Hvernig vitum við hvaða hugmyndir okkar eru góðar?

“Eurika!” - Arkímedes

Góð hugmynd er eitthvað sem virkar vel fyrir þann sem hefur hana og skaðar engan annan. Þú veist að hugmyndin er góð ef hún bætir líf þitt og tilveru án þess að rugla í lífi annarra. Góðar hugmyndir eru yfirleitt ekki flóknar, þær eru oft svo einfaldar að auðveldast er að taka ekki eftir þeim. Til dæmis þegar kemur að fjárfestingum, þá borgar sig að kaupa í traustum fyrirtækjum sem eiga bjarta framtíð og eiga bréfin lengi, og muna að það sem gerir fyrirtækin traust er fólkið sem stjórnar þeim og vinnur þar. Það sama á við þegar maður ákveður að ráða sig í vinnu.

Það er hægt að meta góðar hugmyndir frá ólíkum sjónarhornum. Til dæmis vitum við að hugmynd er góð ef hún er í samræmi við sannleikann og dyggðirnar, en þá reyndar þurfum við að leggjast í grúsk og læra meira um sannleikann og dyggðirnar, og áttum okkur fljótt á hversu ólíkar hugmyndir fólk hefur um hvort tveggja, þannig að komast að sameiginlegri niðurstöðu reynist afar vandasamt. En samt getum við byggt upp trausta þekkingu, skilning og hegðun sem getur stýrt okkur til að skilja muninn á góðum og slæmum hugmyndum.

Einnig er hægt að skoða hugmyndir út frá gullna meðalveginum, að hugmyndin sé í jafnvægi og framkvæmd hennar í samræmi við það. Það getur til dæmis verið hugmyndin um hvað börnum er gefið í skóinn, það má hvorki vera of lítið né of mikið, og þarf einhvern veginn að kenna þeim muninn á réttu og röngu. 

Góð hugmynd er líka eitthvað sem virkar og stenst tímans tönn. Í skák er ein megin hugmyndin að ná valdi yfir miðborðinu strax í upphafi skákar, þetta er hugmynd sem hefur lengi reynst vel, hún hefur virkað, og skákmenn hafa haldið í hana eins og trú. Samt má vel vera að gervigreindin geti lært og kennt okkur önnur viðmið og aðrar hugmyndir sem eru jafnvel ennþá betri. Það er eitt af því sem einkennir góðar hugmyndir, þó að þær séu góðar, þá virðist alltaf vera hægt að finna einhverjar aðeins betri.

Góðar hugmyndir hjálpa okkur að ná markmiðum okkar og gera lífið betra, bæði fyrir okkur sjálf og fólkið í kringum okkur.

Við höfum samþykkt að það að halda jól sé góð hugmynd. Við megum alveg spyrja okkur af hverju þessi hugmynd hefur fest sig í sessi og af hverju við sem samfélag virðum jólin og áramótin.

Við höfum samþykkt að það sé góð hugmynd að kjósa stjórnvöld yfir hverju landi og bæ, og að kosið sé til stjórna í fyrirtækjum og félögum. En svo vitum við að til er fólk sem telur lýðræðið, rétt eins og jól og jafnvel áramót, vera slæmar hugmyndir og þess virði að rústa. 

Við höfum áttað okkur á því að góðar hugmyndir stefna að því að uppfylla okkar eigin þarfir í lífinu, ekki bara grunnþarfir heldur einnig háleitari hugmyndir eins og að gera allt sem við getum til að öðlast sjálfsstjórn og frelsi til að vera við sjálf.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dominus Sanctus.

Spurðu alla þina vitustu vini álits 

áður en að þú kemur hugmyndinni í framkvæmd.

Dominus Sanctus., 23.12.2023 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband