Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Hvaða skellur ætli sé verstur?

Egill Helgason skrifaði pistil í gær, Tap erlendra kröfuhafa, sem innihélt hugsun mjög á skjön við gildismat mitt:

Það er áætlað að erlendir kröfuhafar hafi tapað 4-5 þúsund milljörðum króna á íslensku bönkunum. Það eru þeir sem eru að fá stærsta skellinn vegna hrunsins – og það er allt í lagi að sýna smá skilning vegna þess.

Ég er ekki sammála þessari skoðun og finnst þessi samanburður frekar móðgandi fyrir fólkið sem á varla fyrir helstu nauðsynjum vegna þess að það er enn að borga stökkbreytt lán, hefur misst fyrri tekjustofn, þarf að takast á við miklar hækkanir eða þarf jafnvel að óska eftir mat frá hjálparstofnunum. 

Þess vegna spyr ég:

Hvaða skellur ætli sé verstur?

A tapar 20 milljónum en á bara 10 milljónir og hefur misst vinnuna að auki.
B tapar 20 milljónum og á 10 milljónir að auki
C tapar 200 milljónum og á 800 milljónir að auki

Ég segi A.


Tengill á tilmæli Hagsmunasamtaka heimilanna til lántaka vegna dóma Hæstaréttar

Sé glæpurinn nógu stór mun enginn trúa að hann hafi verið framinn. 

Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og Ríkisstjórn Íslands, stofnanir sem brugðust almenningi algjörlega fyrir efnahagshrunið, endurtaka leikinn og bregðast almenningi algjörlega aftur á sama hátt og áður. Það hefur verið skipt um andlit í brúnni, en afstaðan er óbreytt: einkarekin fjármálafyrirtæki ber að vernda umfram önnur fyrirtæki og heimili í landinu þó svo að þar hafi verið framin afbrot innandyra með alvarlegum afleiðingum fyrir þjóðina alla.

Ég sé til að mynda engan mun á afstöðu Vinstri grænna sem eru við völd í dag með Samfylkingu og Sjálfstæðisflokks sem var við völd fyrir Hrun ásamt Samfylkingu. Eini munurinn virðist felast í einhverjum gæluverkefnum sem tengjast kynjafræðum og femínisma, nokkuð sem hefur lítið að gera við frumþarfir almennings, ef þú kíkir á færslu mína um þarfapíramída Maslows: Sveltur fólk á Íslandi í dag?

Ást og umhyggja eru mikilvægar þarfir en ætti ekki að forgangsraða á undan öryggi og frumþörfum.

Seðlabanki Íslands, Fjármálaeftirlitið og Ríkisstjórn Íslands gáfu út leiðbeinandi tilmæli sem gefa lánafyrirtækjum leyfi (þó ólöglegt sé) til að setja vexti eftir eigin hentisemi á gengistryggð lán í stað gengistryggingar láns sem stökkbreyttist við gengisfall krónunnar. Þannig er verið að verðlauna og bjarga þeim sem brutu lögin, í stað þess að refsa þeim og bæta almenningi þann gífurlega skaða sem hann hefur orðið fyrir vegna þessara lögbrota.

Sumir tala um að ef eitthvað sé gert fyrir "skuldara" (lántakendur) sé verið að verðlauna áhættusækið fólk, jafnvel fjárhættuspilara. Það kann vel að vera í sumum tilfellum. En í fjölmörgum tilfellum er um að ræða fólk sem keypti sér bíl til þess eins að sinna nauðsynlegum ferðum, eins og að komast til og frá vinnu, kaupa í matinn, fara með börnin í skóla, - nokkuð sem því miður er afar erfitt að gera með almenningssamgöngum.

Þetta fólk tók lán til að fjármagna kaup á bílum, og margt þeirra keypti notaða bíla þannig að mánaðarleg greiðsla var viðráðanleg. Þegar sú greiðsla tvöfaldast hins vegar, var mikil hætta á að fólk færi á hausinn. Það gat þó fryst bílalán í takmarkaðan tíma, og tekið út séreignarsparnað til að halda sér á floti, en séreignarsparnaður er peningur sem fólk hafði áætlað að nota sem lífeyri. Nú þegar sá lífeyrir er búinn, hvað verður um eftirlaunaáætlanir þessa fólks?

Talsmaður neytenda og Hagsmunasamtök heimilanna hafa brugðist við tilmælum valdaklíku ríkisstjórnarinnar með eigin tilmælum sem eru meira í anda íslenskra laga og þeirra aðstæðna sem eru í gangi, og halda áfram að verja almenning gegn stöðugri ógn fjármálavaldsins sem virðist nota ríkisstofnanir sem strengjabrúður eftir geðþótta. Hvernig slík stjórn á stofnunum er möguleg má lesa um í Rannsóknarskýrslunni góðu.

Smelltu hér til að lesa tilmælin frá HH.

Sveltur fólk á Íslandi í dag?

 

maslowpiramidi.jpg

 

Mig langar aðeins að skoða eigin viðhorf til þess hvernig íslenskur almenningur stendur gagnvart þarfapíramída Maslows, en hugmyndin er sú að nauðsynlegt sé að uppfylla allar þessar þarfir til að manneskja geti öðlast hamingju. Þetta eru fyrst og fremst vangaveltur um stöðu mála, og algjörlega óljóst hvort ég hafi rétt fyrir mér í þessum vangaveltum, sem mér finnst þó þess virði að velta upp á yfirborðið.

 

MENNTUN

Með menntun á ég einfaldlega við þá þörf sérhverrar manneskju að vera hún sjálf að eins miklu marki og mögulegt er, að manneskjan sé mennsk og geti unnið með öðrum manneskjum til að bæta sjálfa sig, hinar manneskjurnar og heiminn. 

Menntuð manneskja lifir eftir og tekur þátt í mótun siðferðis, er skapandi, frumleg, leysir vandamál, forðast fordóma og sættir sig við staðreyndir. 

Til að öðlast menntun er ekki nóg að ganga í skóla og lesa mikið. Það þarf að kynnast alúð og umönnun fjölskyldu og vina, upplifa lífið og leysa vandamál, auk þess að finna leiðir til að bæta heiminn. Besta leiðin og öruggasta til að bæta heiminn er að bæta sjálfan sig. Út á það gengur menntun, en hún er líka gæði í sjálfri sér sem uppfyllir djúpa þörf okkar til að skilja heiminn og sjálf okkur betur, og framkvæma þannig að verk okkar hafi góðar afleiðingar. Án menntunar er erfitt að sjá fyrir hvaða afleiðingar gerðir okkar hafa til lengri tíma.

Menntunarstigið á Íslandi er ekkert sérstaklega hátt í dag, sé farið eftir þessum viðmiðum.

 

VIRÐING

Við þörfum öll á virðingu að halda. Þá á ég ekki við hefðbundna virðingu, þar sem hin ungu virða hin eldri, nemendur virða kennara, almenningur virðir stjórnmálamenn, heldur dýpri virðingu og gagnkvæmari heldur en það að lúta vilja einhvers sem hefur meira félagslegt vald.

Sjálfsvirðing er forsenda sjálfs frelsisins. Ef manneskja virðir ekki sjálfa sig og eigin hugsanir, þorir ekki að tjá sig og telur eigin skoðanir minna virði en annarra, þá er viðkomandi manneskja einfaldlega ekki frjáls. Hún er fangi í eigin hugarheimi, og hugsanlega samfélagi sem reynir að útiloka raddir þeirra sem ekki hafa valdastöður. Einnig fylgir virðingu traust, árangur, og virðing til annars fólks og virðing frá öðru fólki. 

Þegar ég horfi yfir fréttir og sé hvernig stjórnmálamenn og auðmenn tala niður til fólks, og hvernig gert er lítið úr fólki sem tekur til máls og það kallað undarlegum nöfnum eins og kverúlant eða skríll, þá er það merki um skort á virðingu. Við þurfum á virðingu að halda til að öðlast menntun.

Ég sé ekki betur en að íslensk þjóð uppfylli ekki þá þörf að virðing sé borin fyrir fólki án undantekninga, né að almenningur hafi kost á raunverulegri menntun, þó að vissulega geti sumir einstaklingar brotist úr viðjum samfélagsins og öðlast slíka virðingu og menntun með eigin átaki.

 

ÁST OG UMHYGGJA

Öll þurfum við á ást og umhyggju að halda. Ást og umhyggju fáum við ekki sjálfkrafa. Við fáum ást og umhyggju með því að gefa hana. Reyndar fáum við flest skilyrðislausa ást og umhyggju frá foreldrum okkar í æsku, en síðar meir frá ættingjum og öðrum vinum. Loks þurfum við á ást og umhyggju að halda frá maka. Í þessu tilfelli felst viskan í því að sælla er að gefa en þiggja.

Það er mikið áhyggjuefni þegar börn, unglingar og annað fólk fær ekki þessa nauðsynlegu ást og umhyggju. 

Eftir Hrunið hafa margar fjölskyldur rofnað, flutningar átt sér stað og samband við ástvini slitnað. Þegar hjónaskilnaðir eiga sér stað og börn eru í spilinu, þá er mikil hætta á að þau finni fyrir skort á ást og umhyggju sem þau síðan bera með sér inn í framtíðina. Það er mikið áhyggjuefni hversu mikið af skilnuðum og brottflutningi af landi hefur átt sér stað að undanförnu. 

Mig grunar að sífellt færri Íslendingar upplifi nógu mikla ást og umhyggju. Ætli þurfi ekki að efna til knúsdaga þar sem við erum minnt á mikilvægi þess að sýna umhyggju hvert gagnvart öðru, í stað þess að loka okkur inni í þeim skemmtilega heimi sem fylgir að útiloka umheiminn með tónlistarspilurum, tölvuleikjum, sjónvarpsglápi og öðru slíku - sem smám saman holar steininn.

 

ÖRYGGI

Áður en kemur að ást og umhyggju þurfum við samt á líkamlegu öryggi að halda, við þurfum að hafa tryggingu fyrir því að við höfum aðgang að grundvallarnauðsynjum, sem ég kem að síðar, sem getur falist í að hafa atvinnu eða baktryggingu fáist ekki starf við hæfi. Einnig er mikilvægt að geta treyst því að fólk komi almennilega fram við mann og að maður komi almennilega fram við annað fólk - slíkt er kallað siðferði, nokkuð sem sumir virðast halda að sé einhver lúxusvara, á meðan það er í raun afar djúp þörf.

Við öðlumst einnig öryggi með því að hafa fjölskyldu í kringum okkur, en hjörðin verndar einstaklinginn, eitthvað sem virðist sterkt í manneðlinu. Sum okkar eru dádýr sem verjum okkur gegn rándýrum og sum okkar eru rándýr sem veiðum dádýrin. Það getur verið erfitt að átta sig á hver er hvað: ertu í úlfahjörð eða dádýrahjörð?

Mér sýnist mikið af peningafólki hafa skipað sér í úlfahjörð sem hefur elt uppi og slátrað ekki aðeins þeim veikustu í dádýrahjörðunum, heldur reynt að útrýma sumum þeirra algjörlega, og enn virðast dádýrin í ríkisstjórn ekki fatta að úlfar sveima í kringum þau og yfir þeim og halda í strengi, toga í spotta og ýta á takka, þannig að greyin í ríkisstjórn gera nákvæmlega það sem þeim er sagt og ekkert annað, af hræðslunni einni saman og von um að bjarga eigin skinni.

Við þurfum á heilsu að halda, en eftir að kreppan skall á, velti ég fyrir mér hvort að geðheilsa þjóðarinnar sé í hættu. Henni stafar ógn af þeirri gífurlegu reiði sem liggur bæld í gífurlegum fjölda einstaklinga, og hún hlýtur að hafa áhrif á heilsu þessa fólks, sem aftur íþingir þeim sem eru þeim nástaddir.

Eitt af því sem við þurfum fyrir öryggið er að hafa eignir. Við þurfum að eiga hluti. Börn þurfa að eiga dúkku eða bangsa. Fullorðnir þurfa að eiga skjól yfir höfuðið, fararskjóta, klæði, mat. Eignir. Þegar eignir eru hirtar af fólki er forsendu fyrir ást og umhyggju, virðingu og menntun kippt undan þeim. Þetta er að gerast í dag!

 

FRUMÞARFIR

Loks eru það frumþarfirnar, sem felast í að anda, éta, drekka, sofa, skíta, pissa, kynlífi og stöðugleika.

Á Íslandi er svo komið að sumar fjölskyldur virðast ekki hafa efni á mat. Vatnið er til allrar hamingju ennþá frítt og hægt er að komast af lengi með vatni og lofti einu saman, en þó ekki of lengi. Án matar getur fólk ekki verið öruggt, og getur þar af leiðandi ekki gefið af sér eða þegið ást og öryggi, og virðing og menntun verða framandi hugtök sem virðast ekki koma lífinu neitt við, þar sem öll orkan fer í það mikilvægasta, að komast af.

Allar þessar þarfir eru mikilvægar. 

Það er mikilvægt að þjóðfélagið standi vörð um þessar þarfir og passi að enginn Íslendingur eða gestur á Íslandi skorti til að afla sér þeirra. 

Því miður virðist ríkisstjórnin í dag ekki einu sinni getað staðið vörð um frumþarfirnar, þar sem fjöldi fjölskylda hefur ekki þessar nauðsynjar, vegna þess að hjálparstofnanir þurfa að vera í sumarfríi á sama tíma.

Þjóðin á ekki að þurfa slíkar hjálparstofnanir. Þær eiga aðeins að vera til staðar í neyð. Nú er neyð á Íslandi og fólk hugsar um að skella sér í sumarfrí og leysa vandamálin með haustinu.

 

Nánari upplýsingar:

Um þarfapíramída Maslowsa á Wikipedia


Vitum við og skiljum hvað er í gangi?

Rétt eftir Hrun skildu fáir hvað var í gangi og ríkjandi ríkisstjórn kennt um ófarir heimila. Komið hefur í ljós að sú ríkisstjórn var aðeins hluti af vandanum, rétt eins og ríkjandi ríkisstjórn, strengjabrúður í höndum þeirra sem fara með raunveruleg völd í landinu, hinir ósýnilegu kröfuhafar og eigendur banka og fjármálastofnana með her lagatækna, viðskiptatækna og hagtækna að baki sér, sem hafa eina skoðun á hvernig hlutirnir eiga að vera í þjóðfélagi stjórnað af biluðu hagkerfi, annað en sannir lögfræðingar, viðskiptafræðingar og hagfræðingar sem sjá dýpra og víðar.

Hverjir eru í ríkisstjórn er ekki vandinn, heldur sá að ríkiskerfið sem slíkt er sökkvandi skip, og í stað þess að stökkva frá borði er fólk að berjast um að skipa sér í allar stöður eins og allt sé í himnalagi, og reyna að smíða bátinn upp á nýtt meðan hann siglir í strand. Betra væri að setja bátinn í slipp, hvíla hann aðeins og gefa utanþingsstjórn næði til að smíða nýtt og betra skip. Á endanum er dýrara að laga sífellt það sem er orðið gamalt og úr sér gengið, heldur en að byggja eitthvað nýtt sem er lagað að raunverulegum aðstæðum. Þetta virðast stjórnmálamenn við völd ekki sjá. Þeir horfa ekki á skipið, heldur bara út á sjóndeildarhringinn, hvert skal stefna, og ræða um það því erfitt getur verið að ákveða sig, á meðan einhverjir aðstoðarmenn hamra á hripleknum kilinum.

Ég skynja breytingu í viðhorfum hjá fólki sem bloggar. Það er eins og að taka púls þjóðarinnar að hlusta á þessar raddir. Fyrir búsáhaldabyltingu var fólk gífurlega reitt og vildi refsa þeim sem treyst var til að vernda almenning og í aðgerðarleysi og spillingu höfðu valdið gífurlegu tjóni. Nú er sams konar staða að koma upp hjá þessari ríkisstjórn, reiðin er að springa út þegar fólk skynjar stjórnvöld taka stöðu með bönkum og fjármögnunarfyrirtækjum þrátt fyrir dóm hæstaréttar fólkinu í vil. Stóri munurinn á búsáhaldabyltingunni og deginum í dag er að nú er fólk farið að skilja ástandið, og hefur öðlast þekkingu á aðstæðum.

Skýrslan hefur reynst grunnplagg í að byggja upp þessa þekkingu. Styrkir til stjórnmálamanna og viðbrögð stjórnvalda við dómi hæstaréttar hefur komið fólki í skilning um að það sem lýst er í Skýrslunni, er ennþá í gangi, núna.

Búsáhaldabyltingin leiddi til falls ríkisstjórnar og nýrra kosninga. Ég hef á tilfinningu að fólk skilji að vandinn er dýpri, og að lausnir felast ekki í endurkjöri, heldur hugsanlega í stærri hugmynd eins og þeirri sem Njörður P. Njarðvík hefur stungið upp á, að stofna til Lýðveldisins Íslands, útgáfu tvö. Til samanburðar eru Frakkar víst með lýðveldi númer sjö í gangi, enda sú þjóðarsál oftast meira en tilbúin í að laga það sem virkar ekki, annað en við Íslendingar, sem látum bjóða okkur hvað sem er.

Fyrir búsáhaldabyltingu var krafist nýs Íslands. Kom það fram? Svar mitt er neikvætt. Það eina sem gerðist er að hliðrað var sætum á Alþingi og fólk sem hafði setið þar áratugum saman komst til valda. Það er ekki breyting, það er hliðrun. Eitthvað annað og betra en stjórnmálaflokkar með atvinnustjórnmálamönnum þarf að koma til. Við þurfum að virkja þann dugnað, frumleika og kraft sem íslensk þjóð er þekkt fyrir um allan heim, og beita hann á okkur sjálf, í stað þess að horfa stöðugt út í heim og hneykslast á að aðrir séu þó í meiri vanda en við sjálf.

Við þurfum að líta í eigin barm. Taka stöðuna. Snúa bökum saman. Leggja niður kerfið sem er að sliga góða þjóð, og hugsa upp nýtt kerfi sem hefur hljómgrunn í góðum gildum og viðhorfum, áður en þessi gildi og viðhorf glatast í hvítri mykju hugsunarleysis.


mbl.is Í sjálfsvald sett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband