Namibíuferð Salaskóla - Færsla 3

Dagur 2 

  

Eftir góðan nætursvefn heimsóttum við namibískan grunnskóla, sem kenndur er við Martti Ahtisaari, finnskan stjórnmálamann sem náði merkum og góðum árangri með Sameinuðu Þjóðunum að sjálfstæði Namibíu. Þar hélt Omar Salama fyrirlestur um glæsilega sigurskák Bobby Fischer frá því að hann var þrettán ára gamall á stórmóti í New York. Síðan ræddu börnin frá Salaskóla um leið þeirra að heimsmeistaratitlinum. Namibísku börnin voru dugleg að spyrja spurninga og var þetta hin skemmtilegasta samræða.  

Eftir þetta heimsótti hópurinn ólíkar skólastofur, þar sem oft voru allt að 40 nemendur í stofu. Eftirtektarvert var að í tölvustofunni sátu mörg börn við hverja tölvu, sem hafði gamla kassaskjái, en ekki þessa flottu flatskjái sem sjást um allt í klakanum. Í öllum skólastofum var jafnvel tekið á móti okkur. Börnin stóðu á fætur öll sem eitt og buðu okkur velkominn. Aginn er meiri en íslensku börnin kannast við, og gaman að þrátt fyrir agann var mikil gleði í viðmóti nemenda.

Aginn virkar eins og öryggisbelti sem er óþægilegt til að byrja með en verður síðan sjálfsagður hlutur sem eykur öryggi og gæði akstursins um þekkingarheim fræðanna. Við fengum okkur spagettí og pizzu í verslunarmiðstöðinni ‘Game’, en ég hef tekið eftir hversu mikilvægt og algengt þetta hugtak er hérna í Namibíu. Það þýðir ólíka hluti. Eins og heima merkir ‘game’ leikur, þar sem fólk leikur sér í spilum, að tafli, eða á hvern þann hátt sem mögulegt er að leika sér. Einnig eru villidýr kölluð ‘game’, og þá sérstaklega í samhenginu villidýraveiðar. Þess vegna fannst mér áhugavert að þeir notuðu þetta hugtak fyrir verslunarmiðstöð og varð strax hugsað til þess að neytendur séu þá í hlutverki villibráðarinnar en verslanir séu vopn, sölumenn veiðimenn og vörurnar byssukúlur.

Ef við hugsum þetta svona verður hver verslunarmiðstöð að veiðineti eða svæði þar sem auðvelt er fyrir veiðimennina að næla sér í bráðina.  Eftir verslunarmiðstöðina lá leiðin til Iitumba, þar sem haldið var hópeflinámskeið fyrir hópinn, þar sem farið var í hópleiki til að styðja við hópmyndina. Til dæmis var farið í boltaleik og glímt við ýmsar líkamlegar þolraunir og þrautir; og endað á allsherjar vatnsstríði hvaðan enginn slapp þurr. 

Einnig var farið í ökuferð á tryllitækinu buffalóinn, þar sem keyrt var um villt svæði og kíkt á gíraffa, ýmsar gerðir dádýra og bavíana sem hlupu villt um svæðið. Þetta var vel heppnuð skemmtun og fórum við öll dauðþreytt í háttinn að kvöldi.  

Næst á dagskrá: sveitakeppni grunnskóla og gagnfræðiskóla Namibíu, þar sem Salaskóli verður með sem gestasveit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband