Færsluflokkur: Ferðalög
4 unglingar drepnir af stormsveipi í Iowa, grundvöllur trúarbragða rakinn og ræddur, auk þess að Don Hrannar keppti í blaki
12.6.2008 | 12:08
95 unglingar á aldrinum 13-18 ára dvöldu í sumarbúðum þegar einn mesti stormur síðustu ára skall á í gærkvöldi. Stormsveipur snerti land og rústaði skála drengjanna þannig að 40 slösuðust en 4 létust. Þetta gerðist í Iowa, fylki sem tengir saman Nebraska og Minnesota, þar sem ég keyrði um í flóði og stormi síðasta sunnudag.
Við fundum fyrir storminum hérna í Nebraska og fylgdumst með þróuninni með hjálp gervihnattar, en mestu lægðirnar laumuðust framhjá Holdrege. Samt þegar ég fór út úr húsi leiftraði himinninn allt í kring, og regndroparnir sem féllu af himnum voru öðruvísi en ég hafði áður verið vitni að. Það voru frekar strjálir dropar en þungir sem féllu. Ég hef aldrei séð jafn stóra regndropa, en hver og einn þeirra var á stærð við möndlu.
Fyrir utan þetta var dagurinn ágætur. Ég horfði á hina frábæru kvikmynd The Man From Earth (2007) til þess að vekja upp samræður um trúarbrögð, og áttum við í kjölfarið afar góðar samræður um mikilvægi umburðarlyndis gagnvart ólíkum skoðunum og trúarbrögðum, auk þess að við veltum fyrir okkur því sem er sameiginlegt ólíkum trúarbrögðum og því sem er ólíkt. Þau komust að því að mikilvægasta hlutverk trúarbragða virðist vera að setja saman siðferðireglur sem einstaklingum í viðkomandi samfélagi er ætlað að fylgja. En stundum væri munur á hvort að einstaklingar verði nauðsynlega að fylgja þessum reglum, eða hvort um leiðarkerfi um ákvarðanatöku og gildismat væri í gangi, sem ekki þyrfti að fylgja en væri gott að hafa til hliðsjónar. Afar góðar samræður.
Kvöldið hjá okkur var leikjakvöld, á meðan stormurinn fór um Nebraska og nærliggjandi fylki, spiluðu unglingarnir tölvuleiki, horfðu á kvikmyndir, spiluðu körfubolta og blak. Við kennararnir kepptum við sigurvegara nemenda í blaki, og eftir spennandi leik þurftum við að lúta í lægra haldi, enda ansi öflugir andstæðingar sem æfa sex sinnum í viku allt árið - örugglega bara til að ráða við okkur.
Annars var dagurinn góður og unglingarnir blogguðu í lok dagsins hérna.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Stjórnmálaheimspeki og keila
11.6.2008 | 23:08
Í gærmorgun lásum við úr Politics eftir Aristóteles og fjölluðum um hvernig samfélög verða til, og um stjórnskipun, hvort að stjórnmálamenn væru líklegri til að stela og ljúga til að ná völdum, eða fara heiðarlegu leiðina. Unglingarnir sögðu að auðveldari leiðin væri skemmtilegri og þar sem að sjaldan kemst upp um lygar og stuld stjórnmálamanna, væri sú leið betri. Samt sé hún slæm.
Við ræddum um ólíkar gerðir stjórnskipunar og komumst að þeirri niðurstöðu að Bandaríkin væru Oligarchy, eða auðmannaveldi, þar sem auðmenn virðast stöðugt halda í spottana og kippa í stjórnmálamenn öðru hverju til að þeir hagi sér eftir óskum þeirra. Sams konar stjórnskipun virðist ríkja á Íslandi í dag.
Um kvöldið fórum við svo í keilu, þar sem ég skoraði heil 121 stig, þrátt fyrir að ég stundi keilu reglulega: einu sinni á ári.
Ég þakka lesendum fyrir að benda á skemmtileg lög til að hlusta á. Ég mun halda áfram að kynna stutt tónlistarbrot, og ekki kæmi mér á óvart þó að ég spilaði fyrir þau eitthvað íslenskt og gott.
Ég fann ekki sænska Eurovision lagið Húbba húlla á YouTube. Veit einhver hvað það heitir í raun?
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég bið að heilsa, ljóðasamkeppni fyrir framan áheyrendur, heimspekinámskeið og skemmtilegur smábær í miðjum Bandaríkjunum
10.6.2008 | 12:33
Holdrege er svolítið skemmtilegur bær. Ég hef heimsótt hann á hverju sumri síðustu 15 ár, til að kenna þar rökfræði. En þar sem ég má ekki fá greiðslu fyrir þetta, lít ég á þetta sem sumarfrí og tækifæri til að fríska mig við þegar kemur að gagnrýnni hugsun og heimspeki. Holdrege er svona bær þar sem þú veifar þeim sem þú gengur framhjá með bros á vör. Sért þú í bíl, veifarðu bakvið stýrið. Yfirleitt er veðrið afar gott á þessum árstíma, um 30 stiga hiti og blíða.
Þó gerist það stundum að á skellur úrhelli. Eitt árið sáum við skýstrók þeysa um svæðið. Hann var í um 5 km fjarlægð, en að fylgjast með þessu fyrirbæri yfir sléttlendinu, sópa trjám og húsum í burtu án fyrirhafnar, var sjón sem ég mun seint gleyma. Einnig hafa skollið á undarleg haglél, þar sem hvert hagl hefur verið á stærð frá golfkúlu upp í hafnarbolta og gert gróðurhúsum og bílþökum lífið leitt. Eins og ég sagði frá í gær keyrði ég í gegnum fllóðasvæði.
Annars er ég staddur hérna til að kenna afburðargreindum unglingum heimspeki og rökfræði. Þetta eru allt unglingar sem eru að skora einkunnir frá 9.8-10 á samræmdum prófum í Nebraska. Um 100 unglingar sækja um að komast í heimspekikúrsinn minn á hverju ári, en aðeins 14 komast að.
Í gær lásum við úr hugleiðingum Descartes, þar sem að hann fjallar um ætlun sína um að endurhugsa alla sína trú og öll sín gildi, afmá allar þær skoðanir sem byggja aðeins á tómum hefðum og villutrú. Hann ætlaði að hugsa heiminn upp á nýtt og tókst það. Nemendur spurðu fjölda spurninga og svo ræddum við þær allan daginn. Afrakstur dagsins má sjá hérna, þar sem að ég hef undirbúið bloggkerfi þar sem nemendur skrifa eitthvað af sínum pælingum eftir daginn. Hver sem er getur skráð sig inn og gert athugasemdir.
Um kvöldið tók ég svo þátt í ljóðakeppni fyrir framan áheyrendur, þ.e.a.s. alla nemendur námskeiðsins, um 125 talsins og kennarana. Ég skráði mig í keppnina aðeins vegna þess að nemendur mínir hvöttu mig til þess. Þau vildu fá að heyra eitthvað íslenskt. Ég valdi eitt af mínum eftirlætisljóðum eftir Jónas Hallgrímsson, Ég bið að heilsa, til að flytja fyrir framan hópinn. En þegar á hólminn var komið, frétti ég að reglurnar væru þannig að maður þyrfti að flytja frumsamið ljóð. Þannig að ég henti einu slíku saman og flutti, og síðan flutti ég að sjálfsögðu ljóð Jónasar á eftir við mikinn fögnuð.
Ég vissi að ljóðið gæti ekki verið nein snilld, þar sem að ég hafði nánast engan tíma til að skrifa það og í fullum sal af fólki, aðeins með eina litla pappírsörk, bakhliðina, þar sem á framhliðinni var ljóð Jónasar. Ég ákvað að biðja áheyrendur að taka þátt í ljóðinu, þannig að éf ég lyfti upp hönd, þá þyrftu þeir að framkalla hljóð sem átti við um samhengi ljóðsins. Þetta var gaman.
Þannig hljómar ljóðið. Það er nafnlaust.
Thunders
drum at your lungs
Lightnings
flash through your eyes
Rain
flows up your cheek
Since you bath
in the grass
under the sun,
the hidden sun,
loved.
Þetta ljóð og flutningurinn sló í gegn og til að gera langa sögu stutta þá vann ég keppnina, sem skipti þó engu máli því ég var ekki gjaldgengur til að taka þátt, þar sem ég er kennari en ekki nemandi. Ljóðið fékk tvær 10ur í einkunn, eitt 9.5, eitt 9.0 og eitt 666.
Gaman að þessu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Í gær keyrði ég gegnum þrumuveður og flóð í Iowa
9.6.2008 | 22:35
Á ferð minni um Bandaríkin í gær, frá Minneapolis og um Iowa til Nebraska, skall á mikið þrumuveður. Mér fannst ég vera að keyra í gegnum þvottastöð í klukkutíma á alltof litlum hraða.
Þegar ég var nánast bensínlaus ákvað ég að leita bensínstöðvar í litlum afviknum bæ, en þegar ég kom þar að var allt á floti. Maður óð garðinn sinn í vaðstígvélum og húsin virtust sokkin ofan í vatnsfen. Þetta var frekar súrrealísk sýn.
12 tíma ökutúrinn gekk annars bara vel. Engin óhöpp, ekkert vesen, bara lengur á ferðinni en ég ætlaði mér.
Vildi bara deila þessu.
Óveður í Bandaríkjunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hvað er að frétta frá landi hinna frjálsu?
7.6.2008 | 06:45
Stúlka sem sat við hlið mér í flugvélinni sagði mér að hún væri að fara til Bandaríkjanna í fyrsta sinn. Þá fór ég að velta fyrir mér hversu oft ég hef heimsótt land hinna "frjálsu". Ljóst er að þessi tala er komin eitthvað yfir annan tug.
Það er alltaf áhugavert að kíkja á fréttirnar í sjónvarpi hótelherbergisins.
Tvær aðalfréttir hafa verið stöðugt í gangi:
1) Obama er sigurvegari og líklegt að Hillary verði honum ekki við hlið sem varaforseti, þar sem að hún og Bill hennar passa einfaldlega ekki í hópinn hans.
2) Stöðugir skýstrókar eru á hreyfingu yfir miðríkjum Bandaríkjanna og fólk varað við að vera of mikið á ferli. Það er búið að rigna töluvert hérna.
Það hefur ekkert verið minnst á íslenska ísbjarnardrápið, enda Bandaríkjamenn vanir vandamálum tengdum böngsum sem birtast hér og þar um Bandaríkin og róta í ruslatunnum, ásamt því að geta skaðað fólk. Eða kannski er bara of langt liðið síðan ísbjörninn fagri var felldur.
Á morgun hef ég dag til að flakka um Minneapolis og er bara búin að taka eina ákvörðun um morgundaginn: ég ætla ekki að fara í Mall of America.
Kannski maður skelli sér á vísindasafn Minneapolis, eða dýragarðinn. Það er örugglega hægt að gera ýmislegt skemmtilegt hérna annað en að horfa á sjónvarpið og blogga.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þorláksmessa í Köben og jól í Madrid
26.12.2007 | 09:14
Þorláksmessa í Köben
Á sunnudaginn lagði kjarnafjölskyldan af stað til Madrid, með stoppi í Kaupmannahöfn og öðru í Frankfurt. Við tókum Metro inn í miðbæ Köben og höfðum gaman af að upplifa danska jólastemmingu. Það sem kom mér mest á óvart var hversu rólegir Danirnir voru í Þorláksmessustressinu, eins og kalla mætti það heima, þar sem fólk virðist snúast nokkuð marga hringi um sjálft sig í leit að gjöfinni sem gleður meira en nokkuð annað. Asann og lætin að heiman var hvergi að finna á andlitum fólks sem gekk glaðbeitt um höfuðborg Danmerkur.
Ég hef aldrei áður stoppað í Kaupmannahöfn. Mest kom mér á óvart hversu mikið er af hjólum í borginni. Það voru bókstaflega allir á hjólum. Einnig fannst mér skemmtilegt að sjá langa röð af fólki fyrir utan kjötverslun, en fyrir utan var verið að steikja svín á teini. Fólkið ætlaði greinilega að kaupa jólamatinn á réttum stað. Þetta hlýtur að vera hefð hjá Dönum, sem ég hafði aldrei heyrt um.
Við keyptum gjafir handa börnunum, fórum upp kirkjuturn með útsýni yfir Kaupmannahöfn og fengum okkur svo ís. Síðan lá leiðin aftur á flugvöllinn. Millilending í Frankfurt og svo haldið til Madrid með Lufthansa. Ég verð að minnast aðeins á matinn og þjónustuna hjá Lufthansa. Þetta var eins og á fínasta veitingastað, og þar að auki var maturinn sem við fengum í vélinni feiknagóður.
Aðfangadagur í Madrid
Aftur undraði ég mig á viðmóti fólks. Ég fann að fólk var rólegt og óstressað, en samt ennþá að kaupa jólagjafir. Það var engin jólaös eða stress eins og maður finnur heima í Smáralind og Kringlunni fyrir jólin. Tilfinningin er meiri eins og þegar ég á unglingsaldri gekk niður Laugarveginn á Þorláksmessu með vini mínum í leit að skemmtilegum gjöfum. Við fórum nokkuð oft í neðanjarðarlestir, sem koma manni hratt á milli borgarhluta, en börnunum leist lítið á, enda hafa gangar verið illa þrifnir vegna verkfalls hreingerningarfólks. Við hittum ættingja frá Mexíkó sem búa í Madrid og nutum aðfangadagskvölds á ítölskum veitingastað. Þar urðum við vitni að smá stressi, þar sem að þjónarnir á veitingastaðnum virtust vera við það að fara á taugum og maður fann að þegar kallað var á þá pirruðust þeir upp og litu flóttalega á næsta starfsmann í von um að hann tæki kallið. Jólamaturinn var samt fínn og áttum við góða stund.
Eftir matinn áttuðum við okkur á að klukkan var allt í einu orðin hálf tíu, en lestirnar myndu hætta að ganga kl. 10. Við borguðum matinn og kvöddum ættingja okkar eftir að hafa skipst á jólagjöfum. Við börnin fengum ekta íþróttabol frá Real Madrid, en konan fékk bók. Leigubíla er vonlaust að fá á aðfangadagskvöldi, þannig að við drifum okkur í lestina og náðum heim á hótel.
Jóladagur
Við sváfum út, en fórum svo í almenningsgarð þar sem fór fram leikbrúðusýning um fæðingu Krists. Börnin höfðu mjög gaman af þessu, þar sem litið var á spaugilegu hliðarnar á bakvið söguna. Þeir sem stjórnuðu brúðunum hlustuðu á börnin í áhorfendahópnum og fengu þau til að taka virkan þátt í ævintýrinu. Þetta var vel heppnuð sýning. Í raun má segja að þetta hafi verið hálfgerð Monty Python nálgun, þar sem húmorinn minnti mikið á þá félaga. Sem dæmi má nefna að einn af vitringunum þremur var duglegur að skoða stjörnur himinhvolfsins, en tók ekki eftir þessari stóru og merkilegu stjörnu fyrr en hún sló hann í hausinn. Börnin skemmtu sér stórvel.
Síðan var bara gengið um skemmtigarðinn í nokkrar klukkustundir. Það allra merkilegasta fannst mér staður þar sem verið var að safna saman blöðrum undir gegnsæju tjaldi. Með blöðrunum fylgir bréf frá börnum, til vitringanna þriggja, en á þrettándanum fá börn gjafir sem þau óska sér að fá. Þetta finnst börnum mjög sniðugt, enda getur verið að þau hafi ekki fengið þá gjöf sem þau dreymdi um að fá á aðfangadagskvöld, og því fá þau tækifæri til að biðja um það á þrettándanum. Reyndar er þetta sjálfsagt heljarinnar brella af hendi kaupmanna, til að græða tvöfalt á jólunum, en fólk er sátt við þessa hefð og fylgir henni.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12 eftirminnilegustu atriði Afríkuferðar Salaskóla
30.9.2007 | 09:41
Kl. 10:30 á eftir förum við Jóhanna og Patrekur í útvarpsviðtal á Rás 2 hjá Margréti Blöndal, þar sem rætt verður um Namibíuferðina.
Af þessu tilefni ákvað ég að rifja upp 12 eftirminnilegustu atriði ferðarinnar.
1. Dansinn
Gummi og Birkir tóku þátt í trylltum afrískum dans. Ég á eftir að birta myndskeið með þessu hérna á blogginu.
2. Ljónaveislan
Við sátum klukkustund inni í búri og horfðum á ljónahjörð éta. Hegðun þeirra við 'matarborðið' og djúpt urr situr ennþá í mér.
3. Fátækt í hamingju
Við ókum um fátæk hverfi þar sem húsin voru kofar byggðir úr bárujárnsplötum. Samt ríkti gleði í fasi fólks. Börn léku sér að beinum og steinum. Fólk var úti! Algjör andstæða við Ísland í dag. Ég hef á tilfinningunni að Íslendingar séu að verða alltof ríkir og farnir að krefjast svo mikils af öllu og öllum að hætta sé á að gleyma því að gleðjast yfir einföldum hlutum.
4. Skólabörn sem haga sér vel
Þar sem ég hef heimsótt skóla á Íslandi síðustu ár hefur verið erfitt fyrir kennara að fá hópinn til að hegða sér sæmilega, kannski vegna þess að Íslendingar eru svo miklir einstaklingshyggjumenn og börnin þarafleiðandi líka. En börnin í skólastofum Namibíu höguðu sér einfaldlega fullkomlega. Það var ekki að sjá ofvirknivandamál eða vanvirðingu gagnvart kennurum. Það var gaman að sjá þetta. Annað en maður sér á Íslandi í dag, því miður.
5. Sigur á skákmótum
Salaskólasveitin vann sveitakeppnina og Patrekur vann einstaklingsmótið, bæði í skólaskák 20 ára og yngri. Algjör snilld!
6. Fílarnir
Við keyrðum ansi nálægt villtum fílum í Safari. Einn þeirra nálgaðist okkur ískyggilega mikið og var farinn að breiða út eyrun í um þriggja metra fjarlægð frá zoom-linsu Stefáns Jóns.
7. Oryx gómsæti og spjót bushmannsins
Við fengum máltíðir sem kitluðu bragðlaukana á skemmtilegri hátt en nokkrar aðrar máltíðir sem ég hef smakkað hvar sem er í heiminum. Oryk lundir eru hreinn unaður að kjammsa á, og svo er strúturinn alls ekki af verri endanum.
8. Flugan við morgunverarborðið
Fyrsta daginn í Afríku kom drekafluga að morgunverðarborðinu sem olli því að sum börnin hreinlega trylltust. Þau veifuðu út öllum öngum, öskruðu og skræktu, bara vegna einnar flugu. Ég minnti þau á að þegar þau yrðu hrædd í Afríku væri best að sýna engin óttamerki, rétt eins og á skákborðinu, því að óttamerki er veikleiki sem getur gert ógn að veruleika.
9. Hópefli
Við fórum í hópefli á skemmtilegum garði. Þar stjórnaði stæltur Schwarzenegger aðdáandi að nafni Andre hópeflinu af miklum krafti. Gerði þetta að stórskemmtilegu ævintýri.
10. Stefán Jón Hafstein
Stefán Jón var skemmtilegur leiðsögumaður, og braut upp bíltúra með því að gefa sögustundir í forsælu og gaf góð ráð þegar kom að prúttkaupum. Þegar gírkassinn eyðilagðist gerði hann úr skemmtilegt ævintýri sem gleymist ekki í bráð.
11. Rudigur
Rudigur var bílstjóri okkar í Windhoek. Börnin tóku ástfóstri við hann. Á síðasta deginum vorum við staddir inni í minjagripaverslun og ég spurði hann hvort hann langaði í eitthvað úr versluninni; fallegan penna, kveikjara eða eitthvað. En hann óskaði eftir íslensku landsliðstreyjunni í knattspyrnu. Spurning hvort að hægt væri að fá alvöru stykki fyrir hann?
12. Flugvallavandamál
Við flugum með British Airways út og áttum ferð til baka, en BA fær falleinkunn hjá mér. Þeir voru næstum búnir að klúðra ferðinni út vegna bókunarmála, og klúðruðu algjörlega ferðinni heim, rétt eins og Namibia Air. Vélin frá Namibia Air tafðist um tvær og hálfa klukkustund á heimleiðinni, þannig að við misstum af vélinni heim með British Airways. Hvorki Air Namibia né British Airways vildi nokkuð gera til að bæta hópnum þetta. Það var varla hjálparviðleitni til staðar! Tveir fullorðnir og fimm börn strand á flugvelli í London og enginn vildi hjálpa. Við hringdum í Icelandair og keyptum miða hjá þeim. Ég kem til með að forðast að ferðast með British Airways eins og heitan eldinn héðan í frá. Þetta þýddi þó að við Jóhanna höfðum 2 klst. til að kíkja til London. Við ráfuðum þar aðeins um Picadilly Circus.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Namibíuferð Salaskóla - síðustu dagarnir
19.9.2007 | 23:59
Kærar þakkir til þeirra sem sent hafa góðar kveðjur.
Eftir skákmótin fengum við bíltúr um fátækrahverfi í Windhoek, þar sem fjölmörg hús eru púsluð saman af bárujárnsplötum. Fólkið sem sat fyrir utan þessi fátæklegu hús var samt ríkmannlegt í fasi, þar sem bros geisluðu af nánast hverju andliti. Börn léku sér að beinum og steinum, og fjölmargir hinna fullorðna sátu í hóp og ræddu saman; en þó voru sumir sem sátu einfaldlega fyrir utan dyragættina sína og horfðu út í loftið eða á þorpslífið.
Við ræddum aðeins um fátækt og ríkidæmi og bárum saman þetta tvennt, og sýndist okkur meiri gleði vera hægt að finna í þessum fátæku börnum en þeim vel stæðu frá Íslandi. Það er eins og einhver neisti, gleði yfir hinu einfalda, verði fjarlægari eftir því sem auðveldara er að verða sér úti um hlutina.
Við höfum verið á miklu ferðalagi síðustu daga, fórum með Stefáni Jóni Hafstein til Grootfontein, sem er í um 400 km fjarlægð frá Windhoek, þar sem heimsóttir voru mjög fátækir skólar. Algengt er að bækur á bókasöfnum þessara skóla innihaldi um 30 titla. Hefðum við vitað hvað lestrarneyðin er mikil hefðum við komið með fullt af barnabókum.
Þrátt fyrir mikla fátækt skín gleði úr augum bæði barna og fullorðinna. Í allra fátækasta skólanum sem við heimsóttum fengum við danssýningu frá börnum skólans, en skólastýran var sýnilega gífurlega stolt af börnunum. Þrír strákar slógu á bumbur, og tíu stúlkur dönsuðu við taktinn og sungu. Gummi og Birkir ákváðu að slá sér í hópinn og stigu villtan dans og söng ásamt innfæddum. Þetta var gífurlega skemmtileg upplifun.
Eftir heimsóknirnar fórum við á Safari búgarð, ekki áreynslulaust því að gírkassinn á bílnum einfaldlega hætti að virka og eftir að hafa runnið töluverða vegalengd tókst bílstjóranum, Stefáni, að koma bílnum í þriðja gír. Næstu 40 kílómetrar voru keyrðir í þriðja gír og ljóst að stopp þýddi að allir færu út að ýta. Með því að taka skuggalega beygjur og dýfur hossuðumst við loks á áfangastað.
Þar komumst í návígi við fíla, gíraffa, nashyrninga, fjöldan allan af antílópum og ljón sem hópuðust í kringum dauðan gíraffa og hámuðu hann í sig á meðan við hin sátum inni í búri og fylgdumst vandlega með. Við Stefán Jón tókum mikinn fjölda mynda af villtum fílum, sem mér tekst vonandi að deila á þessari síðu þegar ég kemst í betra netsamband, en ég vil taka það fram að skemmtilegri leiðsögumann og félaga en Stefán Jón Hafstein er erfitt að finna. Hann bloggar á http://stefanjon.is
Ekki má gleyma því að við fengum eina bestu kjötmáltíð sem nokkurt okkar hefur smakkað, en það var kjöt af oryx. Öll börnin og farastjórarnir líka kjömmsuðu yfir þessu eins og ljón í veislu.
Á heimleiðinni stoppuðum við á útimarkaði þar sem keyptir voru minjagripir. Nokkrir keyptu sér heimasmíðuð skáksett, aðrir grímur, sumir bongótrommur og flestir hálsmen. Hægt var að prútta á þessum markaði, og sumum okkar tókst að prútta allt í botn á meðan aðrir voru sáttir við að borga örlítið meira fyrir gripina.
Nú erum við komin aftur til Windhoek. Á morgun er frjáls dagur og farið í flugið áleiðis til Íslands að kvöldi. Ljóst er að glaður og reynslunni ríkari hópur mun lenda á klakanum næsta föstudagsmorgun.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Namibíuferð Salaskóla - Færsla 3
15.9.2007 | 16:25
Dagur 2
Eftir góðan nætursvefn heimsóttum við namibískan grunnskóla, sem kenndur er við Martti Ahtisaari, finnskan stjórnmálamann sem náði merkum og góðum árangri með Sameinuðu Þjóðunum að sjálfstæði Namibíu. Þar hélt Omar Salama fyrirlestur um glæsilega sigurskák Bobby Fischer frá því að hann var þrettán ára gamall á stórmóti í New York. Síðan ræddu börnin frá Salaskóla um leið þeirra að heimsmeistaratitlinum. Namibísku börnin voru dugleg að spyrja spurninga og var þetta hin skemmtilegasta samræða.
Eftir þetta heimsótti hópurinn ólíkar skólastofur, þar sem oft voru allt að 40 nemendur í stofu. Eftirtektarvert var að í tölvustofunni sátu mörg börn við hverja tölvu, sem hafði gamla kassaskjái, en ekki þessa flottu flatskjái sem sjást um allt í klakanum. Í öllum skólastofum var jafnvel tekið á móti okkur. Börnin stóðu á fætur öll sem eitt og buðu okkur velkominn. Aginn er meiri en íslensku börnin kannast við, og gaman að þrátt fyrir agann var mikil gleði í viðmóti nemenda.
Aginn virkar eins og öryggisbelti sem er óþægilegt til að byrja með en verður síðan sjálfsagður hlutur sem eykur öryggi og gæði akstursins um þekkingarheim fræðanna. Við fengum okkur spagettí og pizzu í verslunarmiðstöðinni Game, en ég hef tekið eftir hversu mikilvægt og algengt þetta hugtak er hérna í Namibíu. Það þýðir ólíka hluti. Eins og heima merkir game leikur, þar sem fólk leikur sér í spilum, að tafli, eða á hvern þann hátt sem mögulegt er að leika sér. Einnig eru villidýr kölluð game, og þá sérstaklega í samhenginu villidýraveiðar. Þess vegna fannst mér áhugavert að þeir notuðu þetta hugtak fyrir verslunarmiðstöð og varð strax hugsað til þess að neytendur séu þá í hlutverki villibráðarinnar en verslanir séu vopn, sölumenn veiðimenn og vörurnar byssukúlur.
Ef við hugsum þetta svona verður hver verslunarmiðstöð að veiðineti eða svæði þar sem auðvelt er fyrir veiðimennina að næla sér í bráðina. Eftir verslunarmiðstöðina lá leiðin til Iitumba, þar sem haldið var hópeflinámskeið fyrir hópinn, þar sem farið var í hópleiki til að styðja við hópmyndina. Til dæmis var farið í boltaleik og glímt við ýmsar líkamlegar þolraunir og þrautir; og endað á allsherjar vatnsstríði hvaðan enginn slapp þurr.
Einnig var farið í ökuferð á tryllitækinu buffalóinn, þar sem keyrt var um villt svæði og kíkt á gíraffa, ýmsar gerðir dádýra og bavíana sem hlupu villt um svæðið. Þetta var vel heppnuð skemmtun og fórum við öll dauðþreytt í háttinn að kvöldi.
Næst á dagskrá: sveitakeppni grunnskóla og gagnfræðiskóla Namibíu, þar sem Salaskóli verður með sem gestasveit.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Namibíuferðin - Færsla 2
14.9.2007 | 20:12
Dagur 1
Síðast þegar til okkar spurðist vorum við á Gatwick flugvelli þar sem við biðum í sjö klukkustundir eftir næsta flugi.
Eftir tíu tíma langt flug í gríðarstórri AirBus þotu, sem hefur átta sæti í hverri röð, lentum við í Windhoek, höfuðborg Namibíu, um kl. 8 að morgni á namibískum tíma, með sæmilegt rassæri og misjafnlega mikinn svefn. Við fórum úr flugvélinni, niður brattar tröppur, og fyrsta sýn okkar af Afríku tók við. Átta öryggisverðir mynduðu línu sem vísaði farþegunum réttu leiðina að flugstöðvarbyggingunni. Þessi víðfeðmi flugvöllur var auðn, fyrir utan eina aðra flugvél sem stóð nálægt flugstöðvarbyggingunni. Landslagið fannst mér frekar gulleitt og gegnum mystrið mátti sjá glitta í fjallstinda sem gnæfðu yfir sléttunum.
Vilhjálmur Wiium tók vel á móti okkur fyrir hönd Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Namibíu. Hann fór með okkur beint á Hotel Safari þar sem við náðum mikilvægri hvíld, enda var þreytan eftir langt flug mikil. Þar biðu okkar Henrik Danielsen og Omar Salama.
Eftir hvíldina lá leiðin á skrifstofu Sendiráðs Íslands í Namibíu þar sem við fengum afhenta uppfærða dagskrá af áætlun okkar.
Fyrst á dagskránni var heimsókn í þýskan einkaskóla. Hópurinn fór á staðinn og gaf aðstoðarskólameistara góðar gjafir; myndabók um náttúru Íslands, íslenska fánann, fána Kópavogs, penna og nælur frá Kópavogsbæ og nokkra bæklinga og bæinn þar sem best er að búa. Aðeins þrír nemendur sem eru í skákliði þýska skólans voru viðstaddir. Omar Salama sýndi skemmtilega skák með Judit Polgar; og síðan ræddi undirritaður við nemendurna um það hvernig leiðin lá að heimsmeistaratitlinum og hvers konar vinna lá að baki. Eftir það flutti Henrik Danielsen skemmtilegan fyrirlestur um mistök og einbeitingu í skák; þar sem hann skilgreindi þrjár gerðir mistaka:
- afleikur
- almenn mistök
- ónákvæmni
Þetta þótti mér afar áhugavert og ég fann í fyrirlestrinum að Henrik er á nákvæmlega sömu línu og ég þegar kemur að kenningum um skák.
Eftir fyrirlesturinn sýndu nemendur okkur skólann, en áhugaverðast fannst mér að sjá venjulegar skólastofur, sem Páli Andrasyni varð að orði að væru hvorki jafn fallegar né stórar og íslenskar skólastofur.
Nú lá leiðin í stórmarkað þar sem keypt var slatti af vatni og dóti sem gleymst hafði að taka með frá Íslandi; og eftir það lá leiðin á veitingastaðinn Joe's Beerhouse, eða Bjórhús Jóa. Þrátt fyrir nafnið er þetta afar glæsilegt veitingahús sem skreytt er á skemmtilegan hátt; til dæmis með gömlum hjólbörum, stígvélum og reiðhjólum sem hanga úr loftinu. Í húsið komast að minnsta kosti 200 manns, það er með stráþaki og grófu gólfi. Borðin eru líka hátt uppi og við þau eru einnig háir bekkir, sem þarf bókstaflega að vaða yfir fyrir góða aðkomu.
Villi Wiium stakk upp á rétti sem kallaður er Bushman's Spear, eða Spjót runnamannsins. Það er langur teinn með fimm ólíkum kjötréttum og nokkrum grænmetisréttum; það merkilegasta og mest spennandi var að sjálfsögðu kjötið sem teinninn geymdi, en á honum var kjúklingur, antílópa, sebrahestur, krókódíll og strútur. Kjúklingurinn fannst mér bara venjulegur á bragðið, sebrahesturinn allt í lagi, krókódíllinn smakkaðist eins og saltfiskur, antílópan með sérkennilegu en afar góðu bragði og síðan var strúturinn hrein snilld; eins og blanda af kjúklingi og nautalundum, - með bragði sem situr enn í munninum og tilhugsunin gerir ekkert annað en að fylla góminn af vatni á ný.
Birkir Karl og Jóhanna Björg sýndu það mikla hugrekki að borða allt af teininum; en aðrir pöntuðu sér venjulegri mat og sumir snertu varla á góðmetinu.
Fóru svo allir sáttir í háttinn.
Meira síðar...
Athugasemd: Myndir koma síðar því að netsambandið á hótelinu er alltof hægt og lélegt fyrir myndir af jafnfallegu fólki.
Ferðalög | Breytt 15.9.2007 kl. 15:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)