Færsluflokkur: Íþróttir

Áfram Ísland!! Enn möguleiki á heimsmeistaratitli fyrir Íslendinga, en tæpt er það og spennandi!

Í dag tefldum við gegn sterkustu sveit mótsins, tékkneska U-16 sveit. Patti gerði stutt jafntefli, en Jóhanna, Palli og Gummi töpuðu öll.

Þrátt fyrir 3.5-0.5 tap erum við ennþá efst í U-14 flokki. Á morgun verður tefld hrein úrslitaviðureign gegn S-afrískri sveit. Það eru tvær S-Afríkusveitir í mótinu. Í annari sveitinni eru bara einstaklingar með hvítan húðlit, og hinni aðeins einstaklingar með dökkan. Apartheit á skákborðinu?

Við teflum gegn hörundsdökku S-Afríkubörnunum í fyrramálið, en hörundsljósa S-Afríkusveitin er að keppa við okkur um fyrsta sætið. Við þurfum að vinna viðureignina 3-1 til að tryggja okkur titilinn, en það er séð veiði en alls ekki gefin; því að taflmennska og einbeiting okkar manna hefur verið að taka dýfur. Þau telja það vera vegna mikils hita; en ég held að það sé vegna þess að þau eru yfir sig spennt yfir stöðu mála og eiga erfitt með að halda ró sinni þess vegna. Megin keppinautar okkar tefla hins vegar gegn Qatar U-14. 

Mikið liggur undir. Heiðurinn. Metnaðurinn. Gleðin.

Dramatísk lokaumferð hefst kl. 9:00 í fyrramálið. Börnin eru mjög þakklát yfir stuðningnum og kveðjunum sem rignt hefur yfir okkur, hér á blogginu, í tölvupósti og á Skákhorninu. Það er ljóst að slíkt bakland eins og Íslendingar eru og að finna fyrir slíkum algjörum stuðningi er ómetanlegt þegar á hólminn er komið.

Meira á morgun... 

 

Áfram Ísland!!


Forustu á heimsmeistaramóti haldið þrátt fyrir erfiðan dag

Í dag voru tefldar tvær umferðir, sú fyrri gegn Qatar U-16 og sú síðari gegn Qatar U-14. Fyrri viðureignin gekk betur en við áttum von á en sú síðari verr; þannig að þetta jafnaðist út.

Við gerðum 2-2 jafntefli við Qatar U-16. Patti og Palli sigruðu báðir af miklu af öryggi, en Jóhanna tapaði eftir byrjunarmistök, og Birkir Karl tapaði eftir að hafa byggt upp trausta stöðu, en síðan leikið af sér á viðkvæmu augnabliki þar sem hann gat unnið heilan mann af andstæðingnum, en yfirsást það. Birkir Karl rakst utan í kóng sinn sem féll; hann reisti hann strax við, en adnstæðingur hans krafðist þess að hann hreyfði manninn þar sem hann var snertur. Birkir Karl mótmælti hástöfum og skákdómarar komust að þeirri niðurstöðu að krafan var ósanngjörn þar sem Birkir hafði aðeins rekist utan í manninn. Má segja að þetta hafi verið hluti af sálfræðihernaði Qatar gegn Íslendingum; sem leggjast ekki það lágt að stunda skotgrafarhernað, heldur gera einfaldlega sitt allra besta.

Kl. 15:00 byrjaði svo seinni umferðin kl. 15:00, en þá var hitinn orðinn nánast óbærilegur fyrir börnin; þau gátu varla setið kyrr vegna hita; drukku mikið vatn, og reyndu að sigrast á aðstæðum. Það var erfitt. Þau töpuðu sinni fyrstu viðureign í mótinu gegn U-14 sveit, 2.5-1.5 gegn Qatar U-14. Gummi, Palli og Patti gerðu allir jafntefli, en Jóhanna tapaði eftir slæma afleiki í mjög vænlegri stöðu.

Þrátt fyrir okkar fyrsta tap erum við með 4 vinninga forystu, og aðeins 2 umferðir eftir (8 mögulegir vinningar). Þannig að spennan er gífurleg, og ljóst að mikilvægt er að geta brosað og hlegið almennilega fyrir 8. og næststíðustu umferð.

9 umferða kappskákmót án hvíldardags er mikil þolraun. Nú vonar maður bara að þau haldi út síðustu tvær umferðir. 

8. umferð er kl. 13:00 að íslenskum tíma á morgun; og mun ég senda inn fréttir eins fljótt og ég get þegar þeirri umferð er lokið.

Baráttukveðjur velkomnar!


Raunverulegur möguleiki á heimsmeistaratitli fyrir Íslendinga

Góðir möguleikar á heimsmeistaratitli fyrir Íslendinga, en mér finnst nóg um hversu mikið er lagt á börnin.  (Sigurður Bragi Guðmundsson)

 

Tékkland: HM í Pardubice # 4

Dagur 5:  

Í dag fengu Íslendingar tékknesku U-14 sveitina og lögðu hana 4-0. Jóhanna Björg vann sinn andstæðing eftir laglega sókn á kóngsvæng. Patti sigraði af miklu öryggi. Palli vann með einstakri heppni, og Gummi lagði sinn andstæðing létt.

Á morgun verður teflt við Qatar, fyrst U-16 sveitina og síðan U-14. Ljóst er að þetta eru lykil viðureignir þar sem heimsmeistaratitill liggur undir. 

Ég mun senda inn fréttir á morgun af gengi okkar manna.

Staðan er þannig í U-14 flokki:

  • 1. sæti: Salaskóli 11,5
  • 2. sæti Qatar -  8,5
  • 3. sæti Portugal 8,0 

Fyrir utan að hafa verið að tefla allt að tvær skákir í dag, allt að fjóra tíma í senn, hafa börnin verið að stúdera þrjá til fjóra tíma á dag eftir skákirnar til að læra af þeim. Þau sýna einstaklega mikinn áhuga og dugnað, við erfiðar aðstæður, enda hótelið ekki loftkælt og hitinn 35 gráður. Börnin halda enn góðri einbeitingu þrátt fyrir bæði mikinn klið og læti í skákhöllinni, auk mikils hita. Hitinn gæti verið Qatar í hag; en spáð er um 37 stiga hita á morgun, en börnin úr Salaskóla eru vel undirbúin, hafa borðað vel, sofið vel og haldið góðum aga, þannig að þetta verður æsispennandi.

Mér finnst gott hvað Hrannar heldur góðum aga á svefnvenjum, mataræði, kurteisi, stundvísi, og góðri háttsemi. (Sigurður Bragi Guðmundsson) 

Meira á morgun...

Tékkland: HM í Pardubice # 3 - efst eftir fjórar umferðir

Dagur 4:

Teflt var við skóla frá Portúgal (U-14) í 3. umferð. Jóhanna og Patrekur sigruðu af öryggi, en Palla var boðið jafntefli þegar hann var heilum manni undir, en andstæðingur hans eitthvað tæpur á tíma; sem hann að sjálfsögðu þáði fegins hendi. Birkir Karl tefldi sína fyrstu skák á heimsmeistaramóti og var greinilega mikill skrekkur í honum, en skák hans lyktaði með jafntefli. Andstæðingur hans bauð honum jafntefli þegar hann var peði yfir, og Birkir þáði það án umhugsunar.

Eftir þennan sigur, 3-1, var Salaskóli kominn í efsta sætið. Ég misskildi skákstjóra fyrir 1. umferð og hélt að sigur þýddi einfaldega 2 stig, jafntefli 1 stig og tap 0 stig. Það var leiðrétt í gær; en það eru vinningarnir sem telja fyrst og fremst.

Í 4. umferð fengum við grískan skóla (U-16), þann allra stigahæsta í mótinu. Jóhanna átti enn í vandræðum með byrjunina og lék illa af sér snemma í skákinni. Eftir það fékk hún stöðu sem erfitt var að tefla vel, og tapaði fljótt. Patti náði góðri stöðu á 2. borði en tapaði eftir að hafa gerst aðeins of sókndjarfur; en andstæðingi hans tókst að loka riddara og drottningu inni. 

Palli fékk mjög góða stöðu á 3. borði, en vanmat eigin stöðu og skipti upp þar til staða hans var orðin verri. Hann lék nokkra ónækvæma leiki og skákinni í tap.  Gummi sigraði aftur á móti með máti á 4. borði, eftir frekar flókna fléttu þar sem nauðsynlegt var að leika alltaf rétta leiknum; andstæðingurinn misreiknaði sig. Þannig að við náðum einum vinningi gegn þeim andstæðingum sem eru stigahæstir á pappírnum, og okkur tókst að halda 1. sætinu, þó að tæpt sé, því Kvatar kemur í humátt á eftir okkur.

Ekkert hræðilegt kom upp á í dag annað en að hitinn hefur aukist mjög; kliðurinn í salnum er jafnmikill og áður; en börnin halda einbeitingu nokkuð vel.

Á morgun verður tefld ein umferð, og rétt eins og allar aðrar umferðir er hún úrslitaumferð. Metnaður barnanna er mikill, þau leggja sig öll 100% í skákirnar, en hafa ekki alltaf jafn mikla þolinmæði þegar kemur að náms- og rannsóknarvinnunni eftir hverja skák. 

 


Tékkland: HM í Pardubice # 2 - sigur, einbeiting og ásakanir

Dagur 3:

Á myndinni, frá vinstri: Guðmundur Kristinn Lee, Páll Andrason, Patrekur Maron Magnússon, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Birkir Karl Sigurðsson stendur og fylgist með. 

Dagurinn í dag var viðburðarríkur fyrir börnin. Í gærkvöldið og í morgun píndi ég þau til að fara yfir allar skákirnar sínar í hóp; sem var mjög lærdómsríkt, þó að sumum hafi þótt það heldur leiðinlegt til lengdar. En svona er þetta, árangur er einungis á undan erfiði í orðabókum.

Andstæðingarnir voru skóli frá Suður-Afríku (U-14). Þetta var æsispennandi umferð, því að ég sá ekki betur en að við vorum með tapað bæði á 3. og 4. borði; en þeim Páli Andrasyni og Guðmundi Kristni Lee tókst samt báðum að snúa á andstæðingana eftir erfiðar stöður. Patrekur var lengi með mun betra á 2. borði en lék ónákvæmum leik í um 30. leik, sem þýddi að hann tapaði peði og var nánast kominn með tapað. Honum tókst þó að koma upp þráskáksstöðu, en andstæðingur hans vildi alls ekki þráskák og lék þess í stað af sér heilum hrók; og eftir það var eftirleikurinn auðveldur fyrir Patta. Jóhanna misreiknaði sig aðeins í byrjuninni og átti mjög erfitt uppdráttar mest alla skákina. Það kom upp staða þar sem hún hélt sig vera að tapa manni, en átti mjög fallegan leik sem gat bjargað stöðinni algjörlega. Henni yfirsást því miður þessi leikur og tapaði skákinni. Krakkarnir eru að standa sig vel, halda hópinn og hafa gaman af hverju öðru. Þeim finnst erfitt hvað ég píni þau mikið í stúderingar, en inn á milli hleypi ég þeim þó í knattspyrnu og verslanir.

Á morgun keppa þau tvær umferðir. Ég legg mikið upp úr því að þau njóti skákanna og hafi gaman af, og læt þau vita að mín vegna skiptir ekki máli hvort þau vinni eða tapi skákum. Þau eru búin að vinna sér inn ferð á heimsmeistaramót, og hvatningin kemur þaðan sem hún verður að koma til að ná árangri, innanfrá. 

Eitt af foreldrum andstæðinga okkar taldi sig sjá okkur svindla í dag, þar sem að krakkarnir stóðu stundum upp frá skákum og spjölluðu saman. Þessi kona skapaði mikla ringulreið þegar hún krafðist þess af skákstjóranum að börnunum yrði refsað á einhvern hátt. Börnin hafa vanist því á Íslandi að hægt er að standa upp frá skákum, fara fram og spjalla aðeins saman um annað en skák; en allt spjall er harðbannað hérna, a.m.k. á meðan skákir standa yfir; og mér sem liðstjóra var einnig harðbannað að tala við þau á meðan skákirnar stæðu yfir. Þetta vakti mikla umræðu hjá börnunum og eru þau staðráðin í því að tala ekki oftar saman á meðan skákir þeirra eru í gangi. 

Það var mikill kliður í skáksalnum og jafnvel töluvert um það að fólk talaði saman háum rómi örfáum metrum frá keppendum. Sumir eiga auðveldara en aðrir með að aðlagast slíkum aðstæðum. Skipuleggjendur mótsins eru engan veginn að standa sig í að gera aðstæður boðlega keppendum á alþjóðlegu skákmóti, þar sem nauðsynlegt er að ró og friður ríki til að menn geti haldið einbeitingu sinni. Því finnst mér það hreint afrek hjá börnunum að ná þessum góða sigri, þrátt fyrir óvenju mikið áreiti á skákstað.

Sendum sérstakar þakkarkveðjur til Hafrúnar Kristjánsdóttur sem hitti hópinn fyrir ferðina og kenndi okkur leiðir til að bæta einbeitingu og keppnisskap.  Sá fyrirlestur var mjög gagnlegur og ljóst að börnin eru að tileinka sér leiðbeiningar hennar í verki. 


Tékkland: HM í Pardubice # 1

Dagur 1:

Hópurinn fríði lagði af stað kl. 4:30. Flug til Kaupmannahafnar kl. 7:00 og til Prag kl. 14, og svo rúta til Pardubice kl. 17:00.

Ferðin var tíðindalaus að mestu, sem er gott fyrir svona ferðir. Börnin borðuðu góðan kvöldmat og ættu að vera sæmilega stillt fyrir 1. umferð heimsmeistaramóts barnaskólasveita sem hefst k. 15:30 á morgun.

Sveitin er þannig skipuð:

  1. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
  2. Patrekur Maron Magnússon
  3. Páll Snædal Andrason
  4. Guðmundur Kristinn Lee
  5. Birkir Karl Sigurðsson

Dagur 2:  

Allir eru orðnir vel þreyttir núna kl. 20:00. Kominn tími til að fara í háttinn.

Þegar á skákstað var komið daginn eftir hafði umgjörð mótsins verið breytt. U-14 og U-16 eru að keppa í sama hollli, og umferðum hefur verið fjölgað úr 7 í 9. Við erum U-14 og lentum á móti U-16 sveit frá Prag í fyrstu umferð. Ég er ekki viss um að þeir hafi verið neitt sterkari skákmenn en okkar krakkar, sem tefldu ekki alveg eins og þau eiga að sér, nema þá kannski Patti á 2. borði, en hann var sá eini sem náði jafntefli. Þannig að 1. umferð töpuðum við 3.5-0.5.

Það skiptir ekki máli hversu stórt er sigrað eða tapað, því að liðið fær aðeins stig fyrir sigur eða jafntefli. Það eru tvö stig í pottinum. 2 stig fyrir sigur og 1 fyrir jafntefli.

Semsagt Ísland U-14 gegn Tékklandi U-16: 0-1 

Krakkarnir kvörtuðu svolítið yfir látum á skákstað, en keppt er í stórri skautahöll, ófrystri, og var mikið af fólki inni í höllinni sem var ekki að tefla og hugsaði ekkert um mikilvægi þagnar fyrir skákina. Margoft heyrði maður háværar gemsahringingar og ekkert gert við því. Ég talaði við skipuleggjendur um þetta, en þeir sögðust ekkert geta gert við þessu, en að þetta myndi skána því að fleira fólk sem ber virðingu fyrir skák verður í salnum næstu daga, því fjöldi skákmóta mun fara fram þar. 

Það á eftir að reyna á þetta. Þetta pirrar mig ekki persónulega, því að ég er vanur miklum klið í skákmótum á Mexíkó; en skil vel að þetta trufli börnin. Þau þurfa bara að læra mikilvægi þess að láta ekki ytri aðstæður trufla sig.

Við fórum yfir þrjár af skákunum í gærkvöldi, og börnin lærðu mikið af þeim rannsóknum. Ljóst að þau voru ekki að átta sig á mikilvægi þess að taka vald á hálfopnum og opnum línum. Einnig var svolítið um að drottningar færu á flakk í byrjuninni og farið í sókn áður en byrjuninn var lokið, nokkuð sem kemur varla fyrir á æfingum hjá okkur. En þessu er auðvelt að kippa í lag og mikilvægast af öllu að börnin bæði hafi gaman af og læri á reynslunni.

Næsta umferð er í dag kl. 15:00.

Heimasíða heimsmeistaramóts barnaskóla í skák 2007

 


Undirbúningur hafinn: Heimsmeistaramót í Tékklandi 2007

 Besta leiðin til að gera drauma þína að veruleika er að vakna.

Paul Valery

 

Þá er maður búinn að ná sér af flugþreytunni eftir Ameríkuflugið.  Á morgun byrja ég að þjálfa fimm ungmenni sérstaklega fyrir heimsmeistarakeppni barnaskólasveita í skák sem haldin verður í Tékklandi í næsta mánuði. Síðustu þrjú árin höfum við félagi minn, Tómas Rasmus, þjálfað þau saman í Salaskóla. Fyrir mína tíð þjálfaði Smári Teitsson börnin í skólanum ásamt honum Tómasi; þannig að ég kom að góðu búi.  Skólastjórnendur hafa stutt sérstaklega vel við skákina; og hafa töfl í öllum skólastofum, auk þess að halda töflum við á ganginum þar sem að nemendur geta sest niður í rólegheitum og teflt. 

Á síðustu æfinguna í vetur mættu 18 stúlkur og 16 strákar.

dsc00139web

Þau hafa náð gífurlega góðum árangri í vetur.

  • Á Íslandsmóti grunnskólasveita lenti Salaskóli í 3. sæti á eftir Rimaskóla og Laugalækjaskóla, en í kvöld lenti Laugalækjaskóli í 2. sæti á Evrópumóti grunnskólasveita. Aðrar sveitir Salaskóla voru einnig verðlaunaðar fyrir góðan árangur.
    • A-sveitina skipuðu:
      • Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
      • Patrekur Maron Magnússon
      • Eiríkur Örn Brynjarsson
      • Páll Snædal Andrason
      • Varamaður: Ragnar Eyþórsson
  • Á Íslandsmóti barnaskóla lenti Salaskóli í 2. sæti á eftir Grunnskóla Vestmannaeyinga þrátt fyrir að okkur hafi vantað lykilmann í A-liðið. Vestmannaeyingar tefla á Evrópumóti barnaskólasveita.
    • A-sveitina skipuðu:
      • Eiríkur Örn Brynjarsson
      • Páll Snædal Andrason
      • Birkir Karl Sigurðsson
      • Ómar Yamak
  • Á Íslandsmóti barnaskóla, stúlknaflokki, lenti Salaskóli í 2. sæti á eftir Rimaskóla.
    • A-sveitina skipuðu:
      • Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
      • Selma Líf Hlífarsdóttir
      • Ragnheiður Erla Garðarsdóttir
      • Guðbjörg Lilja Svavarsdóttir
  • Fimm börn og unglingar úr Salaskóla kepptu á Landsmóti í skólaskák. Það er met, aldrei hafa fleiri þáttakendur verið með á landsmóti úr einum og sama skólanum. Þau tefldu sem fulltrúar Reykjaneskjördæmis, sem telur Kópavog, Garðabæ, Hafnafjörð, Mosfellsbæ, Seltjarnarnes og restina af Reykjanesinu. Með það í huga er þetta einstakur árangur.
Kópavogsbær er helsti styrktaraðili sveitarinnar til þátttöku á heimsmeistaramóti barnaskólasveita í næsta mánuði. Þessi börn eru ekkert annað en frábær, þau ætla að láta drauma sína rætast og hafa vaknað.  Kunnum við Kópavogsbæ bestu þakkir fyrir.

Páll Snædal Andrason, einn af liðsmönnum sveitarinnar hefur sett upp bloggsíðu fyrir keppnina. 

Þau sem keppa fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu eru:

  1. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir
  2. Patrekur Maron Magnússon
  3. Páll Snædal Andrason
  4. Guðmundur Kristinn Lee
  5. Birkir Karl Sigurðsson 

You Will Never Walk Alone: Liverpool - A.C. Milan (upphitun fyrir kvöldið)

Ljóst er að leikurinn sem Liverpool og A.C. Milan spiluðu fyrir tveimur árum hefur áunnið sér sess sem klassískur knattspyrnuleikur. Ég hef engan sérstakan áhuga á fótbolta, en ber samt ákveðnar tilfinningar til Liverpool - sérstaklega vegna frábærra stuðningsmanna og andrúmsloftsins í kringum liðið. Ég sá úrslitaleikinn fyrir tveimur árum þar sem ég var staddur í Mexíkó, og þá var oft öskrað: 

"Gooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooool!"

Þessi leikur var endursýndur oft á dag á flestum sjónvarpsstöðvum í Mexíkó alla vikuna. 

Þetta blogg er sérstaklega tileinkuð föður mínum og bróður, og Fabio vinnufélaga mínum - sem allir hafa verið harðir púlarar frá barnsaldri og verða mættir í stofuna með trefilinn í kvöld.

Þetta verður spennandi upplifun, sama hvernig fer. 10 mínútna inngangur sérstaklega gerður fyrir leikinn í Aþenu sem leikinn verður í kvöld.

 2005 Champions League Final - AC Milan vs Liverpool FC:

Vegurinn til Aþenu:



Og að sjálfsögðu:

You will never walk alone:


Íslandsmót grunnskólasveita í skák 2007

Íslandsmót grunnskólasveita í skák fór fram um helgina. Ég þjálfa börn og unglinga í Salaskóla ásamt Tómasi Rasmus, góðum vini og félaga, en við fórum með 20 börn til taflmennsku þessa helgina og skipuðu þau fimm sveitir.

Almennum lesanda gæti þótt skákmót lítt spennandi fyrirbæri, þar sem fólk situr andspænis hvort öðru, horfir á fígúrur á 64 reitum, ýtir á klukku og virðist vera gífurlega spennt yfir einhverju sem er að gerast á borðinu. Þó að ekki allir sjái þau undur og stórmerki sem gerast á þessum 64 reitum, eiga flest þeirra barna sem tóku þátt í mótinu það sameiginlegt að þau fatta þetta. Og ekki bara það, þeim finnst þetta frábær skemmtun.

Það getur verið gaman að sjá tvö börn búa til fullt af vandamálum á skákborðinu fyrir hvort annað og gera síðan sitt besta til að leysa þau. Lausnirnar eru ekki alltaf auðfundnar, en yfirleitt sigrar sá sem er útstjónarsamari og áttar sig betur á manngangi taflmannanna og tengslum allra þessara reita. Börnin þurfa að læra byrjanir sem gera þeim fært að koma sér í góða stöðu sem jafnframt býr til vandamál fyrir andstæðinginn, síðan þurfa þau að vinna úr þeim vandamálum sem andstæðingnum tekst að skapa og takist að leysa þau getur skákin unnist. 

Þau þurfa að læra um sókn og vörn, áætlanir og skjót viðbrögð, tíma og rúm, siðferði og hegðun, útreikninga og innsæi, þekking og visku; og þannig fram eftir götunum. Skák er íþrótt sem reynir á þolinmæði, útsjónarsemi og hraða en jafnframt nákvæma hugsun. Þetta sýndu börnin síðustu helgi í stórum mæli. Þau sátu tímunum saman við skákborð. Sum uppskáru meira en önnur. 

Mér til mikillar gleði uppskáru börnin úr Salaskóla mikið. 

A-sveit Laugalækjaskóla vann mótið af miklu öryggi og fékk 33 vinninga af 36 mögulegum. Hægt er að fá 4 vinninga í hverri umferð, en fjórir liðsmenn tefla í hverri umferð og mótið er níu umferða langt. Þeir vörðu Íslandsmeistaratitil sinn og fá tækifæri til að vinna Norðurlandameistaratitil í haust, en Rimaskóli er núverandi Norðurlandameistari.

vara1409

Sigurvegarar Laugalækjarskóla. Frá vinstri: Daði Ómarsson,  Vilhjálmur Pálmason, Matthías Pétursson, Einar Sigurðsson, Aron Ellert Þorsteinsson og Torfi Leósson liðsstjóri.

Í öðru sæti varð A-sveit Rimaskóla með 31 vinning. Sveitin var nokkuð örugg í 2. sætinu.

vara1405

Á myndina vantar liðstjórann Davíð Kjartansson og Sigríði Björg Helgadóttur, sem vann borðaverðlaun á 4. borði. Á myndinni frá vinstri: Ingvar Ásbjörnsson, Hörður Aron Hauksson og Hjörvar Steinn Grétarsson.

Sveitin okkar Tómasar úr Salaskóla náði svo þriðja sætinu af miklu öryggi.

vara1403

A-sveit Salaskóla. Á myndinni eru, frá vinstri: Eiríkur Örn Brynjarsson, Páll Andrason, Patrekur Maron Magnússon, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Ragnar Eyþórsson og á bakvið þá liðstjórarnir Hrannar og Tómas Rasmus.

D-sveit Salaskóla fékk viðurkenningu sem sterkasta D-sveit landsins:

vara1397

Á myndina vantar Gísla Frey Stefánsson. Frá vinstri: Garðar Elí Jónasson, Stanley Axelsson, Arnar Snæland og Birnir Axelsson.  Og liðstjórarnir Hrannar og Tómas standa á bakvið.

E-sveit Salaskóla fékk viðurkenningu sem sterkasta E-sveit landsins:

vara1395

Frá vinstri: Breki Elí Arnarsson, Björn Ólafur Björnsson, Baldur Búi Heimisson, Jafet Magnússon, og að baki þeim liðstjórarnir Hrannar og Tómas.  

Eiríkur Örn Brynjarsson úr Salaskóla deildi einnig verðlaunum fyrir besta árangur á þriðja borði með Matthíasi Péturssyni.

IslmotGrunnskola2007_01

1. Laugarlækjarskóli A sveit 33 vinningar af 36 mögulegum.
2. Rimaskóli A sveit 31 vinningar.
3. Salaskóli, Kópavogi A sveit 27 v.
4. Brekkuskóli Akureyri 24,5 vinningar.

5-9. Rimaskóli B sveit 19 v.

Laugarlækjarskóli B sveit 19 v.

Húsaskóli 19 v.

Hjallaskóli Kópavogi A sveit 19 v.

Hallormstaðaskóli B sveit 19 v.

10. Rimaskóli C sveit 18,5 v.

11-12. Grunnskóli Seltjarnarnes 17,5 v.

Salaskóli Kópavogi B sveit 17,5 v.

13-14. Hvaleyrarskóli Hafnarfirði 17 v.

Hallormstaðaskóli A sveit 17 v.

15. Réttarholtsskóli 16 v.

16. Salaskóli Kópavogi E sveit 15 v.

17. Salaskóli Kópavogi C sveit 14 v.

18. Salaskóli Kópavogi D sveit 12 v.

19. Hjallaskóli B sveit 5 v.


Til hamingju Hellir!

chess-game-480Íslandsmóti skákfélaga, síðari hluta eins helsta skákmóts ársins á Íslandi lauk í dag með sigri Taflfélagsins Hellis. Hellismönnum óska ég til hamingju með sigurinn.

Mitt lið, K.R. féll úr 2. deild. Ég tefdli aðeins 2 skákir af 7 fyrir mitt lið og fékk hálfan vinning, en tefldi á 1. borði fyrir a-sveit. Í seinni umferð dagsins tapaði ég fyrir Björgvini Jónssyni alþjóðlegum meistara eftir slæman afleik snemma í byrjun, en í fyrri skákinni náði ég jafntefli gegn sterkum sænskum stórmeistara, Tiger Hillarp Persson (2557 FIDE stig). Ég vissi það ekki fyrir skákina en Tiger er sérfræðingur í byrjunni sem við tefldum og gaf meira að segja út bók um hana sem fær afbragðsdóma á amazon.com: Tiger's Modern.  Ef eitthvað er, hefði ég átt að vinna þessa skák, en meistarinn varðist af mikilli færni. 

Skákina okkar er hægt að skoða með því að smella hérna


mbl.is Hellir vann Íslandsmót skákfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband