Hugleiðing um rökvillur

poster

Að þekkja rökvillur er ein af undirstöðum gagnrýnnar hugsunar. Þær spretta stöðugt fram í samræðum og sérstaklega í pólitískum umræðum. Þær eru hannaðar til að sannfæra aðra um ágæti hugmynda, án þess að hugmyndin sé nauðsynlega ágæt. Þær eru blekkingar, sjónhverfingar tungumálsins, og gríðarlega áhrifaríkar. Í huga fræðimanns er notkun rökvillu sambærileg við þjófnað, þær eru röng leið til að hugsa og hegða sér. Samt er erfitt að komast hjá því að nota þær, og eitt af því sem er svo erfitt við fræði og vísindi er að það má ekki stytta sér leið, það þarf allt að vera rétt, og hið ranga smám saman veitt út úr umræðunni.

Af þessum sökum finnst mörgum fræðimál frekar leiðinlegt og langdregið, enda ljúga fræðimenn ekki, nema kannski lélegir fræðimenn, sem eru þá í raun ekki fræðimenn.

Það eru til gríðarlega langir listar um rökvillur, en það eru nokkrar sem vert er að benda á sem eru algengar í umræðunni. Hér eru örfá dæmi um rökvillur:

"Farið í manninn" (argumentum ad hominem) - í knattspyrnu er þetta kallað að fara í manninn frekar en boltann, sem þykir hættulegt á vellinum, og er alveg jafn rangt í umræðu. Þetta lýsir sér yfirleitt þannig að opinber manneskja lýsir yfir skoðun eða áliti, og þá eru viðbrögðin þannig að annað hvort sé skoðunin rétt eða röng vegna þess hvernig manneskjan kemur fram eða hvað hún hefur gert eða sagt áður. Réttast væri að meta málið út frá staðreyndum og reyna að átta sig á með skynsamlegum rökum hvað er satt og rétt, og mynda sér þannig skoðun. En það getur þótt auðvelt að dæma hratt út frá því hver talar eða hvernig er talað, og þannig er hægt að mynda sér ekki aðeins eina slaka skoðun, heldur mýgrút af þeim, sérstaklega ef sama aðferð er notuð margoft. 

"Strámaðurinn" - þetta er mjög algengt í umræðunni, að dregin er upp einfölduð mynd af einhverju máli og síðan rætt út frá einföldu myndinni, í stað þess að draga upp sanna og rétta mynd. Til dæmis þegar rætt er um hægri eða vinstri fólk, þá er verið að ofureinfalda fyrir hvað manneskjan stendur, eins og það séu ekki blæbrigði milli þess hvaða skoðanir og skilning fólk hefur óháð stjórnmálaskoðunum eða jafnvel trúarbrögðum?

"Að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram" - þetta er líka mjög algengt, og reyndar sýnist mér hún vera forsenda stjórnmálamenningar víða um heim. Fólk flokkar sér í ólíka hópa þar sem ákveðnar tilhneigingar til skoðana tengir það saman. Síðan reynir þetta fólk að vera samkvæmt sjálfu sér, eins og það að vera samkvæmur sjálfum sér með fyrirfram ákveðna skoðun sé mikilvægara en að líta fyrst og fremst á staðreyndir og rök hvers máls fyrir sig.

"Hál brekka" - það er algengt að þegar forsenda í umræðu er röng, en umræðan heldur áfram og gerir ráð fyrir að hún sé sönn og rétt, þá munu afleiddar niðurstöður líka vera rangar. Þannig verður ekki aðeins ein afstaða röng, heldur fjöldi þeirra sem byggir á upphaflegu afstöðunni. Þetta er eitt af því sem gerir það svo erfitt að skýra eigin hug, að hreinsa eigin hug af villum og rangtrú, það er svo margt rangt sem hefur síast inn frá barnsaldri, og ef aldrei er tekið til í hugarskotinu, stækka ranghugmyndirnar endalaust og ekkert fær þær bætt nema dauðinn og nýjar kynslóðir fólks sem hugsar betur.

Veltu þessu aðeins fyrir þér. Hefur einhver reynt að sannfæra þig frekar en að leiðbeina þér? Hefur þú reynt að sannfæra um hluti sem þú veist ekki, en heldur og hefur sterka skoðun um að séu réttir, frekar en að kafa dýpra í málin og velta þeim fyrir þér með rökum? Hefur þú stytt þér leið og viðtekið skoðanir með því að velja það sem þér líkar frekar en að velja það sem þú veist að er rétt?

Ég velti þessu oft fyrir mér, og samt tek ég eftir að inn í hugmyndaheim minn læðast ranghugmyndir sem ég þarf svo að uppræta, stundum stytti ég mér leið frekar en að grafast fyrir um hvað er satt og rétt. En hins vegar er ég meðvitaður um þennan veikleika, og held reyndar að þetta sé veikleiki í okkur flestum, ef ekki öllum, mannlegt fyrirbæri, og það að vita um þennan veikleika og vinna í honum, skiptir máli þegar maður myndar sér afstöðu um hvaða mál sem er.

 

Smelltu hér til að finna frekari upplýsingar um rökvillur á Wikipedia

 


Hugleiðing um muninn á fréttum og fölskum fréttum

Fréttir eru frásagnir af staðreyndum sem hafa gerst og hafa ákveðið mikilvægi, sem þýðir að oft þarf að setja fréttirnar í samhengi við aðra hluti sem eru að gerast. Falskar fréttir eru frásagnir af skoðunum sem fólk hefur, og látið er eins og þessar...

Hugleiðing um auðmýkt og stolt

Ég hef verið að velta fyrir mér leiðtogum. Suma met ég sem slæma og aðra sem góða. Þeir slæmu held ég að séu fullir stolts, en hinir góðu fullir af auðmýkt. Ég tengi stolt við fáfræði og skort á mannúð, en auðmýkt við visku og mannúð. Ef þú gætir valið...

Gullkorn frá Ómari Ragnarssyni - fyrir 12 árum

Er að fara yfir gamlar bloggfærslur. Ég hef síðan ég man eftir mér haft gaman af Ómari Ragnarssyni, hlustaði á plöturnar hans sem krakki, hitti hann stundum og spjallaði við á skákmótum þar sem hann fylgdist með (efast um að hann muni eftir því - kæmi...

Hvernig hugsar þú?

Ég hef verið að lesa mér til gagns og gamans "How we Think" eftir John Dewey. Hann veltir fyrir sér ólíkum hugsunarháttum, áður en hann fer að velta fyrir sér hvernig þessir ólíku hugsunarhættir hafa áhrif á hvernig við lifum lífi okkar, ákvarðar hvað...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband