Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Eru vísindalegar sannanir mögulegar?

Þegar ég heyri frasann að eitthvað sem erfitt getur verið að útskýra hafi verið vísindalega sannað og sé þar af leiðandi sannleikur, vakna strax sterkar efasemdir. Ég vil taka fram að ég geri greinarmun á sönnunum sem framkvæmdar eru með vísindalegum vinnubrögðum, en þær eru án nokkurs vafa möguleg, enda er slíkar sannanir einfaldar í eðli sínu, hlutlægar og hægt að sannreyna þær með endurtekningu á tilraunum. "Vísindalegar sannanir" er hins vegar stærra hugtak, og á við þegar verið er að byggja kenningar og hugmyndafræði á sönnunum vísinda, þegar verið er að skapa nýja heimsmynd út frá þekktum staðreyndum.

Ég held að slíkar vangaveltur séu á sömu nótum og trúarbrögð, verið er að búa til sögur sem sannfæra nútímamann hvers tíma um hvernig heimurinn er í raun og veru, og af hverju hann er eins og hann er. Um leið og reynt er að gera heiminn skiljanlegri með flóknum vísindalegum kenningum, fjarlægjumst við veruleikann. Ekki misskilja mig, ég hef mjög gaman af flóknum vísindalegum kenningum, rétt eins og mér finnst goðsögur afar áhugaverður þáttur í mannlegri tilveru, en þegar rannsóknir eru farnar að fjalla um "hjónabandsgen" eða það að alheimurinn þenjist út eins og blaðra, þá erum við komin aðeins út fyrir umráð vísindalegra vinnubragða.

Ég held að vísindalegar sannanir séu ekki mögulegar frekar en kringlóttir þríhyrningar eða giftir piparsveinar. Þetta eru tvö hugtök úr sínum hvorum fræðiheiminum, vísindin úr heimi reynslu og skynjunar sem nota á síðari stigum rökhugsun og stærðfræði, og hins vegar sannanir úr heimi formlegrar rökfræði og stærðfræði, sem hafa ekkert endilega neitt við heim skynjunar að gera.

Það er hægt að sanna afleiður og aðleiður hafirðu fyrirfram gefnar forsendur. Formleg rökfræði og stærðfræði gefa sér slíkar forsendur og út frá þeim tekst að sanna ýmislegt. Hins vegar geta vísindin ekki gefið sér slíkar forsendur, án vafa. Vísindin skapa kenningar um allt milli himins og jarðar, og byggja þessar kenningar á því sem við getum skynjað. Finnist samsvörun á milli þess sem við skynjum og veruleikans sem við reynum að greina, og takist okkur að finna óskeikul lögmál, þá er afar freistandi að tala um lögmálið sem eitthvað satt um heiminn, jafnvel sannleika.

Þó að við teljum lögmálin eiga við alltaf og alls staðar, er sá möguleiki þrátt fyrir allt til staðar að einhvern tíma eða einhvers staðar eigi lögmálið ekki við, og sé þar af leiðandi ekki það lögmáli sem við héldum að það væri.

Hugtakið "vísindaleg sönnun" er trúarlegt hugtak frekar en vísindalegt. Þeir sem nota það, skilja sjálfsagt ekki fyllilega það viðhorf til vísinda sem vísindamenn þurfa að temja sér. Vísindamenn átta sig á að rannsóknir þeirra eiga við um afmarkaðan hluta af veröldinni og skilja að sönnun hljóti að vera eitthvað afar einfalt samband þess sem við getum skynjað og einhvers sem gerist. Við reynum að skilja fyrirbærið með kenningum. Gerum huglægt það sem áður var tómt efni. Þegar um flóknari kenningar er að ræða, þá leiðumst við út í heim möguleika og frumspeki - þar sem trú, þekking og hugsunarháttur eiga á hættu að blandast saman í eina stóra kenningu.

Slíkar pælingar geta verið gagnlegar og þroskandi. En það má aldrei loka vísindalegum kenningum algjörlega. Það þarf sífellt að gefa efasemdum svigrúm, því eitthvað í rannsókninni gæti hafa klikkað, sama þó að hún hafi verið sannreynd þúsund sinnum. Venjulegri manneskju þykir sjálfsagt eðlilegra og auðveldara að trúa heldur en efast, og því verða vísindalegar sannanir að nýjum trúarbrögðum fyrir fjölda fólks, en kjarni þeirrar trúar er að trúa ekki á neitt yfirnáttúrulegt, aðeins á það sem vísindin og vísindamenn hafa sýnt fram á að sé satt. 

Hvað ef ég segði þér að kenningar um svarthol séu yfirnáttúrulegar? Það eru jú engin sambærileg fyrirbæri til í mannlegri reynslu, og svarthol eru aðeins útskýring á fyrirbæri í geimnum, sem gæti sjálfsagt átt sér fleiri hugsanlegar skýringar. Til dæmis gæti þetta sem við köllum svarthol, og eru ósýnileg, verið eins og mannshjartað, einhvers konar vel sem tekur í gegnum sig blóð og vinnur úr því súrefni til að halda starfsemi áfram. Hvað ef okkar sjónarhorn er svo takmarkað að við rétt greinum hluta úr einum slíkum hjartslætti?

Margt getur verið til í slíkum kenningum, og þær hafa án nokkurs vafa bæði skemmtigildi og fræðslugildi, en þær svara ekki ráðgátum lífsins, alheimsins og alls, nema að litlu leyti og um stundarsakir - fyrir þær manneskjur sem lifa á jörðinni á hverri stundu fyrir sig. Hversu mikið af "vísindalegum sönnunum" árið 2010 verða orðnar úreltar árið 2040? Sjálfsagt álíka margar og þær "vísindalegu sannanir" sem þóttu meðtækilegar árið 1980 en eru það ekki lengur í dag.

Þessi eilífðarleit hefur mikið gildi, því smám saman tekst okkur með aðstoð vísindanna að finna hvaða kenningar ganga ekki alveg upp og væntanlega af hverju þær gera það ekki, og þannig komumst við hugsanlega nær einhverju skýrara svari við stóru spurningunum og náum sífellt að móta okkur traustari heimsmynd, þó að við eigum enn langt í land.

Það er ekkert meira freistandi en að telja eigin heimsmynd vera þá einu réttu, einfaldlega vegna þess að hún gengur fullkomlega upp, og er til fólk sem gerir allt sem það getur til að hamra á því að þeirra heimsmynd sé sú eina rétta. Það er trúarleg hegðun.

Að lokum langar mig að þýða nokkrar ágætar tilvitnanir úr ritum vísindaheimspekingsins Karl Popper, en hugmyndir hans hafa mér lengi þótt ágætis ljós í myrkrinu.

 

Karl Popper, 1902-1994

Engin endanleg afsönnun á kenningu er möguleg; því það er alltaf hægt að segja að niðurstöðurnar séu ekki áreiðanlegar eða að ósamræmi sem fullyrt er að séu til staðar á milli niðurstaðna og kenningarinnar séu aðeins á yfirborðinu og að það muni hverfa með frekari þróun skilnings okkar. Krefjist þú strangrar sönnunar (eða strangrar afsönnunar) í vísindum, munt þú aldrei græða neitt á reynslu, og aldrei læra hversu rangt þú hefur fyrir þér.

---

Svo framarlega sem að vísindaleg kenning segir frá veruleikanum, verður að vera hægt að afsanna hana: og svo framarlega sem hún er ekki afsannanleg, segir hún ekkert um veruleikann. 

---

Vísindi hvíla ekki á traustum kletti. Miklar byggingar vísindalegra kenninga rísa, eins og þær væru, yfir mýri. Vísindi eru eins og bygging sem reist er á haug. Haugurinn sekkur að ofan inn í mýrina, en ekki niður á einhvern náttúrulegan eða "gefinn" grunn; og þegar við hættum tilraunum okkar við að sökkva haugnum niður í dýpri lög, er það ekki vegna þess að við höfum fundið traustan grunn. Við hættum einfaldlega þegar við teljum grunninn nógu traustan til að viðhalda byggingunni, að minnsta kosti um sinn.

 ---

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú, gagnrýna hugsun og vísindi:


Eru hvorki trúarbrögð né trúleysi til?

Ég hef haldið því fram að skilgreining margra þeirra sem kenna sig við guðleysi, trúleysi eða vantrú (alls ekki allir) skilgreini trúarbrögð of þröngt, enda séu trúrarbrögðin samtvinnuð í mannlega tilveru og óaðskiljanleg okkur bæði sem einstaklingum og félagsverum, og þá sérstaklega sem félagsverum.

Hugtakið "trúarbrögð" er eins og hugtakið "hundur" að því leiti að það á við um eitthvað sem er í raun og veru ekki til annars staðar en í huga okkar. "Hundur" er nefnilega ekki til. "Hundur" er ekki áþreifanleg vera, enda er "hundur" aðeins hugtak sem er yfir öðrum hugtökum, eins og "Collie", "Labrador", og svo framvegis, sem einnig eru hugtök notuð til að lýsa flokki lífvera, en raunverulegur hundur birtist ekki fyrr en við höfum hund af holdi og blóði hjá okkur, veru sem slefar og geltir og pissar út í horn sé honum ekki kennt annað. 

Við getum sagt um einhverja veru að hún tilheyri flokknum "hundur" en við getum ekki sagt að "hundur" sé til. Á sama hátt getum við sagt um eitthvað fyrirbæri að það tilheyri flokknum "trúarbrögð", en það þýðir ekki að fyrirbærið "trúarbrögð" sé til.

Hér er stuttur texti sem veitt hefur mér innblástur, löngu áður en ég rakst á hina stuðandi grein Dr. Mabry í Philosophy Now.

Flestar bækur um trúarbragðaheimspeki hefjast á tilraunum til að skilgreina af nákvæmni hver kjarni trúarbragða er... Sú staðreynd að þær eru jafn margar og svo ólíkar hverri annarri er nóg til að sanna að orðið "trúarbrögð" getur ekki merkt eitthvað eitt lögmál eða einn kjarna, heldur er heiti yfir samansafn fyrirbæra. Hugur í leit að kenningum hefur stöðugt tilhneigingu til að einfalda um of viðfangsefni sín. Þetta er rót allra hugmynda um algjörleika og einhliða kenningar um viðfangsefni okkar. Viðurkennum frekar í upphafi af fúsum og frjálsum vilja að við munum afar líklega ekki finna neinn kjarna, heldur marga eiginleika sem geta á ólíkan hátt verið jafn mikilvægir í ólíkum trúarbrögðum. (William James, 1842-1910)

Trúleysi, guðleysi og vantrú eru hluti af tilraunum fólks til að átta sig á heiminum út frá forsendum sem eru þeim ásættanlegar, hvort sem það þýðir að grundvöllur lífsskoðunar þeirra felist í sönnunargögnum, staðreyndum, vísindalegum kenningum, eða jafnvel engu eða einhverju öðru. Ég vil halda því fram að öll viðleitni til að koma reiðu á heiminn sé trúarlegs eðlis; og að trúleysi sé ekki aðskilið frá trúarbrögðum nema viðkomandi hafi enga hugmynd um hið gildi. 

Þannig held ég að bæði sumir sem kenna sig við trúleysi og sumir sem kenna sig við trúarbrögð séu alls ekki trúaðir, samkvæmt þessari víðu skilgreiningu á trúarbrögðum, það er að segja hafi þetta fólk ekki hugmynd um nein gildi og reyni ekki að nálgast gildi í öllum sínum verkum.

Ég á erfitt með að trúa því að til sé manneskja í þessum heimi sem lifir án gildismats.

 

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú og gagnrýna hugsun:


Af hverju óttast bæði trúaðir og trúleysingar að tapa sannfæringu sinni?

Ef hugsun á að verða eign margra, ekki forréttindi fárra, verðum við að losa okkur við ótta. Það er ótti sem heldur mönnum aftur - ótti við að eigin trú reynist blekking, ótti við að stofnanir sem þeir styrkja reynist skaðlegar, ótti við að þeir sjálfir reynist síður verðugir virðingar en þeir hafa fyrirfram talið sig vera. (Bertrand Russell 1872-1970 (Principles of Social Reconstruction))

Nokkuð sem ég hef greint í athugasemdum við síðustu færslum mínum er ótti, eins og fátt sé skelfilegra en að tapa eigin sannfæringu, að sjá að maður hafði rangt fyrir sér í mikilvægum málum og þurfi þar af leiðandi að endurhugsa eigin afstöðu til lífsins.

Þetta er eitt af því sem gerir heimspeki svo spennandi. Uppgötvun á því að við gætum hugsað betur um ákveðin grundvallaratriði getur kollsteypt okkar fyrri heimsmynd og krafist þess að við endurskoðum málið frá grunni. Það er mikilvægt að fólk skilgreini sig ekki útfrá lífsskoðunum sínum, hvort sem það er til trúar eða vantrúar, heldur gefi sér svigrúm til að vera það sjálft og meta, og síðan endurmeta þessar lífsskoðanir. Þegar maður hefur ekki nógu miklar upplýsingar eða hefur ekki velt málinu fyrir sér af nógu mikilli dýpt, þá getur verið betra að bíða aðeins með að taka afstöðu.

Það er reyndar afstaða í sjálfu sér að fresta afstöðunni, en þá afstöðu vil ég kenna við gagnrýna hugsun. Ég hef ekki mikið gert af því að tjá grundvallarskoðanir mínar hér á þessu bloggi, en hef bæði verið álitinn trúaður og trúlaus, og skiptir það mig í sjálfu sér engu máli hvorum flokkinum fólki finnst ég tilheyri. Hins vegar þegar kemur að gagnrýnni hugsun, þá er hægt að flokka mig sem einstakling sem gerir allt mögulegt til að skilja betur gagnrýna hugsun og til að dreifa boðskap hennar.

Heimspekingar, vísindamenn, sálfræðingar, námsfræðingar og aðrir hugsuðir hafa reynt að negla niður skilgreiningu á gagnrýnni hugsun, en það hefur reynst erfit, enda er hún margþætt og í fljótu bragði telur maður sig vita hvað gagnrýnin hugsun er og hvernig henni skuli beita, en eftir stutta og opna rannsókn kemur fljótt í ljós að hún hefur margvíslega eiginlega sem maður gerði ekkert endilega fyrirfram ráð fyrir.

Það að gagnrýnin hugsun þurfi að vera skapandi til að virka og að hún þurfi á umhyggju að halda til að leiða til góðs, er nokkuð sem manni dettur ekki í hug við fyrstu sýn. Að gagnrýnin hugsun krefjist auðmýktar þeirra sem ástunda hana og gífurlegrar þjálfunar á hlustun og rökhugsun, og einnig gagnrýni á hvernig hlustun og rökhugsun virka, liggur ekki alltaf á yfirborðinu. Eitt öflugasta einkenni gagnrýnnar hugsunar er einmitt að hún gagnrýnir gagnrýna hugsun, hún gagnrýnir bæði inn á við og út á við, og sá sem ástundar hana verður strax ríkari enda býr viðkomandi við stærri heim og margbreytilegri fljótlega eftir að hann hefur farið að beita hinni gagnrýnni hugsun á sjálfan sig.

Gagnrýnin hugsun er þannig eins og sjónvarpstæki með endalausar sjónvarpsstöðvar, nema að græjan er ókeypis og alls ekki sjálfsagt mál að skipta um stöðvar án smá áreynslu.

Ekkert er mikilvægara fyrir lýðræðisþjófélag en að þegnar séu gagnrýnir í hugsun, geti tekið vel mótaðar ákvarðanir og taki þátt í umræðunni. Þess vegna þykir mér sorglegt að sjá á sjálfu Alþingi hvernig starfsmenn þar sýna stöðugt skort á gagnrýnni hugsun í verki, skipta sér frekar í lið um málefni en að ræða grundvallaratriði þeirra. Þess vegna þykir mér sorglegt að gagnrýnin hugsun skuli ekki kennd í íslensku skólakerfi, að hún þyki ekki mikilvæg fyrr en komið er á háskólastig. 

Hið rétta er að gagnrýnin hugsun á heima í hugum okkar frá blautu barnsbeini. Börn byrja snemma að spyrja gagnrýnna spurninga, en oft er þeim svarað með þeim tilgangi að slökkva í spurningunni og frekari spurningum, heldur en að halda loganum lifandi. Gagnrýnin hugsun reynir að halda þessum loga lifandi og hefur í margar aldir barist við það undir ýmsum nöfnum.

Gagnrýnin hugsun á sér þó heimili, skjól þar sem hún fer huldu höfði fyrir ofsóknum heimsins, en það er í háskólum, og þá einatt í heimspeki. Heimspeki og gagnrýnin hugsun eru nánast sama fyrirbærið, með einnig undantekningu. Heimspeki er fræðilegi hlutinn í að átta sig á veröldinni, en gagnrýnin hugsun er verklegi þátturinn.

Höfum við eitthvað að óttast? Er gagnrýnin hugsun afl sem getur sameinað fólk eða sundrað? 

Gagnrýnin hugsun getur sundrað hugmyndum og áætlunum sem eru samansett af lygum, eiginhagsmunum og blekkingum, og geti aðeins sameinað fólk þegar unnið er af heilindum. Það er dapurlegt að stjórnmál á Íslandi skuli vinna án gagnrýnnar hugsunar, og að einungis fáir stjórnmálamenn á Íslandi skuli vera svo heilsteyptir að þeir geti beitt henni skammarlaust. Það er því miður hægt að telja þessa einstaklinga á annarri hendi, og mega þeir sín lítils gegn miklum fjölda þeirra sem skipa sér hugsunarlítið í lið, ákvarða eigin skoðanir fyrir lífstíð og líta aldrei til baka.

Við getum komið okkur upp úr þeim skítugu hjólförum og þykku leðju sem sjálfsblekkingin er, og það með gagnrýnni hugsun, en það er erfitt að innleiða gagnrýna hugsun með fólki sem þegar hefur tekið sína afstöðu á móti henni. Blogg og Internetið hefur gefið gagnrýnni hugsun byr undir báða vængi undanfarið, en það getur verið skammgóður vermir. Fjölmiðlar ættu að varðveita gagnrýna hugsun, en virðast of uppteknir af hagsmunavörnum til að sinna þeirri skyldu sinni.

Og á Íslandi er í skólum því miður aðeins kennd þrjú R, á meðan flest lönd eru farin að átta sig á mikilvægi hins fjórða R: rökhugsunar. Rökhugsun er ekki það sama og reikningur (eða stærðfræð).

Hin fjögur er R, eða undirstaða alls náms, eru annars:

  1. Reading (Lestur - þekking inn)
  2. Writing (Ritun - þekking út)
  3. Arrithmetic (Reikningur og rökhugsun - vinnsla hugmynda)
  4. Critical Thinking (Gagnrýnin hugsun - þjálfun dómgreindar)

Svar mitt við spurningu greinarinnar er að þeir sem telja sig hafa eitthvað, óttast að missa það sem þeir hafa. Þeir sem hafa hins vegar ekki sambærileg fyrirbæri, vita hins vegar að þeir hafa ekkert að óttast.

Hvort ætli sé veigameira þegar á heildina er litið: að maður hafi tök á gagnrýnni hugsun eða sterka skoðun á hvort eitthvað sé til eða ekki?

Gagnrýnin hugsun er öllum aðgengileg. Ágætis vettvangur til að þjálfa hana er að skrifa athugasemdir við þessa grein. Það kostar ekkert. Þó að hún kosti ekkert er gagnrýnin hugsun mikils virði, rétt eins og mörg önnur gildi sem miklu skipta - þau kosta okkur í raun ekkert en ef við kunnum ekki að meta þau, þá verða þau okkur einskis virði og við glötum þeim án þess að átta okkur á þeim verðmætum sem við höfðum.

Þér er velkomið að taka þátt með að skrifa athugasemd(ir).

Fyrri færslur og fjörugar umræður um guðleysi, trú og gagnrýna hugsun:


Af hverju pirrar gagnrýnin hugsun um trú þá sem engu þykjast trúa?

Felist undirstöður hugsunar í tjáningu okkar, þá biggja samræður okkar á fjórum undirstöðum sem nauðsynlegar eru til að móta setningu, og jafnvel hugsun, á hvaða tungumáli sem er.

  • Fyrsti liður: vísun
  • Annar liður: tenging
  • Þriðji liður: eiginleiki
  • Fjórði liður túlkun

 Tökum dæmi. Í setningunni "Glasið er fullt" birtast þessar fjórar undirstöður á eftirfarandi hátt:

  • Vísað er í "glas".
  • "Er" tengir glasið við einhvern eiginleika.
  • "Fullt" er eiginleiki glassins.

Setningin er síðan túlkuð, bæði af þeim sem tjáir hana og af öllum sem taka við henni. Í þessu tilfelli virðist lítið pláss fyrir útúrsnúninga, en samt eru þeir til staðar. Fyrst er hægt að spyrja hvaða glas þetta sé eiginlega, þar sem þú lesandi góður sérð það væntanlega ekki og getur með fullum rétti efast um það að þetta glas sé yfir höfuð til staðar. En ég fullyrði það, að þetta glas standi á skrifborði mínu við hlið fartölvu minnar, og er fullt. Bíddu, ætla að fá mér sopa. 

Heyrðu, þetta er ónýtt dæmi. Glasið er ekki lengur fullt. Trúirðu mér?

Nú hafa allt einu bæst tvö orð inn í setninguna: "ekki lengur". Þýðir það að eiginileika hlutar á einu augnabliki geti verið allt annar á öðru augnabliki, að breytileikinn sjálfur geti skapað mótsagnir þegar tími og aðstæður eru ekki tekin í reikninginn þegar verið er að rökræða hlutina?

Ef fullyrðing mín um að glasið sé fullt sé sönn eina stundina og síðan ósönn þá næstu, vegna þess að glasið er háð tíma og rúmi, eru til einhver hugtök sem eru það almenn að þau tilheyra ekki aðstæðum á neinn hátt, hugtök þar sem fullyrðingar um eiginleikar þeirra eru alltaf sannar, sama hver túlkar?

Ég fullyrði til dæmis að þegar hugmyndin um hið góða sé persónugerð þá sjáum við strax fyrir okkur á afar auðveldan hátt veru sem líkist okkur og við getum kallað Guð. Það þýðir ekki að rétt sé að persónugera hið góða á þennan hátt, en tilhneigingin er til staðar, og þegar sterk tilhneiging er til staðar verður að halda aftur af henni með öllum tiltækum ráðum. En mannlegar tilhneigningar eru eins og þyngdarlögmálið. Enginn mannlegur máttur getur staðið í vegi þeirra alls staðar og til eilífðar.

Þannig verða sterkar hugmyndir til. Sterkar hugmyndir eru varðveittar. Þær verða að undirstöðu. Brátt verður ekki hægt að mótmæla hugmyndinni því hún er svo sannfærandi og mikil undirstaða friðsamlegra samfélaga að hver einasta pæling um uppruna hugtakisins verður að ógn við kennisetninguna.

Þetta hef ég upplifað í síðustu færslum mínum, en frá andstæðum pól, ekki frá sjónarhorni þeirra sem trúa á Guð, heldur þeirra sem trúa ekki á Guð og telja sig jafnvel trúlausa með öllu að auki. Þessi hugmynd um guðleysi, trúleysi eða vantrú verður sterk þegar hún beinist gegn hinni sterku hugmynd um hinn persónulega Guð, en þegar persónulegur Guð er ekki hluti af jöfnunni virðast samfélag trúlausra ráfa um í blindni, því þeir skilgreina sig út frá andstæðu sinni, og verður náttúrulega um og ó telji viðræðandi ekki skipta neinu máli hvort Guð eða guðir sé til eða ekki.

Þegar lífsskoðanir manns snúast um afneitun á einhverju, er maður þá að byggja hús á traustum grunni?

Og svo það sé á hreinu, þá er glasið tómt núna þegar ég skrifa þetta, en hver veit hvað verður satt um þetta glas á því augnabliki sem þú lest þennan texta.

Mig grunar að það sem pirri þá sem engu þykjast trúa þegar fengist er við hugtök eins og trú með aðferðum gagnrýnnar hugsunar er einmitt þessi mikilvægi túlkunarþáttur. Við upplifum heiminn öll á ólíkan hátt, en með sams konar skynfærum og hugsunarferlum, en þó er hægt að fínslípa bæði skynjun og hugsun þannig að hún verði að hárbeittu verkfæri sem getur skorið í sundur og gagnrýnt hvaða hugtak sem fyrirfinnst. 

Mig grunar að það séu breytilegar aðstæður fyrst og fremst sem pirra þá sem þykjast engu trúa, þar sem að trúarbrögðin, eins og HIV fruma aðlagar sig að mótefninu og fellur það inn í kerfi sitt, svo framarlega sem að eitthvað gott býr í hinni trúlausu kenningu.

 

E.S. þessi færsla er undir smá áhrifum frá Emmanuel Kant og Charles Sanders Peirce, en þeir reyndu báðir að átta sig á undirstöðum allrar hugsunar, en kenningin er ekki fullmótuð í huga höfunds. Hins vegar finnst mér áhugavert að líta á hugmyndir og heiminn út frá ólíkum sjónarhornum og þetta er ein tilraun til þess.

 

Fyrri færslur um guðleysi, trú og gagnrýna hugsun:


Við krefjumst gagnrýnnar hugsunar, en vitum við hvað gagnrýnin hugsun er?

Í tilfinningaþrungnum samræðum um trúleysi brýst stundum fram sú skoðun frá þeim sem segjast ekki trúa á Guð, guði eða eitthvað yfirnáttúrulegt, að lífsviðhorf þeirri byggi á gagnrýnni hugsun (eða vísindalegum sönnunum). Aftur á móti, sé viðkomandi sannfærður um eigin afstöðu og ætli sér aldrei að víkja frá henni, sama hvað tautar og raular, þá er viðkomandi ekki að byggja lífsviðhorf sitt á gagnrýnni hugsun.

Gagnrýnin hugsun er stórmerkilegt fyrirbæri og afar auðvelt að vanmeta hana sem eitthvað ómerkilegra en hún er í raun og veru, og telja hana einungis einhvern neikvæðan efasemdartón, því það er hún alls ekki. Þó að gagnrýnin hugsun hefjist yfirleitt í vafa, þá hefur hún skyldu til að kafa dýpra, jafnvel það djúpt að hún spyr sjálfa sig um eigin forsendur, og er tilbúin að breyta þeim reynist rökin góð og í samræmi við veruleikann.

Gagnrýnin hugsun er ekki það að rífa í sundur hugmynd til að skilja eiginleika hennar. Hún er miklu meira. Gagnrýnin hugsun kemst ekki langt án skapandi hugsunar og umhyggju. Hún þarf að vera viðkvæm ytri aðstæðum og hvernig rannsóknarefnið tengist öðrum hlutum eða hugmyndum.

Gagnrýnin hugsun finnur rökvillur og forðast bæði að samþykkja sannfærandi rök séu þau byggð á slíkum villum, og hún reynir einnig að forðast það að beita rökvillum sjálf, þó að vissulega geti verið afar freistandi, og sjálfsagt mun auðveldara að höfða til tilfinninga fólks og hugmynda þess heldur en raka sem byggja á staðreyndum eða gildum. 

Þegar þeir sem þykjast trúlausir með öllu, rökræða við trúaða um trú, þá eru þeir ekki alltaf að tala um sama fyrirbærið. Það er ekki nóg að vísa í hvað fólki finnst að eitthvað hugtak ætti að þýða, heldur er mikilvægt að hlusta á hvað aðrir telja það merkja, og taka þá merkinguna með í dæminu nema hún sé algjörlega úr lausi lofti gripin.

Ég gef mér að trúlausir velti fyrir sér heiminum fyrst og fremst út frá staðreyndum en trúaðir fyrst og fremst út frá gildum. Þetta eru tvær gjörólíkar víddir, sem eiga fátt eða ekkert sameiginlegt. Ekki frekar en að bragð geti verið blátt. Hins vegar er hægt að ræða um hvort gildi eða staðreyndir séu betri forsendur til að byggja lífsskoðanir á.

Veltum þessu fyrir okkur. Manneskja A vill byggja líf sitt á staðreyndum en ekki gildum. Manneskja B vill byggja líf sitt á gildum en ekki staðreyndum. Bæði A og B eru bókstafstrúar og útilokað fyrir þær að sjá út fyrir eigin innrammaðan heim.

Hins vegar er einnig til fólk sem leggur meiri áherslu á A en B þegar það mótar lífsskoðanir sínar, og annað fólk sem leggur meiri áherslu á B en A. Hægt er að setja þetta upp í skala frá 0-100. Þeir sem eru á bilinu 1-10 og 90-99 eru bókstafstrúar. Þeir sem eru í 0 eða 100 eru ofsatrúar. Aðrir eru víða staddir á skalanum. Sé einhver 50-50, má reikna með að sá hinn sami hafi fundið gullna meðalveginn. Þann sem Aristóteles mælir með.

Ef við reynum að átta okkur á veruleikanum þegar við ræðum saman, þá náum við fyrr eða síðar að greina aðeins betur hvað eru skrautmyndir og skuggamyndir, frá veruleikanum.

Til að svara spurningunni sem spurð er í upphafi greinar, langar mig að setja fram kenningu Dave Ellis um eiginleika gagnrýnnar hugsunar, og vil ég taka fram að þetta er aðeins ein af fjölmörgum skilgreiningum á eiginleikum gagnrýnnar hugsunar. Ég tel þetta ágætis byrjun.

---

Sannleiksleit.
Gagnrýnir hugsuðir* vilja vita sannleikann. Í leit þeirra eru þeir tilbúnir að velta fyrir sér og jafnvel fallast á hugmyndir sem grafa undan þeirra eigin skoðunum eða hagsmunum. Þessir hugsuðir fylgja rökhugsun og sönnunargögnum hvert sem þær leiða þá.

Opinn hugur.
Hæfileikaríkur gagnrýninn hugsuður kannast ekki aðeins við að fólk sé oft ósammála - heldur sér gildi í þessari staðreynd. Hann virðir rétt annarra til að tjá ólík sjónarmið. Umfram það að sækjast eftir marbreytilegum sjónarhornum, fylgjast þeir með eigin máli og hugsun eftir vísbendingum um villur eða fordóma.

Rökgreind.
Gagnrýninn hugsuður kannast við fullyrðingar sem þurfa að vera studdar með sönnunargögnum. Hann er meðvitaður um möguleg vandamál. Þar að auki sér hinn gagnrýni hugsuður fyrir mögulegar afleiðingar þess að taka ákveðna afstöðu.

Kerfisbundin.
Að halda sér skipulögðum og einbeittum eru tveir eiginleikar til viðbótar sem eiga við um gagnrýnan hugsuð. Hann er tilbúinn til að safna að sér sönnunargögnum af þolinmæði, prófa hugmyndir, og staldra lengi við erfiða og flókna spurningu.

Sjálfstraust.
Þessi eiginleiki gagnrýns hugsuðar styður hina. Þar sem hann treystir á eigin gáfnafar, er gagnrýninn hugsuður viljugur til að leita sannleikans, hlusta með opnum hug og vinna þá erfiðu og gagnlegu vinnu sem felst í hugsun.

Spurningar.
Hinn gagnrýni hugsuður vill vita. Hann hungrar eftir staðreyndum og hugtökum. Hann er viljugur til að skoða alheim hugmynda jafnvel áður en hann veit hvernig hann getur nýtt sér innsæið sem hann öðlast.

Þroski.
Sem þroskuð manneskja, ræður hinn gagnrýni hugsuður yfir visku sem kemur frá reynslu (og íhugun um þessa reynslu - HB). Hann skilur að vandamál getur haft margar lausnir - jafnvel lausnir sem virðast vera í mótsögn hver við aðra. Hann forðast að samþykkja fljótlegt, yfirborðskennt svar, og hann er tilbúinn til að fresta ákvörðunum þegar sönnunargögn eru ófullnægjandi. Samt kannast hann við að manneskjur þurfa oft að framkvæma áður en allar staðreyndir eru til staðar.

 ---

Sjálfur geri ég mitt besta til að vera gagnrýninn í hugsun, leiðrétta sjálfan mig þegar ég tel mig hafa rangt fyrir mér, hlusta á rök þeirra sem eru á ólíku máli um margvísleg málefni og gera ráð fyrir að ég viti ekkert endilega betur en aðrir um öll heimsins mál, en að ég hafi þó sömu forsendur til að taka vel mótaða afstöðu sé rétta viðmótið til staðar. Það er fleira sem einkennir gagnrýna hugsun og vert er rannsaka þau af dýpt, en ég fer ekki nánar út í það hér og nú. Eitt af því er gagnrýnin hugsun um forsendur gagnrýnnar hugsunar.

 

*Þó að gagnrýninn hugsuður sé karlkynsorð, þá á það sama við um kvenkyns gagnrýna hugsuði.

 

Fyrri færslur á svipuðum nótum:

 

Heimildir: Becoming a Master Student, Dave Ellis


Er guðleysi í grunnu lauginni en trúin í þeirri djúpu?

Fyrir helgi skrifaði ég færslu sem fengið hafði 202 athugasemdir þegar þetta er skrifað. Ég held að aldrei hafi jafn mikil samskipti átt sér stað eftir eina grein á mínu bloggi. Reyndar skrifuðu sömu einstaklingar oft, og sumir þeirra voru svolítið óvarkárir í orðalagi; en ekki þannig að menn lágu eftir í sárum sínum. Þetta var eins og hressilegt rok, þar sem margt ágætt kom fram frá guðlausum, trúlausum, vantrúuðum, formlega trúuðum, óformlega trúuðum og einhverjum sem ekki eru flokkanlegir.

Ég hef ekki þá skoðun að þeir sem taka þátt í samræðum um trúmál eða trúleysi þurfi endilega að vera búnir að mynda sér fasta skoðun um málið, séu búnir að lesa Biblíuna, Kóraninn, Dawkins og alla hina sem eru í tísku þessa stundina. Við höfum misjafnlega mikla reynslu og áhuga, og tel ég skoðanir hverrar einustu manneskju vera mikilvæga og rangt að hunsa eina einustu lífsskoðun, þó við getum verið henni ósammála, enda hefur hver og einn myndað sér skoðun um heiminn og lifir eftir honum. Hvaða rétt hef ég til að dæma lífsskoðun annarrar manneskju sem ranga, ef ég get ekki sýnt fram á hvernig hún er skaðleg henni sjálfri, öðrum eða umhverfi hennar út frá siðfræðilegum forsendum sem báðir samþykkja? 

Mér finnst merkilegt hvernig fjöldi þeirra sem afneita allri trú voru sannfærðir um að ég væri trúaðir. Þeir virðast trúa á það í blindri heift að ég sé trúaður einstaklingur, og að það hafi neikvæð og heftandi áhrif á skoðanir mínar, mengi þær, geri þær óhreinar, geri þær heimskulegar. Í fyrsta lagi getur viðkomandi engan veginn vitað betur en ég sjálfur hverju ég trúi eða á hvað ég trúi eða hvort ég sé trúaður yfir höfuð, enda hef ég ekki verið að básúna mínum skoðunum neitt sérstaklega. Og í öðru lagi er afar vafasamt að telja hugsanir annarrar manneskjur ógildar einungis vegna þess að hún gengur út frá öðrum grundvallarforsendum.

Til gamans ákvað ég að fletta upp í bókum mínum og leita nánari skilgreininga á guðleysi - sem ég tel vera ólíkt trúleysi og vantrú. Þar sem ég lít á hugmyndir í bókum frekar sem eldspýtur fyrir hafsjó samræðna, þarf ekki nema lítinn neista til að kveikja mikið bál.

Fyrsta tilvitnunin sem ég rakst á:

Smá heimspeki hallar huga manns nær guðleysi; en heimspekileg dýpt, færir hugi manna nær trúnni... (Francis Bacon 1561-1626)

Það er freistandi að gleypa hrátt við þessari speki án þess að velta henni aðeins fyrir sér. Hugsanlega hafði Bacon rangt fyrir sér, þó að hann sé meðal allra frægustu og virtustu heimspekinga sem rætt hafa málin í Evrópu, enda kannast þeir við sem hafa flakkað um samræðuheima heimspekinnar að hver einasti heimspekingur getur haft rangt fyrir sér, sama þó að þeir sjálfir og flestir aðrir trúi að þeir hafi rétt fyrir sér.

Ég hallast þó að því að Bacon hafi rétt fyrir sér þarna. 

Heimspekingar eru svolítið sérstakar verur. Þeir pæla í ólíklegustu hlutum, málefnum sem er erfitt að festa hendur á, en skipta samt gríðarlega miklu máli. Sumum finnst heimspekilegar samræður barnalegar, einfeldnislegar og flækja hlutina að óþörfu, en ástæða slíkrar skoðanir getur verið falin í viðmóti viðkomandi, að hann eða hún er ekki tilbúin til að hlusta. Oft hef ég heyrt þá skoðun að þessi eilífðarmál verði aldrei skilin til fullnustu og því er tilgangslaust að pæla í þeim. Ég sætti mig ekki við þetta álit, leita annars álits og tel einmitt að ef ómögulegt sé að vita hvort tilgangslaust sé að pæla í þessum hlutum þá sé tilefnið til að grafast fyrir um hlutina enn brýnna.

Ég kannast við það hjá sjálfum mér, að mér hefur oft þótt þessi heimur afar flókinn og margbreytilegur, og stöðugt komið auga á hugtök og hluti sem ég skil ekki að fullnustu, og reynt að átta mig á hvernig mikilvæg málefni tengjast, og reyni síðan að læra sífellt meira um það sem er tímans virði að rannsaka. Eftir miklar pælingar og hugurinn orðinn þreyttur á þessum pælingum, þá gerist svolítið undarlegt, í skamma stund, kannski ekki nema augnablik - sér maður hlutina í miklu stærra og skýrara samhengi en áður. Maður reynir að skrá þessar hugmyndir en heildarmyndin raknar upp jafnhratt og draumur sem reynt er að rifja upp snemma morguns yfir morgunkorninu.

Mig grunar að við séum öll á ferðalagi sem við köllum þroska. Hægt er að greina þroskastigin í einingar, þar sem síðasta og æðsta einingin er viska, en samhliða henni sem andstæða á þessu síðasta stígi er örvænting. Þeir sem aldrei hafa undirbúið sig undir dauðann og talið sig ódauðlega eru þeir sem líklegastir eru til að fyllast örvæntingu á síðustu metrunum. Þessi viska er mönnum nauðsynleg þegar þeir sjá fram á eigin dauða. Þeir sem höndla eigin dauða gera það með visku, þeir sem geta ekki höndlað slíkan veruleika falla í djúpa örvæntingu. Ég get ekki séð fyrir mér nein verri örlög. Þeir sem eru hvað uppteknastir af öllu heimsins prjáli eru einmitt í mestri hættu með að lenda í mestri örvæntingu, því auðævi eða fagnaður ná skammt þegar þeir mæta manninum með ljáinn.

Það er freistandi að alhæfa og segja fólk fyrst takast á við eigin dauða þegar það finnur hann nálgast, og ég get vel trúað að það sé satt um flest fólk sem nennir ekki eða gefur sér ekki tíma til að velta fyrir sér heimspekilegum viðfangsefnum, og vill frekar láta aðra gera það fyrir sig. En hvað gerist ef við veltum ábyrgð pælinga um líf og dauða yfir á annað fólk?

Jú, þá verða sjálfsagt til kenningar. Þessar kenningar verða samþykktar eða þeim hafnað. Séu þær samþykktar verða þær varðar. Hverjir verja þær? Sjálfsagt fólk sem menntar sig sérstaklega til þess, og fórnar lífi og limum til að vernda þær fyrir þá sem þurfa á þeim að halda, þá sem nenna ekki eða gefa sér ekki tíma. Þessar kenningar taka smám saman á sig traustara form, og loks gleymist upphaflegur tilgangur þeirra, og í stað þess að velta fyrir sér eigin dauða á opinskáan hátt, hefur safnast saman heilmikil viska í ritmáli, sem síðan þarf að dæla í allar þær kynslóðir sem ekki hafa tíma eða nennu til að hugsa hlutina frá upphafi til enda.

Að trúa á eitthvað slíkt hljómar í hugum einhverra sjálfsagt sem bull. En það er viska í þessu. Við getum ekki öll verið gagnrýnin og trúlaus. Við þurfum að treysta öðrum til að samfélagið virki. Og trúin virkar, eins hallærislega og það kann að hljóma, hún virkar fyrir þá sem þurfa á henni að halda, fyrir þá sem velta ekki fyrir sér hinu góða en kannast samt við það og lifa í samræmi við það.

Þannig að jú, ég skil af hverju þeir sem eru gagnrýnir gagnrýninnar vegna, gagnrýna trúarbrögð og þær stofnanir sem virðast hafa glatað upphaflegum tilgangi sínum, en ég þykist líka hafa hugmynd um af hverju betra er að hafa þessar stofnanir í gangi en að leyfa þeim að hrynja til grunna. Þegar samfélög hafa náð ákveðinni stærð, þurfa þau á þessum stofnunum að halda til að líma saman aðrar grunneiningar og viðhalda vinnufriðnum.

Hins vegar er gagnrýnin hugsun ekki bara það að kryfja hluti í sundur og skilja þá eftir í tætlum á borðinu, undir smásjá. Gagnrýnin hugsun þarf einnig að vera skapandi og hún þarf einnig að sýna umhyggju, annars fellur hún um sjálfa sig. Það sama á við um umhyggju; án gagnrýnnar og skapandi hugsunar er hún einskis virði. Og það sama má segja um skapandi hugsun; án gagnrýnnar hugsunar og umhyggju er hún einskis virði.

Það er þegar þú finnur jafnvægi í gagnrýnni hugsun gagnvart viðfangsefninu að þér tekst að öðlast meiri dýpt, og hvort það þýði að þú komist nær markmiðinu eða hvort þú rétt skjótist undir yfirborðið og fáir smá nasasjón af svörtu dýpi sem nær lengra en þú hafðir áður ímyndað þér, þá hefur þú í það minnsta reynt, ert reynslunni ríkari, og getur deilt þinni sögu með öðrum, og hugsanlega á þann hátt komist aðeins nær einhverjum sannleika.

Annars sýnist mér tvennt greina að hina trúuðu og trúlausu. Annars vegar að trúlausir skilgreina trú á annan hátt en hinir trúuðu gera. Og hins vegar að í umræðum um trú og trúleysi, sérstaklega þegar þeim er blandað saman við gildi vísindalegrar sönnunar, að þá gleymist stundum að trúin fæst við sannleikann, á meðan vísindin gera það alls ekki, heldur fást þau við að finna hið sanna.

Sannleikurinn og hið sanna eru gjörólík hugtök þó þau virðist vera nauðalík. Sannleikur er stóra heildarmyndin, nokkuð sem vísindamenn vita að hver og einn túlkar fyrir sig útfrá þeirri þekkingu sem þeir hafa öðlast af þeim brotum heimsins sem þeir þekkja sem sanna. Trúin byrjar hins vegar á hinum endanum, og telur sannleikann vera þekktan óháð því sem er satt í einstaka atriðum. 

Auðvitað veldur svona misskilningur átökum og enn meiri misskilningi. Það felst í hlutarins eðli.

Ég er ekki búinn að svara spurningunni sem ég spyr í titlinum þráðbeint, heldur með pælingum í kringum svörin. Dugar það sem svar, eða sem spurning?

 

Fyrri færslur um guðleysi og trú:

 


Eru trúleysingjar og guðleysingjar sem vilja betri heim í raun trúaðir?

Yfirleitt þegar mér dettur í hug að skrifa um trúmál og trúleysi spretta fram fjörugar umræður þar sem sérfræðingar með prófskírteini frá sjálfum sér eru duglegir að fræða mig um hvað ég hef rangt fyrir mér, án þess að ég þykist sjálfur átta mig fyllilega á öllum þeim blæbrigðum sem felast annars vegar í lífi trúaðra eða trúleysingja.

Mig grunar að vandamálið liggi í ólíku sjónarhorni. Sumir sjá manneskjur í mikilli fjarlægði, aðrir í mikilli nálægð, og ekkert eitt sjónarhorn er hið eina rétta, frekar en þegar þú skoðar pöddu eða píramída. 

Ég byggði tvær greinar á grein sem stuðaði mig skemmtilega í tímaritinu Philosophy Now, en þar voru prestar beðnir um að skrifa greinar um nýguðleysi. Annar presturinn var með svona klassísk svör, eitthvað sem maður hefði búist við, en hinn Dr. Mabry kom með frumlega nálgun á málið og vildi í gamansömum tón flokka rit nýguðleysingja sem klám, og gaf reyndar skýr rök fyrir skoðun sinni. Þessar fyrri greinar mínar og fjörugar umræður má skoða hérna: 

En það er eitt atriði til viðbótar í grein Dr. Mabry sem vakti áhuga minn, en það er flokkun hans á blæbrigðum trúar. Þannig er listinn:

  1. Hefðbundin trú - Traditional Believers - (þeir sem trúa að trú þeirra sé sú eina rétta)
  2. Frjálshyggja í trú - Liberal Believers - (þeir sem trúa að trú þeirra sé ein af mörgum gildum trúarlegum skoðunum)
  3. Andleg valkvæðni - Spiritual Electics - (þeir sem fylgja ekki einni trú, heldur velja og púsla saman eiginleikum trúar úr mörgum ólíkum trúarbrögðum)
  4. Efahyggja í trú - Religious Agnostics - (þeir sem njóta þess að vera í samvistum við andans fólk, en eru ekki sannfærðir um sannleiksgildi trúarinnar)
  5. Siðferðilegir húmanistar - Ethical Humanists - (guðleysingjar og trúleysingjar sem finna sig tilheyra og vera í sambandi við einhverja óskilgreinda reglu í heiminum (Cosmos))
  6. Hentitrú - Jack Believers - (þeir sem trúa hinu sama og fólk með hefðbundna trú, en geta ekki farið eftir siðferðilegum reglum trúarbragðanna) 

Það sem vekur mesta athygli mína í þessari flokkun er að samkvæmt skilgreiningu Dr. Mabry eru nýguðleysingjar trúaðir. Þó að þeir átti sig kannski ekki á því sjálfir og afneiti trúnni algjörlega, þá virðast þeir trúa á einhverja stærri mynd, og sjá mikilvægi þess að fólk hugsi á gagnrýninn hátt um lífið og tilveruna, án þess að falla fyrir ýmsum innihaldslausum blekkingum - og telja rótina að góðu siðferði felast í að fylgja trúarbrögðum alls ekki í blindni og stundum alls ekki yfir höfuð, heldur með skynsamlegum hætti móta eigin siðferðilegar skoðanir.

Ég er sammála þessari skilgreiningu Dr. Mabry, að minnsta kosti í bili, eins langt sem hún nær, og þar til eitthvað annað og betra kemur í ljós.

Auðvitað fjalla þessar skilgreiningar aðeins um blæbrigði hinna trúuðu, og sjálfsagt hafa hinir trúlausu einnig ýmis áhugaverð blæbrigði sem vert er að skoða, og þá er sjálfsagt meira viðeigandi að skoða slíkt út frá vísindalegri aðferðum.

Þetta styður þá kenningu mína í þá minnsta að vantrúarfólk á Íslandi sé í raun trúað, þó að það afneiti trúnni. Að sjálfsögðu eru einhverjir vantrúaðir sem eru ekki trúaðir, þeir sem bera enga virðingu fyrir ólíkum skoðunum og er nákvæmlega sama um siðferði eða mannleg gildi, en þeir sem hafa áhuga á að byggja betra samfélag, þeir eru trúaðir þó þeir viti það ekki sjálfir.

Ég bíð spenntur eftir athugasemdum úr öllum áttum. Jafnvel frá þeim sem ryðjast inn á moldugum fjallaskóm og hella kaffi í tebolla. Halo

 

Heimildir:

Grein Dr. John R. Mabry má finna í 78. tölublaði Philosophy Now: a magazine of ideas, apríl/maí 2010.


Þurfa prestar að trúa á persónulegan Guð?

Heitar og skemmtilegar umræður um trúarbrögð og trúleysi spruttu fram enn á ný hér á þessu bloggi í kjölfar greinarinnar Er predikun guðleysis klám? Einni spurningu er þar ósvarað, sem ég reyni að svara í þessari grein, en þar held ég fram að prestar þurfi ekkert endilega að trúa á persónulegan Guð og geti samt verið starfi sínu vaxnir og reynst góðir prestar. Þessa hugmynd fékk ég við lestur greinar eftir séra Dr. John R. Mabry á meðan ég flaug frá Osló til Stavanger síðasta sunnudagskvöld.

Það er hvergi betra að lesa en í himnaríki. Whistling

 

Presturinn Dr. John R. Mabry heldur því fram að nýguðleysisbækurnar sem sprungu út í vinsældum eftir 9/11 og skrifaðar voru af mönnum eins og Dawkins, Hitchens, Harris og fleirum, að vandamálið við nýguðleysið er að mynd þeirra af trúarbrögðum sé engu skárri en skopmynd sem gefur of einfalda sýn á hlutina í stað þess að bera virðingu fyrir hinum djúpa margbreytileika sem einkennir ólík trúarbrögð í heiminum. Reyndar kallar hann þessi skrif "guðlaust klám" en viðurkennir síðan að hann elski þessar bækur og skemmti sér stórkostlega yfir þeim, og finni þar margt gott, sem því miður nær ekki á áfangastað óskaddað.

Í greininni segir Dr. Mabry:

"Það er til trúað fólk sem trúir að gagnrýnin hugsun um trúarbrögð séu nauðsynleg fyrir þroskaða trú, og í raun, lykilatriði í trúarbragðalegri tryggð. Það er til fólk sem skilur að myndir okkar af hinu guðlega eru komnar frá mannlegri tilhneigingu til að persónugera (anthromorphize) hið Dularfulla vegna þess að það gerir þeim auðveldara að tengjast því. Það er til fólk sem skilur að tákn eru ekki það sama og hlutirnir sem þau merkja - sem snúa ekki hugmyndum, myndum og hugsjónum yfir í skurðgoð. Það er til fólk sem telur ofbeldi ekki vera viðeigandi svar við þeim sem eru ósammála - sem í raun sjá umburðarlyndi, samhug og frelsi sem próf fyrir sanna andlega tjáningu."

Að persónugera hlutina er gert til að einfalda þá, og ég get vel séð fyrir mér prest sem trúir á Guð án þess að persónugera hugtakið. Hins vegar virðast margir stuðningsmenn nýguðleysis eiga erfitt með að sjá þennan möguleika og sætta sig við að hann geti verið raunin hjá fjölda presta. Trúin er nefnilega svolítið persónulegt fyrirbæri, og það að gera tilraun til að afmá hana af yfirborði jarðar er í raun tilraun til sviptingar á tjáningarfrelsi.

Dr. Mabry skrifar:

"En hverjir eru þessi nýfrjálshyggjumenn sem telja sig geta ákvarðað að einungis sú trú sem er íhaldssöm, án umburðarlyndis og bókstafleg, séu sannkölluð trúarbrögð? Ég held því fram að ég hafi meira vit á eigin andlegu lífi en nokkur annar, þar á meðal Christopher Hitchens. Ég held því einnig fram að hunsun á trú meirihluta mannkynsins - og í raun að hunsa trú þó ekki væri nema einnar manneskju - er jafn mikið trúarbragðaofbeldi og nokkuð af þeirri ólíðandi hegðun sem nýguðleysingjar fordæma.

Þar sem að við getum ekki skokkað inn í huga hvers einasta prests, get ég auðveldlega séð fyrir mér að trúarskoðanir viðkomandi séu mér framandi. Viðkomandi prestur getur túlkað Biblíuna og Trúarjátninguna út frá eigin skilningi á hvað Guð er, og séð textann sem einfalda myndhverfingu á einhverju sem er mun dýpra, svona eins og þegar maður horfir á þrívíddarmyndir - þá áttar maður sig ekki alveg á dýptinni fyrr en maður setur upp gleraugun.

Prestur sem trúir ekki á persónulegan Guð finnst mér alls ekki langsótt eða fjarstæðukennd hugmynd, einmitt vegna þess mikla fjölbreytileika sem einkennir manneskjur. 

Sjálfur undrast ég hvern einasta dag yfir hvað það er fátt í þessum heimi sem ég skil af dýpt, og þar á meðal allt sem tengist minni eigin vitund. Ég skil ekki einu sinni fullkomlega hvernig ég sjálfur hugsa og læri, þó að ég hafi rannsakað það vandlega í tvo áratugi.

Það er nefnilega svo merkilegt við okkur manneskjurnar að við erum sífellt á göngu gegnum okkar eigin þroskastig og reynum sífellt að brjótast í gegnum þessa hlekki eigin þroska og efnislegra hindrana til að sjá aðeins lengra, (ég tala kannski bara fyrir sjálfan mig hérna) og sífellt er eitthvað nýtt og spennandi sem kemur manni á óvart, djúp hugsun einhvers ókunnugs manns í fjarlægu landi eða barns sem situr við hlið mér á spjalli. 

Ég væri fátækari maður ef ég lokaði á þær hugmyndir sem mér hugnast ekki.

Þó að Guð sé kannski persónulegur og einstakur í upplifun hvers og eins, og sérstakur þegar fólk í sameiningu bindur sig honum, þá þýðir það alls ekki að HANN sé persóna.

Í ágætis bók segir að Guð hafi skapað manninn í sinni mynd. Með mynd er átt við form. Ekki efni. Ekki útlit. Heldur möguleika, ramma, kannski huga, kannski sál. Að segja Guð hafa skapað manninn getur líka verið myndmál og túlkun á því að hin sameiginlega þekking og samhugur fólks hafi skapað sérhverja manneskju og gert hana að því sem hún er.

Möguleikar á túlkunum eru endalausar. Og það er ekki ein einasta staðreynd sem getur breytt því, einfaldlega vegna þess að staðreyndir fjalla ekki um gildi og visku, heldur aðeins um hluti sem hægt er að leiða af eða til með ströngum rökreglum sem byggja á sönnunargögnum.

Þeir sem halda því fram að eina leiðin til að horfa á heiminn sé út frá sönnunargögnum og rökreglum, eru að missa af ansi miklu. Það er svona eins og að afneita að teiknimyndir geti verið skemmtilegar af því að þær eru plat.

Ég vil vinsamlegast óska eftir í athugasemdum að fólk sleepi við dónaskap gagnvart þeim sem þeir eru ósammála, og þess í stað rökstyðji mál sitt á málefnalegan hátt. Dónaskapur getur verið skondinn eitt augnablik, en verður fljótlega frekar leiðgjarn.

 

Heimildir:

Grein Dr. John R. Mabry má finna í 78. tölublaði Philosophy Now: a magazine of ideas, apríl/maí 2010.


Hafa Íslendingar tapað forgangsrétti á náttúruauðlindum sínum?

Ég sé mig knúinn til að skrifa stutta grein um þetta Magma mál. Það er nokkuð ljóst að algjör lögleysa ríkir hjá stjórnvöldum. Þau hafa tekið afstöðu lagatækna til laga og finnst litlu skipta hvað er rétt og hvað rangt, hver andi laganna sé, svo framarlega sem hægt er að finna lagakróka í kringum hlutina.

Það er ljóst að kanadískt fyrirtæki er ekki sem lögaðili heimilisfast í sænsku skúffufyrirtæki. Heimilisfesti er þegar einhver á heima á staðnum, í raun og veru, ekki bara í þykjustinni. Til dæmis fá atvinnulausir Íslendingar varla atvinnuleysisbætur ef þeir búa erlendis, þó þeir séu enn skráðir með lögheimili á Íslandi.

Úr lögum (4.gr. laga nr. 34/1991): Íslenskir ríkisborgarar og aðrir íslenskir aðilar mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. Sama rétt hafa einstaklingar sem búsettir eru í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðru aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum og lögaðilar sem heimilisfastir eru í öðru aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðru aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum.
Sé þetta mögulegt skipta lög nákvæmlega engu máli og Íslendingar hafa engan forgangsrétt rétt til að lifa af á Íslandi umfram annað fólk í heiminum. 

Mér finnst merkilegt að VG og Samfylkingin skuli verja slíkt, en átti svosem aldrei von á öðru. Þessir flokkar eiga það helst sameiginlegt að vilji þeirra er allur á pappírum og kenningum, en afar fjarri verki. Aðrir flokkar eru ekkert skárri, enda stjórnkerfið meingallað.

Það eitt að stjórnvöld sem á viðurkenndan hátt þiggja mútur opinberlega og geta réttlætt þær með að kalla þær styrki, segir meira en þarf um hversu rotið íslenskt stjórnkerfi er og hversu óréttlátt það hlýtur að vera, og hversu óhugsandi er fyrir slíkt kerfi að leita sanngirnis og velferðar fyrir almenning í landinu.


Er predikun guðleysis klám?

"Ég er ekki viss um hvernig það byrjaði, en fljótlega eftir mikla fjölgun á framboði frá höfundum Nýguðleysis, byrjaði einhver að kalla bækur þeirra 'klám guðleysingja". Ég hló fyrst þegar ég heyrði þetta, líklega vegna þess að þetta er ekki fjarri sanni. Klám getur verið æsandi og skemmtilegt - en það hlutgerir líka fólk, fjarlægir hið mannlega frá fólkinu sem er til sýnis og sýnir það á falskan hátt með eigin hagnað að leiðarljósi sem og að fullnægja lesendum sínum."

Þannig hefst mögnuð grein sem ég rakst á í gær, sem nálgast skyndilegar vinsældir á nokkuð óvæntan hátt. Mér hafði ekki dottið þetta í hug, en get ekki annað en tekið undir þessar skoðanir, skrifaðar af Dr. John R. Mabry í grein þar sem hann mótmælir því hvernig Nýguðleysið teiknar upp of einfalda mynd af trúarbrögðum.

Sjálfur hef ég mjög gaman af Nýguðleysinu þar sem Richard Dawkins fer í fararbroddi og heldur því fram að trúarbrögð séu beinlínis skaðleg og ætti helst að leggja þau af með öllu, enda skapa þau bakland fyrir brjálæðum hugmyndum hryðjuverkamanna og sjálfsmorðsvígamanna. Vandinn er ekki að í baklandinu felist skaðlegar hugmyndir, en í þeim leynist margt mjög gott sem reyndar er hægt að snúa upp í hreina illsku með afbökuðum og skældum ofsatrúartöktum.

Ég get ekki annað sagt en að ég hafi samúð með báðum sjónarmiðum. Ég skil hvernig trúarbrögð geta fóstrað brjálæðinga, rétt eins og stjórnmál, kvikmyndir, skólar og tölvuleikir geta fóstrað brjálæðinga og ýtt þeim út í ofbeldisverk; en það þýðir ekki að ég vilji leggja niður stjórnmál, kvikmyndir, skóla og tölvuleiki. 

Vandamálið virðist vera það sama hvert sem þú ferð. Smár minnihluti eyðileggur orðspor hópsins. Þetta gerist stöðugt með hverri einustu kynslóð unglinga. Einhverjir krakkar gera einhvern óskunda sem hinir fullorðnu hneykslast yfir og yfirfæra ruglið á allan hópinn. Það sama gerist þegar fáeinir einstaklingar af öðru þjóðerni haga sér illa og valda skaða, eftir það getur reynst erfitt að líta fólk frá sömu þjóð fordómalausum augum. 

Málið er að það er auðvelt að trúa eigin fordómum, og þegar þeir virðast sannir og maður leyfir sér ekki að efast um sanngildi þeirra, kannski vegna þess að þeir virðast svo augljósir og ef maður efast, þá gætu einhverjar frumforsendur í eigin heimsmynd hrunið til grunna. 

Ég held að þeir sem fordæma trúarbrögð sem slík séu á næsta stig fyrir ofan þá sem fordæma kynþætti, hörundslit og skoðanir annarra, en eiga samt ennþá langt í land með að takast á við veruleikann. Það sama má segja um þá sem fordæma guðleysingja eða nýguðleysingja.

En ef skrif nýguðleysingja er klám, þá hlýtur öll orðræða og rit sem er í eðli sínu ómanneskjuleg og gerir lítið úr manneskju, líka klám; og þá getum við í raun skoðað flestar ræður Alþingis, sjálfsagt frá upphafi þings og flokkað þær sem klám. Það sama má segja um fréttamennsku flestra fjölmiðla og hugsanlega megnið af öllum tilkynningum frá fyrirtækjum. Sjálfsagt á það sama við um skilaboð sem koma frá stofnunum eins og kirkjum og skólum.

Væri ekki réttast að bjarga fjárhag íslenska ríkisins með því að skattleggja allt þetta klám?

 

Heimildir:

Grein Dr. John R. Mabry má finna í 78. tölublaði Philosophy Now: a magazine of ideas, apríl/maí 2010.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband