Færsluflokkur: Bloggar

Hvað ættu fjármögnunarfyrirtækin að gera?

800px-Cumberland_School_of_Law_Justice_and_Mercy_2

Nú þegar í ljós kemur að fjármögnunarfyrirtækin hafa farið af hörku gegn viðskiptavinum sínum, lántakendum sem kallaðir hafa verið því harðneskjulega nafni "skuldarar", út frá forsendum sem reynst hafa ólöglegar og haft gífurlegar neikvæðar afleiðingar á þjóðfélagið, verða þessi fyrirtæki að bæta fyrir misgjörðir sínar og sýna algjöra iðrun til að starfsmönnum þeirra verði fyrirgefið. Það má réttilega kalla þessi fjármálafyrirtæki glæpasamtök eða mafíur, enda byrja þau starfsemi sína með því að "hjálpa" fólki að eignast hluti, en síðan þegar þetta fólk lendir í vandræðum er allt gert til að kreista úr þeim síðasta dropann, og ef ekki tekst að taka peninginn af þeim góðu er hann tekinn með illu:

Lögregla send á heimili viðkomandi, bifreið fjarlægð, metin, keypt á lágmarksverði, seld aftur á hámarksverði, og ógreidd skuld enn á reikningi viðskipavinarins. 

Hvað er slíkt annað en skipulögð glæpastarfsemi?

Yfirleitt þarf að stinga glæpamönnum í fangelsi og láta þá dúsa þar yfir langan tíma áður en þeir átta sig á að eigin réttlætingar á slíkum framkvæmdum voru ekki réttlætanlegar. Kemur að því að viðkomandi iðrast og leitar þá sjálfsagt fyrirgefningar hjá samfélaginu sem hann hefur brotið gegn.

Þetta þarf ekki að ganga svona langt. Viðurkenni einhver eigin sök, sýnir iðrun og reynir að bæta fyrir misgjörðir sínar, þá verður viðkomandi hugsanlega fyrirgefið og réttlætinu þannig fullnægt með góðu; en neiti viðkomandi augljósri sök og firrist við, þá verður réttlætinu fullnægt með illu - sem er ekki ánægjulegt fyrir neinn.

Afleiðingar hinna gengistryggðu lána út í þjóðfélagið hafa verið gífurleg. Ég man eftir frétt um einn mann sem svipt hefur sig lífi vegna lánsins, og mögulegt að fleiri hafi farið þá leið. Fjölskyldur hafa liðast í sundur vegna fjárhagslegra erfiðleika og þessi gengistryggðu lán hafa verið dropinn sem fyllti mælinn. Fyrir vikið þjást alltof mörg börn vegna fjölskylduslita. 

Margir hafa flutt úr landi með fjölskyldur sínar, meðal þeirra mikið af góðu og hæfileikaríku fólki sem vill láta gott af sér leiða, en fékk ekki tækifæri til þess á Íslandi vegna þrýstings frá lánafyrirtækjum sem aldrei gefa eftir, og hafa her lögfræðinga á bakvið sig til að réttlæta allar innheimtuaðgerðir. 

Það er ekki auðvelt fyrir börn að flytja úr landi, vera slitin upp frá rótum, leita sér nýrra vina í nýju landi og jafnvel þurfa að læra nýtt tungumál. En sum börn upplifa þetta sem nauðsyn, og þau gera þetta, og þau lifa þetta af. En þau munu aldrei gleyma þeim skrímslum sem neyddu foreldra þeirra úr öruggu skjóli eigin húsnæðis og af landi brott.

Börnin munu læra um þá illsku sem gott fólk í samvinnu getur skapað með því að fela sig undir nafni og kennitölu fyrirtækja, og þannig vonandi hjálpað framtíðinni að varast þessa vá, rétt eins og sýnt þeim hvað fólk árið 2010 var forneskjulegt, gamaldags, eigingjarnt og ómanneskjulegt í hugsunarhætti, ekki bara á Íslandi, heldur víða um heim - í skjóli fyrirtækja.

Því gott fólk sem stendur aðgerðarlaust hjá þegar illvirki eru framkvæmd er ekkert skárra en þeir sem framkvæma illverkin af fúsum og frjálsum vilja með gleði í hjarta og grilla svo á kvöldin.

Þessi setning af forsíðu Lýsingar í dag gefur ekki tilefni til bjartsýni: "Áhrif dómsins eru um margt óljós og getum við ekki á þessari stundu svarað því hvaða afleiðingar það hefur að greiða eða greiða ekki þegar útgefna greiðsluseðla."

 

Mynd: Wikipedia - Cumberland School of Law


Stórsigur fyrir heimili og almannaheill

Ég vil óska bróður mínum til hamingju með sigurinn í dag. Það er ekki smátt afrek að sigra í svo stóru máli gegn fjármögnunarfyrirtæki eins og Lýsingu, og berjast sem heiðvirður lögfræðingur fyrir almenning í landi þar sem lagatæknar virðast ráða för frekar en sannir lögfræðingar, og þar sem stjórnmálamenn ógna sjálfri réttlætiskenndinni með því að ógna aðgerðum gegn þessum mikla sigri almennings gegn mestu kúgun sem Íslendingar hafa þurft að upplifa frá því við öðluðumst sjálfstæði.

Þarna fer sannur heiðursmaður sem lætur lítið fyrir sér fara og vill helst ekki trana sér fram í sviðsljósið heldur láta verkin tala. Þrátt fyrir hógværð hans og það að hann hvatti mig engan veginn til að skrifa þetta, vil ég brjóta aðeins gegn þeirri bloggreglu minni að skrifa ekki um fjölskyldu mína, óska honum innilega til hamingju og öllum Íslendingum gleðilegrar hátíðar.

Ég er gífurlega stoltur af bróður mínum og þakka honum kærlega fyrir að leggja í þetta stórverk á yfirvegaðan og skipulegan hátt, eins og hans er von og vísa. Ég veit að hann gerði þetta fyrir heimilin í landinu og með almannaheill að leiðarljósi.

Nú verður mér hugsað til allra þeirra heimila sem geta létt af herðum sínum þeim þungu böggum sem fylgja gengistryggðum lánum. 

 

Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.

Verður skaði lánþega endurgreiddur?

Vil minna á þessa yfirlýsingu af heimasíðu Lýsingar:

Öllum viðskiptavinum tryggð jöfn staða þrátt fyrir óvissu sem dómar Héraðsdóms Reykjavíkur hafa skapað
Lýsing hefur áfrýjað dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 12. febrúar 2010 vegna bílasamnings í erlendri mynt. Félagið mun ekki breyta verklagi sínu nema Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms. Ákvörðun um að breyta ekki verklagi byggist m.a. á sömu sjónarmiðum og opinberir aðilar byggja á, þegar dómum sem falla í héraði er áfrýjað til Hæstaréttar.

Vegna þeirrar réttaróvissu sem nú er uppi þar til Hæstiréttur hefur kveðið upp endanlegan dóm vill Lýsing taka fram að félagið telur ekki þörf á því að viðskiptavinir Lýsingar geri sérstaka fyrirvara við greiðslu af bílasamningum til félagsins. Þeir viðskiptavinir sem hafa greitt án slíks fyrirvara eftir að dómur féll í Héraðsdómi þann 12. febrúar 2010 eða nýtt sér greiðsluúrræði sem í boði hafa verið njóta sömu réttinda og þeir sem hafa gert slíkan fyrirvara.

mbl.is Gengistryggingin dæmd óheimil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaðan kemur þetta óþolandi suð á HM?

Vuvuzela_blower%2C_Final_Draw%2C_FIFA_2010_World_Cup

Í fyrstu hélt ég að þetta væru býflugur og að hljóðnemarnir væru bleikir eða í öðrum blómalitum, en síðan ákvað ég að rannsaka málið, enda þoli ég illa ósvaraðar spurningar. Í ljós kemur að þetta er mannlegt fyrirbæri, lúðrar sem heita Vuvuzela. Það var reynt að banna þetta fyrirbæri fyrir HM 2010, en það tókst ekki. 

Það var reyndar ekki reynt að banna þetta fyrirbæri vegna þess hversu óþolandi er að hlusta á það, og hversu niðurdrepandi áhrif þetta væl hlýtur að hafa á leikmenn og áhorfendur, heldur var það Babtistakirkja Nazareth sem hélt því fram að þau hefðu einkarétt á þessum trompetum og þeir væru heilagir. 

Ég efast um að ég endist í að horfa á annan leik með þessu væli, enda er þetta með leiðinlegri hljóðum sem ég hef upplifað.

Myndbandið hér fyrir neðan sýnir þetta suð, og reyndar virðist sem að þetta sé skaðlegt fyrir heyrn þeirra sem þurfa að sitja undir þessu.

Hér með óska ég að þetta fyrirbæri verður bannað á HM. W00t

 

 

Mynd: Wikipedia


Er fólk virkilega svona sofandi yfir framtíðinni?

Ríkisstjórnin er búin að taka lán út á nýjasta loforðið um að borga ICESAVE þvert á vilja þjóðarinnar, og hafa þar af leiðandi komið Íslandi í raunverulega skuldbindingu til að borga til baka. Undir þessa viljayfirlýsingu skrifuðu forsætisráðherra, fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og seðlabankastjóri.

Það er engin leið út úr þessu nema ríkisstjórnin verði felld, og ég sé það ekki gerast í bráð. Ísland mun þurfa að glíma við erfiða fátækt í minnst 100 ár eftir þessa samþykkt. Þetta fer hins vegar ekki að bíta fyrr en á fyrstu dögum endurgreiðslu. Það er að sjálfsögðu eftir að þessi ríkisstjórn er farin frá og flestir ábyrgðarmenn komnir á eftirlaun.

Það er fjarlægur draumur að ímynda sér Breta og Hollendinga gefa eftir þessa "skuld" sem var ekki "skuld" fyrr en fjórmenningarnir tóku stórt alþjóðlegt lán með viljayfirlýsingu yfir að borga allt til baka á fullum vöxtum. Þetta eru sambærileg svik og að lofa í upphafi að greiða allar innistæður í bönkum til baka. Enginn mun bera ábyrgð.

Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Gylfi Magnússon og Már Sigurðsson tefldu skákina vel gegn þjóðinni sem nú hefur verið mátuð kæfingarmáti af ríkisstjórninni sjálfri - og það gegn þeim vilja sem fram kom í þjóðaratkvæðagreiðslu, en það gerist þegar eigin liðsmenn eru illa staðsettir og vinna ekki saman.

Eina leiðin út úr þessu hefði verið uppreisn þjóðarinnar við undirskrift þessa samnings og algjör afneitun hans, en fyrst svo var ekki, hafa núlifandi Íslendingar nú þegar dæmt börn sín í annað hvort ævilangt skuldafangelsi eða útlegð frá þessari fallegu eyju.

Við erum fallin á tíma. Taflið er tapað. Leikurinn búinn. Svikin af eigin liði.


mbl.is Íslendingar „geta ekki borgað Icesave"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru kostir verðtryggingar?

Verðtryggingin, eins og hún er á Íslandi í dag, vísutölubundin þegar kemur að lánum, en ótengd launum, gerir hina ríku ríkari, jafnvel auðuga, og hina fátæku fátækari, jafnvel öreiga.

Aukinn lífskjaramunur hlýtur að vera af hinu góða, og þess vegna er verðtrygging ómissandi.


Hversu viðeigandi er þessi ræða frá 1944 fyrir Íslendinga 66 árum síðar?

509px-FDR_in_1933

11. janúar 1944 flutti Franklin D. Roosevelt magnaða ræðu. Mig langar að þýða hluta úr henni sem á við um Ísland í dag.

 

 - - -

"Þetta ríki var í upphafi og óx til núverandi styrks verndað af ákveðnum ófrávíkjanlegum pólitískum réttindum - meðal þeirra réttinum til málfrelsis, fjölmiðlafrelsis, trúarbragðafrelsis, réttarhöldum með kviðdómi (ekki á Íslandi), frelsi frá ósanngjarnri leit og yfirtöku eigna. Þetta voru réttindi okkar fyrir lífi og frelsi.

En á meðan þjóð okkar hefur vaxið í stærð og mikilvægi - og efnahagskerfi okkar víkkað út - hafa þessi pólitísku réttindi reynst máttlaus til að tryggja okkur jöfnuð í leit okkar að hamingju.

Við höfum áttað okkur á þeim skýra veruleika að sannkalla einstaklingsfrelsi hefur enga tilvistargetu án fjárhagslegs öryggis og sjálfstæðis. "Menn í neyð eru ekki frjálsir menn." Fólk sem er hungrað og atvinnulaust eru það sem gerir harðstjórn að veruleika.

Á okkar dögum hefur þessi efnahagslegi sannleikur verið tekinn sem sjálfsagður. Við höfum samþykkt, má segja, aðra stjórnarskrá þar sem nýr grundvöllur fyrir öryggi og hagsæld getur verið stofnað fyrir alla óháð stöðu, kynþætti eða skoðunum.

Meðal þeirra eru:

Réttur til að vinna gagnlegt og hagkvæmt starf í atvinnuvegum eða verslunum eða bóndabæjum eða námum þjóðarinnar;

Réttur til að vinna sér inn nógu mikil laun til að verða sér úti um viðunandi fæði og klæðnað og tómstundir;

Réttur sérhvers bónda til að rækta og selja framleiðslu sína á verði sem gefur honum og fjölskyldu hans sæmandi lifibrauð;

Réttur sérhvers athafnamanns, meiri og minni, til að stunda viðskipti í andrúmslofti frjálsu undan ósanngjarnri samkeppni og yfirráðum auðhringa heima sem erlendis;

Réttur sérhverrar fjölskyldu til mannsæmandi heimilis;

Réttur á viðunandi heilbrigðiskerfi og tækifæri til að öðlast og njóta góðrar heilsu;

Réttur á viðunandi vernd frá fjárhagslegri ógn þeirri sem fylgir elli, veikindum, slysum og atvinnuleysi;

Réttur á góðri menntun;

Öll þessi réttindi eru undirstöður öryggis. Og eftir að þetta stríð er unnið verðum við að vera tilbúin að færa okkur fram á veginn, við innleiðingu þessara réttinda, til nýrra markmiða mannlegrar hamingju og farsældar."

- - -

 

Þessar fallegu hugmyndir hafa ekki enn verið innleiddar í Bandaríkjunum.

Ég ólst upp í Breiðholtinu og var það bláeygur að trúa því að þessi réttindi væru trygg meðal okkar, en árið 2008 rann upp fyrir mér að það var blekking ein. Loforðin um frelsi og öryggi á Íslandi var lygi falin í orðskrúði stjórnmálamanna, auðmanna og handbenda þeirra héðan og þaðan úr þjóðfélaginu.

Íslendingar töldu sig vera frjálsa þjóð, en voru það ekki, og verða það ekki fyrr en þeir losna undan þeirri heljarkrumlu sem kröfuhafar og bankar ætla sér að nota til að kreista hvern einasta krónudropa úr sérhverju íslensku heimili, sama hvað það kostar.

Ekki gleyma að þegar manneskju er sparkað út af eigin heimili, þarf hún samt einhvers staðar að búa.

 


 

Þessi grein birtist áður með gagnrýni minni á Capitalism: A Love Story eftir Michael Moore, en þar birtist þessi magnaða ræða Roosevelt í fyrsta sinn. Það er samhljómur þarna með alþjóðlegum lögum um mannréttindi sem samþykkt voru af Sameinuðu þjóðunum stuttu síðar undir forystu Elenor Roosevelt, ekkju Franklin.

Þetta eru allt sjálfsögð réttindi, en á Íslandi í dag er þeim hætta búin, þar sem eðlilegt þykir að svipta fólk heimilum sem ekki getur greitt afborganir af lánum. Það á ENGINN að þurfa að lifa við þá ógn að sjá fram á heimilismissi í náinni framtíð. Það þarf að tryggja öllum lágmarks húsnæði - og þá er ég ekki að meina leiguhúsnæði sem gildir skamman tíma í senn, heldur heimili sem hægt er að treysta á til framtíðar.


Furður veraldar: jörðin gleypir byggingu í Gvatemalaborg

500x_guatemala-sinkhole-2010

Þetta er ekki plat. Fréttir um þetta hafa ekki birst víða. Ég hef aðeins séð þær í Daily Mail og Gizmodo, og ætlaði í fyrstu ekki að trúa þessu. Hélt fyrst að þetta væru þrívíddarteikningar. Svo er þó ekki. 

Slíkur atburður gerðist í Gvatemalaborg í byrjun júní 2010. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkt gerist þar í borg, en samskonar atburður átti sér stað í febrúar 2007 þar sem hola myndaðist skyndilega í miðju íbúðarhverfi og gleypti nokkur heimili án viðvörunar.

500x_sinkhole

Það er ekki oft sem maður sér fréttir um náttúrufyrirbæri sem ég vissi ekki að væru til. Þetta er ein slík frétt. Þetta gerðist í Gvatemalaborg. Jörðin gleypti byggingu í heilu lagi og skyldi eftir gapandi holu, um 60 metra djúpa, sem er meira en hæð Hallgrímskirkju.

Svo virðist sem ein manneskja hafi látist þegar jörðin opnaðist, en eftir hitabeltisstorminn Agatha 31. maí hefur verið tilkynnt  um 150 dauðsföll í Gvatemalaborg. Það er hugsanlega samband á milli nýlegrar virkni í eldfjallinu Pacaya og gífurlegs vatnflæðis í kjölfar stormsins Agatha, sem hefur orsakað þetta furðulega fyrirbæri.

Ég get engan veginn sannað það, né hef heyrt vísindamenn halda þessu fram, en mér þætti ekki ólíklegt að tvær ólíkar náttúruhamfarir á svo skömmum tíma geti hafa spilað saman við sköpun þessarar undarlegu holu.

article-1283066-09D68329000005DC-670_964x494

Hér er mynd af eldfjallinu Pacaya í Hondúras sem valdið hefur miklu öskufalli í Gvatemalaborg undanfarna daga:

800px-Pacaya-08

Hugsaðu þér Hallgrímskirkju sökkva ofan í jörðina og eftir stendur 15 metra hár turn í stað 75 metra hárrar kirkju. Þegar þú kemur að brún holunnar og lýsir niður með öflugum kastara, geturðu séð glitta í aðaldyrnar á 60 metra dýpi. Þar sem kirkjan er um 60 metra há, geturðu ímyndað þér dýptina?

 

Heimildir og myndir: 

GIZMODO: The Gates of Hell Just Opened In Guatemala

Daily Mail: Storm blows a 200ft hole in Guatemala City, swallowing a building

Wikipedia: Pacaya eldfjall

 


Hvernig ber að túlka niðurstöður í Reykjavík?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur níu líf. Þó að þeir tapi tveimur borgarfulltrúum, þá tekst þeim að halda lykilstöðu í borginni með fimm fulltrúum, þar á meðal Gísla Marteini, sem hefur með þessum árangri sjálfsagt fengið leyfi til að fara aftur til útlanda í meira framhaldsnám fyrir næstu kosningar. Ég er ekki að grínast.

Samfylkingin gerði líka vel með að ná inn þremur fulltrúum. Dagur finnst mér reyndar að ætti að vera félagsmálaráðherra miðað við áhuga hans og baráttu fyrir betra atvinnulífi. Hann hefur stærri köllun í ríkisstjórn en borgarstjórn. Sjálfsagt á að nota hann sem tromp í næstu alþingiskosningum, á meðan hið rétta væri að nota eldmóð hans, skynsemi og starfskrafta strax í þágu þjóðarinnar.

VG stóð sig mun betur en ég átti von á. Sóley komst inn.

Framsókn og aðrir flokkar dissaðir algjörlega. Reykjavíkurframboðið hafði góð málefni en hefði betur mátt sameinast Besta flokknum, enda nauðalíkir flokkar, fyrir utan að Reykjavíkurframboðið hafði stefnu.

Besti flokkurinn er stóri sigurvegarinn. Aðrir flokkar munu samt túlka þetta sem eigin sigra, þrátt fyrir bla bla bla... BF kemur inn sex borgarfulltrúum, sem er mjög gott en samt minna en spár gerðu ráð fyrir. Mig grunar að mikil smölun hafi verið í gangi hjá stærri flokkum sem hafa haft áhrif á niðurstöðurnar, enda dræm þátttaka í upphafi kosningadags sem síðar skánaði eftir því sem á leið. Þannig grunar mig að Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu hafi tekist að lifa af.

Eðlilegt væri að Jón Gnarr yrði næsti borgarstjóri, enda virðist hann afar næmur fyrir að hvetja fólk til samvinnu og skilja hvað það er sem gerir fjórflokkinn að meini sem er að murka líftóruna úr íslensku þjóðinni vegna hagsmunabaráttu fyrir fámennar auðklíkur og hugarfari sem líkist meira kappleik heldur en samvinnu. Hann er ekki pólitískur andstæðingur eins eða neins, sem er gott.

Næststærsti sigurvegurinn eru vel smurðar áróðursmaskínur fjölmiðla. Þeim tókst að sannfæra mikinn fjölda fólks um að Besta flokkinn skyldi ekki taka alvarlega, að Hanna Birna væri Sjálfstæðisflokkurinn eins og hann leggur sig og að hún hafi staðið sig vel sem borgarstjóri og eigi skilið að vera það áfram. Samfylkingin átti erfiðara uppdráttar í fjölmiðlum en tókst að nota vefmiðla og bloggið til að koma sér og sínum málefnum á framfæri.

Annars hefur mikil orka farið í að beita hugtakinu 'fjórflokkur' við ýmsar aðstæður. Mér sýnist merking hugtaksins ekki vera ljós. Ég lít á 'fjórflokkinn' sem samsteypu þeirra flokka sem hafa stjórnað íslenskum stjórnmálum frá upphafi. Þetta eru fjögur lið sem öll berjast fyrir ákveðnum hagsmunum, ekki fyrir hugsjónum. Þau líta á hvert annað sem andstæðinga og að þau séu að fylkja liði gegn þessum andstæðingum.

Það er svo mikil fáfræði spunnin í þennan hugsunarhátt að það er varla hægt að kalla þetta hugsun, kannski væri betra að flokka þetta sem hegðun, sem brýst út sem viðbrögð gegn andstæðum viðhorfum sem gætu hugsanlega ógnað hagsmunum þeirra sem styrkja viðkomandi flokk. 

Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Framsókn eru flokkar sem berjast fyrir þessum ákveðnu hagsmunum, en VG hefur hins vegar verið ógn gegn þessum flokkum þrátt fyrir að berjast ekki beint fyrir hagsmunum, heldur fyrst og fremst gegn þeim hagsmunum sem hinir flokkarnir standa fyrir. Þannig spinnst VG inn í fjórflokkinn, og festir sig síðan almennilega í sessi þegar í ljós kemur þegar inn í ríkisstjórn er komið að enginn munur virðist á VG og hinum þremur, þar sem að upp spretta hagsmunaaðilar sem VG byrjar að verja og koma í stöður innan stjórnkerfisins.

Besti flokkurinn er ferskur vegna þess að hann hefur ekki enn fallið í þá gildru að setja sig upp sem flokk sem berst gegn hagsmunum vernduðum af öðrum flokkum, heldur sem hóp af fólki sem vill berjast fyrir almannaheill. Það að þeir noti háð og spott til að koma sér á framfæri er hið besta mál. Fólk sem hugsar ekki út frá flokkspólitískum forsendum er nauðsynlegt til að koma stjórnkerfinu í lag. Flokkspólitíkin er krabbamein sem er að ganga frá stjórnkerfi Íslands dauðu.

Vonandi fer fjórflokkurinn í meðferð og áttar sig á hvað þeir hafa verið að gera þjóð sinni mikinn skaða með ábyrgðarleysi og flokkadráttum. Vonandi fara meðlimir þeirra að hlusta á þjóðina. Vonandi fara þeir að skilja að það er ekki flokksrígur sem fólkið vill, heldur samvinna og samstaða gegn meinum og glæpum, að heiðarlegt fólk sé stutt áfram, að duglegt fólk fái vinnu sem skilar gæðum til samfélagsins.

Vonandi fattar fjórflokkurinn að hann fékk spark í rassinn á landsvísu, en snýr ekki út úr með því að þykjast hafa runnið til í hálku eða að sparkið hafi ekki verið nógu harkalegt.

Fjórflokkurinn er mein sem þarf að reka út, með góðu eða illu. Og með fjórflokknum meina ég ekki bara Sjálfstæðisflokk, Samfylkingu, Framsókn og Vinstri græna, heldur þann hegðunarhátt sem þessir flokkar standa fyrir í dag. Þeir gætu hæglega breyst í þríflokk eða fimmflokk. 


Sjoppuprófið

Þegar ég veit ekki hvern ég á að kjósa, reyni ég stundum að setja upp auðskiljanleg dæmi sem segja allt sem segja þarf um frambjóðendur. Spurningin í þessu prófi er hvort flokkunum sé treystandi til að gera það sem þeir eru beðnir að gera. Ég ímynda mér hóp barna og bið þau að skreppa fyrir mig út í sjoppu, en hvert barn hefur eiginleika viðkomandi stjórnmálaflokks, í það minnsta eins og ég sé þá. Vissulega eru svona próf ákveðin einföldun og fram koma mínir eigin fordómar í garð flokkanna. En til þess er leikurinn gerður, að átta mig á eigin hug og hafa betri forsendur til að taka ákvörðun.

Ímyndum okkur að hver og einn stjórnmálaflokkur í Reykjavík sé barn sem við biðjum um að skjótast út í sjoppu til að kaupa hraun og lakkrísrúllu. Öll börnin samþykkja verkefnið og leggja af stað út í sjoppu. Þau fengu klukkutíma.

Sjálfstæðisflokkurinn kemur fyrstur til baka með skært bros á andlitinu en ekkert nammi. 

"Hvar er nammið?" spyr ég.

"Ég ákvað að fara út í banka og leggja peninginn inn á reikning. Þú getur tekið peninginn aftur út eftir 10 ár en hann er á stórgóðum vöxtum."

"Ertu að meina það?"

"Nei, bara að grínast. Mig vantaði aðeins upp í klippingu. Hvernig finnst þér? Ég skal fara aftur út í sjoppu og gera aðra tilraun."

"Farðu heim," segi ég og hristi höfuðið.

Samfylkingin kemur næst, líka með tvær hendur tómar. 

"Hvar er nammið mitt?" spyr ég. 

"Tja, ég hitti gamlan vin fyrir utan sjoppuna og við spjölluðum lengi saman. Það kom í ljós að mamma hans og pabbi eru atvinnulaus, þannig að ég ákvað að gefa honum peninginn."

"Það var nú fallega gert af þér."

"Það hefði verið ennþá fallegra ef foreldrar hans ættu ekki sjoppuna."

"Farðu heim," segi ég og hristi höfuðið.

Vinstri græn kemur næst, líka með tvær hendur tómar.

"Hvar er nammið mitt?" spyr ég. 

"Veistu hvað nammið er óhollt? Þú gætir orðið sykursjúkur og svo er það ekki umhverfisvænt að borða nammi, og svo er Hraun svo ósiðlegt í laginu."

"Nú?" spyr ég. 

"Já. Ímyndaðu þér ef Hrauninu væri hent út í sundlaug. Það myndi grípa um sig skelfing. Stórhættulegt."

"Hvað gerðirðu við peninginn?" 

"Ég fékk mér ís í brauðformi."

"Dóh!" segi ég. "Farðu heim."

Framsókn kemur næst, líka með tvær hendur tómar en frekar kámugan munn.

"Hvar er nammið mitt?" spyr ég?

"Nammið þitt?" segir Framsókn vandræðalega og sleikir út um.

"Farðu heim," segi ég.

Frjálslyndur kemur næstur, líka með tvær hendur tómar.

"Hvar er nammið mitt," spyr ég.

"Ég fór upp á efstu hæð blokkarinnar þarna og prófaði að láta peninginn fljúga inn í sjoppu og sjá hvort nammið kæmi ekki bara til þín. Kíktu í vasann."

Ég kíki í vasann. Ekkert annað en hringur í vasanum.

"Farðu heim," segi ég.

Heiðarleiki og almannaheill eru tvíburðar, þeir koma með pening til baka. Nákvæmlega sömu upphæð og þeir fóru með.

"Hvernig stendur á þessu?" spyr ég. "Hvar er nammið?"

"Okkur fannst nammið of dýrt, þessar álögur í sjoppunni eru ekki heiðarlegar né góðar fyrir almenning í landinu. Svo tekur ríkið gífurlegan skatt af þessu. Við töldum betra fyrir þig að halda peningnum og sleppa þessu bara. Svo þekkja mig margir fyrir heiðarleika og ekki vil ég eyðileggja svoleiðis orðspor."

Þeir rétta mér peninginn og ganga álútir heim á leið.

Reykjavíkurframboð kemur til baka með hraun og lakkrísrúllu. Ég stari gapandi á barnið.

"Takk," segi ég. 

"Það var ekkert," segir Reykjavíkurframboðið og labbar heim.

Besti flokkurinn kemur til baka með málningardollu, nokkur hrísgrjón í lófanum og grjóthlunk.

"Hva...?" styn ég upp.

"Baðstu ekki um Hraun og lakkrís?" spyr Besti flokkurinn og setur upp bros eins og Jókerinn í "The Dark Knight".

 

Í raun stóðst aðeins Reykjavíkurframboðið prófið, en það er svo lítill flokkur að hann varð að gera það til að eiga einhvern möguleika. Helsti galli Reykjavíkurframboðsins er að það er hefðbundið framboð sem snýst um stefnur og loforð, en er ekki þessi bylting sem Íslendingar þurfa á að halda í dag.

Ef ég mætti kjósa í Reykjavík, færi atkvæði mitt til Besta flokksins, fyrst og fremst til að senda atvinnupólitíkusum öllum þau skilaboð að ég vil ekki sjá þá hafa ævilangt lifibrauð af stjórnmálum, að hver einstaklingur ætti ekki að vera lengur en áratug í stjórnmálum, að þeir sem hafa verið að þiggja styrki verði að segja af sér - ekki bara þeir sem fengu háa styrki, líka þeir sem fengu lága styrki, - því það er prinsippið sem skiptir meira máli en upphæðin. Þetta þýðir að breyta þarf algjörlega leikreglum um hvernig fólk kemst að í stjórnmálum, því það er mikill fjöldi fólks sem gæti gert þjóðinni gott með þátttöku sinni, sem dettur ekki í hug að taka þátt eins og staðan er í dag eða hefur verið síðustu ár.

Sjálfsagt væri réttast að setja saman lista yfir alla þá sem geta hugsað sér að starfa að stjórnmálum. Útiloka þá sem eru á sakaskrá. Og draga síðan úr pottinum á tilviljunarkenndan hátt. Brjóti viðkomandi af sér á tímabilinu fengi hann eða hún eina viðvörun, og verði síðan látin fara gerist slíkt aftur.

Lýðræði þarf nefnilega að vera aðgengilegt fyrir alla. Ekki bara þá sem kjósa. Líka fyrir þá sem stjórna. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband