið, sem alls ekki er ljóst hver eru.

  • Eru skilaboðin þau að fólk í opinberu embætti skuli ekki fjalla um málefni samkynhneigðra?
  • Eru skilaboðin þau að kennarar megi ekki fjalla um viðkvæm málefni opinberlega og hugsanlega hafa óvinsæla skoðun?
  • Eru skilaboðin þau að almenningur skal nú passa sig á að segja ekki það sem hann hugsar, því að slíku verði mætt með hörku?
  • Eru skilaboðin þau að kennarar sem haga sér illa á opinberum vettvangi geti fengið launað frí í kjölfarið?

Grundvöllur mannlegs frelsis og sjálfsvirðingar er að sérhver manneskja fái frjáls um sitt höfuð að strjúka, að hún megi hugsa það sem henni dettur í hug, og koma hugsunum sínum í orð. Enginn hefur rétt á að dæma aðra manneskju fyrir skoðanir hennar, sama hversu fáránlegar þær þykja, og sama hversu óviðeigandi þær þykja. Fái manneskja ekki að koma hugsunum sínum í orð, er verið að hefta, ekki einungis tjáningarfrelsi hennar, heldur frelsi hennar til að móta eigin hugmyndir og skoðanir.

Að skerða málfrelsi annarrar manneskju vegna pólitísks rétttrúnaðar er alltaf slæmt, skaðlegt lýðræðislegu og frjálsu samfélagi. Ástæðan er sú að þarna er gefið slæmt fordæmi. Þarna er verið að hjóla í sömu hjólför og þeirra auðmanna sem kæra fjölmiðlamenn fyrir að tala um fjármál þeirra.

Nú er grunnskólakennari á Akureyri orðinn að píslarvotti pólitískrar rétthugsunar, hugsanlega nákvæmlega það sem hina ofsatrúuðu dreymir um að verða einhvern tíma á lífsleiðinni. 

Síðan hvenær varð það eðlilegt mál á Íslandi að fólk megi ekki segja það sem því finnst, og fyrir vikið vera álitið skynsamt eða heimskt? Af hverju í ósköpunum þarf að ganga lengra og hóta fólki eða koma úr starfi þeim sem hafa "rangar" skoðanir?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband