Bloggfærslur mánaðarins, mars 2021
Hið góða í manninum
31.3.2021 | 16:35
Hið góða í manninum, hvað er það og hvaðan kemur það? Við þekkjum dæmi um góð verk, eins og þegar björgunarsveitarmaður leggur í leiðangur til að hjálpa fólki í ógöngum, eða þegar sjúkum er hjúkrað og þegar nemanda er kennt að læra vel.
En gerir þetta viðkomandi að góðri manneskju? Gerir þetta viðkomandi kannski bara að góðum björgunarsveitarmanni, góðum heilbrigðisstarfsmanni og góðum kennara?
Er góðmennskan eitthvað dýpra en það sem við gerum? Hvað ef athygli okkar beinist alltaf að hinu góða, við reynum að átta okkur á muni hins góða og hins illa, og stefnum á að gera vel í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur, auk þess að tryggja að það sem við tökum okkur fyrir hendur sé gott?
Það er nefnilega hægt að villast af leið. Sumt getur virst gott án þess að vera það. Dæmi um það er sælgæti og stefna leiðtoga landa sem eru vinsælir en leiða þjóðir sínar í ógöngur.
Hið góða er ekkert endilega trúarlegt hugtak. Enginn á það. Margt getur verið gott. Til dæmis getur verið gott að eiga nóg til að sjá fyrir sjálfum sér og sínum. Annað sem er gott er að geta stundað vinnu og virkjað þannig hæfileika sína. Einnig ef við lítum aðeins inn á við getur verið gott fyrir manneskju að vera skapandi, einlæg, heiðarleg, réttlát, sanngjarna, vitra, heilsteypta og þannig má lengi telja.
En þurfum við ekki að vita hvað hið góða er til að stefna í rétta átt? Er það eitthvað innra með okkur sem þarf að rækta eða kemur það af sjálfu sér? Er það eitthvað sem við fæðumst með?
Kemur hið góða utan eða innan frá? Hefur eitthvað yfirvald í mannlegum heimi höndlað hvað hið góða er? Hvort sem það er í höndum trúarbragða, heimspekinga, stjórnvalda, starfsstétta eða einstaklinga? Eða kemur hið góða kannski innan frá, frá því að hugsa um hvað er gott og ekki gott, og stefna að því sem við ekki aðeins trúum að sé gott, né vitum að sé gott, en erum sífellt að velta fyrir okkur hvernig við getum stefnt á hið góða?
Kemur hið góða kannski frá góðum vilja, hvað svo sem það er?
Mynd: Pixabay
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hverjar eru forsendur þess að geta notið lífsins?
29.3.2021 | 18:19
Þessi spurning er flóknari en virðist við fyrstu sýn og krefst þess kannski að við spyrjum hvað það er að lifa og hvað það er að njóta.
Það að lifa hlýtur að tengjast því að uppfylla grundvallarþarfirnar: að nærast á súrefni, vatni og mat, hafa gott skjól fyrir náttúrunni með fötum og húsnæði, hafa hreint í kringum sig, aðgang að salerni, og kannski sturtu eða baðkeri. Allt þetta stuðlar að heilbrigðu lífi, en þegar við lifum heilbrigðu lífi getum við notið þess, ef heilsan brestur mun mest af athygli okkar beinast að veikleikum. Það er varla gaman. Það að lifa er semsagt heilbrigt líferni, við þurfum að næra okkur vel, halda okkur á hreyfingu, sofa vel og láta streitu ekki fara neitt alltof langt út fyrir þægindarammann.
Að lifa heilbrigðu lífi er semsagt skilyrði fyrir því að njóta. Og það er hægt að njóta ýmislegs í lífinu. Það er hægt að njóta matar og drykkja, en þó þarf að passa sig á að éta og drekka ekki of mikið. Það er hægt að njóta þess að leika sér spila, en aftur þarf að passa sig aðeins á meðalhófinu. Að njóta einhvers til styttri tíma er frekar auðvelt - hægt að skella sér í bíó, hægt að klífa tind, hægt að dansa og syngja nokkur lög; en það að njóta til lengri tíma gæti verið vandasamara, og virðist krefjast þess að við lifum lífinu vel, en það þýðir sjálfsagt ólíka hluti fyrir ólíkar manneskjur.
Væri mikil nautn að geta hámað í sig ís og páskaeggjum viðstöðulaust? Bragðið svo unaðslegt, það gefur einhvern ljóma, eitthvað undursamlegt, einhverja nautn. En svo gerist eitthvað sem við höfum ekkert vald á: Maður fitnar of mikið, fer að upplifa heilsuvandamál sem geta verið tengd hjartanu eða sykurmagninu í blóðinu. Og í ljós kemur að ef maður nýtur ekki íss og páskaeggja í hófi, hefur það afleiðingar sem koma í veg fyrir að maður geti lifað og notið til lengri tíma. Þarna kemur í ljós að of mikil nautn getur komið niður á heilbrigði okkar, og ef við þurfum að hafa áhyggjur af heilbrigði okkar, eins og áður segir, þá fer meiri athygli í að hugsa um heilsuna en að njóta.
Sumir hafa farið flatt á því að sækjast í sæluna sem fylgir vímuefnum, áfengi og sígarettum tímabundið, en til lengri tíma litið er engin sæla í þeirri framtíð. Afleiðingar of mikils af annarlegum efnum kemur niður á heilsunni.
Sams konar freisting birtist þegar kemur að öllu efninu sem hægt er að nálgast á sjónvarpsveitum eins og Netflix, Prime og Disney+, og heldur betur hægt að festast í snappinu, Facebook og tölvuleikjum. Spurningin er hvort að slíkt hafi slæm áhrif á heilsu okkar, sjálfsagt verður slíkur lífsstíll rannsakaður af dýpt. Heyrst hefur að sófinn sé hin nýja sígaretta, eitthvað sem okkur finnst algjörlega sjálfsagður hluti af daglegu lífi og leið til að slaka á að leggjast upp í sófa eða hægindastól, en of mikið af því getur vafalaust verið hættulegt heilsunni. Við vitum það ekkert endilega í dag, en sannleikurinn kemur í ljós með tíð og tíma.
En hvað getum við valið til að lifa og njóta? Þurfum við bara að velja það sem er skynsamlegt og í hófi? Borða grænmeti og ávexti, hæfilegt magn af próteini og kolvetni, forðast sykur og hveiti? Hreyfa okkur reglulega, fara út að ganga, hlaupa eða hjóla, skella okkur í ræktina? Horfa bara á einstaka þætti eða bíómyndir, takmarka tíma okkar á netinu, festa okkur ekki í leikjaheimum?
Eða eru það bara forsendurnar til að geta notið lífsins almennilega? Getum við kannski bara sleppt af okkur beislinu þegar við höfum unnið okkur inn fyrir því með skynsamlegum lífsstíl?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvernig lærum við að gera hlutina betur?
27.3.2021 | 21:13
Við getum lært hvað sem er. Langi þig til að læra eitthvað þarftu bara að hafa áhuga. Áhugann getur þú kveikt langi þig til þess. Besta leiðin er að skoða vandlega það sem þú vilt fá áhuga á, og allt sem gerist í kringum það. Þú getur jafnvel orðið framúrskarandi í næstum hverju sem er. Reyndar hafa þeir forskot sem byrja snemma og halda stöðugt þjálfun áfram, en við höfum þennan einstæða hæfileika að við getum lært.
Ef þig langar að læra að syngja vel, þá þarftu að byrja að syngja, og gera töluvert af því. Langi þig að læra að skauta, skíða, tefla, skrifa, reikna, sama hvað það er, gerðu það og gerðu það oft, þá lærirðu það. Að læra það vel krefst aðeins meira. Það krefst þess að þú æfir þig áfram, en að þú æfir þig að gera nákvæmlega þá hluti sem styrkja þig.
Við trúum því mörg að fólk hafi meðfædda hæfileika, en rannsóknir hafa sýnt að það er ekki raunin, að við lærum það sem við lærum með því að þjálfa okkur, og þjálfa okkur á einbeittan hátt. Ef við einbeitum okkur að þjálfun náum við árangri.
Það hafa flestir heyrt af þeirri hugmynd að æfirðu eitthvað í 10.000 klukkustundir geturðu náð góðum árangri, þú getur lært og höndlað nánast hvað sem er með slíkri þjálfun. Ef þú gerir þetta á eigin spýtur gætirðu alveg náð einhverjum árangri, en sértu þeirrar gæfu njótandi að fá manneskju til að greina þekkingu þína, átta sig á hvað þú þarft að læra til að bæta þig, og hjálpar þér áleiðis með réttum æfingum, þá getur þú náð þessum árangri miklu hraðar. Reyndar er engin trygging fyrir því að 10.000 reglan virki alltaf. Til dæmis ef þú kastar steini upp í loftið 10.000 sinnum þá lærir steinninn ekkert endilega að sigrast á þyngdaraflinu, en ef þér tekst að forðast að fá steininn í höfuðið er ég nokkuð viss um að þú hafir þjálfað ágæta tækni og styrk til að kasta steini upp í loftið.
Ég er einmitt byrjaður að skrifa aftur hérna á bloggið af því að ég vil þjálfa mig í að skrifa. Og til að skrifa betur ætla ég að skrifa meira. En hvernig veit ég hvort að þetta sé rétta þjálfunin til að skrifa nákvæmlega það sem mig langar að skrifa? Ég er ekki viss um svarið, en held áfram að skrifa.
Mynd: Pixabay
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Að rækta eigin garð
26.3.2021 | 22:14
Menntakerfi, trúarbrögð og lög eru gerð til þess að vernda fólk frá hverju öðru og leiða það til þekkingar, visku, gæsku, réttlætis, fegurðar, sköpunar, og fjölda dygða sem birtast okkur á ólíkan hátt í lífinu.
En það eru alltaf einhverjir sem brjóta gegn þessum dyggðugu leiðum, vilja ekki ganga menntaveginn, vilja ekki trúa eins og aðrir, sjá hlutina í öðru ljósi, vilja lifa lífinu á sinn hátt. Aðeins sumir þeirra brjóta gegn öðru fólki, aðrir gera engum mein. Það getur stundum verið erfitt að greina á milli hver er hvað.
Þegar við erum stjórnlaus og áttavillt, förum okkar eigin leiðir, en vitum samt ekkert endilega hvert við viljum fara, þá virðist það tilviljun háð hvort við völdum sjálfum okkur og öðrum skaða.
Ef við höfum góða sjálfstjórn og mörkum okkur átt í lífinu, þá virðumst við eiga auðveldara með að ná góðum árangri í nánast hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur. Það er þannig okkar val hvort við verðum farsæl eða ekki þó að vissulega geti slys, sjúkdómar og hamfarir truflað og jafnvel rústað þessari för okkar.
Við getum lifað dyggðugu lífi eða ekki. Hugsanlega vitum við ekki að þetta val sé til staðar, en engu að síður er það þarna. Sá sem velur að fara ekki leið dygðarinnar mun lifa lífinu eftir tilfinningu og tilviljunarkenndum skoðunum, líf viðkomandi er líklegt til að fara bara eitthvað. Það er í sjálfu sér lítið um það að segja. Það er kannski vont fyrir viðkomandi til lengri tíma, en ekkert óeðlilegt við það.
Svo er það hin leiðin, að mennta sig, vera góð fyrirmynd fyrir aðra, og vísvitandi stefna á hið dyggðuga líf, jafnvel taka trú. Það er líka eðlilegt, því við höfum þennan náttúrulega eiginleika að geta lært, geta treyst, geta hugsað sjálfstætt, geta mótað hvert við viljum fara.
En það að rækta ekki dygðina getur leitt til að það verður auðvelt að blekkja þig með samsæriskenningum og lygum, þú verður kannski trúgjarn á sumt og efast um annað, og byggir þessa trúgirni og þessar efasemdir á tilfinningum frekar en rökum. Það er auðveldara að afvegaleiða þig ef þú veist ekki hvert þú ert að fara. Sá sem ræktar ekki dygðina er líklegur til að vera þrjóskur og standa á sínu gegnum þykkt og þunnt, óháð rökum eða betri hugmyndum. Það er huggun harmi gegn.
Sá sem ræktar dygðina aftur á móti hefur vopn í farteski sínu sem gerir það erfiðara en ekki ómögulegt að láta blekkja sig með lygum og blekkingum, því að sá sem hefur ræktað dygðina, hefur leitað hennar, hefur velt fyrir sér hvernig heimurinn er, hvernig hugtök passa saman, hefur skoðað söguna, kynnt sér eðli heimsins og mannfólksins, hlustar og lærir stöðugt og veit að náminu lýkur aldrei enda höfum við séð að forverar okkar sem höfðu minna af áreiðanlegum upplýsingum heldur en við höfum í dag eru líklegri til að hafa haft rangt fyrir sér þegar þá vantaði þessar upplýsingar. Þó að við vitum meira en forverar okkar eigum við samt langt í land.
Mynd: Pixabay
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dygðir og lestir
25.3.2021 | 22:12
Dygð er heiti yfir siðferðilega góðar athafnir og val, en lestir yfir siðferðilega vafasamar athafnir og val. Það getur verið vandasamt að greina þarna á milli, enda sumir með siðferðiskerfi byggð á kreddum, aðrir á gagnrýnni hugsun og síðan er enn öðrum nákvæmlega sama um þetta allt saman.
Samkvæmt Aristótelesi felst dygðin í meðalhófi, að velja og framkvæma hvorki í óhófi né því að velja og framkvæma alls ekkert, heldur að finna eitthvað á milli þessara tveggja öfga.
Þegar kemur að því að segja satt, þá væri meðalhófið ekki að segja alltaf satt né að segja aldrei satt, heldur átta sig á meðalhófinu, finna hvar það er viðeigandi og hvar ekki. Er til dæmis allt í lagi að ljúga ef það kemur þér pólitískt vel, eða ef það ver hagsmuni annarrar manneskju?
Þegar kemur að ofbeldi, á það sama við. Að ganga stöðugt í skrokk öðru fólki eða beita það andlegu ofbeldi er í sjálfu sér illt, en er það jafn illt að ganga aldrei í skrokk á neinum eða beita andlegu ofbeldi? Hugsanlega er meðalvegurinn hérna að gera slíkt aðeins í sjálfsvörn, og gefa samfélagslegu tæki eins og lögreglu að beita ofbeldi í hófi og samkvæmt bestu dómgreind til að halda uppi lögum og reglu.
Það má finna dæmi sem hafna þessari kenningu um meðalhófið? Til dæmis hvernig væri nokkurn tíma hægt að réttlæta nokkuð eins og nauðgun eða fíkniefnasölu í meðalhófi? Kannski svarið felist í að lögmálið um meðalhóf er ekki undanskilið reglunni sjálfri.
Ýmsir spekingar gegnum aldirnar hafa dygðir, en þær eru of margar til að telja upp í stuttri bloggfærslu. Sem dæmi um dygðir:
- Nægjusemi
- Viska
- Hugrekki
- Sjálfstjórn
- Réttlætiskennd
- Skopskin
- Virðing
Lestir eru hins vegar skuggahliðin á dygðinni, andstæðan sem eyðileggur. Ef við reynum að finna andstæður við dæmin sjö hér að ofan, gætu þau verið þannig:
- Öfgar
- Þrjóska
- Hugleysi
- Stjórnleysi
- Ranglæti
- Neikvæðni
- Vanvirðing
Það gefur auga leið að sá sem lifir eftir dygðum er líklegri til að bæði ná lengra í lífinu og vera hamingjusamari en sá sem lifir eftir löstum. Samt er erfitt að rökstyðja af hverju það er. Sjálfsagt er erfiðara að byggja líf sitt á löstum en dygðum af því að lestir eru í skuggamyndir dygðanna, þeir hafa ekki sams konar sjálfstæði. Til dæmis er ekkert hugleysi án hugmyndar um hugrekki, en hugrekki getur vel verið til staðar án hugleysis.
Ég fyrir mitt leyti reyni að átta mig á hvað er gott eða hjálplegt, og stefni að því að ákvarðanir og vek mín byggi á slíkum dygðum, og geri mitt besta að forðast lestina, þó að vissulega geti þeir stöku sinnum verið freistandi. En þá kemur upp nauðsyn þess að hugsa gagnrýnið og átta sig á meðalhófinu.
Mynd: Pixabay
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvað ættu ríkustu manneskjur veraldar að gera við auð sinn?
23.3.2021 | 21:00
Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvenær maður hefur eignast nóg af hlutum eða peningum? Eru kannski engin takmörk fyrir slíku? Er heilbrigt að eignast allt það sem hægt er að eignast eða eru einhver takmörk fyrir því?
Lítum á menn eins og Jeff Bezos, Elon Musk, Bill Gates og Warren Buffett. Þeir eiga milljarða á milljarða ofan. Jeff Bezos byrjaði með því að selja bækur úr bílskúr, en gætti þess alltaf að þær væru vel pakkaðar inn, kostnaður væri í lágmarki og þjónusta í hámarki. Í dag er þessi verslun, Amazon, komin út um allan heim og stækkar enn. Ástæðan fyrir því að hún hefur stækkað svona gríðarlega er fyrst og fremst að tekist hefur að viðhalda þessum grunngildum, vel innpakkaðar vörur, traust þjónusta og verðið eins lágt og mögulegt er, en nú er ekki bara hægt að kaupa bækur, heldur nánast hvað sem er. Það má ekki gleyma að kaupferlið er gríðarlega traust og einhvern veginn gengur allt upp í viðskiptum við þennan risa. Jeff Bezos hefur selt traust og heimurinn keypt það, og fyrir vikið er hann einn af ríkustu mönnum veraldar. Hvað ætti hann að gera við auðinn sem hann getur ekki notað?
Elon Musk var einn af stofnendum PayPal, sem síðan keypti uppboðsvefinn eBay, og í dag þekkja hann allir sem manninn á bakvið Tesla, rafmagnsbílinn sem hefur sigrað heiminn og jafnvel verið skotið út í geim. Auður hans er tengdur eignum hans í fyrirtækinu, en stundum rjúka hlutabréf þess upp í hæstu hæðir, en stundum falla þau. Einn daginn er hann ríkasti maður heims, og þann næsta á meðal þeirra tíu ríkustu. En þarf hann að verða ríkari? Hvað ætti hann að gera við auðinn sem hann getur ekki notað?
Bill Gates stofnaði Microsoft í bílskúrnum sínum, en hugbúnaður þaðan nær út um allt. Hann á einnig einhver hlutabréf í gamla fyrirtækinu sínu og er vellauðugur, en hann ákvað að hætta störfum hjá Microsoft, og fór þess í stað út í góðgerðarmál. Markmið hans er að útrýma farsóttum og sjúkdómum víða um veröld, sérstaklega þar sem fólk hefur ekki efni á úrræðum. Hann stofnaði ásamt eiginkonu sinni Melindu sjóð til að styðja þessa vinnu. Gates er líka þekktur fyrir að lesa gríðarlega mikið. Það getur verið gaman að fylgjast með meðmælum hans um bækur. Ég hef ekki orðið fyrir vonbrigðum enn. Laun þeirra hafa að einhverju leyti verið vanþakklæti, þar sem samsæriskenningar halda því fram að hann sé að koma örgjörvum eða einhverju slíku í þau lyf sem hann gefur víða um heim. Það er eins og fólk geti ekki trúað að hann vinni góðgerðarmennsku af góðmennsku. Ég get alveg trúað því og hef enga góða ástæðu til að efast um það, hef ekki séð nein sönnunargögn sem styðja samsæriskenningarnar. Það er áhugavert hvað Bill hefur ákveðið að gera með auð sinn, því hann stefnir ekki aðeins að því að græða endalaust og miklu meira, heldur reynir hann að þjóna mannkyninu með því að bæta líf fólks um allan heim.
Warren Buffett hefur lengi verið einn af ríkustu mönnum heims. Hann er góður vinur Bill Gates og hefur veitt fé í sjóð þeirra hjóna. Hann hefur safnað að sér gríðarlegum auð með því að byggja traust viðskiptaveldi, og kaupa hluta af góðum fyrirtækjum eins og Coca Cola og tryggingarfélaginu Geico. Hann er þekktur fyrir að vera strangheiðarlegur og gjafmildur þegar kemur að því að deila eigin þekkingu, hann hefur góðan húmor og eyðir ekki peningum í vitleysu. Hann minnir svolítið á Jóakim aðalönd, karl á níræðisaldri sem fær sér MacDonalds máltíðir því þær eru svo ódýrar, þambar Cherry Coke og étur ís á Dairy Queen, en hann er einn af eigendum þess ágæta fyrirtækis. Auður hans vex stöðugt, en hann tekur aðeins út um hundrað þúsund dollara á ári. Hann ekur um á gömlum bíl en leyfði sér að kaupa einkaþotu til að ferðast milli fylkja í Bandaríkjunum. Hann ákvað fyrir löng síðan að börn hans myndu ekki erfa hann, heldur færu peningarnir í góðgerðarmál eftir hans daga. Honum finnst skemmtilegast að lesa bækur og spila brids.
Það er áhugavert hversu ólíkir þessir milljarðamæringar eru og spennandi að sjá hvað þeir gera við öll þessi auðæfi. Það hlýtur að vera erfið ákvörðun að ákveða hvað verður um slíkan auð, í raun er það gríðarleg ábyrgð. Auður þessara manna vex ennþá stjarnfræðilega á hverju ári á meðan sífellt fleiri lifa undir fátæktarmörkum.
En hvað myndir þú gera ef þú ættir svo mikinn auð að þú gætir í raun ekki á auðveldan hátt fundið leiðir til að eyða honum? Myndirðu halda áfram að safna honum að þér, eða myndirðu reyna á einhvern hátt að bæta lífið á jörðinni?
Ef þú veldir hið síðarnefnda, hvernig færir þú að því?
Mynd: Pixabay
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Sandkornið og alheimurinn
22.3.2021 | 21:44
Þegar ég var barn einhvern tíma á rigningardegi, sat inni í kyrrstæðum bíl og beið eftir móður minni sem hafði farið inn í verslun, hafði ég nægan tíma til að fylgjast með dropum renna niður rúðurnar. Ég man að ég velti fyrir mér hvort það væri mögulegt að sérhver dropi á rúðu væri heimur í sjálfum sér, með stjörnuþokum, plánetum, tæknimenningu og fólki.
Þessi hugmynd hefur birst víða, til dæmis í Men in Black þar sem alheimur var geymdur í marmarakúlu, Horton Hears a Who þar sem lítil pláneta felst í rykkorni, og ljóði William Blake þar sem hann skrifaði um að sjá heiminn í sandkorni, himininn í blómi, óendanleikann í lófanum og eilífðina í klukkustund.
Þetta á líka við í daglegu lífi og hvernig við hugsum.
Þegar við hugsum um einhverja hugmynd, þurfum við að vita allt um hana til að þekkja hana, eða er nóg að íhuga hana af dýpt? Þegar við gagnrýnum kvikmynd, getum við einungis gert það af viti ef við þekkjum allar aðrar kvikmyndir sem tengjast sama efni, eða getur verið nóg að skoða okkar eigin viðbrögð og rannsaka þessar tilfinningar í samhengi við það sem kveikir þær?
Þetta litla eldfjall, sem forsetinn kallaði Litla Hraun, að ganga tíu kílómetra yfir hraun til að nálgast það, snerta nýja jörð sem hefur brotist djúpt úr iðrum jarðar upp á yfirborðið, að hlusta á hljóðin í eldfjallinu, þessum litla risa, finna ylinn frá honum, vera með í þessari nýju fæðingu, það hefur djúpt gildi í sjálfu sér. Sama hvað vísindamenn segja að þetta sé lítið í stóra samhenginu, þá er þetta gríðarlega stórt í litla samhenginu. Það má ekki gleymast að litla samhengið, reynsla hvers og eins, skiptir líka máli.
Þannig er það með hvert einasta val í lífi okkar. Ef við stöldrum aðeins við og virðum það fyrir okkur, valið í sjálfu sér og veltum fyrir okkur hvað það þýðir í litla samhenginu, fyrir líf okkar og augnablikið, reynsluna; öðlast það jafnvel enn meira gildi en ef við hugsunarlaust stökkvum yfir í næsta val og síðan þarnæsta. Það getur verið gott að staldra við og skoða þetta litla. Við þurfum ekki að þekkja allan heiminn, sögu jarðarinnar og mannkynsins, hugmyndir okkar allra, né einu sinni allt sem kemur fram í þeim fræðum eða áhugamálum sem við elskum mest. Hins vegar þurfum við að þekkja rökhugsun, hvað það er að hugsa rétt. Þegar við vitum það getum við beitt hugsuninni að hverju sem er, smáu sem stóru. Gott getur verið að byrja á því smáa.
Bara í skákinni, þessari fallegu íþrótt, þá finnur maður óendanleikann jafnvel áður en maður leikur fyrsta leiknum því að mögulegar leiðir eru óútreiknanlegar. Að velja fyrsta leikinn er örlagaríkt fyrir hvern skákmann, því að eðli hverrar skákar er ólíkt eftir því hver fyrsti leikurinn er og hverjir sitja að tafli, og jafnvel eftir því í hvernig skapi teflendur eru. Síðan getur skákin þróast í gjörólíka átt með hverjum leik og erfitt getur verið að ná tökum á öllum þessum mögulegu leiðum. Besta leiðin til að læra byrjanir er að skoða skákir sem hafa verið tefldar af sterkum meisturum og reyna að átta sig á ástæðunni bakvið hvern einasta leik, hver tilgangurinn var í viðkomandi stöðu, hvernig hann bætti stöðuna, svo framarlega sem að leikurinn var yfir höfuð góður. En maður lærir kannski meira af að skoða og skilja einn leik heldur en eina skák, margar skákir eða jafnvel allar skákir í viðkomandi byrjun.
Þegar ég skoða heimspekilegar hugmyndir finnst mér gott að tengja hugtök við reynslu, átta mig á hvernig hugtökin tengjast ákveðnum orðum, hvernig þau eru notuð í daglegu lífi og hvernig þau tengjast öðrum hugtökum. Þetta verður oftast til þess að skilningur minn um hugtökin dýpka að einhverju leyti, og þá út frá huganslega aðeins einu sjónarhorni. Síðan við breyttar aðstæður gæti þessi skilningur verið viðeigandi, eða ekki. Fullkominn skilningur eða þekking er ekki innan seilingar, heldur leyfir maður sér aðeins að dýfa hendinni í læk þekkingarinnar og taka einn eða tvo sopa. Þessir sopar, einn í einu, getur gefið okkur næringu, nýjar hugmyndir sem geta leitt okkur á nýjar og ókunnugar slóðir.
Mynd: Pixabay
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gætum við hannað betra stjórnkerfi yfir landinu?
19.3.2021 | 23:21
Sumar þjóðir velja sér leiðtoga og sumir erfa völdin. Sumir ryðjast til valda og aðrir komast til þeirra eftir langa hugsjónabaráttu. Hvernig svo sem farið er að þá virðumst við sætta okkur frekar við að einhverjir ráði sama hversu vel eða illa þeir gera það heldur en að enginn ráði.
Það að enginn ráði er aðeins fjarstæðukennd hugmynd. Ef hún yrði eitt augnablik að veruleika myndast strax holrúm sem þarf að fylla. Það virðist aldrei vanta fólk sem vill fylla slík holrúm. Hvernig það er fyllt virðist vera aukaatriði sem og hversu góður stjórnandinn verður. Það virðist ekki einu sinni skipta máli hvaða leikreglur eru til staðar, hvort að viðkomandi nær völdum með svindlum eða prettum, morðum eða svikum, erfi völdin eða vinni þær í kosningum.
Að vinna völdin í kosningum, lýðræðislega leiðin, er sú leið sem við höldum helst á lofti, að minnsta kosti á þessum slóðum, norðarlega í Evrópu, ekki vegna þess að hún er lýðræðið er frábært og fullkomið, heldur vegna þess að það er skárra en allar hinar eins og Winston Churchill hafði á orði.
Fólkið sem ræður, fólkið sem heldur örlögum okkar hinna í hendi sér, þetta fólk er mannlegt eins og allir aðrir en ólíkt öllum öðrum sem fylgja einni ákveðinni leið, settum lögum og reglum, stendur þetta fólk fyrir þeim veruleika að vera á krossgötum hvert sem það lítur, og þarf sífellt að taka ákvarðanir eða sleppa því. Sleppi það að taka ákvarðanir, þó að það gæti verið skynsamlegasta og besta leiðin í stöðunni, eru viðkomandi líklegir til að tapa fylgi. Að gera eitthvað lítur nefnilega út fyrir að vera betra en að vera kyrr, hvort sem það er betra eða ekki.
Í lýðræðisríki neyðast stjórnmálamenn yfirleitt til að taka ákvarðanir í samræmi við stefnu eigin flokks, hóps sem kemst til valda vegna ákveðinna hugmynda sem stjórnmálaflokkurinn vill berjast fyrir. Þetta getur auðveldað leiðtogum vinnuna, en stundum gleymist að fyrirfram ákveðnar hugmyndir eru ekkert endilega þær bestu. Að vera í forystu fyrir stjórnmálaflokk virðist vera líkt því að vera þrjósk manneskja sem einhvern tíma tók ákvörðun og finnst hún neydd til að fylgja henni sama hvað á dynur allt sitt líf. Þetta er bæði styrkleiki og veikleiki. Styrkleiki að því leiti að manneskjan veit alltaf hvert hún er að stefna, en veikleiki að því leyti að kannski er hún á leiðinni fram af klettum.
Það þyrfti að vera til staðar stjórnmálaflokkur sem þjálfar fólk sitt til að vera í þessari stöðu, mikilli óvissu, og beita gagnrýnni hugsun til að finna góðar leiðir út frá þeim aðstæðum sem eru í gangi og með ráðum bestu fagmanna.
Þegar við tölum um fagfólk verður mér strax hugsað til þríeykisins sem hefur leitt þjóðina gegnum COVID-19 á mjög áhrifaríkan hátt. Sumum finnst það hafa ráðið of miklu, aðrir eru sáttir. Sóttvarnir hafa verið vel kynntar, faraldrinum hefur verið haldið niðri og þessir fulltrúar vísindanna hafa staðið sig gríðarlega vel að mínu mati.
Ég velti fyrir mér hvernig það væri ef fagfólk fengi að byggja umgjörð fyrir hvernig ákvarðanir í heilbrigðismálum eru teknar, ef kosnum stjórnmálamönnum væri kippt út úr myndinni, og að nútíma stjórnmálamaður yrði í raun valdalaus, en ekki áhrifalaus, svipað og konungar á vesturlöndum og forsetinn á Íslandi. Hvað ef stjórnmálamenn væru bara diplómatar sem þjónuðu fagmönnum sem eru þeir fremstu í sínu fagi?
Ef það skiptir litlu máli hverjir fara með völdin í hverju landi og sérstaklega þegar leiðir að völdum eru orðin það klíkukennd og spillt að frændsemi og vinátta ráða mestu um hverjir komast til valda, af hverju ekki að hleypa helstu afreksmönnum að, og þá jafnvel hafa kosningar meðal þeirra á reglulegum fresti, til að halda þessu lýðræðislegu og gefa þjóðinni tækifæri til að hafa rangt fyrir sér öðru hverju?
Þá gæti til dæmis aðeins læknir, hjúkrunarfræðingur eða manneskja menntuð í heilbrigðismálum orðið heilbrigðisráðherra, kennari boðið sig fram sem menntamálaráðherra, lögspekingur orðið dómsmálaráðherra, og svo framvegis. Þingmenn gætu verið valdir af almenningi í almennum kosningum og með tækninni sem til er í dag mætti hafa þessar kosningar persónulegar frekar en flokksbundnar og viðkomandi manneskjur bundnar til að standa við sín kosningaloforð sem yrðu þá ekki að vera fleiri en þrjú á mann. Ég hef ekki útfært þessa pælingu af nákvæmni en af hverju ekki að bæta stjórnskipan í landinu, rétt eins og við bætum stöðugt allt annað, ferla í fyrirtækjum, tölvur og tækni, lífsstaðalinn?
Ég væri að minnsta kosti mun sáttari við að fylgja ákvörðunum fólks sem hefur eitthvað vit á hlutunum og sem hefur komist til valda vegna viðeigandi faglegrar hæfni, ekki bara vegna vinsælda og pólitískrar kænsku. Þessi leið gæti þó engan veginn verið fullkomin frekar en lýðræðið sjálft og það kæmi sjálfsagt á endanum í ljós fyrr eða síðar af ýmsum ófyrirsjáanlegum ástæðum.
Það er gaman að velta svona fyrir sér, en ég er í sjálfu sér feginn að vera ekki í slíkri ákvörðunarstöðu að taka svona ákvörðun. Það myndi sjálfsagt velta á útfærslu hennar hversu vel hún gengi upp, og hversu vel hún væri varin gegn mögulegum spillingaröflum, sem virðast spretta upp alls staðar þar sem tekist er á um völd. Það væri nauðsynlegt að fá heilsteyptar persónur til slíkra valda, en það er alls ekki víst að þau langi í slíkar stöður.
Mynd: Pixabay
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Aðrar manneskjur og við
17.3.2021 | 20:57
Hugsaðu þér fræga manneskju. Gerðu hana þér í hugarlund. Það má vera hver sem er. Þú hefur kannski lesið og heyrt ýmislegt um hana en þekkirðu hana í raun og veru? Þekkirðu eitthvað annað en endurspeglun hennar, hvað hún virðist vera? Þekkirðu dýpt hennar, hvernig hún er djúp eins og þú, hvernig hún er einstök eins og þú, hvernig hún hugsar og talar eins og þú, bara með öðruvísi áherslum? Hefur Þú velt fyrir þér hvernig það væri ef hugur þinn flakkaði yfir í þessa manneskju? Hvað myndir þú þá sjá? Myndir Þú sjá hana fyrir þér í ólíku ljósi? Myndir þú þekkja hana á annan hátt? Myndi hún þekkja þig?
Hugsaðu þér sigurvegara í íþróttum, einhvern sem sigrast á öllum sínum andstæðingum og stendur uppi sem sá besti í lok tímabilsins. Það má vera hver sem er. Er slíkur sigur eitthvað á við þann sigur sem við hvert og eitt getum unnið með því að sigrast á sjálfum okkur? Hefur sigurvegarinn í íþróttum sigrast bæði á andstæðingum sínum og sjálfum sér? Þýðir það að sigrast á sjálfum sér að geta stjórnað eigin hegðun? Sumir eiga erfitt með að forðast ákveðna drykki, ólyfjan eða sælgæti og eiga jafnvel erfitt með að koma sér út að ganga, hlaupa eða hjóla, en takist það hefur viðkomandi unnið sigur á sjálfum sér. Slíkur sigur er ekki fjarlægur, hann snýst um að við þekkjum okkur sjálf, lærum að stýra hegðun okkar og venja okkur á hegðun sem við viljum fylgja.
Við erum þrælar eigin hegðunar. Við getum samt valið hvað við ætlum að gera og getum þjálfað okkur til að framkvæma nýja hluti. Við getum þannig valið nýja hegðun til að þjóna. Þetta krefst þess að við öflum okkur þekkingar og tökum góðar ákvarðanir. Það erfiðasta er að fylgja þessum ákvörðunum eftir í framkvæmd þar til þær eru orðnar að vana sem síðan stjórna okkar hegðun.
Mörg okkar hafa lifað í veruleika þar sem við leggjum mikið á okkur, vinnum kannski fleira en eitt starf og jafnvel fleiri en tvö. Fyrir vinnuna fáum við félagsskap, lærum nýja hluti og eignumst pening. Það er samt ekki alltaf að við áttum okkur á að við erum félagar, erum menntuð, og erum rík, óháð vinafjölda, prófskírteinum og auði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hamingjan, best af öllu sköpunarverkinu?
16.3.2021 | 22:15
Hamingja er ekki það sama og stundargleði eða ánægja, hún er dómur um hvernig við höfum það almennt í lífinu. Við sjáum fyrir okkur manneskju sem er yfirleitt ánægð með lífið og tilveruna, það virðist stundum geisla af henni, hún hefur jákvæð áhrif á aðrar manneskjur og virðist hafa góða stjórn á eigin lífi. Hinn ólánsami á hins vegar nóg með sjálfan sig, getur ekki hjálpað sjálfum sér, hvað þá öðrum, og stundum virðast þrumuský fylgja þeim hvert sem þeir fara.
Hamingja er samt ekkert endanlegt ástand. Manneskja sem hefur upplifað hamingjuna og verið í þannig ástandi lengi, getur upplifað atburði sem breyta viðhorfi hennar til lífsins, og hún getur misst stjórn á eigin farsæld, til dæmis með fíkn eða slæmum ávana. Ólánsama manneskjan getur snúið við blaði sínu með því að uppræta ósiði og taka stjórn á eigin lífi.
Hamingjan er ekki skrifuð í skýin eða þræði örlaganornanna, heldur er hún eitthvað sem við ræktum sjálf, með því að hlúa að okkar eigin lífi og annarra á farsælan hátt. Ýmsar siðfræðikenningar hafa ólíka sýn á hamingjuna og hvaða hlutverk hún ætti að gegna í lífi okkar.
Sumir telja að við öðlumst hamingju með því að uppfylla skyldur okkar, gera það sem við eigum að gera, en til þess þurfum við að átta okkur á hverjar þessar skyldur eru og við hvað er best að miða þær. Þó að þýskir hermenn í heimstyrjöldinni síðari sinntu skyldum sínum gagnvart eigin ríki, þá voru þær í mótsögn við æðri skyldur, skyldur sem eru meðfæddar sérhverri manneskju, skyldum gagnvart mannkyninu sjálfu. Spurningin verður þá hvort að uppfylling á skyldum okkar gagnvart mannkyninu gefi okkur hamingju.
Flest viljum við finna hamingjuna. Sumir virðast finna hana auðveldlega, aðrir með erfiðleikum eða alls ekki. Stundum er eins og sumir séu í eðli sínu hamingjusamir, en aðrir ganga gegnum lífið án hennar.
John Stuart Mill minntist á að hamingjan felst ekki í að leita hennar, heldur einbeita sér að einhverju öðru, til dæmis að bæta mannkynið, gleðja annað fólk, stunda listir eða stefna á eitthvað markmið.
Kannski erum við líklegri til að finna hamingjuna þegar við leitum hennar ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)