Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
Nýtt í bíó: Spider-Man 3 (2007) **1/2
9.5.2007 | 00:33
Um daginn þegar ég skrifaði umfjöllun um Spider-Man spáði ég að Spider-Man 3 myndi slá öll aðsóknarmet. Þegar þetta er skrifað hefur hún þegar náð inn 392 milljónum dollara í tekjum um allan heim, en hún kostaði 258 milljónir dollara í framleiðslu og markaðssetningu. Þannig að sú spá stóðst, enda hefur auglýsingaherferðin fyrir myndina verið ævintýralega flott. Því miður stendur myndin ekki undir þessum háu væntingum.
Peter Parker er aldrei þessu vant ánægður með lífið og tilveruna. Hann er byrjaður í sambandi með Mary Jane (Kirsten Dunst) og allir í New York virðast elska hann, fyrir utan besta vin hans, Harry Osborn (James Franco), sem þráir ekkert heitar en að drepa hann. Harry umbreytir sér í ofurhermanninn New Goblin og ræðst á Peter Parker; en fær slæma útreið, lendir á spítala og missir minnið.
Þannig að nú er allt í ennþá betri málum hjá Peter. Harry hefur gleymt að þeir eru óvinir og allt leikur í lyndi, eða þar til Spider-Man verður á kyssa Gwen Stacy (Bryce Dallas Howard) fyrir framan mikinn mannfjölda í New York, og þar á meðal Mary Jane.
Peter skilur ekkert í því þegar Mary Jane er honum reið fyrir kossinn; og hann fær ekki tækifæri til að biðja hennar, eins og hann ætlaði sér. Nú fara hlutirnir að ganga á afturfótunum fyrir hetjuna. Sambandið að hrynja, og slímug geimvera tekur yfir búning hans, sem gerir Peter sterkari, fimari, árásargjarnari og illkvittinn.
Á meðan hann er í þessum ham reynir hann að drepa Harry, særa Mary Jane og útrýma Sandmanninum (Thomas Haden Church), af því að hann er klæddur svarta búningnum sem geimveran stjórnar, en Sandmaðurinn er ólánsamur smákrimmi sem Peter fréttir að var maðurinn sem skaut Ben frænda hans. Sú persóna er alveg út í hött. Handritið reynir að réttlæta glæpi sem hann hefur framið og reynir að vekja með honum samúð þar sem að dóttir hans er lasin og hann þurfti að safna saman peningum til að koma henni í meðferð. Það gleymist algjörlega að í leiðinni verður hann nokkrum saklausum vegfarendum að bana, veltir nokkrum bílum og misþyrmir öryggisvörðum.
Á sama tíma og allt þetta gengur yfir hefur Peter fengið keppinaut við ljósmyndun á Spider-Man, en Eddie Brock (Topher Grace) keppist um að ná stöðu sem Peter ætti réttilega að fá eftir áralanga vinnu við dagblaðið sem J. Jonah Jameson (J.K. Simmons) stjórnar með mikilli heift.
Vandamálið við Spider-Man 3 er að söguþráðurinn er ofhlaðinn nýjum persónum, og engri þeirra er gerð nógu góð skil. Samt eru Kirsten Dunst og James Franco mun betri í þessari mynd heldur en Spider-Man 2, þar sem þau voru áður flöt - en eru nokkuð líflegri núna; en Tobey Maguire virðist vera að missa tökin á persónunni, rétt eins og Sam Raimi virðist vera að missa tökin á leikstjórninni. Mig grunar að þeir séu einfaldlega búnir að þurrausa persónuna, orðnir eitthvað þreyttir á þessu, enda gerði handritið fátt annað en að endurtaka þemu úr fyrstu tveimur myndunum, annars vegar að með miklum mætti fylgi mikil ábyrgð og hins vegar að mikilvægt sé að vanda valið á mikilvægum ákvörðunum.
Mesti galli Spider-Man 3 er handritið sjálft; það er einfaldlega ofhlaðið hugmyndum sem skynsamlegra hefði verið að dreifa yfir tvær kvikmyndir en setja í eina, og þar að auki er enga yfirvegun að finna í samtölunum eins og í fyrri tveimur myndunum, þar sem maður hafði á tilfinningunni að ekki einhver klisja, heldur sæmilega djúp skilaboð væru undir yfirborðinu.
Tæknibrellurnar eru flottar, hasaratriðin vel gerð, hljóðið mjög gott og myndatakan glæsileg, en það er bara ekki nóg þegar dramað klikkar. Það eru mörg góð atriði í Spider-Man 3, og gaman loksins að sjá Venom birtast; en hann er frekar illa nýttur og virðist fyrst og fremst vera þarna bara til að vera þarna.
Ég hefði gefið myndinni þrjár stjörnur ef ekki hefði bæst ofan á það sem ég hef minnst á hreint hryllilega væminn endir, þar sem í einu og sama atriðinu ofleika Tobey Maguire og Kirsten Dunst þannig að mín viðbrögð voru að mér fannst þetta frekar fyndið, en samúð var sjálfsagt það sem leikstjórinn var að leita eftir frá áhorfendum. Auk þess er einfaldlega illa gengið frá lausum endum. Ætli framleiðsla myndarinnar hafi ekki verið á síðasta snúningi og þeim ágætu listamönnum sem komu að gerð hennar ekki gefist færi á að fínpússa hana.
Því miður get ég ekki mælt með Spider-Man 3. Það er bara ekkert nýtt þarna, þó að hún sé augnakonfekt. Þó er hægt að hafa gaman að henni, en til þess þyrfti helst að skilja heilann eftir heima.
Allt toppmyndir
7.5.2007 | 08:01
Ég er innilega sammála þessu með einni undantekningu, og viðurkenni að þó að ég hafi horft oftar á karlmannsmyndirnar, hef ég einnig mjög gaman af Dirty Dancing, Grease, Sound of Music og Pretty Woman. Um daginn keypti ég mér Pretty Woman á DVD og fékk háðsglósur fyrir frá nokkrum félögum mínum. Sem er nú svosem allt í lagi, - en góð mynd engu að síður. Verð að taka þessar myndir fyrir í gagnrýni einhvern daginn, auk Hringadróttinssögu, sem mér finnst að mætti vera númer 1 á báðum listum.
Fimm efstu myndirnar hjá körlum eru:
- Stjörnustríðs myndirnar þrjár
- Aliens
- The Terminator
- Blade Runner
- The Godfather
- Dirty Dancing
- Stjörnustríðs myndirnar þrjár
- Grease
- The Sound of Music
- Pretty Woman
Geta horft aftur og aftur á Stjörnustríðsmyndirnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10. Óskarsverðlaunin: The Life of Emile Zola (1937) ***1/2
6.5.2007 | 22:29
Ég ætla að horfa á allar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðum frá upphafi. The Life of Emile Zola frá 1937 er sú tíunda í röðinni.
Emile Zola (Paul Muni) er fátækur rithöfundur í París sem deilir stúdíóíbúð með listmálaranum Paul Cezanne (Vladimir Sokoloff). Einn daginn sitja þeir félagar inni á kaffihúsi þegar vændiskonan Nana (Erin O'Brien-Moore) flýr þangað undan lögreglunni, en vinirnir bjóða henni sæti og vernda gegn ofsóknum lögreglunnar. Báðir finna þeir innblástur með Nana, en Cezanne teiknar af henni mynd og Zola skrifar um hana bók sem rokselst og gerir hann að vellauðugum manni.
Zola heldur áfram að skrifa. Rit hans eru yfirleitt gagnrýnin á stofnanir og hörmulegu ástandi almúgans sem hann verður vitni að. Fyrir vikið verður hann gífurlega vinsæll, en jafnframt umdeildur penni. Árin líða og Zola missir smám saman áhuga á mannúðarskrifum og gagnrýni. Honum finnst gott að borða og safnar að sér allskonar listmunum alls staðar að úr heiminu. Cezanne, hans gamli vinur, minnir hann á að velgengnin hafi hugsanlega stigið honum til höfuðs.
Þegar Alfred Dreyfus (Joseph Schildkraut), kafteinn í hernum og fjölskyldufaðir, er gerður að blóraböggli fyrir landráð sem einhver innan hæstu raða hersins hefur staðið fyrir - en hershöfðingjarnir ákveða að Dreyfus sé sá seki og byggja mál sitt á því að hann sé af gyðingaættum, og því hljóti hann að vera svikarinn. Dreyfus er gefinn kostur á að svipta sig lífi eða fara fyrir herrétt. Þar sem að hann er blásaklaus krefst hann þess að fá sakleysi sitt sannað. Herréttur dæmir hann til ævilangrar fangavistar, án samskipta við nokkurn mann.
Eiginkona saklausa hermannsins, Lucie Dreyfus (Gale Sondergaard) trúir á sakleysi hans, og leitar til Emile Zola og biður hann um hjálp við að sanna sakleysi manns hennar. Eftir langa umhugsun ákveður Zola að skera upp herör gegn franska hernum, en hann telur sig hafa nóga miklar upplýsingar til að vera sannfærður um sakleysi Dreyfus, enda hefur að auki annar háttsettur foringi í hernum fullyrt að Dreyfus sé saklaus og að hinum raunverulega sökudólgi verið sleppt lausum vegna klúðursins við dóminn um Dreyfus.
Zola skrifar grein til forseta lýðveldisins um spillingu innan hersins. Fyrir vikið er hann kærður af hernum og skipað að gera orð sín ómerk. Hann neitar að gera það og fær snjallan lögfræðing til að verja sig gegn þessum ásökunum, en ætlun hans er að afhjúpa sannleikann í máli Dreyfus með því að ræða um forsendur þess í tengslum við hans eigin ásakanir.
Myndin er stórvel leikin, og þá sérstaklega af Paul Muni í titillhlutverkinu og Joseph Schildkraut í hlutverki Dreyfus sem dæmdur er saklaus og þarf að dvelja mörg ár í prísundinni. Samtölin eru djúp og skörp; og einfaldlega svo rík að maður gæti ekki beðið um meira prótein fyrir heilasellurnar og mannúðarsálina.
Það sem helst situr eftir er þessi orka sem Emile Zola finnur í sjálfum sér þegar hann uppgötvar hversu mikið verk er fyrir höndum við það að gagnrýna ríkjandi kerfi og afhjúpa sannleikann sem alltof margir reyna að hylja sjálfum sér til frama.
Ég mæli sterklega með The Life of Emile Zola.
Óskarsverðlaun:
Besta kvikmynd: Henry Blanke
Besta handrit: Heinz Herald, Geza Herczeg, Norman Reilly Raine
Besti leikari í aukahlutverki: Joseph Schildkraut
Tilnefningar:
Besti leikstjóri: William Dieterle
Besta listræna stjórnun: Anton Grot
Besta hlóðblöndun: Nathan Levinson
Besti leikari í aðalhlutverki: Paul Muni
Besti aðstoðarleikstjóri: Russell Saunders
Besta tónlist: Leo F. Forbstein
Aðrar kvikmyndir sem valdar hafa verið besta mynd ársins:
Wings (1928) ****
The Broadway Melody (1929) *1/2
All Quiet on the Western Front (1930) ****
Cimarron (1931) ***1/2
Grand Hotel (1932) ***
Cavalcade (1933) ***
It Happened One Night (1934) ****
Mutiny on the Bounty (1935) ****
The Great Ziegfeld (1936) ***
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 23:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Spider-Man 2 (2004) ***1/2
4.5.2007 | 22:34
Peter Parker (Tobey Maguire) hefur ákveðið að fórna einkalífi sínu til að geta látið gott af sér leiða sem ofurhetjan Spider-Man. Hann er hræddur um að ef hann leyfi öðrum manneskjum að komast of nálægt sér persónulega, þá munu illmenni nýta sér það gegn honum, rétt eins og Green Goblin (Willem Defoe) gerði í fyrri myndinni, þar sem að hann réðst bæði á ástkæra frænku Peter; May Parker (Rosemary Harris) og á stúlkuna sem hann elskar; Mary Jane Watson (Kirsten Dunst). Besti vinur hans, Harry Osborn (James Franco), er hundfúll út í hann fyrir að taka ljósmyndir af Spider-Man og gefa ekki upp hver hann er, enda telur Harry að Spider-Man hafi myrt föður hans.
Peter Parker á aðeins þrjá vini í öllum heiminum: May frænku, Mary Jane og Harry Osborn. Hann hefur fjarlægst May frænku frá því að Ben frændi hans (Cliff Robertson) var myrtur og hann telur sjálfan sig ábyrgan fyrir dauða hans. Hann hefur fjarlægst Harry vegna dauða föður hans, og hann hefur fjarlægst Mary Jane af því að hann vill halda henni í öruggri fjarlægð.
Allt í einu kemur upp sú staða að bæði Mary Jane og Harry hafa gefist upp á honum. Í sömu veislunni opinberar Mary Jane trúlofun sína við John Jameson (Daniel Gillies), geimfara og son ritstjórans J. Jonah Jameson (J.K. Simmons) og Harry slær Peter utan undir fyrir að vera lélegur vinur. Ofan á þetta kemur að Peter játar fyrir frænku sinni hlut sinn í dauða Ben, og þar að auki gengur honum illa í skólanum, hefur verið rekinn sem pizzasendill og er skítblankur. Um stund virðist líf hans vera í rúst.
Til að bæta gráu ofan á svart verður til nýtt ofurillmenni þegar vísindamaðurinn Dr. Otto Octavius (Alfred Molina) reynir að búa til nýja smásól sem framtíðar orkugjafa. Til að stilla smásólina af notar hann fjóra langa vélararma með gervigreind sem hann hefur tengt við mænuna á sér. En tilraunin fer til andskotans, eiginkona Dr. Octavius, Rosalie Octavius (Donna Murphy) deyr í slysinu og Spider-Man mætir á staðinn til að kippa tilrauninni úr sambandi. Örgjörvinn sem Dr. Octavius notar til að stjórna hreyfiörmunum eyðileggst í látunum, og fyrir vikið missir hann stjórn á þeim, en þeir ná stjórn á honum.
Allt þetta stress sem Peter Parker upplifir í einkalífinu verður til þess að hann langar ekki lengur til að vera Spider-Man. Þetta veldur því að Peter Parker missir ofurkraftana, hættir að sjá jafn vel og getur ekki lengur skotið vef eða klifið veggi. Hann er sáttur við það og hendir búningnum í ruslið, ákveðinn að hætta því að vera Spider-Man.
Við taka góðir dagar hjá Peter Parker. Honum tekst að bæta örlítið samskiptin við þá fáu vini sem hann á, og tengjast nýjum einstaklingum, eins og nágranna sínum, Ursula (Mageina Tovah), stúlku sem virðist vera hrifin af honum. Skólinn fer að ganga betur, og jafnvel Mary Jane er farin að sýna honum athygli á ný þegar ósköpin dynja yfir.
Dr. Octavius þurfti eldsneyti til að ljúka við að búa til nýja sól. Eini maðurinn sem gæti keypt slíkt handa honum er Harry Osburn. Þeir gera samning. Ef Dr. Octavius kemur Spider-Man í hendur Harry, þá fengi hann eldsneytið.
Peter og Mary Jane eru á kaffihúsi, og við það að kyssast, þegar bíll flýgur inn um gluggann og yfir þau. Dr. Octavius er kominn til að fá upplýsingar um hvar hann getur fundið Spider-Man, og hann heldur að Peter sé rétti maðurinn til að útvega þær. Hann tekur Mary Jane í gíslingu, og segir honum að koma ákveðnum skilaboðum til Spider-Man, annars muni hann drepa hana.
Við þetta fær Peter ofurkraftana aftur, klæðist búningnum og sveiflar sér í langan og strangan bardaga gegn Dr. Octavius, sem meðal annars felur í sér magnað atriði yfir, innan í og fyrir framan stjórnlausa hraðlest.
Spider-Man 2 fjallar um mikilvægi þess að huga að eigin vandamálum og leysa þau í samhengi við annað sem maður gerir í lífinu. Það er ekki hægt að vera tvær manneskjur í einum líkama. Þetta minnir á togstreituna milli þess persónulega og þess faglega, og hvernig þætta verður þetta tvennt saman til að manneskja getur lifað farsælu lífi. Ef þú aðskilur algjörlega þitt faglega og persónulega líf, er spurning hvort þú lifir lífi sem vert er að lifa.
Þó að ég sé hrifinn af Spider-Man 2 finnst mér hún ekki jafngóð og fyrsta myndin. Í fyrsta lagi er litasamsetningin í framhaldinu ekki jafn björt og í þeirri fyrstu, sem er reyndar bara spurning um smekksatriði. Fyrir utan það fannst mér Kirsten Dunst og James Franco alls ekki standa sig vel í hlutverkum sínum, og í stað dýptar sem ég varð var við í fyrri myndinni, fannst mér persónur þeirra orðnar flatar og óáhugaverðar.
Aftur á móti eru þeir Tobey Maguire og Alfred Molina frábærir í sínum hlutverkum, auk þess að tæknibrellurnar eru trúverðugri en í þeirri fyrri - það er eins og þyngdaraflið hafi verið reiknað betur inn í hreyfingar persónanna; og hver einasti hlutur sem hreyfist virðist gera það í réttri þyngd. Tæknibrellurnar höfðu semsagt skánað en leikurinn er ekki jafn góður. Það hefur sjálfsagt eitthvað með handritið að gera, sem er skrifað af Alvin Sargent í þetta skiptið, en David Koepp, ansi mistækur en hugmyndaríkur handritshöfundur, hafði skrifað fyrri myndina, og mun víst skrifa þá fjórðu líka, auk Indiana Jones 4, sem kemur út á næsta ári; en til gamans má geta að Alfred Molina lék einmitt lítið hlutverk í fyrstu myndinni um Indiana Jones: Raiders of the Lost Arc.
Ég mæli hiklaust með Spider-Man 2, en veit samt af nokkrum einstaklingum sem þola hana ekki; finnst hún hræðileg, og af öðrum sem finnst hún betri en Spider-Man.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Stórmyndir: Spider-Man (2002) ****
3.5.2007 | 23:44
Spider-Man 3 verður frumsýnd á morgun. Ég spái því að hún muni slá öll aðsóknarmet og verða meðal vinsælustu kvikmynda allra tíma. Mér finnst við hæfi að birta gagnrýni á Spider-Man frá 2002 í dag, og síðan umfjöllun um Spider-Man 2 (2004) á morgun. Eftir það mun ég skella mér á bíó við fyrsta tækifæri til að bera nýjustu útgáfuna augum.
Ég viðurkenni fúslega að ég er svolítið veikur fyrir ofurhetjumyndum og myndskreyttum skáldsögum um ofurhetjur, enda eru þær oftast blanda af þremur frásagnaformum sem ég er hrifinn af: vísindaskáldsögum, fantasíum og drama. Möguleikarnir fyrir frásagnargleði eru óþrjótandi í heimi ofurhetja.Peter Parker (Tobey Maguire) er nemandi í framhaldsskóla sem staddur er í vítahring eineltis. Hann er vísindanörd, með lélega sjón og svolítill væskill. Hann hefur verið hrifinn af Mary Jane Watson (Kirsten Dunst) frá sex ára aldri, en þarf stöðugt að horfa upp á hana í sambandi með ömurlegum karlmönnum. Hún fær slæma meðferð frá föður sínum, lendir í sambandi með mesta töffara en jafnframt hálfvita skólans, Flash Thompson (Joe Manganiello), og síðan með Harry Osborn (James Franco), besta vini Peter.
Faðir Harry er vísindamaðurinn og auðkýfingurinn Norman Osborn (Willem Dafoe) sem vinnur að þróun öflugra vopna fyrir herinn. Þegar tilraun hjá honum fer úr böndunum, missir hann vitið, fær ofurkrafta og ákveður að nota tækin sem hann hefur þróað í eigin þágu, í gervi Green Goblin. En nú er ég kominn framúr mér.
Á rannsóknarstofu um erfðagreiningu er Peter Parker bitinn af kónguló sem hefur verið sett saman úr mörgum ólíkum tegundum kóngulóa. Þegar hann vaknar næsta dag þarf hann ekki að nota gleraugu, sér vöðvabúnt í speglinum og uppgötvar að hann er orðinn gjörbreyttur maður, með ofurkrafta frá kóngulónni. Það er stórskemmtilegt að fylgjast með þegar hann uppgötvar vefinn sem skýst út úr úlnliðum hans (upphaflega í teiknimyndasögunum hafði Peter Parker hannað tæki sem hann setti utan um úlnliðina), og þegar hann uppgötvar kóngulóartilfinninguna - en þá nemur hann allt í umhverfinu á ofurhraða og getur brugðist við öllu áreiti með mikilli fimi. Einnig er gaman að því þegar hann klifrar sinn fyrsta vegg og stekkur á milli húsþaka og síðan stórhýsa á frekar spaugsaman hátt.
Tæknibrellurnar eru skemmtilega gerðar, en ná þó ekki að sannfæra mig 100%, enda finnst mér óraunhæft að krefjast þess af kvikmyndagerðarmönnunum. Það er eins og þyngdaraflið virki ekki alltaf alveg rétt. Spennuatriðin þar sem Spider-Man sveiflar sér á milli bygginga og lúskrar á glæpamönnum eru góð, en frumkrafturinn í myndinni felst í gífurlega vel skrifuðu handriti David Koepp og Stan Lee, með góðri persónusköpun, samtölum og leik. Sambandið á milli Peter Parker, Mary Jane Watson og Harry Osborn er klassískur ástarþríhyrningur sem getur aðeins endað með ósköpum; sérstaklega þegar faðir Harry dýrkar Peter sem Norman Osborn en hatar hann sem Green Goblin.
Einnig er samband Peter við frænku sína og uppalanda, May Parker (Rosemary Harris) mjög vel útfært, svo og frumforsenda þess að Peter ákveður að nota krafta sína til góðs frekar en í eigin þágu; en hann hafði með aðgerðarleysi sínu þegar hann hleypti glæpamanni framhjá sér, óbeint valdið dauða frænda síns Ben (Cliff Robertson), en sami glæpamaðurinn og hann hafði sleppt framhjá sér skaut Ben banaskoti.
"Remember, with great power comes great responsibility" (Ben frændi).
Með samviskubit yfir dauða frænda sinn og ábyrgðartilfinningu til að sjá fyrir frænku sinni, sættir hann sig við það sem Ben frændi hans hafði sagt honum um aukinn þroska, að miklum krafti fylgi mikil ábyrgð. Peter flytur til New York borgar, byrjar í háskólanámi og fær aukastarf sem ljósmyndari fyrir dagblaðið The Daily Bugle, sem rekið er af æsifréttaritstjóranum J. Jonah Jameson (J.K. Simmons) sem er sannfærður frá fyrsta augnabliki að Spider-Man sé ekkert annað en ótýndur glæpamaður.
Þetta gerir Spider-Man einmitt að góðri mynd, hún hefur þema sem skiptir máli og sýnir hvað gerist ef menn sýna ekki ábyrgð. Norman Osborn fær gífurlega krafta en er knúinn áfram af reiði og hefndarfýkn, á meðan Peter Parker fær jafnmikla krafta en gerir allt sem í hans valdi stendur til að breyta rétt. Alla myndina slær þessi siðferðilegi púls sem tengist frelsi og ábyrgð; en vissulega er frelsið einmitt sá mikli kraftur sem vesturlandabúar höndla í dag. Stóra spurningin sem aðrar þjóðir spyrja sig að sjálfsögðu er sú hvort að vesturlöndin, og þá sérstaklega Bandaríkin, séu líkari Green Goblin, sem bregst við minnsta áreiti með ofbeldi og ofsa; eða Spider-Man, sem gerir sitt besta til að leysa vandamálin með eins litlu valdi og mögulegt er.
Tobey Maguire stendur sig stórvel í aðalhlutverkinu og nær góðu sambandi við Kirsten Dunst. Willem Dafoe er einnig stórgóður. Sam Raimi heldur traust um stjórnvölinn sem leikstjóri og tónlistin eftir Danny Elfman er eins og kvikmyndatónlist á að vera, truflar ekki söguna, heldur blæs ferskum anda í persónurnar.
Engin spurning að ég mæli hiklaust með Spider-Man, þrátt fyrir að ég kannist við nokkra kauða sem segjast ekki þola þessar myndir. Sonur minn spurði mig í dag hvort að ég ætlaði að sjá Spider-Man 3. Svarið var: Ja-há!
Óskarsverðlaunatilnefningar:
Bestu tæknibrellur: John Dykstra, Scott Stokdyk, Anthony LaMolinara, John Frazier
Besta hljóðrás: Kevin O'Connell, Greg P. Russell, Ed Novick
Nýtt í bíó: Next (2007) **1/2
2.5.2007 | 17:52
Chris Johnson (Nicolas Cage) hefur frá barnsaldri getað séð tvær mínútur inn í framtíð sem tengd er hans persónulegu reynslu. Hann getur ekki séð inn í framtíð annarra. Hann uppgötvar að þegar hann er í návist stúlku, Liz (Jessica Biel), sem hann rekst á fyrir tilviljun á kaffihúsi getur hann séð allt að tólf mínútur fram í tímann. Hann furðar sig á þessu og vill ólmur kynnast henni betur, enda er hún með glæsilegri konum.
FBI fulltrúinn Callie Ferris (Julianne Moore) hefur áttað sig á þessum hæfileikum Chris, og vill samstarf með honum þar sem að hann gæti hjálpað til við að finna kjarnorkusprengju sem smyglað hefur verið inn í Bandaríkin af evrópskum hryðjuverkamönnum.
Á sama tíma eru hryðjuverkamennirnir að hlera FBI og komast að mikilvægi Chris Johnson, en vita ekki af hverju hann er mikilvægur, þannig að þeir ákveða að drepa hann áður en FBI nær til hans.
Þannig hefst mikill eltingarleikur. Hryðjuverkamenn elta FBI sem eltir Chris sem eltir Liz. Chris nær Liz og sefur meira að segja hjá henni. FBI nær Liz og hvetur hana til að svíkja Chris með því að stinga svefnlyfi í drykkinn hans. FBI nær Chris, en hryðjuverkamennirnir ná Liz, og því þarf Chris að hjálpa FBI til að ná hryðjuverkamönnunum svo að hann geti náð Liz aftur. Kannski myndin hefði betur mátt heita 'Getting There'. Flókið? Ekkert svo.
Það eru nokkur skondin og snjöll atriði í Next sem tengjast því hvernig Chris stjórnar atburðarrás vegna þess hversu auðveldlega hann getur séð inn í framtíðina. Til dæmis getur hann prófað fjölmargar línur til að ná athygli Liz, án þess nokkurn tíma að framkvæma þær, fyrr en hann sér fram á hvernig hann getur náð árangri. Það er í raun besti hluti myndarinnar sem minnir skemmtilega á Groundhog Day (1993), þar sem Bill Murray fór á kostum sem sjálfselskur veðurfréttamaður sem upplifði í nokkur hundruð eða jafnvel þúsund ár sama daginn.
Annað skemmtilegt atriði sýnir Chris leita að manneskju í rangölum, en þar skiptir hann sér upp í margar mögulegar framtíðir þar til hann finnur það sem hann leitar að, og þá fyrst fer hann sjálfur þangað. Því miður veldur endirinn miklum vonbrigðum, því að hann er alls ekki í anda þess sem áður hefur gengið á. Sjálfsagt átti þessi endir að þykja snjall, - og ég get skilið af hverju kvikmyndamönnunum hefur þótt hann það, en hann virkar bara því miður ekki.
Ég var nokkuð ánægður með að ekkert var reynt að útskýra hvernig Chris fékk þessa eiginleika eða hvað var í raun og veru í gangi. Hann bara fæddist svona. Hvort hann nýtir hæfileikana til að vera skúrkur eða ofurhetja er hans val.
Next vekur mig til umhugsunar um mikilvægi þess að taka góðar ákvarðanir á réttu augnabliki og af réttum ástæðum; nokkuð sem að kvikmyndagerðarmennirnir hefðu mátt hafa í huga áður en þeir sendu myndina endanlega frá sér. Eftir smá umhugsun um mögulegar afleiðingar gjörða þinna, getur þessi umhugsun gjörbreytt því hvernig þú hagar þér, og þannig allri þinni framtíð. Þetta finnst mér flott pæling og er nokkuð sáttur við að hafa þó fengið hana út úr myndinni.
Annars er Next ágætis stundargaman, en þar sem hún veldur vonbrigðum með slökum endi og frekar slöppum samtölum í handritinu og leik sem hangir í meðalmennsku, þá hef ég sterka fyrirvara þegar ég mæli með henni.
Nýtt í bíó: Pathfinder (2007) 1/2
1.5.2007 | 23:11
Ghost (Karl Urban) er víkingastrákur sem ættbálkur frumbyggja í Bandaríkjunum finna innan í víkingaskipi sem einhvern veginn hefur strandað á þeirra slóðum. Inniheldur skipið fullt af líkum sem hlekkjuð eru við skipið. Með drengnum kemur sverð með fagurskreyttu hylti, rúnum á blaðinu og egg sem virðist geta sneitt gegnum hvað sem er.
Ættbálkurinn tekur drenginn að sér. Ég vil taka strax fram að þeir tala bandaríska ensku, svona til að viðhalda sögulegri nákvæmni. Ghost vex úr grasi án þess að fá fulla viðurkenningu sem einn hinna 'hugdjörfu' í hópnum. Það er vegna litarháttar hans, og einmitt vegna hvíta hörundsins er hann kallaður 'vofan'. Hann er gífurlega vel vaxinn og fimur með sverð, enda er hann alltaf skilinn útundan og æfir sig þá í sverðfimi. Allt hljómar þetta næstum því ágætlega og sagan virðist hugsanlega hafa eitthvað innihald.
En þá birtast víkingar undir forystu Gunnars (Clancy Brown) og drepa allar þær persónur sem mynduðust nokkuð vel og virtust hugsanlega geta orðið góðar, eins og fósturforeldra og Ghost. Það er sorglegt hversu misnotaður Clancy Brown er í þessari mynd, en hann hefur oft sýnt snilldartakta, eins og sem Victor Kruger í Highlander (1986) og fangavörðurinn Byron T. Hadley í The Shawshank Redemption (1994). Hérna er hann óþekkjanlegur á bakvið mikið og úfið skegg, drulluskítugur og með hjálm sem hylur það litla af andlitinu sem annars væri sýnilegt, og þar að auki er hans frábæra rödd misnotuð hrikalega til að flytja setningar á næstum-íslensku.
Eftir þetta snýst myndin um hefnd Ghost á ættbálki sínum og innri baráttu úlfanna tveggja: ásts og hatur sem bítast um völd í hjarta hans - svo ég noti myndhverfingu sem notuð er í myndinni af Starfire (Moon Bloodgood), stúlkunni sem Ghost er hrifinn af.
Víkingarnir tala eitthvað mál sem hljómar stundum eins og þágufallssjúk íslenska eða óskiljanlegt hrafl. Clancy Brown nauðgar okkar ástkæra tungumáli með hverri setningu sem hann reynir að staula út úr sér, en er loks slegið við þegar Karl Urban byrjar allt í einu að tala á þágufallssjúkri íslensku.
Reyndar var mikið hlegið í salnum, og þá yfirleitt með hneykslunarkippum, þegar þessir fagmenn fóru vörum og tungu um okkar ylhýra mál. Íslenskan hefur ekki fengið jafn alvarlega aðförð síðan Sonja Henie lék aðalhlutverkið í skautamyndinni Iceland (1942).
Söguþráðurinn snýst um það hvernig Ghost drepur víkingana einn af öðrum, þar til hann er handsamaður, og af einhverjum ástæðum knúinn til að leita uppi ættbálk nágranna sinna, - en hann er svo snjall að honum dettur í hug að tæla heimsku víkingana á slóðir sem þá getur ekki grunað að séu hættulegar, eins og á þunnan ís og mjóar klettasillur þar sem mikill snjór er efst í fjallinu.
Þetta gæti kannski verið ágætur spennutrylilr með þessari sögu ef framkvæmdin væri trúverðug og vel gerð á einhvern hátt. Hún er það ekki. Litrófið í myndinni er flatt og blágrátt. Bardagaatriðin eru hræðilega útfærð. Ghost virðist vera á sjö tímum samtímis og alltaf að drepa sama víkinginn.
Eitt atriði sem sýnir vel gæði myndarinnar er þegar Ghost er á flótta undan víkingunum. Hann leggur undir sig skjöld og rennir sér niður snævi þakið fjall, en taktu eftir; hann var ofarlega í fjallinu þar sem að hann hafði geymt snjósleðann sinn. Áður en varir eru næstum tugur víkinga á eftir honum, tveir á hverjum sleða og renna sér niður brekkuna á eftir honum eins og ólympíumeistarar í íþróttinni; skjóta meira að segja örvum af nokkuð mikilli fimi á fleygiferð niður brekkuna.
Ég gæti trúað því að Karl Urban hafi drepið feril sinn sem kvikmyndaleikari með þessari mynd, en þekktastur er hann sjálfsagt fyrir að hafa leikið Eomer í The Lord of The Rings (2002-2003). Þegar ég kíkti yfir höfunda myndarinnar tek ég eftir að handritshöfundurinn er enginn annar en Laeta Kalogridis, en þetta er þriðja myndin sem hann skrifar. Ég hef séð hinar tvær og þótti þær hreint hörmulegar. Sú fyrri var hin rússneska Night Watch (2004) og sú síðari var versta kvikmynd sem Oliver Stone hefur látið frá sér fara: Alexander (2004). Spurning hvort að maður passi sig ekki á þessum handritshöfundi hér eftir.
Ég vildi óska að ég gæti sagt eitthvað jákvætt um þessa mynd, en tæknibrellurnar voru meira að segja frekar slappar. Það versta var hversu leiðinlegt var að sitja í kvikmyndasalnum og bíða eftir að hún kláraðist.
Pathfinder er illa leikin mynd, illa kvikmynduð og leiðinleg. Ég tek það fram að oft hef ég mjög gaman af innihaldslausum hasarmyndum, en þessi virkaði einfaldlega engan veginn. Ástæðan liggur fyrst og fremst í handritinu sem er jafn líklegt til þess að gefa listamönnum innblástur og handrit skrifað af tólf öpum á eina ritvél án leiðréttingarbúnaðar, í lokuðu herbergi og á einni viku. Maður þyrfti að vera í mjög sérstöku ástandi til að geta notið þessarar myndar, - fyrir utan íslenskuna sem gaf tilefni til hláturs. Fyrir það fær myndin hálfa stjörnu. Sko! Ég fann eitthvað jákvætt, og svo var poppið líka fínt.
Spurning hvort að Íslendingar skuli ekki gera sig að algerum fíflum með því að fylgja fordæmi Írana og reyna að fá myndina bannaða um allan heim vegna þess að hún gefur skakka mynd af víkingum og íslenskunni, eins og kom fram í þessu bloggi hérna: Ættu Íslendingar þá ekki að láta banna Pathfinder?
Alþingiskosningar 2007 - Stefnur allra flokka
1.5.2007 | 10:16
Ég tók saman á einum stað stefnur stjórnmálaflokkana sem ætla að bjóða fram til Alþingis árið 2007. Mér finnst lítið mark takandi á auglýsingum og framboðsræðum rétt fyrir kosningar, en held að stefna viðkomandi flokks skipti öllu máli.
Þess vegna tók ég saman þær stefnur sem hægt var að finna á heimasíðum flokkana og setti þær allar í eitt skjal, sem ég vil síðan fjalla um út frá heilbrigðri skynsemi og gagnrýnni hugsun í síðari færslum.
Þar sem að okkur er ætlað að kjósa flokka, en ekki persónur, vil ég einfaldlega útiloka þá skoðun sem ég gæti haft á ólíkum persónum innan ólíkra flokka, og einbeita mér aðeins að stefnumálunum. Með þessu verkefni vil ég einfaldlega gera sjálfum mér fært að sjá betur hverjir koma til greina í mínu eigin vali. Ef þessar pælingar gagnast öðrum lesendum er það bara bónus.
Opið er fyrir athugasemdir.
Notið tenglana hérna fyrir neðan, þeir vísa í stefnurnar neðar í skjalinu:
Baráttusamtök eldri borgara og öryrkja.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð.
Íslandshreyfingin - lifandi land.
Baráttusamtök eldri borgara og öryrkja
Vegna óviðunandi kjara, sífelldra skerðinga á bótum og almenns skeytingarleysis stjórnvalda um kjör eldri borgara, öryrkja og annarra sem búa við bágan hag; höfum við ákveðið að bjóða
fram til alþingis í maí 2007.
Framsóknarflokkurinn
Stefna: Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.
I. Þjóðfélagsgerð: Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.
II. Mannréttindi: Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.
III. Jafnræði þegnanna: Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.
IV. Mannauður: Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi.Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.
V. Stjórnarfar: Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.
VI. Hagkerfi: Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.
VII. Alþjóðasamfélagið: Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna. Við viljum að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum eigi að byggjast á viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsákvörðunar.
III. Náttúrugæði: Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.
IX. Búsetuskilyrði: Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.
X. Stjórnmálin: Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð eru á hófsemi og heiðarleika.
Frjálslyndi flokkurinn
Frjálslyndi flokkurinn leggur áherslu á stefnumörkun sína eins og hún hefur verið sett fram í málefnahandbók flokksins. Flokkurinn leggur auk þess áherslu á þessi atriði:
Frjálslyndi flokkurinn leggur áherslu á virðingu fyrir einstaklingnum og nauðsyn fjölbreytts mannlífs.
Frjálslyndi flokkurinn berst fyrir samfélagi umburðarlyndis, réttlætis og jafnræðis þar sem þegnarnir eru virkir þáttakendur og bera ábyrgð á sjálfum sér og samfélaginu.
Frjálslyndi flokkurinn berst fyrir réttlátu samfélagi þar sem fólkið í landinu, hefur fullan rétt á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.
Frjálslyndi flokkurinn ítrekar að kjarni stjórnmálastefnu flokksins og grundvöllur er að hver einstaklingur viðurkenni rétt annarra til frjálsrar hugsunar, trúar, tjáningar og frelsis til að kjósa sér eigin lífsstíl.
Frjálslyndi flokkurinn leggur áherslu á hagsmuni fjölskyldunnar sem grunneiningar þjóðfélagsins.
Samstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
Ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur farið með völd í landinu í meira en áratug. Á þeim tíma hefur skattheimta aukist sem aldrei fyrr. Skattastefna ríkisstjórnarinnar hefur valdið auknu óréttlæti í þjóðfélaginu og stuðlað að því að gera nokkra einstaklinga ofurríka, en aukið álögur á aldraða og öryrkja.
Ríkisútgjöld hafa aukist meir en annars staðar í okkar heimshluta. Samt sem áður skortir á að þeir, sem þurfa virkilega á aðstoð samfélagsins að halda, búi við mannsæmandi kjör.
Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir viðhaldi rangláts fiskveiðistjórnunarkerfis þar sem nokkrir aðilar njóta alls arðs af þessari sameiginlegu auðlind þjóðarinnar.
Spilling núverandi valdhafa hefur birst í mörgum myndum. Frjálslyndi flokkurinn minnir á hvernig staðið hefur verið að einkavæðingu ríkisfyrirtækja, sem hefur gert vildarvini ríkisstjórnarflokkanna ofurríka með úthlutun á ríkiseignum
Auk þess er vaxtaokrið það mesta sem þekkist í Evrópu. .
Frjálslyndi flokkurinn krefst breytinga í þjóðfélaginu og mun beita sér af öllu afli fyrir:
Breyttri skattastefnu sem m.a. felur í sér hækkun skattleysismarka í kr. 150.000 og heimild bótaþega til að afla sér tekna, án þess að bætur til þeirra séu skertar.
Afturköllun þjóðlendukrafna.
Aðhaldi í ríkisrekstri
Afnámi gjafakvótakerfisins.
Þjóðarátaki í samgöngumálum til að tryggja hagsmuni byggða og stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi og mannlífi.
Skipun rannsóknarnefndar til að kanna misnotkun við ráðstöfun ríkiseigna.
Afnámi verðtryggingar og vaxtaokurs.
Sambærilegu vöruverði og tíðkast í nágrannalöndunum.
Afnámi sérstakra lífeyrisréttinda stjórnmálamanna.
1. Velferðarmál: Málefni aldraðra og öryrkja, heilbrigðismál og lífeyrissjóðir.
Frjálslyndi flokkurinn berst fyrir raunverulegri velferð. Í því felst að þeir sem þurfa á aðstoð að halda fái hana og búi við mannsæmandi kjör. Frjálslyndi flokkurinn berst fyrir hagsmunum aldraðra og hagsmunum þeirra, sem þurfa á aðstoð að halda og leggur ríka áherslu á að fólki sé hjálpað til sjálfshjálpar.
Frjálslyndi flokkurinn leggur áherslu á að félagslegt öryggi sé forsenda þess að fólk fái notið mannsæmandi lífs og njóti sín sem einstaklingar.
Góð heilbrigðisþjónusta er mikilvægur þáttur velferðarkerfisins.
Frjálslyndi flokkurinn telur nauðsynlegt að taka stjórnkerfi heilbrigðiskerfisins til endurskoðunar og tryggja að þeir miklu fjármunir, sem varið er til heilbrigðismála, nýtist sem best.
Frjálslyndi flokkurinn mun beita sér fyrir að biðlistum á sjúkrahúsum verði útrýmt.
Frjálslyndi flokkurinn vill að byggðar verði í stórauknum mæli íbúðir fyrir öryrkja ogn aldraða á næstu fjórum árum.
Frjálslyndi flokkurinn vill bæta sérstaklega hag barnmargra fjölskyldna.
2. Sjávarútvegsmál.
Stefna Frjálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum og afstaða hans til núverandi fiskveiðistjórnunarlaga er óbreytt. Frjálslyndi flokkurinn hefur mótað skýra stefnu sem byggist á að eftirfarandi meginatriði séu uppfyllt:
Að í reynd sé það virt að fullu að fiskimiðin eru sameign íslensku þjóðarinnar
Að réttur sjávarbyggðanna til nýtingar aðliggjandi fiskimiða sé virtur
Að jafnræði og sanngjörn samkeppnisskilyrði ríki í sjávarútvegi, bæði veiðum og vinnslu
Að eðlileg nýliðun sé möguleg þannig að framtak dugmikilla einstaklinga fái notið sín.
Að lög um fiskveiðistjórn tryggi hagkvæma og skynsamlega nýtingu fiskimiðanna.
Frjálslyndi flokkurinn telur að núverandi löggjöf uppfylli ekkert af þessum grundvallarskilyrðum.
Flokkurinn mun því berjast gegn óbreyttri sjávarútvegsstefnu og mæla fyrir sinni gjörbreyttu stefnu af festu og einurð, jafn lengi og þörf krefur, í fullri vissu um að hafa sigur að lokum.
3. Samgöngumál.
Frjálslyndi flokkurinn mun beita sér fyrir þjóðarátaki í samgöngumálum á næsta kjörtímabili. Markmiðið er að góðar samgöngur verði um allt land. Byggð verður að tengja byggð þannig að dregið verði úr mismunun en aukin samstaða og samkennd með þjóðinni.
Frjálslyndi flokkurinn telur það eitt megin verkefni næstu ára að bæta þjóðvegakerfi landsins. Eftir að flutningar á sjó lögðust nánast af, hefur umferðarþungi um vegi landsins margfaldast. Margir vegakaflar á milli landshluta eru nú þannig á sig komnir, vegna aukins þunga og álags, að hættuástand hefur skapast.
Frjálslyndi flokkurinn telur, að ekki verði lengur komist hjá því að tvöfalda helstu akstursleiðir út frá Reykjavík, svo sem Vesturlandsveg og veginn um Hellisheiði.
Frjálslyndi flokkurinn telur, að samþykkja eigi áætlun, til tíu ára, um gerð jarðganga, sem leysi af hólmi erfiða fjallvegi, dragi úr slysahættu og rjúfi einangrun byggðarlaga.
Frjálslyndi flokkurinn telur nauðsynlegt, að auka til muna fjárveitingar til vegamála, t.d. með því að verja hærra hlutfalli af þeim tekjum, sem af umferðinni koma, til varanlegra úrbóta. Með því sparast háar fjárhæðir sem í dag fara í rekstur ófullkominna samgöngumannvirkja.
Frjálslyndi flokkurinn leggur áherslu á að allir landsmenn geti notið háhraðatengingar, á sambærilegu verði, og GSM öryggis hvar sem er í byggð og á þjóðvegum landsins.
Frjálslyndi flokkurinn leggur áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram sá umferðar- og öryggisþáttur sem þjóðin geti treyst á.
Frjálslyndi flokkurinn vill skapa þau skilyrði, með stórbættum samgöngum, að landsmenn geti valið sér búsetu hvar sem er, án þess að það bitni á atvinnumöguleikum eða öryggi um að geta notið nauðsynlegrar þjónustu, sem einungis er í boði á höfuðborgarsvæðinu.
Frjálslyndi flokkurinn telur samgöngumál vera einn veigamesta þáttinn í velferðarmálum þjóðarinnar.
4. Málefni innflytjenda:
Frjálslyndi flokkurinn metur mikils vinnuframlag erlends fólks við uppbyggingarstarf í íslensku samfélagi síðustu misserin.
Margt af þessu fólki mun dvelja hér langdvölum og ber samfélaginu skylda til að veita því stuðning og hjálp til aðlagast íslensku samfélagi, m.a. með íslenskukennslu.
Frjálslyndi flokkurinn telur afar nauðsynlegt að stjórnvöld hafi fullt eftirlit með komu erlends verkafólks inn á vinnumarkaðinn og tryggi að réttur þess sé virtur og aðbúnaður mannsæmandi. Flokkurinn telur að fólk sem hingað kemur eigi að geta notað sína menntun og fagþekkingu á innlendum vinnumarkaði, enda sé fullgildum skírteinum framvísað.
Frjálslyndi flokkurinn mun þó beita sér fyrir að undanþága sú, sem samið var um í EES-samningnum, varðandi innflutning verkafólks frá aðildarlöndum EES, verði nýtt og innflutningur takmarkaður, í samræmi við ákvörðun íslenskra stjórnvalda.
Yfirvöld verða á öllum tímum að hafa stjórn á því hverjir og hvað margir innflytjendur koma til landsins. Jafnframt ber öllum, sem sækja hér um dvalarleyfi, að skuldbinda sig til að hlíta íslenskum lögum og stjórnarskrá.
Frjálslyndi flokkurinn varaði á Alþingi við afleiðingum þess að nýta ekki undanþáguákvæði um frjálst streymi fólks frá nýju aðildarlöndum Evrópusambandsins til landsins. Ríkisstjórnin neitaði að hlusta á þau varnaðarorð sem þingmenn Frjálslynda flokksins höfðu uppi, auk þess sem ríkisstjórnin vanrækti að marka stefnu í málefnum innflytjenda.
Ekkert gerðist í þessum málum fyrr en Frjálslyndi flokkurinn hóf umræður um innflytjendamál sl. haust.
Íslenskt þjóðfélag er að breytast í fjölmenningarþjóðfélag og er afar mikilvægt að nýir borgarar aðlagist samfélaginu og kynnist menningu þjóðarinnar og tungu.
5. Menntamál.
Frjálslyndi flokkurinn telur það vera algjört forgangsverkefni að fólk eigi þess kost að njóta góðrar almennrar menntunar, verk- og háskólamenntunar. Flokkurinn telur að allir verði að eiga á kost á góðri menntun, án tillits til efnahags og búsetu.
Góð menntun er undirstaða nútímasamfélags og forsenda þess að borgararnir geti nýtt sér þau tækifæri sem hún býður.
Frjálslyndi flokkurinn leggst gegn skólagjöldum til 1. prófgráðu í háskóla.
Sérstaklega verði hugað að menntun og sérnámi aldraðra og öryrkja, eftir þörfum hvers og eins.
Frjálslyndi flokkurinn mun beita sér fyrir því að skólamáltíðir í grunnskólum verði ókeypis.
6. Byggðamál.
Frjálslyndi flokkurinn telur að farsælast sé að stuðla að því að Ísland geti að stærstum hluta verið í byggð. Sú byggðaþróun, sem varað hefur allt of lengi, þar sem fjölmörg byggðarlög, sem áður voru blómleg og iðandi af lífi, berjast nú fyrir tilveru sinni, er dapurleg staðreynd, sem stjórnvöld verða að taka afstöðu til.
Ef stefna stjórnvalda er sú að ekki sé ástæða til að reyna að hafa áhrif á þessa þróun, þá ber að viðurkenna það opinberlega í stað þess að beita blekkingum.
Frjálslyndi flokkurinn telur, að lögin um stjórn fiskveiða, kvótakerfið, þar sem hömlur eru lagðar á atvinnuþátttöku fólks vítt og breitt um landið, eigi stærstan þáttinn í þeirri þróun sem orðið hefur í búsetumálum á Íslandi. Breytt stefna í fiskveiðimálum, í anda
Frjálslynda flokksins, ásamt þjóðarátaki í samgöngumálum, geta tryggt framtíð íslenskra byggða og þar með þann menningararf sem nauðsynlegt er að varðveita í þjóðarsálinni.
7. Neytendur og verðlag.
Frjálslyndi flokkurinn sættir sig ekki við að verðlag á nauðsynjum hér sé hærra en annars staðar í okkar heimshluta. Frjálslyndi flokkurinn mun hlutast til um það, komist hann til valda, að verðlag í landinu verði með sambærilegum hætti og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Íslenskum bændum verði frjálst að framleiða og selja afurðir sínar beint til neytenda.
Frjálslyndi flokkurinn berst fyrir að verslun verði frjáls með allar vörur sem leyfðar eru á innlendum markaði.
Efla þarf eftirlitsstofnanir og markaðsgæslu. Komi til þess að ekki verði viðkomið eðlilegri samkeppni og aðstæður skaði almenning, verða opinberir aðilar að grípa inn í til að koma í veg fyrir að okrað verði á borgurunum á grundvelli einokunar eða fákeppni.
Frjálslyndi flokkurinn leggur áherslu á nauðsyn þess að verðtrygging á lánsfé verði afnumin.
Frjálslyndi flokkurinn leggur áherslu á að efnahagsstjórnin og stefnan varðandi gjaldmiðilinn verði með þeim hætti, að hagsmunir lántakenda og lánveitenda séu tryggðir.
Lánsfé á að vera í boði á svipuðum kjörum og í nágrannalöndum okkar.
8. Nýting og vernd náttúruauðlinda.
Frjálslyndi flokkurinn berst fyrir ábyrgri landnýtingu og náttúruvernd. Flokkurinn mun vinna að öflugri landverndar- og varðveislustefnu til að tryggja landvernd og sjálfbæra nýtingu náttúrunnar.
Frjálslyndi flokkurinn telur að atvinnulífið beri samfélagslega ábyrgð á landnýtingu og náttúruvernd. Þessi ábyrgð lítur m.a. að því að varðveita náttúruauðlindir, gæta að sjálfbærri þróun og endurnýtingu auðlinda.
Frjálslyndi flokkurinn mun vinna að mótun grunnreglna um þessi atriði á næsta kjörtímabili.
9. Skattamál.
Frjálslyndi flokkurinn vill auka vald fólksins yfir lífi sínu og starfi. Í dag rennur um helmingur tekna launþega til opinberra aðila, lífeyrissjóða og stéttarfélaga. Virðisaukaskattur og aðrir neysluskattar valda því síðan að fólk hefur til ráðstöfunar innan við 40 kr af hverjum 100 sem það vinnur sér inn.
Skattekjur íslenska ríkisins hafa hækkað meira en skatttekjur annarra ríkja í okkar heimshluta sem hlutfall af þjóðartekjum. Ísland slær met í skattahækkunum allra OECD ríkja. Þetta gerist þrátt fyrir að þjóðartekjur hafi vaxið hratt á Íslandi. Skatttekjur ríkisins sem hlutfall þjóðarframleiðslu eru orðnar allt of háar og svo skefjalaus skattheimta mun leiða til stöðnunar og draga úr hagvexti og velsæld.
Frjálslyndi flokkurinn vekur athygli á því að skattabreytingar ríkisstjórnarinnar hafa undanfarin ár verið þær að draga úr sköttum á fyrirtæki og atvinnulíf. Þrátt fyrir það aukast skatttekjur ríkisins verulega en almenningur í landinu ber þyngri byrðar, bæði hvað varðar tekjuskatta og neysluskatta. Aukin skattbyrði dregur úr framkvæmda- og vinnugleði fólks.
Frjálslyndi flokkurinn telur brýna nauðsyn bera til að skattgreiðendur grípi til öflugra varnaraðgerða með því að efla þann stjórnmálaflokk og stjórnmálamenn sem vilja draga úr ríkisútgjöldum, eyðslu og bruðli. Einstaklingarnir fái að njóta sjálfir sem allra stærsts hluta tekna sinna. Auknar ráðstöfunartekjur eru kjarabót.
Hækka þarf sérstaklega ráðstöfunartekjur láglaunafólks, aldraðra og öryrkja.
Taka verður ríkiskerfið til endurskoðunar á sama tíma og velferðarkerfi þeirra, sem á þurfa að halda, verði varðveitt.
Frjálslyndi flokkurinn vill að tekjutenging fatlaðra og aldraðra verði afnumin strax.
Frjálslyndi flokkurinn vill að öryrkjar og aldraðir geti unnið skattfrjálst, án bótaskerðingar, fyrir allt að einni milljón króna á ári.
Tryggt verði að þegar greiddur er út uppsafnaður lífeyrir, frá lífeyrissjóðum, sé skattstjóra skylt, að tekjudreifa greiðslum þannig að skattaafsláttur einstaklinga nýtist sem best.
10. Utanríkismál.
Stefna Frjálslynda flokksins í utanríkismálum byggist á sjálfstæði þjóðarinnar og friðsamlegri sambúð Íslands við aðrar þjóðir. Flokkurinn leggur áherslu á að Ísland verði herlaust land en varnarviðbúnaður þó til staðar til að tryggja öryggi borgaranna.
Frjálslyndi flokkurinn telur aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, Sameinuðu þjóðunum, NATO og Norðurlandaráði mikilvægustu atriðin í utanríkismálum Íslendinga.
Frjálslyndi flokkurinn telur það hafa verið óafsakanleg mistök Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að skipa okkur í hóp "hinna viljugu þjóða" og taka með því siðferðilega ábyrgð á ólögmætri innrás Bandaríkjanna í Írak.. Brýnt er að Íslendingar taki aftur upp fyrri stefnu í utanríkismálum sem herlaus þjóð. Þess vegna verður að taka Ísland af skrá yfir þjóðir sem lýsa sig viljugar til að styðja innrás í lönd og hernám þjóða.
Frjálslyndi flokkurinn lýsir sig andvígan umsókn Íslands til setu í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna og gagnrýnir þann fjáraustur, sem til þessa hefur verið varið.
Frjálslyndi flokkurinn bendir á óhóflegt bruðl í utanríkisþjónustunni og telur að þar megi spara mikla fjármuni.
Frjálslyndi flokkurinn mun beita sér fyrir grundvallarbreytingu á starfsemi utanríkisráðuneytisins til að draga úr bruðli og óhófi.
11. Lýðræði.
Grundvallaratriði lýðræðis er einstaklingsfrelsi og möguleikar borgaranna til að hafa áhrif á þjóðfélagið og þær ákvarðanir sem teknar eru.
Beint lýðræði og möguleikar til að krefjast almennra kosninga þar sem meirihlutinn ræður er því oft varnarúrræði almennings gegn sérhagsmunum og spillingu.
Frjálslyndi flokkurinn berst fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla um einstök mál skuli fara fram, innan 3 mánaða, krefjist a.m.k. 10% kjósenda þess Frjálslyndi flokkurinn berst gegn flokksræði og takmörkun lýðræðisins en fyrir auknum áhrifum einstaklinga og möguleikum þeirra.
12. Siðvæðing stjórnmálastarfs.
Herða verður reglur sem gilda um stjórnmálamenn og gera þær kröfur að þeir hagi störfum sínum í þágu heildarinnar.
Fjármál stjórnmálaflokka verða að vera opinber.
Gera verður þá kröfu til stjórnmálamanna, sem brjóta gegn eðlilegum siðrænum leikreglum, að þeir segi af sér auk þess sem settar verði reglur um ábyrgð stjórnmálamanna og viðurlög við að fara gegn augljósum hagsmunum almennings.
13. Hert samkeppniseftirlit og öflug löggjöf um fjármálamarkaðinn.
Frjálslyndi flokkurinn mun beita sér fyrir því að Samkeppnislögum verði breytt þannig að búin verði til öruggari umgjörð um samkeppnismál og frjálsa markaðsstarfsemi. Brot seljenda og framleiðenda og óleyfilegt verðsamráð er atlaga að hagsmunum almennings.
Nauðsynlegt er að sú löggjöf sem sett verður sé til þess fallin að koma í veg fyrir samkeppnisbrot m.a. með því að skýr ákvæði verði sett um refsiábyrgð þeirra einstaklinga sem stjórna fyrirtækjum sem fundin verða sek um samkeppnisbrot.
Setja verður skýra og réttláta löggjöf á fjármálamarkaði þannig að virk samkeppni á þeim markaði leiði til sambærilegra lánakjara íslenskra neytenda og einstaklingar í okkar nágrannalöndum njóta.
14. Öryggi borgaranna.
Frjálslyndi flokkurinn mun vinna að því að fólk búi við sem mest öryggi og þess verði gætt að lögregla og dómstólar geti sinnt hlutverki sínu sem best.
Öryggi verður best tryggt með öflugri baráttu gegn þeirri samfélagsógn sem eiturlyfjavandinn er og þeirri glæpastarfsemi sem honum fylgir.
Einnig verður að tryggja öryggi borgaranna gegn utanaðkomandi hættu.
15. Íþrótta- og æskulýðsmál.
Frjálslyndi flokkurinn telur íþrótta- og æskulýðsstarf gegna veigamiklu hlutverki fyrir þjóðina og hafa ótvírætt forvarnargildi. Nauðsynlegt er að auka fjárveitingar til þessa málaflokks.
Frjálslyndi flokkurinn telur mikilvægt að allir eigi jafnan aðgang og aðgengi að íþrótta- og æskulýðsstarfi, óháð efnahag, aldri, líkamlegu og andlegu atgervi og búsetu.
Frjálslyndi flokkurinn telur að styrkir frá vinnuveitendum og stéttarfélögum, vegna heilsu- og líkamsræktar, eigi ekki að vera skattskyldir.
Frjálslyndi flokkurinn telur að ríkisvaldið eigi að koma til móts við íþróttaiðkendur af landsbyggðinni og koma á fót sérstökum ferðasjóði.
Frjálslyndi flokkurinn telur nauðsynlegt að sporna við auknu hreyfingarleysi hjá börnum og ungmennum.
Frjálslyndi flokkurinn leggur á það áherslu að fagaðilar sjái um þjálfun og leiðbeiningar í íþróttastarfi.
Samfylkingin
Jafnaðarmenn hafa lagt grunninn að velferðarsamfélögum Norðurlanda. Þar er jöfnuður meiri en annars staðar og atvinnulífið jafnframt samkeppnishæfast. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld á Íslandi sveigt af þessari leið. Í komandi kosningum verður kosið um það hvort jafnaðarstefnunni verður beitt á ný til að auka lífsgæði á Íslandi.
Jafnvægi og framfarir; efling velferðarkerfisins og ábyrg efnahagsstjórn eru rauði þráðurinn í stefnu Samfylkingarinnar. Samfylkingin vill þjóðarsátt um nýtt jafnvægi í efnahagsmálum og ný vinnubrögð til að tryggja samstillingu efnahagsaðgerða. Efnahags- og umhverfisstefna Samfylkingarinnar slær á þenslu og skapar svigrúm fyrir átak í velferðar- og samgöngumálum.
Samfylkingin mun rétta hlut aldraðra og öryrkja gagnvart almannatryggingum, tryggja aðgengi allra að heilbrigðiskerfinu óháð efnahag og útrýma biðlistum með fjögur hundruð nýjum hjúkrunarrýmum á næstu tveimur árum.
Samfylkingin mun hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun til að sporna gegn fátækt. Einnig aðgerðaáætlun um málefni barna og auka þannig stuðning samfélagsins við börn og barnafjölskyldur, draga úr skerðingum á barnabótum vegna tekna og bæta tannvernd barna með ókeypis eftirliti. Takast þarf á við neyslu ávana- og fíkniefna með áherslu á forvarnir, meðferð og endurhæfingu.
Kynjajafnrétti er ein af grunnstoðum jafnaðarstefnunnar. Samfylkingin lýsir yfir skýrum pólitískum vilja til að útrýma launamun kynjanna, afnema launaleynd, koma á fullu jafnrétti milli karla og kvenna og gera Ísland að fyrirmyndarsamfélagi á sviði jafnréttismála.
Samfylkingin vill stuðla að gjaldfrjálsri menntun frá leikskóla að háskóla. Námsbækur í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðarlausu. Fjölga á nemendum sem ljúka framhaldsskólaprófi og samþætta símenntun menntakerfinu í heild. Breyta skal 30% námslána í styrk og greiða námslán út mánaðarlega.
Samfylkingin vill búa atvinnulífinu hagstætt rekstrarumhverfi þannig að hingað sæki erlend fjárfesting í auknum mæli. Samfylkingin vill hefja áratug hátækninnar með samræmdum aðgerðum í þágu þekkingariðnaðarins og m.a. fjórfalda framlag í Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð á næstu fjórum árum. Samfylkingin vill treysta undirstöður menningarstarfsemi sem mikilvægrar auðlindar í landinu.
Samfylkingin leggur áherslu á að skattar af lífeyrissjóðsgreiðslum verði lækkaðir niður í tíu prósent og frítekjumark fyrir atvinnu- og lífeyristekjur eldri borgara verði 100.000 krónur, stimpilgjöld af lánum vegna húsnæðiskaupa verði afnumin, sem og vörugjöld og tollar af matvælum, virðisaukaskattur af lyfjum verði lækkaður og að tekið verði upp gagnsærra og réttlátara skattkerfi þar sem grænir skattar" fá aukið vægi.
Samfylkingin vill tryggja öllum landsmönnum sambærileg lífskjör óháð búsetu og að þeir eigi greiðan aðgang að menntun, atvinnu og þjónustu. Forsenda þessa er raunhæf byggðastefna sem byggist á stórátaki í samgöngumálum, neti háskólastofnana á landsbyggðinni og auknu athafnafrelsi í landbúnaði. Á næsta kjörtímabili verði 1200 störf óháð staðsetningu á vegum ríkisins auglýst laus til umsóknar.
Samfylkingin vill að frekari stjóriðjuáformum verði slegið á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildaráætlun yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð. Tryggð verði friðun Þjórsárvera, Langasjós, Jökulsár á Fjöllum, Skjálfandafljóts, Jökulánna í Skagafirði, Torfajökulssvæðisins, Kerlingarfjalla, Brennisteinsfjalla og Grændals.
Loftslagsváin er nú helsta sameiginlega úrlausnarefni mannkyns. Samfylkingin vill tímasetta metnaðarfulla áætlun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.
Samfylkingin vill að þjóðareign á sameiginlegum auðlindum verði bundin í stjórnarskrá. Samfylkingin leggur höfuðáherslu á lýðræðismál með auknu íbúalýðræði og réttur almennings til þjóðaratkvæðagreiðslna verði tryggður í stjórnarskrá.
Samfylkingin vill að utanríkisstefna þjóðarinnar verði mótuð í ljósi þjóðarhagsmuna og sé sæmandi sjálfstæðri þjóð. Sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og aðildarviðræður hafnar. Unnið verði að víðtækri samstöðu um samningsmarkmið og niðurstöður bornar um þjóðaratkvæði.
Samfylkingin hefur þá staðföstu skoðun að það eigi að verða eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að taka Ísland út af lista hinna vígfúsu þjóða.
Samfylkingin vill tryggja jafna stöðu útlendinga á vinnumarkaði og koma í veg fyrir félagsleg undirboð.
Samfylkingin stefnir að því að landið verði gert að einu kjördæmi. Samfylkingin vill endurskoða stjórnarráð Íslands, stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti, tryggja faglegar ráðningar í opinber embætti, stuðla að jafnræði kynjanna í ríkisstjórn og í stjórnunarstöðum ráðuneyta og stofnana.
Samfylkingin mun beita sér fyrir því að lögum um eftirlaun æðstu embættismanna verði breytt og meira jafnræði komið á í lífeyrismálum ráðamanna og almennings.
Komandi kosningar eru mjög mikilvægar. Það er þjóðarnauðsyn að bæta fyrir vanrækslusyndir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum. Samfylkingin berst fyrir auknum jöfnuði, jafnvægi í efnahagsmálum og félagslegum framförum. Hinn 12. maí verður kosið um framtíð lands og framtíð þjóðar.
Sjálfstæðisflokkurinn
Framfarir og hagvöxtur komandi ára verði knúin áfram af menntun, vísindum og rannsóknum og að flokkurinn muni á næsta kjörtímabili beita sér fyrir áframhaldandi fjárfestingu í menntakerfi þjóðarinnar. Bæta þurfi stöðu eldri borgara, með því að lækka skerðingarhlutföll úr um 40% í 35%, að tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga verði að fullu afnumin og að ríkið tryggi ákveðna lágmarksframfærslu úr lífeyrissjóðum. Sjálfstæðisflokkurinn vill vinna að auknu jafnrétti kynjanna, m.a. með því að auka möguleika á einkarekstri í opinberri þjónustu og leysa þar með úr læðingi þekkingu og sköpunarkraft kvenna sem starfa fyrir hið opinbera.
Flokkurinn mun halda áfram því mikla uppbyggingarstarfi í samgöngumálum sem staðið hefur yfir síðastliðin kjörtímabil í samræmi við samþykkta samgönguáætlun. Lögð er áhersla á að efnahagsstarfsemin verði í sem bestri sátt við náttúru landsins og að dregið verði jafnt og þétt úr mengun. Leitað verði áfram leiða til að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki.
Menningarmál
Sjálfstæðisflokkurinn lítur svo á að íslensk menning sé samnefnari þess sem landsmenn eru að fást við á hverjum tíma með orðum sínum og athöfnum. Mikilvægt er að menning þjóðarinnar fái að þroskast og dafna á forsendum þjóðfélagsþegnanna en sé ekki stýrt í einhvern tiltekinn farveg af hinu opinbera.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur mikla áherslu á að nýbúum á Íslandi standi til boða góð íslenskukennsla. Aðlögun nýbúa að íslensku samfélagi er líklegri til að ganga hraðar og betur fyrir sig en ella ef þeir ná tökum á íslenskunni.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu að öll ungmenni hér á landi hafi jafnan rétt til að stunda listnám.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að opinber stuðningur við lista- og menningarstarfsemi, eins og aðrar atvinnugreinar, skuli ævinlega vera gegnsær og byggður á traustum áætlunum og hann minnir á að aukin ríkisútgjöld ein og sér tryggja ekki árangur á menningarsviði.
Sjálfstæðisflokkurinn styður gerð menningarsamninga við landshlutasamtök. Landsfundur telur að fjármunum sé best varið í samstarfi við heimamenn.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur mikla áherslu á að styðja listamenn í að kynna sig og koma sér á framfæri á erlendum vettvangi.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að það fjármagn sem veitt er í menningarmál fari í auknu mæli í samkeppnissjóði.
Skóla- og fræðslumál
Undir forystu sjálfstæðismanna hefur átt sér stað bylting í menntamálum Íslendinga. Aldrei hafa eins margir menntað sig eins mikið og nú. Ekkert ríki ver eins háu hlutfalli vergrar landsframleiðslu til menntamála eins og Íslendingar skv. tölum OECD. Frá árinu 2000 hefur fjöldi nemenda í háskólanámi tvöfaldast og tuttugufaldast í meistara- og doktorsnámi.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að Ísland verði fremst í flokki þekkingar- og nýsköpunarsamfélaga. Menntamál eru því efnahagsmál sem varða Íslendinga miklu.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að líta beri á fræðslu og menntun sérhvers einstaklings sem ævilanga vegferð þroska og framfara og mikilvægt er að hver finni sér sinn hraða.
Sjálfstæðisflokkurinn hvetur til áframhaldandi þróunar sem stuðlar að aukinni fjölbreytni, samkeppni og faglegum metnaði. Skólastjórnendur eiga að geta valið um kennara með ólíka menntun og bakgrunn allt eftir áherslum.
Sjálfstæðisflokkurinn fagnar auknu valfrelsi foreldra sem orðið hefur á síðustu árum og áréttar að taka eigi upp þá grundvallarreglu að opinbert fé fylgi barni óháð vali á skóla. Auka má enn frekar fjölbreytni og ólíka kennsluhætti með því að styðja við mismunandi rekstrarform skóla.
Sjálfstæðisflokkurinn hvetur til að sérstök áhersla verði lögð á að efla leikskólastigið í samvinnu við foreldra og kennara, stofnanir og atvinnulífið. Í samræmi við þá grundvallarreglu að fé fylgi barni áréttar landsfundur að engu skipti hvort sá styrkur fari til opinberra aðila, einkaaðila eða til heimilisins sjálfs.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að sjálfstæði framhaldsskóla verði tryggt til að þeim gefist kostur á að bjóða upp á fjölbreyttari námsleiðir og sveigjanlegan námstíma til stúdentsprófs.
Sjálfstæðisflokkurinn fagnar auknu framboði á háskólanámi, fjölgun háskólanema og samkeppni milli háskóla. Sjálfstæðisflokkurinn telur farsælast fyrir háskólastigið að allir háskólar í landinu heyri undir ráðuneyti menntamála.
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að efla enn frekar tækifæri til símenntunar. Einnig þarf að fjölga þeim svo allir landsmenn njóti námstækifæra í heimabyggð.
Sjálfstæðisflokkurinn vill auka vægi listnáms á öllum skólastigum og efla tónmenntakennslu í grunnskólum.
Vísindamál og nýsköpun
Sjálfstæðisflokkurinn vill efla samkeppnissjóði sem styðja rannsóknir, tækniþróun og nýsköpun. Hlutfall þeirra verði fjórðungur af heildarfjárveitingu hins opinbera til málaflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn vill stórefla háskólarannsóknir á vegum ríkis og einkaaðila með auknum framlögum beggja, þannig að hér á landi starfi háskólar í fremstu röð á alþjóðavettvangi á sem flestum sviðum.
Sjálfstæðismenn vilja beina rannsóknastarfsemi ríkisins inn í háskólaumhverfi með flutningi opinberra rannsóknastofnana í vísindagarða og útboði verkefna til háskóla og fyrirtækja og skapa hvata fyrir einkaaðila til að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun.
Sjálfstæðisflokkurinn vill styðja við sprotafyrirtæki með auknu framboði áhættufjármagns frá framtaksfjárfestum og hinu opinbera til að tryggja að næsta kynslóð hátæknifyrirtækja og annarra nýsköpunarfyrirtækja nái að vaxa úr grasi.
Sjálfstæðisflokkurinn telur það forgangsmál að leggja nýjan sæstreng frá Íslandi og hefja rekstur hans.
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja öllum landsmönnum aðgang að öflugu gagnasambandi, góðri fjarskiptaþjónustu og öruggum tengingum við útlönd á samkeppnishæfu verði.
Umhverfis- og auðlindamál
Íslendingar standa framar flestum þjóðum heims í notkun vistvænna orkugjafa með yfir 70% af heildarorkunotkun úr endurnýjanlegum orkulindum. Sjálfstæðismenn vilja stefna að því að hækka þetta hlutfall enn frekar.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að efnahagslegir hvatar verði notaðir í ríkari mæli til að ýta undir almenna notkun vistvænna ökutækja.
Sjálfstæðisflokkurinn vill herða viðurlög við hvers konar umhverfisspjöllum og leggur áherslu á nauðsyn skýrra viðurlagaákvæða í lögum.
Merkir áfangar hafa náðst í náttúruvernd, þar sem hæst ber stofnun stærsta þjóðgarðs í Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarðs. Sjálfstæðismenn vilja halda áfram á sömu braut.
Sjálfstæðisflokkurinn vill stórefla landgræðslu og skógrækt á þeim sem svæðum sem eiga undir högg að sækja vegna gróður- og jarðvegseyðingar.
Sjálfstæðisflokkurinn vill gera verndar- og nýtingaráætlun þar sem annars vegar eru skilgreind og talin upp þau svæði sem eru nýtileg til orkuframleiðslu án umtalsverðra umhverfisáhrifa og hins vegar svæði sem ber að vernda þar sem orkuvinnsla á þeim hefði neikvæð umhverfisáhrif.
Sjálfstæðisflokkurinn vill stefna að því að meginflutningslínur rafmagns og annarra flutningskerfa verði lagðar í jörð, stokka eða sjó eins og kostur er á einstaklega viðkvæmum svæðum vegna sjónmengunar.
Sjálfstæðisflokkurinn vill halda fullveldisrétti íslensku þjóðarinnar yfir náttúruauðlindum óskoruðum. Sjálfstæðisflokkuinn telur að skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda Íslands verði best tryggð með því að nýtingar- og afnotarétturinn sé í höndum einstaklinga.
Sjálfstæðisflokkurinn telur tímabært að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín í útrás orkufyrirtækjanna. Sjálfstæðismenn vilja skoða kosti þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum til einkaaðila.
Sjálfstæðisflokkurinn vill efla rannsóknir á sviði umhverfis- og auðlindamála enda eru öflugar rannsóknir forsenda skynsamlegrar og sjálfbærrar nýtingar á auðlindum lands og sjávar.
Efnahags- og skattamál
Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta einstaklinga enn frekar. Skattalegir hvatar ættu að hvetja einstaklinga og fjölskyldur til sparnaðar en ekki skuldsetningar.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að fella eigi niður almenna tolla og lækka enn frekar vörugjöld á innflutningi en vinna að lækkun tolla á landbúnaðarvörum í samræmi við alþjóðasamþykktir.
Sjálfstæðisflokkurinn vill fella niður stimpilgjöld.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að lækka eigi álögur á bifreiðaeigendur.
Sjálfstæðisflokkurinn vill afnema lágmarksútsvar sveitarfélaga enda ætti sveitarfélögum að vera í sjálfsvald sett að lækka útsvar eftir því sem aðstæður gefa tilefni til hverju sinni.
Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta fyrirtækja og aðlaga skattkerfið þannig að það verði jafngott eða betra en það sem gerist hjá samkeppnisþjóðum okkar.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að halda eigi áfram að einfalda skattkerfið og leggja af skatta og gjöld sem skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Nauðsynlegt er að endurskoða lög um ýmsa smáskatta og gjöld sem hugsanlega áttu rétt á sér áður en eru nú tímaskekkja.
Sjálfstæðisflokkurinn vill afnema skatta af hagnaði fyrirtækja vegna sölu hlutabréfa.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að koma eigi á valfrelsi einstaklinga um vörsluaðila lögbundins lífeyrissparnaðar.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áfram áherslu á að flytja verkefni úr höndum ríkis og sveitarfélaga til einkaaðila til að draga úr umsvifum hins opinbera og auka þar með samkeppni á markaðnum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill breyta starfs- og lagaumhverfi stofnana og fyrirtækja, einkum uppgjörsaðferðum þeirra, sem enn eru í opinberum rekstri til samræmis við umhverfi einkageirans og þannig stuðlað að aukinni hagkvæmni í rekstri þeirra.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að reglum um virðisaukaskatt eigi að breyta þannig að opinberir aðilar fái hann endurgreiddan af allri aðkeyptri þjónustu og eigi þar með auðveldara með að útvista verkefnum.
Sjálfstæðisflokkurinn leggst alfarið gegn þeim hugmyndum sem fram hafa komið um að hækka beri fjármagnstekjuskatt. Slíkt væri tilræði við sparnað í landinu og myndi án efa leiða til flótta fjármagns úr landi, þar sem um kvikan skattstofn er að ræða.
Fjölskyldumál
Sjálfstæðisflokkurinn vill að sem flestum sé gert kleift að búa í eigin húsnæði með það að markmiði að treysta fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga og auka ábyrgð þeirra.
Sjálfstæðisflokkurinn vill jafna samkeppnisstöðu á húsnæðislánamarkaði og skoða þar sérstaklega stöðu Íbúðalánasjóðs og hlutverk hans á almennum lánamarkaði.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að leita eigi allra leiða til að lækka gjöld í byggingariðnaði til þess að auka möguleika fólks til að eignast eigið húsnæði.
Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja áherslu á áframhaldandi fjölgun leiguíbúða og lausna í fjármögnun félagslegra leiguíbúða. Einnig að húsaleigubætur verði almennur kostur á leigumarkaði og að aðgreining milli félagslegs húsnæðis og almenns húsnæðis verði lögð niður.
Sjálfstæðisflokkurinn vill fella niður stimpilgjöld og setja skýrari reglur um uppgreiðslugjöld af húsnæðislánum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill endurskoða vaxtabætur þannig að þær komi þeim helst til góða sem minnstar tekjur hafa.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að forstöðumönnum trúfélaga verði gert heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra.
Sjálfstæðisflokkurinn vill gera stórátak í að jafna óútskýrðan launamun karla og kvenna. Hver og einn launþegi á að ráða því hvort hann veitir þriðja aðila upplýsingar um launakjör sín eða ekki.
Sjálfstæðisflokkurinn stefnir að lengingu fæðingarorlofs. Gæta skal að því að ef aðeins einn aðili er með forsjá geti hann fengið fullt fæðingarorlof.
Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að því að báðir foreldrar beri ávallt sem jafnasta ábyrgð á uppeldi barna, óháð hjúskaparstöðu foreldranna.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að sameiginleg forsjá eigi að verða meginregla frá fæðingu barns án tillits til þess hvort foreldrar búa saman.
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja að öllum börnum standi til boða dagvistunarúræði strax frá lokum fæðingarorlofs foreldra og hvetur sveitarstjórnir til að virkja einkaaðila í þeim efnum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill aukinn hlut kvenna í atvinnusköpun. Ljóst er að eftir því sem fleiri konur ná árangri í atvinnurekstri og verða sýnilegri í stjórnunarstöðum, verður það öðrum konum hvatning.
Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja áherslu á að tekið verði af hörku á heimilisofbeldi með samstilltu átaki lögreglu, ákæruvalds, félags- og heilbrigðisyfirvalda.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að leggja skuli áherslu á að efla stuðning og stoðþjónustu við fjölskyldur fatlaðra barna í þeim tilgangi að gera þeim kleift að annast og ala upp fötluð börn sín.
Samgöngumál
Sjálfstæðisflokkurinn telur að umferðaröryggi eigi að vera leiðandi við framkvæmdir í vegakerfinu sem og við forgangsröðun verkefna.
Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að nýta til hlítar nýja möguleika á fjármögnun samgöngumannvirkja, s.s. gjaldtöku og einkaframkvæmd.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að auka þurfi fjárveitingar til tengivega og setja í forgang framkvæmdir á þeim landsvæðum þar sem enn er ekið á malarvegum og einbreiðum brúm.
Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að unnið verði samfellt að gerð jarðganga um landið með það að markmiði að stytta vegalengdir, rjúfa vetrareinangrun og tryggja öruggar heilsárssamgöngur.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að haldið verði áfram við uppbyggingu ferðamannavega því kröfur aukast um gott og öruggt aðgengi að helstu náttúruperlum landsins.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að skoðaðir verði möguleikar á uppbyggingu hálendisvega.Náttúruvernd skal höfð að leiðarljósi við slíkar framkvæmdir.
Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að fara í brýnar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu s.s. tvöföldun stofnbrauta og gerð stokka og mislægra gatnamóta svo auka megi afkastagetu innan svæðisins, tryggja öryggi vegfarenda sem best, bæta hljóðvist og loftgæði ásamt því að greiða fyrir umferð á helstu leiðum til og frá höfuðborginni.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að skoðaðar verði leiðir til að efla almenningssamgöngur í samstarfi við sveitarfélögin.
Sjálfstæðisflokkurinn bindur vonir við að kaupskipum á íslenskri skipaskrá fjölgi með tilkomu nýrra laga sem tryggja kaupskipaútgerðum svipað skattaumhverfi og þekkist hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að Reykjavíkurflugvöllur eigi áfram að gegna lykilhlutverki sem miðstöð innanlandsflugs. Mikilvægt er að hraða uppbyggingu samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll.
Sjálfstæðisflokkurinn vill halda áfram við að bæta aðstöðu fyrir millilandaflug á Keflavíkurflugvelli og hraða uppbyggingu fyrir millilandaflug á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli.
Sveitarstjórnar- og skipulagsmál
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á efnahagslegan styrk og sjálfsforræði sveitarfélaga svo þeim sé unnt að takast á við stærri hlutverk í opinberri stjórnsýslu. Til þess þurfa tekjustofnar sveitarfélaga að vera áreiðanlegir og í takt við þá tekjuþróun og skattkerfisbreytingar sem hafa átt sér stað í samfélaginu.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að hluti nýrra tekjustofna á borð við fjármagnstekjuskatt og skatta einkahlutafélgaa fari í að styrkja stöðu sveitarfélaga. Lækkun skulda sveitarfélaga er mikið hagsmunamál og mikilvægur liður í því að gera þau hæfari til að takast á við hagstjórn í þjóðfélaginu í samstarfi við ríkið.
Sjálfstæðisflokkurinn vill beita sér fyrir aukinni þátttöku íbúa í ákvarðanatöku um mikilvæg sveitarstjórnarmál án þess að útþynna hlutverk sitt til ábyrgðar sem kjörnir fulltrúar.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að frekari sameining smæstu sveitarfélaga sé skynsamleg leið að því marki að sveitarfélög verði hagkvæmar rekstrareiningar sem staðið geta undir lögbundnu hlutverki sínu.
Sjálfstæðisflokkurinn vill færa fleiri verkefni til sveitarfélaga, t.a.m. málefni fatlaðra og málefni aldraðra.
Sjálfstæðisflokkurinn lítur á frelsi til búsetu sem einn af grundvallarþáttum sjálfstæðisstefnunnar.
Samgöngumál
Sjálfstæðisflokkurinn telur að umferðaröryggi eigi að vera leiðandi við framkvæmdir í vegakerfinu sem og við forgangsröðun verkefna.
Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að nýta til hlítar nýja möguleika á fjármögnun samgöngumannvirkja, s.s. gjaldtöku og einkaframkvæmd.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að auka þurfi fjárveitingar til tengivega og setja í forgang framkvæmdir á þeim landsvæðum þar sem enn er ekið á malarvegum og einbreiðum brúm.
Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að unnið verði samfellt að gerð jarðganga um landið með það að markmiði að stytta vegalengdir, rjúfa vetrareinangrun og tryggja öruggar heilsárssamgöngur.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að haldið verði áfram við uppbyggingu ferðamannavega því kröfur aukast um gott og öruggt aðgengi að helstu náttúruperlum landsins.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að skoðaðir verði möguleikar á uppbyggingu hálendisvega.Náttúruvernd skal höfð að leiðarljósi við slíkar framkvæmdir.
Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að fara í brýnar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu s.s. tvöföldun stofnbrauta og gerð stokka og mislægra gatnamóta svo auka megi afkastagetu innan svæðisins, tryggja öryggi vegfarenda sem best, bæta hljóðvist og loftgæði ásamt því að greiða fyrir umferð á helstu leiðum til og frá höfuðborginni.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að skoðaðar verði leiðir til að efla almenningssamgöngur í samstarfi við sveitarfélögin.
Sjálfstæðisflokkurinn bindur vonir við að kaupskipum á íslenskri skipaskrá fjölgi með tilkomu nýrra laga sem tryggja kaupskipaútgerðum svipað skattaumhverfi og þekkist hjá frændþjóðum okkar á Norðurlöndum.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að Reykjavíkurflugvöllur eigi áfram að gegna lykilhlutverki sem miðstöð innanlandsflugs. Mikilvægt er að hraða uppbyggingu samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll.
Sjálfstæðisflokkurinn vill halda áfram við að bæta aðstöðu fyrir millilandaflug á Keflavíkurflugvelli og hraða uppbyggingu fyrir millilandaflug á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli.
Sveitarstjórnar- og skipulagsmál
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á efnahagslegan styrk og sjálfsforræði sveitarfélaga svo þeim sé unnt að takast á við stærri hlutverk í opinberri stjórnsýslu. Til þess þurfa tekjustofnar sveitarfélaga að vera áreiðanlegir og í takt við þá tekjuþróun og skattkerfisbreytingar sem hafa átt sér stað í samfélaginu.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að hluti nýrra tekjustofna á borð við fjármagnstekjuskatt og skatta einkahlutafélgaa fari í að styrkja stöðu sveitarfélaga. Lækkun skulda sveitarfélaga er mikið hagsmunamál og mikilvægur liður í því að gera þau hæfari til að takast á við hagstjórn í þjóðfélaginu í samstarfi við ríkið.
Sjálfstæðisflokkurinn vill beita sér fyrir aukinni þátttöku íbúa í ákvarðanatöku um mikilvæg sveitarstjórnarmál án þess að útþynna hlutverk sitt til ábyrgðar sem kjörnir fulltrúar.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að frekari sameining smæstu sveitarfélaga sé skynsamleg leið að því marki að sveitarfélög verði hagkvæmar rekstrareiningar sem staðið geta undir lögbundnu hlutverki sínu.
Sjálfstæðisflokkurinn vill færa fleiri verkefni til sveitarfélaga, t.a.m. málefni fatlaðra og málefni aldraðra.
Sjálfstæðisflokkurinn lítur á frelsi til búsetu sem einn af grundvallarþáttum sjálfstæðisstefnunnar.
Utanríkismál
Stefna Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum miðar að því að hagsmuna Íslands sé gætt af festu á alþjóðavettvangi og að Ísland taki virkan þátt í samfélagi þjóðanna með gildi friðar, lýðræðis, mannréttinda og frelsis að leiðarljósi.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að varnir Íslands séu ávallt vel tryggðar. Varnarsamningurinn mun, ásamt aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO), verða áfram hornsteinn hervarna Íslands.
Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að efla samstarf við grannríki okkar, meðal annars innan Evrópusambandsins (ESB), um aðgerðir til að tryggja öryggi siglingaleiða, hamla hryðjuverkum og hindra alþjóðlega glæpastarfsemi. Ennfremur er nauðsynlegt að byggja upp og efla viðeigandi vettvang hér á landi til að afla með markvissum hætti þekkingar og upplýsinga um öryggis- og varnarmál, skilgreina varnarþörf landsins á hverjum tíma, meta varnarkosti og móta varnarstefnu.
Framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2009-2010 er til marks um vilja Íslendinga til að axla ábyrgð í alþjóðlegu samstarfi. Halda skal áfram markvissri kynningu á framboðinu, á grundvelli þeirra áherslna sem markaðar hafa verið, með hóflegum tilkostnaði.
Sjálfstæðisflokkurinn álítur það mikilvægan þátt í utanríkisstefnunni að standa vörð um almenn mannréttindi, stuðla að friði og afvopnun, og berjast gegn fátækt og fáfræði. Með réttu hefur verið mörkuð sú stefna að íslenska friðargæslan einbeiti sér að verkefnum á vegum alþjóðastofnana sem Íslendingar eru aðilar að, á sviðum þar sem reynsla þeirra og þekking nýtist best.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að Íslendingar eigi að stefna að frekari aukningu framlaga til þróunaraðstoðar. Markviss forgangsröðun er mikilvæg til að tryggja að fjármunum sé sem best varið.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að íslensk stjórnvöld vinni áfram ötullega að auknu frelsi í heimsviðskiptum, bæði í þágu íslenskra hagsmuna og velferðar fólks um allan heim, enda er afnám viðskiptahafta eitt brýnasta hagsmunamál fátækra ríkja. Ber því að stuðla að frjálsari aðgangi þróunarríkja að mörkuðum og sanngjörnum viðskiptakjörum. Jafnframt skal stuðla að því að hnattvæðingu viðskipta fylgi siðræn ábyrgð fyrirtækja og neytenda.
Sjálfstæðisflokkurinn telur aðild að ESB ekki þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar eins og málum er háttað. Mikilvægt er að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja.Áfram skal unnið að gerð tvíhliða samninga um fríverslun við önnur ríki og rækt lögð við eflingu ábatasamra viðskiptatengsla um allan heim.
Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um ýtrustu landgrunnsréttindi Íslands á grundvelli hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Brýnt er að sporna við ólöglegum og eftirlitslausum fiskveiðum í höfunum umhverfis landið og efla samstarf við aðrar þjóðir í baráttunni gegn sjóræningjaveiðum.
Réttarfars- og stjórnskipunarmál
Sjálfstæðisflokkurinn telur brýnt að fækka ráðuneytum enda væri hagræðing í efsta lagi stjórnsýslunnar öðrum stofnunum, sem neðar eru, gott fordæmi. Auðvelt væri að fækka ráðuneytum töluvert, t.d. með sameiningu í eitt atvinnuvegaráðuneyti og eitt velferðarráðuneyti. Samhliða endurskoðun ráðuneyta verði farið yfir hlutverk einstakra ríkisstofnana.
Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að stofnað verði millidómstig í sakamálum þar sem öll atriði, þar með talin sönnun, verði endurskoðuð.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á að giftusamlegri sameiningu lögregluembætta í landinu verði fylgt eftir með auknum stuðningi við lögregluna.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi Landhelgisgæslunnar fyrir íslenskt þjóðfélag sérstaklega nú þegar dvöl varnarliðsins er lokið. Mikilvægt er að Landhelgisgæslan hafi á hverjum tíma yfir að ráða nauðsynlegum tækja- og skipakosti til að geta sinnt lögbundu hlutverki sínu. Sjálfstæðisflokkurinn vill að tæki Landhelgisgæslunnar verði staðsett þar sem þeirra er þörf.
Sjálfstæðisflokkurinn telur æskilegt að skoðað verði hvort ekki beri að taka upp reglur um sáttamiðlun í einkamálum.
Sjálfstæðisflokkurinn styður ákvarðanir sem teknar hafa verið um uppbyggingu fangelsa. Á það bæði við um þær ákvarðanir sem nú liggja fyrir um endurbætur á Kvíabryggju og á Akureyri sem og ráðagerðir um byggingu nýs fangelsis.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að þrátt fyrir nauðsyn á öflun, skráningu og vörslu upplýsinga verði að virða friðhelgi einkalífs. Sjálfstæðisflokkurinn vill að opinber birting álagninga- og skattskráa verði lögð af.
Viðskipta- og neytendamál
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja að allt starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja sé áfram í fremstu röð.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að draga eigi enn frekar úr hömlum gagnvart innflutningi. Rétt eins og útflutningur er mikilvægur skiptir frjáls og óhindraður innflutningur miklu máli við að efla samkeppni og bæta hag neytenda og þar með efla hagsæld hér á landi.
Sjálfstæðisflokkurinn vill halda áfram að létta álögum af viðskiptalífi og neytendum, en í næstu skrefum í átt að öflugra og betra viðskiptalífi þarf einnig að felast að ríkið dragi sig alfarið út úr verslunarrekstri, svo og öðrum rekstri þar sem það er í samkeppni við einkaaðila.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að aflétta eigi einkarétti ríkisins á verslun með áfengi. Eðlilegt er að hægt sé að kaupa bjór og léttvín utan sérstakra áfengisverslana, t.d. í matvöruverslunum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka áfengiskaupaaldur í 18 ár.
Sjálfstæðisflokkurinn vill nýta kosti viðskiptalífsins og almennrar markaðsstarfsemi betur á fleiri sviðum, ekki síst á sviði menntamála og heilbrigðismála.
Iðnaðarmál
Sjálfstæðisflokkurinn telur að laga þurfi skekkju í starfsumhverfi iðnfyrirtækja s.s. vörugjöld af ýmsu tagi.
Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að því að opinberar stofnanir og fjármála- og tryggingafyrirtæki sjái sér hag í að úthýsa ákveðnum verkefnum en það mundi ýta undir nýsköpun og þróun í fjölda þekkingarfyrirtækja.
Sjálfstæðisflokkurinn vill færa rannsóknir og þróunarverkefni frá opinberum stofnunum til einkaaðila.
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja að lágmarkskröfur um mengunarvernd séu skilgreindar og stuðla að því að fyrirtæki leggi sitt af mörkum til að draga úr mengun t.d. með mengunarkvótum og lagareglum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja íslenskum fyrirtækjum sem víðastan markaðsaðgang með fríverslunarsamningum og auðvelda þeim að laða til sín sérhæfða starfsmenn og draga úr hindrunum gagnvart því að erlendir sérfræðingar komi hér til starfa og að íslenskir starfsmenn fari til starfa erlendis.
Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja rækt við frumkvöðlahugsun og samkeppnisanda í skólakerfinu og fjölga nemum í iðn- og verknámi.
Sjálfstæðisflokkurinn vill gera eftirlitshlutverk opinberra aðila með iðnaði hagkvæmara og skilvirkara og stefna sérstaklega að því að úthýsa slíkum verkefnum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill sameina ráðuneyti sem hafa með mál atvinnuveganna að gera í eitt atvinnuráðuneyti.
Ferðamál
Sjálfstæðisflokkurinn vill vinna að einföldun rekstrarumhverfis ferðaþjónustunnar. Með markvissum aðgerðum og áherslum er varða rekstrarumhverfið hefur samkeppnishæfi ferðaþjónustufyrirtækja aukist.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að áfram verði stuðlað að verkefnum sem tengjast ímyndarsköpun og almennri landkynningu. Flokkurinn telur að leggja þurfi aukna áherslu á að fjölga gistinóttum á landsbyggðinni utan hefðbundins háannatíma.
Sjálfstæðisflokkurinn vill setja samgöngubætur í forgang enda eru góðar samgöngur ein meginforsenda vaxtar í ferðaþjónustunni.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að áfram verði unnið að umbótum í almenningssamgöngum til eflingar ferðaþjónustu með samgöngum til strjálbýlli landsvæða. Þá verði samgöngur tryggðar með útboðum á flugi, ferjum og rútuleiðum, þar sem einsýnt er að almenningssamgöngur verða ekki reknar á viðskiptalegum forsendum.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á áframhaldandi uppbyggingu menningar- og heilsutengdrar ferðaþjónustu í landinu.
Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að því að ferðaþjónustuaðilar búi við eðlilegt samkeppnisumhverfi innanlands og þurfi ekki að keppa við ríkisstyrkta starfsemi.
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja að ferðamenn eigi jafnan frjálsan aðgang að landinu um leið og þess verði gætt að náttúra landsins spillist ekki. Stefna ber í átt að sjálfbærri þróun í umgengi við náttúru landsins.
Sjálfstæðisflokkurinn vill kanna kosti þess að tekið verði upp gjald við helstu ferðamannastaði til að bæta aðstöðu og koma í veg fyrir átroðning.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að opinber leyfisveiting skuli aðeins vera skilyrði þegar brýna nauðsyn ber til. Í flestum tilvikum dugir aðhald markaðarins til þess að vernda hagsmuni neytenda. Óhóflegar kröfur um opinberar leyfisveitingar í ferðaþjónustu eru samkeppnishamlandi og draga úr nýsköpun.
Landbúnaðarmál
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að stundaður sé fjölbreyttur landbúnaður á grundvelli einkaframtaks og frelsis til athafna.
Sjálfstæðisflokkurinn vill draga fram sameiginlega hagsmuni landshluta, dreifbýlis og þéttbýlis, bænda og neytenda til hagsældar og sáttar í landinu.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á sérstöðu íslensks landbúnaðar, sem felst m.a. í því að framleiða matvæli í ómengaðri náttúru, þar sem gerðar eru ýtrustu kröfur um sjálfbæra og heilbrigða framleiðsluhætti, hollustu og gæðaeftirlit.
Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að áframhaldandi þróun landbúnaðarins, sem byggir á frjálsari viðskiptum, hugviti og framsýni einstaklinga um allt land.
Sjálfstæðisflokkurinn vill skapa þau skilyrði, að landbúnaðurinn geti mætt minnkandi tollvernd og lægri framleiðslustyrkjum til samræmis við alþjóðasamninga.
Sjálfstæðisflokkurinn vill stefna að því að almenn markaðslögmál gildi í landbúnaði.
Sjálfstæðisflokkurinn vill einfalda stjórnsýslu landbúnaðarmála, ekki síst kostnaðarsaman eftirlitsiðnað og létta álögum af greininni. Flokkurinn vill afleggja fóðurtolla strax.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um sjálfstæði bænda á jörðum sínum og leggur því áherslu á að við meðferð þjóðlendumála verði þess gætt í hvívetna að eignarréttur landeigenda og þinglýstar eignarheimildir séu virtar ásamt öllum þeim lögvörðu réttindum sem jörðum fylgja.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að landbúnaðurinn sé rekinn í sátt við náttúruna.
Sjávarútvegsmál
Sjálfstæðisflokkurinn vill að Íslendingar séu virkir þátttakendur á alþjóðavettvangi í aðgerðum gegn mengun hafsins og að sjálfbær nýting auðlinda sjávar verði áfram forgangsmál.
Sjálfstæðisflokkurinn vill grípa til enn frekari aðgerða gegn sjóræningjaveiðum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja að ekki séu gerðar til sjávarútvegs ríkari skyldur um opinber gjöld en annarra atvinnugreina sem nýta auðlindir, ella falli auðlindagjaldið niður.
Sjálfstæðisflokkurinn mun standa vörð um fullveldisrétt íslensku þjóðarinnar yfir náttúruauðlindum lands, lofts og sjávar. Skulu kjörnir fulltrúar fara með þennan rétt í þágu þjóðarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda Íslands verði best tryggð með því að nýtingar- og afnotarétturinn sé í höndum einstaklinga.
Sjálfstæðisflokkurinn vill efla fjölbreyttar rannsóknir á lífríki hafsins. Leitast verði við að taka upp útboð á einstökum þáttum í rekstri Hafrannsóknarstofnunar. Jafnframt er mikilvægt að stuðla að fjölþættri aðkomu að rannsóknum og sjálfstæðri fiskveiðiráðgjöf.
Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja allt kapp á að tryggja að fiskistofnar á Íslandsmiðum nýttir með sjálfbærum og hagkvæmum hætti til hagsbóta fyrir íslensku þjóðina um ókomna tíð.
Sjálfstæðisflokkurinn telur eðlilegt að veiðar sjávarspendýra falli undir sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að festa eigi aflamarkskerfið enn betur í sessi og minnka pólitíska óvissu sem fælir aðila út úr greininni og gerir hana síður samkeppnishæfa um fjármagn.
Sjálfstæðisflokkurinn vill draga markvisst úr kostnaði við opinbert eftirlit með einföldun regluverks, hagræðingu og samræmingu í rekstri stofnana.
Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að auka enn frekar frjálsræði í alþjóðaviðskiptum og draga úr mismunun innan sjávarútvegsins. Flokkurinn vill fella á niður útflutningsálag við beina sölu á ferskum fiski á erlendum fiskmörkuðum og ganga til samninga við ESB um afnám tolla af sjávarafurðum frá Íslandi.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að við ákvörðun um staðsetningu á björgunarþyrlum Landhelgisgæslunnar skuli taka mið af öryggi sjómanna á Íslandsmiðum.
Velferðarmál
Sjálfstæðisflokkurinn vill nýta kosti fjölbreyttra rekstrarforma á sem flestum sviðum og tryggja þannig hagkvæma nýtingu opinbers fjármagns. Flokkurinn vill að heilbrigðisþjónusta sé að mestu greidd úr sameiginlegum sjóðum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill skilgreina lágmarkssjúkratryggingu svo að einstaklingarnir viti hver trygging þeirra er og tryggja að þeir sem njóta þjónustunnar komi að ákvörðunum um áherslur, skipulagningu og framkvæmd hennar.
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja fleiri einstaklingsmiðuðum búsetu- og þjónustutilboðum ásamt því að efla geðheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Auka þarf framboð á heima-, dag- og göngudeildarþjónustu. Brýnt er að börnum með geðræn einkenni standi til boða sérhæfð meðferð og stuðningur í heimabyggð.
Sjálfstæðisflokkurinn vill gera átak vegna þeirra barna sem búa við slæma tannheilsu, svo ná megi markmiðum heilbrigðisáætlunar Alþingis til ársins 2010 og koma Íslandi um leið í hóp þeirra þjóða þar sem tannheilsa barna er best.
Sjálfstæðisflokkurinn vill fella niður virðisaukaskatt á lyfseðilsskyldum lyfjum til samræmis við aðra heilbrigðisþjónustu.
Sjálfstæðisflokkurinn vill staðsetja sjúkra- og björgunarþyrlu á landsbyggðinni og bæta þar með bráðaþjónustu og sjúkraflutninga.
Sjálfstæðisflokkurinn vill fjölga sambýlum, skammtímavistunum og öðrum búsetuúrræðum fyrir fatlaða og samfara því er mikilvægt að auka samþættingu búsetumála við aðra þjónustuþætti, svo sem dagþjónustu, félagslegan stuðning, starfsþjálfun, nám, akstursþjónustu og atvinnuþátttöku.
Sjálfstæðisflokkurinn vill auka styrki til hreyfihamlaðra vegna bifreiðakaupa í samvinnu við landssamtök fatlaðra. Heimilt verði að veita einstaklingi bifreiðakaupastyrk þó að tilnefndur ökumaður hafi ekki sama lögheimili.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að endurskoða eigi almannatryggingakerfið, þannig að það sé skilvirkt, gegnsætt og uppbyggt með þeim hætti að það tryggi hag skjólstæðinga og að upplýsingar um það séu aðgengilegar og ljósar öllum almenningi.
Sjálfstæðisflokkurinn vill bæta upplýsingagjöf Tryggingastofnunar ríkisins til almennings og sjúklinga um rétt þeirra til greiðslna og bóta.
Málefni aldraðra
Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka almennar skerðingar í almannatryggingakerfinu úr tæpum 40% í 35% og að skerðingar vegna lífeyrisgreiðslna verði endurskoðaðar.
Sjálfstæðisflokkurinn vill bæta kjör þeirra ellilífeyrisþega sem verst eru settir fjárhagslega um því að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum að lágmarki 25.000 kr. á mánuði úr lífeyrissjóði til hliðar við greiðslur frá Tryggingarstofnun ríkisins.
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja að eldri borgarar sem vilja og geta tekið virkan þátt í atvinnulífinu með því að tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga verði að fullu afnumin.
Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja að valkostir í búsetu séu fjölbreyttir, við hæfi og standi til boða í heimabyggð.
Sjálfstæðisflokkurinn telur að tryggja þurfi aðgang að endurhæfingu, dagdvöl og hvíldarinnlögnum sem gera einstaklingnum kleift að búa sjálfstætt lengur en ella.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að í boði séu mismunandi þjónustukostir til að mæta einstaklingsbundnum þörfum en í því skyni verði meðal annars leitað samstarfs við sjálfstæða aðila, t.d. hjúkrunarheimili og í heimaþjónustu og heimahjúkrun.
Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja áherslu á einstaklingsmiðaða þjónustu við eldri borgara.
Sjálfstæðisflokkurinn vill breyta núverandi greiðslufyrirkomulagi hvað hjúkrunar- og dvalarheimili varðar þannig að aldraðir einstaklingar haldi sjálfstæði sínu og fjárforræði við flutning á öldrunarstofnun en greiði sanngjarnan hluta af útgjöldum sem annars hefðu til fallið í sjálfstæðri búsetu.
Sjálfstæðisflokkurinn vill opna möguleika á eigin fjármögnun eldri borgara á húsnæði sínu á hjúkrunarheimili.
Sjálfstæðisflokkurinn vill færa þau málefni aldraðra sem hafa verið á hendi ríkisins yfir til sveitarfélaganna og efla heimaþjónustu við aldraða meðal annars með samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu.
Sjálfstæðisflokkurinn vill fjölga öryggis- og þjónustuíbúðum, dagvistunarrýmum fyrir aldraða og hvíldarinnlögnum á hjúkrunarheimilum.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að eftirlifandi maki/sambúðarmaki haldi við fráfall ellilífeyrisþega óskertum lífeyri hins látna í 6 mánuði sem skerðast þá í áföngum og falli niður að 12 mánuðum liðnum.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð
Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill beita sér fyrir róttækum þjóðfélagsumbótum almenningi til hagsbóta, hefja vernd náttúru og umhverfis til vegs á Íslandi og treysta byggð um allt land. Hreyfingin er samstarfsvettvangur og baráttutæki þeirra, sem vilja útrýma kynjamisrétti og tryggja jafnrétti, kvenfrelsi og aukinn jöfnuð í samfélaginu.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill byggja upp lýðræðislegt og réttlátt þjóðskipulag grundvallað á virkri þátttöku almennings. Hreyfingin hafnar alræði markaðshyggjunnar og vill varðveita sjálfstæði þjóðarinnar og forræði yfir eigin auðlindum. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill binda enda á hersetu í landinu og aðild að hernaðarbandalagi, en leggur áherslu á að eiga gott og friðsamlegt samstarf við allar þjóðir, vernda náttúru og umhverfi landsins og tryggja sjálfbæra þróun samfélagsins.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur sígildar áherslur vinstristefnunnar um jöfnuð og félagslegt réttlæti, róttæk umhverfisverndarsjónarmið og kröfur um sjálfbæra þróun eiga og verða að fara saman. Hvorugt fær staðist án hins þegar til framtíðar er litið. Lífskjör og velferð núlifandi kynslóða mega ekki byggja á því að náttúrugæðum sé spillt og gengið á rétt þeirra sem á eftir koma. Á sama hátt felst það í heilsteyptri umhverfisverndarstefnu að skammtímahagsmunir, neysluhyggja og gróðafíkn víki fyrir verndun umhverfis og varðveislu náttúrugæða. Verkefnið er að lyfta gildum raunverulegra lífsgæða, skapa samfélag réttlætis og jafnaðar í góðri sátt við lífríkið allt og móður jörð.
Meginþættir stefnuyfirlýsingarinnar eru þessir:
Náttúra og umhverfi:
Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill vernda íslenska náttúru og auðlindir lands og sjávar. Náttúruauðlindir eiga að vera sameign landsmanna og þær á að nýta í þágu almannahagsmuna án þess að gengið sé á umhverfið. Atvinnuvegir og fyrirtæki þurfa að laga sig að kröfum um sjálfbæra þróun og vistvæn framleiðsluferli. Varðveita þarf hreinleika landsins í almannaþágu til frambúðar svo og til að treysta atvinnulíf og framleiðslu og sölu á hollum neysluvörum. Taka þarf upp græna þjóðhagsreikninga og meta verðmæti ósnortinnar náttúru. Skattkerfið á einnig að hvetja til umhverfisverndar.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð styður sjálfbæra orkustefnu og leggst gegn mengandi stóriðju og stórvirkjunum sem valda mikilli röskun á náttúru landsins. Við viljum vernda hálendi Íslands og stofna þar til stórra þjóðgarða og friðlanda. Við gerum kröfu um víðtækan almannarétt í sátt við landið og fólkið í dreifðum byggðum. Lífríki landsins, landslag og jarðmyndanir þarf að vernda með heildstæðri löggjöf og skipulagi. Við styðjum vistvænar fiskveiðar og vernd uppvaxtarsvæða nytjafiska.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð leggur áherslu á öfluga alþjóðlega samvinnu um umhverfismál og bindandi sáttmála svo að land okkar og jörðin öll verði góður bústaður til frambúðar. Vernd hafsins gegn mengun er úrslitaatriði fyrir Íslendinga. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill stuðla að sem bestri samvinnu við samtök áhugafólks um umhverfisvernd og virkja almenning til þátttöku í að byggja upp vistvænt, sjálfbært samfélag í þágu núlifandi og óborinna kynslóða.
Jafnrétti, félagslegt réttlæti og efling byggðar
Vinstrihreyfingin - grænt framboð grundvallar stefnu sína á jöfnum rétti allra án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, litarháttar og uppruna. Aðstaða allra landsmanna verður að vera sem jöfnust, óháð búsetu og félagslegri stöðu. Við gerum kröfu um fullt jafnrétti til náms og jafnan rétt allra til opinberrar þjónustu, upplýsinga um samfélagsleg málefni og til virks tjáningarfrelsis. Félagslegt húsnæðiskerfi er nauðsynlegur þáttur í því að tryggja velferð landsmanna. Skylt er að tryggja vaxandi hópi aldraðra mannsæmandi kjör og aðstæður til að taka virkan þátt í samfélaginu. Gera verður átak til að stórbæta kjör og allar aðstæður öryrkja. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill auka þátttöku feðra í uppeldi barna sinna. Uppeldi og velferð barna er ábyrgð foreldra og virða þarf rétt barna til að njóta samvista við foreldra sína.
Stöðu landsbyggðarinnar verður að styrkja með róttækum kerfisbreytingum og valddreifingu til að treysta byggð. Afar brýnt er að bregðast við fólksflótta frá landsbyggðinni, fyrst af öllu með því að leiðrétta þá fjárhagslegu mismunun sem landsbyggðarfólk býr við í námskostnaði, húshitun og vöruverði. Fjölbreytt atvinnulíf og öflug menningarstarfsemi ásamt traustri samfélagsþjónustu og góðum skólum er undirstaða lífvænlegrar byggðar. Slíku verður ekki náð fram með einkavæðingu og einkarekstri í undirstöðuþáttum velferðarkerfisins, sem bitnar harðast á dreifðum byggðum. Skilgreina þarf hvaða undirstöðustofnanir samfélagsins eigi að lúta lýðræðislegum yfirráðum almannavaldsins.
Til þess að ná fram þessum markmiðum þarf að setja valdi fjármagns og markaðsafla skorður, tryggja réttláta tekjuskiptingu og lýðræðislega stjórnarhætti. Forgangsverkefni er að 40 stunda vinnuvika dugi til eðlilegrar framfærslu þannig að tryggja megi fulla atvinnu og rjúfa vítahring lágra launa og vinnuþrældóms. Búa verður þannig um hnúta að allt verkafólk sem starfar á Íslandi njóti sömu kjara, hvaðan sem það kemur til að stunda hér vinnu sína.
Kvenfrelsi
Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur að Ísland eigi að vera öflugur málsvari félagslegs réttlætis um allan heim. Hreyfingin vill samfélag þar sem bæði konur og karlar fá notið sín og hafnar því að fólki sé mismunað eftir kyni. Réttlátt samfélag er hagur allra - bæði kvenna og karla. Til þess að fullt formlegt og félagslegt réttlæti náist þurfa karlar að afsala sér forréttindum sem þeir hafa tekið í arf.
Kynjafræði eiga að vera sjálfsagður hluti af skólakerfinu. Forsenda kynjajafnréttis er að uppfræða komandi kynslóðir um ástandið í samfélaginu og hvetja ungt fólk til að lagfæra misréttið.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð telur mikilvægt að laun séu ákvörðuð með tilliti til þess sem leyst er af hendi en ekki því hvort karl eða kona vinnur verkið. Tryggja verður kynjunum jafna möguleika til framfærslu og viðurkenna að samfélagið fær ekki staðist án vinnuframlags kvenna. Öflugt velferðarkerfi er ein af lykilforsendum kvenfrelsis. í slíku velferðarkerfi er ekki gert ráð fyrir ólaunaðri umönnun kvenna heldur er vinnuframlag þeirra innan kerfisins metið til launa.
Líkaminn má aldrei verða söluvara. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill að kynferðislegt sjálfstæði kvenna verði viðurkennt og telur að konur eigi skýlausan rétt til að ráða yfir eigin líkama, þar með talið að taka ákvarðanir um barneignir.
Stjórnvöld eiga að vera skuldbundin til að tryggja konum og börnum öryggi gegn öllu ofbeldi og þeim ber jafnframt að tryggja að kynferðisofbeldi sé meðhöndlað sem lögbrot og karlar kallaðir til ábyrgðar. Kynferðisofbeldi birtist m.a. í naugðunum, sifjaspellum, klámi, vændi, mansali, kynferðisláreitni og líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn konum og börnum inni á heimilum þeirra.
Konur eru fátækasti hluti íbúa jarðar og stríð bitnar ekki síst á þeim og börnum. Brýnt er að veita konum öryggi, sýna þeim samstöðu og taka tillit til kynferðis við alla þróunaraðstoð. Viðurkenna verður mikilvægi kvenna í framþróun þirðja heimsins.
Samfélag og atvinnulíf
Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill efla samfélagsþjónustu og velferðarkerfi og tryggja að fjárhagsleg staða fólks skerði aldrei möguleika þess til að njóta opinberrar þjónustu og félagslegs öryggis. Meginstoðir velferðarkerfisins eiga að heyra beint undir ríki og sveitarfélög. Efla þarf umræðu um siðferðisleg gildi í stjórnmálum og opinberu lífi. Auðvelda þarf aðgang að upplýsingum en jafnframt tryggja persónuvernd sem aldrei má fórna á altari tækniþróunar og viðskipta.
Leggja verður allt kapp á að bæta aðstöðu fjölskyldunnar og auka möguleika fólks með ung börn til samveru. Þannig má treysta bönd fjölskyldunnar, vinna gegn upplausn heimila og sókn ungmenna í fíkniefni. Draga verður úr tekjutengingu og jaðaráhrifum í skattkerfinu og almannatryggingum. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill styrkja stöðu launafólks til að beita samtakamætti sínu í þágu kjara- og réttindabaráttu og til að hafa meiri áhrif á þróun samfélagsins en það hefur nú.Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill beita sér fyrir því að atvinnulífið þróist í átt til aukinnar fjölbreytni og nýti umvherfisvæna tækni. Sérstaka áherslu ber að leggja á stuðning við fjölbreytta nýsköpun, vöxt og viðgang lítilla og meðlastórra fyrirtækja. Atvinnufyrirtæki eiga að greiða eðlilega hlutdeild af hagnaði sínum í sameiginlega sjóði ríkis og sveitarfélaga. Koma verður í veg fyrir óhóflega gróðasöfnun í skjóli einokunar eða fákeppnisaðstöðu einstakra fyrirtækja og skattleggja sérstaklega gróða sem sprettur af nýtingarrétti atvinnurekenda á sameiginlegum auðlindum. Mikilvægt er að hefðbundnir atvinnuvegir, einkum við sjávarsíðuna og í sveitum landsins, þróist í sátt við samfélagið og verði til styrktar byggð í landinu öllu. Nýta ber sérstöðu Íslands og íslenskar auðlindir ásamt tækni og þekkingu til að skapa landsmönnum störf í fjölbreyttu og þróuðu atvinnulífi en varast ber að einblína á allsherjarlausnir og einstaka stóriðjukosti.
Sjálfstæð utanríkisstefna, félagsleg alþjóðahyggja
Vinstrihreyfingin - grænt framboð leggur áherslu á að móta sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu. Ísland á að standa utan hernaðarbandalaga og hafna aukinni vígvæðingu. Íslendingar eru best settir án hers, hvort sem hann er innlendur eða erlendur. Brýnt er að friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorku- sýkla- og efnavopnum og banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Beina verður aukinni athygli að umhverfisöryggi og vernda hafið fyrir úrgangi frá kjarnorkuverum og herstöðvum.
Við viljum efla starfsemi Sameinuðu þjóðanna og styrkja lýðræðislega starfshætti á vettvangi þeirra. Treysta ber stoðir þjóðaréttar í þágu friðar og mannréttinda og stuðla að aukinni þátttöku almennra félagasamtaka í stefnumörkun alþjóðamála. Íslensk stjórvöld eiga að beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um afvopnun og takmarkanir á vígbúnaði. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill efla þátttöku Íslands í stofnunum Sameinuðu þjóðanna þar sem öll ríki eiga aðild, svo og í stofnunum eða samtökum eins og Noðurlandaráði, Evrópuráðinu og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.Ísland á að styðja eindregið markmið Sameinuðu þjóðanna og ákvæði mannréttindayfirlýsingarinnar með því að leggja sitt af mörkum til að útrýma fátækt og hungri, félagslegu ranglæti, misskiptingu auðs, kynþáttamismunun, mannréttindabrotum og hernaðarhyggju. Íslendingar eiga að stórauka framlög sín til þróunarstarfs og leggja fátækum þjóðum lið á alþjóðavettvangi. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill efla samstarf allra þjóða heims á grundvelli jafnréttis og gagnkvæmrar virðingar fyrir ólíkum skoðunum og menningu. Nauðsynlegt er að réttur allra jarðarbúa til að njóta góðs af framförum í heilbrigðisvísindum verði viðurkenndur og virtur.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill tefla félagslegri hnattvæðingu fram gegn hinni kapítalísku hnattvæðingu samtímans og vinna að friðsamlegri sambúð þjóða, fullum mannréttindum, kvenfrelsi, velferð og jöfnuði allra jarðarbúa. Koma verður með sérstakri skattlagningu eða alþjóðlegum reglum í veg fyrir spákaupmennsku með fjármagn heimshorna á milli. Við teljum að öll ríki heims eigi að hafa óskoraðan rétt og tækifæri til að nýta auðlindir sínar á skynsamlegan hátt í því augnamiði að byggja upp velferðasamfélög sem standast kröfur um sjálfbæra þróun. Til þess að svo megi verða þarf að leysa hinar fátækari þjóðir af skuldaklafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, og endurskoða starfsemi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar frá grunni. Leikreglum heimsviðskipta þarf að gerbreyta til að tryggja félagslegt jafnrétti og virðingu fyrir öllu umhverfi.
Samskipti við Evrópusambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópursambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð lýsir stuðningi við hvers kyns friðsamlega baráttu fyrir félagslegu réttlæti án landamæra og jafnframt vilja sínum til að taka þátt í þeirri baráttu hérlendis sem erlendis.
Íslandshreyfingin - lifandi land
vill fjölbreytt, framsækið, skapandi og réttlátt samfélag. Samfélag þar sem frelsi einstaklingsins, samábyrgð, menntun og sjálfbærni tryggja lífsgæði fólksins
leggur áherslu á að friða miðhálendið, stöðva frekari stóriðju og að staðið sé við alþjóðasamninga í umhverfismálum. Landsins gæði eru auðlindir sem þarf að nýta af ábyrgð og framsýni, svo komandi kynslóðir geti einnig notið þeirra
trúir á frumkvæði og hugvit fólksins og telur að ríkidæmi Íslendinga felist í þeirri menningu sem hér er, verkkunnáttu og náttúrugæðum
telur að þjóðin sé tilbúin að gera nýjan sáttmála um umhverfismál, atvinnulíf og velferð þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi
lítur svo á að hin mikla umhverfisbylgja sem fer nú yfir heiminn feli í sér mikla ábyrgð en líka tækifæri
vill að hætt verði að líta á börn, aldraða og öryrkja sem afgangsstærð í samfélaginu
Nóg komið af álbræðslu
Hætta skal við fyrirhugaða uppbyggingu álvera í Helguvík, Húsavík, Straumsvík og Þorlákshöfn. Sú stóriðja sem nú er stefnt að krefst nær allrar virkjanlegrar orku landsins, mikilla náttúrufórna, veldur gríðarlegri mengun og efnahagslegum óstöðugleika, þrengir að annarri atvinnustarfsemi, skerðir möguleika okkar í hátækni og nýsköpun og ýtir undir einhæfni. Þessi stefna er óskynsamleg og mun skaða ímynd lands og þjóðar.
Friðun miðhálendisins
Íslendingar geta lagt mikilvægan skerf til umhverfismála á alþjóðavettvangi með því að vernda landslag sem er einstakt á heimsvísu.
Hvergi í heiminum er jafn stórt safn ólíkra náttúrufyrirbæra á jafn litlu svæði og hér á Íslandi. Miðhálendi Íslands er stærsta óbyggða víðerni Evrópu. Verndun þess varðar ekki bara okkur heldur heiminn allan. Miðhálendið er best nýtt fyrir okkar kynslóð og komandi kynslóðir með útivist, náttúruskoðun og rannsóknum.
Sjálfbær nýting hafsins
Lífríkið í sjónum umhverfis landið er auðlind sem okkur Íslendingum hefur verið trúað fyrir. Fiskimiðin ber að nýta með sjálfbærum hætti án þess að skaða lífríkið. Veiðistjórnun þarf að taka mið af veiðiþoli fiskistofna og ástandi sjávar og sjávarbotns á hverjum tíma. Stórefla þarf rannsóknir í sjávarlíffræði, einnig rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á fiskistofna og aðrar sjávarlífverur.
Umhverfisstefna sem virkar
Íslendingar vilja eiga hreinasta og heilnæmasta land í heimi. Fyrsta skrefið í þá átt er að standa við allþjóðlegar skuldbindingar í umhverfismálum. Jafnframt þarf að móta umhverfisstefnu sem er sjálfbær og nær til allra þátta samfélagsins; samgangna, orkunotkunar, skipulagningar sveitarfélaga og borgar, losunar úrgangsefna og landnýtingar. Stórauka þarf uppgræðslu og stefna að nýtingu afrétta í samræmi við beitarþol þeirra. Gera þarf heildarskipulag yfir skógrækt þannig að hún falli sem best að landslagi og gróðurfari á hverjum stað.
Ísland í fremstu röð frumkvöðla og nýsköpunar
Efnahagsleg velgengni ólíkra svæða í heiminum ræðst nú af frjórri hugsun, frumkvöðlastarfi og nýsköpun. Eitt mikilvægasta verkefni samtímans er að skapa skilyrði fyrir öflugt atvinnulíf sem meðal annars getur nýtt sér auknar kröfur um sérhæfða þjónustu og vaxandi umhverfisvitund í heiminum. Þar getur Ísland skipað sér í fremstu röð.
Breyta þarf sjávarútvegsstefnunni
Handfærabátar,allt að 6 tonn, fái frjálsan aðgang að fiskimiðunum.
Skapa þarf betri grundvöll fyrir vistvænar veiðar sem krefjast minni orkunotkunar og gagnast hinum dreifðu byggðum landins. Bæði verði tekið mið af uppbyggingu í greininni á undanförnum árum og byggðaþróun í landinu.
Ferðaþjónusta í fremstu röð
Ferðaþjónustan er ein af styrkustu stoðum íslensk atvinnulífs en hefur notið lítils skilnings stjórnvalda. Nauðsynlegt er að landnýtingaráætlanir verði gerðar með hagsmuni ferðaþjónustunnar í huga og aðgengi að ferðamannastöðum verði stórbætt.
Skattar hagstæðir atvinnulífi og umhverfi
Skattar eiga vera sem hagstæðir fyrirtækjum og umhverfinu. Einfalda skal regluverk og eftirlitskerfií og lækka kostnað kringum stofnun fyrirtækja og rekstur. Efla þarf upplýsingagjöf til nýrra fyrirtækja.
Skattkerfið hvetji fyrirtæki til að styðja við menntun, listir, menningu og góðgerðastarfsemi.
Umhverfisvitund skapar ný sóknarfæri
Vaxandi umhverfisvitund færir atvinnulífinu sóknarfæri til nýsköpunar og nýrra markaða. Þróun hugbúnaðar og tækja til orkusparnaðar, nýsköpun í landbúnaði og sjávarútvegi og hágæðaferðaþjónusta eru nokkur dæmi um slík tækifæri. Rannsóknir og vísindastarf á sviði orkunýtingar og umhverfismála búa yfir miklum möguleikum vegna sérstöðu landsins.
Eitt atvinnumálaráðuneyti
Mismunun atvinnuvega og sértæk atvinnumálaráðuneyti eru tímaskekkja.
Iðnaðar-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti má sameina í eitt atvinnumálaráðuneyti sem vinnur að því að skapa hagstæð almenn skilyrði fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi.
Skattlagning skal miða að jafnvægi og jafnræði
Einfalda og lækka skal skattlagningu einstaklinga með því að afnema tekjutengingu bóta, með hækkun skattleysismarka og tengingu þeirra við launavísitölu. Þeir fjármagnseigendur sem eru hvorki launamenn eða einkahlutafélög skulu reikna sér launatekjur. Lífeyrisgreiðslur aldraðra og öryrkja skulu vera undanþegnar tekjuskatti.
Húsnæðiskerfi sem hentar öllum
Aðgangur að húsnæði á að vera tryggður öllum án tillits til efnahags. Íbúðalánasjóður skal einbeita sér að lánum til tekjulágra og fjármögnun félagslegra leiguíbúða. Stimpilgjöld verði afnumin.
Auka þarf lífsgæði aldraðra og öryrkja
Auka þarf lífsgæði aldraðra og öryrkja og sníða velferðarkerfið að þörfum þeirra sem þurfa á því að halda. Hækkun grunnlífeyris, afnám tekjutenginga, aukið val um búsetu, atvinna með stuðningi og persónuleg liðveisla eru nokkrir þeirra þátta sem auka lífsgæði, samfélagslega þátttöku og hagkvæmni.
Málefni fatlaðara verði á höndum sveitarfélaga og málaflokknum tryggt fjármagn.
Endurskipulagning velferðar- og heilbrigðiskerfis
Hægt er að einfalda velferðarkerfið og gera það skilvirkara með endurskipulagningu Tryggingastofnunar og endurskoðun laga um almannatryggingar. Skilgreina þarf verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og aðkomu einkaaðila að kerfinu. Æskilegt er að ráðuneyti heilbrigðis- og félagsmála verði sameinuð og nýtt velferðarráðuneyti stofnað. Áhersla verði lögð á að færa þjónustuna í auknum mæli til sveitarfélaga og einkaaðila.
Fjölbreytilegar námsleiðir
Eitt helsta verkefni stjórnvalda er að efla og treysta skólastarf á öllum stigum, tryggja menntun þjóðarinnar og búa í haginn fyrir öflugt vísinda- og rannsóknastarf. Þörf er á fjölbreytilegum námsleiðum fyrir nemendur með ólíka hæfileika til að öðlast verkmenntun og bókþekkingu. Efla skal verknám, listnám, skapandi hugsun, siðræna hugsun og umhverfis- og lýðræðisvitund nemenda strax á unga aldri.
Minnka skal miðstýringu og gera skólum kleift að verða sjálfstæðari bæði hvað varðar námsstefnu og fjármál. Sjálfstæðir skólar skulu njóta jafnræðis við opinbera skóla. Fjármagn fylgi hverjum nemanda frá lögheimilissveitarfélagi samkvæmt grunnskólalögum. Sjálfstæðir skólar á grunnskólastigi skulu ekki innheimta skólagjöld af nemendum sínum.
Mennt er máttur fyrir innflytjendur
Kunnátta í íslensku og helstu þáttum samfélagsins er mikilvæg fyrir nýja þjóðfélagsþegna til að aðlagast og verða virkir þátttakendur á öllu sviðum íslensks samfélags. Efla þarf þennan þátt á öllum skólastigum og bjóða innflytjendum að kostnaðarlausu.
Íslensk menning og náttúra
Efla ber rannsóknir á íslenskri menningu og náttúru. Einnig skal að því stefnt að nýta sérstöðu landsins við þekkingarsköpun og miðla henni til verr settra þjóða, eins og t.d. í sjávarútvegsmálum, orkumálum og jafnréttismálum.
Ein heild, eitt kjördæmi
Landið þarf að vera ein lifandi heild. Skynsamlegast er að líta á það sem eitt atvinnusvæði en þó þannig að landshlutar fái að eflast á eigin forsendum.
Traust og stuðningur við hugvit, frumkvæði, dugnað og menntun fólksins þarf að koma í stað ómarkvissra inngripa. Ekki er ástæða til að gera greinarmun á hagsmunum landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis hvað snertir stjórnskipun, hagsmunirnir fléttast saman og eðlilegt er að landið verði eitt kjördæmi. Við þurfum á hvort öðru að halda.
Efling landsbyggðar forgangsverkefni
Verkkunnátta og staðbundin menningar- og náttúruauðlegð á hverjum stað veitir mikla möguleika. Með því að gera aðstæður hagstæðari fyrir atvinnu- og menningarlíf aukast lífsgæði og staðirnir verða eftirsóknarverðari. Til dæmis mætti gefa fyrirtækjum skattaafslátt fyrir að starfa á landsbyggðinni eins og þekkist í nágrannalöndum okkar. Stórefla þarf samgöngur og auka möguleika til fjölbreyttrar menntunar.
Aukið lýðræði
Aukið lýðræði, skoðanafrelsi og upplýsingagjöf verður fólki sífellt hugleiknara. Þjóðaratkvæði í mikilvægum málum er eðlilegur hluti þessarar þróunar og eins fullt aðgengi almennra borgara að upplýsingum úr stjórnsýslunni. Kanna þarf möguleika til persónukjörs í kosningum. Staðfesta þarf Árósasamkomulagið sem skyldar ríkisvaldið til að jafna aðstöðumun aðila þegar deilt er um framkvæmdir og stefnu.
Jafnrétti í reynd
Það er afar mikilvægt að ná þeim markmiðum á næstu árum að fullt launajafnrétti ríki á milli karla og kvenna í íslensku samfélagi. Þessum markmiðum þarf að ná fram með nýjum áherslum í jafnréttismálum. Afnám launaleyndar, algert launajafnrétti hjá opinberum aðilum og markviss kynjasamþætting í ráðum og nefndum hins opinbera eru nokkrar leiðir til að leysa vandann.
Fjölmenningarsamfélagið auðgar Ísland
Menning innflytjenda er kærkomin viðbót við þjóðmenninguna en ekki ógn. Hingað flytur hugrakkt fólk í leit að nýjum tækifærum, oft með góða menntun frá sínu upprunalandi. Fólk sem hingað flytur þarf að fá möguleika á að njóta sín til jafns við aðra íbúa landsins því að annars fer þjóðfélagið á mis við hæfileika þess og sköpunarmátt. Það verður að gera því kleift að læra íslensku og aðlagast umhverfinu til að hafa möguleika á þáttöku og áhrifum í samfélaginu. Koma verður í veg fyrir að fyrirtæki og einstaklingar misnoti sér erlent vinnuafl og notfæri sér þekkingarleysi erlendra starfsmanna á réttarstöðu sinni á vinnumarkaði.
Alþjóðlegt samstarf
Á tímum alþjóðavæðingar er afar brýnt fyrir smáríki eins og Ísland að vera aðili að alþjóðlegum stofnunum og sáttmálum sem tryggja öryggi, mannrétttindi og umhverfisvernd. Eins er brýnt að ástunda sjálfstæða utanríkisstefnu sem tekur mið af hagsmunum okkar innan Sameinuðu þjóðana, NATO og ÖSE. Athuga skal, á næsta kjörtímabili, hvort að hefja skuli aðildarviðræður við Evrópusambandið í ljósi þess að EES samningurinn úreldist á næstu árum. Skilgreina þarf samningsmarkmið með það í huga að Ísland fái undanþágu, eða langan aðlögunartíma að fiskveiðistefnu ESB.
Skilvirkt, nútímalegt stjórnarráð
Lagt er til að stjórnarráðið verði tekið til endurskoðunar. Kanna skal möguleika á því að samgönguráðuneyti og dóms- og kirkjumálaráðuneyti verði að innanríkisráðuneyti, heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti verði að velferðarráðuneyti og landbúnaðar-, sjávarútvegs-, iðnaðar, og viðskiptaráðuneyti verði að atvinnuvegaráðuneyti.
Undir menntamálaráðuneytið falli allar menntastofnanir ríkisins sem í dag eru undir öðrum ráðuneytum. Umhverfisráðuneytið verði eflt með því að rannsóknarstofnanir s.s. Rannsóknardeild LBHÍ á Keldnaholti og Hafrannsóknarstofnun, verði færðar undir ráðuneytið sem og landgræðsla og skógrækt.
Utanríkisráðuneytið verði endurskipulagt með sparnað og árangur að leiðarljósi og starfsemi ráðuneytisins endurskilgreind í ljósi nýrra tíma og tækifæra.