Getum við vitað þegar einhver lýgur að okkur?
9.6.2021 | 08:56
Við ljúgum þegar við viljandi segjum einhverjum öðrum eitthvað ósatt. En að vita hvenær einhver gerir eitthvað viljandi eða óviljandi er næstum ómögulegt að átta sig á. Við getum trúað einhverju um ætlun annarra, en við getum aldrei fyllilega vitað það.Erfitt verður að sanna þá ásökun að einhver hafi yfir höfuð logið, því þá ertu að gefa þér að þú vitir bæði hvað viðkomandi gerir viljandi.
Þegar við tölum um hvort að einhver sé að ljúga, erum við í raun sjálf að ljúga, því við vitum ekki hvað viðkomandi hefur gert viljandi. Við getum ekki lesið hugsanir annarra, við getum í mesta lagi giskað eða dregið ályktanir, en náum aldrei fullvissu. Í mesta lagi vitum við að þegar við teljum einhvern ljúga, er að hann eða hún er að segja ósatt, og þá kannski bara hugsanlega. Það getur verið að við vitum ekki einu sinni hvort að viðkomandi hafi verið að segja ósatt, því kannski hefur hann eða hún meiri eða minni upplýsingar en við og túlkar þær á annan máta, jafnvel út frá ólíkri heimsmynd. Þannig að þegar við teljum einhvern vera að ljúga getur vel verið að við höfum rangt fyrir okkur.
Hins vegar þegar einhver segir eitt við eina manneskju og svo andstæðuna við aðra manneskju, þá er ljóst að viðkomandi er annað hvort að ljúga eða hefur ekki nógu mikla greind til að vera samkvæmur sjálfum sér. Jafnvel þó að við vitum að viðkomandi hafi fengið áreiðanlegar upplýsingar, og heldur svo öðru fram, þá getum við ekki dæmt um hvort að viðkomandi sé að segja viljandi ósatt, eða hvort að hann sé bara ósáttur við veruleikann og sannleikann. Hann gæti verið öfgafullur efahyggjumaður, narsisískur sjálfsdýrkandi, eða bara algjörlega villtur í heimi skynsamlegra röksemda. Margt kemur til greina.
En það að vera ekki þess valdur að segja satt hlýtur samt að vera á ábyrgð hvers og eins. Við hljótum að bera nógu mikla ábyrgð á eigin menntun og þekkingu til að afla okkur fróðleik um hluti sem skipta máli, við berum ábyrgð á okkar eigin hugsunum og gerðum, að við beitum hugsuninni til að átta okkur á hvað er satt og rétt, til að við getum gert skyldu okkar í samræmi við það sem er satt og rétt. Einnig ber okkur að fylgjast nógu vel með hlutum sem eru að gerast til að geta tekið ákvarðanir í takt við tímann, en við þurfum samt alls ekki að þekkja hvert einasta málefni í kjölinn. Yfirborðskennd þekking á því sem er í gangi er yfirleitt nóg, en dýpri þekking á málefnum sem tengjast störfum gæti krafist þess af okkur að treysta þeim sem vita betur.
Við getum lifað lífi okkar án þess að hafa djúpa þekkingu á einu eða neinu og án þess að styðjast við rök eða hugsa hlutina vel, en slíkt leiðir líklega til tómlegra og leiðinlegra lífs en þeirra sem vita og skilja meira, því að þeir sem hafa þekkinguna sjá fleiri möguleika til að vaxa og dafna.
Þegar við leitum ekki þekkingar eða skilnings á okkar innri og ytri veruleika, þá erum við líklegri til að blekkja sjálf okkur og þegar við tölum við aðra er líklegra að við förum með ósannindi. Hvort sem þessi ósannindi eru viljandi eða ekki, geta þau hæglega skaðað orðspor okkar, jafnvel þannig að við fáum það orð á okkur að vera fáfróð eða lygarar. Þessir stimplar þurfa ekkert endilega að vera sannir til að hafa áhrif.
Gleymum því ekki að fáfróð manneskja getur lært og sú sem við teljum ljúga sér heiminn kannski allt öðruvísi en aðrir, og telur sjálfan sig ekkert endilega vera að ljúga, þó að hann lifi í sjálfsblekkingu.
Mynd eftir mohamed Hassan frá Pixabay
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þekkjum við okkar ytri og innri veruleika?
4.6.2021 | 23:57
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvernig geta reiðiköst gert þig að betri manneskju?
2.6.2021 | 00:00
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)