Færsluflokkur: Bloggar
Drive Angry (2011) **
11.2.2012 | 22:44
Fantasíusplatterhasarmyndin "Drive Angry" er full af klisjum, slökum leik og samanstendur af frekar þunnum söguþræði, en inniheldur samt nokkra snilldarpunkta, og þeir eru tvennu að þakka. Kvikmyndatökufólkið, tæknimenn og hljóðmenn eru greinilega fagfólk, og einn leikarinn er hreinn snillingur sem stelur hverri einustu senu sem hann birtist í.
William Fichtner leikur "The Accountant" eða Bókhaldara frá helvíti sem passar upp á að sálir sem sleppa þaðan komi til baka. Hver einasta sena hans er margfalt betur skrifaðuð en allt annað sem birtist í þessari kvimynd. Sjálfsagt hefur hann fengið að semja eigin frasa, því þeir eru bara alltof flottir fyrir svona slaka mynd. Ef hægt væri að klippa saman bara þau atriði sem "The Accountant" birtist í, þá væri strax komið svolítið svalt hugtak sem sniðugt væri að byggja á, kannski heila kvikmynd.
Nicolas Cage leikur eina slíka sál sem sloppið hefur úr vítisvist helvítis, en dvöl hann þar samanstendur af stöðugu niðurhali upplifunar þeirra sem hann elskar, kvölum þeirra og sorg í jarðlífinu. Frá helvíti verður hann vitni að því hvernig djöflatrúarhópur misþyrmir og drepur dóttur hans, sem er nógur hvati til að hann brjótist úr úr helvíti, reddi sér svölum bíl og taki til við að útrýma öllu genginu.
Nicolas Cage má muna sinn fífil fegurri, en hann leikur í hverri b-og c- myndinni á fætur annarri með hangandi hendi, en gerir það samt nógu vel til að vera margfalt betri en gaurar eins og Steven Seagal, Van Damme og aðrir á sömu línu, hugsanlega með undantekningum. Hann virðist þessa dagana vera að berjast við Jason Statham um hasarhlutverkin. Í þetta sinn leikur hann John Milton, ekki höfund Paradísarheimtar, heldur mann sem reyndist slæmur eiginmaður en góður faðir, sem endaði í helvíti og slapp síðan.
Stórt hlutverk er leikið af Amber Heard, konu sem Milton þarf sífellt að bjarga, en er samt svo mikil hörkukona að hún gengur frá einhverjum illmennum sjálf. Hún hefur sjálfsagt átt að vera einhvers konar Sarah Connor úr "Terminator" myndunum, en passar einhvern veginn ekki inn í söguna þannig að ég fatti.
Ég myndi gefa "Drive Angry" fleiri stjörnur ef hún væri ekki jafn smekklaus og hún reynist vera. Það er frekar mikið af óþarfa splatter og nekt, sem ég reikna með að virki ágætlega til að trekkja að áhrifagjarna unglinga, sérstaklega þegar þetta er sýnt í þrívídd.
"Drive Angry" er ekki svo léleg að ég sjái eftir að hafa horft á hana, en get alls ekki mælt með henni fyrir aðra en þá sem hrífast af splatter og þesskonar smekkleysu. Mér sýnist hún vera undir áhrifum frá "Wild at Heart" eftir David Lynch og "Supernatural" þáttunum sem innihalda svartan bíl, líkan þeim sem í myndinni hefur skrifað á númeraplöturnar "DRV ANGRY".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Virka silfurkúlur?
23.8.2011 | 20:33
Talað er um "silfurkúlur" í viðskiptaheiminum þegar talað er um að leysa mörg mál með einni lausn. Hjá öflugri fyrirtækjum er ekki aðeins litið á silfurkúlur með efasemdaraugum, heldur djúpri tortryggni, því að stjórnendur vita að silfurkúlur eru stórhættuleg fyrirbæri sem eiga til að springa í byssunni. Það er líka talað um að silfurkúlur geti drepið varúlfa og önnur skrímsli. Verðtryggingin er slíkt skrímsli og ESB er silfurkúla. Silfurkúlur eru því miður skáldskapur. Ekkert annað. Innantóm von. Einhvers konar trúarbrögð. Jafnvel gervivísindi.
Öðru hverju birtist svona silfurkúlulausn við öllum vandamálum ákveðins mengis. Stundum samþykkja stjórnendur að láta reyna á hana, en á endanum reynist hún ekki áhættunnar virði, bæði virkar hún ekki eins og hún átti að virka og var þar að auki margfalt dýrari en gert var ráð fyrir. Og eftirá sjá allir hvað hugmyndin var absúrd og sjá eftir að hafa ekki farið hófsamari og skynsamlegri leiðir að markmiðunum, leiðir sem hefðu kannski kostað meiri vinnu en upphafleg áætlun, en skilað árangri.
Þetta er þekkt. Þetta er vitað. Þetta er alltaf að gerast. Og gerist enn.
Hin íslenska ríkisstjórn boðar lausn allra vandamála með inngöngu í ESB. Innganga í ESB á ekki bara að uppræta alla spillingu á Íslandi, hún á líka að breyta krónunni í evrur og uppgufun krónunnar á að leysa verðtryggingarbölið. Þetta hljómar eins og draumur. Sannfærandi draumur. En trúðu mér, þetta er lítið annað en blekking sem heldur að hún sé draumur.
Því miður er inngöngumiðinn í ESB farin að hljóma eins og silfurkúla, og er ég hræddur um að ríkisstjórnin, vegna síns afar takmarkaða og þrönga hugsunarhátts, muni sitja með hendur í skauti alla tíð og kenna síðan einhverju tilfallandi um þegar vandamálin leysast ekki af sjálfu sér hvort sem að innganga í ESB verður að veruleika eða ekki. Hugsanlega verður Davíð kennt um. Það hefur virkað ágætlega undanfarið að kenna Dabba um allt sem farið hefur úrskeiðis. Davíð og sjálfstæðisflokkurinn eru nefnilega svona andsilfurkúlur, það sem skapað hefur öll vandamál nútímans. Þannig hugsa einfeldingar. Þannig líður þeim vel. Reikna ég með.
Það er sorglegt að sjá hvernig lýðskrumarar og pólitíkusar tala í skyndilausnum, en virðast gleyma að velta fyrir sér raunhæfum markmiðum og hvernig ólíkar lausnir geta tekið á þeim. Það er fáránlegt að festa sig við eina lausn þegar hugsanlegar lausnir eru fjölmargar, og margar sjálfsagt betri og auðveldari en þessi eina stóra.
Allt sem þarf til er vilji, skynsemi og smá mannúð. Frá fólkinu sem ræður. Og að þau fatti að silfurkúlur eru skáldskapur sem ekki virka í veruleikanum og að ESB er silfurkúla sem mun aldrei virka til að leysa öll vandamál.
Aftur á móti er ég ekki á móti ESB. Ég tel skynsamlegt fyrir Íslendinga að ganga í ESB, einfaldlega vegna þess að verðmætum og auðlindum er ekki skipt á réttlátan hátt heima fyrir, og tel að með veru í ESB hefðum við fleiri verkfæri til að taka á vandamálum - en það þýðir ekki að þessi verkfæri séu ekki til staðar í dag, bara í öðru formi. Þessi verkfæri eru falin eða hunsuð til þess að þvinga þjóðina til að samþykkja ESB umsókn.
Það er ranglát leið, sviksamleg og fölsk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vinstri-hægri einstefna í báðar áttir?
8.7.2011 | 22:06
Hægri-vinstri stjórnmál liðu undir lok við fall Berlínarmúrsins... hélt ég. Þar til núverandi ríkisstjórn tók völdin á Íslandi. Hún er sönn vinstristjórn. Lengst til vinstri. Virðist sama um allt nema fá að stjórna villta vinstrinu.
Styður samt fjármálabáknið.
Dýrkar kannski vinstrið á meðan hún stýrir til hægri?
Svona stjórnmálaskýringar eru náttúrulega ekkert annað en bull. Pólitíkusar eru fólk af holdi og blóði og kjósa það sem þeim hentar hverju sinni á leið sinni til frægðar og frama. Það virðist vera samnefnari stjórnmálamanna. Ekki bara á Íslandi í dag. Heldur um víða veröld og alla tíð.
Skrifað sem athugasemd við grein Egils Helgasonar: Í belg og biðu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tvífari Jóns Bjarnasonar ráðherra
4.6.2011 | 15:56
Í gær varð mér á að hlusta á þessa ræðu Jóns Bjarnasonar ráðherra. Mér varð hugsað til annarrar ræðu sem ég heyrði fyrir nokkrum árum og ákvað að rifja hana upp.
Ég skrifa þetta ekki af illkvittni. Það býr ekki vottur af slíkum tilfinningum innra með mér. Í fyllstu alvöru.
Pínlegt.
Góða skemmtun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Thor (2011) *1/2
30.4.2011 | 09:23
"Thor" er full af góðum hugmyndum, eins og þeirri að hinir norrænu guðir séu geimverur frá hátæknivæddu samfélagi, og myndirnar frá Hubble af stjörnuþokum sýni ekkert annað en greinar og laufblöð af hinu gríðarstóra tré Aski Yggdrasil. Einnig fyllir Chris Hemsworth vel út í búning þrumuguðsins, það er ágætis húmor í nokkrum atriðum sem og flottar tæknibrellur í bardagasenum.
Ef svoleiðis er nóg fyrir þig, gott og vel. Þá geturðu farið í bíó og haft gaman af.
Chris Hemsworth passar í búninginn.
Ég geri hins vegar kröfur um góða sögu og persónur. Hver einasta persóna fyrir utan Thor er algjörlega flöt, fyrir utan kannski Óðin (Anthony Hopkins) sem virðist vera meira í karakter Messíasar heldur en hins grimma og miskunnarlausa Óðins - þar sem hann virðist sækjast eftir friði og ró á meðan kjarninn í hinum gamla Óðni goðafræðinnar er að hann sækist eftir átökum til að búa til hetjur, sem var hans helsta tómstundargaman. Það er reyndar aukaatriði hér. Reyndar er Thor svolítið flatur sjálfur, hann syndir í grunnu lauginni frekar en þeirri djúpu, og örkin hans er fyrirsjáanleg frá fyrsta atriði.
Skugginn af svarta svaninum heilluð af Todda þegar hann er loks kominn í flott föt.
Natalie Portan leikur stjarnvísindamann sem heldur að hún hafi fundið eitthvað merkilegt stjarnfræðilegt fyrirbæri yfir eyðimörk Nýju Mexíkó. Það eru svona skrítnir stormar, eða ormaholur, sem eru í raun vísbendingar um ferðalög geimveranna sem Heimdallur stjórnar með því að stinga stóru sverði í stein. Því miður er Portman eins og skugginn af Svarta svaninum sem hún lék svo snilldarlega á síðasta ári. Í þessu hlutverki er hún dauf og litlaus, og persóna hennar algjörlega flöt, en svolítið sæt samt. Hinn ágæti Stellan Skarsgaard er fínn sem lærifaðir hennar, en hefur úr litlu að moða, og leikur persónu sem hefði getað verið eitthvað miklu meira.
Hið fagra föruneyti Þórs. Á myndina vantar Siv. Lengst til hægri er hinn ósköllótti Ray Stevenson.
"Thor" hefur svo mikið sem hefði getað verið frábært. Hún er full af glötuðum tækifærum. Til dæmis hefur Thor fjóra félaga sem berjast með honum hvert sem hann fer, en maður nær engu jarðsambandi við þessar persónur - fyrir utan að ein þeirra er leikin af hinum ágæta Ray Stevenson, sem áður lék aðalhlutverkið í annarri Marvel mynd, "Punisher - War Zone", en eins og áður segir, þá eru þessar persónur algjörlega flatar. Það eina sem gerði þá persónu áhugaverða var að ég kannaðist við leikara sem er þekktastur fyrir frábæra persónu úr sjónvarpsþáttunum "Rome". Þar var hann sköllóttur. Hér er hann hærðari en dvergarnir í "Lord of the Rings".
Þór, Óðinn og Loki glansandi fínir og flottir.
Önnur mögulega góð persóna var "Laufey", en eins og þeir sem kannast við norrænar goðasögur var Loki Laufeyjarson. Þá var Óðinn faðir hans. Í þessari útgáfu er Laufey ekki bara karl, heldur konungur frostrisa sem langar til að ryðjast inn í Ásgarð og drepa Óðinn. Og Loki er ekki beinlínis sonur Óðins, heldur fóstursonur, barn sem hann fann í höll Laufeyjar.
Loki er í sjálfu sér spennandi persóna, en mér fannst Tom Hiddleston ekki ná neinum tökum á þeirri lævísi sem mætti nota í þennan geðveika karakter. Það hefði verið meira spennandi að fá leikara með almennilegt vægi til að leika Loka.
Svona lítur "hún" Laufey móðir Loka út í kvikmyndinni um Þór.
Mér var nokkuð sama hvað yrði um þessar persónur, sama hversu vel umhverfi þeirra var umlukið og upplýst í skrúði tæknibrella.
Það var nokkuð um vísanir í "The Avangers" sem kemur út á næsta ári. Jeremy Renner birtist í nokkrar mínútur, Samuel L. Jackson á lítið atriði eftir kreditlistann, og svo er líka vísað í Hulk sem horfinn vísindamann. Einnig er minnst á Stark, til að tyggja ofan í okkur að þessi saga gerist í Marvel heiminum.
Heimdallur samgönguráðherra.
Ég hefði búist við að Kenneth Brannagh sem leikstjóri, uppalinn í Shakespeare hefð, legði meiri áherslu á sögu og karakter, en því miður gerir hann það ekki. Þessi mynd er gerð með hangandi hendi og er svona eins og máluð eftir númerum.
Þegar kemur að ofurhetjumyndum, þá er hún ekki jafn léleg og "Batman & Robin" eða "Superman IV: The Quest for Peace". Hún er meira eins og "Hulk", "Spider-Man 3" og "Iron Man 2". Jæja, þá veistu hvað mér finnst.
Þó verð ég að játa mig sigraðan í einu atriði sem mér fannst fyndið, þegar Thor gengur inn í gæludýrabúð og biður um hest, eða nógu stórt dýr til að geta notað sem fararskjóta.
"Thor" er á endanum frekar létt mynd og kannski aðeins of mikið léttméti fyrir undirritaðan. Ég keypti mér Timex Expedition armbandsúr samkvæmt ráðleggingu frá Roger Ebert fyrir nokkrum árum, en ef maður ýtir á hnapp kviknar grænt ljós og maður getur séð hvað tímanum líður. Líti maður einu sinni á úrið meðan myndin er í gangi, er það ekki gott tákn. Ég leit þrisvar á úrið og var samt ekkert að flýta mér. Hafði ekkert að gera annað en að horfa á myndina. Engin ytri pressa. Mér fór að leiðast síðasta hálftímann, og tel það vera vegna þess að sagan var slök og persónurnar flatar.
Kvikmyndaúrið Timex Expedition
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Af hverju látum við þrælkun líðast á Íslandi í dag?
21.4.2011 | 18:47
Þræll er manneskja bundin af annarri manneskju eða kerfi gegn vilja sínum og neydd til að þjóna viðkomandi af auðmýkt. Reyni þrællinn að brjótast út úr þrælkuninni er honum hótað gjaldþroti sem hægt er að viðhalda þar til hann deyr úr hárri elli, en gjaldþrot jafnast nánast á við líflátsdóm, og er mun þyngra en nokkur fangelsisdómur sem Íslendingur getur fengið fyrir afbrot á Íslandi, jafnvel fyrir morð.
Það eru tveir aðilar á Íslandi sem viðhalda þrælkuninni:
Bankarnir ásamt kröfuhöfum sem enginn veit hver er, og stjórnvöld. Því miður fylgja margir stjórnvöldum blint. En stjórnvöld eru heyrnarlaus. Heyrnarlaus leiðir blindan í samræðu. Þrælslundin er rík, og óttinn við að kerfið stoppi hræðilegri en nokkur önnur ógn í þessari veröld.
Ef Jón Hreggviðsson getur ekki borgað húsnæðislán sín er honum ekki sýnd nein miskunn. Eignin er seld ofan af honum á nauðungaruppboði og fyrir hana fæst alltof lágt verð, en hann situr eftir á föðurlandinu með skuldir sem hann ræður aldrei við að greiða. Velji hann gjaldþrot geta kröfuhafar endurnýjað kröfur sínar á tveggja ára fresti þar til Jón hefur gengið berfættur ofan í kalda gröfina. Þetta er kerfið sem bankarnir og stjórnvöld viðhalda í dag.
Jón Hreggviðsson og fjölskylda hans lifir í angist og upplifa sig sem einangraðar og firrtar verur í heimi sem virðist standa á sama um mannleg gildi. Kona Jóns á erfitt með að höndla hin yfirþyrmandi vandamál sem óborganlegar skuldir reynast vera, þar sem engin leið virðist út úr völundarhúsi hins snobbaða ranglætis.
Ég trúi ekki að fólkið sem stórnar landinu vilji vera jafn miskunnarlaust og skilningslaust og það virðist vera gagnvart Jóni, konu hans og börnum. Kannski kann það bara ekki að setja sig í spor annarrar manneskju sem upplifir ólíkar aðstæður? Stjórnvöld gætu gert eitthvað af viti til að afnema þrælkun Jóns, eins og til dæmis að klippa á verðtrygginguna eða gert honum fært að byrja aftur á núlli. Það þyrfti að gera gjaldþrot mannúðlegra í kjölfar hrunsins, annars finnur Jón enga leið út úr vandanum, tekur næsta flug út í heim og kemur aldrei til baka.
Skjaldborgin yfir Jón og fjölskyldu hans hefur ekki verið reist af stjórnvöldum. Stjórnvöld gerðu þau mistök að biðja bankana að byggja skjaldborgina, og að sjálfsögðu urðu bankarnir við þeirri beiðni. Hins vegar byggðu þeir skjaldborg yfir sjálfa sig, og botnvörpu yfir heimilin.
Fjölmargir flytja úr landi frekar en að verða gjaldþrota vegna forsendubrests húsnæðislána og/eða atvinnuleysis. Ég veit um nokkra sem flutt hafa burt, og veit um miklu fleiri sem er að undirbúa brottflutning. Áhugavert væri að senda fyrirspurnir á þá sem halda norskukúrsa, en mér skilst að á þeim vettvangi sé mikið að gera.
Alþingismenn virðast ekki átta sig ekki á hversu alvarleg staðan er, því flestir búa þeir við gjörólíkar aðstæður en það fólk sem er að berjast við bankana vegna húsnæðislána og forsendubrostinna skulda, en pólitíkusar virðast hvorki vilja né geta sett sig í spor fólks við slíkar aðstæður, enda áhuginn ekki fyrir hendi og miklu auðveldara að fordæma fólkið en að styðja það. Og jafnvel setja sig á aðeins hærri skör en almúgann.
Íslenska stjórnmálamenn virðast vera afar sjálfhverft lið, sem hugsar fyrst og fremst um flokkinn sinn eða sjálft sig, og á erfitt með að greina hin raunverulegu vandamál. Þó eru til undantekningar, en þær eru ekki nema 1-5 manneskjur í alltof stórum þinghópi.
Það væri ágætt ef fólk nennti að setja á sig skó þeirra sem þurfa að kljást við forsendubrest heimilislána, og ganga aðeins um í þessum skóm, í stað þess að gera það sem bankarnir gera, hlaupa í burtu með skóna og skila þeim aldrei aftur.
Þessar pælingar vöknuðu eftir að hafa horft á heimildarmyndina Inside Job en Egill Helgason fjallar um hana á bloggi sínu í dag.
Bloggar | Breytt 22.4.2011 kl. 04:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Bæn
25.12.2010 | 15:45
Ég bið um að málefnaleg umræða, skynsamleg gagnrýnin hugsun og umhyggja verði höfuðatriði fyrir íslenska stjórnmálamenn á nýju ári og um alla framtíð.
Ég bið um að fólk læri að gera greinarmun á innantómum frasaklisjum sem höfða til tilfinninga og dýpra mati sem byggir á raunverulegri þekkingu, skilningi og greiningu á samfélagslegum áhrifum.
Ég bið um að þeir sem vita ekki hvað þeir eru að gera í íslenskri pólitík hverfi þaðan, að þeir átti sig á að verk þeirra gera lítið annað en að skaða íslenska þjóð. Og ef til of mikils er ætlast, að viðkomandi í það minnsta umturni hugsunarhætti sínum. Fílabeinsturnar mega falla. Þetta á við um stjórnmálamenn óháð flokki og hagsmunum.
Ég bið um að við lærum eitthvað af reynslunni, þó að sagan segi okkur að staðreyndin sé sú að við lærum ekkert af henni.
Bið ég um mikið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Gleðileg jól
24.12.2010 | 13:50
Ég vil óska lesendum síðunnar, sem og landsmönnum öllum, á Íslandi og erlendis, gleðilegra jóla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hvernig bragðast Mexíkó í dag?
18.12.2010 | 02:14
Í gærkvöldi lenti ég á Mexíkóflugvelli. Að horfa á ljósin í Mexíkóborg úr flugvél er svolítið magnað. Hvert sem þú lítur, hvert sem augað nær, þar blika gul ljós í bænum. Einstaka svört fjöll og fornir píramídar eru svartir blettir á borginni, og ekki í neikvæðri merkingu.
Ferðin til Mexíkó var löng og viðburðarlítil, um 28 klukkustundir í allt, fyrir utan að ég fékk loksins tækifæri og tíma til að lesa hluta af fyrstu Milleninum bókinni eftir Stieg Larsen. Byrjar sá lestur vel. Allar persónur ljóslifandi og spennandi. Þetta er ein af þessum bókum þar sem maður finnur ekki fyrir lestrinum sjálfum, heldur er allt í einu kominn það djúpt í söguna að maður getur ekki hætt. Svona bækur eru ekki á hverju strái.
Þar sem ég get ekki sofið í flugvélum og þori ekki að sofa á flugvöllum eftir að ég sofnaði fyrir nokkrum árum á San Jose flugvellinum í Costa Rica, þá var ansi slánalegur gaur sem steinsofnaði í hlýju rúmi þessa ágætu nótt.
Í morgun heimsótti ég útlendingaeftirlitið. Skriffinnskan er hroðaleg. Fyrst þarf maður að panta tíma. Síðan þarf maður að bíða í röð. Þá kemur að því að maður fær loks afgreiðslu. Í afgreiðslunni er farið yfir afrit af skjölum. Sé eitthvað skjal vitlaust er maður sendur í afritunarfyrirtæki á næstu hæð fyrir ofan. Þar þarf að bíða í röð eftir að panta afritun, síðan þarf að bíða í röð til að borga afritin og þar á eftir þarf að bíða í röð eftir að fá afritin í hendurnar. Þá liggur leiðin aftur í útlendingaeftirlitið, þar sem öryggisvörður hleypir manni í aðra röð fyrir þá sem hafa sótt afrit. Það eru nokkrir í þeirri röð. Í ljós kemur að fimm afrit eru ekki alveg í lagi og fimm sinnum þarf að ljósrita, endurtaka allar biðraðir, áður en skjölunin kemst í gegn.
Virkar ágætlega hafirðu allan daginn í þetta. Það sem gerir þetta að ágætis lífsreynslu er að fólkið sem vinnur í útlendingaeftirlitinu er ljúft og gott, sýnir mikla kurteisi og góðan húmor á meðan beðið er í sal sem eftir því sem líður á daginn fyllist og síðan troðfyllist af fólki sem er að koma skjölum sínum í gegn.
Margt er skemmtilega öðruvísi við Mexíkó. Þegar maður leggur bílnum, sama hvar það er, næstum því, heyrir maður í dómaraflautu og sér mann veifa rauðum klút. Þetta dómaraflaut kemur frá manni sem starfar sem bílastæðavörður. Hans hlutverk er að benda ökumönnum á laus stæði, hjálpa þeim að leggja bílnum með handaveifingum og látbragði, passa það að enginn óviðkomandi fikti við bílinn á meðan maður er í burtu, og hjálpar manni síðan út úr stæðinu með því að veifa öðrum bílum frá. Síðan tekur viðkomandi við launum sínum frá bílstjóranum, sem geta verið frá engu og sjálfsagt allt að tíu pesósar, en það er um 100 krónur íslenskar.
Á umferðarljósum stendur oft fólk sem selur alls konar vörur, eins og brúður eða sælgæti. Einn var að selja risastór stjörnuljós. Einnig sá ég í dag lítið barn betla pening ásamt móður sinni, og einfættan mann hoppa um á hækjum við umferðarljós og óska eftir ölmusu.
Puebla, borgin sem ég heimsæki, er svolítið sérstök. Hún er ekkert sérstaklega falleg utan frá. Húsin eru múraðir kassar og göturnar frekar holóttar og illa við haldnar. Ofan á múrum umhverfis húsum standa glerbrot til að auka á friðhelgi einkalífsins. Innan í húsum og verslunum tekur allt önnur veröld við. Verslanir eru eins og það flottasta sem hægt er að finna í Bandaríkjunum, og vöruúrvalið margfalt það sem hægt er að vonast til í nokkurri verslun á Íslandi. Þarna eru bíóhús á hverju strái með tugi sala, og er hver einasti salur eins og íslenskir lúxussalir. Það er normið í Mexíkó.
Utanfrá virðist Mexíkó frekar hrjúft land og gróft, en innan í byggingum og í fólki finnurðu fullt af fegurð. Það er einhvers konar lífshamingja, þrátt fyrir að ekki líti allt út fyrir að vera auðvelt, þrátt fyrir orðróm og fréttir um eiturlyfjastríð, alltof mikla umferð, gífurlegan fjöldi af fólki frá ólíkum ættbálkum, sem hafa hverjir sína menningu og margir sín eigin tungumál.
Í kvöld fékk ég svo heimatilbúinn Mexíkóskan mat. Þú finnur ekki betri mat í þessum heimi. Það er eins og veitingahúsin nái aldrei þessum gæðum sem góður heimatilbúinn matur hefur. Hæfilega sterkt, og hæfilega sætt.
Það eru fimm ár síðan ég heimsótti Mexikó síðast. Ekkert hefur breyst fyrir utan að vegum og byggingum hefur fjölgað töluvert. Fólk virðist almennt vera á sama stað í lífinu og fyrir fimm árum, það er eins og heimurinn hafi staðið í stað. Til samanburðar fannst mér Ísland gjörbreytast á þeim sex árum þegar ég bjó í Mexíkó, því þegar ég kom heim fannst mér allt vera öðruvísi. Það var eins og Íslendingurinn væri orðinn að allt öðru fyrirbæri en hann áður var. Breytingarnar voru það miklar að maður fann fyrir þeim. Allt í einu virtust flestir orðnir ríkir á Íslandi og sérfræðingar á hverju strái.
Þegar ég horfi á göturnar fylltar af flautandi bifreiðum, get ég ekki annað en fyllst ákveðnum söknuði, og velt fyrir mér hvernig þessi heimur væri ef bílar hættu allt í einu að vera til. Myndum við þá aftur ná sambandi við hestinn, og lífið verða mannlegra fyrir vikið, í stað þess að verða stöðugt vélrænni og straumlínulagaðri.
Stundum vildi ég óska þess að eiga hest sem ég gæti riðið á til vinnu, lagt á beit, og síðan riðið heim í söðli. Það er lítil hætta á því, enda hafa bílastæði yfirtekið næstum alla grasbletti í heiminum, þar sem hestur gæti sæll beðið eftir knapa sínum á meðan hinn síðarnefndi vinnur sína vinnu.
Þetta er lítill hluti af Mexíkó í dag, eins og ég finn fyrir land og þjóð á mínu eigin skinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Surtur frændi
4.12.2010 | 15:15
Drengur fékk hús úr legókubbum í jólagjöf. Hann setti það saman á tveimur klukkutímum. Stúlka fékk dúkkuhús. Drengur og stúlka elskuðu nýju húsin sín.
Þá kom í heimsókn Surtur frændi. Hann var kallaður Surtur því hann var alltaf í svörtum skóm og hafði alltaf skóbón í vasanum, því samkvæmt honum var ekkert mikilvægara við manneskju en skórnir hennar. Hann sá húsin. Brosandi spurði hann Dreng og Stúlku hvort þau vildu ekki stærri og flottari hús. Þau sögðu nei, þau voru meira en ánægð með það sem þau höfðu.
Surtur tók samt húsin og stakk þeim ofan í poka. Svo rauk hann á dyr. Drengur og Stúlka skældu í pabba og mömmu. Fyrst trúðu þau þessu ekki. Héldu að börnin væru að ljúga. En börnin tóku fram potta og pönnur, lömdu þær og grenjuðu hástöfum þar til loksins var hlustað á þau.
"Hvar eiga legókallarnir mínir að sofa?" spurði Drengur.
"Hvar eiga dúkkurnar mínar að baka?" spurði Stúlka.
Pabbi hringdi í Surt frænda og spurði hvað hann meinti með að taka hús barnanna með sér.
"Hafðu engar áhyggjur," svaraði Surtur. "Þau fá húsin til baka, sjöfalt."
Pabbi sagði börnunum að allt yrði í lagi. Þetta myndi reddast. En ekkert gat huggað þau. Gráturinn jókst, og þau vældu daginn út og inn.
Mamma hringdi í Surt og spurði hvað hann ætlaði að gera við húsin, og svaraði Surtur frændi, "Ég hef hugsað mér að gefa fátækum börnum þessi hús. Þegar ég sá hvað þau glöddu mikið ykkar börn, gat ég ekki annað en séð fyrir mér hamingjuna í augum barna sem ekki eiga neitt."
"Viltu vinsamlegast skila þessum húsum strax. Þú hefur engan rétt til að taka þau og engan rétt til að gefa þau."
"Kærðu mig bara. Hver heldurðu að taki afstöðu gegn manni sem gefur fátækum, sem lofar að gefa meira til baka en hann tekur, manni sem spurði áður en hann tók? Manni sem er í fægðum skóm?"
Mamma hringdi næst í lögregluna. Þar var henni sagt að þetta mál væri tekið alvarlega, en að fyrst yrði hún að gefa skýrslu og koma með sönnunargögn sem sýndu ótvírætt að umræddur Surtur hafi stolið húsunum.
Mamma og pabbi fóru niður á lögreglustöð og gáfu skýrslu.
Viku seinna fengu þau bréf frá rannsóknarlögreglunni sem sagði að Surtur hefði tjáð þeim að hann hefði gert þetta með þeirra vitund, og þar sem þau vissu af þessu, þá gæti lögreglan ekkert gert. Þar að auki kom Surtur afar vel fyrir og var í gljáfægðum skóm.
Mamma og pabbi sögðu Dreng og Stúlku frá þessu, en börnin gátu ekki lengur grátið og þess í stað tóku þau djúp andvörp öðru hverju.
Smám saman hjaðnaði yfir sárin. Tíminn leið og kom að næstu jólum. Árið hafði verið dapurt fyrir börnin. Þau höfðu ekki geð í sér til að læra í skólanum yfir vorið og komu sér sífellt í vandræði. Svo kom sumar sem leið alltof fljótt og næsta skólaár skall á með meiri hraða en áður. Þá voru kennarar betur undirbúnir fyrir þessi börn og höfðu undirbúið sérstök úrræði fyrir þau.
Á aðfangadag hringdi dyrabjallan. Drengur fór til dyra. Þar stóð Surtur. Drengur tók andköf. Surtur gaf honum tvo stóra pakka, klappaði honum á kollinn og sagði "gleðileg jól" áður en hann tók til fótanna svo að glampaði á iljar hans.
Drengur gekk klökkur inn í stofu og setti pakkana á gólfið.
"Hvað er að?" spurði mamma.
"Ég veit það ekki, en eitthvað vont," sagði Drengur og setti pakkana undir jólatréð.
Eftir mat voru pakkarnir opnaðir og þegar kom að pökkum Surts voru þeir settir til hliðar, enda voru þeir stórir og flottir. Umbúðirnar glansandi rauðar og gylltar með glimmer.
Í augum barnanna glampaði von um að nú fengju þau loksins húsin sín aftur.
Drengur og Stúlka opnuðu pakka sína samtímis. Inni í pökkunum voru kassar. Á kassana höfðu verið límdar myndir af höll í Indlandi og kastala í Skotlandi. Innan í kössunum voru ekki hús, heldur litir og A4 arkir.
Á gulum miða stóð:
"Notið ímyndunaraflið. Teiknið húsin sem ykkur langar í."
Drengur og Stúlka litu á foreldra sína, lögðu frá sér pakkana, fóru inn í herbergi sín og lokuðu hljóðlega á eftir sér.
Mamma og pabbi settust niður við eldhúsborðið. Þau sátu þar þögul um stund.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)