Hver fyllir mæli reiði þinnar?

strength-1148029_1280

„Ef einhver reyndi að ná stjórn á líkama þínum og gerði þig að þræl, myndir þú berjast fyrir frelsi. Samt gefur þú alltof auðveldlega hug þinn þeim sem móðga þig. Þegar þú hlustar á orð þeirra og leyfir þeim að ráða yfir hugsunum þínum, gefur þú þeim stjórn yfir þér. - Epíktet

 

Þegar einhver móðgar þig, er reiðin sem þú finnur ólga í brjósti þínu ekki eitthvað sem hin manneskjan kveikti í þér, heldur eitthvað sem þú kveikir sem eigið viðbragð við ytra áreiti. Um leið og þú leyfir þér að reiðast yfir ytra áreiti, þá eru það viðbrögð sem þú velur, hugsanlega vegna þess að þér finnst þau vera hið eina rétta í stöðunni, sama þó að afleiðingin verði sú að þú missir jafnvægið um stund. Það er þá sem þú gefur á þér höggstað.

Undanfarið hefur verið ólga og reiði í íslenskri verkalýðsbaráttu, það hefur ekki farið framhjá neinum. Mörgum finnst ómaklega að sér vegið, að traust sé brotið, að svik hafi verið framin, haldið er fram að samningar séu lélegri en þeir eru. Þetta er vísbending um að reynt sé að reita fólk til reiði, og viðbrögðin sýna að það takist stundum ágætlega. Afleiðingin getur orðið sú að verkalýðshreyfingin missir jafnvægið um stund og gefur á sér höggstað.

Það er þekkt stjórntæki að nota lægsta samnefnarann til að fylkja fólki saman, yfirleitt á móti einhverjum öflum, fólki eða hugmyndum; reita fólk til reiði, gera það svo reitt að það tapar öllum sönsum, geti ekki lengur hugsað skýrt og skynsamlega. Missi jafnvægið.

Sumir stjórnmálamenn hafa notfært sér reiði almennings til að ná völdum, bæði á Íslandi og víða um veröld. Þeir benda á einhverja aðra og kenna þeim um ríkjandi ástand, og þá skiptir engu hvort að þeir hafi rétt eða rangt fyrir sér, segi satt eða ljúgi. Þeir þurfa að virka sannfærandi og sýna að þeir séu að berjast fyrir fólkið sem hefur verið beitt órétti. Þannig ná þeir völdum.

Afleiðingarnar eru vaxandi óánægja, meira af samsæriskenningum, fleira fólk sem trúir að það sé umkringt óvinum, báðir hópar sannfærðir um að hinn hafi rangt fyrir sér.

Þetta er hættulegur leikur sem virðist festast í sömu hjólförum, aftur og aftur. Ólga verður til í samfélaginu, fólk byrjar að móðga hvert annað og reiðist ógurlega. Sums staðar í heiminum brjótast jafnvel út styrjaldir. Á endanum fellur á dúnalogn og sannleikurinn skríður fram í dagsljósið með tíð og tíma, og hlutirnir skýrast. Þegar reiðin er farin, fá skynsemi, rökhugsun og hugsandi fólk tíma til að átta sig á hvað gerðist. 

Lærdómurinn kemst síðan í fræði og skólabækur. Nýjar kynslóðir læra um það sem gerðist á árum áður, en svo gerist eitthvað, aftur. Það kemur kreppa, einhver stjórnmálamaður ákveður að reita fólk til reiði, finnur samnefnara fyrir reiðina og sama sagan endurtekur sig. Leikritið er það sama, hlutverkin eru þau sömu, en það eru komnir nýir leikarar í hlutverkin.

Alltof margir eru tilbúnir að gefa eigin hug og atkvæði slíku valdi. Ekki láta það gerast! Mundu að reiðin í þér er eitthvað sem bara þú getur stjórnað, og ef þú gefur einhverjum öðrum vald yfir reiði þinni er voðinn vís. 

Stjórnaðu skapi þínu vel. Það er hluti af því að byggja betra samfélag og betri heim.

 

Mynd eftir wendy CORNIQUET frá Pixabay


mbl.is „Mælirinn orðinn fullur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband