Vilt þú lifa sama lífi aftur?

death-164761_1280

Gefum okkur að þú liggir uppi í sófa og sért að glápa á Netflix. Það er enginn hjá þér og myndin er skemmtileg. Skyndilega fer allt rafmagn og þú situr í myrkrinu enda áttu hvorki kerti né LED kerti með rafhlöðum. Þú liggur bara uppi í sófa og hallar aftur augunum. Þá finnurðu kaldan gust og finnur eitthvað ískalt strjúka handlegg þinn, og þú finnur að það er einhver sestur við hlið þér í sófann. Þú opnar augun en sérð engan vegna myrkursins, en veist að það er einhver þarna. Þér finnst þetta frekar óhugnanlegt og hjúfrar þig undir teppi. Þá heyrirðu ráma rödd ávarpa þig og hún spyr þig spurningar sem þú veist að þú þarft að svara:

“Hugsaðu um líf þitt eins og þú lifir því núna,” segir þessi vera. “Hugsaðu um allt sem þú hefur gert, það sem þú ert að gera núna og allt það sem þú munt í framtíðinni gera. Mig langar að gefa þér val: að þú fáir að lifa aftur þessu sama lífi, á nákvæmlega sama hátt og þú hefur lifað því og á nákvæmlega sama hátt og þú átt eftir að lifa þína síðustu daga, hvert einasta smáatriði verður eins, þú munt þekkja allt saman fólkið aftur, þú munt meiðast á sama hátt og þú gerðir í þessu lífi, þú munt upplifa dauða og sársauka ástvina þína eins og þú hefur gert í þessu lífi. Aðeins eitt verður öðruvísi, þú manst allt sem gerst hefur í þessu lífi og getur breytt viðhorfi þínu. Myndir Þú gera það, og hvernig þá?”

Þú skelfur og nötrar og finnur stingandi kulda streyma frá þessari veru. En þú getur ekki annað en hugleitt spurninguna. “Myndi ég vilja lifa þetta líf aftur, alveg eins og ég hef lifað því?” En svo bætir röddin við.

“Ef þú ákveður að lifa lífi þínu aftur, þarftu ekki aðeins að gera það einu sinni heldur óendanlega oft. Og alltaf mun minni þitt og hugarfar vera það eina sem þú getur breytt. Viltu gera þetta?”

Þú lítur upp úr teppinu og reynir að finna þessa veru í myrkrinu sem situr við hlið þér í sófanum, og greinir tvö augu sem eru svo svört að þau eru dimmari en allt myrkrið í kring. Og þessi augu nálgast þig, og veran spyr þig aftur, og þú veist að ef þú svarar ekki mun eitthvað skelfilegt gerast:

“Já eða nei?” hvæsir þessi illi andi.

Þú stamar: “Hverjir eru kostirnir? Hvað ef ég segi nei, hvað gerist þá?”

“Þú færð ekki að vita það frekar en nokkur önnur sál,” hreytir veran út úr sér. “En ef þú segir já, þá færðu að lifa því sem þú átt ólifað eftir þínu höfði, en verður að endurtaka leikinn aftur og aftur. Þú verður að svara áður en ljósin kvikna.”

Hverju svarar þú?

 

Image by PublicDomainPictures from Pixabay


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mannskepnan er mögnuð vera,

man í sanskrít merkir hugur.

Læt það versta alveg vera,

veit þá mér ei brestur dugur. 

Einar Vilhjálmsson (IP-tala skráð) 12.5.2021 kl. 22:46

2 identicon

Enginn maður ætti að kjósa að lifa lífi sínu aftur. Því líf hans var og er misheppnað. 

Þegar erfðasyndin fór að fylgja mannkyninu, frá dögum Adams og Evu eru allir menn pervertar og lifa brengluðu mannlífi.

Aðeins einn maður hefur lifað vel heppnuðu lífi, fullkomnu lífi.  Hann heitir Jesús Kristur. Hann lifir lífi sínu hér á jörðu aftur og aftur þar til veröldin endar í núverandi mynd. Hann upplifir stöðuga endurtekningu á lífi sínu í hvert skipti sem einstaklingur er getinn aftur fyrir Orð hans. Sú persóna er þá orðin ný sköpun sem Jesús Kristur lifir í.

Nú þegar þú ert spurður hvort þú viljir  að Jesús lifi í þér, verður  svar þitt að koma meðan ljós lífs þíns í þessum heimi logar.

Það er of seint að iðrast eftir dauðann.

 

Guðmundur Örn Ragnarsson (IP-tala skráð) 27.5.2021 kl. 20:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband