Hvernig gerir tap okkur betri eða verri?

325725386_3484403388461735_8035076075392823365_n-1170x650.jpg

„En dauði og líf, heiður og skömm, sársauki og ánægja — allt þetta kemur jafnt fyrir góða menn og slæma, sem gerir okkur hvorki betri né verri. Þess vegna eru þessir hlutir hvorki góðir né illir." -Markús Árelíus, Hugleiðingar Bók 2, grein 11

 

Í gær horfði ég á leikinn. Íslendingar spiluðu fyrri hálfleikinn af stakri snilld og voru komnir fimm mörkum yfir gegn Ungverjum í hálfleik. Draumurinn hélt svo áfram í seinni hálfleik þar til slæmi kaflinn kom og hætti aldrei. Það var eins og liðið hefði dáið. Þeir höfðu kannski sprengt sig með snilldinni í fyrri hálfleik. Mistök sem sáust varla í fyrri hlutanum urðu algeng í þeim seinni og andstæðingurinn, eins og náttúruafl, sýndi enga miskunn og refsaði fyrir hvert einasta feilspor. 

Tapið sem slíkt var ekki skemmtileg upplifun, en í sjálfu sér er það hvorki gott eða illt, frekar en lífið og dauðinn, heiður og skömm, sársauki og ánægja; þó að vissulega lítur út fyrir að strákarnir okkar hafi upplifað dauða, skömm og sársauka í þessu tapi.

En rétt eins og dauðinn getur gefið lífinu tilgang, með öflugu hugarfari, þá geta þessar sterku tilfinningar verið notaðar sem viðmiðun fyrir framtíðina, áminning um það sem getur gerst og það sem mun einhvern tíma aftur gerast. Ósigur, svo framarlega sem við lifum hann af, er ekki algjör útrýming - lífið er ekki farið - sálin er ekki farin. Ef við lifum fram á næsta dag og notum þessar tilfinningar af hugrekki og visku geta þær orðið okkur innblástur til að gera ennþá betur. 

Hver lærdómurinn verður er ómögulegt að segja, en hver og einn liðsmaður hlýtur að leita inn á við og spyrja sig hvað hægt er að læra á þessu. Þetta er tækifæri til að skoða sterkar tilfinningar af dýpt, og þegar slíkt tækifæri gefst er vel þess virði að rannsaka þær, og þá er ég ekki að tala um að velta sér upp úr þeim, heldur af skynsemi reyna að skilja þær og það sem þær geta kennt okkur. Að hunsa þær, stinga heyrnartólum upp í eyrun og setja einhverja tónlist á, og stara út í tómið er vita gagnslaust. Að ræða þessa hluti, átta sig á hvað gerðist, skilja af hverju það gerðist, það gefur forsendur til að gera ennþá betur næst.

 

Mynd af heimasíðu HSÍ


mbl.is Óhressir með viðbrögð íslensku leikmannanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Ég sé ekkert nema TAP á MÍNUM SKATTKRÓNUM 

við að halda úti her manns við að henda / sparka

bolta fram og til baka í algjöru tilgangsleysi.

Jón Þórhallsson, 15.1.2023 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband